Hæstiréttur íslands
Mál nr. 531/2012
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Áfengislagabrot
- Börn
- Skaðabætur
- Sakarkostnaður
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2013. |
|
Nr. 531/2012.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Snorra Einarssyni (Gísli M. Auðbergsson hdl.) (Bjarni G. Björgvinsson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Áfengislagabrot. Börn. Skaðabætur. Sakarkostnaður.
S var sakfelldur fyrir brot gegn áfengis- og barnaverndarlögum með því að hafa veitt þremur ungmennum, 16 og 17 ára að aldri, áfengi. Þá var S sakfelldur fyrir nauðgun, með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við A með því að beita hana ofbeldi, og kynferðislega áreitni og barnaverndarlagabrot, með því að hafa skömmu síðar kysst A tungukossi. Var refsing S ákveðin fangelsi 18 mánuði og honum gert að greiða A 800.000 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða fyrir brot samkvæmt 2., 3. og 4. lið ákæru, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað hvað varðar 2., 3. og 4. lið ákæru, sakarkostnað og einkaréttarkröfu A. Til vara krefst hann sýknu af sakargiftum í þessum ákæruliðum og þess að fyrrnefndri einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.
A krefst staðfestingar héraðsdóms að því er varðar einkaréttarkröfu sína.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sakfelling ákærða samkvæmt 2. og 3. lið í ákæru og heimfærslu þeirra brota hans til refsiákvæða.
Í 4. lið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa, skömmu eftir að þeirri háttsemi lauk sem 3. liður hennar laut að, kysst brotaþola tungukossi og síðan sagt „að hann langaði að ríða henni.“ Brotaþoli er ein til frásagnar um að ákærði hafi viðhaft þessi ummæli og er sú háttsemi gegn neitun hans ósönnuð. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður ákærði á hinn bóginn sakfelldur fyrir það sem honum er að öðru leyti gefið að sök í þessum ákærulið. Þá er staðfest heimfærsla þess brots til refsiákvæða.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákvæði hans um refsingu ákærða staðfest. Þegar litið er til þeirra erfiðleika sem brotaþoli hefur samkvæmt gögnum málsins átt við að stríða og að hluta verða raktir til brota ákærða eru bætur henni til handa hæfilega ákveðnar í héraðsdómi. Verður ákvæði hans um einkaréttarkröfu því staðfest. Þá verður staðfest ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.
Að því er varðar áfrýjunarkostnað málsins er þess að gæta að með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af sakargiftum í 1. lið ákæru og er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Engu að síður hafa málsgögn af hálfu ákæruvalds verið útbúin eins og héraðsdómur kæmi í heild til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Með hliðsjón af umfangi málsgagna er tengjast einstökum ákæruliðum er rétt að af 123.971 krónu heildarkostnaði af fjölföldun málsgagna verði 50.000 krónur felldar á ákærða. Til áfrýjunarkostnaðar verður einnig að telja ferðakostnað skipaðs verjanda ákærða, 51.010 krónur, og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, 45.300 krónur. Verður ákærða þannig gert að greiða samtals 826.708 krónur í áfrýjunarkostnað og eru þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans og þóknun réttargæslumanns, sem ákveðin er að teknu tilliti til tímaskrár hans, en báðar fjárhæðirnar eru ákveðnar að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði. Annar áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Snorri Einarsson, greiði í áfrýjunarkostnað samtals 826.708 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar héraðsdómslögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Bjarna G. Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns, 241.148 krónur. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 3. júlí 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. júní sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 21. desember 2011, á hendur Snorra Einarssyni, kt. [...], [...],[...], „fyrir neðangreind hegningar-, áfengis- og barnaverndarlagabrot framin í sveitarfélaginu [...] svo sem hér greinir:
1. Brennu, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 26. september 2010, lagt eld að viðarhillu sem stóð við norðurvegg í kaffistofu á fyrstu hæð í geymsluhúsnæði að [...] á [...], og valdið með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, en eldurinn breiddist út um rýmið og olli miklum bruna- og reykskemmdum á húsnæðinu og tveimur bifreiðum, mótorhjóli, vélsleða og tveimur lyfturum sem þar voru.
Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Brot framin að kvöldið laugardagsins 15. október 2011 í sumarhúsi númer [...] í [...] í [...]:
2. Áfengis- og barnaverndarlagabrot, með því að hafa veitt A, kennitala [...], B, kennitala [...], báðum 16 ára, og C, kennitala [...], 17 ára, áfengi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 18. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, og 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
3. Aðallega fyrir nauðgun en til vara kynferðislega áreitni og barnaverndarlagabrot, með því að hafa í heitum potti fyrir utan sumarhúsið, haft önnur kynferðismök en samræði við A með því að beita hana ofbeldi, en ákærði strauk kynfæri hennar ítrekað innan og utan klæða auk þess sem hann nuddaði kynfæri hennar innanklæða og stakk fingri í leggöng hennar í nokkur skipti, en ákærði lét ekki af háttseminni þrátt fyrir beiðni stúlkunnar þar um og tilraunir hennar til að ýta höndum hans frá og færa sig frá honum.
Telst þetta aðallega varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 199. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
4. Kynferðislega áreitni og barnaverndarlagabrot, með því að hafa skömmu síðar, í svefnherbergi sumarhússins, kysst A tungukossi og sagt að hann langaði að ríða henni.
Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“
Í ákæruskjali er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þá eru í ákæruskjali greindar svofelldar einkaréttarkröfur sem haldið var uppi við dómtöku málsins:
„Af hálfu D, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum kr. 1.749.642 auk vaxta frá 26. september 2010 til 29. desember 2011, skv. 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 en dráttarvaxta frá 29. desember 2011 til greiðsludags, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga.
Af hálfu E, f.h. A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 800.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. október 2011 til 12. janúar 2012, en dráttarvextir reiknist á kröfuna samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar til handa réttargæslumanni auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.“
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds í málinu, einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi og allur sakarkostnaður lagður á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans á rannsóknar- og dómsstigi. Til vara, komi til áfellisdóms, er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfi, að henni verði frestað skilorðsbundið, að bótakröfur verði lækkaðar og málskostnaði skipt að tiltölu milli ákærða og ríkissjóðs.
I
Ákæruliður 1.
Í frumskýrslu lögreglustjórans á Eskifirði, dags. 6. október 2010, greinir að lögreglunni á [...] hafi borist tilkynning í gegnum fjarskiptamiðstöð um að slökkvilið [...] hefði verið sent að [...] vegna mikils reyks frá húsinu, en húsið sé í daglegu tali nefnt [...] eða [...] eftir starfsemi sem hafi verið í húsinu á árum áður. Húsið sé á tveimur hæðum, um 1060 fermetrar að flatarmáli og séu gólffletir beggja hæða jafnstórir.
Í skýrslunni kemur fram að lögregla hafi komið á vettvang í sömu mund og fyrstu slökkviliðsmenn og hafi það vakið athygli að göngudyr á jarðhæð hafi verið opnar þegar að var komið. Nokkur rigning hafi verið er að var komið og hafi verið alla nóttina.
Er að var komið hafi reyk lagt frá dyrum á neðri hæð, en aðeins sé einn inngangur á neðri hæðina og snúi hann mót norðvestri. Ráðstafanir hafi verið gerðar til að kanna hvort leigjandi að neðri hæð hússins, sem þar hafi aðstöðu til geymslu og bílaviðgerða, kynni að vera í húsinu en staðfesting hafi fengist á því að svo væri ekki. Einnig hafi lagt reyk frá brotnum glugga vestan við innganginn og frá lúgum á vesturvegg jarðhæðarinnar. Slökkvilið hafi fljótlega náð að slökkva loga og glæður sem hafi verið í setu- eða kaffistofu á hægri hönd þegar komið sé inn á jarðhæðina. Að brunavakt slökkviliðs lokinni kl. 8:30 hafi vettvangsrannsókn lögreglu hafist. Hald hafi verið lagt á leifar rafmagnstækja á stað sem eldsupptök hafi verið rakin til, þ.e. borðs við suðurvegg kaffistofunnar.
Í skýrslunni kemur fram að lögregla hafi veitt athygli bifreið ákærða á ferðinni umrædda nótt. Þar sem lögreglu hafi verið kunnugt um að ákærði ætti sér sögu um íkveikjur og m.a. afplánað dóma vegna slíkra brota, auk þess sem ágreiningur hafi verið milli ákærða og leigjanda hússins, F, hafi þótt rétt að ræða við ákærða vegna málsins. Farið hafi verið að heimili hans og honum kynnt á hvaða grundvelli ákveðið hefði verið að ræða við hann. Hafi ákærði neitað því að vita nokkuð um brunann, en sagst hafa verið áhrifum áfengis kvöldið og nóttina áður, þó ekki svo drukkinn að hann hefði gleymt nokkru frá þeim tíma. Hafi honum verið tjáð að lögregla tæki skýringar hans trúanlegar.
Ákærði hafi verið spurður hvernig hann hefði verið klæddur nóttina áður og hafi hann sagst hafa verið í þeim fötum sem hann var í er hann ræddi við lögreglu, þ.e. ljósbláum bol með skreytingu framan á og dökkbláum „jogging“ buxum.
Er samtali lögreglu við ákærða hafi verið að ljúka hafi hann nefnt að er hann hafi verið á rúntinum ásamt kunningjum sínum um nóttina hafi verið staðnæmst við [...] til þess að ákærði gæti kastað af sér vatni, sem ákærði hafi síðan gert upp við vegg hússins. Hafi ákærða þá verið kynnt að rætt yrði við samferðarmenn hans í bifreiðinni.
Í skýrslunni er rakið að rætt hafi verið við vitnin G, H og I. Fram hafi komið hjá þeim tveimur fyrst nefndu að þau hafi misst sjónar á ákærða í nokkrar mínútur á meðan bifreiðin var kyrrstæð utan við [...] og sneri afturendanum að inngangi á jarðhæð hússins. Frásögn I hafi borið saman við frásögn hinna tveggja, en hann þó talið sig hafa vitað af ákærða aftan við bifreiðina allan tímann. Í ljósi þess að ósamræmi hafi verið milli framburðar ákærða og vitnanna um klæðaburð hans, þess að hann hafi sannanlega verið við vettvang skömmu áður en elds varð vart í húsnæðinu, þess að gönguhurð inn í rýmið þar sem eldsvoðinn varð hafi verið opin er lögreglu bar að og sögu ákærða um afbrot af þessu tagi, hafi verið farið aftur að heimili ákærða og hann handtekinn. Við handtökuna hafi hann afhent föt sem hann hafi verið í, bol, frakka og leðurhatt.
Meðal rannsóknargagna málsins eru ódagsett skýrsla lögreglunnar á Höfn um vettvangsrannsókn, þar sem ummerkjum á vettvangi er lýst í máli og myndum.
Þá liggur fyrir bréf Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 5. október 2010, þar sem fram kemur að rannsókn á þremur sýnum, sem borist hafi vegna málsins frá lögreglustjóranum á Eskifirði, þ.e. poka sem innihaldið hafi svarta íþróttaskó og tveimur málmdósum sem innihaldið hafi svartar brunaleifar, aðrar mjög blautar, hafi ekki leitt í ljós nein þekkt eldhvetjandi efni.
Í málinu liggur fyrir brunaskýrsla Brunamálastofnunar, dags. 19. október 2010, þar sem fram kemur að rannsökuð hafi verið rafmagnstafla, hitald úr kaffikönnu og hljómflutningstæki. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að rannsókn hafi leitt í ljós að hverfandi líkur væru á því að sýni sem til rannsóknar voru, gætu hafa orsakað eldinn. Taflan hafi verið brunnin af utanaðkomandi orsökum, hitaldið heilt og óslitið og ekkert hafi verið að sjá á hljómflutningstækjunum sem bent hafi til orsaka.
Ennfremur liggur fyrir skýrsla rannsóknarlögreglumanns við rannsóknardeild lögreglunnar á Eskifirði, sem sögð er frá nóvember 2010 og felur í sér viðbót við frumrannsókn lögreglunnar á Höfn á vettvangi. Er aðstæðum á vettvangi þar einnig lýst í máli og myndum, auk uppdrátta af rýminu. Fram kemur að sýni, sem engin eldhvetjandi efni hafi fundist í, hafi verið tekin af gólfi þar sem veggurinn sem brann hafi verið.
Í skýrslunni eru m.a. raktar upplýsingar um mannaferðir í eða við vettvang. Kemur þar fram að við rannsókn málsins hafi komið í ljós að ákærði hafi verið ölvaður á ferð við vettvang, ásamt þremur öðrum aðilum, einungis um 40 mínútum áður en eldsins varð vart. Um aðrar mannaferðir er ekki getið.
Í skýrslunni er þess getið að ekki hafi verið hægt að læsa hurð hússins frá því í apríl 2010, heldur hafi steini verið komið fyrir við hurðina til að halda henni lokaðri.
Í skýrslunni er farið yfir upplýsingar lögreglu um hinn grunaða, þ.e. ákærða. Kemur þar m.a. fram að ákærði hafi áður orðið uppvís að íkveikjum og hlotið dóma fyrir slíkt og að hann hafi gjörþekkt húsnæðið. Tæpt er á framburði hans og vitna við skýrslutökur hjá lögreglu.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur m.a. fram að sé horft til rannsóknar á rafbúnaði (rafmagnstöflu, hljómflutningstækjum og kaffivél) í herbergi því sem eldsupptök hafi verið í, þá bendi allt til þess að um íkveikju hafi verið að ræða. Samantekið kemur fram að niðurstaða rannsóknarinnar sé sú að yfirgnæfandi líkur séu til þess að eldsupptök hafi verið vegna íkveikju og að ákærði hafi verið þar að verki.
Í málinu liggja fyrir afrit húsaleigusamninga ákærða um leigu á neðri hæð hússins að [...] um nokkurra mánaða skeið frá því síðla árs 2008 til loka aprílmánaðar 2009.
Meðal gagna málsins er bréf eldvarnareftirlits Austur-Skaftafellssýslu, dags. 8. mars 2010, til eiganda hússins að [...] um skoðun á ástandi brunavarna húsnæðisins, ásamt ljósmyndum teknum við það tækifæri og yfirliti yfir almennar upplýsingar um bygginguna. Kemur þar fram að ástand brunavarna í húsinu hafi með tilliti til til þriggja þátta, þ.e. lífs, eigna og umhverfis, á skalanum 0-5 verið metið 3 hvaða alla þrjá þættina varðaði, en sú ástandseinkunn er í skýrslunni skýrð sem „meðal hætta og/eða meðal líkur á óhappi“.
Þá liggur fyrir stutt skýrsla Friðriks Jónasar Friðrikssonar rafvirkjameistara, dags. 10. október 2010, um skoðun með lögreglunni á rafmagnstöflu og raflögnum vegna bruna í [...]. Um rafmagnstöfluna segir: „Taflan er greinatafla og er fyrir neðri hæð. Í henni voru nokkur einfasa sjálfvör og einn 4 póla lekaliði. Taflan var bráðnuð niður að mestu en hægt var að sjá að 10A. B Sjálfvar fyrir ljós á neðri hæð var útslegið. Einnig var lekaliði útsleginn. Við mælingu þá mældist yfir sjálfvarið og einn pólinn í lekaliðanum. Var taflan því næst klippt frá lögnunum og tekin niður til frekari skoðunar hjá Brunamálastofnun.“
Um raflagnir segir svo í skýrslunni: „Sjálfvarið sem útslegið var í töflunni lá í ljós og aðrar lagnir í vestur enda hússins, sem mest var brunnið. Lagnirnar þarna eru bæði innfelldar og utan á liggjandi og erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig þetta lá. Þær lagnir sem við sáum og voru heillegar voru t.d. lögn fyrir ofn sem er um 1000W en hann var tengdur með fjöltengi með rofa og telst lausataug. En það er bannað að tengja ofn með lausataug.
Miðað við það sem ég sá er ég hræddur um að raflagnir hafi ekki verið lagðar af fagmanni í þeim enda sem brann. Lagnir í lofti eru sennilega upprunalegar frá byggingu hússins. Rafmagn fór af öllu húsinu í brunanum því heimtaugin brann í sundur en hún lá í gegnum þann part af húsinu sem brann.“
Í málinu liggur fyrir yfirlit veðurathugana [...] og upplýsingaskýrsla lögreglu um niðurstöður veðurathugana. Kemur fram í þessum gögnum að umrædda nótt kl. 03:00 hafi vindhraði mælst 7 m/sek. suð-suð-austan og úrkoma undanfarnar 3 klukkustundur hafi mælst 1,4 mm/klst. Við næstu veðurathugun kl. 06:00 hafi mælst sami vindhraði og úrkoma ívið meiri, eða 1,9 mm/klst undanfarnar 3 klukkustundir. Lætur lögreglumaður sá sem ritar upplýsingaskýrsluna þess getið að er hann hafi komið á vettvang brunans kl. 04:45 hafi verið þétt úrkoma en lygnt í veðri, a.m.k. skjólgott við Heppuveg 1, og að sama sé að segja um veður kl. 02:00 sömu nótt, er vakt lögreglu lauk.
Að ósk ákæruvaldsins var hinn 22. febrúar 2011 dómkvaddur sem matsmaður Guðmundur Gunnarsson byggingaverkfræðingur, til þess að meta hvort almannahætta hafi skapast er kveikt var í fasteigninni að [...]. Var tekið fram í matsbeiðninni að ákærði væri grunaður um að hafa borið eld að húsinu en að hann hefði neitað allri sök.
Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns, dags. 12. september 2011, þar sem meginmálið telur 11 blaðsíður, er húsinu og byggingarefnum þess lýst, svo og brunanum samkvæmt útkallsskýrslum og upplýsingum sem matsmaður aflaði frá slökkviliðsstjóra sem stjórnaði aðgerðum. Meginefni matsgerðarinnar fjallar í ítarlegu máli um mögulegan bruna í húsinu og útbreiðslu til annarra húsa í grennd. Niðurstöðukafli matsgerðarinnar er svohljóðandi:
„Með vísan til ofanritaðs má telja öruggt að um sé að ræða eldsvoða í skilningi 164. gr. almennra hegningarlaga. Íkveikjan myndi þróast á þann veg að eldurinn myndi breiðast út frá upphafsstaðnum yfir í aðra brennanlega hluti í hillunum og í veggklæðninguna og síðan í aðra brennanlega hluti í kaffistofunni þannig að hún yrði alelda og myndi valda yfirgripsmikilli eyðileggingu á fasteigninni og á lausafé á hæðinni. Almannahætta hefur því verið til staðar vegna eigna af íkveikjunni. Þar sem húsið var mannlaust hefur engum verið bersýnilegur lífsháski búinn vegna íkveikjunnar í kaffistofunni og því ekki til staðar almannahætta gagnvart fólki.
Hætta var á að eldur og reykur bærust út um hurðir og glugga hússins og skemmdi það að utan og að reykur bærist upp á efri hæð hússins með óþéttleika með lögnum og ylli skemmdum þar. Því hefur verið hætta á að fjárhagsmunir færu forgörðum eða spilltust á efri hæð hússins en ekki hefur verið hætta fyrir líf manna og limi þar. Vegna aðskilnaðar hússins frá öðrum húsum hefur ekki verið hætta á að eldur bærist í þau. Ekki hefur verið almannahætta utan hússins [...], hvorki fyrir menn né eignir.“
Fleiri gögn liggja fyrir í málinu sem ekki eru efni til að rekja hér.
Með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 1. mars 2011 var hafnað kröfu lögreglustjórans á Eskifirði um að ákærði yrði látinn sæta geðrannsókn, en rannsókn málsins hjá lögreglu var þá ólokið.
Við aðalmeðferð málsins var gengið á vettvang í húsnæðinu að [...] á [...].
Framburðir ákærða og vitna
Hér verður rakið eftir þörfum úr framburði ákærða og vitna fyrir dómi, að því er varðar 1. lið ákærunnar. Verður jafnframt vikið að framburði þeirra hjá lögreglu eftir því sem tilefni þykir til.
Ákærði kvaðst umrædda nótt hafa verið að skemmta sér á [...] fram til um klukkan hálf þrjú, en staðnum sé lokað klukkan þrjú. Eftir það hafi hann verið á rúntinum ásamt I, H og G. Ekið hafi verið að göngunum undir [...], þar sem reykt hafi verið og síðan ekið aftur til [...]. Á rúntinum á [...] kvaðst ákærði hafa óskað eftir því að bifreiðin yrði stöðvuð svo hann gæti reykt og kastað af sér vatni, en reykingar hafi ekki verið leyfðar í bílnum. Kvaðst hann sjálfur hafa stungið upp á því að stoppað yrði við gömlu [...]. Rigningarsuddi hafi verið og þar hafi hann vitað að væri gott skjól.
Bifreiðin hafi verið stöðvuð í nokkurra metra fjarlægð frá húsinu og verið snúið þannig að afturendi hennar vísaði að horni við þá hlið hússins þar sem inngöngudyr er að finna. Kannaðist ákærði við að hafa beðið ökumann bifreiðarinnar, I, að snúa bifreiðinni þannig, enda hafi hann ætlað að létta á sér þar í horninu. Bifreiðin, sem hafi verið í hans eigu, sé sjö manna bíll af gerðinni [...] og sé með skyggðum rúðum að aftan. Ákærði kvaðst hafa setið hægra megin í aftursæti bifreiðarinnar og því farið út um dyr hægra megin á bifreiðinni. Hann kvaðst hafa verið með kveikjara í hendinni, kveikt sér í sígarettu um leið og hann kom út úr bifreiðinni og reikna með að hafa sett kveikjarann í vasann eftir það. Hann hafi gengið aftur fyrir bifreiðina, reykt eina sígarettu, kastað af sér vatni og svo farið aftur inn í bifreiðina. Ákærði neitaði því alfarið að hafa farið inn í húsið umrætt sinn.
Ákærði kvaðst telja sig hafa verið utan bifreiðarinnar í um það bil 5 mínútur og hafa kastað af sér vatni aðeins frá bílnum, í horninu við húsið. Hann hafi snúið baki í bifreiðina mest allan tímann sem hann var utan hennar. Hann hafi ekki blotnað mikið vegna rigningarsuddans, enda hafi verið gott skjól í horninu fyrir bæði vindi og regni. Hann hafi verið á því svæði allan tímann sem hann var utan við bifreiðina. Ágiskun sína um tímann kvaðst hann byggja á því að það taki yfirleitt um 5 mínútur að reykja eina sígarettu. Svartamyrkur hafi verið úti og birta frá ljósastaurum við veginn hafi ekki náð inn í portið. Aðspurður kvaðst ákærði vita að gönguhurð inn í húsnæðið hafi verið haldið lokaðri með steini og minnast þess að hurðin hafi umrætt sinn verið lokuð, þótt hann hafi ekki veitt steininum sérstaka eftirtekt.
Aðspurður kannaðist ákærði við að I hafi spurt hann hvar hann hafi verið er hann kom aftur inn í bifreiðina. Sagðist ákærði þá hafa setið í farþegasætinu aftur í bifreiðinni. Hafi hann bent aftur fyrir sig og sagst hafa verið þarna á bak við, en átt þá við hornið. Ákærði kvað það rangt sem fram hafi komið í framburði I hjá lögreglu að hann hafi sagt I er hann kom aftur inn í bifreiðina, að hann hefði farið fyrir horn hússins til að pissa.
Ákærði kvaðst hafa verið búinn að drekka áfengi frá því um tíuleytið um kvöldið, eða í um 6 klukkustundir, er hann fór út úr bifreiðinni við [...] og hafa þá verið töluvert drukkinn. Hann kvaðst ekki kunna sérstaka skýringu á framburði vitna hjá lögreglu um breytt atferli hans eftir að hann kom aftur inn í bifreiðina.
Aðspurður um mannaferðir kvaðst ákærði minnast einhverrar umferðar a.m.k. fram til þess tíma sem hann og samferðamenn hans héldu að göngunum. Hann kvaðst ekki hafa veitt neinum mannaferðum athygli er hann var við utan við [...].
Í framburði ákærða kom fram að hann hafi haft hluta húsnæðisins á leigu frá árinu 2005 til byrjunar árs 2010. Hafi hann smíðað kaffistofu í húsnæðinu ásamt öðrum manni á leigutímanum. Eftir að leigutíma hans lauk hafi hann tvisvar komið inn í húsnæðið, í bæði skiptin með leyfi þáverandi leigjanda, F, en ákærði kvaðst hafa geymt eitthvað af hlutum í húsnæðinu með leyfi hans. Fyrra skiptið hafi verið í mars eða apríl 2010 og hafi hann þá farið inn með lykli. Síðara skiptið hafi verið um mánaðamót ágúst og september sama ár, en þá hafi hann sótt þangað loftpressu sem hann hafi haft leyfi til að geyma í húsnæðinu. Þá hafi læsingin verið skemmd svo hann hafi ekki þurft lykil. Aðspurður um samskipti sín við F kvað hann þau hafa verið slæm á árum áður en í ágætu lagi í seinni tíð og ekkert óútkljáð á milli þeirra.
Ákærði kvaðst hafa vitað að inni í húsnæðinu væru helstu verðmæti tvær bifreiðar, þar á meðal [...] bifreið bótakrefjanda D. Sjálfur hafi hann átt einhver verðmæti þarna inni, m.a. hluti úr bifreiðum og verkfæri.
Aðspurður út í þá dóma sem hann hafi áður hlotið fyrir brennu kvaðst ákærði kannast við að hann hafi áður átt í vanda með reiði og áfengisneyslu, sem brotist hafi út með þessum hætti, en hann hafi játað sök í þessum málum. Hann kvaðst kannast við þær skýrslur um geðhagi hans sem lýst er í þessum dómum, en kvaðst ekki hafa átt í vanda með skapofsa af því tagi sem þar er lýst í mörg ár.
Ákærði gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu síðla kvölds sama dags og bruninn varð, þann 26. september 2010, í kjölfar handtöku og vistunar í fangaklefa. Aftur gaf hann skýrslu laust eftir miðnættið, 27. september 2010 og í þriðja sinn síðla þann sama dag. Framburður hans fyrir dómi er í öllum meginatriðum í samræmi við framburð hans við skýrslutökur hjá lögreglu, þótt einstök atriði hafi tekið breytingum milli skýrslugjafa hans þar. Fyrir dómi var ákærði beðinn um að skýra hvers vegna hann hafi breytt framburði sínum um tiltekin atriði milli skýrslugjafa hjá lögreglu. Nánar tiltekið var hann spurður hvers vegna hann hafi neitað því í upphafi hjá lögreglu að hafa beðið I að snúa bifreiðinni með tilteknum hætti og hvers vegna hann hafi sagst hafa notað lykil til að komast inn í húsnæðið um mánuði fyrir brunann. Gaf ákærði ekki neina sérstaka skýringu á fyrrnefnda atriðinu, aðra en að hann hafi ekki gefið I nákvæm fyrirmæli um það hvernig bifreiðinni skyldi lagt. Um síðara atriðið kvaðst hann hafa ruglað saman skiptum, en það hafi verið í fyrra skiptið sem hann fór inn í húsið sem hann hafi þurft lykil. Aðspurður um breytingar á mínútufjölda sem hann hafi talið sig utan bifreiðarinnar sagði ákærði um ágiskanir að ræða, hann hafi ekki verið að fylgjast með tímanum.
G, vinur ákærða, gaf skýrslu sem vitni fyrir dómi og kvaðst ekki muna vel eftir kvöldinu, enda verið talsvert ölvaður og langt um liðið, en telja sig hafa munað betur eftir atvikum þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins, daginn eftir brunann. Taldi hann ölvunarástand ákærða hafa verið svipað. Þeir ákærði hafi verið á rúntinum að drekka. I hafi verið ökumaður og H setið í farþegasæti frammi í bifreiðinni, en þeir ákærði í aftursæti, G fyrir aftan bílstjórasætið og ákærði aftan við farþegasætið. Að beiðni ákærða hafi verið stöðvað utan við [...], þar sem hann ætlaði að kasta af sér vatni. Ákærði hafi beðið bílstjórann að leggja bifreiðinni þannig að þau hin horfðu frá [...]. Á meðan ákærði var utan bifreiðarinnar hafi þau hin spjallað saman í bifreiðinni, en aldrei séð ákærða. Kvaðst G hafa talið ákærða hafa farið fyrir horn hússins. Eftir nokkra stund hafi ákærði komið aftur inn í bifreiðina og fljótlega eftir það hafi þau haldið heim á leið. Hann kvaðst ekki muna hver átti frumkvæðið að því að halda heim. Vitnið kvaðst hvorki vita hvenær þau voru utan við [...] né hvenær heim var komið.
G kvaðst minna að þau hafi öll litast um innan úr bifreiðinni eftir ákærða meðan hann var utan bifreiðarinnar en ekki séð hann. Kvaðst hann hafa horft út um afturrúðuna. Dimmt hafi verið og ákærði dökkklæddur og hann sagðist ekki viss um hvort hann hafi séð alla leið inn í hornið eða hvort hann hefði átt að geta séð ákærða. Kvaðst hann annars ekki hafa verið að fylgjast með ferðum ákærða utan við bifreiðina. Aðspurður hvort þeim hafi verið farið að lengja eftir ákærða sagðist G ekki telja það neitt sérstaklega, en sérstaklega aðspurður hvers vegna þau hafi þá farið að litast um eftir ákærða svaraði hann því til að kannski hafi honum fundist ákærði vera lengur utan við bifreiðina en það ætti að taka að pissa. Hann hafi ekki reiknað með því að ákærði væri einnig að reykja. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir neinum afgerandi breytingum á hátterni ákærða eftir að hann kom aftur inn í bifreiðina, en hann hafi kannski verið þögulli. Ekki kvaðst hann minnast þess að eitthvert þeirra hafi spurt ákærða út í ferðir hans er hann kom aftur inn í bifreiðina.
Vitnið kvaðst hafa vitað til þess að á þessum tíma hafi gönguhurð hússins einungis verið lokað með steini sem lagður hafi verið upp að hurðinni utanverðri og telja að svo hafi verið umrætt sinn, en ekki hafa veitt hurðinni því sérstaka eftirtekt umrætt sinn. H hafi minnst á það fyrr umrætt kvöld, er þau óku fram hjá húsinu, að lásinn væri ónýtur á þessari hurð.
Vitnið sagðist vita til þess að það hafi lengi verið óvild milli ákærða og F, leigjanda neðri hæðar [...], og ekki vita til þess að sá ágreiningur hafi verið jafnaður.
I gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst muna þokkalega eftir atvikum. Hann hafi verið á rúntinum ásamt ákærða, G og H, þegar ákærði hafi sagst þurfa að létta á sér og beðið um að stöðvað yrði utan við [...]. Hafi ákærði sagt honum að snúa bifreiðinni þannig að afturhlutinn sneri að inngönguhurð hússins, sem hann hafi gert. Ákærði hafi farið út úr bifreiðinni en á meðan hafi vitnið spjallað við hina farþegana, G og H og ekki fylgst sérstaklega með ákærða. Síðan hafi þeim farið að lengja eftir ákærða og litið aftur fyrir bílinn í gegnum afturrúðu en ekki séð hann. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hve lengi þau hafi spjallað. Vitnið tók fram að filmur væru í afturrúðum bifreiðarinnar. Þau hafi ekki farið út úr bifreiðinni til að litast um eftir ákærða. Það hafi sést alveg inn í skotið við húsið og honum hafi sýnst inngönguhurðin, vera opin, en ekki velt því frekar fyrir sér og ekki geta fullyrt neitt um þetta. Dimmt hafi verið og engin útiljós við húsið, en birta hafi borist að húsinu frá götuljósum í grenndinni. Kvaðst hann telja að hann hefði átt að sjá ákærða ef hann hefði verið þarna í skotinu. Aðspurður sagðist hann ekki muna hvort þau hafi spurt ákærða hvar hann hefði verið er hann kom aftur í bifreiðina. Eftir að ákærði kom aftur inn í bifreiðina hafi þau ekið nokkra hringi en síðan farið heim fljótlega eftir þetta. Þetta hafi verið milli 2 og 4 um nóttina og hann kvaðst telja að hann hafi verið kominn heim um fjögurleytið. Umrætt kvöld hafi verið ball á [...] sem lokið hafi um kl. 3 um nóttina, svo það hafi verið einhver umferð á rúntinum, einnig á þeim tíma er þau voru utan við [...]. Aðspurður kvaðst I minnast þess að fyrr um kvöldið hafi verið stoppað til að hleypa fólkinu út að reykja og ekki minnast þess að reykt hafi verið inni í bifreiðinni.
Vitnið bar um að vera kunningi ákærða, en ekki í miklum tengslum við hann.
H, bar fyrir dómi um að hafa umrætt sinn verið á rúntinum með I, G og ákærða, sem hún kvaðst kannast við í gegnum þá tvo fyrrnefndu. Ákærði hafi beðið I að stöðva bílinn við [...] svo hann gæti farið út að reykja. Ákærði hafi sagt I að snúa bifreiðinni þannig að afturendi hennar sneri að þeim vegg hússins þar sem inngönguhurðin er. Myrkur hafi verið og rigning umrætt sinn. Hún kvaðst ekki hafa fylgst með ákærða utan við bifreiðina og aldrei hafa séð hann þar, en ákærði hafi verið í um 10 til 15 mínútur utan við bifreiðina. Aðspurð út í þann framburð hennar hjá lögreglu að hún teldi ákærða hafa verið í 5-7 mínútur utan bifreiðarinnar, kvaðst hún telja sig hafa munað þetta betur er hún gaf skýrslu hjá lögreglu, en tók fram að þau hafi ekki verið að fylgjast sérstaklega með tímanum.
Aðspurð hvort hún hefði séð ákærða ef hann hefði verið á bak við bifreiðina, sagðist H telja að hún hefði þá átt að sjá glóð af sígarettunni hans. Henni hafi fundist hann lengur úti en það taki að reykja sígarettu, en þetta hafi hún ekki hugsað út í á staðnum heldur eftir á. Hún kvaðst ekki minnast þess að neitt þeirra hafi spurt ákærða hvað hann hafi verið að gera eða að það hafi komið til umræðu milli þeirra í bifreiðinni meðan ákærði var utan hennar. Hún kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort ákærði var blautur þegar hann kom inn í bifreiðina. Líklega hafi þetta verið um þrjúleytið um nóttina. Fljótlega, eða um 10 til 15 mínútum eftir að ákærði kom aftur inn í bifreiðina, hafi þau ákveðið að halda heim. Hún kvaðst ekki minnast þess að það hafi verið umferð annarra bifreiða á umræddum tíma. Hún kvaðst ekki hafa tekið eftir neinum breytingum á hátterni ákærða eftir að hann kom inn í bifreiðina.
Aðspurð kvað vitnið að reykt hafi verið inni í bifreiðinni jafnt sem utan hennar umrædda nótt. Hún kvaðst ekki viss hvað klukkan hafi verið er þau voru utan við [...] en það hafi verið orðið áliðið. Í lögregluskýrslu hennar kom fram að þau hafi verið utan við húsið um klukkan 3:30.
H kvaðst hafa drukkið tvo bjóra í byrjun kvöldsins en ekki verið undir áhrifum áfengis utan við [...]. Aðspurð kvaðst hún ekki minnast þess að hafa haft orð á því fyrr um kvöldið að læsing á hurð [...] væri skemmd. Aðspurð kvaðst H ekki hafa veitt inngönguhurðinni neina athygli og ekki því hvort hún hafi verið opin eða lokuð umrætt sinn.
Þau G, H og I gáfu öll tvívegis skýrslu hjá lögreglu, þ.e. 26. og 28. september 2010. Voru framburðir þeirra allra í meginatriðum í samræmi við skýrslur þeirra hjá lögreglu, en öll sögðust þau hafa munað atvik betur við skýrslugjöf hjá lögreglu.
D kvaðst fyrir dómi hafa leigt aðstöðu í [...] og verið þar með bifreið af gerðinni [...], auk verkfæra. Hann kvaðst hafa keypt bifreiðina fyrir 500.000 krónur, dekk fyrir sömu fjárhæð, og mótor fyrir 270.000 krónur og verið búinn að vinna mikið í bifreiðinni. Bifreiðin hafi verið ónýt eftir brunann og flakinu hafi hann afsalað til F. Bifreiðin hafi ekki verið brunatryggð. Verkfæri sem hann hafi verið með þarna hafi eyðilagst, bæði vegna elds og vatnstjóns. Húsnæðið hafi verið ónothæft eftir brunann og hann hætt að leigja það. Vitnið kvaðst hafa verið á [...] þegar bruninn varð og ekki muna hvenær hann hafi síðast verið í húsnæðinu fyrir brunann en telja það hafa verið um viku fyrr. Aðspurður hvaða rafmagnstæki hafi verið í kaffistofunni, kvað vitnið kaffivél sem þar var aldrei hafa verið notaða, en hljómflutningstæki í hillu á vegg til vinstri þegar gengið var inn, hafi verið notuð.
Vitnið kvaðst þekkja ákærða og ekki eiga neitt sökótt við hann. Hann kvaðst ekki vita til þess að nein illindi væru á milli ákærða og F, þótt svo hafi verið á árum áður.
Framburður D samræmist stuttri skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu 27. september 2010.
F kvaðst fyrir dómi hafa orðið fyrir tjóni vegna brunans í [...], þar sem hann hafi leigt aðstöðu. Hann hafi verið með tvær bifreiðar af gerðunum [...] og [...] þarna inni, auk mótorhjóls og fleiri muna, sem orðið hafi fyrir skemmdum. Hann kvaðst telja tjón sitt nema um 1.200.000 krónum.
F kvaðst hafa verið á [...] þegar bruninn varð en telja sig hafa verið í húsinu snemma í sömu viku. Hann bar á sama veg og D um að kaffivél í kaffistofunni hafi ekki verið notuð og ekki verið í sambandi, en að hljómflutningstæki hafi verið í sambandi.
Ákærði, sem leigt hafi húsnæðið á undan þeim D, hafi fengið að geyma einhverja hluti þarna inni. Læsing gönguhurðar hafi eyðilagst um páskana 2010. Ákærða hafi örugglega verið kunnugt um það, eins og mörgum öðrum á [...]. Vitnið kvaðst ekki minnast þess sérstaklega að ákærði hafi fengið leyfi hans til að sækja loftpressu í húsnæðið um mánuði fyrir brunann, en minnast þess að ákærði hafi í einhver skipti óskað leyfis til að sækja hluti í húsnæðið. Líklega hafi það verið eftir að læsing hurðarinnar skemmdist og ákærði því ekki þurft lykil til að komast inn.
Vitnið staðfesti að [...] bifreið D hafi gjöreyðilagst í brunanum.
Hann staðfesti einnig að einhver illindi hafi verið milli hans og ákærða, en það hafi verið fyrir um 12-13 árum og þeim deilum löngu lokið og allt í sátt á milli þeirra.
Framburður F fyrir dómi er í samræmi við skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu 27. september 2010, en hann kvaðst hafa munað atburði betur er hann gaf þá skýrslu.
Jóhann Hilmar Haraldsson og Einar Sigurjónsson lögreglumenn staðfestu fyrir dómi ódagsetta skýrslu sína um rannsókn sem þeir framkvæmdu á brunavettvangnum síðar sama dag og bruninn varð. Báðir kváðu þeir ljóst að upptök eldsins hafi verið í kaffistofu og hafi ummerki bent til þess að eldurinn hafi byrjað við suðurvegg, en sá veggur hafi alveg brunnið í burtu. Líklegast hafi verið talið að eldurinn hafi byrjað í viðarhillu sem sjá hafi mátt á myndum teknum nokkuð fyrir brunann inni á kaffistofunni, þ.e. í hillu sem staðið hafi nær hurðaropi inn á kaffistofuna. Hafi sú hilla verið alveg horfin, en hilla fjær hurðaropinu hafi verið minna brunnin. Í gólfinu og lofti við þennan stað hafi verið ummerki um mun meiri hitamyndun en annars staðar í kaffistofunni. Brunaferlar hafi síðan sýnt hvernig eldurinn hafi breiðst um kaffistofuna. Um raftæki í grennd við þennan stað hafi verið upplýst um kaffivél og hljómflutningstæki, sem send hafi verið í rannsókn. Um lítil raftæki hafi verið að ræða og komið fram að kaffivélin hafi ekki verið í sambandi. Því hafi verið farið að huga að öðrum mögulegum orsökum brunans. Ásamt lögreglumönnum hafi rafvirki verið fenginn til að skoða brunavettvang, en hann hafi ekki viljað fullyrða um orsakir brunans á staðnum. Grunur hafi farið að beinast að íkveikju seinni part dagsins. Þar sem vitað hafi verið að ákærði hafi verið á ferli umrædda nótt og lögregla þekkti hans sögu, hafi verið ákveðið spyrja hann út í ferðir hans. Fram hafi komið hjá ákærða að hann hafi um nóttina kastað af sér vatni utan í húsið. Í framhaldinu hafi verið rætt við samferðarmenn ákærða og hafi grunur lögreglu á hendur ákærða styrkst við það og hann verið handtekinn vegna rannsóknar málsins.
Vitnin staðfestu að eignatjón hafi orðið í rýminu umhverfis kaffistofuna, þar sem mikill hiti virtist hafa myndast og loftljós m.a. bráðnað og lekið yfir bifreiðar þar inni. Verkfæri hafi einnig verið skemmd.
Við spurningum um hvort rannsóknin hafi leitt í ljós af hvaða ástæðum kviknað hafi í, komu fram þau svör hjá vitnunum að rannsóknin hafi ekki leitt orsök brunans í ljós með óyggjandi hætti, en ekkert hafi bent til þess að kviknað hafi í út frá rafmagni. Væru því mestar líkur á því að kviknað hafi í af mannavöldum. Þá kom fram að vatnsinntak í rými í grennd við kaffistofuna hafi sprungið í brunanum, vatn frussast þar út og að þetta væri talið hafa getað hægt á þróun brunans.
Í framburði Einars Sigurjónssonar kom fram að hann hafa verið á vakt um nóttina og verið á ferð um bæinn til kl. 2 og þá orðið var við ákærða. Er útkallið barst hafi hann komið á vettvang rétt á eftir slökkviliði, sem hafi verið að búast til inngöngu er hann kom að. Hafi þá blasað við honum að göngudyr inn í húsnæðið féllu ekki að stöfum. Myrkur hafi verið en ágætis skíma inn í skotið við dyrnar frá götuljósum. Mikinn reyk hafi lagt út um op á húsinu en enginn eldur sést fyrr en slökkviliðið opnaði betur inn í húsið, en þá hafi sést skíma frá eldi innar í húsinu. Einar kvað lögreglu hafa lagt mikla áherslu á að rannsaka mannaferðir við húsið um nóttina, en að sú rannsókn hafi ekki leitt neitt í ljós.
Lögreglumennirnir lýstu báðir reynslu sinni af vettvangsrannsóknum vegna bruna.
Guðmundur Gunnarsson verkfræðingur, sem dómkvaddur var sem matsmaður til að meta almannahættu, gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti matsgerð sína, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að um eldsvoða hafi verið að ræða og almannahættu hvað tjón á eignum snertir. Í framburði hans kom fram að eldurinn hafi eytt öllu í kaffistofunni og að flestir munir á hæðinni hafi skemmst af hita og reyk. Þá sé hætt við því að burðarkerfi hússins hafi veikst fyrir ofan kaffistofuna þar sem eldur hafi verið mestur, en þar sjáist á hluta í ber steypustyrktarjárnin. Auk þess hafi verið hætt við reykskemmdum á efri hæð hússins vegna óþéttleika með lögnum milli hæða, en á efri hæðinni hafi hjólhýsi og fleiri ferðavagnar verið geymdir.
Guðmundur kvaðst hafa lagt til grundvallar í sinni matsgerð þá niðurstöðu lögreglu að um íkveikju hafi verið að ræða, en kvað það atriði, hvort upptök brunans hafi verið af mannavöldum eða ekki, engin áhrif hafa á niðurstöðu sína um almannahættu
Aðspurður hvort hann hafi lagt sjálfstætt mat á niðurstöðu lögreglu að um íkveikju væri að ræða, enda þótt hlutverk hans sem matsmanns hafi ekki verið að meta orsakir eldsvoðans, kvaðst hann ekki hafa rekið augun í neitt annað sem útskýrt gæti orsök brunans. Goskælir hafi verið hinum megin veggjarins, en hann hafi bráðnað yfir vegginn í átt að kaffistofunni sem bendi til að hitinn hafi komið þaðan en ekki frá kælinum. Þá kvaðst hann sammála lögreglu um upptakastað brunans. Hann kvaðst ekki hafa séð neitt sem bent hafi til þess að kviknað hafi í út frá rafmagni. Þá lægi ekkert fyrir í þeim gögnum sem hann hefði undir höndum sem benti til þess að á þessum stað í húsnæðinu hafi verið efni sem leitt hefðu getað til sjálfsíkveikju, en slíkur bruni hafi yfirleitt langan aðdraganda með miklu reykjarmagni og því líklegt að slíkur bruni hefði uppgötvast áður en eldurinn kæmist á það stig sem raun bar á. Hann kvaðst ekki telja vatn frá sprungnu vatnsinntaki hafa hægt á þróun eldsins nema vatn hefði beinlínis sprautast á eldinn. Vatnið hefði líklega helst hafa getað haft áhrif á glóð í gólfi en eldurinn hafi mestur verið uppi við. Aðspurður um mat sitt á því í hve langan tíma eldurinn kynni að hafa logað áður en slökkvilið kom á staðinn kvaðst hann telja þennan eld a.m.k. hafa logað í 20-30 mínútur, þ.e. eftir að hann var kominn vel af stað.
Aðspurður hvort raflagnir gætu hugsanlega skýrt upptök brunans, kvaðst hann ekki hafa gert nákvæma skoðun á þeim, en ekki hafa séð neinar raflagnir á þessum stað sem hefðu getað skýrt brunann. Aðspurður hvort og þá að hvaða leyti skoðun hans á vettvangi hefði verið frábrugðin ef hann hefði annast rannsókn á upptökum eldsins, sagði hann að hann hefði þá komið fyrr að vettvangnum og rannsakað raflagnir betur, en ekkert væri þó að hans mati út á rannsókn lögreglu að setja.
Guðmundur kvað algengustu orsök bruna vera íkveikjur frá rafmagnstækjum. Þarna hafi ekki verið neitt rafmagnstæki sem ekki hafi verið útilokað og þar af leiðandi taki hann undir þá niðurstöðu lögreglu að íkveikja sé nærtækasta skýringin.
Elvar Óskarsson lögreglufulltrúi gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti skýrslu sem hann vann um rannsókn brunavettvangs í nóvember 2010. Hann lýsti þekkingu sinni og reynslu við rannsóknir lögreglu á upptökum bruna og kvaðst sem lögreglumaður hafa komið að rannsókn fjölda brunamála. Kvaðst hann hafa komið á vettvang um miðjan dag, sama dag og bruninn átti sér stað. Hann lýsti ummerkjum á vettvangi sem styddu samhljóða niðurstöðu hans og lögreglumannanna tveggja sem einnig rannsökuðu vettvanginn, um að upptök brunans hafi verið við suðurvegg kaffistofunnar. Hann kvaðst engin ummerki hafa séð sem bent gætu til þess að kviknað hafi í út frá raflögnum, en benti á að hann væri ekki menntaður rafvirki. Hann kvaðst ekki hafa fundið neitt sem skýrt gæti orsakir brunans annað en íkveikju af mannavöldum.
Borgþór Freysteinsson eldvarnareftirlitsmaður lýsti fyrir dómi niðurstöðum úttektar sinnar og athugasemdum sem hann gerði við brunavarnir í húsinu að [...] með bréfi til eiganda þess, dags. 8. mars 2010. Vitnið kvaðst vera menntaður slökkviliðsmaður en ekki hafa menntun á sviði rafvirkjunar. Kom fram að athugasemdir hans hafi m.a. lotið að því að enginn björgunarbúnaður væri til staðar í húsinu ef til bruna kæmi, t.d. slökkvitæki, neyðarlýsing o.þ.h. Athugasemdir sem gerðar hafi verið við byggingarefni hússins hafi einnig verið settar fram vegna hættu ef til bruna kæmi. Aðspurður um athugasemdir sem fram koma í bréfinu við rafmagn í húsinu, kvaðst hann gert athugasemdir við það sem hann hafi séð „sjónrænt“, þ.e. hangandi rafmagnskapla t.d. úr loftljósum víða í rýminu. Hann hafi talið slíkt gefa tilefni til að gera athugasemd við frágang rafmagns, enda sé slíkur frágangur almennt varhugaverður, þótt hann hafi ekki álitið sérstaka eldhættu stafa af þessu. Aðspurður um athugasemd við rafmagns- og gasofna sem notaðir séu til kynda húsið undir liðnum „sérstök íkveikjuhætta“ í yfirliti um almennar upplýsingar um bygginguna, kvað hann aðra kyndingu ekki vera í húsinu og að hann hafi viljað vekja athygli á því að umgangast ætti slíka ofna af varúð og t.d. ekki hafa kveikt á þeim að næturlagi.
Steinþór Hafsteinsson slökkviliðsstjóri gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti aðkomu slökkviliðs að brunanum. Tilkynnt hafi verið um mikinn reyk og brunalykt frá húsinu. Tveir reykkafarar hafi farið inn í húsið um gönguhurð á neðri hæð, sem hafi opnað stóra flekahurð við hlið hennar og þá hafi sést að eldurinn var bundinn við afmarkað rými, þ.e. kaffistofuna, en hæðin öll full af reyk og hita. Vel hafi gengið að slökkva eldinn og hafi það tekist á skömmum tíma. Vitnið kvaðst ekki vita hvort gönguhurðin hafi verið opin eða lokuð er að var komið. Hann kvaðst telja eldinn hafa kraumað í einhvern tíma út frá þeim hita sem auðsætt sé að hafi myndast en ekki sé gott að segja hve lengi. Rofið vatnsinntak hafi hjálpað til við kælingu og líklega haft áhrif á þróun brunans þótt hann gæti ekki sagt til um hvort þetta hafi hægt á brunanum.
Vitnið kvaðst ekki hafa skoðað vettvang með tilliti til þess hvar upptök hans hafi átt sér stað. Athugasemd í útkallsskýrslu slökkviliðsins, sem liggur fyrir í málinu, um að um hafi verið að ræða rafmagnsbilun í kaffivél eða íkveikju í kringum hana, sagði hann komna frá Borgþóri Freysteinssyni, sem gert hafi skýrsluna.
Aðspurður um tjón í húsnæðinu kvað hann bifreiðar í rýminu hafi verið illa farnar af brunanum, sem og verkfæri. Allt plast hafi t.d. bráðnað vegna hitans. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við nein efni sem hefðu getað valdið sjálfsíkveikju.
Friðrik Jónas Friðriksson rafvirkjameistari gaf skýrslu fyrir dómi og bar um aðkomu sína að vettvangsrannsókn lögreglu. Hann kvað raflagnir hafa verið á veggjum í því rými þar sem eldurinn var talinn hafi komið upp í, en raflagnir þar hafi ekki verið alveg lögum samkvæmt, þar sem mikið hafi verið um lausataugar og framlengingarsnúrur. Hafi rafmagnsofnar til dæmis verið þannig tengdir. Hann kvaðst ekki hafa séð neitt sem benti til þess að kviknað hafi í út frá rafmagni frekar en öðru. Rafmagnstaflan hafi ekki verið inni í kaffistofunni heldur í rýminu utan við hana, hún hafi verið tekin niður og send í heilu lagi til rannsóknar.
Vitnið útskýrði hvernig kviknað geti í út frá rafmagni, bæði búnaði og leiðslum. Yfirleitt þurfi eitthvert raftæki að vera í sambandi til að hitamyndun geti orðið í snúrum. Það sem hafi komið vitninu mest á óvart á staðnum hafi verið að ofnar hafi verið tengdir við rafmagn með framlengingarsnúrum, en það sé ekki heimilt eða í samræmi við reglur þar sem slíkir ofnar taki mikið rafmagn. Hætta geti fylgt snúrum sem liggi á jörðinni. Þær lagnir sem hann hafi séð hafi verið heillegar. Ofn í kaffistofunni hafi verið tengdur rafmagni úr töflunni innar í húsinu með a.m.k. einu fjöltengi sem lá á gólfinu. Aðspurður hvort kviknað hafi getað í lögninni á þessari leið kvaðst vitnið ekki hafa rannsakað eldsupptök heldur hafa verið fenginn til að staðfesta hvernig leiðslur lágu. Hann kvað raunar meiri líkur á því að kviknaði í fjöltengi eða rafmagnssnúrum heldur sjálfu rafmagnstækinu. Í rafmagnssnúru gæti kviknað ef það væri skemmd á henni þannig að t.d. raki eða óhreinindi kæmust að vírunum, þá gæti þar myndast hringrás rafmagns og þar með hitamyndun sem gæti valdið íkveikju. Vitnið staðfesti staðsetningu rafmagnstöflu út frá uppdrætti af húsnæðinu og lýsti því jafnframt hvernig snúran úr ofninum hafi legið að töflunni, en hún hafi þó verið brunnin í sundur við þann stað þar sem hurðarop kaffistofunnar hafi verið. Taldi vitnið ekki ólíklegt að snúran hafi legið í gegnum hurðaropið, enda ólíklegt að haft sé fyrir því að bora í gegnum veggi til að leiða lausataugar eins og fjöltengi inn í rýmið. Önnur rafmagnstæki en þessi ofn, kaffikannan og hljómflutningstækin hafi ekki greinst í rústum kaffistofunnar.
J kvaðst við skýrslugjöf fyrir dómi hafa komið að smíði kaffistofunnar ásamt ákærða á sínum tíma. Smíðað hafi verið úr mótatimbri og klætt með krossviði, utan þess að gluggi hafi verið á einum stað á vegg kaffistofunnar. Hann kvaðst hafa nýtt hluta af húsinu með leyfi ákærða. J kvaðst ekki skólagenginn í rafmagnsfræðum en hafa unnið með rafvirkjum og telja sig hafa vit á rafmagni. Hann kvaðst hafa lagt utan á liggjandi rafmagn í 2-3 dósir, þ.e. innstungur, en síðan hafi þær verið tengdar í rafmagn í útvegg kaffistofunnar. Rafmagn í húsinu hafi verið misgamalt og misjafnlega á sig komið. Nokkuð hafi verið um útslátt frá þriggja fasa tengli í grennd við rafmagnstöfluna í rýminu utan við kaffistofuna. Vitnið tók fram að útveggur kaffistofunnar hafi míglekið þegar rigndi. Hann kvaðst hafa verið löngu hættur að nota aðstöðuna þegar ákærði hætti að leigja húsnæðið. Aðspurður kvaðst hann hafa þekkt ákærða frá fermingaraldri.
Sigurður Guðnason lögreglumaður kvaðst fyrir dómi hafa komið með mjög takmörkuðum hætti að vettvangsrannsókn málsins. Ekki er þörf á að rekja hér frekar úr framburði hans.
II
Ákæruliðir 2.- 4.
Í skýrslu sýslumannsins á Eskifirði um upphaf máls og fyrstu rannsóknaraðgerðir, dags. 1. nóvember 2011, kemur fram að lögreglu hafi hinn 19. október s.á. borist beiðni félagsmálayfirvalda á Höfn í Hornafirði um rannsókn á ætluðu kynferðisbroti gegn 16 ára gamalli stúlku, A. Í þeirri beiðni, sem er meðal gagna málsins, er atvikum lýst svo að þau hafi átt sér stað síðast liðið laugardagskvöld í sumarbústað að [...] í [...], þangað sem ákærði muni hafa boðið A og nokkrum piltum á hennar aldri. Muni ákærði hafa veitt þar ungmennunum áfengi og farið með þeim í heitan pott, þar sem hann hafi ítrekað leitað á A, káfað á henni innan klæða og reynt að kyssa hana. Þá hafi hann ítrekað reynt að fá A afsíðis og sent henni SMS-skilaboð um að hann vildi meira. Hafi þetta orðið til þess að ungmennin yfirgáfu bústaðinn. Fram kemur í beiðinni að ungmennin hafi drukkið töluvert og að einn piltanna a.m.k. verið orðinn ofurölvi en einn þeirra allsgáður, enda ökumaður kvöldsins.
Í beiðninni greinir að svo virðist sem ákærði hafi sótt fast að A að koma í bústaðinn þetta kvöld og hafi boðið henni áfengi í SMS-skilaboðum sem hann hafi sent henni fyrir ferðina. Sé talið að ákærði hafi, í krafti aldurs- og stærðarmunar, reynt að misnota aðstöðumun þeirra og koma fram vilja sínum gagnvart stúlkunni.
Í málinu liggja fyrir ljósmyndir teknar utan við og innandyra í umræddum sumarbústað, þ.á m. af heitum potti á palli við bústaðinn, sem bæði eru teknar í birtu og í myrkri en með útiljós við inngöngudyr kveikt.
Þá liggja fyrir ljósmyndir lögreglu teknar af skjá síma A sem sýna SMS-skilaboð milli símanúmers hennar og símanúmers ákærða, umræddan dag, 15. október 2011, og allt að mánuði fyrr. Meðal þeirra eru eftirfarandi skilaboð, öll frá 15. október 2011:
„Ég á 8 egils sterka 1 líter af rommi og 500 ml af topas sem ég er til í að deila með mér.“
„Nuna eru 7 egils eftir hvað er nr hjá B?“
„O vá tu ert med fullkomnar varir og tungan nammi namm mig langar i meira. Langar tig i meira?“
Enn fremur liggja fyrir í málinu tvær greinargerðir sérfræðinga um andlegt og líkamlegt heilsufar stúlkunnar A. Í greinargerð Margrétar K. Magnúsdóttur, sálfræðings í Barnahúsi, dags. 8. maí 2012, kemur m.a. fram að móðir stúlkunnar telji hana glíma við víðtækan vanda og hafi talsverðar áhyggjur af henni. Hafi komið fram í viðtölum við stúlkuna að félagsleg staða hennar sé ekki góð og hafi ekki verið það síðan hún flutti á [...] árið 2003. Hún hafi verið lögð í einelti af stúlkum en eigi þrjá stráka að vinum sem verið hafi með henni umrætt kvöld þegar meint atvik hafi átt sér stað. Fram hafi komið hjá A að hún sé „skíthrædd“ við ákærða, án þess að geta skilgreint nákvæmlega hvað hún óttist. Er í greinargerðinni lýst atviki þar sem stúlkan hafi séð ákærða í verslun og viðbrögðum hennar við því. Þá segir í greinargerðinni að í viðtölum við stúlkuna hafi komið fram að um 13 ára aldur hafi hún lent í því að vera misboðið kynferðislega af 17 ára dreng sem hún hafi talið sig hrifna af. Það mál hafi verið kært á móti vilja hennar en verið fellt niður. Hún hafi orðið fyrir aðkasti sökum þess og m.a. verið kölluð lygari og fleira þaðan af verra.
Í niðurlagi greinargerðarinnar, þar sem er að finna samantekt og álit sálfræðingsins, segir:
„A er 17 ára gömul og er útlit og þroski í samræmi við aldur. A hefur mætt í fjögur viðtöl til undirritaðrar frá 16. nóvember 2011 þar til nú. Viðtölin hafa farið fram í heimabyggð stúlkunnar á [...]. Upplýsinga um líðan hennar hefur verið aflað í viðtölunum, með sjálfsmatskvörðum sem hún hefur svarað og með samtölum við móður.
Eins og fram kom hjá móður og stúlkunni sjálfri hefur henni alls ekki liðið vel síðan meint atvik átti sér stað. Eins og minnst var á hér að ofan virkaði A í byrjun svolítið eins og dofin tilfinningalega, sem sýnir sig í því að hún á erfitt með að lýsa líðan sinni og tilfinningum. En það er einmitt hluti af meðferðinni að bera kennsl á tilfinningar sínar og ná tökum á þeim. Þessi vanlíðan sem mæðgurnar tala um er í samræmi við niðurstöður sjálfsmatskvarða sem A svaraði. Þar kemur fram lágt sjálfsmat, þunglyndi, streitueinkenni og mikill kvíði, þrátt fyrir það að stúlkan er á kvíðalyfjum. Það er sömuleiðis gott samræmi milli niðurstaðna sjálfsmatskvarðanna.
Eins og algengt er meðal þolenda kynferðisbrota, þá finnst A hún bera á vissan hátt ábyrgð á því sem gerðist og nefnir því til stuðnings að hún hafi farið í sumarbústaðinn. Viðbrögð hennar nánustu (móður og stjúpa) staðfesta því miður þá (rang)hugmynd hennar þar sem hún er sett í „straff“ fyrir að hafa óhlýðnast þeim. Slíkri ábyrgð fylgir sektarkennd og skömm sem eru erfiðar tilfinningar að eiga við. Þetta viðhorf A kemur þó ekki á óvart miðað við fyrri reynslu hennar og í ljósi þess hve sjálfsmynd hennar er brotin og sjálfsmatið lágt. Því eins og fyrr segir þá er þetta algengt viðhorf meðal þolenda kynferðisbrota.
Þó svo að meint kynferðisáreitni sem A kveðst hafa orðið fyrir í október 2011 sé e.t.v. ekki efst á alvarleikakvarða þá var ásetningur meints geranda skýr í huga A og þakkar hún nærveru vina sinna að ekki fór verr.
Erfitt er að segja til um langtímaafleiðingar meints brots fyrir stúlkuna. Það er þó þekkt að endurtekin áföll af þessu tagi gera alla úrvinnslu erfiðari þar sem þau ýfa upp og styrkja ranghugmyndir tengdar sjálfsmynd og sjálfsmati. Lágt sjálfsmat er nokkuð sem á það til að fylgja fólki í gegnum lífið og getur haft mikil áhrif á lífsgæði fólks ef ekkert er að gert. A sækir enn viðtöl til undirritaðrar.“
Í greinargerð Helga Garðars Garðarssonar geðlæknis og Rögnu Kristmundsdóttur sérfræðings í hjúkrun, dags. 30. maí 2012, er lífshlaupi stúlkunnar A lýst, sem og líkamlegu heilsufari hennar og fyrri geðsjúkrasögu. Um núverandi geðrænt ástand hennar kemur fram í vottorðinu að A hafi komið í bráðaviðtal á göngudeild BUGL þann 23. mars 2012, að beiðni heilsugæslulæknis. Hafi tilgangur viðtalsins verið að meta geðrænt ástand hennar, en áhyggjur hafi vaknað af því að hún glímdi við alvarleg geðræn einkenni. Í framhaldi af bráðaviðtalinu hafi stúlkan verið lögð inn til nánari athugunar á legudeild unglinga á BUGL. Hún hafi útskrifast þremur dögum síðar, en sé á biðlista eftir lengri innlögn. Í vottorðinu segir að eftir meint brot ákærða hafi stúlkan hafi endurupplifanir af þeirri reynslu og upplifað mikinn ótta. Hún hafi m.a. ekki getað verið ein heima hjá sér og eigi erfitt með að sinna athöfnum daglegs lífs. Ætla megi að ætluð brot hafi haft mjög skaðleg áhrif á stúlkuna, sem fyrir hafi glímt við kvíða, tilfinningalegan óstöðugleika og áfallastreituröskun. Í niðurlagi vottorðsins er í samantekt lýst rótleysi og áföllum í uppvexti stúlkunnar. Síðan segir þar: „Ætla má að meint brot sem nú er til meðferðar hafi valdið henni auknum skaða og flækt áfallastreituröskun hennar. Bæði klínísk reynsla og rannsóknir segja okkur að einstaklingar sem hafa upplifað endurtekin áföll í sínum uppvexti eru líklegri en aðrir til að verða fyrri erfiðri lífsreynslu síðar á lífsleiðinni, og hafa verri forsendur til að vinna úr henni. Þetta gerir það að verkum að afleiðingar brots eins og hér um ræðir geta orðið enn alvarlegri en ella. A mun þurfa margra ára meðferð til að vinna úr sínum áföllum, sem munu væntanlega hafa áhrif á hennar líf um ófyrirsjáanlega framtíð. Afar mikilvægt er að tryggja henni bestu mögulegu meðferðarúrræði, og samfélaginu ber skylda til að aðstoða hana í þeim efnum.“
Framburðir ákærða og vitna:
Hér verða framburðir ákærða og vitna fyrir dómi varðandi ákæruliði 2.-4 raktir eftir því sem þurfa þykir og eftir atvikum fjallað um framburð þeirra hjá lögreglu.
Ákærði kvaðst hafa verið einn að drekka áfengi í sumarbústaðnum sem hann hafði á leigu umrædda helgi. Hafi hann átt von á heimsókn nafngreinds fólks, sem hafi síðan ekki komist. Hafi hann þá hringt í K, sem hafi sagst vera upptekinn og ekki ætla að koma.
Því næst kvaðst ákærði hafa hringt í A. Hún hafi í fyrstu lítið gefið út á það að koma og borið því við að hún hefði ekki far með neinum. Þau A, B, C og K hafi svo birst í bústaðnum klukkustund síðar. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa beðið K að aka krökkunum upp eftir. Þau hafi áður ýjað að því að þeim langaði að heimsækja hann einhvern tímann í bústaðinn, en ekki endilega þetta kvöld.
Ákærði sagðist hafa vitað að A væri 16 ára gömul. Aðspurður hvort honum hafi þótt eðlilegt að bjóða svo ungum krökkum upp í sumarbústað þar sem hann var að drekka sagðist ákærða hafa fundist það í lagi á þeim tíma. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa langað til að fá A eina í heimsókn, en viljað fá einhvern félagsskap.
Ákærði lýsti atvikum í bústaðnum svo að þau hafi í fyrstu setið í stofu og spjallað. Ákærði hafi verið að drekka áfengi og verið orðinn nokkuð ölvaður. Þau hin hafi verið að drekka úr einhverjum flöskum sem þau hafi haft með sér. Ákærði kvaðst hafa boðið þeim upp á snakk og gos en neitaði að hafa boðið þeim áfengi og kvað ungmennin ljúga því. Sérstaklega aðspurður af verjanda neitaði hann að hafa gefið A áfengispela. Aðspurður hvort hann hafi orðið var við áfengisáhrif á þeim játaði hann því og sagðist hafa fundið áfengislykt af þeim. Ákærði kvaðst vita til þess að ungmennin hafi verið farin að neyta áfengis fyrir umrætt kvöld.
Ákærða voru sýndar ljósmyndir sem lögregla tók af SMS-skilaboðum í síma A. Kannaðist hann við símanúmer sendanda sem sitt eigið og rengdi ekki að skilaboðin væru frá honum komin. Skilaboðin „Ég á 8 egils sterka 1 líter af rommi og 500 ml af topas sem ég er til í að deila með mér“ kvaðst ákærði hafa sent A fyrir mistök og hafa sent réttum aðila, sem ákærði nafngreindi, skilaboðin skömmu áður eða á eftir. Ákærði sagði fyrri hluti skilaboðanna „Nuna eru 7 egils eftir hvað er nr hjá B?“ hafa átt að fara til sama manns og að það hafi einungis verið ætlun hans að senda A seinni hluta skilaboðanna.
Ákærði kvaðst síðan hafa boðið ungmennunum í heitan pott. Í pottinum hafi þau spjallað saman og ekkert merkilegt hafi gerst þar. Aðspurður hvort hann hafi snert A sagðist ákærði hafa nuddað á henni tærnar eins og hann hafi einnig gert við aðra viðstadda. Hann neitaði að hafa káfað á kynfærum hennar. Aðspurður af verjanda neitaði hann því einnig að hafa káfað á brjóstum hennar. Hann kvað vitni sem segðu hann hafa farið með hönd í klof hennar ljúga því. Aðspurður hvort hann vissi til þess að vitnin hefðu tilefni til þess að ljúga slíkum sökum upp á hann sagði ákærði telja að vitnin bæru með þessum hætti þar sem þau tækju afstöðu með stúlkunni.
Ákærði lýsti staðsetningu hvers og eins í pottinum, þannig að hann hafi setið í einu horni pottsins og í rangsælis hring frá honum talið hafi A setið í næsta horni við hlið hans, K beint á móti henni, B við hlið hans og í horni honum við hlið og gegnt ákærða hafi setið C.
Þau hin hafi farið á undan honum upp úr pottinum. A hafi farið inn um dyrnar og hann hafi séð hana fara úr toppnum og fara inn í herbergi hans. Um tveimur mínútum síðar hafi ákærði farið á eftir henni inn í herbergið til að athuga hvað hún væri að gera inni í herberginu. Þar hafi hún staðið og verið að horfa á hans hluti. Hann hafi spurt hana hvað hún væri að gera. Hún hafi sagst bara vera að skoða. Ákærði neitaði því alfarið að nokkuð kynferðislegt hafi gerst í herberginu, þ.á m. að hann hafi kysst eða reynt að kyssa A og sagst vilja ríða henni. Aðspurður hvort hann hafi beðið hana að koma með sér inn í herbergið, sagðist ákærði hafa nefnt það við hana nokkru fyrr, úti í pottinum, að hann vildi eiga orð við hana, en kvaðst ekki muna hvað hann hafi ætlað að segja henni.
Ákærði kvaðst aðspurður kannast við að hafa sent A SMS-skilaboð eftir að hún og félagar hennar höfðu yfirgefið bústaðinn, þ.e. skilaboðin: „O vá tu ert med fullkomnar varir og tungan nammi namm mig langar i meira. Langar tig i meira?“ Þessi skilaboð kvaðst ákærði hafa sent A fyrir mistök, en þau hafi átt að fara til B, sem ákærði kvaðst hafa kysst í pottinum. Hafi það verið ætlun hans að ganga fram af B vegna þess atviks.
Aðspurður hvort ungmennin hafi eitthvað umgengist áfengi hans kvaðst ákærði hafa beðið C tvisvar til þrisvar sinnum um að blanda fyrir sig áfengi í glas. Kom fram að ákærði hafi m.a. hafa farið upp úr pottinum til að sýna C hvernig ætti að blanda drykkinn og að í eitt skipti hafi C misst drykk í gólfið. Þau hin hafi líka öðru hvoru farið upp úr pottinum.
Ákærði kvaðst hafa farið með 8 Egils sterka bjóra í bústaðinn og drukkið 4-5 af þeim, töluvert úr Tópas-pelanum, en 3-4 glös af rommblöndu hafi hann drukkið, en heim hafi hann komið með afganginn af romminu, Tópas-pelanum og eitthvað af bjór. Rommið hafi verið frekar sterkt.
Ákærði kvað kynni með þeim A hafa tekist þannig að hún og B hafi stundum heimsótt K í vinnuna, en þeir K vinni á sama vinnustað. Áður kvaðst hann hafa vitað af henni, þar sem hann þekki til fósturföður hennar.
Aðspurður um aðstæður við pottinn sagði ákærði að það hafi verið dimmt úti, ljós ofan í pottinum hafi ekki verið kveikt og loftbólur hafi myndast vegna nuddkerfis sem hafi verið í gangi. Lýsing hafi borist frá loftljósi aðeins frá, en ljós hafi ekki verið beint yfir pottinum. Kveikt hafi verið á ljósum inni í bústaðnum en gluggatjöld dregin fyrir.
Ákærði kvaðst aðspurður hafa skynjað að eitthvað kynferðislegt væri í gangi milli ungmennanna. Sjálfur hafi hann litið á hana sem krakka og ekki haft neinar kynferðislegar langanir til hennar.
Aðspurður hvort hann vissi til þess að S hefði einhverja ástæðu til að bera upp á hann sakir gegn betri vitund svaraði ákærði því til að hann hafi á árum áður verið í neyslu og afbrotum með fósturföður S, en vinskapur þeirra hafi slitnað síðar. Hann kvað S sjálfa aldrei hafa sýnt honum annað en vinsamlegheit er þau hittust á vinnustað hans og að samskipti þeirra fyrir atburðinn hafi verið góð.
Ákærði kvað þau hafa setið í pottinum frá því milli klukkan níu og hálftíu og farið upp úr rétt um miðnætti. Kveikt hafi verið á nuddi í pottinum meira eða minna allan tímann, en það slokkni á því inn á milli og sé hægt að kveikja á því aftur á stjórnborði við pottinum.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna þessa þáttar málsins 20. nóvember 2011. Er framangreind SMS-skilaboð voru borin undir ákærða kvað hann það misskilning að hann hafi ætlað að deila því áfengi sem þar er talið upp með S og félögum hennar, heldur hafi áfengið upprunalega verið ætlað öðrum nafngreindum aðila sem hafi ætlað að koma í bústaðinn. Var ákærða sérstaklega bent á að skilaboð þessi hafi borist í síma S en svaraði því engu. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki hafa hugsað út í að nefna það við skýrslutöku hjá lögreglu að skilaboðin hafi átt að fara annað.
Varðandi skilaboðin „O vá tu ert med fullkomnar varir og tungan nammi namm mig langar i meira. Langar tig i meira?“ vísaði ákærði hjá lögreglu til þess að S hafi eitt skipti í bústaðnum rennt tungu yfir varir sínar að honum ásjáandi.
Að öðru leyti en að framan greinir var framburður ákærða fyrir dómi að mestu í samræmi við framburð hans hjá lögreglu, sem um sumt var ítarlegri hjá lögreglu. Kom t.d. skýrt fram í framburði ákærða hjá lögreglu að ákærði hafi vitað um aldur allra ungmennanna og lýsti hann ölvunarástandi þeirra ítarlegar hjá lögreglu en fyrir dómi. Fram kom að S hafi verið klæðalaus en með handklæði vafið utan um sig er hann kom að henni í herberginu.
S kom fyrir dóminn og lýsti atvikum svo að hún hafi verið með B og C er ákærði hafi boðið þeim að koma í sumarbústað. Fyrst hafi hann sent henni SMS-skilaboð, en síðan hringt í hana. Hún hafi sagt honum hverjir væru með henni. Hann hafi sagst vera með áfengi, bæði í SMS-skilaboðunum og er hann hringdi. Hún sagðist viss um að hann hafi boðið þeim áfengi, bæði áður en þau komu í bústaðinn og þegar þangað var komið. K hafi ekið þeim upp eftir, en vitnið kvaðst hafa kynnst ákærða svolítið í gegnum K.
Í bústaðnum hafi þau spjallað í smástund og drukkið áfengi sem ákærði hafi boðið þeim, en síðan hafi ákærði boðið þeim út í heitan pott. Þau hafi ekki verið búin að drekka áfengi áður en þau fóru í bústaðinn og ekkert áfengi haft meðferðis þangað.
Vitnið kvaðst hafa verið í þröngum topp og aðsniðnum nærbuxum með skálmum („boxerbuxum“) í pottinum. Hún lýsti staðsetningu hvers og eins í pottinum, sem er ferkantaður, út frá ljósmynd, þannig að ákærði hafi setið í einu horni hans, hún sjálf í næsta horni til hliðar og sé farið hringinn rangsælis hafi K setið þar næstur, í horni gegnt henni og C síðan í horni gegnt ákærða en B hafi setið á milli þeirra tveggja. Vitnið kvað birtu hafa borist að pottinum frá húsinu, en ljós ofan í pottinum hafi ekki verið kveikt. Kveikt hafi verið á ljósum inni í bústaðnum og gardínur dregnar upp. Birtan hafi verið nægilega mikil til að hún hafi séð vel andlit hinna í pottinum. Stundum hafi verið kveikt á nuddstútum í pottinum og þá verið loftbólur í vatninu.
Í pottinum hafi ákærði farið að sýna strákunum eitthvert „trix“ þar sem hann hafi þóst kitla hana undir öðru hnénu, en hann hafi þá um leið verið að strjúka með hinni hendinni um klof hennar ofan í vatninu, fyrst utan á nærbuxunum og síðan farið inn fyrir þær. Ákærði hafi teygt sig á móti henni þaðan sem hann sat í horninu. Hann hafi farið með hendi undir nærbuxur hennar meðfram lærinu, undir skálmina og líka stundum ofan í strenginn. Fingur hans hafi farið inn í leggöngin oftar en einu sinni. Hún hafi öskrað og kippst til og honum hafi virst þykja það fyndið. Hún hafi ítrekað ýtt burt hönd hans og sagt að þetta væri nóg og að hann ætti að hætta að „kitla“ hana. Aðspurð hvort hún teldi að hann hafi skilið hana þegar hún bað hann að hætta að „kitla“ hana, sagði hún hann hljóta að hafa séð að henni þætti þetta óþægilegt.
Aðspurð hvort ákærði hafi beitt hana þvingun sagði hún að hann hafi haldið ýmist í hægra eða vinstra hné hennar með vinstri hendi meðan hann kom við kynfæri hennar með hægri hendi. Aðspurð kvaðst hún því telja sig ekki hafa átt hægt með að standa upp í pottinum, en hún hafi reynt að toga til sín fótinn og klemma saman hnén. Einnig hafi hún nokkrum sinnum fært sig yfir til hinna strákanna, en ákærði hafi alltaf togað hana til sín aftur. Hún hafi ekki reynt að fara upp úr pottinum enda verið svo ölvuð að hún hafi varla getað staðið í fæturna. Á þessu hafi gengið í nokkurn tíma og þetta hafi gerst nokkrum sinnum. Þau hafi öll verið ofan í heita pottinum á meðan þetta var að gerast, nema ákærði hafi stundum sent C upp úr pottinum til að blanda meira áfengi.
A kvaðst aðspurð ekki hafa sagt strákunum frá því meðan þau voru í pottinum hvað ákærði væri að gera. Aðspurð hvort hún teldi strákana hafa séð hvað væri að gerast kvaðst hún telja B hafa séð þetta, en hann hafi alltaf verið að spyrja ákærða: „Hvar ertu í alvöru með hendina“. C hafi líka sagst hafa séð þetta eitthvert skiptið þegar hann fór upp úr pottinum.
Aðspurð um líðan hennar meðan á þessu stóð sagði A að sér hafi liðið „óþægilega“ og fundist hún ein á báti. Henni hafi fundist vinir hennar bregðast henni, þar sem þeir hafi ekki gætt hennar eins og hún hafði beðið þá um að gera, en þeir hafi sjálfir verið mjög drukknir. Aðspurð um áfengisneyslu sína kvaðst vitnið hafa drukkið úr u.þ.b. heilum Tópas-pela og auk þess smakkað eitthvert mjög sterkt áfengi sem hún taldi romm. Ákærði hafi blandað áfengið og boðið þeim öllum, nema K sem hafi verið ökumaður. Hún hafi orðið mjög ölvuð. Hún hafi áður smakkað áfengi, en aldrei fyrr orðið svo ölvuð. Hún kvaðst kannski ekki muna allt sem hafi gerst í pottinum en muna eftir því sem hún hafi lýst og sérstaklega muni hún eftir að hafa upplifað margar tilfinningar í einu meðan á þessu stóð. Hún hafi verið hrædd og ekki vitað hvort það sem var að gerast væri rétt eða rangt.
A kvaðst á endanum hafa sagst vilja fara heim, farið upp úr pottinum og inn á baðherbergið. Þaðan hafi hún farið fram með handklæði vafið utan um sig, þar sem fleiri hafi þurft að nota baðherbergið. Hafi ákærði þá verið kominn inn í húsið og spurt hvort hún gæti talað aðeins við sig. Hún hafi farið inn í herbergi til að klæða sig í fötin, sem hún hafi tekið með sér þangað inn. Ákærði hafi komið þangað á eftir henni og sagt að hann langaði svo mikið í hana og vildi ríða henni. Hann hafi starað á hana, komið nær og farið að kyssa hana tungukossi. Hún hafi fyrst „frosið“ en síðan ýtt í öxl hans og sagt: „Er ekki komið nóg“ og „af hverju varstu að þessu“. B hafi komið að þeim í herberginu.
Eftir þetta hafi hún og strákarnir farið út í bíl og ekið heim. C hafi verið í uppnámi alla leiðina og sagt „ég sá allt“. Aðspurð hvers vegna C hafi verið í uppnámi kvað hún hann hafa verið hrifinn af henni og verið mjög afbrýðissamur.
Borin voru undir A SMS-skilaboðin „O vá tu ert med fullkomnar varir og tungan nammi namm mig langar i meira. Langar tig i meira?“ og kvað hún ákærða hafa sent sér þau skilaboð á meðan hún var í bifreiðinni á leið heim úr bústaðnum. Hún kvaðst ekki hafa svarað þessum skilaboðum.
Aðspurð hvenær ákærði hafi fyrst sýnt henni einhverja kynferðislega tilburði sagði hún það hafa verið þegar hún var nýkomin í bústaðinn, en þá hafi hann verið að stara á brjóstin á henni er hún hafi verið að hrista Tópas-pelann og haft orð á því að hún ætti að hrista brjóstin meira.
Aðspurð fyrir dómi kvaðst hún ekki muna eftir því að ákærði hafi verið að kyssa einhvern strákanna í pottinum.
A sagðist engan kynferðislegan áhuga hafa haft á ákærða og að það sem gerðist hafi verið gegn hennar vilja. Aðspurð sagðist hún ekki telja að hún hafi á neinn hátt gefið honum til kynna að hún vildi eitthvað hafa með hann að gera á þennan hátt. Hún hafi verið smeyk við að fara í sumarbústaðinn því fósturfaðir hennar hafi verið búinn að vara hana við ákærða. Þau hafi samt farið af því að þau langaði í áfengi.
Aðspurð um líðan sína eftir þennan atburð sagðist A finnast henni allir karlmenn horfa kynferðislega á sig, meira að segja bræður hennar. Þessu fylgi vanlíðan og óöryggi. Gagnvart piltum á hennar aldri hafi hún það nú á tilfinningunni að þeir vilji bara kynlíf frá henni. Þessi líðan hafi verið viðvarandi frá kvöldinu í sumarbústaðnum hjá ákærða. Aðspurð í tilefni af vottorði sálfræðings sem liggur fyrir í málinu kvaðst A hafi verið búin að jafna sig eftir atvik sem þar er minnst á að hafi átt sér stað er hún var um 13 ára og að vanlíðan hennar undanfarið stafi ekki af þeim.
A kvaðst hafa sagt móður sinni frá þessum atburði um viku síðar, en áður hafi hún verið búin að segja kennara sínum frá. Aðspurð hve mikið hún hafi rætt þessa atburði við strákana sem með voru í pottinum, sagðist hún hafa sagt þeim frá því strax í bílnum að ákærði hafi farið með höndina í klofið á henni. Þau hafi rætt þetta frekar mikið næstu vikurnar á eftir, enda séu þeir góðir vinir hennar og tali saman um allt.
A gaf skýrslu hjá lögreglu 20. október 2011, fimm dögum eftir atburðinn. Framburður hennar fyrir dómi er í fullu samræmi við framburð hennar hjá lögreglu, sem um sumt er ítarlegri en skýrsla hennar fyrir dómi.
E, móðir A, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi fyrst frétt af þessu máli frá dóttur sinni, um 2-3 dögum eftir atvikið, er þær hafi hist utan við skóla hennar. Dóttir hennar hafi sagst þurfa að segja henni frá svolitlu og sagt frá því að hún hafi farið í sumarbústað til ákærða, ásamt vinum sínum. Hún hafi átt erfitt með að skýra frá því sem gerðist og grátið á meðan. Hún hafi sagst hafa verið misnotuð af ákærða, sem hafi farið með hendurnar í klof hennar inn fyrir nærbuxur. Hún hafi sagst hafa drukkið sterkt áfengi, þ.e. Tópas eða Ópalskot og sagst hafa drukkið frekar mikið, en vitninu hafi ekki skilist á henni að hún hafi verið ofurölvi. Hún hafi áður verið búin að segja kennara frá þessu, sem hafi gefið henni val um hvort hún skýrði móður sinni frá þessu eða að kennarinn gerði það.
Vitnið sagði að umrætt kvöld hafi A komið heim um eittleytið og strax dregið sig í hlé inn í herbergi. Vitnið kvaðst hafa séð að eitthvað væri að en ekki séð merki um ölvun. Hún hafi t.d. ekki veitt því athygli að stúlkan væri þvoglumælt eða reikul í sporti, en vitnið hafi þó ekki farið svo nálægt henni að hún hafi getað fundið t.d. áfengislykt.
Vitnið kvað augljósa breytingu hafa orðið á líðan dóttur hennar eftir atburðinn. Hún hafi verið „brotin“ og óörugg. Hún hafi t.d. ekki viljað vera ein heima og fyrstu vikurnar hafi hún ekki þorað að vera ein á ferli eftir kl. 18 á daginn, þar sem ákærði væri þá búinn í vinnunni. Hún hafi óttast að ákærði myndi hefna sín á henni eða fjölskyldunni þar sem hún hafi sagt frá þessu. Vitnið hafi fundið fyrir mikilli hræðslu hjá dóttur sinni, en hræðslan hafi minnkað eftir því sem tíminn hafi liðið. Hún hafi verið haldin kvíða fyrir þennan atburð, m.a. vegna eineltismála, en eftir þennan atburð hafi einkennin versnað mjög og hún fengið kvíða- og hræðsluköst. Hafi hún verið lögð inn á BUGL síðastliðið vor. Vitnið kvað ástæðu innlagnarinnar vera ótengda þessu atviki en vildi ekki upplýsa nánar um það. Einnig nefndi vitnið að A virðist eftir þetta gjörn á að mistúlka samskipti karlmanna við hana sem kynferðisleg.
E gaf skýrslu hjá lögreglu 21. október 2011, sem er í fullu samræmi við framburð hennar fyrir dómi en nokkuð ítarlegri..
B kvaðst fyrir dómi vera vinur A og hafa verið með henni, ásamt C, þegar ákærði hringdi í hana og bauð þeim öllum að koma í sumarbústaðinn. Hann sagðist ekki hafa heyrt það sem ákærði sagði í símtalinu en fram hafi komið að hann væri með áfengi sem stæði þeim til boða og kvaðst vitnið hafa séð SMS-skilaboð til A frá ákærða þess efnis. Þau hafi farið í bústaðinn til að skemmta sér og drekka áfengi. Er þangað var komið hafi ákærði boðið strákunum bjór en A hafi fengið Tópas-pela. Áfengið hafi verið í ísskápnum. Vitnið minntist þess ekki að ákærði hafi rétt þeim áfengi, en hann hafi sagt þeim að þau mættu fá sér, sem þau hafi gert. Þau hafi fyrst verið að tala saman í bústaðnum en síðan hafi ákærði boðið þeim að fara í heita pottinn, sem þau hafi gert. Þar hafi þau setið lengi vel og haldið áfram að drekka áfengi.
Í pottinum hafi ákærði tekið undir hnésbót A með vinstri hendinni og kitlað hana þar, en jafnframt kvaðst vitnið hafa séð ákærða fara með hægri hendina í klof A. Taldi vitnið þetta hafa verið frekar fljótlega eftir að þau fóru í pottinn og sagðist hann á þeim tímapunkti hafa verið farinn að finna á sér en ekki verið orðinn eins ölvaður og þegar hann fór upp úr pottinum. Taldi vitnið að ákærði hafi verið að gera eitthvað með hendinni í klofi A „en ekki allan tímann“. Nánar aðspurður skilgreindi vitnið „klof“ sem svæðið „í kringum píkuna“. Hann kvaðst ekki hafa séð hvort höndin var fyrir innan eða utan nærbuxur hennar. A og ákærði hafi setið í sitt hvoru horni pottsins, við þá hlið hans þar sem trappa er utanvert við pottinn, en þegar ákærði hafi verið að gera þetta hafi hann setið nær A, fyrir miðri þeirri hlið. Vitnið kvaðst hafa verið farið að gruna að ákærði væri að gera eitthvað við A með hægri hendinni og því beðið ákærða að halda í fót sinn með þeirri hendi. Alltaf þegar ákærði hafi kitlað A í hnésbótina með vinstri hendi hafi hann sleppt hægri hönd af fæti vitnisins. Fullyrti vitnið að hann hafi séð hönd ákærða fara í klof A, en tók fram að hann hafi ekki séð mjög skýrt hvað hann gerði þar með hendinni, enda hafi þetta verið að kvöldlagi og ofan í vatni. Aðspurður um birtuskilyrði sagði hann að ljós hafi verið kveikt inni í bústaðnum og birta borist þaðan út að pottinum, þannig að hann hafi séð vel í andlit þeirra sem voru með honum í pottinum. Aðspurður um viðbrögð A sagði vitnið að henni hafi virst kitla. Hún hafi ekki sagt neitt strax en svo hafi hún sagt „ekki meira kitl“ og verið að biðja ákærða að hætta. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því hvort hún hafi ýtt ákærða frá. A hafi stundum fært sig þvert yfir pottinn en vitnið kvaðst ekki muna hvernig hún fór til baka á fyrri stað. Aðspurður hvort ákærði hafi haldið A fastri eða beitt hana ofbeldi, kvaðst vitnið ekki minnast þess. A hafi verið talsvert mikið drukkin.
Eftir að upp úr pottinum var komið hafi þau klætt sig og haldið heim. Áður hafi hann séð ákærða og A vera að kyssast í litlu herbergi, er hann hafi kíkt inn um dyr herbergisins. Þau hafi verið á móti hvort öðru, standandi. Hann kvaðst ekki getað svarað því hvort þessi koss hafi verið með vilja hennar eða ekki.
Á leiðinni heim sagðist vitnið hafa verið mestmegnis með höfuðið út um glugga bifreiðarinnar og því ekki vita hvort A hafi rætt um atvikið í bílnum en þau hafi rætt það daginn eftir. Þá hafi A sagt að ákærði hafi „puttað“ hana, sem vitnið kvaðst skilja svo að fingur ákærða hafi farið inn í leggöng hennar, og hafi hún lýst þessu svo að þetta hafi verið gegn hennar vilja.
Vitnið var spurt hvort hann hafi kysst ákærða í heita pottinum. Kannaðist vitnið við það og kvað ákærða hafa gert sér það tilboð að þeir myndu kyssast gegn því að A myndi sýna vitninu klof sitt. A hafi ekki andmælt þessu og hafi berað sig í stutta stund fyrir vitninu.
Framburður B fyrir dómi samræmist í öllum meginatriðum skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu 20. október 2011. Kvaðst hann fyrir dómi hafa munað betur eftir atvikum er hann gaf skýrslu hjá lögreglu og hafa sagt satt og rétt frá þar. Staðfesti hann þann framburð, sem borinn var sérstaklega undir hann, að hann hafi séð hönd ákærða hreyfast í klofi A. Þá var borinn undir hann framburður hans um að A hafi ýtt hendi ákærða í burtu. Kvaðst hann ekki minnast þess núna en telja sig hafa munað þetta betur hjá lögreglu. Hann kvaðst fullviss um að ákærði hafi boðið þeim áfengi, en ekki muna núna hvort ákærði hafi beinlínis rétt þeim áfengi eins og fram kom í skýrslu hans hjá lögreglu.
L kom fyrir dóminn og kvaðst ekki vita annað um málið en það sem A hafi sagt henni eftir á. Hún hafi sagt vitninu að ákærði hafi haldið utan um hana og verið með hendina í klofinu á henni. Einnig hafi A sagt vitninu frá því að ákærði hafi verið að senda henni SMS-skilaboð og að hann hafi kysst hana í sumarbústaðnum. Hafi A sagst hafa beðið ákærða að hætta að kitla sig. Hún hafi sagt að hún hafi verið að vonast til þess að einhver af hinum strákunum myndu stoppa þetta og hafi verið leið yfir því sem hafi gerst.
Vitnið kvaðst hafa þekkt ákærða síðan hún var barn, en hann hafi verið kærasti systur hennar. Vitnið kvaðst hafa verið vinkona A í nokkur ár, en að upp úr vinasambandi þeirra hafi slitnað sl. vetur. Fram kom að vitnið þekkti A svo að hún vildi þóknast fólki og ætti erfitt með að setja mörk. Ekki er þörf á að rekja frekar úr framburði þessa vitnis fyrir dómi.
Framburður L samræmist skýrslu sem hún gaf hjá lögreglu 29. október 2011, en þar lýsti vitnið því með nokkuð nákvæmari hætti hvað A hafi sagt henni um atvik málsins daginn eftir atburðinn. Kom þar m.a. fram að A hafi sagt vitninu að ákærði hafi farið inn fyrir nærbuxur hennar og „puttað“ hana. Einnig kom þar fram að A hafi virst „á taugum“ og m.a. sagst óttast að rekast á ákærða.
K gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti aðdraganda sumarbústaðarferðarinnar svo að ákærði hafi hringt og spurt hvort vitnið ætlaði ekki að kíkja á sig. Vitnið kvaðst hafa verið til í það en viljað heyra fyrst í A, B og C. Þau hafi síðan öll farið í bústaðinn til ákærða. K hafi ekið og því ekki drukkið neitt áfengi en tilgangur hinna með ferðinni hafi verið að „detta í það“. Kvaðst vitnið halda að þau hin þrjú hafi verið byrjuð að fá sér áfengi áður en farið var í bústaðinn, þótt hann vissi það ekki fyrir víst. Í bústaðnum hafi ákærði átt áfengi sem hin þrjú hafi fengið sér af. Kvaðst vitnið ekki minnast þess að ákærði hafi boðið þeim áfengi og halda að þau hafi ekki spurt ákærða hvort þau mættu fá sér af því.
Þau hafi síðan öll farið í heita pottinn. Vitnið lýsti staðsetningu allra í pottinum þannig að ákærði hafi setið í einu horninu, í næsta horni honum á hægri hönd hafi A setið, í horni gegnt henni K sjálfur og við hlið hans B, en í fjórða horninu, gegnt ákærða, hafi C setið.
K tók strax fram að hann hafi ekki orðið vitni að neinu í heita pottinum enda hafi verið dimmt þar úti. Nánar aðspurður út í atvik þar sagði vitnið að A hafi verið „kjassandi utan í öllum“. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða káfa neitt á henni, en hún hafi alltaf verið að fara í fangið á honum og hann hafi nuddað á henni tærnar. Aðspurður kannaðist K ekki við að hafa heyrt A biðja ákærða um að „hætta“, en hún hafi hins vegar sagt vitninu frá því eftir á. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að neitt hefði komið upp á í pottinum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð hönd ákærða í klofi hennar ofan í vatninu.
Aðspurður hvort eitthvað hafi gerst eftir að upp úr pottinum var komið sagði K að ákærði hafi beðið A að tala við sig og þau hafi farið inn í eitt herbergið. C hafi farið á eftir þeim en vitnið kvaðst ekki minnast þess að C hafi sagt honum neitt frá því sem þar hafi gerst á milli ákærða og A.
Vitnið kvaðst vita til þess að þeir B og C hafa verið búnir að drekka töluvert áfengi og kvað C hafa verið verulega ölvaðan í lok kvöldsins, en B hafi verið frekar þreyttur. Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvert ölvunarástand A hafi verið en telja hana þó hafa verið undir áhrifum.
Í bílferðinni á leið heim úr bústaðnum hafi A sagt þeim frá því að ákærði hafi stungið fingri upp í leggöng hennar. Tók vitnið fram að hann hafi ekki séð það gerast.
Óspurt lýsti vitnið þeirri skoðun sinni að hafi eitthvað gerst þá hafi A ýtt undir það þar sem hún hafi sí og æ verið að setjast ofan á ákærða og „skaka sér ofan á honum“ er hún hafi heimsótt vitnið á sameiginlegum vinnustað hans og ákærða. Kvaðst vitnið hafa varað stúlkuna við þessari háttsemi.
Vitnið kvaðst hafa unnið með ákærða í um tvö ár, þó ekki samfleytt. Vitnið lýsti tengslum sínum við A svo að þau hafi verið mjög góðir vinir, en það hafi breyst við þennan atburð, enda hafi móðir hennar og stjúpfaðir kennt vitninu um atburðinn þar sem hann hafi ekið stúlkunni í sumarbústaðinn og hafi þau bannað henni að umgangast vitnið.
Aðspurður af verjanda kvaðst K hafa hitt A, C og B daginn eftir bústaðarferðina og þar hafi verið rætt um það sem gerðist í bústaðnum. Aðspurður hvort þau hafi verið að semja sín á milli um hvernig þau myndu haga framburði sínum hjá lögreglu kvaðst vitnið ekki minnast þess.
Aðspurður hvort einhver hrifning hafi verið milli einhverra þeirra sem voru í pottinum sagði vitnið að A og C væru núna par. Aðspurður hvort hann hafi trúað A þegar hún sagði honum frá því sem gerst hafi, játaði vitnið því hvorki né neitaði en svaraði því til að þau hafi verið góðir vinir á þeim tíma.
K gaf skýrslu hjá lögreglu 20. október 2011. Fyrir dómi var honum kynnt að framburður hans væri að mörgu leyti í ósamræmi við framburð hans hjá lögreglu. Kvaðst vitnið þá að hafa skýrt frá atvikum hjá lögreglu eins og A hefði lýst þeim fyrir vitninu. Aðspurður hvort A hafi þá beðið hann að ljúga hjá lögreglu svaraði vitnið því ekki beint en kvað hana hafa sagst verða þakklát ef hann myndi gefa skýrslu hjá lögreglu. Aðspurður hvort hann hafi þá ekki gert skýran greinarmun á því hjá lögreglu sem hann hefði sjálfur séð eða orðið áskynja og því sem aðrir, s.s. A, hefðu sagt honum, kvaðst hann ekki muna hvort hann gerði greinarmun á því.
K var við skýrslutöku fyrir dómi ítrekað minntur á ábyrgð sína sem vitnis, sem hann kvaðst gera sér grein fyrir. Hann var ítrekað spurður hvort hann hafi sagt satt og rétt frá við skýrslugjöf hjá lögreglu og kvaðst hann ekki minnast þess að hafa vísvitandi skrökvað þar. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt þennan atburð neitt við ákærða, þótt þeir væru samstarfsfélagar og hafnaði því aðspurður að hann óttaðist ákærða.
Fyrir dómi voru borin undir ákærða einstök atriði úr framburði hans hjá lögreglu. Er borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að ákærði hafi boðið þeim áfengið í bústaðnum, kvaðst vitnið ekki minnast þess lengur. Aðspurður kannaðist hann við að A hafi í bílnum á leið upp í bústaðinn beðið þá piltana að gæta hennar fyrir ákærða. Hann kannaðist einnig við að hafa beðið ákærða að hætta að káfa á A þar sem hún væri of ung fyrir hann. Aðspurður kvaðst hann einnig minnast þess að A hafi alltaf verið að færa sig frá ákærða og biðja hann að hætta, en ítrekaði að þrátt fyrir það hafi hún alltaf endað aftur í fangi ákærða og kvaðst hann sífellt hafa verið að taka hana þaðan. Þá kannaðist vitnið við þann framburð sinn að ákærði hafi kitlað A í hnésbótina, en ekki við að hafa séð ákærða með hina hendina í klofi hennar. Tók hann fram að B hafi hins vegar sagst hafa séð það. Aðspurður hvort hann hafi þá séð hendi ákærða einhvers staðar nálægt A benti vitnið á að það hafi verið myrkur og að þau hafi verið ofan í vatni.
Þá kannaðist vitnið við að þann framburð sinn hjá lögreglu að hafa sent C inn í herbergið á eftir ákærða og A og að C hafi sagt honum frá því að þau ákærði væru „í sleik“ inni í herbergi. Einnig staðfesti hann að ákærði hafi nuddað tær þeirra A, B og C og auk þess sleikt tær A í pottinum. Vitnið staðfesti einnig að hann hafi séð ákærða káfa á brjóstum A, en kvaðst fyrir dómi ekki viss um hvort það hafi verið utan eða innan klæða.
Aðspurður hvort hann hafi einhvern tímann umrætt kvöld séð ákærða og A kyssast neitaði hann því í fyrstu en breytti síðan strax þeim framburði. Kvaðst hann, líkt og hjá lögreglu, hafa séð þau í gegnum eldhúsglugga bústaðarins þegar hann sjálfur hafi verið kominn út í bíl, en dró þó úr fullyrðingum sem þar komu fram um að þau hafi verið í „sleik“ og sagði þau kannski bara hafa verið að kyssast eða bara að tala saman.
C kom fyrir dóminn og lýsti tengslum sínum við A svo að þau væru mjög góðir vinir, en ekki par. Kvað hann umrætt kvöld vera sér mjög minnisstætt. Ákærði hafi hringt og þeir B hafi ákveðið að fara upp eftir. Tilgangur fararinnar hafi verið að „drekka“. Ákærði hafi verið með rauðan Víking bjór, 60% sterkt romm og Tópas-skot, ásamt gosi. Hafi ákærði verið búinn að bjóða þeim af þessu áfengi áður en þau fóru upp eftir. Þau hafi fjögur farið upp eftir og öll drukkið af þessu áfengi með ákærða, sem hafi boðið þeim það, nema K, sem hafi verið ökumaður. Þau hafi síðan farið í heitan pott. Ákærði hafi alltaf verið að senda hann upp úr til að blanda meira áfengi fyrir sig og sagt honum að blanda fyrir sjálfan sig í leiðinni. Kvaðst C hafa orðið mjög ölvaður í pottinum en ekki hafa verið það þegar hann fór ofan í pottinn. Hann kvaðst ekki muna hve mikið hann drakk. Þrátt fyrir ölvun kvaðst hann muna vel eftir því sem hann hafi séð.
Í pottinum sagðist C hafa séð ákærða fara með hönd í klofið á A. Hann hafi séð höndina við klofið en hann tók fram að þetta hafi verið undir vatni. Kvaðst hann ekki hafa séð nákvæmlega hvað ákærði var að gera með hendinni. Aðspurður hvort hönd ákærða hafi verið „innan eða utan á“ svaraði hann því til að hann hafi ekki séð það sjálfur, en B hafi séð það. Hann kvaðst ekki muna hvort það hafi verið loftbólur vegna nudds í pottinum. Aðspurður um birtustig kvaðst hann hafa séð vel í andlit fólks.
Vitnið lýsti staðsetningu allra í pottinum út frá ljósmynd með sama hætti og ákærði, A og B. Lýsti hann því hvernig ákærði hafi setið beint á móti A og hallað sér að henni meðan hann þuklaði á henni með hægri hendi. Kom fram í framburði hans að ákærði hafi jafnframt verið að kitla hana.
Aðspurður um ölvunarástand þeirra kvað hann A hafa verið ölvaða en kvaðst ekki vita hve mikið. Þau hafi öll verið undir áhrifum áfengis nema K. Hún hafi verið að reyna að fara og ýta ákærða frá sér en ákærði hafi alltaf haldið áfram. Aðspurður sagðist vitnið hvorki muna eftir því að ákærði hafi dregið hana til sín aftur né eftir því að hún hafi sjálfviljug farið í fang ákærða. Hann kvaðst ekki muna hvort hún hafi sagt eitthvað við ákærða, en kvaðst hafa upplifað þetta þannig að þetta væri gegn hennar vilja. Hann kvaðst ekki muna hve oft þetta hafi gerst en það hafi verið nokkuð oft. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð ákærða halda henni eða beita hana ofbeldi.
C kvað minni sitt þokukennt eftir að þau fóru upp úr pottinum en sagðist þó muna vel eftir að hafa litið inn í herbergi í bústaðnum og komið þar að ákærða sem hafi verið að kyssa A. Nánar aðspurður lýsti hann því svo að hann hafi séð í bakið á ákærða þar sem hann hélt utan um A. Kvaðst hann hafa farið fram og sagt K og B frá þessu og síðan hafi hann sótt A inn í herbergið. Hann kvaðst hins vegar ekki muna eftir bílferðinni heim. A hafi sagt honum síðar að ákærði hafi þuklað á kynfærum hennar og stungið fingri inn í þau.
Aðspurður um líðan A sagði vitnið að hún væri „mun meira skemmd“ eftir þennan atburð. Henni hafi ekki liðið vel fyrir atburðinn, en eftir þetta hafi líðan hennar verið mun verri.
Aðspurður hvort hann hafi séð A bera kynfæri sín í pottinum og ákærða og B kyssast sagðist hann ekki hafa séð það, en frétt af kossinum frá þeim A og B.
Vitnið kvaðst ekki hafa drukkið áfengi eftir þennan atburð. Sagðist hann eflaust hafa stoppað ákærða ef hann hefði ekki verið svona ölvaður. Varð af framburði hans ráðið að hann væri mjög reiður út í ákærða vegna atburða í sumarbústaðnum. Aðspurður í tilefni af því kvaðst hann fyrir atburðinn hafa talið ákærða „góðan mann“ og engan óvildarhug borið til hans.
C gaf skýrslu hjá lögreglu 20. október 2011, sem í öllum aðalatriðum er í samræmi við framburð hans fyrir dómi. Í skýrslu hans þar fullyrti hann að ákærði hafi „puttað“ A og kom fram að hann hafi séð hendi ákærða hreyfast í klofi A, en ekki séð hvort hendin var innan eða utan við nærbuxur hennar. Er þessi framburður var borinn undir vitnið fyrir dómi sagðist hann minnast þess að hafa séð hönd ákærða fyrir innan svartar boxer-nærbuxur hennar er hann stóð utan við pottinn og horfði ofan í vatnið, en kvaðst ekki muna hvort ákærði hafi farið ofan í streng buxnanna eða undir skálm og ekki hve oft þetta hafi gerst.
Í skýrslu C hjá lögreglu gaf hann ívið ítarlegri lýsingu en fyrir dómi á atvikum inni í herbergi bústaðarins. Lýsti hann því þar hvernig ákærði hafi haldið utan um A og reynt að kyssa hana en að hún hafi verið að reyna að ýta honum frá sér. Aðspurður hjá lögreglu hvað honum hafi fundist um gerðir ákærða gagnvart A lýsti hann því svo að honum hafi fundist þetta „kynferðisleg nauðgun“.
Margrét Kristín Magnúsdóttir sálfræðingur í Barnahúsi, staðfesti fyrir dómi að hafa gefið út vottorð, dags. 8. maí 2012, sem liggur fyrir í málinu, eftir að hafa átt fjögur viðtöl við A, síðast 2. maí sl. Hún lýsti vanlíðan, kvíða og lélegu sjálfsmati stúlkunnar og hvernig atburður sá sem til umfjöllunar er í máli þessu hafi ýft upp gömul sár. Eins og algengt sé um þolendur kynferðisbrota kenni stúlkan sjálfri sér um hvað hefði gerst, þar sem hún hafi farið í bústaðinn og drukkið þar áfengi. Margrét kvað eldri áföll sem stúlkan hafi orðið fyrir hafa komið til umræðu og vel væri þekkt að þegar manneskja verði fyrir fleiri áföllum hlaðist áhrif þeirra upp og staðfesti ranghugmyndir tengdar sektarkennd og sjálfsvirðingu viðkomandi. Þolendum kynferðisbrota sé hættara við að lenda aftur í svipuðum aðstæðum, sem geti tengst slöku sjálfsmati.
Aðspurð um áhrif atburðar þessa á líðan stúlkunnar kvað Margrét stúlkuna hafa lýst miklum hræðsluviðbrögðum er hún hitti ákærða fyrst í návígi nokkuð löngu eftir atburðinn, en þá hafi hún lýst því að hún náði ekki andanum, fraus og skalf og vissi ekki hvað ætti að gera en gat ekki útskýrt hvað hún óttaðist.
Öll framangreind viðbrögð séu þekkt einkenni þeirra sem orðið hafi fyrir kynferðisofbeldi. Erfitt sé að greina hvað stafi frá þessu broti og hvað af öðrum áföllum. Lélegt sjálfsmat geti haft gríðarleg áhrif um alla framtíð, fái viðkomandi einstaklingur ekki viðeigandi aðstoð.
Stúlkan hafi ekki lýst atvikum þessa atburðar í neinum smáatriðum enn sem komið er, en hafi lýst erfiðum hugsunum um það hvernig hefði getað farið ef vinir hennar hefðu ekki verið til staðar. Hún hafi lýst drykkju í potti og káfi. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa rekið sig á neitt í samtölum við stúlkuna sem benti til þess að hún væri ekki að segja satt um að það sem gerðist í pottinum hafi verið gegn hennar vilja.
Vitnið kvað erfitt að segja með fullri vissu fyrir um orsakir þeirra einkenna sem stúlkan sýni, en stúlkan hafi verið búin að vinna ágætlega úr atviki sem hún hafi lent í 13 ára gömul og getið er um í vottorði vitnisins. Líðan hennar hafi hins vegar versnað og öll einkenni ýfst upp sl. haust áður en hún hóf að koma í viðtöl hjá vitninu. Stúlkan hafi þörf fyrir fleiri meðferðarviðtöl, en ekki liggi fyrir hve mörg. Fleiri ástæður en þessi atburður liggi þó þar að baki.
Helgi Garðar Garðarsson geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, gaf skýrslu fyrir dómi. Skýrði hann frá því að A hafi komið í viðtal til hans 2. apríl sl., en hann hafi ekki sinnt henni fyrir þann tíma. Hann kvað líðan hennar hafa versnað mikið síðustu fjórar vikurnar fyrir innlögn hennar, en þekkt sé að einkenni kynferðisbrota geti komið fram löngu eftir brot. Erfitt sé að festa fingur nákvæmlega á orsakir einkenna, en sú einkennamynd sem A hafi sýnt komi heim og saman við barn sem hafi orðið fyrir áföllum. Staðfesti vitnið að hafa ásamt Rögnu Kristmundsdóttur gefið út vottorð, dags. 30. maí sl., sem liggur fyrir í málinu. Vitnið var spurt út í verkan tveggja lyfja sem nefnd eru í vottorðinu. Kvað hann A taka bæði lyfin vegna athyglisbrests. Hvorugt lyfjanna hafi róandi verkun og þau hafi því ekki áhrif á skynjun þótt þau séu notuð með áfengi.
Ragna Kristmundsdóttir, sérfræðingur í barna- og unglingageðhjúkrun, gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvað A hafa rætt við hana um atburði umrædds kvölds og lýsti frásögn hennar. Kom fram að stúlkan hafi tjáð vitninu að ákærði hafa boðið henni ásamt þremur vinum hennar í sumarbústað, þar sem hann hafi veitt þeim áfengi. Í heitum potti hafi ákærði verið að fíflast í henni með því að kitla hana og um leið stungið hendi í klof hennar, gegn hennar vilja. Inni í herbergi hafi ákærði síðan reynt að kyssa hana og neyða hana til kynferðislegs samneytis. Kvað vitnið stúlkuna hafa haft endurupplifanir af þessari reynslu, sem sé meðal einkenna áfallastreituröskunar og upplifað mikinn ótta við ákærða. Hún hafi talað um að eiga erfitt með að vera ein heima hjá sér og eigi erfitt með að eiga samskipti við karlmenn. Hún hafi lágt sjálfsmat og eigi erfitt með að sinna athöfnum daglegs lífs. Áhrif atburðarins hafi verið henni mjög skaðleg, en fyrir hafi hún glímt við kvíða og óstöðugleika og sýnt merki um áfallastreituröskun, sem hafi aukist gífurlega við atburðinn. Hún sé á biðlista eftir endurinnlögn á barna- og unglingageðdeild og hafi jafnframt verið vísað á göngudeild. Það muni taka mörg ár að vinna úr þeim fjölþættu áföllum sem hún hafi orðið fyrir.
Vitnið staðfesti að vottorð hennar og Helga Garðars geðlæknis sé unnið upp úr samtölum hennar við stúlkuna. Vitnið kvaðst ekki hafa haft neina aðkomu að málum stúlkunnar fyrr en í marsmánuði síðastliðnum, en upplýsingar hafi legið fyrir um að hún hafi áður haft einkenni sem bendi til áfallastreituröskunar. Í framburði vitnisins kom fram að brot af því tagi sem hér um ræði séu almennt mun skaðlegri þeim sem áður hafi lent í áföllum.
Aðspurð af verjanda hvort hún vissi til þess að stúlkan og vitnið C væru par, kvað vitnið stúlkuna hafa talað um það.
III
Niðurstaða um ákærulið 1.
Málatilbúnaður ákæruvaldsins hvað þennan lið ákærunnar varðar byggist á því að hafið sé yfir skynsamlegan vafa annars vegar, að um íkveikju hafi verið að ræða er bruninn varð í svokallaðri [...] að [...],[...] og hins vegar, að ákærði hafi verið þar að verki.
Ákærði hefur frá upphafi neitað því að hafa farið inn í húsnæðið og kveikt í því. Hann hefur hins vegar, allt frá því að lögregla ræddi fyrst við hann vegna málsins, skýrt svo frá að hann hafi nokkru áður en elds varð vart, verið utan við húsið í skamma stund, kastað af sér vatni og reykt, á meðan samferðarmenn hans biðu hans í bifreið utan við húsið.
Ákærði byggir sýknukröfu sína af þessum lið ákærunnar á því að hvorki sé sannað að eldsupptök í [...] hafi verið af mannavöldum né að hann hafi verið þar að verki. Til vara, komi til áfellisdóms, er þess krafist að háttsemin verði talin varða við 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í stað 164. gr. laganna. Byggir ákærði þá kröfu á því að hvorki teljist uppfyllt skilyrði um eldsvoða eða almannahættu í skilningi síðarnefnda lagaákvæðisins, þrátt fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns, þar sem komist sé að gagnstæðri niðurstöðu, en slík matsgerð bindi ekki hendur dómstóla. Til þrautavara er þess krafist að háttsemin verði einungis felld undir 1. mgr. 164. gr. laganna, en ekki jafnframt 2. mgr. sömu greinar, enda hafi ekki mátt búast við því að hætta væri á miklu eigna- eða manntjóni vegna elds í húsinu.
Sú niðurstaða lögreglu að um íkveikju hafi verið að ræða er ekki studd hlutlægum sönnunargögnum heldur reist á því að við rannsókn málsins hafi aðrar mögulegar skýringar á brunanum verið útilokaðar.
Guðmundur Gunnarsson, sem dómkvaddur var sem matsmaður til að meta hvort almannahætta hafi stafað af brunanum, hafði ekki það hlutverk að leggja mat á orsakir upptaka eldsins og lagði því til grundvallar í sinni matsgerð að um íkveikju hafi verið að ræða, í samræmi við niðurstöðu lögreglu þar um. Fyrir dómi var hann þó spurður, á grundvelli reynslu hans til margra ára á upptökum eldsvoða, um álit hans á niðurstöðu lögreglu. Kvaðst hann ekkert hafa út á rannsókn lögreglu að setja og vera sammála þeirri niðurstöðu sem lögregla komst að. Kom þó fram að ef honum hefði verið falið að rannsaka upptök eldsins hefði hann reynt að komast að vettvangnum óhreyfðum og að hann hefði rannsakað raflagnir með ítarlegri hætti. Fyrir liggur að vettvangsskoðun matsmannsins fór fram 16. mars 2011, eða tæpu hálfu ári eftir brunann og kemur fram í matsgerðinni að þá hafi verið búið að hreinsa út nokkuð af munum en að umhverfis ætlaðan upptakastað hafi vettvangur að mestu verið óhreyfður. Í framburði vitnisins fyrir dómi vék hann að rafmagnstækjum á vettvangi og var þar mest rætt um kæli sem mun hafa verið í rými rétt utan við kaffistofuna. Kvaðst vitnið ekki telja hafa verið þörf á að rannsaka hvort orsaka gæti verið að leita til þessa tækis þar sem ummerki hafi sýnt að kælirinn hafi orðið fyrir utanaðkomandi hita. Ekkert kom fram í framburði Guðmundar um rafmagnsofn sem ljósmyndir lögreglu sýna að staðsettur var undir glugga inni í kaffistofunni.
Í ódagsettri skýrslu lögreglumannanna Jóhanns Hilmars Haraldssonar og Einars Sigurjónssonar kemur fram á bls. 15 að rafmagnsofn, sem þar er sýndur á mynd undir glugga kaffistofunnar, hafi að sögn leigutaka húsnæðisins verið ótengdur og því sé ljóst að brunaferlar á ofninum séu tilkomnir vegna utanaðkomandi hita. Ekkert kemur fram í rannsóknargögnum málsins um það hvort rannsakað hafi verið með sjálfstæðum hætti hvort ofninn hafi verið tengdur rafmagni eða að hugað hafi verið að því við rannsókn málsins hvort eldur gæti hafa kviknað út frá skemmdum lausataugum, t.d. frá ofninum.
Í málinu liggur fyrir vottorð Friðriks Jónasar Friðrikssonar rafvirkjameistara, dags. 10. október 2010, sem mun hafa aðstoðað lögreglu við vettvangsrannsókn sama dag og bruninn varð. Í vottorði hans, sem og í framburði hans fyrir dómi, kom fram að mikið hafi verið um lausataugar, t.d. fjöltengi, í húsnæðinu og að rafmagnsofnar, sem taki mikið rafmagn, hafi til að mynda verið þannig tengdir. Í framburði þessa vitnis, sem rakinn er hér að framan, kom m.a. fram að rafmagnsofn sem staðsettur var undir glugga inni í kaffistofunni, hafi verið tengdur með lausataug, með a.m.k. einu fjöltengi, við rafmagnstöflu í rýminu utan kaffistofunnar. Taugin hafi verið brunnin í sundur á stað þar sem dyr kaffistofunnar hafi verið og því yrði ekki fullyrt um það hvar hún hafi legið, en vitnið taldi þó líklegast að hún hafi legið eftir gólfinu í gegnum dyr kaffistofunnar.
Engar mælingar liggja fyrir á vegalengd frá þeim stað þar sem dyr kaffistofunnar voru að ætluðum upptakastað eldsins, samkvæmt niðurstöðu lögreglu, Ljóst er þó af ljósmyndum og uppdráttum með mælikvörðum sem liggja fyrir í málinu að lítil fjarlægð er á milli þessara staða, eða á að giska einn til tveir metrar. Kemur það heim og saman við það sem dómendur urðu áskynja við vettvangsgöngu.
Ekki verður af rannsóknargögnum lögreglu ráðið að við þá niðurstöðu lögreglu að um íkveikju hafi verið að ræða, hafi verið tekið tillit til þess sem fram kom í vottorði rafvirkjameistarans að í kaffistofunni var staðsettur orkufrekur rafmagnsofn sem aðstæður bentu til að hafi verið tengdur rafmagni með lausataug. Lýsti rafvirkjameistarinn því fyrir dómi að skemmdir á slíkum taugum geti haft í för með sér íkveikjuhættu í tauginni sjálfri. Er að áliti dómsins ekki ólíklegt að laus rafmagnstaug sem liggur á gólfi, jafnvel í gegnum dyraop, verði fyrir skemmdum. Þá verður ekki hjá því litið að dyraop þetta er mjög nálægt ætluðum upptakastað eldsins.
Samkvæmt framanrituðu er að áliti dómsins ekki nægilega hafið yfir skynsamlegan vafa að eldur í húsnæðinu hafi kviknað af mannavöldum en ekki út frá rafmagni.
Engin vitni eru að því að ákærði hafi farið annað hvort inn í eða komið út úr húsinu umrætt sinn og ekkert tengir hann við brunastaðinn, annað en framburður hans sjálfs og þriggja samferðarmanna hans um að hann hafi stigið út úr bifreiðinni um skamma hríð umrædda nótt til þess að kasta af sér vatni, reykja eða hvort tveggja. Í framburði vitnanna þriggja fyrir dómi kom fram að ekkert þeirra hafi farið út úr bifreiðinni til að huga að ferðum ákærða, heldur hafi þau horft út um afturrúður bifreiðarinnar. Engar ljósmyndir liggja fyrir í málinu af umræddri bifreið, en fram kom hjá sumum vitnanna að dökkar filmur hafi verið í afturrúðum bifreiðarinnar. Atburður þessi átti sér stað um hánótt í lok september og er upplýst að myrkur hafi verið, en áhöld eru um það hversu mikla birtu lagði frá nærliggjandi götuljósum að skoti við inngang húsnæðisins, þar sem ákærði kveðst hafa haldið sig. Framburður vitnisins H um að hún telji sig hafa átt að geta séð glóð frá sígarettu ákærða styður að áliti dómsins að dimmt hafi verið utan bifreiðarinnar. Fyrir liggur að ákærði var dökkklæddur. Bar hann fyrir dómi um að hafa mestmegnis snúið baki í bifreiðina.
Ákærði hefur staðfastlega borið um að hafa haldið sig í eða nálægt skotinu allan tímann meðan hann var utan bifreiðarinnar að reykja og kasta af sér vatni. Hefur sá framburður hans ekki verið hrakinn. Skýringar hans á því hvers vegna hann hafi ekki orðið sérstaklega blautur vegna rigningar virðast koma heim og saman við upplýsingar um veður og vindátt og athugasemd, sem fram kemur í upplýsingaskýrslu lögreglu um veðurfar umrædda nótt, að skjólgott hafi verið við húsið. Að áliti dómsins verður því ekki að réttu lagi haldið fram að framburður ákærða hafi verið óstöðugur og þar með ótrúverðugur, enda þótt framburður hans um lítilvæg atriði hafi tekið einhverjum breytingum við skýrslugjöf hans hjá lögreglu.
Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu. Að áliti dómsins er, samkvæmt öllu framanrituðu, ekki komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um að hafa kveikt í húsnæðinu að [...] og verður hann því sýknaður af því broti sem í 1. lið ákærunnar greinir.
Niðurstaða um ákærulið 2.
Ákærði hefur alfarið neitað að hafa veitt ungmennunum sem heimsóttu hann í sumarbústaðinn umrætt kvöld áfengi, en viðurkennir að hafa drukkið áfengi í viðurvist þeirra og vitað um aldur þeirra. Byggir sýknukrafa hans af þessum lið ákæru á því að rangt sé og ósannað að hann hafi veitt ungmennunum áfengi og því síður hvatt þau til neyslu slíkra veiga. Hvað ákvæði 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 snertir, sem vísað er til í ákæru, byggir ákærði á því að sá verknaður sem lýst sé í ákæru falli ekki að verknaðarlýsingu þess lagaákvæðis, auk þess sem brotið gegn 1. mgr. 18. gr., sbr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998, sem honum er þar gefið að sök tæmi sök gagnvart þessu ákvæði barnaverndarlaga.
Vitnin A, B og C, sem öll voru á aldrinum 16 til 17 ára, hafa staðfastlega borið um að ákærði hafi beinlínis boðið þeim áfengi, bæði áður en þau komu í bústaðinn og eftir að þangað var komið. Liggja fyrir ljósmyndir af tveimur SMS-skeytum úr símanúmeri ákærða í símanúmer A, sem styðja þann framburð. Sú skýring ákærða, að ætlunin hafi verið að senda annað skeytið og helminginn af hinu til annars aðila, sem ekki hefur verið leiddur fyrir dóminn, er ótrúverðug.
Framburður framangreindra ungmenna á sér jafnframt stoð í framburði vitnisins K hjá lögreglu. Það vitni breytti nokkuð framburði sínum fyrir dómi, m.a. um það hvort ákærði hafi boðið ungmennunum áfengið, en staðfesti þó að ungmennin hafi drukkið af áfengi sem ákærði hafi verið með í bústaðnum. Við mat á trúverðugleika framburðar þessa vitnis fyrir dómi verður að líta til þess að þeir ákærði vinna á sama vinnustað og til breytts framburðar vitnisins fyrir dómi, frá því sem hann bar hjá lögreglu, sem að áliti dómsins bar skýran vott um að vitnið dragi taum ákærða í málinu.
Samkvæmt framburði ákærða sjálfs bauð hann ungmennunum að koma í bústaðinn, þar sem hann hafði áfengi um hönd í návist þeirra og bað m.a. eitt þeirra, C, ítrekað að blanda fyrir sig drykki. Verður ekki annað af þessu ráðið en að áfengi hafi verið á boðstólum í bústaðnum.
Með framangreindum sönnunargögnum og framburðum vitna, sérstaklega þeirra A, B og C, sem engri rýrð hefur verið varpað á, þykir fram komin fullnægjandi sönnun þess að ákærði hafi veitt ungmennunum áfengi, vitandi um aldur þeirra, og þar með brotið gegn þeim ákvæðum áfengislaga nr. 75/1998 og barnaverndarlaga nr. 80/2002 sem greinir í ákæru, sem verður beitt saman í ljósi ungs aldurs vitnanna.
Niðurstaða um ákærulið 3.
Ákærði hefur frá upphafi alfarið neitað því að nokkuð kynferðislegt hafi átt sér stað milli hans og A í sumarbústaðnum umrætt sinn og kom fram í framburði hans fyrir dómi að hann liti á hana sem barn og hefði engan áhuga á henni kynferðislega. Kvaðst hann fyrir dómi ekki hafa snert hana að öðru leyti en því að hann hafi nuddað á henni tærnar, sem hann hafi einnig gert við aðra viðstadda. Byggir ákærði sýknukröfu sína á því að rangt sé og ósannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum lið ákæru, en varakrafa hans um vægustu refsingu sem lög leyfa byggist á því að háttsemin nái ekki þeim alvarleika sem þurfi til að falla undir 194. eða 199. gr. almennra hegningarlaga, heldur einungis til þess verknaðar sem lýst sé í 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.
A hefur staðfastlega borið um að ákærði hafi í heita pottinum við sumarbústaðinn ítrekað káfað á kynfærum hennar innan og utan klæða og sett fingur upp í leggöng hennar. Þetta hafi ákærði gert að þremur vitnum ásjáandi, um leið og hann hafi kitlað hana undir hnésbót og þannig reynt að villa fyrir vitnunum um gerðir sínar.
A gaf ítarlega skýrslu hjá lögreglu 20. október 2011, fimm dögum eftir heimsóknina í sumarbústaðinn. Framburður hennar fyrir dómi samræmist fyllilega skýrslu hennar hjá lögreglu, þótt framburður hennar hjá lögreglu hafi um sumt verið ítarlegri. Er framburður hennar að áliti dómsins trúverðugur og virðist einlægur og ýkjulaus. Enda þótt hún hafi borið um að hafa verið töluvert ölvuð og telji sig ekki muna allt, sérstaklega í lok verunnar í pottinum, lýsti hún nokkuð nákvæmlega hjá lögreglu umræðuefnum þeirra í pottinum um sama leyti og hún kvað ákærða hafa brotið á sér.
Framburður A á sér stoð í framburðum þeirra B og C, sem báðir bera um að hafa séð ákærða fara ítrekað með hönd í klof hennar. Í framburði beggja kom fram að ákærði hafi jafnframt verið að kitla A og var framburður B einkar skýr um aðfarir ákærða og í fullu samræmi við framburð A. Báðir báru jafnframt um að hún hafi beðið ákærða að hætta, reynt að ýta honum frá og fært sig til í pottinum. Fyrir liggur að bæði þessi vitni eru góðir vinir stúlkunnar, en að mati dómsins varpar það eitt ekki rýrð á framburð þeirra í málinu, nema annað komi til. Báðir báru þeir um að hafa orðið ölvaðir eftir því sem á leið í pottinum, en frásögn þeirra var í samræmi við þann framburð, þar sem fram kom að minni þeirra beggja hafi versnað eftir því sem á leið. Framburður þeirra beggja um þau atriði sem þeir fullyrða að þeir muni hefur verið stöðugur og er að mati dómsins trúverðugur, sérstaklega framburður B sem var nokkuð nákvæmari í sinni frásögn. Fyrir dómi kvaðst C aðspurður hafa séð hönd ákærða fara inn fyrir nærbuxur A, en gat ekki lýst því neitt nánar og hjá lögreglu kvaðst hann ekki hafa séð það hvort höndin var utan eða innan klæða í klofi stúlkunnar. Verður framburður hans hjá lögreglu því lagður til grundvallar um það atriði, en þetta eitt sér þykir ekki þess eðlis að það dragi í heild úr trúverðugleika framburðar hans. Þá þykir það ekki draga að neinu marki úr trúverðugleika þessa vitnis þótt framburður hans hafi borið merki um mikinn tilfinningahita og reiði í garð ákærða, enda kom skýrt fram að fyrir umræddan atburð hafi vitnið ekkert átt sökótt við ákærða.
Framburður vitnisins K, þótt hann hafi tekið nokkrum breytingum fyrir dómi og vitnið virst ákærða hliðhollt, er að miklu leyti í samræmi við framburð framangreindra vitna og styður að ákærði hafi viðhaft kynferðislega tilburði gagnvart A í pottinum. Kom t.d. fram hjá þessu vitni fyrir dómi að ákærði hafi þuklað brjóst A, sleikt á henni tærnar og oftsinnis haft hana í fanginu, þótt vitnið segði stúlkuna hafa sest þar sjálfviljug. Þá staðfesti hann þann framburð sinn hjá lögreglu að hann hafi ítrekað beðið ákærða að hætta að káfa á stúlkunni og að stúlkan hafi sjálf ítrekað fært sig frá ákærða og beðið hann að hætta, en að ákærði hafi í engu sinnt því.
K bar auk þess um að stúlkan hafi sagt frá því strax í bifreiðinni á leið heim úr bústaðnum að ákærði hafi stungið fingrum í leggöng hennar. K og C, sem voru mjög ölvaðir á heimleiðinni, báru um að stúlkan hafi skýrt þeim frá þessu, strax daginn eftir atburðinn. Þetta kom auk þess fram í framburði L hjá lögreglu, þótt hún skýrði ekki jafn ítarlega frá frásögn A fyrir dómi og hún gerði hjá lögreglu.
Við skýrslutöku fyrir dómi af vitninu K var gengið út frá því að vitnið hafi borið um það hjá lögreglu að hann hafi séð hönd ákærða í klofi stúlkunnar, en fyrir dómi fullyrti hann þráspurður að þetta hafi hann ekki séð sjálfur. Skýrslugjöf vitnisins hjá lögreglu var tekin upp í hljóði og mynd og liggur sá mynddiskur meðal málsgagna, auk samantektar lögreglu á framburði vitnisins. Við skoðun á mynddiskinum kom í ljós að samantekt lögreglu á framburði vitnisins er ekki fyllilega nákvæm, að því leyti að þar er ekki getið þeirrar spurningar lögreglu til vitnisins hvort hann hafi séð hægri hönd ákærða snerta stúlkuna einhvers staðar, en áður hafði komið fram hjá vitninu að sú hönd ákærða hafi legið undir læri stúlkunnar. Á upptökunni heyrist að K svarar þessari spurningu neitandi. Er því af framburði hans hjá lögreglu að skilja að hann hafi ekki séð höndina í klofi stúlkunnar ofan í vatninu, eins og framburður hans hjá lögreglu fram að því hafði gefið til kynna, heldur hafi hann einungis dregið þá ályktun af stöðu handleggsins og sökum þess að B hafi sagst hafa séð höndina þar.
Að áliti dómsins verður framburði K ekki alfarið vísað á bug sem ótrúverðugum, þótt hann hafi tekið töluverðum breytingum fyrir dómi. Framburður hans um það hvort ákærði hafi sýnt af sér kynferðislega tilburði var hins vegar reikull fyrir dómi og tók að auki miklum breytingum frá því sem hann greindi frá hjá lögreglu. Framan af við skýrslutöku fyrir dómi dró vitnið fjöður yfir það að ákærði hafi sýnt af sér nokkra kynferðislega tilburði gagnvart stúlkunni, en þegar borinn var undir hann framburður hans hjá lögreglu staðfesti hann að mestu leyti þann framburð, eins og að framan hefur verið rakið. Ekkert í framburði annarra vitna í málinu styður þann framburð K að A hafi sjálf sýnt ákærða kynferðislega tilburði eða gefið honum nokkuð tilefni til að ætla að hún hefði kynferðislegan áhuga á honum, hvorki umrætt kvöld né í fyrri samskiptum þeirra. Telur dómurinn hinn breytta framburð vitnisins að þessu leyti ótrúverðugan og kunna að skýrast annað hvort vinnutengslum hans við ákærða eða af því sem vitnið upplýsti, að slitnað hafi upp úr vinasambandi hans og stúlkunnar vegna þessa atburðar, m.a. sökum þess að móðir hennar og stjúpfaðir hafi bannað henni að umgangast vitnið.
Fyrir dóminum liggja jafnframt vottorð sálfræðings, geðlæknis og sérfræðings í hjúkrun, sem öll hafa átt viðtöl við stúlkuna. Er með vottorðum þessum og framburðum þessara vitna fyrir dómi, staðfest að stúlkan hafi sýnt einkenni sem samræmast því að hún hafi orðið fyrir áfalli í umræddri sumarbústaðarferð og er engin ástæða til að draga í efa að þau einkenni sé að stórum hluta að rekja til þessa atburðar, þótt upplýst sé að andlegt ástand stúlkunnar hafi verið viðkvæmt fyrir atburðinn og að hún hafi orðið fyrir öðrum áföllum á lífsleiðinni.
Samkvæmt öllu framanrituðu þykir, gegn neitun ákærða, sannað að hann hafi umrætt sinn ítrekað strokið kynfæri A, a.m.k. utan klæða. Eftir stendur hvort ákærði hafi jafnframt ítrekað strokið og nuddað kynfæri stúlkunnar innanklæða og stungið fingri í leggöng hennar nokkrum sinnum, eins og í ákæru greinir.
Fyrir dómi bar stúlkan um að fingur ákærða hafi ítrekað káfað á kynfærum hennar, ýmist utan eða innan klæða og að fingur hans hafi farið inn í leggöng hennar „oftar en einu sinni“. Þrjú vitni voru að atburðum og styðja framburðir þeirra framburð stúlkunnar eins langt og þeir ná, en upplýst er að aðstæður voru með þeim hætti að örðugt hefur verið að greina nákvæmlega ofan í vatninu hvort ákærði stakk fingri inn fyrir nærbuxur hennar og inn í leggöng hennar.
Eins og að framan er rakið telur dómurinn framburð stúlkunnar um atburði hafa verið staðfastan og trúverðugan um þau atriði sem hún man. Framburður ákærða hefur aftur á móti tekið nokkrum breytingum frá framburði hans hjá lögreglu, einkum hvað varðar skýringar hans á þremur SMS-skilaboðum sem hann sendi stúlkunni fyrir og eftir dvöl hennar í bústaðnum, en þær skýringar sem hann gaf fyrir dómi á þessum sendingum telur dómurinn ótrúverðugar. Eins og að framan er rakið er það niðurstaða dómsins, gegn neitun ákærða, að hann hafi ítrekað strokið kynfæri hennar utan klæða. Þá verður ekki hjá því litið við mat á trúverðugleika framburðar ákærða að auk þess sem hann kveðst hafa nuddað fætur stúlkunnar í pottinum, viðurkennir hann að hafa kysst einn unglingspiltanna. Framburðir vitna um þann atburð benda til þess að sá atburður hafi tengst því að fá brotaþola til að afklæða sig. Bera þessar athafnir ákærða vott um að hugarfar hans í pottinum hafi ekki verið eins laust við allt kynferðislegt og hann vill vera láta.
Framburður A er studdur framburði piltanna þriggja, þ.e. K, sem bar fyrir dómi um að hún hafi strax í bifreiðinni á leið heim úr bústaðnum greint frá því að ákærði hafi stungið fingri í leggöng hennar og þeirra B og C, sem lítið mundu eftir bílferðinni, en báru um að stúlkan hafi skýrt þeim frá því, líklega daginn eftir, að ákærði hafi farið með fingur í leggöng hennar. Samræmist þetta einnig því sem fram kom í framburði vitnisins L hjá lögreglu, þótt þetta atriði hafi ekki verið borið undir hana fyrir dómi, og einnig stuttri skýrslu móður C, sem hún gaf undir lok skýrslutöku sonar hennar hjá lögreglu, en hún var ekki leidd sem vitni fyrir dóminn. Dregur það ekki úr trúverðugleika framburðar stúlkunnar að hún virðist ekki hafa skýrt móður sinni frá þessu tiltekna atriði, enda greindi móðir hennar frá því að stúlkan hafi átt erfitt með að tjá sig um atburðinn.
Í ljósi alls framanritaðs telur dómurinn, þrátt fyrir neitun ákærða, að leggja verði til grundvallar þann framburð A fyrir dómi að ákærði hafi umrætt sinn strokið kynfæri hennar ítrekað bæði utan og innan klæða og stungið fingri oftar en einu sinni inn í leggöng hennar. Í ákæru er ákærða jafnframt gefið að sök að hafa „nuddað“ kynfæri stúlkunnar innanklæða. Ekki verður séð að stúlkan hafi greint frá því hjá lögreglu að ákærði hafi nuddað kynfæri hennar og fyrir því ákæruatriði fékkst ekki sérstök stoð í framburðum vitna fyrir dómi. Telst það því ósannað.
Ekkert, fyrir utan ótrúverðugan framburð K, bendir til þess að stúlkan hafi gefið ákærða nokkuð tilefni til að ætla að hún hefði áhuga á honum kynferðislega. Sannað þykir með framburði piltanna þriggja að stúlkan hafi í pottinum ítrekað ýtt ákærða frá sér og sagt honum að hætta. Breytir engu þótt hún kunni að hafa orðað það svo að hún vildi ekki meira „kitl“ en hafið þykir yfir allan vafa að háttsemi ákærða hafi átt sér stað gegn vilja hennar og að ákærða hafi mátt vera það ljóst. Einnig þykir með framburði vitna sannað að ákærði hafi að einhverju marki haldið í eða undir hné stúlkunnar og kitlað hana í hnésbót um leið og hann framdi brot sín. Dómurinn telur sýnt að ákærði, sem var 35 ára að aldri og mun meiri að líkamsburðum en stúlkan, hafi neytt þessara augljósu yfirburða sinna til að koma fram vilja sínum gagnvart stúlkunni sem var á 17. ári Þá verður að líta til þess að brot ákærða átti sér stað í töluverðri fjarlægð frá þéttbýli og þess að bæði stúlkan og tveir af þremur vina hennar voru ölvuð af áfengi sem ákærði hafði veitt þeim. Þegar þessar aðstæður eru virtar heildstætt verður að telja að í þeim felist ótvírætt „annars konar ólögmæt nauðung“ í skilningi 1. mgr. 194. gr. og það að stinga fingri í leggöng hefur í dómaframkvæmd verið talið til annarra kynferðismaka í skilningi sama lagaákvæðis. Hefur ákærði með háttsemi sinni því gerst sekur um nauðgun og telst brot hans réttilega heimfært í ákæru til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með þeim breytingum sem gerðar voru á því lagaákvæði með 3. gr. laga nr. 61/2007.
Niðurstaða um ákærulið 4.
Ákærði kannast við að hafa farið á eftir A inn í svefnherbergi í bústaðnum, þar sem hún var nakin með handklæði vafið utan um sig, en neitar því alfarið að hafa kysst hana þar og að hafa viðhaft orðfæri af því tagi sem honum er gefið að sök í þessum lið ákærunnar.
Byggir sýknukrafa hans á því að háttsemin sé ósönnuð, sérstaklega að um hafi verið að ræða tungukoss. Til vara, teljist háttsemin sönnuð, byggir ákærði á því að hún nái ekki þeim alvarleika sem þurfi til að falla undir 199. gr. almennra hegningarlaga og geti einungis varðað við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Þá er á því byggt að komi til sakfellingar fyrir bæði 3. og 4. lið ákæru verði að líta á háttsemina sem einn samfelldan verknað en ekki tvö brot. Beri þá einungis að refsa fyrir þann verknaðarþátt sem sé alvarlegri og skuli þá ekki refsa sérstaklega fyrir 4. lið ákærunnar.
Framburður A um að ákærði hafi, gegn vilja hennar, kysst hana tungukossi í svefnherbergi sumarbústaðarins, er studdur framburði vitnanna B og C, sem báðir báru fyrir dómi um að hafa séð ákærða vera að kyssa stúlkuna, er þeir litu inn um herbergisdyrnar. Framburður þeirra um þetta atriði hefur verið stöðugur frá upphafi og nýtur auk þess stuðnings í framburði K um að piltarnir hafi báðir hafi litið inn í herbergið og sagt honum frá því að ákærði væri „í sleik“ við stúlkuna.
Framburður stúlkunnar um að ákærði hafi kysst hana tungukossi í herberginu fær jafnframt stoð í SMS-skilaboðum sem fyrir liggur að ákærði sendi henni eftir að hún og félagar hennar höfðu yfirgefið bústaðinn, þar sem hann vísar til tungu hennar og vara. Sú skýring ákærða að hafa ætlað vitninu B þessi skilaboð kom fyrst fram fyrir dómi og er einfaldlega ótrúverðug að áliti dómsins.
Engin vitni eru að orðaskiptum ákærða og stúlkunnar í herberginu, en ekkert er fram komið sem varpar rýrð á framburð hennar um að ákærði hafi sagst langa í hana og vilja „ríða“ henni.
Í ljósi alls framanritaðs þykir, gegn neitun ákærða, komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi kysst stúlkuna tungukossi í herberginu og auk þess viðhaft þau orð sem í 3. lið ákærunnar greinir. Telst sú háttsemi varða við 199. gr. almennra hegningarlaga. Í ljósi ungs aldurs stúlkunnar þykir brotið jafnframt varða við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, eins og í ákæru greinir.
IV
Ákærði hefur hér verið sýknaður af brennubroti samkvæmt 1. lið ákærunnar en sakfelldur fyrir þau kynferðis-, áfengislaga- og barnaverndarlagabrot sem greinir í 2. til 4. lið ákærunnar, að frátöldu því að ósannað er að hann hafi „nuddað“ kynfæri brotaþola innanklæða og að hann hafi stungið fingri í leggöng hennar oftar en tvisvar, en vafi um fjölda skipta verður metinn ákærða í hag í ljósi framburðar brotaþola fyrir dómi.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði átti ákærði sér nokkurn sakaferil fram til ársins 2002, en eftir það hefur hann ekki gerst sekur um refsiverð brot svo kunnugt sé. Ákærði hefur ekki áður orðið uppvís að ofbeldis- eða kynferðisbroti og hefur sakaferill hans ekki sérstök áhrif við ákvörðun refsingar hans nú.
Ákærði á sér engar málsbætur.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að brot hans beindust að mikilvægum hagsmunum, sér í lagi friðhelgi og kynfrelsi 16 ára gamallar stúlku og sýnt þykir að brot hans hafi haft umtalsverðar afleiðingar í för með sér fyrir andlega líðan hennar, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt a. lið 195. gr. sömu laga ber að virða það til þyngingar að brot ákærða gegn 1. mgr. 194. gr. sömu laga beindist að barni yngra en 18 ára.
Þá verður til þess litið til þess hvernig verknaður ákærða var framkvæmdur, sbr. 3. tl. sömu málsgreinar. Ákærði bauð 16 til 17 ára gömlum unglingum til sín í sumarbústað utan byggðar, þar sem hann veitti þeim áfengi, braut þar ítrekað og í talsverðan tíma gegn kynfrelsi brotaþola í heitum potti, að unglingspiltunum viðstöddum, auk þess sem ákærði sendi ítrekað upp úr pottinum og inn í bústaðinn til að blanda drykki þann piltanna sem líklegastan mátti telja til að grípa inn í atburðarrásina. Sköpuðust þannig aðstæður sem voru til þess fallnar að brotaþoli upplifði bjargarleysi, eins og raun bar á.
Í ljósi framangreindra sjónarmiða og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 18 mánuði. Engin efni eru til þess að fresta fullnustu þeirrar refsingar skilorðsbundið.
V
Samkvæmt úrslitum um 1. lið ákærunnar verður einkaréttarkröfu D vísað frá dómi.
Stendur þá eftir að taka afstöðu til einkaréttarkröfu sem höfð er uppi af hálfu forráðamanns A. Er hún rökstudd svo í fyrirliggjandi einkaréttarkröfu að um sé að ræða kynferðisbrot 35 ára gamals manns gegn 16 ára stúlku. Ákærði hafi misnotað sér aðstöðu sína með því að veita brotaþola fyrst áfengi og áreita hana síðan kynferðislega. Með framferði sínu hafi ákærði gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu brotaþola og beri honum að bæta þá meingerð með því að greiða henni miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brot hans sé til þess fallið að valda brotaþola hugarangri, andlegri vanlíðan og óöryggi og þá sérstaklega með tilliti til ungs aldurs hennar. Ekki liggi enn fyrir hver endanlegur miski brotaþola sé, enda geti áhrif brotsins verið lengi að koma fram að fullu. Brotaþoli hafi gengið til sálfræðings í kjölfarið og sé því ferli ekki lokið. Kærða hafi verið kunnugt um aldur brotaþola og þekkt til hennar. Því verði að telja að hann hafi brugðist freklega því trausti sem hún hafi borið til hans sem eldri manns sem hún þekkti. Atburðurinn hafi haft djúp áhrif á brotaþola, sem óttist ákærða eftir atvikið.
Með niðurstöðu dómsins um 2. til 4. lið ákærunnar liggur fyrir að ákærði er sekur um refsiverð brot sem m.a. beindust að kynfrelsi stúlku sem þá var 16 ára gömul. Ákærði hefur gerst sekur um alvarlega meingerð gagnvart brotaþola og á hún því rétt á miskabótum úr hendi hans, samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af atvikum öllum, ungum aldri brotaþola og vottorðum um andlega líðan hennar eftir atburðinn þykir kröfu um miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur stillt í hóf. Verður hún því tekin til greina að fullu, með vöxtum eins og í dómsorði greinir, en upphafstími dráttarvaxta verður miðaður við það er mánuður var liðinn frá birtingu bótakröfunnar fyrir ákærða, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur.
Samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti ákæruvalds stafar allur kostnaður sem þar er tilgreindur, utan reiknings frá Barnahúsi vegna vottorðs sálfræðings að fjárhæð 30.000 krónur, af rannsókn á því sakarefni sem í 1. lið ákærunnar greinir, þar á meðal kostnaður samkvæmt tveimur reikningum verjanda ákærða. Þar sem ákærði hefur verið sýknaður af þeim ákærulið greiðist allur sá kostnaður úr ríkissjóði, utan kostnaðar af nefndu vottorði sem ákærði verður dæmdur til að greiða.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hdl., vegna starfa hans fyrir dómi og við rannsókn málsins, að því marki sem ekki hefur þegar verið greitt fyrir störf hans samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti ákæruvaldsins, þykja hæfilega ákveðin 1.192.250 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en auk þess ber verjandanum greiðsla vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 55.086 krónur og vegna aksturs að fjárhæð 191.427 krónur. Með hliðsjón af úrslitum málsins og með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, verður ákærði dæmdur til að greiða helming framangreindra fjárhæða, eða samtals 719.382 krónur, en helmingur þeirra greiðist úr ríkissjóði. Ákærði verður hins vegar dæmdur til að greiða að fullu þann sakarkostnað sem hlaust af réttargæslu brotaþola. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola fram að aðalmeðferð málsins, Bjarna G. Björgvinssonar hrl., þykir hæfilega ákveðin 70.000 krónur og þóknun Stefáns Þórs Eyjólfssonar hdl., sem skipaður var réttargæslumaður hennar við aðalmeðferð málsins, er hæfilega ákveðin 350.000 krónur, hvort tveggja að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en auk þess ber þeim síðarnefnda greiðsla vegna aksturs að fjárhæð 44.460 krónur. Annar sakarkostnaður hlaust ekki af málinu. Verður ákærða því gert að greiða alls 1.213.842 krónur í sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti mál þetta Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.
Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara sem dómsformanni og meðdómsmönnunum Áslaugu Björgvinsdóttur héraðsdómara og Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara, kl. 14:00 þriðjudaginn 3. júlí 2012 í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum.
Dómsorð:
Ákærði, Snorri Einarsson, er sýkn af ákæru fyrir brennu samkvæmt 1. lið ákærunnar.
Ákærði sæti fangelsi í 18 mánuði.
Einkaréttarkröfu D er vísað frá dómi.
Ákærði greiði E, f.h. A, miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 15. október 2011 til 27. febrúar 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 1.213.842 krónur, og er þar innifalinn helmingur málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans, Gísla M. Auðbergssonar hdl., vegna starfa hans fyrir dómi og að hluta við rannsókn málsins, sem í heild nema 1.192.250 krónum, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk helmings útlagðs kostnaðar verjandans að fjárhæð 55.086 krónur og kostnaðar af akstri hans, 191.427 krónur, en helmingur þessara fjárhæða greiðist úr ríkissjóði. Er þar einnig innifalin þóknun Bjarna G. Björgvinssonar hrl., skipaðs réttargæslumanns brotaþola fram að aðalmeðferð málsins, 70.000 krónur og Stefáns Þórs Eyjólfssonar hdl., sem skipaður var réttargæslumaður brotaþola við upphaf aðalmeðferðar málsins, 350.000 krónur, hvort tveggja að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk aksturskostnaðar þess síðarnefnda að fjárhæð 44.460 krónur. Loks er innifalin í þessari fjárhæð kostnaður að fjárhæð 30.000 krónur vegna öflunar vottorðs samkvæmt yfirliti ákæruvalds um sakarkostnað.
Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.