Hæstiréttur íslands

Mál nr. 78/2008


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Handtaka
  • Farbann
  • Framsal sakamanns
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 16. október 2008.

Nr. 78/2008.

Dainius Mankauskas

(Hilmar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Skaðabætur. Handtaka. Farbann. Framsal sakamanns. Gjafsókn.

D krafði íslenska ríkið um skaðabætur sökum tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir í kjölfar handtöku hans við komuna til landsins í mars 2005. Hafði D verið handtekinn er hann kom með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar þar sem nafn hans hafði komið fram í Schengen-upplýsingakerfinu yfir eftirlýsta menn, en D var gefið að sök fíkniefnalagabrot í félagi við aðra menn í Þýskalandi og var hann eftirlýstur af þarlendum yfirvöldum. Í kjölfar handtökunnar var D úrskurðaður í farbann og síðar framseldur þýskum yfirvöldum þar sem hann sat í gæsluvarðhaldi þar til sýknudómur var kveðinn upp í máli hans. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var með vísan til forsendna í dómi Hæstaréttar kom fram, að krafa D um bætur yrði ekki reist á 175., 176. og 177. gr. laga um meðferð opinberra mála þar sem öll lögmæt skilyrði hefðu verið fyrir hendi til að D sætti umræddum þvingunaraðgerðum og að nægilegt tilefni hefði verið til að beita þeim. Þá var talið að meðferð málsins hefði ekki tekið of langan tíma innan stjórnsýslunnar eða að þvingunaraðgerðir sem hann sætti á farbannstímanum, er D var gert að mæta tvisvar á dag á lögreglustöðina, hefðu brotið gegn meðalhófsreglunni við meðferð málsins. Þá var jafnframt hafnað kröfu D um greiðslu miskabóta úr hendi íslenska ríkisins þar sem ekki var talið að í umræddum aðgerðum hefði falist ólögmæt meingerð gegn frelsi eða friði D. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum D.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2008 og krefst þess að stefndi greiði sér 1.943.200 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. mars 2005 til 14. janúar 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður á báðum dómstigum.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, en í dómi verður ekki tekin afstaða til annarra þátta í þeim kostnaði en þóknunar lögmanns fyrir flutning málsins, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 450.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. október sl. að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað með stefnu birtri 5. febrúar sl. af Dainus Mankauskas, Neries Krantine 25-8, 48405 Kaunas, Litháen, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur, að fjárhæð 1.943.200 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxta­laga nr. 38/2001 frá 7. mars 2005 til 14. janúar 2007, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er og krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laganna er höfuðstólsfærist á 12 mánaða fresti. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að mati dómsins ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 7. mars 2005 til uppkvaðningar dómsins. Þá er og krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er höfuðstólsfærist á 12 mánaða fresti. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn 26. október sl. sem barst dóminum 6. nóvember sl.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Í greinargerð stefnda var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi en í þinghaldi 7. júní sl., er stefnandi hafði lagt fram breytta kröfugerð, var fallið frá frávísunarkröfunni. Af hálfu stefnda var þó bent á að hugsanlega væru gallar á málatilbúnaði stefnanda er leitt gætu til frávísunar málsins án kröfu.

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að stefnandi var handtekinn við komu til Seyðisfjarðar með ferjunni Norrænu 8. mars 2005. Ástæðan fyrir því var sú að nafn hans á farþegaskrá kom fram í Schengen-upplýsingakerfinu daginn áður á ská yfir eftirlýsta menn þegar skrárnar voru sam­keyrðar. Stefnandi hafði verið skráður í kerfið 16. nóvember 2003 af þýskum yfirvöldum samkvæmt 95. gr. Schengensamningsins. Sýslu­maðurinn á Seyðis­firði krafð­ist þess fyrir Héraðsdómi Austurlands að stefnanda yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi í þrjár vikur samkvæmt b lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opin­berra mála. Í úr­skurði dómsins 9. mars 2005 kemur fram að kærði væri eftirlýstur af þýskum yfirvöldum vegna meints brots á þýskum fíkniefnalögum og að þýsk yfirvöld myndu krefjast framsals hans. Með úrskurðinum var fallist á að nokkur hætta kynni að vera á að stefnandi, sem væri litháískur ríkisborgari og búsettur þar í landi, myndi reyna að koma sér undan áður en meðferð á framsalsbeiðni þýskra yfirvalda væri lokið. Mat dómsins væri að farbann samkvæmt 110. gr. laga nr. 91/1991 væri nægilegt til að tryggja nærveru kærða. Stefnanda var með úrskurðinum bönnuð brottför af landinu þar til úr því yrði skorið hvort framsal færi fram, en þó eigi lengur en til 30. mars sama ár. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi 14. mars s.á.

Dómsmálaráðuneytinu barst beiðni dómsmálaráðuneytisins í Baden-Württemberg í Þýskalandi um framsal á stefnanda 29. mars s.á.

Lögð var fram beiðni í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. mars s.á. um að stefnanda yrði gert að sæta áfram farbanni en stefnandi hafði dvalið í Reykjavík frá því úrskurður Héraðsdóms Austurlands lá fyrir. Fallist var á beiðnina með úrskurði dóms­ins sama dag þar sem nauðsynlegt þótti að stefnandi sætti áfram farbanni til 20. apríl s.á. til að tryggja að hann hyrfi ekki úr landi áður en meðferð málsins lyki. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi 1. apríl s.á. Enn var sett fram krafa fyrir dóminum 20. apríl s.á. um að stefnanda yrði gert að sæta áframhaldandi farbanni þar til máli hans væri lokið, þó eigi lengur en til 18. maí s.á. Fallist var á kröfuna sama dag og var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 25. apríl s.á.

Dómsmálaráðuneytið féllst á framangreinda framsalskröfu með ákvörðun 27. apríl s.á. Er stefnanda var kynnt það hjá lögreglunni í Reykjavík krafðist hann dóms­úrskurðar um lögmæti ákvörðunarinnar. Mér úrskurði dómsins 9. maí s.á. var ákvörðun ráðuneytisins staðfest. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar en réttur­inn staðfesti hann með dómi 11. sama mánaðar. Stefnandi var framseldur til Þýska­lands viku síðar. 

Krafa stefnanda í málinu er byggð á því að stefnda beri að greiða honum bætur samkvæmt 175. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála. Lögmæt skilyrði hafi brostið til aðgerða sem stefnandi var beittur og ekki hafi verið nægilegt tilefni til þeirra. Verði ekki á það fallist að stefnandi eigi bótakröfu á hendur stefnda á grund­velli hlutlægra bótareglna er á því byggt af hálfu stefnanda að stefndi beri skaðabóta­ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli almennu sakarreglunnar og reglunnar um hús­bóndaábyrgð og að stefnandi eigi rétt á miskabótum úr höndum stefnda samkvæmt b lið 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnanda hafi verið gert að dvelja hér á landi í tíu vikur og hafi meðferð málsins tekið allt of langan tíma. Ólögmætt hafi verið að gera stefnanda að mæta á lögreglustöð tvisvar á dag í allan þennan tíma. Af hálfu stefnda er því mótmælt að bótaskylda geti verið fyrir hendi. Allar aðgerðir íslenskra yfirvalda og dómstóla hafi verið lögmætar og því engin skilyrði fyrir bótaskyldu stefnda. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi lýsir másatvikum þannig að hann hafi ferðast með unnustu sinni í mars 2005 frá heimlandi sínu, Litháen, til Íslands í þeim tilgangi að heimsækja kunningja sinn ásamt því að kynnast landi og þjóð. Hann hafi ekið frá Litháen til Danmerkur í gegnum Þýskaland og þaðan farið með ferjunni Norrænu til Íslands. Við komuna til Seyðis­fjarðar hafi stefnandi verið handtekinn vegna þess að nafn hans hefði komið fyrir í Schengen-upplýsingakerfinu á skrá yfir eftirlýsta menn. Stefnanda hafi verið gefið að sök að hafa 9. febrúar 2003, í félagi við aðra menn, flutt amfetamín frá Litháen til Þýskalands. Lögreglustjórinn á Seyðisfirði hafi krafist gæsluvarðhalds yfir stefnanda 9. mars 2005 fyrir héraðsdómi Austurlands, en á þá kröfu hafi dómurinn ekki fallist og úrskurðað stefnanda sama dag í farbann til 30. mars s.á. Farbann stefnanda hafi verið framlengt í tvígang, síðast með dómi Hæstaréttar í máli nr. 167/2005, til 18. maí 2005. Stefnanda hafi verið kynnt sú ákvörðun dómsmála­ráðuneytisins 28. apríl s.á. að fallast á framsalsbeiðni þýskra yfirvalda, sem hefði borist ráðuneytinu 29. mars s.á. Stefnandi hafi skotið ákvörðuninni til héraðs­dóms sem hafi staðfest hana. Stefnandi hafi kært úrskurð héraðs­dóms til Hæstaréttar, sem hafi staðfest úrskurðinn 11. maí s.á. með vísan til forsendna hans. Viku síðar hafi stefnandi verið fluttur nauðugur til Þýskalands þar sem hann hafi verið seldur í hendur þarlendra lögregluyfirvalda.

Stefnandi hafi setið í gæsluvarðhaldi í Þýskalandi frá 19. maí 2005 til 24. febrúar 2006 þegar sýknudómur hafi verið kveðinn upp í Landsrétti Baaden-Baaden og allur sakarkostn­aður felldur á ríkið. Að liðnum áfrýjunarfresti, 24. ágúst 2006, hafi lögmanni stefnanda í Þýskalandi verið tilkynnt um fjárhæð bóta stefnanda til handa. Í kjölfarið hafi stefnandi haft samband við lögmann sinn á Íslandi og farið þess á leit að bótaréttar hans yrði leitað vegna þeirra þvingunaraðgerða sem hann hafi sætt á Íslandi 7. mars til 18. maí 2005  í 72 daga.

Lögmaður stefnanda hafi skrifað ríkislögmanni bréf 14. desember 2006 og farið fram á viðræður um bætur stefnanda til handa. Ríkislögmaður hafi hafnað bóta­skyldu fyrir hönd stefnda með bréfi 28. desember s.á. og því hafi málið verið höfðað.

Stefnandi byggi aðalkröfu sína aðallega á því, að stefndi beri hlutlæga bótaábyrgð á tjóni stefnanda, sbr. XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála, einkum 175., 176, og 177. gr. laganna. Stefndi byggi á því að bótakrafa stefnanda sé fyrnd með vísan í 181. gr. sömu laga. Samkvæmt lögskýringu stefnda hefði stefnandi þurft að krefjast bóta fyrir 11. nóvember 2005, en þá hafi stefnandi setið í gæsluvarðhaldi í Þýskalandi og ekki átt hægt um vik. Eðlilegri túlkun væri að miða upphafsdag fyrningar við það tímamark þegar stefnanda hafi verið tilkynnt ákvörðun um greiðslu bóta, en það hafi fyrst gerst með bréfi þýskra dómsmálayfirvalda til hins þýska lögmanns stefnanda 24. ágúst 2006. Slík túlkun myndi miklu fremur en túlkun stefnda vera í samræmi við ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sbr. lög nr. 62/1994, en þar segi að hver sá sem tekinn hafi verið höndum eða settur í gæslu gagnstætt ákvæðum þessarar greinar skuli eiga bótarétt sem unnt sé að koma fram. Lykilatriði tilvitnaðs ákvæðis sé að unnt sé að koma bótarétti fram, en lögskýring stefnda gangi í þveröfuga átt. Lögskýringarreglur heimili ekki slíka skýringu. Verði komist að því að bótakrafan teljist fyrnd byggi stefnandi á því að stefndi beri hlutlæga bótaábyrð á tjóni hans með vísan í ólögfesta hlutlæga bótareglu.

Fari svo að kröfum stefnanda um bætur á grundvelli hlutlægrar bótareglu verði hafnað sé á því byggt að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli almennu sakarreglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð.

Á meðan stefnandi hafi sætt farbanni á grundvelli dómsúrskurðar hafi hann verið beittur ýmsum þvingunarráðstöfunum sem ekki eigi sér lagastoð. Stefnanda hafi verið gert að halda sig innan marka lögreglustjórans í Reykjavík og mæta á lögreglu­stöðinni við Hverfisgötu tvisvar á sólarhring klukkan 10.00 og 21.00. Honum hafi verið tjáð, að ef hann færi ekki að þessum fyrirmælum yrði hann handtekinn og vist­aður í fangelsi. Dómsorð í farbannsúrskurðunum hafi verið á þá leið, að honum væri bönnuð för frá landinu í ákveðinn tíma, annað ekki. Í 110. gr. laga nr. 19/1991 sé heimild fyrir dómara að leggja fyrir menn að halda sig á ákveðnu svæði, en þess hafi ekki verið krafist af hálfu lögreglu. Þess í stað hafi fyrrgreindar þvinganir verið lagðar á stefnanda án lagaheimildar. Öllum beiðnum stefnanda um tilslakanir hafi verið hafnað á þeim grundvelli að meint flóttahætta væri talin raunhæf, þrátt fyrir að í dómi Hæstaréttar frá 14. mars 2005 hafi komið fram að ekki lægju fyrir neinar upplýsingar um að stefnandi hafi reynt að koma sér undan rannsókn á því broti sem hann var grunaður um. Í bréfi frá embætti Ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans á Seyðisfirði 9. mars s.á. séu fyrr­greindar þvingunaraðgerðir lögreglu studdar með vísan í 5. og 7. gr. laga nr. 136/1998, 33. gr. laga nr. 96/2002 og 15. gr. laga nr. 90/1996 auk áratuga venju. Lagatilvísanir þessar séu haldlausar til rökstuðnings á því að beita saklausan mann þvingunar­ráðstöfunum, enda feli slíkar ráðstafanir í sér brot á grundvallarmannréttindum og verði ekki beitt svo lögmætt sé nema á grundvelli skýrrar lagaheimildar eða dóms.

Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en lögregla hafi frá upphafi rann­sóknar á máli stefnanda gengið út frá því sem vísu, að hann væri sekur um þá háttsemi sem honum hafi verið gefin að sök og verði að líta á þvingunarráðstafanir sem hann hafi verið látinn sæta í því ljósi. Þessi afstaða lögreglu komi berlega í ljós í samskiptum hennar við lögregluyfirvöld í Þýskalandi. Hafi lögregla þannig farið á svig við þá grunnreglu íslensks réttar, sem lögfest sé í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár­innar, að maður skuli teljast saklaus uns sekt hans hafi verið sönnuð. Þessi ályktun lögreglu hafi verið sérlega haldlítil þegar litið sé til þess að upplýsingar hafi verið fyrir hendi frá Interpol, þess efnis að stefnandi væri með hreint sakavottorð og ekki eftirlýstur í Litháen.

Málsmeðferðin öll hafi dregist mjög úr hófi fram. Það hafi legið fyrir frá upphafi samkvæmt skráningu í SIRENE kerfið, að þýsk yfirvöld myndu óska eftir framsali stefnanda og í ljósi þeirrar vitneskju hafi lögreglu­stjórinn á Seyðisfirði farið fram á að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi í 22 daga, frá 8. mars til 30. sama mánaðar. Dómari hafi ekki fallist á gæsluvarðhaldskröfuna en úrskurðað stefnanda í farbann til 30. mars. Lögreglan hafi tilkynnt þýskum yfirvöldum þessa niðurstöðu dómstóla þegar í stað. Engu að síður hafi framsalsbeiðnin ekki borist fyrr en 29. mars, eða þremur vikum eftir að þýskum yfirvöldum hafi verið kunnugt um handtöku og farbann stefnda. Frumrit beiðninnar hafi ekki borist fyrr en nokkru síðar. Þessi dráttur hafi verið á ábyrgð þýskra yfirvalda, en íslensk lögregluyfirvöld hafi lagt blessun sína yfir seinaganginn með því að krefjast áframhaldandi farbanns yfir stefnanda og beri þannig ábyrgð á tjóni stefnanda vegna tafa á afgreiðslu málsins.

Þá byggi stefnandi á því að yfirvöld á Íslandi hafi farið offari við meðferð á máli hans hér á landi. Hafi yfirvöld virt að vettugi meðalhófsreglu, sem m.a. sé lögfest í 12. gr. laga nr. 37/1993. Í málinu hafi legið fyrir að stefnandi hafi verið með hreint sakavottorð í heimalandi sínu og ekki eftirlýstur þar í landi. Skjóti það nokkuð skökku við þar sem brot það sem honum var gefið að sök hafi verið framið í Litháen alveg eins og Þýska­landi. Telja verði að bæði hefði verið sanngjarnt og eðlilegt að gera þá kröfu til þýskra yfirvalda að láta litháískum lögregluyfirvöldum í té upplýsingar þær sem þau byggðu framsals­kröfuna á og láta þarlendum yfirvöldum eftir rannsókn á meintri hlutdeild stefnanda. Þessari kröfu hefðu íslensk stjórnvöld átt að koma á framfæri áður en ákvörðun var tekin um þvingað framsal.

Þannig sé ljóst að þvingunarráðstafanir þær sem lögregla beitti í máli stefnanda meðan hann sætti farbanni hafi verið með öllu ólögmætar og óafsakanlegar. Óút­skýrðar tafir hafi verið á rekstri málsins og meðalhófsreglu ekki verið fylgt og verði stefndi því á grundvelli húsbóndaábyrgðar að bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.

Varðandi miskabótakröfu byggi stefnandi aðal- og varakröfu sína sérstaklega á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Bótakrafan sundurliðist svo:

 

 

Ekki liggi fyrir í málinu skýr gögn um fjártjón stefnanda sem hann hafi orðið fyrir meðan hann dvaldist nauðugur hér á landi. Fyrir liggi þó að stefnandi kom hingað til lands til viku dvalar og hafi hann gert ráðstafanir í samræmi við það. Heimsókn hans hafi dregist á langinn því hann hafi dvalist hér á landi samtals í rúmar 10 vikur. Eðlilegt sé að miða skaðabætur vegna fjártjóns við fjárhæð dagpeninga eins og þeir hafi verið ákveðnir af Ríkisskattstjóra. Á tímabilinu janúar til maí 2005 hafi dagpeningar innanlands fyrir gistingu og fæði verið 13.100 krónur og stefnandi hafi dvalið hér á landi samtals í 72 daga. Þannig reiknist fjártjón hans 13.100 krónur x 72 = 943.200 krónur. Um fjárhæð miskabóta sé vísað í dómaframkvæmd í sambærilegum málum.

Stefnandi vísi enn fremur máli sínu til stuðnings til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, laga um framsal sakamanna o.fl. nr. 13/1984, skaðabótalaga nr. 50/1993, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 og laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Um varnarþing vísist til 3. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. sömu laga og kröfu sína um vexti, vaxtavexti og dráttarvexti styðji stefnandi við ákvæði III. og IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig að við venjubundna samkeyrslu áhafna- og farþegalista með Norrænu 7. mars 2005 við Schengen-upplýsingakerfið hafi nafn stefnanda komið upp á skrá yfir eftirlýsta menn á Schengensvæðinu. Svokölluð Sirene skrifstofa hjá ríkislögreglustjóra annist samkeyrslu listanna í Schengen upplýsingakerfinu samkvæmt lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi nr. 16/2000 og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003.

Við nánari skoðun í Schengen-upplýsingarkerfinu hafi komið í ljós að stefn­andi hafi verið skráður í kerfið samkvæmt 95. gr. Schengensamningsins af þýskum yfir­völdum. Samhliða Schengen-upplýsingakerfinu hafi einnig verið keyrt Sirene-kerfið þar sem fram fari öll samskipti vegna Schengen-skráninga eftir fyrir fram upp­settum formum þar sem hvert svæði krefjist ákveðinna upplýsinga. Mál stefnanda hafi verið skráð í Schengen-upplýsingakerfið af Þjóðverjum 16. nóvember 2003 og svo­kallað A-form sent til hinna aðildarlandanna. Það form hafi verið móttekið af Sirene skrifstofunni á Íslandi, málið yfirfarið og samþykkt að ef maðurinn fyndist á Íslandi yrði hann handtekinn og hann framseldur til Þýskalands að því tilskildu að skilyrði framsals væru fyrir hendi. Stefnandi hafi fundist í samkeyrslu áhafnar- og farþegalista skipsins 8. mars 2005 en það hafi lagst við höfn á Seyðisfirði klukkan 9.00 þann dag. Við almenna tollskoðun hafi stefnandi verið tekinn til skoðunar ásamt samferðakonu sinni. Síðar um daginn eða klukkan 13.50 hafi hann verið handtekinn.

Samkvæmt nánari gögnum, sem skráningin hafi grundvallast á, hafi komið fram að stefnandi væri eftirlýstur af Staatsanwaltschaft Baden-Baden á grundvelli ákvörðunar Amtsgericht Baden-Baden frá 16. apríl 2003, fyrir ætluð brot á þýskum fíkniefnalögum. Samsvarandi ákvæði íslenskra laga séu 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001. Hámarksrefsing á Íslandi samkvæmt lögum nr. 65/1974, 5. gr., sé 6 ára fangelsi. Hámarksrefsing samkvæmt þýskum lögum fyrir brot það sem stefnanda sé gefið að sök sé hins vegar 15 ára fangelsi.

Skráningin frá 16. nóvember 2003 í Schengen-upplýsingakerfið samkvæmt 95. gr. Schengen samningsins jafngildi beiðni um handtöku og gæslu í skilningi 16. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna frá 13. september 1957, sbr. 64. gr. Schengen-samn­ings­ins. Stefnandi hafi verið yfirheyrður og neitað þeirri háttsemi sem hann var sakaður um.

Á grundvelli laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, sbr. 15. gr. laganna, og framangreindra heimilda hafi verið gerð krafa um að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi, sbr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Með dómi Héraðsdóms Austurlands 9. mars 2005 hafi kröfu um gæsluvarðahald verið hafnað en stefnanda hafi verið bönnuð brottför af landinu þar til úr því yrði skorið hvort framsal skyldi fram fara, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 30. apríl s.á. Málinu hafi verið skotið til Hæstaréttar, sem staðfest hafi úrskurð héraðsdóms 14. mars s.á. Þar sem framsalsmálið hafi ekki verið til lykta leitt á þessum tíma hafi verið krafist framlengingar farbannsins, sbr. 19. gr. laga nr. 13/1984. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hafi verið fallist á að farbannið yrði framlengt til 20. apríl s.á. Í forsendum úrskurðarins hafi verið fallist á mat ríkislögreglustjóra um að farbannið væri nauðsynlegt til að tryggja að stefnandi hyrfi ekki af landi brott áður en meðferð málsins lyki og vísað til 110. gr., sbr. b lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 13/1984. Úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar 1. apríl s.á. Meðan framsalsmálið hafi enn ekki verið til lykta leitt hafi Héraðsdómur Reykjavíkur staðfest að farbann skyldi framlengt, en þó ekki lengur en til 18. maí 2005. Þann úrskurð hafi Hæstiréttur staðfest með dómi 25. apríl s.á.

Þýsk yfirvöld hafi krafist þess að stefnandi yrði framseldur vegna stórfelldra fíkniefnabrota þar í landi. Honum hafi verið gefið að sök að hafa flutt í febrúar 2003 í félagi við aðra um það bil 4 kg af amfetamíni í bifreið sem hann hafi ekið frá Litháen til Muggensturm í Þýskalandi. Með úrskurði dóms- og kirkjumála­ráðuneytisins 27. apríl 2005 hafi verið fallist á framsalsbeiðnina. Hún hafi verið borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur sem hafi staðfest þá niðurstöðu með úrskurði 9. maí s.á. Sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar 11. maí s.á.

Sýknukrafa stefnda sé studd þeim rökum að allar ráðstafanir starfsmanna stefnda hafi verið réttmætar og í samræmi við lög. Málsástæður stefnanda séu óskýrar og órökstuddar. Þannig virtist ekki ágreiningur um lög­mæti handtöku eða far­bannsins í sjálfu sér og af stefnu verði heldur ekki ráðið að stefnandi telji framsalið hafa brostið lagastoð.

Farbann það sem stefnandi sætti hafi verið úrskurðað á grundvelli dóma héraðs­dóms og Hæstaréttar. Svo hafi einnig verið um framsalið, en úrskurður ráðu­neytis­ins frá apríl 2005 hafi verið staðfestur með dómi héraðsdóms og síðar dómi Hæstaréttar. Þar sem vafi sé nokkur um það hvernig skilja beri málsástæður stefnanda sé því haldið fram að hvort tveggja farbannið og framsalið hafi verið í samræmi við lög sem og handtakan og að réttmætar ástæður hafi legið til þeirra ráðstafana.

Stefndi byggi á því að kröfur stefnanda séu fyrndar samkvæmt 181. gr. laga nr. 19/1991. Stefnandi hefði þurft að höfða mál til að rjúfa fyrningu innan sex mánaða frá dómi Hæstaréttar 11. maí 2005. Það hafi hann ekki gert heldur höfðað málið 5. febrúar 2007. Þótt miðað væri við síðara tímamark, jafnvel dóm Landgericht Baden-Baden frá 4. mars 2006, séu kröfur að sama skapi fyrndar. Því sé hafnað að miða beri upphaf fyrningartíma við 24. ágúst 2006 eins og haldið sé fram í stefnu.

Stefndi byggi á því að skilyrði bótaréttar vegna þvingunarráðstafana séu tæmandi taldar í XX. kafla laga nr. 19/1991 og geti stefnandi því ekki átt rétt til bóta nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem í ákvæðum kaflans greini, þ.á m. að krafa sé ófyrnd. Stefndi mótmæli því að tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár eða mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, leiði til þess að kröfur stefnda teljist ófyrndar.

Stefndi mótmæli því að grundvöllur sé fyrir hlutlægri ábyrgð samkvæmt ákvæð­um XXI. kafla nr. 19/1991. Skilyrði þeirra laga um bótaskyldu séu ekki uppfyllt. Stefnandi hafi ekki rökstutt með vísan til hvaða atvika unnt væri að játa bótaskyldu á grundvelli ákvæða kaflans. Beri því að sýkna af kröfum stefnanda. Verði kröfum stefnanda að þessu leyti ekki þegar hafnað sem órökstuddum, byggi stefndi einnig á því að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir farbanni og öðrum ráðstöfunum yfirvalda, þ.á m. lögreglu. Fullt tilefni hafi verið til að beita stefnanda þeim úrræðum og þau ekki framkvæmd á nokkurn móðgandi eða særandi hátt. Skilyrði 175. gr. nefndra laga hafi þannig ekki verið uppfyllt. Stefnandi hafi sætt far­banni á grundvelli dóma þar sem metin hafi verið skilyrði þess. Engar ástæður hafi komið fram sem geti hnekkt því mati Hæstaréttar sem farbannið byggðist á. Stefnandi hafi ekki dregið í efa lögmæti þess eða framsalsins. Þá byggi stefndi á því að skilyrði 176. gr. laganna séu ekki uppfyllt enda hafi verið fyrir hendi rökstuddur grunur um af­brot sem réttlættu farbann og aðrar aðgerðir íslenskra löggæsluyfirvalda. Með vísan til nýlegra dómafordæma verði því að leggja til grundvallar að stefnandi hafi stuðlað að aðgerðunum.

Stefndi hafni því að bótaréttur geti hafa stofnast á grundvelli ólögfestrar hlutlægrar bótareglu en engar bótareglur þess efnis gildi að íslenskum rétti.

Stefnandi byggi einnig á almennu sakarreglunni og reglunni um húsbónda-ábyrgð kröfum sínum til stuðnings. Stefndi mótmæli kröfum stefnanda byggðum á þessum reglum. Engri ólögmætri eða saknæmri háttsemi hafi verið til að dreifa sem leitt hafi til tjóns. Stefnandi hafi ekki dregið í efa að lögmæt skilyrði væru fyrir handtöku og farbanni því sem hann sætti. Hafi þær aðgerðir átt sér ótvíræða lagastoð í fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 16/ 2000 og nr. 13/1984, einkum 15. og 19. gr., sbr. og ákvæði laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er varði þvingunarúrræði vegna rannsóknar máls, sbr. XII. kafla og 110. gr. Hins vegar virtist stefnandi byggja á öðrum atriðum við framkvæmd farbannsins og að mál hans hafi dregist. Óútskýrt sé í stefnu hvernig þau atvik hafi leitt til miska stefnanda þegar handtaka og farbann hafi á annað borð verið óumdeilanlega réttmæt og lögleg úrræði umræddan tíma frá 7. mars til 18. maí 2005. Stefnanda hafi verið gert að halda sig í umdæmi lögreglustjórans í Reykjavík og mæta þar tvisvar á sólarhring. Umrædd ráðstöfun hafi eðli málsins samkvæmt verið nauðsynleg og réttmæt til að tryggja framkvæmd farbannsins. Stefnandi hafi ekki óskað eftir því að fá að vera annars staðar á landinu, en líkur megi telja fyrir því að ekkert sérstakt hefði verið því til fyrirstöðu ef farið hefði verið fram á það og að hann tilkynnti sig þá hjá lögreglu í viðkomandi umdæmi. Stefnandi hafi farið fram á að gera grein fyrir sér þrisvar í viku í stað tvisvar á sólarhring, en þeirri beiðni hafi verið hafnað. Stefndi mótmæli því að sá munur væri á þessu tvennu gagnvart stefnanda sem leitt hefði hjá ætluðu miskatjóni. Til að halda uppi allsherjarreglu og tryggja framkvæmd farbannsins hafi verið réttmætt að byggja á því að hætta myndi vera á flótta stefnanda. Af hálfu ríkislögreglustjóra hafi verið réttilega vísað til sjónarmiða í ákvæðum laga um vegabréf nr. 136/1998 við þær aðstæður sem skapast höfðu þegar honum hafi ranglega verið afhent vegabréf sitt meðan á farbanni stóð og sjónarmiða í 33. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Stefndi vísi einnig til 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og áratugavenju við framkvæmd far­banns. Lögreglu­yfirvöldum hafi þannig verið rétt að ganga út frá því að hætta á flótta gæti verið raunhæf. Forsendur Hæstaréttar í dómi frá 14. mars 2005 breyti ekki hér sérstaklega enda skírskoti þær aðeins til þess tímamarks sem þá hafi verið til úr­lausnar og að ekki væru efni til að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald. Mótmæla verði því að stefnanda hafi verið tjáð að hann ætti von á fangelsisvist, enda ekkert í gögnum sem styðji þessa fullyrðingu.

Stefndi mótmæli því að lögregluyfirvöld hafi frá upphafi rannsóknar gengið út frá því sem vísu að stefnandi væri sekur um þá háttsemi sem honum hafði verið gefin að sök. Íslensk yfirvöld hafi staðið frammi fyrir því að stefnandi hafi verið eftirlýstur vegna hátt­semi sem honum hafi verið gefin að sök gegn þýskri refsilöggjöf. Í ljósi laga og ákvæða þeirra alþjóðlegu samninga sem giltu hafi lögregluyfirvöld ekkert val átt heldur orðið að bregðast við með þeim hætti sem gert var og uppfylla þannig alþjóð­legar skuld­bind­ingar meðal annars. Engu breyti hvers efnis litháískt sakavottorð hans hafi verið, enda hafi það verið þýsk yfirvöld sem hafi sakað hann um verknað gegn þýskum lögum. Stefndi mótmæli að brotið hafi verið gegn 70. gr. stjórnarskrár í máli stefnanda.

Stefnandi byggi á því að málsmeðferð hafi dregist úr hófi og kenni þar þýskum yfirvöldum algerlega um. Málsmeðferð íslenskra yfirvalda hafi verið fyllilega í samræmi við málshraðareglu, en stefndi beri enga ábyrgð á aðgerðum eða aðgerðarleysi þýskra yfirvalda. Framsalsbeiðnin hafi borist þremur vikum eftir að íslensk lögregluyfirvöld hafi gert þeim þýsku grein fyrir stöðu mála þegar í stað. Í samræmi við 19. gr. laga nr. 13/1984 hafi beiðni borist innan 30 daga og því grund­völlur til að beita stefnanda viðeigandi þvingunarúrræðum innan þess tíma. Við þessi tímamörk hafi íslensk stjórnvöld verið bundin og hafi ekki farið á svig við þau. Þannig hafi íslensk yfirvöld ekki verið að leggja blessun yfir nokkurn seinagang heldur farið að íslenskum lögum við alla meðferð málsins.

Stefndi mótmæli því alfarið að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Efni sakavottorðs í heimalandi hans breyti engu, enda hafi verið um að ræða framsalsbeiðni frá Þýskalandi vegna ætlaðra brota gegn þarlendum lögum og þar í landi. Engin lagaskylda hafi verið til að gera þýskum yfirvöldum að láta litháískum yfirvöldum í té upplýsingar um framsalskröfuna, enda verði ekki séð hverju það hefði breytt. Með dómi Hæstaréttar hafi verið staðfest að lögmælt skilyrði væru fyrir framsali.

Stefnandi hafi stutt bótakröfu sína við b lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi mótmæli því að skilyrði séu til bóta á grundvelli þess ákvæðis. Athafnir íslenskra stjórnvalda eða dómstóla hafi á engan hátt verið særandi eða móðgandi og ekki ólögmæt meingerð gegn persónu eða æru stefnanda. Aðgerðir starfsmanna stefnda hafi einungis miðað að því að sinna lagaskyldum við þær aðstæður sem hafi skapast.

Stefndi mótmæli fjárkröfum stefnanda hvort sem er miska eða bótum fyrir ætlað fjártjón með vísan til framangreinds. Engin rök standi til þess að telja ráðstafanir stefnda hafa haft í för með sér sérstakan miska, enda farbannið lögmætt. Þá mótmæli stefndi ætluðu fjártjóni stefnanda sem ósönnuðu. Engin gögn hafi verið lögð fram um fjártjón stefnanda og verði reglur um dagpeninga á grundvelli skattalöggjafarinnar ekki til að fylla það gap í málatilbúnaði stefnanda. Stefnandi hafi aðeins haldið því fram að dvöl hans hér á landi hafi orðið heldur lengri, eins og það sé orðað. Hann hafi hins vegar ekki fært rök fyrir því hve lengi dvöl hans hafi verið ráðgerð í upp­hafi. Þannig hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna uppi­halds eða annars vegna lengri dvalar en hann ráðgerði. Fyrir liggi einnig í gögnum málsins að stefnandi hafi fengið að nokkru fæðispeninga. Engin útlagður sannaður kostnaður af hans hálfu liggi fyrir sem hann hefði ekki þurft að greiða allt að einu. 

Til stuðnings varakröfu um lækkun sé byggt á öllum framangreindum mótmælum, málsástæðum og lagarökum, en verði fallist á bótaskyldu beri að lækka bætur verulega. Byggt sé á því að kröfur stefnanda séu ekki í samræmi við dómafor­dæmi sem við mætti styðjast ef fallist yrði á bótaskyldu.

Af hálfu stefnda sé kröfum um vexti og dráttarvexti mótmælt, einkum upphafs­tíma þeirra og kröfur stefnda um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstöður

Af hálfu stefnda var bent á, eftir að fallið var frá frávísunarkröfu í greinargerð, að hugsanlega væru gallar á málatilbúnaði stefnanda er gætu leitt til frávísunar málsins án kröfu. Málatilbúnaði stefnanda er lýst hér að framan og þar kemur fram á hverju kröfur hans í málinu eru byggðar. Þykir málatilbúnaðurinn nægilega skýr til þess að hann teljist uppfylla skilyrði réttarfarslaga til að kröfur stefnanda í málinu fái efnislega meðferð. Kemur því ekki til þess að málinu verði vísað frá dómi án kröfu.

Stefnandi byggir bótakröfur í málinu á reglum sem fram koma í 175., 176. og 177. gr. laga um meðferð opinberra mála. Í 176. gr. segir að dæma megi bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæslu­varð­halds eða annarra aðgerða, sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið eins og á stóð nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarf­lega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Kröfu um slíkar bætur má meðal annars taka til greina samkvæmt 175. gr. laganna þegar sakborningur hefur verið sýknaður af háttsemi sem hann var borinn. Ákvæðin sem stefnandi vísar til í stjórnarskrá og mann­réttindasáttmála Evrópu verða túlkuð í samræmi við þessar reglur en þau hafa verið skýrð þannig að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur XXI. kafla laga nr. 19/1991 gera, sbr. Hæstaréttardómur í máli nr. 269/2000 frá 1. mars 2001. Stefnandi var handtekinn 8. mars 2005 og í fram­haldi af því var honum gert að sæta farbanni þar til framsalskrafa yrði afgreidd, þó eigi lengur en til 18. maí sama ár, með úrskurðum héraðsdóms, sem staðfestir voru með dómum Hæstaréttar, eins og hér að framan er lýst. Einnig hefur því verið lýst að ákvörðun um framsal var staðfest með héraðsdómi og dómi Hæstaréttar. Af málatilbúnaði stefnanda verður ekki ráðið að hann telji að hann eigi rétt á bótum á þessum lagagrundvelli fyrir aðra frelsisskerðingu en hand­töku, farbann og framsal sem honum var gert að sæta. Öll lögmæt skilyrði voru fyrir hendi til að stefnandi sætti þessum aðgerðum og nægilegt tilefni var til að beita þeim, eins og staðfest er með framangreindum úrskurðum og dómum. Ákvæði 176. gr. laga um meðferð opinberra mála eiga því ekki við um atvikin í máli stefnanda sem krafa hans er að þessu leyti reist á. Með vísan til þess verður krafa stefnanda um bætur úr höndum stefnda ekki reist á þessum laga­grundvelli. Þá verður ekki fallist á að stefndi beri hlutlæga bótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt ólögfestri hlutlægri bótareglu, eins og stefnandi heldur fram, enda hefur ekki komið fram hvernig slík regla ætti við hér.

Stefnandi telur að verði ekki á framangreindar málsástæður hans fallist eigi hann rétt á bótum á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um hús­bónda­ábyrgð vegna þvingunaraðgerða, sem hann var beittur er honum var gert að halda sig innan lögsagnar­umdæmis Reykjavíkur og mæta tvisvar á dag á lögreglustöð, vegna þess að afgreiðsla málsins hafi tekið allt of langan tíma og vegna þess að meðalhófsreglunnar hafi ekki verið gætt. Þessar aðgerðir hafi verið ólögmætar og með þeim hafi verið brotið gegn frelsi og friðhelgi stefnanda og því eigi hann rétt á bótum fyrir fjártjón og miska. Kröfuna um miskabætur reisir stefnandi á b lið 2. mgr. 26. gr. skaða­bóta­laga, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða þeim sem misgert er við miskabætur.

Samkvæmt 19. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 má beita mann, sem eftirlýstur er af yfirvöldum í erlendu ríki vegna þess að hann er grunaður um að hafa framið refsiverðan verknað, sem gæti orðið grundvöllur framsals samkvæmt lögunum, þvingunaraðgerðum laga um meðferð opinberra mála með sama hætti og væri hann sakaður um samsvarandi afbrot hér á landi. Þegar þvingunarráðstöfunum er beitt ber dómsmálaráðuneytinu að hlutast til um að erlenda ríkinu verði tilkynnt um þær og að þær verði felldar niður ef framsalsbeiðni berst ekki svo fljótt sem verða má. Ef framsalsbeiðnin hefur ekki borist innan 30 daga frá því að tilkynning var send skal fella þvingunarráðstafanir niður. Óumdeilt er að yfirvöldum í Þýskalandi var strax tilkynnt að stefnandi hefði verið handtekinn 8. mars 2005 og honum gert að sæta farbanni þar sem stefnandi var eftirlýstur af þeim, eins og fram hefur komið. Beiðni um framsal barst íslenskum yfirvöldum 29. mars sama ár, sem var innan frestsins sem lagaákvæðið kveður á um. Ákvörðun um framsal var tekin af hálfu dómsmálaráðuneytisins 27. apríl s.á. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að meðferð málsins hafi tekið of langan tíma.

Af hálfu stefnda hefur því verið lýst að eðli málsins samkvæmt hafi lögreglan þurft að beita viðeigandi úrræðum til að framfylgja far­­banninu og því hafi stefnanda verið gert að halda sig innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur og mæta tvisvar á dag á lögreglustöð á þeim tíma er hann sætti farbanni. Mat lögreglunnar var að þessar ráðstafanir hafi verið nauðsynlegar og engum þvingunaraðgerðum var beitt til að framfylgja þeim. Hér hefur ekki verið sýnt fram á að það mat hafi verið rangt eða að beitt hafi verið þyngri aðgerðum en ástæða var til. Verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn meðalhófs­reglunni við með­ferð málsins eða að farið hafi verið á svig við fyrirmæli í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar eins og stefnandi heldur fram. Í málatil­búnaði stefnanda kemur ekki fram hvernig hann telur að þessi fyrirmæli lögreglunnar hafi leitt til fjárhagslegs tjóns fyrir hann. Bóta­ábyrgð er ekki fyrir hendi samkvæmt almennu skaða­bóta­reglunni nema sýnt sé fram á fjárhagslegt tjón sem rakið verði til ólögmætra aðgerða. Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki fallist á að þessi skilyrði séu fyrir hendi. Geta umræddar ráðstafanir lögreglunnar því ekki varðað stefnda bóta­skyldu samkvæmt almennu skaða­­bóta­reglunni og reglunni um húsbónda­ábyrgð. Þá verður heldur ekki fallist á að í um­ræddum að­gerðum lögreglunnar hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi eða friði stefnanda, þrátt fyrir að þær hafi verið íþyngjandi fyrir hann.

Samkvæmt framangreindu eru ekki fyrir hendi skilyrði til að dæma stefnda skaðabótaskyldan á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um hús­bónda­ábyrgð eða til að dæma stefnanda miskabætur úr hendi stefnda samkvæmt b lið 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.

Með vísan til þessa ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 387.500 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Friðbjörns E. Garðarssonar hdl., sem þykir hæfi­lega ákveðin 350.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður vegna þýð­ingar er 37.500 krónur.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Dainus Mankauskas, í máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 387.500 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Friðbjörns E. Garðarssonar hdl., 350.000 krónur.