Hæstiréttur íslands
Mál nr. 231/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Erlend réttarregla
- Lagaskil
|
|
Föstudaginn 17. apríl 2015. |
|
Nr. 231/2015.
|
LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Merrill Lynch International (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Fjármálafyrirtæki. Slit. Erlend réttarregla. Lagaskil.
L hf. höfðaði mál á hendur M til riftunar á nánar tilgreindum greiðslum sem L hf. innti af hendi árið 2008. Við meðferð málsins í héraði fór M fram á að dómkvaddur yrði maður til að meta réttaráhrif viðskipta málsaðila samkvæmt enskum rétti þar sem hann taldi að þarlendar réttarreglur ættu að hafa þýðingu fyrir úrslit málsins, sbr. síðari málslið n. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Í fyrrgreindu ákvæðinu er tekið fram að löggerningur verði ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans og að teknu tilliti til forsendna dóms Hæstaréttar í máli nr. 228/2015, var fallist á beiðni M um dómkvaðningu matsmanns.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2015 þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar og að teknu tilliti til forsendna dóms Hæstaréttar í máli nr. 228/2015, sem kveðinn er upp samhliða þessum dómi, verður úrskurðurinn staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, LBI hf., greiði varnaraðila, Merrill Lynch International, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2015.
Mál þetta, sem þingfest var 29. maí 2012, var tekið til úrskurðar 2. mars 2015, um matsbeiðni stefnda, Merril Lynch Int. Ltd., sem lögð var fram í þinghaldi sama dag. Við fyrirtöku málsins í dag mótmælti stefnandi, LBI hf., matsbeiðni stefnanda. Var aðilum þá gefinn kostur á munnlegum athugasemdum en ágreiningurinn að svo búnu tekinn til úrskurðar.
Matsbeiðni stefnanda er sett fram með vísan til IX. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála. Er þess óskað að dómkvaddur verði einn hlutlaus og óvilhallur kunnáttumaður í enskum gjaldþrotalögum til þess að svara eftirfarandi spurningum um réttaráhrif viðskipta matsbeiðanda og matsþola á árinu 2008 samkvæmt enskum rétti en einnig er krafist málskostnaðar fyrir þennan þátt málsins:
- Í samhengi við útgáfu á allsherjarskuldabréfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti um stofnun skuldasambands og niðurfellingu kröfu vegna samruna réttinda og skyldna?
- Hvaða reglur gilda í enskum rétti um það hvenær löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum?
- Ef löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti sem heimila að slíkir gerningar séu véfengdir?
- Þess er óskað að matsmaður geri sérstaka grein í svörum sínum, við spurningum nr. 1, 2 og 3, fyrir tilvist og efni framangreindra enskra réttarreglna við þær kringumstæður þegar fjármálafyrirtæki, sem er útgefandi allsherjarskuldabréfs, með sömu skilmálum og greinir í dómskjölum nr. 11, nr. 32 og nr. 45, hefur keypt hlutdeildarkröfur í eigin allsherjarskuldabréfi fyrir lokauppgjörsdag þess.
Í málinu hefur stefnandi uppi þær efniskröfur að staðfest verði með dómi riftun á eftirfarandi þremur greiðslum stefnanda, sem þá bar heitið Landsbanki Íslands hf., til stefnda á árinu 2008 vegna þriggja skuldabréfa sem gefin voru út af stefnanda samkvæmt svokölluðum EMTN- umsýslusamningi (rammasamningi). Stefndi byggir efnislegar varnir sínar meðal annars á því að skilyrðum fyrir riftun fyrrgreindra greiðslna sé ekki fullnægt. Í því sambandi telur að hann að ensk lög eigi að ráða því hvort skilyrðum riftunar sé fullnægt. Hann vísar til þess að í útgáfulýsingu vegna skuldabréfanna sé kveðið á um að ensk lög skuli gilda um allan ágreining sem upp kunni að koma vegna bréfanna. Eigi því að miða efnisleg skilyrði riftunar við ensk lög, sbr. 3. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Hann byggir einnig á því að samkvæmt 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB, sbr. 10. gr. sömu tilskipunar, sé því aðeins heimilt að rifta umræddum ráðstöfunum að það sé einnig heimilt samkvæmt enskum lögum. Hann vísar til 238. og 239. gr. ensku gjaldþrotalaganna (e. Insolvency Act 1986) til stuðnings því að skilyrðum enskra laga sé ekki fullnægt.
Stefndi vísar til þess að samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins 17. október sl. í máli nr. E-28/13 hafi matsbeiðandi sönnunarbyrðina fyrir því að umrædd viðskipti séu ekki véfengjanleg samkvæmt enskum rétti sem ráðstöfun sem sé skaðleg öllum kröfuhöfum. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verði sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu að leiða tilvist og efni hennar í ljós. Í ljósi þessa og ennfremur með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 120/2014, telur stefndi nauðsynlegt að óska eftir dómkvaðningu matsmanns. Hyggst stefndi leggja matsgerð hins dómkvadda matsmanns fram til sönnunar á tilvist og efni enskra réttarreglna sem gilda um þau viðskipti sem deilt er um. Stefndi leggur áherslu á að samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins verði álit á enskum lögum að taka tillit til atvika málsins. Stefndi mótmælir því að matsbeiðnin sé of seint fram komin enda hafi hún verið lögð fram í fyrsta þinghaldi eftir að fyrrgreindur dómur EFTA-dómstólsins lá fyrir. Stefndi mótmælir því einnig að ekki sé nægilega vísað til enskra laga í greinargerð hans eða að ensk lög séu svo skýr og óumdeild að óþarft sé að óska eftir mati.
Af hálfu stefnanda er matsbeiðninni mótmælt. Í fyrsta lagi telur stefnandi að ensk lög skipti ekki máli við úrlausn málsins þar sem ákvæði 30. gr. tilskipunarinnar hafi ekki verið innleitt með viðhlítandi hætti í íslensk lög og sé því útilokað að ensk lög komi til álita við úrlausn málsins. Öflun matsgerðar sé því með öllu þýðingarlaus og beri að hafna henni með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Í annan stað er á því byggt að matsbeiðnin sé of seint fram komin. Ekki sé að finna í greinargerð stefnda sérstakan áskilnað um að afla matsgerðar um ensk lög. Þvert á móti geri málatilbúnaður stefnda ráð fyrir því að slíkra upplýsinga verði aflað með álitsgerðum utan réttar. Að lokum telur stefnandi að stefndi hafi ekki tilgreint í greinargerð sinni þær erlendu réttarreglur sem nú eigi að leggja mat á. Matsbeiðnin feli það því í sér að leitast sé við að skapa nýjar málsástæður sem stefndi hyggist byggja á. Þá liggi ekkert fyrir um að vafi sé um þær erlendu réttarreglur sem stefndi vísi þó til.
Niðurstaða
Í málinu liggur fyrir ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í dómi 17. október sl. í máli nr. E-28/13 um 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana sem aflað var að frumkvæði stefnda. Í áliti dómstólsins eru tekin af tvímæli um að orðalagið ,,ógildi, ógildanleiki eða skortur á réttarvernd“ í 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar vísi einnig til riftunar í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991. Þá kemur fram að það leiði af öðrum undirlið 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar að sá sem hefur hag af löggerningi, sem telst skaðlegur öllum lánardrottnum, verði að sanna að engin úrræði séu tiltæk, eða að engin úrræði séu lengur tiltæk, til að véfengja viðkomandi gerning samkvæmt lögum þess EES-aðildarríkis sem eiga við hann, hvort sem því valda efnislegar ástæður eða ástæður sem lúta að málsmeðferð. Einnig er áréttað að sérstakt mat eigi að fara fram á hverjum og einum löggerningi að þessu leyti. Hins vegar eigi að meta samkvæmt reglum gistiríkisins, þ.e. samkvæmt íslenskum lögum, hvort þeim sem hefur hag af löggerningnum hafi tekist að sanna að lögin sem eiga við um gerninginn veiti engin úrræði til að véfengja hann.
A
Ákvæði tilskipunar nr. 2001/24EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana voru innleidd með lögum nr. 130/2004 sem breyttu lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Með lögunum bættist nýr liður „Endurskipulagning fjárhags lánastofnana“ við XII. kafla laganna sem fjallaði áður einungis um slit og samruna fjármálafyrirtækja. Samkvæmt 2. mgr. í b-lið 9. gr. laga nr. 130/2004, sbr. nú 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, skyldi um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um endurskipulagningu á fjárhag fjármálafyrirtækis fara að íslenskum lögum þegar um væri að ræða slit fyrirtækis með höfuðstöðvar á Íslandi en útibú í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, þó með ákveðnum frávikum sem talin voru upp í a- til n-lið málsgreinarinnar. Þannig sagði í d-lið að heimild til endurskipulagningar fjárhags hefði ekki áhrif á rétt veðhafa vegna eignarréttinda sem staðsett væru í öðru aðildarríki og samkvæmt e-lið skyldi heimild ekki hafa áhrif á réttindi seljanda sem byggðist á eignarréttarfyrirvara við þær aðstæður að fyrirtæki hefði keypt eign með slíkum fyrirvara og eignin væri í öðru aðildarríki. Samkvæmt n-lið málsgreinarinnar skyldi þrátt fyrir þessi ákvæði vera heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimiluðu ekki slíkt.
Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og málsgreininni var breytt með 1. gr. laga nr. 132/2010, má krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti þegar fjármálafyrirtæki er tekið til slita og gilda þá öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 við slitameðferðina með sama hætti og við gjaldþrotaskipti, þó að frátöldum reglum um málshöfðunarfresti. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 132/2010 segir að í þessu ákvæði felist ekki efnisbreyting heldur séu tekin af öll tvímæli um að allar reglur riftunarkafla laga nr. 21/1991 gildi þegar sýnt er að eignir fjármálafyrirtækis muni ekki nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu.
Með 1. gr. laga nr. 78/2011 voru gerðar frekari breytingar á 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002. Meðal annars var bætt við fyrrgreindan n-lið málsgreinarinnar ákvæði á þá leið löggerningur verði þó ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 78/2011 kemur efnislega fram að ákvæðinu sé ætlað að innleiða með ótvíræðum hætti ákvæði 1. mgr. 30. tilskipunar 2001/24/EB.
Samkvæmt öllu framangreindu verður sú ályktun dregin af fyrirmælum 1. mgr. 104. gr., laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. 99. gr. og 4. mgr. 103. gr. sömu laga, að ákvæði íslenskra laga, þ.e. ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991, skuli gilda um riftun ráðstafana fjármálafyrirtækis sem tekið er til slita samkvæmt XII. kafla laganna. Hins vegar verður sú ályktun einnig dregin af fyrrgreindum ákvæðum að þessar reglur íslenskra laga eigi að gilda með þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna, enda sé talið að þær takmarkanir eigi við um riftun ráðstafana, en líkt og áður greinir grundvallast þær takmarkanir á ákvæðum tilskipunar nr. 2001/24/EB. Var lögum nr. 78/2011 þannig sérstaklega ætlað að taka af tvímæli um rétta innleiðingu 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar.
Af hálfu stefnanda hefur verið á það bent að í áliti meirihluta viðskiptanefndar Alþingis, við meðferð þess frumvarps sem varð að lögum nr. 78/2011, sé sérstaklega tekið fram að því ákvæði sem bætt var við n-lið 2. mgr. 99. gr. laganna, sé ekki ætlað að taka til riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991. Að mati dómsins verður að horfa til þess að almennt er viðurkennt að einhliða viðhorf stjórnvalda aðildarríkis geti ekki haft þýðingu við skýringu EES-reglna. Er þannig ljóst að ákveðinn skilningur löggjafans á reglum EES-réttar við innleiðingu þeirra í íslenskan rétt getur ekki ráðið úrslitum við skýringu þessara reglna. Við slíkar aðstæður kemur hins vegar til skoðunar hvort vilji löggjafans hafi beinlínis staðið til þess að brjóta gegn reglum EES-réttar ef annar skilningur yrði lagður til grundvallar hjá þeim stofnunum sem fara með endanlega túlkun á reglum EES-samningsins.
Í máli þessu er á það að líta að það ákvæði sem bætt var við n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 með fyrrgreindum lögum hefur að geyma sambærilegt orðalag og 1. mgr. 30. gr. íslenskrar útgáfu téðrar tilskipunar. Þá kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að ákvæðinu sé beinlínis ætlað að innleiða ákvæðið án þess að fyrirvarar þar að lútandi komi fram. Að þessu slepptu ber almennt að skýra innlendar réttarreglur til samræmis við reglur EES-samningsins, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993. Leiðir af öllu þessu að sett lög verða því aðeins skýrð í andstöðu við reglur EES-samninginn að vilji löggjafans um það efni að sé skýr og ótvíræður.
Að mati dómara verða þau ummæli í áliti meirihluta viðskiptanefndar, sem stefnandi hefur vísað til, ekki skýrð með svo viðurhlutamiklum hætti að reglur XX. laga nr. 21/1991 eigi að gilda um riftunarkröfur fjármálafyrirtækja samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 án tillits til þess hver teljist rétt skýring 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB. Verður því að leggja til grundvallar að vilji löggjafans hafi allt að einu staðið til þess að með setningu laganna yrði kröfum EES-samningsins að þessu leyti fullnægt.
Samkvæmt framangreindu verður ekki á það fallist með stefnanda að íslensk lög séu svo afdráttarlaus að útilokað sé að þau verði skýrð til samræmis við 1. mgr. 30. gr. umræddrar tilskipunarinnar, eins og tilskipunin hefur verið túlkuð af EFTA-dómstólnum í téðum dómi.
B
Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 verður sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu að leiða tilvist og efni hennar í ljós. Er samkvæmt þessu ljóst að þekking á erlendum lögum er ekki meðal þeirra atriða sem dómari leggur sjálfur mat á að eigin frumkvæði, sbr. 2. mgr. 60. gr. laganna. Í samræmi við þetta verður að ganga út frá því að stefnda sé almennt heimilt að afla sérfræðilegrar matsgerðar á efni erlendra laga að því marki sem slík sönnunarfærsla telst ekki bersýnilega tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Matsbeiðni stefnda var lögð fram í beinu framhaldi af því að EFTA-dómstólinn lét uppi það ráðgefandi álit í málinu sem áður greinir. Er því haldlaus sú viðbára stefnanda að matsbeiðni stefnda sé svo seint fram komin að bersýnilegt sé að hún sé tilgangslaus til sönnunarfærslu.
Að mati dómara tengjast spurningar í matsbeiðni nægilega málsástæðum og lagarökum stefnda þannig að honum sé heimilt að óska eftir hinu umbeðna mati. Af hálfu stefnanda er málsástæðum stefnda byggðum á erlendum rétti mótmælt. Þá liggur ekki fyrir að stefnandi sé reiðubúinn að vinna að því með stefnda að upplýsa dóminn um þær erlendu réttarreglur sem kunna að hafa þýðingu við úrlausn málsins og taka afstöðu til þess að hvaða marki efni þeirra er óumdeilt. Verður afstaða hans við fyrirtöku málsins raunar ekki skilin á aðra leið en þá að hann telji að taka beri kröfur hans til greina án tillits til þess hvort erlend lög koma til álita um efnislega úrlausn. Að þessu virtu verður á það fallist með stefnda að honum sé heimilt að óska eftir hinu umbeðna mati, enda ber hann sjálfur áhættuna af sönnunargildi fyrirhugaðrar matsgerðar svo og kostnaði af öflun hennar.
Samkvæmt öllu framansögðu er mótmælum stefnanda við matsbeiðni stefnda hafnað. Verður samkvæmt þessu fallist á hið umbeðna mat, þó þannig að dómkvaðning mun ekki fara fram fyrr en endanlegar lyktir þessa þáttar málsins liggja fyrir.
Ákvörðun um málskostnað bíður dóms í málinu.
Skúli Magnússon kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Fallist er á matsbeiðni stefnda, Merril Lynch Merril Lynch Int Ltd., 2. mars sl.