Hæstiréttur íslands

Mál nr. 484/2002


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Fjársvik
  • Tilraun
  • Sakartæming
  • Skilorðsrof
  • Reynslulausn


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. mars 2003.

Nr. 484/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Ragnari Davíð Bjarnasyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Skjalafals. Fjársvik. Tilraun. Sakartæming. Skilorðsrof. Reynslulausn.

R var sakaður um tilraun til fjársvika og skjalafals með því að hafa reynt í félagi við annan mann að svíkja út hjá tilteknu fyrirtæki skjávarpa og myndavél og undirritað kvittun fyrir móttöku varanna með nafni annars manns. Var R sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, en það ákvæði tæmdi sök gagnvart 248. gr. laganna. Með brotinu rauf R skilyrði reynslulausnar á samtals 720 daga eftir stöðvum fangelsis refsingar. Var refsing hans fyrir brotið og óafplánuð refsing hans samkvæmt eldri dómum ákveðin í einu lagi. Við ákvörðun refsingarinnar var annars vegar litið til sakaferils R og þess að hann framdi brotið í félagi við annan mann, en hins vegar til þess að hann var ungur að árum og játaði brot sitt hreinskilnislega. Var refsing R ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. október 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu hans.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Ákærði er sakaður um tilraun til fjársvika og fyrir skjalafals 5. febrúar 2002 með því að hafa reynt í félagi við annan mann að svíkja út hjá tilteknu fyrirtæki skjávarpa og myndavél, eins og nánar er rakið í ákæru, og undirritað kvittun fyrir móttöku varanna með nafni annars manns. Eins og í héraði hélt ákærði því fram fyrir Hæstarétti að hann hafi ekki framið brotið í félagi við annan mann, svo sem honum er gefið að sök í ákæru. Ríkissaksóknari og ákærði áfrýjuðu héraðsdómi einvörðungu til endurskoðunar á viðurlögum, sbr. a. lið 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1994. Verður niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða því ekki haggað. Í ákæru er brot hans talið varða við 248. gr., sbr. 20. gr., og 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Síðastgreinda ákvæðið tæmir sök gagnvart því fyrstnefnda og verður brotið því einvörðungu heimfært til 1. mgr. 155. gr. laganna.

Samkvæmt sakavottorði ákærða, sem er fæddur 1982, var hann dæmdur 23. júní 1999 í fangelsi í 2 mánuði, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann dæmdur 25. janúar 2000 fyrir rán í 10 mánaða fangelsi, þar af 8 mánuði skilorðsbundið í 3 ár, og var skilorðsbundin refsing fyrri dómsins dæmd með. Næst hlaut hann dóm í Hæstarétti 21. september 2000, hegningarauka, fangelsi í 3 ár og 6 mánuði, fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr., 211. gr., sbr. 20. gr., og 217. gr. almennra hegningarlaga. Var skilorðsbundinn hluti refsingar hans samkvæmt dóminum frá 25. janúar sama ár dæmdur með. Enn var ákærði dæmdur í fangelsi 19. desember 2000, hegningarauka í 6 mánuði, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Loks gekkst hann undir viðurlagaákvörðun 3. desember 2002 með greiðslu 128.000 króna sektar fyrir fíkniefnabrot.

Til stuðnings kröfu sinni um mildari refsingu vísar ákærði til þess að hann hafi játað brot sitt hreinskilnislega og ekkert tjón hafi hlotist af því. Þá sé heimilt samkvæmt 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum að gera honum refsingu fyrir hið nýja brot sér í lagi án skilorðs, en láta reynslulausn hans haldast, einkum ef litið sé til þess að brot hans sé annarrar tegundar en hann hafi áður verið dæmdur fyrir og þau brot hafi ekki ítrekunaráhrif. Með broti því sem hér er til umfjöllunar rauf ákærði skilyrði reynslulausnar, sem honum var veitt 26. desember 2001 á samtals 720 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar, sem honum var gert að sæta með dómum Hæstaréttar 21. september 2000 og Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember sama árs. Eftir 2. málslið 60. gr., sbr. 42. gr. almennra hegningarlaga kemur einkum til greina að láta skilorðsbundna reynslulausn haldast þrátt fyrir rof á henni, þegar brot hefur ekki verið framið af ásettu ráði eða varðar sektum. Þegar litið er til þess að hvorugt þessara atriða er fyrir hendi og til brots ákærða kemur ekki til álita að láta reynslulausn hans haldast. Verður refsing ákærða fyrir brot hans nú og óafplánuð refsing hans samkvæmt fyrrnefndum dómum ákveðin í einu lagi samkvæmt 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 77. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar ákærða verður annars vegar litið til sakaferils hans og þess að hann framdi brotið í félagi við annan mann, sbr. 2. mgr. 70. gr. sömu laga, en hins vegar til þess að hann er ungur að árum og játaði hreinskilnislega brot sitt. Samkvæmt öllu framansögðu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

          Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Ákærði, Ragnar Davíð Bjarnason, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. September 2002.

   Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 8. maí sl., á hendur ákærðu, Guðmundi Helga Svavarssyni, heimilislausum manni í Reykjavík, kt. 140162-4349, og Ragnari Davíð Bjarnasyni, Meðalholti 4, Reykjavík, kt. 151182-5429, “fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík, nema annars sé getið, á  tímabilinu frá nóvember 2001 fram í apríl 2002:

I.                     Ákærða Guðmundi Helga:

1.

Skjalafals með því að hafa föstudaginn 18. janúar framvísað hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Álfabakka 14, umsókn um tékkareikning og debetkort sem hann falsaði með nafni Páls H. Svavarssonar, kt. 070650-3989, sem umsækjanda og fengið þannig afhent hjá sparisjóðnum tékkhefti og debetkort á reikning nr. 4471 og framvísað jafnframt víxileyðublaði til tryggingar á heimild til yfirdráttar á 500.000 kr. á reikninginn, útfylltu að andvirði 500.000 kr., sem ákærði falsaði með áritun á nafni nefnds Páls sem samþykkjanda og greiðanda og með nafni Sigurðar Grétarssonar, kt. 280452-4599, sem útgefanda.  M. 10-2002-2894.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

2.

Fjársvik með því að hafa svikið út á eftirgreindum stöðum í febrúar vörur að andvirði alls kr. 51.600, sem hann greiddi með tékkum sem hann gaf út í eigin nafni á nefndan tékkareikning sem hann hafði stofnað í sparisjóðnum í nafni Páls H. Svavarssonar:

1.  Í versluninni Brynju, Laugavegi 29, vörur að andvirði kr. 31.600.

2.  Í söluturninum King Kong, Eddufelli 8, vörur að andvirði kr. 5.000.

3.  Á bensínstöð Skeljungs hf. við Vesturlandsveg vörur að andvirði kr. 15.000.

M. 10-2002-6962

3.

Fjársvik framin í janúar með því að hafa í auðgunarskyni stofnað til reikningsviðskipta við fyrirtækið Sindra-Stál hf., kt. 500377-0119, Klettagörðum 12, og á tímabilinu frá 14. janúar til 28. febrúar tekið út í reikninginn verkfæri alls að andvirði 423.846 kr. þrátt fyrir að hann væri með öllu eignalaus og ógjaldfær og ráðstafað verkfærunum með óþekktum hætti án þess að greiða reikninginn.

M. 10-2002-8274.

Telst háttsemin samkvæmt liðum I. 2 og 3 varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.

4.

Fjárdrátt með því að hafa í febrúar slegið eign sinni á verkfæri alls að verðmæti 216.950 kr., sem hann tók á leigu hjá Sindra-Stáli hf., Klettagörðum 12.

M. 10-2002-8274.

Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga.

5.

Fjársvik og skjalafals með því að hafa, á tímabilinu frá 10. janúar til 22. febrúar í 12 skipti svikið út farsíma og fylgihluti í verslunum Landssíma Íslands alls að verðmæti 834.927 kr., sem ákærði lét skuldfæra heimildarlaust í viðskiptareikning "Birkilunds, félags, Pósthólf 681", nema annars sé getið, og hafa jafnframt, að undanskildum brotunum í liðum 1, 5 og 11, falsað nafnritanir undir úttektarbeiðnir með nafnrituninni Magnús Magnússon, svo sem rakið er:

1)                   Þann 10. janúar í Kringlunni 8 - 12 vörur að verðmæti 34.980 kr.

2)                   Þann 16. janúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 24.961 kr.

3)                   Þann 25. janúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 44.940 kr.

4)                   Þann 1. febrúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 19.981 kr.

5)                   Þann 4. febrúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 298.303 kr. Ákærði lét skuldfæra andvirði vörunnar í reikning fyrirtækisins Rolf Johansen & Co og falsaði úttektarbeiðni með nafnrituninni Sigurður Hannesson.

6)                   Þann 10. febrúar í Smáralind, Kópavogi, vörur að verðmæti 54.740 kr.

7)                   Þann 13. febrúar í Ármúla 27 vörur að verðmæti 46.980 kr.

8)                   Þann 14. febrúar í Kringlunni 8 - 12 vörur að verðmæti 80.919 kr.

9)                   Þann 17. febrúar í Smáralind, Kópavogi, vörur að verðmæti 22.982 kr.

10)                Þann 17. febrúar í Kringlunni 8 - 12 vörur að verðmæti 48.460 kr.

11)                Þann 19. febrúar í Smáralind, Kópavogi, vörur að verðmæti 29.980 kr.

12)                Þann 22. febrúar að Laugavegi 15 vörur að verðmæti 127.701 kr.

M. 10-2002-9241.

Teljast þessi brot ákærða varða við 248. gr. almennra hegningarlaga og jafnframt við 1. mgr. 155. gr. sömu laga að undanskildum brotunum í liðum 1 og 11.

6.

Fjársvik og skjalafals með því að hafa mánudaginn 4. febrúar tekið á leigu hjá bílaleigunni Avis, Knarrarvogi 2, fólksbifreiðina BP-624 til 7. næsta mánaðar heimildarlaust í nafni nefnds Páls H. Svavarssonar fyrir hönd fyrirtækisins Rolf Johansen & Co. og falsað þar leigusamning í því sambandi sem hann undirritaði með nafni Páls, en lögreglan fann bifreiðina skemmda við Hafnarfjarðarveg 6. mars.

M. 10-2002-7037.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga.

7.

Skjalafals og fjársvik í febrúar með því að hafa í auðgunarskyni stofnað til reikningsviðskipta við verslunina Þór hf., Ármúla 11, og jafnframt framvísað til tryggingar væntanlegum viðskiptum víxileyðublaði fyrir andvirði 250.000 kr. sem ákærði samþykkti sjálfur til greiðslu og falsaði með áritun á nafni nefnds Páls H. Svavarssonar sem útgefanda og áritun á nafni Þóreyjar Indriðadóttur, kt. 051278-3059, sem ábekings og tekið síðan út vörur að andvirði 273.063 kr., þrátt fyrir að hann væri með öllu eignalaus og ógjaldfær, og ráðstafað vörunum með óþekktum hætti án þess að greiða reikninginn.  M. 10-2002-10093.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga.

8.

Fjársvik með því að hafa miðvikudaginn 27. febrúar svikið út hjá 4 verslunum Húsasmiðjunnar hf. vörur að verðmæti 352.537 kr. með því að láta skuldfæra andvirði varanna heimildarlaust í viðskiptareikning Teiknistofunnar, Ármúla 6, Reykjavík, hjá Húsasmiðjunni:

1)                   Í versluninni í Skútuvogi 16 vörur að andvirði 152.803 kr.

2)                   Í versluninni í Helluhrauni 16, Hafnarfirði, vörur að andvirði 47.991 kr. 

3)                   Í versluninni í Fossaleyni 2 vörur að andvirði 87.539 kr.

4)                   Í versluninni í Ármúla 18 vörur að andvirði 64.204 kr.

M. 10-2002-6869

9.

Fjársvik með því að hafa, dagana 10. og 12. janúar, svikið út vörur í 2 verslunum gegn afhendingu innistæðulausra tékka sömu fjárhæðar sem hann gaf út á reikning sinn nr. 9033 hjá S24:

1)         Blöndunartæki að verðmæti kr. 20.889 hjá verslun Metró ehf., Skeifunni 7.

2)         Matvöru að verðmæti kr. 20.476 í versluninni Gripið og greitt, Skútuvogi 4.

M. 10-2002-2758.

Telst háttsemi samkvæmt liðum I. 8 og 9 varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.

10.

Fjársvik og skjalafals með því að hafa þann 8. apríl 2002 svikið út í verslun Símans, Smáralind, Kópavogi, farsíma ásamt fylgihlutum sem ákærði lét skuldfæra heimildarlaust að hluta eða kr. 36.000 á viðskiptareikning nefnds Páls H Svavarssonar hjá Símanum og hafa jafnframt falsað þar eftirgreind skjöl með nafni Páls:

1)             Tékka að fjárhæð kr. 15.000, sem ákærði falsaði með áritun á nafni Páls sem útgefanda á eyðublað nr. 7323475, sem ákærði hafði komist yfir, og notaði sem greiðslu að hluta fyrir farsímann.

2)             Tvær umsóknir um ný símanúmer sem ákærði falsaði með nafni Páls sem umsækjenda og fengið þannig í nafni Páls afnot af símanúmerunum 893-4359 og 896-4359.

Mál nr. 10-2002-12099

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga.

11.

Brot á tékkalögum með því að hafa þann 25. janúar greitt fyrir þvott í þvottahúsi Emlu ehf., Barónsstíg 3, með innistæðulausum tékka að fjárhæð kr. 7.800 sem hann gaf út á reikning sinn nr. 6677 hjá Landsbanka Íslands, Austurbæjarútibúi, á eyðublaði nr. 8078928.  M. 10-2002-9116.

Telst þetta varða við 73. gr. tékkalaga nr. 94, 1933, sbr. lög nr. 35, 1977.

12.

Brot á umferðarlögum með því að hafa laugardaginn 10. nóvember ekið bifreiðinni KS-460, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna neyslu deyfandi lyfja, frá Reykjavík til Hafnarfjarðar en akstri hans lauk þar við Lyngás 10 þar sem ákærði sofnaði í bifreiðinni.  M. 36-2001-5910

   Telst þetta varða við 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57, 1997

13.

   Nytjatöku og brot á umferðarlögum með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 9. janúar ekið bifreiðinni TL-842, óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa áfengis og deyfandi lyfja, vestur Miklubraut og svo óvarlega að hann ók utan í bifreiðina VN-577, sem einnig var ekið vestur Miklubraut, ekið áfram gegn rauðu umferðarljósi inn á gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og á bifreiðina NR-963, sem ekið var norður Kringlumýrarbraut. Ákærða er jafnframt gefið að sök að hafa í framhaldi af því tekið heimildarlaust bifreiðina TB-496, sem stöðvuð hafði verið við nefnd gatnamót vegna árekstursins, og ekið henni, enn óhæfur til að stjórna bifreið, að versluninni Select við Bústaðaveg.  M. 10-2002-997.

   Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr., 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 48, 1987 og 3. gr. laga nr. 57, 1997.

II.

   Ákærðu báðum fyrir tilraun til fjársvika og ákærða Ragnari Davíð jafnframt fyrir skjalafals með því að hafa, þriðjudaginn 5. febrúar, reynt í félagi að svíkja út hjá verslun Nýherja, Borgartúni 37, skjávarpa og myndvél, samtals að verðmæti 572.912 kr., sem þeir pöntuðu hjá fyrirtækinu heimildarlaust í nafni fyrirtækisins Rolf Johansen & Co.  Ákærða Ragnari Davíð er jafnframt gefið að sök að hafa undirritað kvittun fyrir móttöku varanna með nafninu Ragnar Guðmundsson, kt. 160982-5439.  M. 10-2002-4615.

   Telst háttsemi beggja ákærðu varða við 248. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga og ákærða Ragnars Davíðs jafnframt við 1. mgr. 155. gr. sömu laga.

   Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar og ákærði Guðmundur Helgi jafnframt til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaganna, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 2. gr. laga nr. 23, 1998.

   Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta frá ákærða Guðmundi Helga:

   Verslunn Brynja, kt. 430573-0129, kr. 31.600 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 22. febrúar 2002 en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

   Sævar Guðlaugsson, kt. 080231-2539, kr. 5.000.        

   Skeljungur hf., kt. 590269-1749, kr. 15.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 25. febrúar 2002 en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.  M. 10-2002-6962

   Auto Reykjavík, kt. 540689-2619, kr. 437.342 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001, frá 4. febrúar 2002 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  M. 10-2002-7037.

   Húsasmiðjan hf., kt. 520171-0299, kr. 81.137 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38,2001, frá 28. febrúar 2002 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  M. 10-2002-6869.

   Verslunin Þór hf., kt.  Ármúla 11, Reykjavík, kr. 273.063.  M. 10-200210093.

   Sindra-Stál hf., kt. 500377-0119, kr. 411.104 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001, frá 1. mars 2002 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

M. 10-2002-8274.

   Landssími Íslands, kt. 500269-6779, kr. 834.827 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001, frá 22. febrúar en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  M. 10-2002-9241.

   Gripið og greitt ehf., kt. 560597-2589, kr. 20.476 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001,  frá 12.01. 2002  en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

   Metró ehf., kt. 670696-2519, kr. 20.889 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 10.01. 2002 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

   Landssími Íslands hf., kt. 500269-6779, kr. 50.4460 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001, frá 8. apríl 2002 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  M. 10-2002-12099.”

   Fallið hefur verið frá ákæru að því er varðar 1. undirlið í ákærukafla I.5.

Málavextir

I. kafli ákæru

 Ákærði Guðmundur Helgi.

   Ákærði var dæmdur í 17 ára fangelsi 1991 fyrir manndráp, rán og fleiri brot.  Hann fékk hins vegar reynslulausn af 2040 fangelsisdögum 29. júní 2001.  Ákærði er eignalaus og stundaði litla sem enga launaða vinnu á þeim tíma sem mál þetta tekur til.  Hann hefur skýrt frá því að hann hafi farið að “detta í það” í nóvember.  Í desember kveðst hann hafa verið orðinn illa áttaður og fullur og í janúar segist hann hafa verið farinn að sprauta sig daglega.

   1.  Ákærði játar að hafa 18. janúar sl., framvísað hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis umsókn um tékkareikning og debetkort sem hann hafði falsað í nafni bróður síns, Páls H. Svavarssonar, svo og tryggingarvíxil sem hann hefur við lögregluyfirheyrslu játað að hafa fyllt út að öllu leyti og falsað á nafn þessa bróður síns og Sigurðar Grétarssonar.  Fyrir dómi hefur hann heldur dregið úr og sagt að hann hafi fengið víxileyðublaðið afhent þar sem nafn Páls var ritað sem samþykkjandi.  Hann hafi vitað að nafnritun Páls var fölsuð en ekki vitað hvort nafn Sigurðar Grétarssonar var falsað.  Ákærði segist hafa stofnað reikning þennan til þess að hrekkja bróður sinn.  Fyrir liggur að hann lagði inn á reikninginn 35.000 krónur og fékk afhent tékkhefti á reikninginn.

   Sannað er með játningu ákærða að hann framvísaði fölsuðum skjölum til þess að stofna bankareikning eins og lýst hefur verið.  Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.

   2.  Ákærði hefur viðurkennt, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hafa gefið út og notað þrjá tékka úr heftinu sem hann fékk vegna reikningsins í Sparisjóði Reykjavíkur í staðgreiðsluviðskiptum í Brynju við Laugaveg, King Kong við Eddufell og bensínstöð Skeljungs við Vesturlandsveg.  Hann hefur síðar tekið þessa játningu til baka.  Telja verður þó sannað að ákærði hafi gefið út tékkana með eigin nafni, en skrifað rangt reikningsnúmer á hvern þeirra, sem þó líkjast öll hinu rétta númeri.  Ákærði hafði lagt 35.000 krónur inn á reikninginn, eins og áður segir, og verður ekki annað séð en að sú fjárhæð hafi staðið inni á reikningnum þegar ákærði notaði tékkana.  Þá er þess að geta að kæra Brynjólfs kaupmanns Björnssonar í Brynju, sem er gerð á  staðlað form, virðist bera það með sér að einungis hafi verið gerð tilraun til þess að svíkja út vörur í versluninni.  Er og einnig á það að líta að í kærunni er nefndur til sögunnar annar maður en ákærði en ákærði hefur sagt að hefti með þessum tékkum hafi verið stolið frá honum.  Hefur hann og sagt að verið geti að hann hafi verið búinn að skrifa undir tékkana áður en heftinu var stolið.  Vitni hafa ekki verið leidd að þessum viðskiptum.  Verður að telja að nokkuð sé enn óljóst með þau og loks er eins og áður segir að líta á það að 35.000 króna innistæða var á reikningnum.  Ber því að sýkna ákærða af öllum þessum ákærukafla og vísa bótakröfunum frá dómi.

   3.  Ákærði kannast við að hafa tekið út verkfæri hjá Sindra-Stáli eins og lýst er í þessum ákærulið.  Ákærði segist hvorki hafa verið ógjaldfær né eignalaus og þetta hafi auk þess verið reikningsviðskipti eins og algeng séu.  Segir hann aðgerðir lögreglu hafa brugðið fyrir hann fæti því hann hafi ætlað að vinna við húsaviðgerðir með verkfærunum og stofna auk þess fyrirtæki til þess að stunda vélaviðgerðir.  Ákærði segist ekki hafa ráðstafað þessum verkfærum með ólögmætum hætti heldur segir hann lögregluna hafa komið og tekið þau gegn mótmælum hans. 

   Eins og rakið er hér að ofan er ákærði eignalaus og var á þeim tíma sem hér skiptir máli háður fíkniefnum og hafði ekki vísar tekjur.  Ákærði var á reynslulausn úr fangelsi þegar hann tók út vörurnar en hafði skömmu áður ekið bíl undir áhrifum lyfja og valdið umferðarslysi, tekið annan bíl í heimildarleysi og ennfremur notað innistæðulausa tékka í viðskiptum, sbr. hér á eftir.  Hlaut honum að vera ljóst að hann stofnaði hagsmunum Sindra-Stáls hf. í verulega hættu þegar hann tók út vörurnar.  Hefur hann orðið sekur um fjársvik með því að taka út vörurnar hjá fyrirtækinu þegar svo stóð á fyrir honum og hefur brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga.

   Bótakrafa Sindra-Stáls hf. er skilyrt og óljós og jafnframt liggur fyrir að verkfærin komust til skila, að hluta til, a.m.k.  Er kröfunni vísað frá dómi.

   4.  Ákærði kannast við að hafa tekið á leigu verkfærin hjá Sindra-Stáli hf. samkvæmt þessum ákærulið og hefur uppi sömu andmæli og í 3. lið að því er þennan lið varðar.  Kveður hann megnið af verkfærunum hafi komist til skila eftir að lögregla lagði hald á þau.  Hann neitar því að hafa slegið eign sinni á verkfærin.  Gegn neitun ákærða er alls ósannað að hann hafi slegið eign sinni á þessi verkfæri og ber að sýkna hann af þessum ákærukafla.

   5.  Ákærði neitar sök að því er varðar þennan ákærukafla að öðru leyti en því að hann játar fjársvik og skjalafals í Ármúla, 4. febrúar 2001, að fjárhæð 298.303 kr. í reikning fyrirtækisins Rolf Johansen, eins og þessu er lýst í 5. undirlið.  Að öðru leyti kveðst hann vera saklaus.  Hann kveðst hafa haft heimild Magnúsar Magnússonar til þess að láta skuldfæra þessi viðskipti á viðskiptareikning fyrirtækis hans, Birkilundar, en Magnús hafi á þessum tíma setið í fangelsi.  Kveðst hann halda að hann hafi skrifað nafn Magnúsar á úttektarbeiðnirnar, a.m.k.. flestar þeirra.  Hann viti það þó ekki með vissu, enda hafi hann verið í mikilli óreglu þegar þetta gerðist.  Hann hafi í öllum tilvikunum haft heimild Magnúsar til þess að rita nafn hans.  Hafi Magnús skuldað honum fé og símbúnaðurinn sem hann tók út í reikning fyrirtækisins hafi verið greiðsla á þeirri skuld.  Magnús Magnússon hefur komið fyrir dóm og sagt að ákærði hafi haft heimild til þess að taka út einn síma í reikning fyrirtækis hans en ekki fleiri.  Hafi ákærði tekið þann síma út um leið og hann tók sjálfur út síma á nafn fyrirtækis síns.  Segir hann að engin starfsemi hafi verið í fyrirtæki þessu og samskipti þeirra ákærða ekki verið önnur en að hafa skemmtun og félagsskap hvor af öðrum. 

   Magnús Magnússon hefur mótmælt því að hann hafi gefið ákærða heimild til þess að rita nafn hans á úttektarbeiðnirnar og að taka út fleiri farsíma en einn.  Ákærði var í mikilli óreglu þegar þetta gerðist og jafnvel þótt hann hefði haft heimild Magnúsar til þess arna bera úttektir ákærða á  þessum verðmætu og auðseljanlegu vörum það greinilega með sér að að þær voru gerðar í sviksamlegum tilgangi.  Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga varðandi undirliði 2-10 og 12 en það ákvæði tæmir sök á móti 248. gr. hegningarlaganna.  Varðandi  undirlið nr. 11 hefur ákærði brotið gegn 248. gr. sömu laga.

   Að kröfu Landsíma Íslands hf. ber að dæma ákærða til þess að greiða fyrirtækinu 799.947 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001, frá 22. febrúar 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laganna til greiðsludags.

   6.  Ákærði játar skýlaust að hafa tekið á leigu bíl hjá fyrirtækinu Avis og að hafa falsað nafn fyrrnefnds bróður síns, Páls H. Svavarssonar, á leigusamninginn.  Hefur ákærði brotið gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.

   Talsvert skortir á það að bótakrafa Avis sé skýr og nægilega rökstudd.  Ber að vísa henni frá dómi.

   7.  Ákærði játar skýlaust að hafa falsað nöfn Páls H. Svavarssonar og Þóreyjar Indriðadóttur á víxil sem hann lét til tryggingar viðskiptum sínum í versluninni Þór hf., Ármúla, í febrúarbyrjun og að hafa síðan tekið út vörur í eigin nafni fyrir 273.063 krónur, 18. og 21. febrúar.  Ákærði segist ekki hafa ætlað að svíkja út þessar vörur heldur ætlað sér að greiða þær með skilum.  Hafi hann ætlað sér að stofna fyrirtæki um tölvuinnflutning með öðrum.  Um hagi ákærða á þessum tíma er vísað til þess sem segir um þá í kafla I.3 hér að ofan.  Jafnframt er á það að líta að hann stofnaði til þessara viðskipta með því að afhenda falsaðan víxil.  Verður að líta á atferlið allt sem heild og telja að úttekt hans á vörunum hafi verið gerð með svikum.  Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga sem hér tæmir sök gagnvart 248. gr. laganna.

   Að kröfu Þórs hf. ber að dæma ákærða til þess að greiða fyrirtækinu 273.063 krónur í skaðabætur.

   8.  Ákærði hefur skýlaust játað, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hafa svikið út vörur fyrir 352.537 krónur í fjórum verslunum Húsasmiðjunnar hf., með því að láta skrifa vörurnar hjá teiknistofunni Ármúla 6, Reykjavík, eins og lýst er í ákærunni.  Hefur hann orðið brotlegur við 248. gr. almennra hegningarlaga með þessu athæfi sínu.

   Að kröfu Húsasmiðjunnar hf. ber að dæma ákærða til þess að greiða fyrirtækinu 81.640 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laganna til greiðsludags.

   9.  Ákærði neitar sök að því er varðar tékkasvik gagnvart verslununum Metró, Skeifunni 7, og Gripið og greitt, Skútuvogi 4, 10. og 12 janúar sl.  Hann segir tékka þessa hafa verið geymslutékka og hafi hann fengið að dagsetja þá fram í tímann, enda hafi hann átt von á því að fá greitt inn á reikninginn á móti tékkunum, þó að það hafi að vísu brugðist.  Kveðst hann hafa litið svo á að verslanirnar hafi fallist á að innleysa ekki tékkana fyrr en á þeim degi sem þeir voru dagsettir.  Annar þessara tékka er áritaður orðinu “geymslutékki”.  Vitni hafa ekki verið leidd um þessi viðskipti. 

   Ákæruvaldinu hefur ekki tekist að hnekkja því fyrir ákærða að hann hafi mátt líta svo á samkomulag væri um það við verslanirnar að tékkarnir yrðu ekki innleystir fyrr en á þeim degi sem þeir voru dagsettir.  Eins og ákærunni er háttað kemur ekki til álita hvort notkun hans á tékkunum og vöruúttektin hafi verið sviksamleg vegna annarra atvika og ber því að sýkna ákærða af ákæru fyrir fjársvik.  Aftur á móti hefur ákærði brotið gegn 73. gr. tékkalaga nr. 94,1933, sbr. lög nr. 35,1977.

   Að kröfu verslunarinnar Gripið og greitt ehf. ber að dæma ákærða til þess að greiða í skaðabætur 20.476 krónur ásamt almennum vöxtum frá 12. janúar 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.  Þá ber að kröfu verslunarinnar Metró ehf. að dæma hann til þess að greiða 20.889 krónur í bætur ásamt almennum vöxtum frá 10. janúar 2002 til dómsuppsögu, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

   10.  Ákærði játar skýlaust að hafa notað skjöl sem hann hafði falsað til þess að svíkja út vörur úr verslun Landsímans í Smáralind í Kópavogi, eins og lýst er í ákærukafla I.10.  Hefur ákærði með þessu orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga sem tæmir hér sök gagnvart 248. gr. almennra hegningarlaga.

   Að kröfu Landsímans hf. ber að dæma ákærða til þess að greiða  fyrirtækinu 50.460 krónur í bætur ásamt almennum vöxtum frá 8. apríl 2002 til dómsuppsögu, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

   11.  Ákærði hefur skýlaust játað tékkalagabrot gagnvart þvottahúsinu Emlu ehf, Barónsstíg 3.  Hefur hann brotið gegn 73. gr. tékkalaga.

   12.  Ákærði neitar sök að því er varðar aksturinn á bílnum KS-460 10. nóvember sl.  Segist hann ekki hafa verið ófær um að aka bíl þessum, eins og í ákærunni segir.  Tilkynnt var til lögreglu um akstur ákærða kl. 8.48.  Um klukkan hálftíu fannst bíllinn og var ákærði sofandi undir stýri.  Var honum tekið blóð til rannsóknar en hvorki fannst í því vínandi né deyfilyf.   Aftur á móti reyndist hann vera mjög syfjulegur og sljór við læknisskoðun, en þó áttaður á stað og stund.  Ljósop voru eðlileg en á hinn bóginn reyndist hann vera klaufskur í hreyfingum og reikull í spori.  Er það skoðun læknisins, Sveins Magnússonar, að ákærði hafi engan veginn verið í því ástandi að geta ekið bíl.  Lögreglumenn þeir sem afskipti höfðu af ákærða segja hann einnig hafa verið sljóan, þvoglumæltan og óstyrkan.

   Telja verður sannað með vottorði læknisins og frásögn lögreglumannanna að ákærði hafi af einhverjum ástæðum verið ófær um að stýra bíl örugglega í því tilviki sem ákært er út af.  Aftur á móti fannst ekkert það í blóði hans sem gæti skýrt þetta ástand hans og þykir ekki alveg óhætt að slá því föstu að það hafi stafað af deyfandi lyfjum.  Eins og ákæran er úr garði gerð koma ekki önnur atriði til athugunar og ber að sýkna ákærða af þessum ákærukafla.

   13.  Ákærði viðurkennir skýlaust að hafa ekið bílnum TL-842 undir áhrifum áfengis og deyfandi lyfja.  Hann segist ekki muna eftir einstökum atriðum í sambandi við aksturinn vegna vímu sem hann hafi verið í.  Í blóði hans fundust 1,43 ‰ af vínanda en 1,58 ‰ í þvagi.  Þá fannst í blóðinu 330 ng/ml af amfetamíni og einnig lítils háttar af tetróhýdrókannabínóli.  Segir í vottorði Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands að maður með amfetamín í þessum mæli í blóði geti ekki stjórnað bíl örugglega.  Aftur á móti hafi tetrahýdrókannabínólmagnið í blóðinu verið svo lítið að það hafi ekki haft áhrif á getu ákærða til þess að stjórna bíl. Vitni hafa ekki verið leidd að akstri ákærða á Miklubraut og árekstrinum þar við VN-577 en fyrir liggur að ákærði ók inn í hliðina á öðrum bíl, NR-963, á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.   Segir ökumaður þess bíls, Atli Rúnar Þorsteinsson, að ákærði hafi ekið gegn rauðu ljósi.  Þá liggur það og fyrir að ákærða var hjálpað undan stýri eftir slysið og inn í annan bíl meðan hringt var á sjúkrabíl fyrir hann.  Þá er það upplýst með skýrslum vitna, þeirra Elísabetar Magnúsdóttur, sem hafði hjálpað ákærða inn í bíl sinn og Atla Rúnars, sem fyrr er nefndur, að ákærði settist undir stýri í bíl Elísabetar, TB-496, og tók hann í heimildarleysi og ók á brott, og hefur hann einnig kannast við það fyrir dómi.  Linnti ákærði ekki akstrinum fyrr en við verslunina Select á Bústaðavegi.

   Sannað er með rannsóknargögnum og framburði ákærða að hann var undir áhrifum áfengis í umrætt sinn en amfetamín, sem einnig fannst í blóði hans, getur ekki talist vera deyfandi lyf.  Þá liggur það fyrir að deyfandi lyf fundust ekki í blóði hans.  Ber að sýkna ákærða af því að hafa verið undir áhrifum slíkra lyfja við aksturinn.  Telja verður sannað með skýrslu ökumanns bílsins sem ákærði ók á að hann hafi ekið gegn rauðu ljósi og valdið árekstrinum.  Vitni hafa ekki verið leidd að árekstrinum við VN-577 á Miklubraut og verður að sýkna ákærða af umferðarlagabroti í sambandi við það atriði.  Þá er ákærði sannur að því að hafa tekið bílinn TB-496 og ekið honum í heimildarleysi, óhæfur til þess að aka vegna áfengisáhrifa.  Hefur ákærði brotið gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga.

II. kafli ákæru.

 Ákærðu Guðmundur Helgi og Ragnar Davíð.

   Hringt var í lögregluna 5. febrúar sl. frá verslun Nýherja hf. í Borgartúni 37 og sagt frá því að grunur væri um að svíkja ætti vörur út úr fyrirtækinu.  Var sagt að maður hefði hringt í verslunina, sagst heita Friðrik og pantað vörur fyrir fyrirtækið Rolf Johansen.  Yrðu vörurnar sóttar í verslunina þegar þær væru tilbúnar.  Maðurinn hefði svo komið að vitja um vörurnar en honum verið sagt að þær væru ekki tilbúnar og hann farið með það.  Þegar lögreglumaður fór í verslunina til þess að kanna málið var honum sýnd mynd úr eftirlitskerfi verslunarinnar af manni þessum og reyndist það vera ákærði Guðmundur Helgi.  Meðan lögreglumaðurinn var í versluninni var tvisvar hringt út af pöntuninni og þegar þeim sem hringdi var sagt að pöntunin væri til sagðist hann mundu senda strák eftir henni.  Kom ákærði Ragnar Davíð svo og vitjaði varanna, skjávarpa og myndavélar, samtals að söluverðmæti 572.912 krónur.  Kvittaði hann á afhendingarseðil með nafninu Ragnar Guðmundsson en var handtekinn að því búnu. 

   Ákærði Guðmundur Helgi hefur neitað sök fyrir dómi.  Segist hann hafa verið í góðri trú og einskis manns nafn skrifað þarna.  Hann neitar því að hafa hringt í verslunina áður og segist hafa komið þangað í þeim erindum að taka pakka fyrir mann, sem hann vill ekki nafngreina.  Þegar ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 28. febrúar í viðurvist verjanda síns kannaðist hann við málið og sagðist hafa farið í verslunina að undirlagi manns að nafni Lárus Stefánsson Beck að sækja fyrir hann tölvu. Hefði afgreiðslumaður þá sagt  að tölvan væri ekki tilbúin en yrði til eftir klukkutíma.  Kvaðst ákærði ekki hafa farið aftur í verslunina en Lárus hefði í staðinn sent “frænda “Ingvars rollu” að nafni Ragnar”.  Ákærða voru sýndar myndir úr eftirlitsmyndavél og kvaðst hann þar þekkja sjálfan sig.  Sagðist hann hafa komið í verslunina til þess að sækja skjávarpa sem Lárus hefði pantað.  Einnig sagði ákærði að hann hefði ætlað að fara í verslunina daginn eftir til þess að sækja skjá að verðmæti ein milljón króna.  Hefði Lárus Stefánsson Beck ætlað að sjá um að selja verðmætin og skipta hagnaðinum.  Ákærði Ragnar Davíð hefur viðurkennt að hafa reynt að svíkja út verðmætin sem um ræðir í þessum ákærukafla.  Hann var yfirheyrður um málið hjá lögreglu sama dag og hann var handtekinn og skýrði frá því að hann hefði staðið einn að þessu broti og hefði hann ætlað að selja vörurnar og enginn annar en hann átt að njóta góðs af því.  Sverrir Kristfinnsson, starfsmaður Nýherja, hefur komið fyrir dóm og séð mynd af ákærða sem gerð var eftir upptöku úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar.  Hann hefur sagt að þar sjáist sá sem komið hafi til þess að vitja um pöntunina sem um ræðir.  Hann sá ákærða í réttinum en taldi að hann væri ekki sami maður.  Það ber þó að hafa í huga að á myndinni er ákærði með talsvert hár á höfði og skegglaus en hann var nauðrakaður um höfuðið og með skegg þegar vitnið sá hann í réttinum.  Lárus Stefánsson Beck hefur ekki náðst fyrir dóm en samkvæmt gögnum málsins neitaði hann því alfarið hjá lögreglu að hann væri nokkuð riðinn við þetta mál.

   Sannað er með játningu ákærða og ljósmyndinni sem tekin var af honum þar að hann kom í verslunina á þeim tíma sem hér skiptir máli.  Starfsmaður verslunarinnar segir þann mann, sem ljósmyndin er af, hafa komið til að spyrjast fyrir um pöntunina sem reynt var að svíkja út.  Ákærði játaði aðild sína að þessu broti hjá lögreglunni 28. febrúar en hefur nú horfið frá játningu sinni og sagt að hann hafi verið þar í öðrum erindum fyrir mann sem hann vill ekki segja deili á.  Verður að álíta þennan breytta framburð ákærða mjög ótrúverðugan og telja, þrátt fyrir framburð meðákærða,  að það sé sannað með ljósmyndinni, framburði Sverris Kristfinnssonar og játningu ákærða hjá lögreglu að þeir hafi í félagi reynt að svíkja út verðmætin sem um ræðir.  Hafa þeir gerst brotlegir við 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, og ákærði, Ragnar Davíð, auk þess við 1. mgr. 155. gr. sömu laga.

Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður.      

   Ákærði, Guðmundur Helgi, fékk, eins og áður segir, reynslulausn af 2040 fangelsisdögum 29. júní í fyrra.  Hann hefur rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber samkvæmt 42. og 60. gr. almennra hegningarlaga að dæma upp reynslulausnina og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 6 ár.  Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt frá 14. apríl sl., 157 daga.

   Ákærði, Ragnar Davíð, fékk reynslulausn af 720 fangelsisdögum 26. desember sl.  Hann hefur nú rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber samkvæmt 42. og 60. gr. almennra hegningarlaga að dæma upp reynslulausnina og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Gæta ber að því að refsing sú sem ákærði fékk reynslulausn af var fyrir brot sem hann framdi áður en hann varð 18 ára og eins að því að hann er nú sakfelldur fyrir tilraun til brots.  Þykir eftir atvikum ekki vera ástæða til þess að auka við refsingu ákærða.  Ber að dæma hann til þess að sæta fangelsi í 2 ár.

   Dæma ber ákærða, Guðmund Helga, til þess að vera sviptur ökurétti í 12 mánuði frá dómsbirtingu að telja.

   Dæma ber ákærða, Guðmund Helga, til þess að greiða verjanda sínum, Sigurði Kára Kristjánssyni hdl., ¾ hluta af 700.000 króna réttargæslu- og málsvarn­arlaunum en ¼ hluta ber að greiða úr ríkissjóði.  Þá ber að dæma ákærða, Ragnar Davíð, til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.  Laun verjendanna eru hér tiltekin án virðisaukaskatts.  Loks ber að dæma ákærða, Guðmund Helga, til þess að greiða allan annan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

   Ákærði, Guðmundur Helgi Svavarsson, sæti fangelsi í 6 ár.  Frá refsingunni dregst 157 daga gæsluvarðhaldsvist.

   Ákærði, Ragnar Davíð Bjarnason, sæti fangelsi í 2 ár.

   Ákærði, Guðmundur Helgi, sæti sviptingu ökuréttar í 12 mánuði frá dómsbirtingu.

   Ákærði, Guðmundur Helgi, greiði skaðabætur sem hér segir:

   Landsíma Íslands hf. 799.947 krónur ásamt almennum vöxtum frá 22. febrúar 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags,

   Þór hf. 273.063 krónur,

   Húsasmiðjunni hf. 81.640 krónur ásamt almennum vöxtum frá 28. febrúar 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags,    

   Versluninni Gripið og greitt ehf. 20.476 krónur ásamt almennum vöxtum frá 12. janúar 2002 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags, 

   Versluninni Metró ehf. 20.889 krónur í bætur ásamt almennum vöxtum frá 10. janúar 2002 til dómsuppsögu, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags,

   Landsímanum hf. 50.460 krónur ásamt almennum vöxtum frá 8. apríl 2002 til dómsuppsögu, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

   Ákærði Guðmundur Helgi greiði verjanda sínum, Sigurði Kára Kristjánssyni hdl., ¾ hluta af 700.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlaunum en ¼ hluti greiðist verjandanum úr ríkissjóði.  Ákærði Ragnar Davíð greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.  Allan annan sakarkostnað greiði ákærði Guðmundur Helgi.