Hæstiréttur íslands
Mál nr. 656/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Sértökuréttur
- Réttindaröð
|
|
Mánudaginn 19. desember 2011. |
|
Nr. 656/2011. |
Sparisjóður Suður-Þingeyinga (Stefán Bjarni Gunnlaugsson hrl.) gegn SPB hf. (Berglind Svavarsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Sértökuréttur. Réttindaröð.
Sparisjóðurinn SSÞ kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var að kröfu hans, að fjárhæð 15.456.839 krónur, við slit S hf. yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar sagði að til að krafa um afhendingu peninga í vörslum þrotabús, sem kröfuhafi kallaði til á grundvelli eignarréttar, yrði viðurkennd sem sértökukrafa hefði í dómaframkvæmd verið áskilið að fjármunirnir væru nægjanlega sérgreindir. Innstæða á innlánsreikningi fæli ekki í sér sérgreiningu á ákveðnum fjármunum í vörslu fjármálafyrirtækis heldur greiðslukröfu á hendur því. Þegar af þeirri ástæðu var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, en sóknaraðili hafði ekki uppi varakröfu um aðra stöðu í réttindaröð við slit S hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2011, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2011 þar sem hafnað var að kröfu sóknaraðila yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 15.456.839 krónur verði viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laganna og að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá 22. apríl til greiðsludags. Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 4.131.052 krónur verði viðurkennd með sömu stöðu í réttindaröð og að varnaraðila verði gert að greiða þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá 25. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila 21. mars 2009 í því skyni að taka nánar tilgreindar ákvarðanir um aðgerðir sem eftirlitið taldi nauðsynlegar. Í þessu fólst meðal annars að Seðlabanki Íslands og Nýi Kaupþing banki hf. yfirtækju tilgreindar skuldbindingar varnaraðila. Á móti þessum skuldbindingum átti varnaraðili að framselja Seðlabankanum og Nýja Kaupþingi banka hf. útlán sparisjóða og nánar tilgreinda kröfu á hendur Byr-sparisjóði. Var stjórn varnaraðila falið, í samráði og með samþykki Fjármálaeftirlitsins, að hrinda þessari ákvörðun í framkvæmd. Jafnframt lagði eftirlitið fyrir stjórn varnaraðila að leita heimildar til greiðslustöðvunar eftir lögum nr. 21/1991, sbr. XII. kafla A laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í samræmi við þessi fyrirmæli fékk varnaraðili heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2009. Fjármálaeftirlitið tók síðan aftur ákvörðun 27. sama mánaðar um taka yfir vald hluthafafundar til að víkja stjórn varnaraðila frá og skipa honum skilanefnd. Þá var varnaraðila skipuð slitastjórn 19. maí 2009 í samræmi við 4. tölulið 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum.
Hinn 18. mars 2009 gerðu aðilar með sér gjaldeyrisskiptasamninga í annars vegar íslenskum krónum og hins vegar evrum og bandaríkjadölum. Samkvæmt þessum samningum seldi varnaraðili 11.000.000 dali og 1.000.000 evrur fyrir 1.426.000.000 krónur miðað við 18. mars 2009 en keypti sama erlenda gjaldeyri aftur miðað við 25. sama mánaðar fyrir 1.426.998.589 krónur. Til efnda á þessum samningum voru fyrrgreindar myntir í eigu varnaraðila, sem voru í vörslu Seðlabankans, seldar og andvirði þeirra að fjárhæð 1.456.680.000 krónur ráðstafað til sóknaraðila. Vegna uppgjörs á þessum viðskiptum taldi varnaraðili sig eiga inni hjá sóknaraðila 15.191.411 krónur og skuldfærði reikning hans hjá sér um þá fjárhæð. Sóknaraðili andmælir þeirri ráðstöfun og krefst þess að þeim fjármunum auk dráttarvaxta til 22. apríl 2009 að fjárhæð 265.428 krónur eða samtals 15.456.839 krónur verði skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Varakrafa sóknaraðila svarar til eftirstöðva af þeim vöxtum sem hann telur sig eiga inni hjá varnaraðila vegna þessara viðskipta.
Til að krafa um afhendingu peninga í vörslum þrotabús, sem kröfuhafi kallar til á grundvelli eignarréttar, verði viðurkennd sem sértökukrafa hefur í dómaframkvæmd verði áskilið að fjármunirnir séu nægjanlega sérgreindir, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 15. febrúar 1971 í máli nr. 130/1970, 11. maí 1987 í máli nr. 327/1986 og 10. september 1993 í máli nr. 357/1993, sem birtir eru í dómasafni 1971 bls. 133, 1987 bls. 664 og 1993 bls. 1515. Innstæða á innlánsreikningi felur ekki í sér sérgreiningu á ákveðnum fjármunum í vörslu fjármálafyrirtækis heldur greiðslukröfu á hendur því. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest en sóknaraðili hefur ekki haft uppi varakröfu um aðra stöðu í réttindaröð við slit varnaraðila, sem að þessu leyti fara eftir lögum nr. 21/1991, sbr. 2. tölulið 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sparisjóður Suður-Þingeyinga, greiði varnaraðila, SPB hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2011.
Mál þetta var þingfest 10. desember 2010 og tekið til úrskurðar 26. október sl.
Sóknaraðili er Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Kjarna, Laugum.
Varnaraðili er SPB hf., áður Sparisjóðabanki Íslands hf., Rauðarárstíg 27, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að krafa hans við slitameðferð varnaraðila verði viðurkennd sem krafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 og að varnaraðila verði gert að afhenda honum 15.456.839 krónur, auk dráttarvaxta af 15.191.411 krónum frá 22. apríl 2009 til greiðsludags. Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 4.131.052 krónur verði samþykkt sem krafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 og að varnaraðila beri að afhenda honum þá fjárhæð, auk dráttarvaxta frá 25. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Við munnlegan málflutning kom fram að nafni varnaraðila hefði verið breytt úr Sparisjóðabanki Íslands hf. í SPB hf.
I
Varnaraðili starfaði meðal annars sem reikningsbanki sparisjóða á landinu og þjónustubanki þeirra á sviði alþjóðaviðskipta, lausafjárstýringar og fjármögnunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Málsaðilar áttu í viðskiptum sín á milli sem sóknaraðili lýsir þannig að varnaraðili hafi fengið lán hjá sér að fjárhæð 1.426.000.000 króna vegna lausafjárvanda þann 18. mars 2009. Sóknaraðili hafi krafist trygginga fyrir lánveitingunni og varnaraðili sett að veði gjaldeyri; 1.000.000 evra og 11.000.000 Bandaríkjadollara sem hann hafi átt í Seðlabanka Íslands. Að ósk varnaraðila, sem hafi séð um alla skjalagerð, hafi lánsformið verið sett upp sem skiptasamningar með erlendan gjaldeyri. Sóknaraðili hafi átt að fá 18,5% ársvexti af láninu eða 5.129.639 krónur. Á gjalddaga láns sóknaraðila, 25. mars 2009, hafi verið ljóst að varnaraðili gæti ekki greitt lánið. Samkvæmt ráðleggingum Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins hafi sóknaraðili gengið að þeim tryggingum í Seðlabankanum sem honum hefðu verið settar. Daginn eftir, 26. mars kl. 16:32, hafi varnaraðili farið heimildarlaust inn á reikning sóknaraðila og tekið þaðan út 15.191.411 krónur.
Varnaraðili lýsir viðskiptum aðila með þeim hætti að í febrúar og mars 2009 hafi þeir gert með sér samninga um gjaldeyrisviðskipti. Varnaraðili hafi selt sóknaraðila myntir með svokölluðum stundarsamningi fyrir íslenskar krónur. Samtímis hafi verið gerðir framvirkir gjaldeyrissamningar þar sem varnaraðili hafi keypt myntirnar til baka og sóknaraðili keypt krónurnar til baka. Tímalengd framvirku samningana hafi venjulega verið vika í senn. Mismunur á gengi stundarsamninganna og gengi framvirku samninganna hafi komið fram í vaxtamun á milli íslensku krónunnar og erlendu myntarinnar, íslensku krónunni í vil. Þar sem sóknaraðili hafi átt krónurnar framvirkt en skuldað myntirnar framvirkt, hafi uppgjörið verið sóknaraðila í vil. Þannig hafi sóknaraðili á uppgjörsdegi átt að fá greidda þá fjárhæð sem numið hafi mismun á framvirka genginu og upphaflega stundargenginu margfaldað með nafnverði samnings. Á sama tíma, þ.e. uppgjörsdegi, hafi sóknaraðili átt að afhenda myntirnar sem hann hafði selt framvirkt og varnaraðili að afhenda krónurnar sem hann hafði selt framvirkt.
Á uppgjörsdegi þessara samninga, 25. febrúar, 3.-4. mars, 11. mars og síðast 18. mars 2009, hafi orðið samkomulag á milli aðila um að framlengja kaupin um viku í senn. Áður en að síðasta gjalddaganum hafi komið hafi varnaraðili hins vegar verið tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu. Þá hafi tveir framvirkir samningar verið opnir, einn samningur í Bandaríkjadollurum á móti íslenskum krónum og annar samningur í evrum á móti íslenskum krónum. Vegna þeirrar aðstöðu er varnaraðili hafi verið kominn í hafi verið ljóst að ekki yrði af mögulegri afhendingu á myntunum milli aðila og hafi sóknaraðila því verið seldar myntirnar með stundarsamningi á móti krónum. Eftir nettun þeirra samninga hafi sóknaraðili skuldað varnaraðila 15.191.411 krónur sem varnaraðili hafi gert upp samkvæmt fyrirliggjandi skuldfærsluheimild og í samræmi við fyrri viðskipti aðila. Uppgjörsdagur stundarsamningsins hafi verið sá sami og afhendingardagur myntanna, 25. mars 2009. Uppgjörsgengið hafi verið ákveðið af starfsmönnum fjárstýringar varnaraðila í samræmi við sölugengi viðkomandi mynta á þeim degi og í samræmi við þau viðskiptakjör sem viðskiptavinum varnaraðila hafi boðist.
Þann 21. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2009 var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar og 27. mars 2009 var honum skipuð skilanefnd. Þá var honum skipuð slitastjórn 19. maí 2009 samkvæmt ákvæðum 4. töluliðar 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna 25. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 3. nóvember 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu vegna slitameðferðarinnar, samtals að fjárhæð 15.519.089 krónur, með kröfulýsingu, dags. 30. október 2009, og var hún móttekin af varnaraðila 2. nóvember 2009.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila 16. desember 2009 á þeim grundvelli að úttekt af reikningi sóknaraðila hafi verið vegna uppgjörs skiptasamninga samkvæmt fyrirliggjandi skuldfærsluheimild. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar með bréfi 5. febrúar 2010. Dagana 2. og 23. mars 2010 voru haldnir fundir vegna ágreinings aðila málsins um viðurkenningu á kröfu sóknaraðila. Ekki tókst að jafna ágreininginn á þeim fundum. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila dagsettu 29. október 2010 og mótteknu sama dag var ágreiningi málsaðila um kröfuna beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur Guðmundur Lárusson sparisjóðsstjóri sóknaraðila, Daði Kristjánsson fyrrum starfsmaður varnaraðila og Elín Rún Þorsteinsdóttir starfsmaður varnaraðila.
II
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að taka 15.191.411 krónur út af reikningi sóknaraðila nr. 1100-26-1110 þann 26. mars 2009. Varnaraðili hafi sett sóknaraðila tryggingu vegna láns í formi gjaldeyris sem lagður hafi verið inn á reikning sóknaraðila í Seðlabanka Íslands. Varnaraðili hafi lagt til að lánsformið yrði skiptasamningar með gjaldeyri. Skjölin hafi verið útbúin af sérfræðingum varnaraðila, sem einnig hafi verið lögfræðiráðgjafar sóknaraðila.
Á uppgjörsdegi 25. mars hafi varnaraðili ekki getað gengið frá samningnum. Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hluthafafundar varnaraðila 21. mars og varnaraðili hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar 23. mars. Sóknaraðili hafi þá, að ráðleggingum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, selt gjaldeyri þann sem honum hafði verið settur til tryggingar. Daginn eftir, 26. mars, hafi varnaraðili haft samband við sóknaraðila og spurt hvort hann hafi selt trygginguna í Seðlabankanum. Sóknaraðili hafi upplýst svo vera. Viti hann þá ekki fyrr en að eftir lokun banka 26. mars 2009 kl. 16:32 hafi verið búið að taka út af reikningi hans 15.191.411 krónur án samráðs við hann.
Varnaraðili hafi enga heimild haft til að fara inn á reikning sóknaraðila. Við athugun hafi komið fram að varnaraðili virðist hafa útbúið uppgjör á framvirkum gjaldeyrissamningum 26. mars 2009 en dagsett það 25. mars. Uppgjörið sé sett upp eins og varnaraðili hafi fullnægt samningnum frá 18. mars, sem hann hafi ekki getað, þar sem uppgjörið hafi ekki farið fram þann dag. Varnaraðili hafi ekki getað sýnt fram á að hann hafi selt gjaldeyri eins og skiptasamningar segi til um. Uppgjörið sé, að mati sóknaraðila, tilbúningur og þar að auki rangt. Uppgjörið og gengið sé bersýnilega miðað við gengisskráningu 26. mars, sbr. útskrift frá Seðlabanka Íslands.
Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 komi fram í 1. tölulið að Seðlabanki Íslands yfirtaki allar skuldbindingar varnaraðila vegna innstæðna sparisjóða. Varnaraðili sé þá rekinn á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins og reikningur sóknaraðila nr. 1100-26-1110 hafi því átt að flytjast yfir til Seðlabankans. Með vísan til þessa telji sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki haft neina heimild til að fara inn á reikning hans sem hafi verið á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Þrátt fyrir það hafi varnaraðili farið inn á reikning sóknaraðila þann 26. mars 2009 og talið sig vera að gera upp skiptasamninga.
Þá hafi varnaraðili enga heimild haft til að fara inn á reikning sóknaraðila án hans samþykkis. Ef skiptasamningar með gjaldeyri séu skoðaðir sjáist að undir liðnum „greiðslufyrirkomulag“ sé enginn reikningur nefndur sem varnaraðili megi nota. Þá segi undir kaflanum „undirritun“: „Með undirritun sinni heimilar viðskiptamaður ofangreindar reikningsfærslur.“ Sóknaraðili túlki þetta ákvæði með þeim hætti að verið sé að vísa til þess reiknings sem getið væri í reitnum „greiðslufyrirkomulag“.
Í samningunum sé vísað til skilmála fyrir markaðsviðskipti á heimasíðu varnaraðila, en þá sé ekki að finna þar. Almennir skilmálar geti heldur ekki veitt rétt til að fara inn á reikning viðkomandi án hans samþykkis. Slíka samninga verði ætíð að túlka þröngt.
Sóknaraðili hafi sjálfur gert samninga aðila upp með því að selja veðsettan gjaldeyri. Hann hafi átt að fá vexti fyrir lánveitinguna sem hann hafi ekki fengið greidda. Með uppgjöri varnaraðila sé ljóst að samningarnir hafi verið gerðir upp tvisvar. Ef gengið væri út frá því að uppgjör varnaraðila væri rétt væri sóknaraðili búinn að tapa 2 x 15.191.411 krónum eða samtals 30.382.822 krónum. Ljóst sé að varnaraðili sé að hagnast á kostnað sóknaraðila.
Sóknaraðili telji að jafnvel þótt litið yrði svo á að varnaraðila hafi verið heimilt að framkvæma uppgjör á skiptasamningunum sé uppgjörið rangt. Gengi það sem notað sé hafi verið rangt. Venja sé í gjaldmiðlasamningum að miðað sé við gengi tveimur dögum fyrir lok uppgjörs samnings, sem væri þá gengi dagsins 23. mars 2009. En jafnvel þótt gengi Seðlabanka Íslands 25. mars 2009 sé skoðað verði niðurstaðan önnur. Þann 25. mars hafi gengi evru verið 154,14 (tap sóknaraðila sé því 3.600.417 krónur) og Bandaríkjadollara 113,98 (hagnaður sóknaraðila sé 22.679.006 krónur). Sé miðað við þetta gengi og að gengið hafi verið frá skiptasamningunum þann dag, eins og samningarnir kveði á um, sjáist að varnaraðili skuldi sóknaraðila 22.679.006-3.600.417 krónur eða samtals 19.078.589 krónur. Gengi Seðlabankans 26. mars 2009 sé svipað og það sem notað sé á „uppgjöri á framvirkum gjaldeyrissamningum“.
Verði talið að uppgjör varnaraðila sé rétt bendi sóknaraðili á að samkvæmt samningi aðila sem staðfestur hafi verið af varnaraðila í tölvupósti 18. mars 2009 hafi sóknaraðili átt að fá 18,5% ársvexti á lánsfjárhæðina. Vextirnir hafi því átt að vera 1.426.000.000 króna x 18,5 deilt með 360 sinnum 7 dagar sem geri 5.129.639 krónur. Þessa fjárhæð hafi varnaraðili aldrei gert upp. Á uppgjörinu komi ekki fram að varnaraðili hafi tekið tillit til þess.
Í skiptasamningunum komi fram að skyldur samningsaðila samkvæmt samningunum skuli jafnast hver á móti annarri, með skuldajöfnun. Síðan segi að fái annar hvor aðilinn heimild til greiðslustöðvunar, leiti nauðasamninga eða bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta skuli samningsákvæði þessi halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 sbr. og V. kafla laga nr. 108/2007. Með vísan til þessa krefjist sóknaraðili skuldjafnaðar við þá fjárhæð sem fram komi á uppgjöri á framvirkum gjaldeyrissamningum. Varnaraðili hafi því einungis átt rétt á 10.061.772 krónum (15.191.411-5.129.639=10.061.772 krónur). Varnaraðili hafi því oftekið 5.129.639 krónur. Varakrafa sóknaraðila byggi á þessu. Því telji sóknaraðili að varnaraðila beri að samþykkja kröfu hans samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 5.129.639 krónur, auk dráttarvaxta frá 25. mars 2009 til greiðsludags.
Sóknaraðili telji sig eiga umrædda peninga sem teknir hafi verið af reikningi hans. Hann hafi lýst kröfu sinni á grundvelli eignarréttar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 hafi átt að færa allar innstæður yfir til Seðlabankans. Innstæða sóknaraðila sé því hans eign og hafi ekki átt að skerðast. Óumdeilt sé að reikningur 1100-26-1110 sé í eigu sóknaraðila og hafi verið í notkun lengi eftir að búið hafi verið að skipa slitastjórn yfir varnaraðila. Sóknaraðili telji eign þessa tékkareiknings og innstæðu á honum því vera séreign sóknaraðila og nægjanlega sérgreinda til þess að fullnægt sé ákvæðum 109. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili byggi kröfu sína á ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 19.-22. gr., 91. gr., 100. gr., og 109. gr., og reglum íslensks kröfu- og eignarréttar. Þá vísi sóknaraðili til V. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Dráttarvaxtakrafa sé byggð á 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 22. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Varnaraðili byggir kröfu sína um höfnun kröfu varnaraðila sem sértökukröfu á því að um uppgjör á skiptasamningum hafi verið að ræða og að þeir skiptasamningar hafi verið gerðir upp samkvæmt fyrirliggjandi skuldfærsluheimild.
Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila að um lán gegn veði í erlendum myntum hafi verið að ræða. Málsaðilar hafi átt með sér viðskipti með gjaldeyri og hafi forsvarsmaður sóknaraðila skrifað undir nokkra slíka skiptasamninga. Af þeim sökum sé heldur ekki unnt að fallast á þá skýringu sóknaraðila að um pro forma gerninga hafi verið að ræða. Sóknaraðili bendi sjálfur á að viðskiptin hafi lotið að skiptasamningum með gjaldeyri eins og skýrt komi fram í tölvupóstsamskiptum aðila. Varnaraðili bendi og á að hefðu umþrættir samningar verið lán gegn tryggingu hefði sóknaraðila borið að skila eftirstöðvum tryggingarinnar til varnaraðila reyndist fjárhæð tryggingarinnar hærri en lánsfjárhæðin. Það hafi hann hins vegar ekki gert.
Hefðu upprunalegu samningarnir gengið í gegn 25. mars 2009 hefði sóknaraðili fengið 998.589 krónur í ávöxtun á íslensku krónurnar. Sóknaraðili hafi hins vegar selt myntirnar þann 26. mars 2009 og hafi salan verið nálægt fundargengi Seðlabanka Íslands þann dag (kaupgengi 117,56 Bandaríkjadollarar og kaupgengi 159,51 evrur) þá hafi sóknaraðili væntanlega fengið fyrir söluna 1.452.670.000 krónur og nettóávöxtun sóknaraðila því numið 11.478.589 krónum (1.452.670.000-1.426.000.000-15.191.411=11.478.589). Fullyrðing sóknaraðila um að honum hafi verið heimilt að selja myntirnar án þess að áður væri búið að gera upp framvirka samninginn standist ekki. Það hafi fyrst verið við stundarsamninginn sem sóknaraðili hafi eignast myntirnar og hafi í kjölfarið haft rétt til að ráðstafa þeim.
Varnaraðili mótmæli því að starfsmenn hans hafi verið lögfræðiráðgjafar sóknaraðila í viðskiptum þeirra á milli. Starfsmenn varnaraðila hafi veitt Sambandi íslenskra Sparisjóða tiltekna lögfræðiþjónustu á grundvelli rammasamnings er gerður hafi verið milli aðila 1. júlí 2007. Með þeim samningi hafi Sambandi íslenskra Sparisjóða tekið yfir samning sóknaraðila við varnaraðila. Samningnum hafi verið sagt upp 30. janúar 2009. Varnaraðili árétti að beiðni sóknaraðila um þjónustu á grundvelli slíks rammasamnings hafi verið um skjalagerð fyrir hönd sjóðsins gagnvart hans eigin viðskiptamönnum en ekki á milli varnaraðila og sóknaraðila. Aukinheldur hafi þeir samningar er hér um ræði verið staðlað samningsform hjá fjárstýringu varnaraðila, þannig að ekki hafi þurft aðkomu lögfræðinga vegna þessara viðskipta.
Sóknaraðili sé fjármálastofnun og verði að ætla að forsvarsmenn slíkra stofnana búi yfir lágmarksþekkingu á eðli þeirra samninga er þeir sjálfir undirriti. Hann hafi verið skilgreindur sem viðurkenndur gagnaðili samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Í slíkum viðskiptum hafi ekki verið venja að gera sérstaka skriflega samninga, heldur hafi almennt verið vísað til almennra markaðsskilmála líkt og gert hafi verið í samningum aðila. Þá markaðsskilmála hafi ávallt verið unnt að finna á heimasíðu varnaraðila. Ekki hafi heldur borið nauðsyn til að tilgreina bankareikningsnúmer samkvæmt samningum þeirra í millum þar sem sá reikningur hafi verið þekktur fyrir og hafi verið notaður í uppgjöri allra samninga milli sóknar- og varnaraðila um árabil. Í almennum markaðsskilmálum bankans frá því í júní 2007 komi jafnframt skýrt fram í gr. 7.1 að í viðskiptum á milli aðila sé almenn skuldfærsluheimild. Sú heimild hafi verið nýtt og í samræmi við þær venjur er um slík viðskipti hafi gilt.
Varnaraðili telji misskilnings gæta hjá sóknaraðila varðandi venju í gjaldmiðlasamningum um að miðað sé við gengi tveimur dögum fyrir lok uppgjörssamnings. Í gjaldeyrisviðskiptum á millibankamarkaði, bæði við innlenda aðila og erlenda, sé verð á gjaldmiðlum í samningi ákveðið á samningsdegi. Það sé hefðbundin venja að afhending myntanna á milli aðila eigi sér stað að jafnaði tveimur dögum síðar. Það hafi hins vegar engin áhrif á verðið þar sem það hafi verið ákveðið um leið og samningarnir hafi verið gerðir. Oft komi fyrir að afhending mynta sé framkvæmd fyrr, jafnvel einum degi eftir samningsdag eða samdægurs ef þannig hátti. Það sem skipti máli í þessu samhengi sé að 25. mars 2009 hafi báðir framvirku samningarnir verið á gjalddaga og þann dag hafi aðilar átt að afhenda myntir eða krónur eftir ákvæðum samnings. Þar sem afhending hafi ekki getað átt sér stað hafi samningunum verið lokað með lokauppgjöri á uppgjörsdegi þeirra 25. mars 2009, þar sem sóknaraðili hafi keypt myntirnar með stundarsamningi og varnaraðili keypt krónurnar.
Varnaraðili mótmæli þeirri málsástæðu sóknaraðila að úttekt hafi verið óheimil þar sem innstæður varnaraðila hafi ekki átt að skerðast samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Ákvörðunin hafi lotið að því að vernda innstæðueigendur almennt, en ekki snúist um að einstakir eigendur innlánsreikninga gætu komist hjá því að gera upp viðskipti við viðkomandi fjármálafyrirtæki sem komin hafi verið á gjalddaga samkvæmt samningum sem gerðir hafi verið áður en viðkomandi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi legið fyrir.
Varnaraðili mótmæli því að uppgjör og gengi sé miðað við gengisskráningu 26. mars 2009. Þá sé því hafnað sem staðlausu, órökstuddu og ósönnuðu að starfsmenn varnaraðila hafi falsað pappíra. Uppgjörsdagur stundarsamningsins hafi verið sá sami og afhendingardagur myntanna, 25. mars 2009. Skuldfærsla degi síðar breyti engu þar um. Uppgjörsgengið hafi verið ákveðið af starfsmönnum fjárstýringar varnaraðila í samræmi við sölugengi viðkomandi mynta á þeim degi og í samræmi við þau viðskiptakjör er viðskiptamönnum bankans hafi boðist í sambærilegum viðskiptum, sbr. 9. og 10 gr. í markaðsskilmálunum. Fundargengi Seðlabanka Íslands sé fundið út frá tilboðum aðila á millibankamarkaði með krónur milli kl. 10:45 og 11:00 hvern dag. Einungis stóru bankarnir þrír, þ.e. Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, hafi verið aðilar að millibankamarkaði með gjaldeyri og því hafi varnaraðili ekki haft aðgang að jafn góðu gengi og þar komi fram. Þar af leiðandi hafi varnaraðili ekki átt kost á því að bjóða viðskiptamönnum sínum betra gengi en honum sjálfum hafi boðist.
Uppgjörið hafi átt sér stað samkvæmt stundarsamningnum 25. mars 2009. Fundargengi Seðlabanka Íslands kl. 11:00 þann dag sé miðað við að sölugengi Bandaríkjadollars hafi verið 114,52. Áréttað skuli að varnaraðili hafi verið að selja myntirnar og þar af leiðandi skuli miðað við sölugengi en ekki kaupgengi. Daginn eftir, 26. mars, kl. 11:00, hafi fundargengi Seðlabanka Íslands verið komið í 118,12. Uppgjörsgengið á Bandaríkjadollar í umþrættum samningi hafi verið 116,6 sem sé í samræmi við þróun markaðsgengis milli þessara tveggja tímapunkta. Sé litið til evru samningsins þá hafi fundargengi Seðlabanka Íslands 25. mars 2009 kl. 11:00 verið í 155. Daginn eftir hafi fundargengið kl. 11:00 verið komið í 160,41. Uppgjörsgengið á evru hafi verið 159,59 sem sé sömuleiðis í samræmi við þróun markaðsgengis á milli þessara tveggja tímapunkta.
Vegna veikingar krónunnar eftir 25. mars 2009, á móti undirliggjandi gjaldmiðlum í samningunum, evru og Bandaríkjadollar, hefði tap sóknaraðila vegna lokauppgjörs orðið enn meira hefði lokauppgjörið verið framkvæmt eftir 25. mars 2009, þar sem sóknaraðili hefði þá þurft að greiða enn hærra verð fyrir myntirnar sem hann hafði keypt.
Í ljósi þess sem að framan sé rakið eigi sóknaraðili enga kröfu á hendur varnaraðila. Aðilar hafi gert með sér skiptasamninga með gjaldeyri sem hafi verið gerðir upp á venjulegan hátt, að teknu tilliti til markaðsgengis og samkvæmt fyrirliggjandi skuldfærsluheimild. Jafnvel þó svo líta mætti þannig á að sóknaraðili kynni að eiga endurgreiðslukröfu á varnaraðila yrði einvörðungu um almenna kröfu að ræða þar sem umræddir fjármunir hafi ekki verið sérgreindir í fjárhag varnaraðila í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991, aukinheldur sem ekki hafi verið um neina eign að ræða.
Varnaraðili hafni varakröfu sóknaraðila vegna oftekinna vaxta að fjárhæð 5.129.639 krónur. Ósannað sé að vaxtaútreikningur sé rangur, en ekkert komi fram um tiltekið vaxtastig í samningunum. Þá beri samningarnir það með sér að ráð hafi verið gert fyrir vöxtum, en framvirku punktarnir endurspegli þá ávöxtun; 539.583 krónur í evru samningi og 459.006 krónur í Bandaríkjadollara samningi. Sá útreikningur sem sóknaraðili byggi á í greinargerð sinni eigi því ekki við rök að styðjast. Jafnvel þótt framvirkt gengi endurspegli ekki það gengi sem sóknaraðili telji að samið hafi verið um breyti það ekki því að sóknaraðili hafi skrifað undir þann samning athugasemdalaust.
Þótt sóknaraðili ætti fjárkröfu á hendur varnaraðila sé engan veginn unnt að líta svo á að um sé að ræða eign í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991 sem sérgreind sé í vörslum varnaraðila. Þá sé því sömuleiðis hafnað að heimild sé til skuldajafnaðar samkvæmt 100. gr. laganna enda séu skilyrði þeirrar lagagreinar ekki uppfyllt. Endurgreiðslukrafa sóknaraðila sé almenns eðlis og geti ekki undir neinum kringumstæðum haft aðra réttarstöðu en almenn krafa í skilningi 113. gr. laga nr. 21/1991, enda komi önnur réttindaflokkun ekki til greina.
Um lagarök vísist til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 109. gr. þeirra, svo og meginreglna gjaldþrotaréttarins. Þá sé einnig vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sérstaklega 21. og 22. gr. þeirra. Sóknaraðili styðji málskostnaðarkröfu sína við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr. og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Af gögnum málsins verður ráðið að í upphafi ársins 2009 gerðu málsaðilar með sér samkomulag í formi skiptasamninga um gjaldeyri í þeim tilgangi að útvega varnaraðila íslenskar krónur. Skyldi sóknaraðili afhenda varnaraðila íslenskar krónur en fá afhenta erlenda gjaldmiðla. Á afhendingardegi skyldi sóknaraðili skila erlendu myntunum, en fá til baka íslenskar krónur með ávöxtun samkvæmt framvirku gengi.
Varnaraðili tók 15.191.411 krónur út af reikningi sóknaraðila 26. mars 2009 og telur sig hafa verið að gera upp viðskipti þeirra. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa verið í heimildarleysi þegar hann tók út af reikningnum. Hann bendir á að hann hafi sjálfur gert viðskipti þeirra upp með sölu gjaldeyris. Fyrir liggur að 26. mars 2009 seldi sóknaraðili gjaldeyri; 11.000.000 Bandaríkjadollara á genginu 117,88 og 1.000.000 evrur á genginu 160,00. Kom því í hans hlut 1.456.680.000 krónur og var hagnaður hans af viðskiptunum 30.680.000 krónur. Hefur hann ekki skilað neinum hluta þessarar fjárhæðar til varnaraðila þrátt fyrir að hún sé umtalsvert umfram þá vexti sem hann telur sig hafa átt að fá af láni sínu til varnaraðila. Við skýrslutöku fyrir dómi kom fram hjá sparisjóðsstjóra sóknaraðila að hann liti á þennan mun sem hagnað vegna viðskipta aðila. Af framangreindu og gögnum málsins verður ráðið að um gjaldeyrisviðskipti milli aðila var að ræða.
Þegar varnaraðila hafði verið veitt heimild til greiðslustöðvunar 23. mars 2009 var ljóst að ekki yrði um afhendingu á myntunum að ræða samkvæmt samningum aðila. Seldi varnaraðili þá gjaldeyri þann er hann hafði undir höndum. Var varnaraðila því rétt að gera viðskiptin upp. Í framlögðum tölvuskeytum frá sóknaraðila kemur fram að hann taldi sig bera áhættu af viðskiptunum. Hlaut honum að vera ljóst hvert eðli viðskiptanna var. Stoðar ekki fyrir sóknaraðila að vísa til þess að varnaraðili hafi valið form viðskiptanna og séð um alla samningsgerð, en hann er fjármálastofnun sem gera verður ráð fyrir að hafi ákveðna þekkingu á þessi sviði, auk þess sem hann hefur staðfest með undirritun sinni að hafa kynnt sér eðli framvirkra gjaldmiðlaviðskipta og notið ráðgjafar sérfræðinga utan varnaraðila áður en hann undirritaði samninginn.
Fram kom hjá varnaraðila að gengi það sem miðað væri við samkvæmt stundarsamningi væri samkvæmt skráningu þess banka, en hver banki hefði mismunandi gengi. Hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að miðað hafi verið við rangt gengi í uppgjöri samninga aðila. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á venju sem leiða eigi til annarrar niðurstöðu, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sóknaraðili telur varnaraðila ekki hafa haft heimild til þess að taka út af reikningi hans. Í skiptasamningum um gjaldeyri sem undirritaðir voru fyrir hönd sóknaraðila kemur fram að viðskiptamaður heimili „ofangreindar reikningsfærslur“. Í reitnum „greiðslufyrirkomulag“ er þó ekki gerð grein fyrir því um hvaða reikninga er þar að ræða. Verður að líta til þess að aðilar höfðu átt í viðskiptum um margra ára skeið og reikningur sóknaraðila sem notaður var í viðskiptum aðila var þekktur innan varnaraðila. Þykir það því ekki hafa úrslitaáhrif að reiknings var ekki getið í samningunum. Þá er vísað sérstaklega til almennra skilmála um markaðsviðskipti sem finna megi á heimasíðu bankans, þar sem er að finna almenna skuldfærsluheimild. Kemur fram í samningunum að viðskiptamaður hafi kynnt sér þessa skilmála og samþykkt með undirritun sinni. Sóknaraðili kveður að þessir skilmálar hafi aldrei verið kynntir sér og þeir hafi ekki fundist á heimasíðu varnaraðila. Þá hefur fyrrum starfsmaður varnaraðila sem annaðist viðskiptin borið að hann minnist þess ekki að skilmálarnir hafi verið kynntir sóknaraðila, en almennt hafi verið gert ráð fyrir að sparisjóðirnir hefðu aðgang að slíkum gögnum. Skilmálarnir hafa verið lagðir fram í málinu og má sjá af þeim að gert er ráð fyrir því að þeir séu undirritaðir, sbr. 1. gr. þeirra. Til þess er hins vegar að líta að sóknaraðili hefur verið flokkaður sem viðurkenndur gagnaðili, samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, í öllum viðskiptum við varnaraðila og hefur samþykkt þá flokkun. Samkvæmt 22. gr. laga nr. 108/2007 eru ekki gerðar sömu kröfur um upplýsingagjöf til fjármálafyrirtækja vegna viðskipta við viðurkennda gagnaðila og við aðra fjárfesta. Sóknaraðili er fjármálastofnun sem hefur átt í viðskiptum við varnaraðila um langt skeið og verður að gera þær kröfur til hans að hann kynni sér þá skilmála sem vísað sé til í samningum sem hann undirriti. Ekki verður fallist á með sóknaraðila að þar sem innstæður hafi ekki átt að skerðast samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi úttektir af reikningi hans ekki verið heimilar, þar sem sú ákvörðun verður ekki talin hafa átt að koma í veg fyrir uppgjör viðskipta reikningseigenda. Verður ekki fallist á með sóknaraðila að varnaraðila hafi skort heimild til úttektar af reikningi hans. Verður aðalkröfu sóknaraðila því hafnað.
Varakrafa sóknaraðila lýtur að leiðréttingu vegna rangs útreiknings á vöxtum í uppgjöri aðila. Við upphaf aðalmeðferðar málsins var krafan lækkuð úr 5.129.639 krónum í 4.131.052 krónur og lagður fram útreikningur Daða Kristjánssonar, fyrrum starfsmanns varnaraðila, til skýringar á kröfunni. Bar Daði um það fyrir dómi að mistök hefðu orðið við gerð skiptasamnings í Bandaríkjadollurum. Samningurinn hafi átt að gera ráð fyrir 18,5% vöxtum, en þar sem framvirka gengið í samningnum sé rangt hafi þeir orðið 1,85%. Uppgjör skiptasamninganna sé því rangt sem nemi 4.131.052 krónum. Varnaraðili mótmælti kröfunni á þeim grundvelli að í samningum aðila sé ekkert tekið fram um vaxtastig, en ávöxtun sóknaraðila komi fram í framvirkum punktum. Sóknaraðili hafi samþykkt þann punktafjölda sem fram komi á samningnum og hafi verið tekið mið af honum í uppgjöri aðila. Líta verður svo á að varnaraðili hafi með þessu samþykkt að þessi breytta málsástæða sóknaraðila komist að í málinu. Fram kemur í framlögðum tölvupósti Daða Kristjánssonar að sóknaraðili skuli fá „18,5% vexti eins og áður“. Er það í samræmi við fyrri samninga aðila um sams konar viðskipti sem hafa verið lagðir fram í málinu, þar sem ávöxtun sóknaraðila er aldrei lægri en 18,5%. Í ljósi þess og með framburði þess starfsmanns varnaraðila sem sá um samningsgerðina þykir nægilega í ljós leitt að mistök hafi verið gerð í skiptasamningi aðila í Bandaríkjadollurum þannig að samningurinn hafi orðið annars efnis en til hafi verið ætlast. Var því miðað við ranga vaxtahæð við uppgjör samningsins.
Sóknaraðili hefur krafist þess að varakrafa hans verði samþykkt sem krafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 skal afhenda eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skal með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið á ekki tilkall til. Í framkvæmd hafa verið sett tiltölulega þröng hlutlæg skilyrði fyrir afhendingu eignar úr þrotabúi á grundvelli þessarar lagagreinar. Þegar um peningafjárhæðir er að ræða hefur þannig verið talið að tvö skilyrði þurfi að uppfylla til að ákvæðið eigi við. Í fyrsta lagi þarf sá sem krefst peningafjárhæðarinnar að sýna fram á eignarrétt að henni. Í öðru lagi þarf féð að liggja sérgreint í vörslum búsins. Ljóst þykir að það fé sem sóknaraðili krefst afhendingar á uppfyllir ekki það skilyrði að vera sérgreint í vörslum búsins í formi peningaseðla, eða á annan sambærilegan hátt, sem sannanlega tilheyri sóknaraðila. Eru því ekki skilyrði til þess að fallast á að hann geti, á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, krafist afhendingar fjárins frá varnaraðila á grundvelli eignarréttar yfir peningum í vörslum hans. Verður þeirri kröfu sóknaraðila því hafnað.
Eins og atvikum málsins er háttað þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Aðalkröfu sóknaraðila, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, á hendur varnaraðila, SPB hf., er hafnað. Varakröfu sóknaraðila, um viðurkenningu á kröfu að fjárhæð 4.131.052 krónur sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila og afhendingu fjárhæðarinnar, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.