Hæstiréttur íslands
Mál nr. 251/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Umferðarlagabrot
- Sektarboð
- Endurupptaka
|
|
Miðvikudaginn 5. júní 2002. |
|
Nr. 251/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn Sveinbirni Sveinssyni (enginn) |
Kærumál. Umferðarlagabrot. Sektarboð. Endurupptaka.
S sinnti ekki sektarboði lögreglu samkvæmt 1. mgr. 115. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var málið sent héraðsdómara, sem lauk því með áritun á sektarboðið 28. maí 2001 um fésekt S og vararefsingu. Var sektarboðið birt fyrir S 14. september sama árs. Hinn 6. desember 2001 leitaði faðir S eftir því að málið yrði endurupptekið. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ekkert lægi fyrir um að S hefði veitt föður sínum umboð til þessara gerða. Þá hafi fjögurra vikna frestur til að leita endurupptöku málsins, sem sérstakar leiðbeiningar hafi verið færðar um á árituðu sektarboði til S, verið löngu liðinn leitað var eftir endurupptöku málsins. Var kröfu um að málið yrði tekið upp á ný því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2002, þar sem fallist var á endurupptöku máls sóknaraðila gegn varnaraðila, sem lokið var 28. maí 2001 með áritun héraðsdómara á sektarboð um ákvörðun viðurlaga. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu um endurupptöku málsins.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt lögregluskýrslu 18. ágúst 2000 kom fram á mynd úr eftirlitsmyndavél á mótum Njarðargötu og Hringbrautar í Reykjavík að kl. 16.54 þann dag hafi bifreiðinni NF 760 verið ekið suður fyrrnefndu götuna og inn á þá síðarnefndu á móti rauðu umferðarljósi. Með greiðsluseðli 22. sama mánaðar gaf sóknaraðili nafngreindum manni, sem þá var skráður eigandi bifreiðarinnar, kost á að ljúka málinu með greiðslu sektar að fjárhæð 7.500 krónur. Af því tilefni greindi sá maður sóknaraðila frá því 1. september 2000 að hann hafi selt varnaraðila bifreiðina 15. maí sama árs og lagði fram gögn því til stuðnings. Í framhaldi af því bauð sóknaraðili varnaraðila 7. september 2000 að ljúka málinu með greiðslu sektar eins og að framan greinir. Varnaraðili sinnti ekki þessu boði, en ritaði þó allt að einu undir yfirlýsingu á sektarboðinu um að hann viðurkenndi að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar í umrætt sinn. Sóknaraðili ítrekaði 19. febrúar 2001 boð til varnaraðila um að ljúka málinu með greiðslu sektar, sem þó skyldi vera 10.000 krónur, og var bréf um það birt fyrir móður hans á heimili þeirra 21. sama mánaðar. Virðist þetta ekki hafa leitt til viðbragða af hendi varnaraðila og lagði sóknaraðili 22. maí 2001 síðastgreint sektarboð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til meðferðar samkvæmt 3. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 31/1998. Héraðsdómari lauk málinu með áritun á sektarboðið 28. maí 2001, þar sem viðurlög varnaraðila voru ákveðin 10.000 króna sekt, sem skyldi greidd innan 15 daga frá árituninni, en ella skyldi hann sæta fangelsi í fjóra daga. Neðan við áritunina var eftirfarandi skráð: „Vakin er athygli á að sakborningur getur krafist þess að málið verði tekið upp á ný, enda færi hann fram varnir sem áhrif geta haft á úrslit þess. Kröfu um endurupptöku skal beint til Héraðsdóms Reykjavíkur innan fjögurra vikna frá því að sakborningi varð kunnugt um sektarákvörðun.“ Sektarboðið með þessari áritun og leiðbeiningum var birt fyrir varnaraðila 14. september 2001.
Með tölvupóstsendingu til héraðsdómara 6. desember 2001 leitaði faðir varnaraðila eftir því að málið yrði endurupptekið. Þeirri beiðni til stuðnings færði hann það fram að varnaraðili hafi 18. ágúst 2000 verið staddur á tilgreindum stað utanlands og hafi annar maður þá haft fyrrnefnda bifreið að láni. Varnaraðili hafi á hinn bóginn gengist við brotinu, þar sem hann hafi komist að því á síðari stigum að umræddur maður hafi verið án ökuréttar þegar það var framið. Hefur verið lagður fram í málinu reikningur ferðaskrifstofu á hendur varnaraðila vegna kaupa á ferð, sem átti að standa yfir á tímabilinu frá 15. til 22. ágúst 2000.
Héraðsdómari kynnti þessa beiðni um endurupptöku sóknaraðila, sem krafðist þess að henni yrði hafnað. Með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari sem fyrr segir á að taka málið upp á ný.
II.
Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili fæddur á árinu 1974. Ekki liggur fyrir umboð hans til föður síns til að leita eftir endurupptöku málsins. Sem fyrr segir var beiðni um endurupptöku send héraðsdómara 6. desember 2001. Var þá löngu liðinn fjögurra vikna frestur til að leita endurupptöku samkvæmt 5. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991, sem sérstakar leiðbeiningar voru þó færðar um á árituðu sektarboði til varnaraðila. Að þessu gættu brestur skilyrði til að taka málið upp með stoð í síðastnefndu lagaákvæði og verður kröfu um það því hafnað.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu um að mál sóknaraðila, lögreglustjórans í Reykjavík, á hendur varnaraðila, Sveinbirni Sveinssyni, sem lokið var með áritun Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2001 á sektarboð um ákvörðun viðurlaga, verði tekið upp á ný.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2002.
Sveinn Sveinsbjörnsson vegna Sveinbjörns Sveinssonar, kt. 070574-3069, Grænatúni 6, Kópavogi (Sveinbjörn verður hér eftir nefndur kærði) hefur krafist þess að dómsáritun héraðsdómara frá 28. maí 2001 í málinu S-1241/2001 verði felld niður og málið endurupptekið.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur skilað greinargerð í málinu þar sem þess er krafist að beiðni kærða í málinu verði hafnað.
Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 18. ágúst 2000 var bifreiðinni NF-760 ekið suður Njarðargötu og yfir Hringbraut á móti rauðu ljósi. Brotið var ljósmyndað með Traffipax rauðljósmyndavél. Samkvæmt útprentun úr bifreiðaskrá var eigandi ofangreindrar bifreiðar Glitnir hf. en umráðamaður Ómar Davíðsson, Vesturhúsum 16, Reykjavík. Samkvæmt kaupsamningi og afsali, dags. 15. maí 2000, keypti kærði ofangreinda bifreið af Ómari Davíðssyni sama dag. Þann 7. september 2000 var kærða send tilkynning um að eftirlitsbúnaður hefði ljósmyndað ökutækið NF-760 og ökumanninn þann 18. ágúst 2000 við Njarðargötu og að unnt sé að kæra hann fyrir brot á umferðarlögum. Var honum gefinn kostur á að staðfesta að hann hefði verið ökumaður í umrætt sinn eða upplýsa um hver hafi þá verið ökumaður bifreiðarinnar. Kærði endursendi tilkynninguna með þeim upplýsingum að hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar í umrætt sinn.
Í framhaldi af þessu var kærða sent sektarboð þar sem honum var tilkynnt að kæra hefði borist Lögreglustjóranum í Reykjavík vegna brots á umferðarlögum nr. 50/1987. Var brotið talið varða við 5. gr., sbr. 100. gr. laganna. Í samræmi við heimild í 1. mgr. 115. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 57/1997, var kærða gefinn kostur á að ljúka málinu með greiðslu 10.000 kr. í sekt. Þá var kærða send ítrekun, dags. 19. febrúar 2001, en hún var birt þann 21. febrúar 2001 fyrir móður kærða. Þar var honum enn gefinn kostur á að ljúka málinu án dómsmeðferðar með greiðslu sektar og jafnframt bent á að yrði sektarboðinu ekki sinnt innan 30 daga frá birtingu yrði greiðsluseðill felldur úr gildi og málið sent héraðsdómara til ákvörðunar sektar og vararefsingar.
Þegar sektin greiddist ekki eftir ítrekunina var málið sent Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem því lauk með áritun dómara, um 10.000 kr. sekt og 4 daga fangelsi sem vararefsingu, þann 28. maí 2001.
Af hálfu kærða er krafa um niðurfellingu áritunar héraðsdómara og endurupptöku málsins byggð á því, að kærði hafi verið erlendis er brotið átti sér stað. Var lögð fram bókun dags. 5. desember 2001 því til stuðnings. Kærði hafi lánað vini sínum bílinn en hann hafi verið próflaus þegar brotið var framið og hafi því kærði tekið á sig brotið til að bjarga honum.
Í greinargerð Lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að eins og sjáist af meðfylgjandi afriti áritaðs sektarboðs hafi það verið birt fyrri kærða þann 14. september 2001 en beiðni um endurupptöku sé dagsett 6. desember 2001. Samkvæmt því sé beiðni um endurupptöku máls ekki komin fram innan þess frests sem greini í 5. mgr. 115. gr. a laga nr. 19, 1991. Af þeirri ástæðu verði að telja rétt að beiðni um endurupptöku verði hafnað. Af réttarfarslegum ástæðum verði þó að fjalla efnislega um þau rök sem færð séu fram í beiðni kærða um endurupptöku.
Meðal gagna málsins sé tilkynning lögreglustjórans í Reykjavík til kærða sem skráðs eiganda/umráðamanns ökutækisins NF-760 um að eftirlitsbúnaður hafi ljósmyndað ökutækið og ökumann við akstur gegn rauðu ljósi, en tilkynningu þessa hafi kærði undirritað um viðurkenningu sína á að hafa verið ökumaður í umrætt sinn. Í beiðni um endurupptöku komi fram að kærði hafi tekið á sig sök fyrir vin sinn sem hafi verið sviptur ökuréttindum er brotið hafi verið framið. Ekki sé gefið upp hver sá maður hafi verið, en fyrir liggi upplýsingar frá ferðaskrifstofu sem virðist geta stutt það að kærði hafi ekki verið staddur á landinu þann 18. ágúst þegar umrætt brot hafi verið framið. Í ljósi framangreindra upplýsinga telji embættið ekki útilokað að kærði hafi fært fram varnir sem gætu hafa haft áhrif á úrslit málsins.
Með vísan til framanritaðs og gagna málsins sé þess krafist að beiðni kærða um endurupptöku máls S-1241/2001 verði hafnað.
Niðurstaða:
Samkvæmt 115. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 31/1998, getur sakborningur krafist þess að mál, sem lokið hefur verið með ákvörðun viðurlaga samkvæmt 3. mgr. 115. gr. a, verði tekið upp á ný, enda færi hann þá fram varnir sem gætu hafa haft áhrif á úrslit þess. Kröfu um endurupptöku skal beina til þess dómstóls, þar sem máli var lokið, innan fjögurra vikna frá því að sakborningi varð kunnugt um sektarákvörðun.
Samkvæmt framlögðum gögnum virðist líklegt að kærði hafi verið staddur á Spáni þegar meint umferðarlagabrot hans átti sér stað. Með því verður að telja að kærði hafi fært fram varnir sem gætu hafa haft áhrif á úrslit málsins. Áritun áðurnefnds sektarboðs var birt kærða 14. september 2001. Endurupptökubeiðni kærða barst dóminum 6. desember 2001. Beiðnin barst því eftir að fjögurra vikna frestur samkvæmt 3. mgr. 115. gr. a. var liðinn. Í greinargerð með frumvarpi um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála sem varð að lögum nr. 31/1998 segir að gert sé ráð fyrir rúmri heimild sakbornings til að fá mál endurupptekið þannig að slíkri kröfu verði ekki hafnað nema varnir séu með öllu haldlausar. Í máli þessu verður, eins og áður sagði, að telja að kærði hafi fært fram varnir sem gætu hafa haft áhrif á úrslit málsins. Því verður að telja að hagsmunir kærða af því að fá málið endurupptekið vegi hér þyngra en hagsmunir ákæruvaldsins af því að láta áritun sektarboðsins standa. Með vísan til ofangreinds verður fallist á kröfu kærða um niðurfellingu dómsáritunar héraðsdómara og endurupptöku málsins S- 1241/2001.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Fallist er á kröfu Sveins Sveinbjörnssonar vegna kærða Sveinbjörns Sveinssonar um að felld verði niður dómsáritun héraðsdómara frá 28. maí 2001 í málinu S-1241/2001 og málið endurupptekið.