Hæstiréttur íslands

Mál nr. 76/2013


Lykilorð

  • Ölvunarakstur


                                     

Fimmtudaginn 12. september 2013.

Nr. 76/2013.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Ölvunarakstur.

X var gefinn að sök ölvunarakstur en fyrir lá að X hafði keyrt bifreið sína tiltekna leið og á ljósastaur. Lögregla hafði ekki uppi á X á vettvangi heldur á heimili hans um 25 mínútum eftir að tilkynnt var um áreksturinn. Áfengi mældist í blóði og þvagi X en hann bar að hann hefði drukkið áfengi eftir að áreksturinn varð. Við rannsókn lögreglu hafði ekki verið leitast við að upplýsa hvenær akstur X hafði átt sér stað og var ekki talið að færð hefðu verið fram gögn eða framburður vitna sem hrakið gætu framburð X. Var X því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. janúar 2013 af hálfu ákæruvaldsins og krefst að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar auk sviptingar ökuréttar.

Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 7. janúar 2013.

                Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember 2012, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Eskifirði, útgefinni 29. mars sama ár, á hendur X, kt. [...], [...], „fyrir umferðarlagabrot á [...], með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 18. nóvember 2011, undir áhrifum áfengis, ekið bifreiðinni [...], frá [...], stutta vegalengd austur [...], þar sem bifreiðinni var ekið á ljósastaur hægra megin vegar, við hús nr. [...] og þar stöðvaðist bifreiðin, stórskemmd. Vínandamagn í blóði kærða mældist 1,6‰.“

                Í ákæruskjali er brot ákærða talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. , sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. sömu laga. Það athugist að í ákæruskjali virðist föðurnafn ákærða hafa misritast.

                Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af ákæru, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun og útlagður kostnaður skipaðs verjanda ákærða, verði greiddur úr ríkissjóði.          

I

                Samkvæmt frumskýrslu lögreglustjórans á Eskifirði, dags. 1. desember 2011, barst lögreglunni á Eskifirði aðfaranótt 18. nóvember s.á. tilkynning í gegnum Fjarskiptamiðstöð lögreglu kl. 3:11 um að bifreið hefði verið ekið á ljósastaur við vegamót [...] og [...] á [...]. Fram hafi komið að ökumaður væri farinn af vettvangi, en ljós væru á bifreiðinni og lyklar í kveikjulás hennar. Á vettvangi hafi lögreglumaður hitt fyrir vitnið A, sem í fyrstu hafi ekki virst reiðubúin til að segja frá því sem gerst hafi, en síðan upplýst að tveir hefðu verið í bifreiðinni, ákærði og B. Hafi vitnið sagt unnusta sinn hafa farið á eftir þeim til að huga að þeim eftir óhappið. Fleira fólk hafi drifið þar að sem allt hafi verið í samkvæmi á heimili vitnisins og unnusta hennar skammt frá vettvangi.

                Lögregla hafi knúð dyra á heimili ákærða og B og rætt þar við föður B og ákærða, en B hafi ekki verið þar. Ákærði hafi verið handtekinn kl. 3:35 og færður á lögreglustöð, þar sem hann hafi látið í té þvagsýni kl. 3:44 og aftur kl. 4:31. Þá hafi honum verið dregið blóð kl. 4:28 og öðru sinni kl. 5:04.

                Kl. 3:56 hafi faðir B haft símasamband og sagt hana vera komna heim. Hafi hún verið handtekin í þágu rannsóknar málsins á heimili sínu kl. 04:05 og færð á lögreglustöð. Að loknum skýrslutökum og sýnatökum hafi þau bæði verið látin laus.

                Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að bifreiðinni hafi verið ekið til austurs um [...] frá [...], þar sem bifreiðastæði séu fyrir húsið þar sem samkvæmið hafi verið haldið. Ekki séu nema tæpir hundrað metrar frá [...] að þeim stað þar sem óhappið hafi átt sér stað svo ljóst sé að vél bifreiðarinnar hafi verið gefið mikið inn. Bifreiðinni hafi verið ekið upp á gangstétt og þar utan í vegvísa og m.a. farið yfir einn þeirra áður en hún hafi hafnað á ljósastaur. Bifreiðin hafi síðan stöðvast á plani framan við [...] nr [...]. Vegna bleytu á vegi hafi ekki verið hægt að sjá spólför í götunni en að sögn B hafi bifreiðin runnið til á götunni áður en hún hafnaði uppi á gangstétt. Mæld vegalengd frá [...] og að þeim stað þar sem bifreiðin stöðvaðist sé 62 metrar, en fjarlægðin frá [...] og að vegvísunum sem bifreiðinni hafi fyrst verið ekið á sé ekki nema 50 metrar.

                Í málinu liggja fyrir ljósmyndir lögreglu af vettvangi og loftmynd sem sýnir ætlaða akstursleið bifreiðarinnar. Þá liggja fyrir vottorð um töku framangreindra blóð- og þvagsýna og beiðni lögreglu til Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 20. nóvember 2011, þar sem óskað er eftir rannsókn á umræddum sýnum. Í beiðninni segir m.a.: „Kærði var handtekinn á heimili sínu kl. 03:35. Þá voru liðnar að minnsta kosti 30 - 45 mínútur frá því að kærði ók bifreið. Rannsókn lögreglu miðast að því að fá vitneskju um það hvort ökumaður var ölvaður og þá hversu ölvaður hann var á tímabilinu 02:45 til 03:10 fyrir handtöku. Ekki er vitað hvort kærði hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk en það er þó talið ólíklegt.“ Í beiðninni er getið um tímasetningar á blóð- og þvagsýnatökum og kemur þar m.a. fram að síðara þvagsýnið hafi verið tekið kl. 4:38, en ekki kl. 4:31 eins og greinir á vottorði um þvagsýnatökuna.

                Matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði er dagsett 28. nóvember 2011. Þar kemur fram að í fyrra blóðsýninu sem tekið hafi verið úr ákærða kl. 4:28 hafi etanólstyrkur mælst 1,35‰ og 1,24‰ í hinu síðara sem tekið hafi verið kl. 5:04 (endanlegar niðurstöður 1,21‰ og 1,12‰). Etanólstyrkur í fyrra þvagsýninu, sem tekið hafi verið kl. 3:44 hafi mælst 2,02‰ og 1,65‰ í hinu síðara sem tekið hafi verið kl. 4:38 (endanlegar niðurstöður 1,87‰ og 1,50‰).

                Í matsgerðinni er farið almennum orðum um frásog og útskilnað etanóls í mannslíkamanum. Segir þar m.a. að útskilnaður etanóls úr blóði í þvag hefjist strax og frásog etanóls í blóð hefjist úr meltingarvegi. Þetta gerist hægt í byrjun en etanólstyrkur þvagsins aukist svo jafnt og þétt. Þegar etanól í þvagi sé lægra en í blóði, bendi það til þess að viðkomandi hafi nýlega hætt neyslu áfengis og jafnvægi milli þvags og blóðs hafi ekki verið náð. Þegar neyslu etanóls sé hætt líði nokkur tími þar til allt það etanól sem kunni að vera í maga og þörmum hafi náð að frásogast. Venjulega sé gert ráð fyrir að því ljúki að mestu innan 1-2 klukkustunda, eftir magni þess áfengis sem drukkið sé. Þegar jafnvægi milli etanóls í blóði og þvagi sé náð megi búast við að styrkur þess í þvagi sé um 20-30% hærri en í blóði. Þá fari styrkur etanóls í blóði að falla, en hann falli með nokkuð jöfnum hraða (brotthvarfshraði) sem sé einstaklingsbundinn og geti verið 0,12‰ til 0,25‰ á klst. Hátt hlutfall milli etanólstyrks í þvagi og blóði bendi til að talsverður tími sé frá því að viðkomandi losaði þvag síðast og einnig sé það sterk vísbending að etanól í blóði hafi verið fallandi á þeim tíma sem sýnin voru tekin. Lágt hlutfall bendi hins vegar til að drykkju hafi nýlega verið hætt og frásogi ekki lokið. Þegar jafnvægi sé milli þvags og blóðs sé hlutfallið nálægt 1,2 til 1,3.

                Í matsgerðinni segir að spurt sé um ölvunarástand viðkomandi einstaklings milli kl. 02:45 og 03:10. Í niðurlagi hennar segir orðrétt: „Þegar litið er á niðurstöður hér að ofan, sýna þær að etanólstyrkur í blóði viðkomandi hefur náð hámarki. Hlutfall milli þvags og blóðs er 1,4 til 1,5, þ.e. jafnvægi hefur náðst fyrir kl. 03:44. Etanólstyrkur í þvagsýni 61806, þ.e. 2,02‰, segir til um meðalstyrk etanóls í blóðinu einhvern tíma á undan. Sambærilegur etanólstyrkur í blóðinu hefur því verið að minnsta kosti um 1,6‰ fyrir kl. 03:44 (sambærilegur styrkur í blóði er 20 til 25% lægri en í þvagi vegna þess að þvag er að mestu leyti vatn). Brotthvarfshraði etanóls úr blóði viðkomandi er 0,18‰ ((1,35‰ - 1,24‰)*60/36). Ef reiknað er til baka með brotthvarfshraðanum (0,18‰/klst), þá hefur etanólstyrkur verið 1,6‰ um kl. 03. Samkvæmt framansögðu hefur etanólstyrkur í blóði kærða verið 1,6‰ til 1,7‰ milli kl. 02:45 og 03:10. Kærði hefur því verið ölvaður þegar hinn meinti ölvunarakstur átti sér stað.“

II

                Hér verður rakið eftir þörfum úr framburði ákærða og vitna fyrir dómi og vikið að framburðum þeirra hjá lögreglu eftir því sem tilefni er til. 

                Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa drukkið tvo til þrjá 33 cl. bjóra á vínveitingastað, en eftir lokun þar eða um kl. 1:30 umrædda nótt hafi verið farið í gleðskap í heimahúsi. Kvaðst hann hafa ekið þangað og ekki fundið fyrir áfengisáhrifum við aksturinn. Hann hafi haft meðferðis tvær bjórflöskur og gefið aðra þeirra nafngreindum manni í samkvæminu. Sú flaska hafi brotnað og hann þá gefið manninum hinn bjórinn, ákveðið að hætta áfengisneyslu og aka heim. Það hafi hann gert síðar um nóttina, ásamt þáverandi unnustu sinni, B, en þau hafi verið búin að rífast þarna um nóttina. Ákærði kvaðst hafa gefið bifreiðinni í botn í beygju þegar þau voru nýlögð af stað og fundist bensíngjöfin festast inni, þótt hann sleppti henni. Um kraftmikla bifreið hafi verið að ræða sem keypt hafi verið fáeinum dögum fyrr. Ákærði hafi misst stjórn á bifreiðinni, sem endað hafi á ljósastaur. B hafi rokið aftur í samkvæmið til vina sinna, en ákærði kvaðst hafa hlaupið heim til þeirra, þar sem hann hafi drukkið töluvert af óblönduðu viskýi og rætt við föður sinn í síma. Sagðist hann ekki hafa átt von á heimsókn frá lögreglu fyrr en morguninn eftir. Ákærði kvaðst ekki vita hvað klukkan var þegar hann ók bifreiðinni en örugglega hafa verið heima hjá sér í „einhvern klukkutíma“ þegar hann hafi heyrt bankað, og talið þar kunningja sína á ferð. Tengdafaðir hans hafi opnað og þá hafi þetta reynst vera lögreglumaður, sem fylgt hafi honum á lögreglustöð.  

                Aðspurður hvort hann hafi sagt lögreglu frá því að hann hafi drukkið eftir að akstri lauk sagðist ákærði telja sig hafa gert það.

                Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu umrædda nótt, 18. nóvember 2011, sem hófst kl. 5:10 og lauk kl. 5:15. Í skýrslu lögreglu um þá skýrslugjöf kemur fram að hún hafi verið hljóðrituð, en sú hljóðritun hefur ekki verið lögð fram í málinu. Í skýrslunni er hins vegar að finna samantekt lögreglumanns á framburði ákærða og er þar tekið fram að ekki sé um orðrétt endurrit að ræða heldur einungis það sem skýrsluritari taldi skipta máli. Orðrétt er samantektin svohljóðandi:

                „X sagðist hafa keyrt bílinn en það hefði hann gert af því að hann hefði verið að rífast við kærustu sína. X sagðist hafa verið á pubquiz fyrr um kvöldið og drukkið þar nokkra bjóra. X sagði að unnusta sín B hefði ekki verið með sér í bifreiðinni. Hún hefði einungis komið á lögreglustöð til að hitta sig.“

                B kvaðst fyrir dómi hafa verið unnusta ákærða á umræddum tíma. Þau hafi farið á „pub-quiz“ á bar og þaðan í gleðskap í heimahúsi. Þau hafi verið ósátt umrædda nótt. Bæði hafi þau drukkið á barnum, en hún kvaðst ekki muna hvað ákærði hafi drukkið. Hún kvaðst sjálf hafa verið mjög drukkin og ekki geta sagt til um ástand ákærða. Hún hafi verið „hálfdauð“ í sæti bifreiðarinnar er ákærði ók af stað, en muna betur eftir atvikum eftir áreksturinn. Hún hafi verið ákærða afar reið og hlaupið úr bifreiðinni til baka í gleðskapinn. Hún hafi verið búin að banna honum að aka, enda hafi hann drukkið áfengi fyrr um kvöldið. Hún kvaðst telja að ákærði hafi haldið heim til þeirra. Er hún sjálf kom heim hafi flaska af viskýi, sem geymd hafi verið í skáp í stofunni, ekki verið á sínum stað heldur ofan á skápnum. Ákærði hafi síðar sagt henni að hann hafi drukkið úr flöskunni eftir að akstrinum lauk.

                B gaf skýrslu hjá lögreglu umrædda nótt, 18. nóvember 2011, sem hófst kl. 5:24 og lauk kl. 5:34. Fram kemur að skýrslutakan hafi verið hljóðrituð, en sú hljóðritun liggur ekki fyrir dóminum. Í samantekt lögreglu á framburði hennar segir að ekki sé um orðrétt endurrit að ræða heldur einungis það sem skýrsluritari hafi talið þurfa að koma fram. Framburður hennar fyrir dómi er í samræmi við það sem fram kemur í samantekt lögreglu þótt framburður hennar fyrir dómi hafi verið ítarlegri, en í megindráttum kom ekki annað fram í framburði hennar hjá lögreglu en að ákærði hafi ekið bifreiðinni þegar óhappið varð og að þau hafi verið ósátt þetta kvöld.

                C kvaðst fyrir dómi hafa hitt ákærða og þáverandi unnustu hans í samkvæminu. Vín hafi verið á flestum gestanna, að henni sjálfri meðtaldri, en hún kvaðst þó muna nokkuð vel eftir atvikum. Henni hafi virst ákærði vera drukkinn og hann hafi verið að drekka „allavega bjór“. Fólk hafi komið með sitt áfengi í gleðskapinn. Þau ákærði hafi drukkið úr sama bjórílátinu og hún hafi séð hann bæði halda á bjórnum og taka sopa, þótt hún hafi ekki fylgst með því hve mikið hann drakk. Aðspurð kvaðst hún ekki muna hvort um dós eða flösku var að ræða, en telja sig hafa drukkið meira af bjórnum en ákærði. Aðspurð hvernig hún hafi merkt það að ákærði væri drukkinn sagði hún hann hafa „ráfað“ um.

                Vitnið kvaðst hafa verið að reykja utan við húsið, ásamt þeim ákærða og B, áður en þau síðarnefndu lögðu af stað á bifreiðinni, en það hafi verið um einni til einni og hálfri klukkustundu eftir að hún kom í samkvæmið. Hún hafi beðið ákærða vinsamlegast um að fara ekki að aka bifreiðinni, en ákærði hafi fyrst bakkað bifreiðinni og síðan tekið „handbremsubeygju“ út á aðalgötuna þar sem aksturinn hafi nánast strax endað með árekstri við vegskilti. Vitnið kvaðst ekki hafa farið að slysstaðnum og ekki séð þau koma út úr bifreiðinni, en B hafi komið til baka að húsinu. Vitnið kvaðst aðspurð ekki hafa verið sú sem tilkynnti um atburðinn til lögreglu og ekki vita hver hafi gert það. Hún hafi séð út um eldhúsglugga hússins þegar lögreglan kom á vettvang og farið þá út og rætt við lögreglumanninn. Kvaðst hún ekki gera sér grein fyrir hve löngu síðar lögreglan kom en telja það e.t.v. hafa verið um 15 mínútum eftir óhappið. Hún staðfesti að sá nafngreindi maður sem ákærði bar um að hafa gefið bjór hafi verið í samkvæminu.

                C gaf skýrslu hjá lögreglu 22. nóvember 2011 og liggur fyrir samantekt lögreglumanns á framburði hennar, sem samræmist því sem fram kom í framburði hennar fyrir dómi, enda þótt framburður hennar hafi um sumt verið ítarlegri fyrir dómi en um annað hjá lögreglu.

                A kvaðst fyrir dómi hafa ásamt unnusta sínum haldið samkvæmi umrætt sinn fyrir um 9 til 10 gesti, ákærða og þáverandi unnustu hans þar á meðal. Áður hafi þau verið á „pub-quiz“, en vitnið kvaðst ekki hafa byrjað að drekka áfengi fyrr en í samkvæmið var komið. Hún kvað gesti sjálfa hafa haft áfengi með sér, en hún hafi átt bjór sem hún hafi gefið fólki af það vantaði áfengi. Hún kvaðst ekki muna hvort hún hafi gefið ákærða bjór og ekki muna hvað aðrir, þar á meðal ákærði, hafi verið að drekka í samkvæminu. Vitnið fullyrti að hún hafi séð ákærða drekka áfengi, en gat ekki gefið nánari lýsingu á því. Sjálf kvaðst hún hafa verið „miðlungsölvuð“ en muna í grófum dráttum eftir kvöldinu. B hafi verið svipað mikið ölvuð en ákærði hafi virkað meira ölvaður. Nánar aðspurð hvernig hún merkti ölvunarástand hans kvað hún hann ekki hafa verið alveg með „fullu viti“. Aðspurð hvað hafi verið til marks um það nefndi vitnið að það sæist af því að ákærði hafi sest inn í bifreið og ekið henni af stað, þrátt fyrir að hafa neytt áfengis. Nánar aðspurð kvaðst hún hafa merkt það af hátterni ákærða að hann væri ölvaður, en hann hafi verið „æstur af gleði“ og göngulag hans auk þess gefið það til kynna, án þess að vitnið lýsti því frekar.

                Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða aka af stað en heyrt það og heyrt skellinn við áreksturinn. Hún hafi þá hlaupið út og séð ákærða fara út úr bifreiðinni. Unnusta ákærða hafi komið hlaupandi til baka, hágrátandi. Þá hafi unnusti vitnisins hlaupið til ákærða, ásamt öðrum manni og reynt að koma í veg fyrir að hann hlypi í burtu. Vitnið kvaðst telja að það hafi verið C sem hringdi á lögregluna, en þaðan hafi hún a.m.k. heyrt af því að lögreglu hefði verið tilkynnt um atburðinn.

                Vitnið kvaðst hafa beðið utan við bifreiðina þar til lögreglan kom og telja lögreglu hafa verið fljóta á vettvang, miðað við að vitnið taldi lögreglubifreiðina hafa verið að koma frá [...]. Hún kvaðst telja að um þrjú korter til klukkutími hafi liðið þar til lögreglan kom á vettvang. Hún kvaðst ekki vita hve fljótt eftir atburðinn lögreglu hafi verið tilkynnt um málið.

                Ekki var tekin formleg skýrsla af A við rannsókn málsins hjá lögreglu.

                D lögreglumaður kvaðst hafa verið sofandi á heimili sínu þegar honum barst útkallið frá fjarskiptamiðstöð lögreglu kl. 3:11 og líklega verið kominn á vettvang um 10 mínútum síðar. Hann hafi þekkt bifreiðina, en vitnið A, sem hann hafi rætt við á vettvangi, hafi í fyrstu ekki virst tilbúin til að skýra frá því sem gerðist. Þá hafi komið þar að vitnið C sem sagt hafi honum hver hafi ekið bifreiðinni. Kvaðst D hafa vitað hvar ákærði bjó og strax haldið þangað og knúð dyra. Þáverandi tengdafaðir ákærða hafi komið til dyra, greinilega nývaknaður. Þá hafi ákærði komið fram og strax skýrt frá því sem gerst hafi. Ákærði hafi verið fluttur á lögreglustöð. Stuttu síðar hafi lögreglu borist símtal um að B væri komin heim og hafi hún fljótlega verið sótt og færð á lögreglustöð. Ákærði og B hafi bæði borið á sömu leið um að hann hafi ekið bifreiðinni og hún setið í farþegasæti. Aðspurður sagði D þó að ákærði hafi í fyrstu borið um að unnustan hafi ekki verið með í bifreiðinni. Ákærði hafi virst í góðu jafnvægi, vel áttaður og ekki mikið ölvaður.

                Aðspurður hvort ákærði hafi verið spurður hvort hann hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk, kvaðst D telja það hljóta að hafa verið gert, en það væri vinnuregla. Hann kvaðst þó sennilega ekki hafa stuðst við staðlaða varðstjóraskýrslu við skýrslutöku af ákærða og ekki muna sérstaklega eftir að hafa spurt hann út í þetta. Hann sagðist þó muna glöggt að slíku hafi ekki verið borið við af hálfu ákærða.

                Spurður út í misræmi í þvagtökuvottorði og fylgibréfi til Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja-og eiturefnafræði, þar sem muni sjö mínútum á tímasetningu töku síðara þvagsýnis ákærða kvaðst lögreglumaðurinn telja að tímasetning í þvagtökuvottorði sé rétt og að um innsláttarvillu sé að ræða í bréfinu til rannsóknarstofunnar.

                Þór kvaðst telja augljóst að ákærði hafi stigið hraustlega á bensíngjöf bifreiðarinnar. Ljóst sé að hvorki ökumaður né farþegi hafi notað bílbelti, en brot hafi verið í framrúðu eftir höfuð beggja.

                Aðspurður taldi D sig minnast þess að vitnið C hafi verið sú sem tilkynnti um málið til lögreglu, en af framburði hans varð ráðið að þetta hefði ekki verið kannað sérstaklega. Ekki hafi annað komið fram hjá vitnum en að óhappið hafi verið nýskeð þegar tilkynnt hafi verið um það til lögreglu.

                E héraðslögreglumaður kvaðst hafa komið að rannsókn málsins eftir að ákærði hafði verið færður á lögreglustöð og verið viðstaddur skýrslutöku af ákærða og sýnatökur. Hann kvaðst ekki minnast þess að ákærði hafi borið því við að hafa drukkið áfengi eftir að akstrinum lauk. 

                F lyfjafræðingur hjá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði staðfesti fyrir dómi matsgerð sína og G deildarstjóra. Í framburði hennar kom fram að áfengismagn í fyrra þvagsýninu sem tekið hafi verið kl. 3:44, hafi reynst hátt, eða 2,02‰. Brotthvarfhraði sé einstaklingsbundinn og reiknaður út frá blóð og þvagsýnum. Þvag endurspegli alltaf styrk í blóði og því sé hægt að reikna út frá brotthvarfshraðanum hver meðalstyrkur í blóði hafi verið á tilteknu tímamarki. Vitnið kvað engu breyta fyrir niðurstöðu matsgerðarinnar þótt síðara þvagsýnið sem tekið var kunni að hafa verið tekið kl. 4:31, en ekki kl. 4:38 eins og lagt hafi verið til grundvallar í matsgerðinni. Fyrra þvagsýnið, sem mælst hafi svo hátt og tekið hafi verið svo skömmu eftir að aksturinn átti sér stað, nægi. Vitnið kvað útilokað að ákærði gæti hafa drukkið mikið af sterku áfengi eftir að akstri lauk, en nánar aðspurt kom fram að vitnið lagði til grundvallar að aksturinn hafi átt sér stað á því tímabili sem greinir í bréfi lögreglu til rannsóknarstofunnar, þ.e. kl. 2:45 til kl. 3:10. Nánar spurð um niðurstöður matsgerðarinnar kvað hún hátt hlutfall milli blóðs og þvags ákærða sýna að töluverður tími hafi verið liðinn frá því að hann „toppaði“, þ.e. þegar jafnvægi hafi náðst milli blóðs og þvags og það gæti ekki hafa verið síðar en kl. 3. Þegar blóð og þvag hafi náð jafnvægi við hlutfallið 1,2 til 1,3 sé ljóst að drykkju hafi verið hætt a.m.k. einni klukkustund fyrr. Í tilviki ákærða sé hlutfallið 1,4 til 1,5, sem þýði að hámarksstyrkur í blóði viðkomandi hafi verið um tveimur klukkustundum áður en fyrra þvagsýnið var tekið, eða um kl. 2 um nóttina. Fullyrti vitnið að þetta þýddi að áfengisdrykkju ákærða hafi verið lokið um það leyti.

III

                Ákærða er gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis, eins og nánar er lýst í ákæru málsins sem rakin er hér að framan.

                Ákærði viðurkennir að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn, en neitar að hafa verið undir áhrifum áfengis við aksturinn, þótt hann viðurkenni að hafa drukkið tvo til þrjá 33 cl. bjóra á vínveitingastað fyrr um kvöldið. Byggist vörn hans á því að hann hafi eftir óhappið drukkið ótæpilega af sterku áfengi á heimili sínu, þar sem hann hafi dvalist í um klukkustund áður en hann var handtekinn og færður á lögreglustöð til sýnatöku.

                Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst fjarskiptamiðstöð lögreglu tilkynning um atburðinn kl. 3:10 umrædda nótt. Samkvæmt skýrslunni var vakthafandi lögreglumanni á Eskifirði tilkynnt um málið mínútu síðar eða kl. 3:11. Kvaðst hann fyrir dómi hafa verið vakinn með símtalinu og telja sig hafa verið kominn á vettvang um 10 mínútum síðar. Ákærði var samkvæmt því sem greinir í sömu skýrslu handtekinn á heimili sínu kl. 3:35.

                Af rannsóknargögnum lögreglu verður ekki ráðið að rannsóknin hafi á nokkurn hátt beinst að því hve langur tími hafi liðið frá því að akstur ákærða átti sér stað þar til lögreglu var tilkynnt um óhappið eða hvers vegna lagt var til grundvallar í beiðni um matsgerð frá Rannsóknarstofu HÍ í lyfja- og eiturefnafræði að aksturinn hafi átt sér stað á tímabilinu 2:45 til 3:10 umrædda nótt, en í framburði D lögreglumanns fyrir dómi kom fram að ekkert hafi bent til annars en að atburðurinn hafi átt sér stað skömmu áður en lögreglu var tilkynnt um hann. Ekki liggur fyrir hver tilkynnti lögreglu um atburðinn. Fyrir dómi kváðust þau A og D telja að það hafi verið vitnið C sem tilkynnti um málið til lögreglu, en C neitaði því og kvaðst ekki vita hver hafi hringt í lögreglu eða hvenær. Ákærði kvaðst fyrir dómi telja sig hafa dvalið í um klukkustund á heimili sínu áður en lögregla knúði þar dyra, eftir að hafa hlaupið þangað frá slysstaðnum. Fékk sá framburður hans nokkra stoð í framburði C, sem kvaðst fyrir dómi telja sig hafa beðið í um þrjú korter til klukkutíma við bifreiðina eftir lögreglunni. Framburður vitnisins C bendir aftur á móti til að skemmri tími hafi liðið þar til lögregla kom á vettvang. Hvorugt vitnanna kvaðst þó visst um þessar tímasetningar.

                Í málinu liggur fyrir skýrsla sem lögreglumaðurinn D ritaði um framburð sem ákærði gaf hjá lögreglu umrædda nótt milli kl. 5:10 og 5:15. Eins og að framan er rakið kemur þar fram að ekki sé um orðrétt endurrit að ræða heldur einungis það sem skýrsluritari hafi talið skipta máli. Ekkert kemur þar fram um það hvort ákærði hafi borið því við að hafa neytt áfengis eftir aksturinn. Í skriflegri beiðni lögreglu til Rannsóknarstofu HÍ í lyfja- og eiturefnafræði um rannsókn á blóð og þvagsýnum frá ákærða segir að ekki sé vitað hvort kærði hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk en það sé þó talið ólíklegt. Virðist þetta styðja það að ákærði hafi hvorki verið spurður né tjáð sig að eigin frumkvæði um áfengisdrykkju eftir að akstri lauk. Fyrir dómi kvaðst ákærði telja sig hafa greint lögreglu frá því að hann hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk. Því hafnaði framangreindur lögreglumaður fyrir dómi og á sama veg bar E héraðslögreglumaður, sem kvaðst hafa verið viðstaddur þegar ákærði gaf skýrslu á lögreglustöð.

                Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu HÍ í lyfja- og eiturefnafræði mældist áfengismagn í blóði ákærða, að teknu tilliti til vikmarka, 1,21‰ í fyrra blóðsýninu og 1,12‰ í síðara blóðsýninu sem tekið var rúmum hálftíma síðar og því fallandi. Meginniðurstaða matsgerðarinnar er sú að á tímabilinu 2:45 til 3:10 hafi áfengismagn í blóði ákærða verið á bilinu 1,6‰ til 1,7‰. Af hálfu ákærða hafa niðurstöður matsgerðarinnar ekki verið dregnar í efa, en byggt á því að ósannað sé að akstur hans hafi átt sér stað á umræddu tímabili heldur hljóti hann að hafa átt sér stað töluvert fyrr og að mælt áfengismagn í blóði og þvagi sé að rekja til áfengisdrykkju ákærða eftir að akstrinum lauk. Í matsgerðinni kemur fram að hlutfall milli þvags og blóðs sýni að jafnvægi hafi náðst fyrir kl. 3:44, er ákærði gaf fyrra þvagsýnið. Í framburði F lyfjafræðings fyrir dómi kom fram að niðurstöður rannsóknanna, einkum hátt hlutfall milli blóðs og þvags (1,4 til 1,5) bentu til þess að styrkur etanóls í blóði ákærða hafi náð hámarki „svona tveimur klukkustundum“ fyrir þann tíma sem ákærði gaf þvagsýni í fyrra skiptið eða um kl. 2 um nóttina. Fullyrti vitnið að niðurstöður rannsóknanna sýndu að áfengisdrykkju ákærða hljóti að hafa verið lokið um það leyti. 

                Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála og metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn, sbr. 109. gr. sömu laga.

Ekkert er fram komið í málinu sem varpað getur rýrð á niðurstöður matsgerðarinnar og framangreindan framburð lyfjafræðingsins fyrir dómi, sem var afdráttarlaus um að niðurstöður áfengismælinga í blóði og þvagi ákærða, einkum hátt hlutfall milli blóðs og þvags, sýni að áfengisdrykkju ákærði hljóti að hafa verið lokið eigi síðar en um kl. 2 umrædda nótt. Á hinn bóginn var ákærði ekki staðinn að akstri bifreiðarinnar heldur handtekinn á heimili sínu 25 mínútum eftir að lögreglu var tilkynnt um að bifreið hefði verið ekið á ljósastaur og að ökumaður væri ekki á vettvangi. Þótt líklegt megi teljast að akstur ákærða hafi átt sér stað ekki löngu áður en lögreglu barst tilkynningin, þá er ljóst að við rannsókn lögreglu var ekki leitast við að upplýsa hvenær aksturinn hefði átt sér stað. Ekki ber mikið í milli þess tíma sem aksturinn getur hafa átt sér stað samkvæmt framburði ákærða sjálfs og vitnisins A fyrir dómi og þess tímamarks sem lyfjafræðingurinn bar fyrir dómi að ákærði gæti síðast hafa neytt áfengis. Hversu ólíklega sem það almennt kann að hljóma að menn neyti áfengis eftir að hafa lent í umferðaróhappi, telst að áliti dómsins ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að skýring ákærða á niðurstöðum áfengismælinga í blóði hans og þvagi fái staðist, enda hafa ekki í málinu verið færð fram gögn eða framburðir vitna sem hrakið geta þann framburð ákærða. Sú staðreynd að aksturinn leiddi til umferðaróhapps getur eins og hér stendur á ekki skipt máli við sönnun um sekt ákærða, m.a. í ljósi þess að engin tæknileg rannsókn fór fram á bifreiðinni. Þá er framburður tveggja vitna, þeirra A og C um að ákærði hafi drukkið áfengi og virst ölvaður í samkvæmi á heimili þeirrar fyrrnefndu, áður en hann ók bifreiðinni, um margt óljós, en bæði þessi vitni kváðust sjálf hafa verið ölvuð. Þótt ákærði viðurkenni að hafa drukkið tvo til þrjá 33 cl. bjóra einhvern tímann fyrr um kvöldið verður sakfelling hans ekki á því reist. Loks er það álit dómsins að samhljóða framburður lögreglumannanna tveggja fyrir dómi um að ákærði hafi, við skýrslutöku umrædda nótt, ekki borið því við að hafa drukkið áfengi eftir að akstri lauk, geti ekki ráðið úrslitum við mat á sönnunarstöðu í máli þessu.

                Í ljósi alls framanritaðs og með vísan til 108. og 109. gr. laga nr. 88/1988, um meðferð sakamála, þykir ekki fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi verið undir þeim áhrifum áfengis við akstur umrætt sinn að varðað geti refsingu. Ber því að sýkna ákærða af sakargiftum samkvæmt ákæru.

                Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu verður allur sakarkostnaður vegna málsins lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., vegna málsvarnar ákærða fyrir dómi, sem þykja hæfilega ákveðin 313.750 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, auk þess sem ferðakostnaður verjandans nemur alls 48.594 krónum.

                Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum, mánudaginn 7. janúar 2013 klukkan 15:00. Fyrir uppsögu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu.

                Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., að fjárhæð 313.750 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar verjandans að fjárhæð 48.594 krónur.