Hæstiréttur íslands

Mál nr. 82/1999


Lykilorð

  • Veðskuldabréf
  • Brigðaréttur
  • Verðbréfafyrirtæki


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 21. október 1999.

Nr. 82/1999.

Sameinaði lífeyrissjóðurinn

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

dánarbúi Ingibjargar Jósefsdóttur

(Valgeir Kristinsson hrl.)

Veðskuldabréf. Brigðaréttur. Verðbréfafyrirtæki.

IR gaf út skuldabréf til móður sinnar, IJ. Lífeyrissjóðurinn S keypti bréfið af verðbréfafyrirtækinu H og ritaði H svohljóðandi framsal á bréfið „Samkv. varðv.umboð H“.

IJ krafðist þess að viðurkenndur yrði eignarréttur hennar að skuldabréfinu og að S yrði dæmdur til afhendingar bréfsins, enda væri umboð hennar til H, sem framsalið vísaði í, falsað. Hafði K, sonur IR, játað að hafa falsað umboðið og hlotið refsidóm fyrir þá háttsemi.

Talið var að S hefði ekki tekist að hnekkja niðurstöðu héraðsdóms í fyrrnefndu refsimáli um að sannað væri að K hefði falsað umboðið. Þá var talið að traustfangsreglur laga nr. 9/1993 um verðbréfaviðskipti ættu ekki við í málinu þar sem H hefði fengið bréfið í sínar vörslur fyrir falsað umboð. Þótti og ósannað að nafnritun IJ á skuldabréfið væri málamyndagerningur. Var því fallist á kröfur hennar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 1999. Hann krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur sinn að veðskuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 2.150.000 krónur, sem útgefið var af Ingibjörgu M. Ragnarsdóttur 18. maí 1994 til Ingibjargar Jósefsdóttur með veði í fasteigninni Hólabraut 3, Hafnarfirði. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður í héraði verði lækkaður og felldur niður fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakið, að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 1996 hafi Kristinn R. Kristinsson verið dæmdur í átta mánaða fangelsi, meðal annars fyrir að falsa nafn ömmu sinnar, Ingibjargar Jósefsdóttur, á umboð dagsett 7. júní 1994 til Handsals hf. til að framselja verðbréf, sem félaginu væru falin. Afhenti Kristinn Handsali hf. umboðið, sem samkvæmt heimild í því framseldi áfrýjanda veðskuldabréf það, sem ágreiningur málsaðila snýst um. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti reisti áfrýjandi kröfur sínar meðal annars á því að ekki væri sannað að umboðið sé falsað. Verði í því sambandi að líta til þess að um sé að ræða samskipti náinna skyldmenna í beinan legg, það er Kristins, móður hans stefndu Ingibjargar og Ingibjargar Jósefsdóttur. Ekki sé trúverðugt að Kristinn játi á sig brot, sem geti orðið nánustu skyldmennum hans til fjárhagslegs ávinnings. Eigi áfrýjandi að njóta vafa, sem hljóti að þessu virtu að vera um hvort umboðið hafi í raun verið falsað.

Áfrýjandi hefur ekki hlutast til um að starfsmenn Handsals hf. gefi skýrslu fyrir dómi um samskipti sín við áðurnefndan Kristin, er veðskuldabréfið var útbúið og það síðan framselt samkvæmt umboðinu. Hefur áðurnefndur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur verið lagður fram í málinu. Er ekkert fram komið, sem styður að atvik hafi ekki verið með þeim hætti, sem lagt var til grundvallar dómi í því máli. Er haldlaus málsástæða áfrýjanda, sem á þessu er reist.

II.

Til stuðnings kröfum sínum vísar áfrýjandi ennfremur til þess að hann hafi í góðri trú eignast veðskuldabréfið, sem sé ófalsað. Hafi hann fengið það framselt frá verðbréfafyrirtæki, sem starfi á grundvelli sérstakrar leyfisveitingar, en á þeim tíma, sem um ræðir, hafi gilt um starfsemi slíkra félaga lög nr. 9/1993 um verðbréfaviðskipti. Vísar hann sérstaklega til 16. gr. laganna, sem haft hafi að geyma sömu reglur og 7. gr. áðurgildandi laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun og miðuðu að því að skapa sérstakt traust í viðskiptum við félög, sem versluðu með verðbréf. Þar eð hann hafi fengið bréfið framselt frá slíku félagi þurfi hann ekki að sæta því að bréfinu sé brigðað frá honum eftir að hann hafi öðlast það með lögmætum hætti. Undantekningar frá ákvæðum greindra laga beri að skýra þröngt.

Lögmætur eigandi veðskuldabréfsins, Ingibjörg Jósefsdóttir, gaf Handssali hf. ekki umboð til að framselja það. Fékk félagið umráð þess við ólögmæta og refsiverða háttsemi Kristins R. Kristinssonar. Verður áfrýjandi að sæta því að lögmætur eigandi bréfsins fái brigðað því úr höndum hans. Getur grandleysi hans í viðskiptum við Handsal hf. ekki breytt þeirri niðurstöðu. Þær reglur 16. gr. laga nr. 9/1993, sem vísað er til, sbr. nú 19. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, skipta ekki máli um úrslit ágreinings aðilanna.

Að virtu því, sem að framan er rakið, og með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest um annað en málskostnað. Verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, greiði stefnda, dánarbúi Ingibjargar Jósefsdóttur, samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Héraðsdómur Reykjavíkur 4. desember 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. nóv. sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 28. nóvember 1997, þingfestri 9. des. 1997.

Stefnandi var Ingibjörg Jósefsdóttir, kt. 040914-7149, Álfaskeiði 45, Hafnarfirði. Ingibjörg Jósefsdóttir lést 15. desember 1997 og tók dánarbú hennar við málinu.

Stefndi er Sameinaða lífeyrissjóðurinn, kt. 620492-2809, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

Stefnandi krefst viðurkenningar á eignarrétti sínum að veðskuldabréfi upphaflega að fjárhæð 2.150.000 kr., útgefið 18. maí 1994 af Ingibjörgu M. Ragnarsdóttur, kt. 090642-3169, Hólabraut 3, Hafnarfirði, til Ingibjargar Jósefsdóttur. Veðskuldabréfið er tryggt með 4. veðrétti í íbúð Ingibjargar M. Ragnarsdóttur að Hólabraut 3, Hafnarfirði 1. h. til hægri, eignarhluti í húsi 18,3%. Skuldabréfið er með verðtryggingarákvæðum og grunnvísitölu 3347 stig, lánið er til 15 ára, 30 jöfnum afborgunum tvisvar á ári, í fyrsta skipti 18. nóv. 1995.

Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að afhenda stefnanda umrætt veðskuldabréf.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda:

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Málavextir:

Skuldabréfið sem málið er af risið er að fjárhæð 2.150.000 krónur, útgefið 18. maí af dóttur Ingibjargar Jósefsdóttur, Ingibjörgu M. Ragnarsdóttur, til Ingibjargar Jósefsdóttur. Skuldabréfið er tryggt með 4. veðrétti í íbúð Ingibjargar M. Ragnarsdóttur að Hólabraut 3, Hafnarfirði. Hólabraut 3 ehl. í húsi 18,3% 1. h. til hægri. Skuldabréfið er með verðtryggingarákvæðum og grunnvísitölu 3347 stig, með 9% ársvöxtum, lánið er til 15 ára, 30 jöfnum afborgunum tvisvar á ári í fyrsta skipti 18. nóv. 1995.

Skuldabréfið var framselt þann 7. júní 1994 til Sameinaða lífeyrissjóðsins með svofelldri áritun „Samkv. varðv.umboð“ HANDSAL (og ólæsri skammstöfun). Með tilgreindu umboði var vísað til umboðs frá Ingibjörgu Jósefsdóttur til Handsals hf., dags. 7. júní 1994 en fyrir liggur sönnun þess að undirritun Ingibjargar á umboðinu er fölsuð og hefur Kristinn Ragnar Kristinsson, sonur Ingibjargar M. Ragnarsdóttur og dóttursonur Ingibjargar Jósefsdóttur, játað að hafa falsað nafnið á umboðið. Kristinn var dæmdur vegna atferlis þessa og annarrar ólögmætrar hegðunar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 13. desember 1996.

Hinn 24. janúar 1997 skrifaði lögmaður stefnanda verðbréfafyrirtækinu Handsali hf. og krafðist afhendingar skuldabréfsins með aðför. Bréfi þessu mun ekki hafa verið svarað. Hinn 1. apríl 1997 krafðist Ingibjörg Jósefsdóttir umráða yfir skuldabréfinu með beinni aðför. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 30. maí 1997 var sóknaraðila heimiluð bein aðfarargerð til þess að ná veðskuldabréfinu úr vörslum gerðarþola. Úrskurður þessi var kærður til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 18. júní 1997 var kröfu aðfararbeiðanda hafnað.

Ingibjörg Jósefsdóttir andaðist 15. des. 1997. Börn hennar, sem eru fjögur fengu leyfi til einkaskipta 27. maí 1998. Eitt barna Ingibjargar Jósefsdóttur er Ingibjörg M. Ragnarsdóttir útgefandi skuldabréfsins sem málið er af risið.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda:

Stefnandi byggir á því að sannað sé að umrætt skuldabréf hafi komist í hendur stefnda fyrir falsað umboð. Falsað umboð veiti ekki viðtakanda þann rétt sem umboðið virðist gefa til kynna enda stafi það ekki frá rétthafa skuldabréfsins. Slík háttsemi útiloki yfirfærslu eignarréttar að nafnskuldabréfum. Í ljós sé einnig komið að vottun á umboðið sé einnig fölsuð og verði það að teljast öldungis fráleit niðurstaða að sá sem rændur er eigum sínum með slíkri fölsun eigi að tapa eignum en sá sem kaupir slík skuldabréf í atvinnuskyni skuli eiga ríkari kröfu til skuldabréfsins. Eðlilegast sé að verðbréfafyrirtæki sem selji slík bréf bæti viðsemjanda sínum tjón hans enda hafi þeir aðilar átt lögskipti en stefnandi ekki. Stefndi verði því að hlíta því að afhenda bréfið löglegum eiganda þess, sem sé stefnandi. Í þessu sambandi er vísað til réttarreglna um yfirfærslu eignarréttar og réttarreglna um brigðarétt og traustfangsreglur.

Þar að auki byggir stefnandi kröfur sínar á reglum samningalaga og kröfuréttarreglum. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr., einkum 1. tl. e, laga nr. 91/1991. Krafa um dráttarvexti á tildæmdan málskostnað er byggð á 4. tl. 129. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er sett fram af skaðleysissjónarmiðum. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda:

Af hálfu stefnda er því haldið fram að andvirði skuldabréfsins hafi verið ráðstafað í þágu Ingibjargar Ragnarsdóttur. Skuldabréfið hafi verið útgefið hjá verðbréfafyrirtækinu Handsal hf. Bréfið hafi verið undirritað af greiðanda og vitundarvottum og hafi Handsal hf. séð um að þinglýsa bréfinu. Bréfið hafi síðan verið selt stefnda í máli þessu og andvirðið notað til greiðslu skulda greiðanda skuldabréfsins og til hagsbóta fyrir Kristin R. Kristinsson.

Stefndi hafi eignast umrætt skuldabréf með löglegu ófölsuðu framsali Handsals hf. á skuldabréfið. Um sé að ræða löglegt, ófalsað og þinglýst skuldabréf. Stefndi hafi greitt fyrir skuldabréfið og teljist því réttmætur eigandi þess. Stefndi hafi verið grandlaus um meinta fölsun umboðs Handsals hf. þegar hann fékk bréfið í hendur. Hafi Handsal hf. farið út fyrir heimildir sínar sem umbjóðandi stefnanda beri stefnanda að beina kröfum sínum að þeim aðila en réttarsamband hafi ekki myndast milli stefnanda og stefnda. Ríkar kröfur séu gerðar til verðbréfafyrirtækja um frágang skjala og starfsábyrgðartryggingar og telji stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni beri að beina kröfum að þar til bærum aðilum.

Á grundvelli hinna ríku krafna sem gerðar eru til verðbréfafyrirtækja hafi stefndi mátt treysta á lögmæti framsals þeirra til sín, sbr. lög um verðbréfaviðskipti. Viðskiptabréfareglur, skráðar sem óskráðar, geri kröfu um að aðilar í viðskiptalífinu megi treysta efni skuldabréfa eins og þau koma fyrir. Með vísan til þess verði að telja mikilvægara að stefndi haldi rétti sínum yfir skuldabréfinu heldur en að stefnandi fái rétt yfir bréfinu.

Tómlætisreglur geri það að verkum að stefnandi eigi ekki kröfu til umrædds skuldabréfs. Stefnanda hafi borið að takmarka tjón sitt. Það hafi stefnandi ekki gert heldur hafi liðið meira en eitt ár frá því að skuldabréfið var framselt þar til fyrsti gjalddagi bréfsins féll. Skuldabréfið hafi verið tekið til innheimtumeðferðar og uppboðsmeðferð hafi farið af stað en samt hafi það ekki verið fyrr en 24. janúar 1997 sem gerðar voru athugasemdir við framsal skuldabréfsins, nærri þremur árum eftir útgáfu bréfsins. Af þessum sökum sé ekki tækt að fallast á kröfur stefnanda um afhendingu skuldabréfsins þar eð slíkt hefði í för með sér umtalsvert tjón fyrir stefnda vegna þess kostnaðar sem hann hafi lagt í við innheimtu bréfsins. Verði því að krefjast þess af stefnanda, telji hann sig hafa orðið fyrir tjóni, að hann beini kröfum sínum um bætur annað. Skuldabréfið hafi verið útgefið á skuldabréfaform verðbréfafyrirtækis og verið í vörslum þess. Bréfið beri það með sér að gert hafi verið ráð fyrir sölu þess. Hafi andvirði bréfsins verið ráðstafað á annan máta en stefnandi ætlaði og telji stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni þess vegna beri að beina kröfum að meintum tjónvaldi.

Jafnframt er á því byggt að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni í máli þessu, sem leiði til þess að hún eigi kröfu um afhendingu umrædds skuldabréfs. Nafnritun stefnanda á skuldabréfið hafi verið málamyndagerningur í þeim tilgangi að gera skuldabréfið að nafnbréfi í því skyni að það væri verðtryggt og til þess að auðvelda sölu þess í gegnum verðbréfafyrirtæki. Skuldabréfið hafi verið útgefið af Ingibjörgu Ragnarsdóttur til þess að selja það og nota andvirði til greiðslu krafna sem hún hafi verið greiðandi að og hafi verið í vanskilum. Meginhluti andvirðis bréfsins hafi verið notaður til uppgreiðslu skulda sem hvíldu á eign skuldara bréfsins.

Stefnandi hafi ekki sannað nægjanlega rétt sinn til bréfsins. Stefnandi verði að sýna fram á tilurð bréfsins, hvernig það komst til stefnanda, hvað stefnandi gerði við bréfið og hvernig það komst í hendur Handsals hf. Jafnframt verði stefnandi að sýna fram á að stefnandi hafi raunverulega lánað dóttur sinni, Ingibjörgu Ragnarsdóttur, þá fjármuni sem bréfið var til greiðslu á. Hún hafi haft til þess vilja og getu og ekki hafi verið um það að ræða að stefnandi hafi verið málamyndakröfuhafi bréfsins, skráð á bréfið svo að ekki væri um handhafabréf að ræða, en slíkt skilyrði sé sett fram af hálfu verðbréfafyrirtækja sem sjá um sölu verðbréfa fyrir fólk. Stefndi telur að komi ekki fullgild sönnun fyrir því að stefnandi hafi í raun orðið fyrir fjártjóni vegna fölsunar framsals teljist hún ekki réttmætur eigandi og eigi því ekki kröfu um afhendingu bréfsins.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til laga nr. 9/1993 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt auk reglna um tómlæti og takmörkun tjóns. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 en krafa um virðisaukaskatt af honum er reist á lögum nr. 50/1988, en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi þau Kristinn Ragnar Kristinsson, dóttursonur Ingibjargar Jósefsdóttur, og móðir hans Ingibjörg Ragnarsdóttir.

Niðurstaða:

Fram kom hjá útgefanda skuldabréfsins sem málið er af risið, Ingibjörgu M. Ragnarsdóttur, dóttur Ingibjargar Jósefsdóttur, að hún hafi gefið skuldabréfið út að ósk sonar síns, Kristins Ragnars Kristinssonar. Skuldabréfið skyldi vera Ingibjörgu Jósefsdóttur til tryggingar vegna skuldbindinga sem hún hafði tekið á sig vegna Kristins. Ingibjörg Jósefsdóttir hafi óskað eftir tryggingu. Sama kom fram hjá Kristni Ragnari Kristinssyni. Hann bar að eftir að móðir hans hafði undirritað bréfið, 18. maí 1994, hafi hann afhent ömmu sinni, Ingibjörgu Jósefsdóttur, bréfið óþinglýst. Seinna kvaðst Kristinn hafa tekið bréfið úr vörslu ömmu sinnar, án hennar vitundar, og farið með það til Handsals hf., sem hafi látið þinglýsa því 2. júní 1994. Kristinn kvaðst síðar hafa falsað umboð frá ömmu sinni til Handsals hf. til þess að framselja í hennar nafni þau verðbréf sem hún fæli Handsali hf. Kristinn sagði það rétt sem fram kemur á framlagðri kaupnótu Handsals hf., dags. 2. júní 1998. En þar kemur fram að Handsal hf. keypti skuldabréfið á 2.080.101 krónur. Á kaupnótuna eru skráðir þrír aðilar, þ.e. Valgarð Briem, Gústaf Þór Tryggvason og Íslandsbanki og tilteknar fjárhæðir við hvert nafn. Kristinn sagði að hluti af andvirði bréfsins hafi farið til greiðslu skulda eins og fram kemur á kaupnótunni. Hann hélt að að Ingibjörg Jósefsdóttir hefði verið ábyrgðarmaður að einhverjum af þeim skuldum. Sjálfur hafi hann fengið um 600.000 krónur.

Vegna fölsunar þessarar og fleiri falsana var Kristinn Ragnar Kristinsson dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 13. desember 1996 í 8 mánaða fangelsi, þar af 5 mánuðir skilorðsbundnir. Í dóminum kemur fram að Kristinn falsaði ítrekað nafn móður sinnar Ingibjargar M. Ragnarsdóttur annað hvort sem skuldara eða ábyrgðarmanns. Kristinn bar hér fyrir dómi að hann hefði tekið út refsingu sína.

Ingibjörg M. Ragnarsdóttir bar að hún hefði ekki vitað annað en að skuldabréfið væri í vörslu Ingibjargar Jósefsdóttur allt þar til hún fékk greiðsluáskorun 9. okt. 1996. Kristinn sonur hennar hefði búið á heimili hennar og hefði hann fjarlægt allar tilkynningar um greiðslukröfur vegna bréfsins.

Handhöfn stefnda á umræddu skuldabréfi byggist á framsali Handsals hf., sem byggðist á fölsuðu umboði til framsals. Hið falsaða umboð fékk Handsal hf. eftir að það hafði keypt bréfið af aðila sem ekki hafði ráðstöfunarrétt yfir bréfinu. Hið falsaða umboð veitti Handsali hf. ekki rétt til þess að framselja bréfið heldur ber að meta það sem óskráð væri gagnvart skráðum eiganda bréfsins.

Eigandi bréfsins var Ingibjörg Jósefsdóttir og skiptir ekki máli við niðurstöðu málsins hvort hluti af andvirði bréfsins hafi gengið til greiðslu skulda Ingibjargar M. Ragnarsdóttur eða ekki.

Það var 7. júní 1994 sem stefndi fékk bréfið framselt til sín. Fyrsti gjalddagi bréfsins var 18. nóv. 1995. Að sögn Ingibjargar M. Ragnarsdóttur vissi hún fyrst 9. okt. 1996 að bréfið var komið úr vörslu Ingibjargar Jósefsdóttur. Hinn 24. janúar 1997 skrifaði lögmaður stefnanda Handsali hf. og krafðist afhendingar bréfsins og með aðfararbeiðni, dags. 1. apríl 1997, var þess krafist að Ingibjörgu Jósefsdóttur yrði með beinni aðfarargerð fengin umráð yfir skuldabréfinu. Með vísan til þessa verður ekki fallist á sýknukröfu stefnda byggða á tómlæti stefnanda.

Telja verður fullyrðingar af hálfu stefnda, um að nafnritun Ingibjargar Jósefsdóttur á skuldabréfið hafi verið málamyndagerningur, ósannaðar. Þegar litið er til þess, sem fram er komið um hegðun Kristins Ragnars Kristinssonar í fjármálum og þá sérstaklega í sambandi við Ingibjörgu Jósefsdóttur og svo Ingibjörgu M. Ragnarsdóttur, þá verður að telja trúlegt það sem útgefandi bréfsins, Ingibjörg M. Ragnarsdóttir, bar um tilurð bréfsins, þ.e. að það hafi átt að vera trygging fyrir Ingibjörgu Jósefsdóttur vegna ábyrgða sem hún hafði gengist í fyrir Kristin. Verður því að telja ósannað að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna viðskiptanna með bréfið.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verða kröfur stefnanda teknar til greina.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 425.000 krónur og hefur þá verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Viðurkenndur er eignarréttur stefnanda, db. Ingibjargar Jósefsdóttur, að veðskuldabréfi upphaflega að fjárhæð 2.150.000 krónur, útgefið 18. maí 1994 af Ingibjörgu M. Ragnarsdóttur, kt. 090642-3169, Hólabraut 3, Hafnarfirði til Ingibjargar Jósefsdóttur. Veðskuldabréfið er tryggt með 4. veðrétti í íbúð Ingibjargar M. Ragnarsdóttur að Hólabraut 3, Hafnarfirði 1. h. til hægri, eignarhluti í húsi 18,3%. Skuldabréfið er með verðtryggingarákvæðum og grunnvísitölu 3347 stig, lánið er til 15. ára, með 30 jöfnum afborgunum tvisvar á ári í fyrsta skipti 18. nóv. 1995.

Stefndi, Sameinaði lífeyrissjóðurinn afhendi stefnanda umrætt veðskuldabréf og greiði stefnanda 425.000 krónur í málskostnað.