Hæstiréttur íslands

Mál nr. 155/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Samningur
  • Lán
  • Gengistrygging
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 155/2011.

Landsbankinn hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

þrotabúi Motormax ehf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Samningur. Lán. Gengistrygging. Sératkvæði.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu L um að krafa, sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti M, yrði viðurkennd að fullu sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa L var byggð á lánssamningi aðila 30. mars 2007 um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði 150.000.000 krónur í nánar tilgreindum myntum og hlutföllum. Greindi aðila á um hvort M hefði með lánssamningnum tekið á sig skuldbindingu í erlendri mynt eða hvort lánið hefði verið í íslenskum krónum og fjárhæð þess bundin við gengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir voru í samningnum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eina tilgreiningin í samningnum á fjárhæð lánsins væri í íslenskum krónum, en hvergi væri getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Fjárhæð lánsins væri þannig í grunninn tiltekin í íslenskum krónum. L hefði ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hefði á þennan hátt verið miðuð við íslenskar krónur ef um lán í erlendum gjaldmiðlum hefði verið að ræða. Þá skyldu báðir samningsaðilar efna meginskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með greiðslum í íslenskum krónum og hefðu gert það í raun. Ennfremur var litið til þess að Hæstiréttur hefði áður tekið afstöðu til þess að lánssamningar, sem hefðu að geyma sömu skilmála og fram kæmu í lánssamningnum í þessu máli, hefðu verið um skuldbindingar í íslenskum krónum. Samkvæmt þessu yrði að líta svo á að hér væri um að ræða lán sem ákveðið væri í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. L bar í annan stað fyrir sig að samkvæmt lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hefði verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hefði það við gerð lánssamningsins 30. mars 2007 verið til hagsbóta fyrir skuldarann. Lagði L fyrir Hæstarétt samantekt sína með samanburði á greiðslubyrði af lánum í íslenskum krónum og láni í erlendum myntum. Taldi L að með þessu hefði hann sýnt fram á að skilyrðum lokamálsliðar 2. gr. laga nr. 38/2001 væri fullnægt, þar sem í ljósi reynslu síðustu fimm ára hefðu samningsaðilar mátt ætla 30. mars 2007 að viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla væri skuldaranum til hagsbóta. Talið var að láni í íslenskum krónum til fimm ára, sem bundið væri við gengi erlendra gjaldmiðla, fylgdi augljóslega töluverð áhætta, enda hefði reynslan sýnt þegar til lengri tíma væri litið að gengi íslensku krónunnar hefði farið lækkandi miðað við gengi algengustu erlendu gjaldmiðla og þessar gengisbreytingar hefðu á stundum komið í stökkum og ekki verið fyrirsjáanlegar með löngum fyrirvara. Ekki yrði litið svo á að fullnægt væri fyrrgreindu skilyrði um að víkja mætti frá ákvæðum laga nr. 38/2001 til hagsbóta fyrir skuldara ef það frávik fæli í sér raunhæfa og verulega áhættu hans. Var samkvæmt þessu staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.     

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Frekari gögn voru lögð fram eftir það. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að krafa að fjárhæð 275.867.666 krónur, sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti varnaraðila, yrði viðurkennd að fullu sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar upplýsingar um að á aðalfundi sóknaraðila 28. apríl 2011 hafi verið samþykkt að breyta heiti hans úr NBI hf. í Landsbankinn hf. og að sú ákvörðun hafi verið tilkynnt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 6. júní 2011.

I

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði gerðu Landsbanki Íslands hf. og Motormax ehf. samning 30. mars 2007. Á forsíðu hans var tilgreint að hann væri um lán að fjárhæð „ISK 150.000.000.-“, svo og hver væru heiti samningsaðila og félags sem tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Í aðfaraorðum meginmáls samningsins sagði að samningsaðilar geri „með sér svohljóðandi lánssamning um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 150.000.000,- Krónur eitt hundrað og fimmtíu milljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 25% JPY 15% USD 35% EUR 25%. Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Í grein 1.1. sagði síðan meðal annars að lántaki lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána „umsamda lánsfjárhæð“, en í grein 1.2. að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli „lánshlutann“ inn á. Samkvæmt grein 2.1. skyldi lánstíminn vera fimm ár og lánið greiðast að fullu með sextán afborgunum á þriggja mánaða fresti, þannig að 1/40 hluti þess yrði greiddur á hverjum af fyrstu fimmtán gjalddögum afborgana, í fyrsta sinn 5. júní 2008, en afgangurinn á lokagjalddaga 5. mars 2012. Vexti skyldi greiða á þriggja mánaða fresti út lánstímann, fyrst 5. júní 2007. Samkvæmt grein 2.2. átti greiðslustaður að vera hjá Landsbanka Íslands hf. og var tekið fram að lántaki óskaði eftir að reikningur hans nr. 0113-26-96 hjá bankanum yrði skuldfærður fyrir afborgun og vöxtum, en fyrir liggur að þetta var tékkareikningur Motormax ehf. í íslenskum krónum. Í grein 3.1. var mælt fyrir um að lánið bæri vexti, sem yrðu breytilegir og jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,7% vaxtaálags. Í grein 4.1. var kveðið á um að væri lánið í skilum gæti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að „myntsamsetningu“ þess yrði breytt, þannig að „eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið.“ Við umreikning vegna myntbreytingar skyldi nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis yrði miðað við samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna. Í grein 7. kom fram að stæði lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana eða vaxta á gjalddaga bæri honum að greiða dráttarvexti og færi um þá samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtyggingu. Bankinn hefði um það val hvort krafist yrði dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða „af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.“

 Sama dag og lánssamningurinn var undirritaður útfyllti Motormax ehf. beiðni um útborgun lánsins á eyðublaði sem fylgdi samningnum og óskaði eftir að „útborgunarfjárhæð“ yrði greidd inn á framangreindan tékkareikning. Næsta virkan dag, mánudaginn 2. apríl 2007, lagði Landsbanki Íslands hf. 149.464.999 krónur inn á reikninginn. Meðal gagna málsins er „kaupnóta“ bankans dagsett þennan dag og stíluð á Motormax ehf., þar sem getið var viðskipta með tilgreindar fjárhæðir í evrum, bandaríkjadölum, svissneskum frönkum og japönskum yenum. Varnaraðili telur þetta vera einhliða skjal bankans og hafnar því að Motormax ehf. hafi átt hlut að slíkum viðskiptum. Hann kannast hins vegar við að félagið hafi fengið þessa kaupnótu senda og ekki haft uppi sérstakar athugasemdir af því tilefni.

Samkvæmt gögnum málsins greiddi Motormax ehf. níu sinnum vexti eða afborganir af láninu, í síðasta skipti á gjalddaga 5. mars 2009. Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt greiðslutilkynningar til félagsins fyrir hvern gjalddaga þar sem fjárhæð vaxta og afborgunar var tilgreind í hinum erlendu myntum. Á öllum gjalddögum utan einum tók bankinn greiðsluna að fullu í íslenskum krónum af fyrrnefndum tékkareikningi félagsins í samræmi við grein 2.2. í lánssamningnum, en vegna gjalddaga í desember 2008 var hluti greiðslunnar tekinn af gjaldeyrisreikningum félagsins í dönskum krónum og evrum og það sem á vantaði af íslenska tékkareikningnum. Eftir að greiðslur höfðu verið inntar af hendi fékk Motormax ehf. sendar kvittanir. Þar var, auk þeirrar fjárhæðar íslenskra króna sem tekin var út af tékkareikningunum, tilgreind fjárhæð gjaldfallinnar afborgunar eða vaxta í erlendum myntum og viðskipti með gjaldeyri því til samræmis fyrir íslenskar krónur. Varnaraðili neitar því ekki að þessar kvittanir hafi borist félaginu, en kveður þær að þessu leyti vera einhliða skjöl bankans og kannast ekki við að félagið hafi átt þau gjaldeyrisviðskipti sem þar komi fram.

Motormax ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 11. maí 2009. Sóknaraðili gjaldfelldi kröfu samkvæmt lánssamningnum miðað við þann dag og lýsti 15. júlí sama ár í bú félagsins kröfunni, sem mál þetta varðar, en um viðurkenningu hennar reis ágreiningur eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði.

II

Í málinu greinir aðilana í fyrsta lagi á um hvort Motormax ehf. hafi með lánssamningnum 30. mars 2007 tekið á sig skuldbindingu í erlendri mynt eða hvort lánið hafi verið í íslenskum krónum og fjárhæð þess bundin við gengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir eru í samningnum. Með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var skorið úr hliðstæðum ágreiningi lánveitenda og lántaka um höfuðstól skulda vegna svonefndra bílalána. Niðurstaðan þar var sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og að tenging höfuðstóls skuldanna við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla hafi verið ólögmæt þar sem hún stríddi gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Þá var með dómum Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010 skorið úr ágreiningi um hvort skuldbindingar samkvæmt skuldabréfum með fasteignaveði væru í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum. Ákvæðum bréfanna var nánar lýst í þessum dómum, en niðurstaða Hæstaréttar var sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og talið að þar skipti mestu að lánsfjárhæðin væri ákveðin í íslenskum krónum og hana bæri að endurgreiða í sama gjaldmiðli.

 Áður er lýst þeim ákvæðum í lánssamningnum frá 30. mars 2007, sem mestu ráða við úrlausn um hvort í máli þessu sé um að ræða lán í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum. Í upphafi samningsins var meðal annars tekið fram að lánið væri fjölmyntalán að jafnvirði 150.000.000 krónur „í neðanskráðum myntum og hlutföllum“. Síðan voru tilgreindir gjaldmiðlarnir fjórir og hlutföll þeirra og kveðið á um að fjárhæð hvers þeirra yrði ekki ákveðin fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins, en skuldin yrði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu gjaldmiðla eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum gjaldmiðlum. Eina tilgreiningin í samningnum á fjárhæð lánsins var samkvæmt þessu í íslenskum krónum, en hvergi var getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Fjárhæð lánsins var þannig í grunninn tiltekin í íslenskum krónum. Sóknaraðili hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi á þennan hátt verið miðuð við íslenskar krónur ef um lán í erlendum gjaldmiðlum var að ræða. Haldlaus er sú viðbára hans að með þessu móti hafi best verið tryggt að lántaki fengi útborgaða nákvæmlega þá fjárhæð í íslenskum krónum, sem hann ætlaði að nýta, sökum þess að nokkra daga gæti tekið að afgreiða lánið og gengi hinna erlendu gjaldmiðla gæti hreyfst á þeim tíma, enda verður ekki framhjá því litið að lánið, sem málið varðar, var greitt út næsta bankadag eftir undirritun samningsins. Í þessu sambandi verður einnig að líta til ákvæðis í grein 4.1. í lánssamningnum um heimild til að breyta gjaldmiðlum, sem að framan var rakið, en þar kom glöggt fram að hinir erlendu gjaldmiðlar voru til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar. Aðalskylda sóknaraðila sem lánveitanda samkvæmt samningi aðila 30. mars 2007 var efnd 2. apríl 2007 með greiðslu 149.464.999 króna inn á íslenskan tékkareikning lántaka í samræmi við útborgunarbeiðni hans í fylgiskjali með samningnum. Aðalskylda Motormax ehf. sem skuldara samkvæmt lánssamningnum 30. mars 2007 var greiðsla vaxta og afborgana. Ljóst er af grein 2.2. í lánssamningnum, þar sem lántaki óskaði eftir að íslenskur tékkareikningur hans hjá bankanum yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu, að ætlun aðila var að greiðslur á gjalddögum þess yrðu í íslenskum krónum. Sú varð og almennt raunin. Báðir samningsaðilar skyldu því efna meginskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með greiðslum í íslenskum krónum og gerðu það í raun. Þá er til þess að líta að Hæstiréttur hefur í dómum sínum 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011 tekið afstöðu til þess að lánssamningar, sem höfðu að geyma sömu skilmála og fram koma í lánssamningnum í þessu máli, hafi verið um skuldbindingar í íslenskum krónum. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að hér sé um að ræða lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

Þá ber sóknaraðili í annan stað fyrir sig að samkvæmt lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hafi það við gerð lánssamningsins 30. mars 2007 verið til hagsbóta fyrir skuldarann. Í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010 var því hafnað að lánveitanda hefði tekist að sýna fram á að þetta skilyrði hafi verið uppfyllt, en þar var um að ræða lán til 20, 25, 30 og 40 ára. Lánið sem mál þetta varðar var til fimm ára. Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt samantekt sína með samanburði á greiðslubyrði af lánum í íslenskum krónum og láni í erlendum myntum sem tekin hefðu verið 27. mars 2002 og greidd upp sama dag á árinu 2007, þrem dögum fyrir gerð lánssamningsins sem hér er fjallað um. Þar er miðað við þrenns konar lánsskilmála, óverðtryggt lán í íslenskum krónum, verðtryggt lán í íslenskum krónum og loks lán í þeim erlendu myntum og með kjörum hliðstæðum þeim sem við er miðað í lánssamningi aðila. Að gefnum nánari forsendum um vexti og afborganir er niðurstaða sóknaraðila sú að heildargreiðslur af láni í erlendu myntunum hefðu orðið töluvert lægri en af lánum í íslenskum krónum, hvort sem miðað var við verðtryggt eða óverðtryggt lán. Telur sóknaraðili að með þessu hafi hann sýnt fram á að skilyrðum lokamálsliðar 2. gr. laga nr. 38/2001 sé fullnægt, þar sem í ljósi reynslu síðustu fimm ára hafi samningsaðilar mátt ætla 30. mars 2007 að viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla væri skuldaranum til hagsbóta. Um þetta verður að gæta að því að reynslan sýnir ekki aðeins þegar til lengri tíma er litið að gengi íslensku krónunnar hefur farið lækkandi miðað við gengi algengustu erlendu gjaldmiðla, heldur einnig að þessar gengisbreytingar hafa á stundum komið í stökkum og ekki verið fyrirsjáanlegar með löngum fyrirvara. Láni í íslenskum krónum til fimm ára, sem bundið var við gengi erlendra gjaldmiðla, fylgdi því augljóslega töluverð áhætta, sem síðar kom í ljós að var í hæsta máta raunhæf, hvað sem leið reynslu af gengisviðmiðun á nákvæmlega fimm ára tímabili fyrir lántökuna með samningnum 30. mars 2007. Ekki verður litið svo á að fullnægt sé fyrrgreindu skilyrði um að víkja megi frá ákvæðum laga nr. 38/2001 til hagsbóta skuldara ef það frávik felur í sér slíka raunhæfa og verulega áhættu hans. Að öllu þessu virtu er þessi málsástæða sóknaraðila því haldlaus. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Landsbankinn hf., greiði varnaraðila, þrotabúi Motormax ehf., 800.000 krónur í kærumálskostnað.

Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

Jóns Steinars Gunnlaugssonar og

Markúsar Sigurbjörnssonar

Svo sem lýst er í hinum kærða úrskurði deila málsaðilar meðal annars um hvort skuldbinding varnaraðila samkvæmt lánssamningnum 30. mars 2007 sé í erlendum gjaldmiðlum, en því heldur sóknaraðili fram, eða í íslenskum krónum og þá þannig að endurgreiðslur af láninu séu bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla, svo sem varnaraðili telur. Báðir vísa þeir til þess að samkvæmt því sem segi í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 falli lán í erlendri mynt ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og séu slíkir samningar því heimilir. Hins vegar hafi niðurstaða í þeim málum orðið sú að samningar um lán í íslenskum krónum, þar sem endurgreiðslur skyldu miðast við gengi erlendra gjaldmiðla, væru andstæðir VI. kafla nefndra laga og því ekki skuldbindandi.

Úrlausn á þessari deilu málsaðila ræðst fyrst og fremst af skýringu á texta lánssamningsins þar sem lýst er þeirri skuldbindingu sem varnaraðili tókst á hendur með samningnum. Við skýringuna ber að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljast gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.

Í upphafsákvæði lánssamnings Landsbanka Íslands hf. og Motormax ehf. 30. mars 2007 er sagt að hann sé „um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 150.000.000, - Krónur eitthundrað og fimmtíu milljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 25% JPY 15% USD 35% EUR 25%. Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Samkvæmt þessum texta lánssamningsins var hér veitt lán í hinum erlendu gjaldmiðlum, þó að fjárhæð þess hafi verið ákveðin sem jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum. Leikur ekki vafi á því í málinu að vilji aðila hafi við samningsgerðina staðið til þess að haga skuldbindingu varnaraðila með þessum hætti. Ekki er unnt að fallast á með varnaraðila að önnur ákvæði lánssamningsins séu í ósamræmi við þetta, hvorki ákvæði í grein 2.2, þar sem varnaraðili lýsir vilja sínum til að tiltekinn innlánsreikningur hans í bankanum í íslenskum krónum verði skuldfærður fyrir afborgunum, né ákvæði í grein 4.1, þar sem fjallað er um heimild varnaraðila til að óska eftir breytingu á þeim myntum sem lánssamningurinn kveður á um. Í kaupnótu sem gefin var út af Landsbanka Íslands hf. við lánveitinguna var, í samræmi við fyrrgreindan texta samningsins, höfuðstóll lánsins tilgreindur með fjórum fjárhæðum í hverjum hinna erlendu gjaldmiðla sem lánssamningurinn kvað á um. Við þetta gerði varnaraðili ekki athugasemd enda verður sem áður segir talið að vilji hans hafi staðið til að frá þessu yrði gengið með þessum hætti.

Svo sem meðal annars kemur fram í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 falla lán í erlendri mynt ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001. Verður því ekki fallist á með varnaraðila að lánssamningurinn 30. mars 2007 hafi farið í bága við nefndan kafla laganna. Samkvæmt framansögðu teljum við að taka beri kröfu sóknaraðila til greina en rétt sé að fella niður málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2011.

I.

Mál þetta, sem þingfest var 26. nóvember 2010, var tekið til úrskurðar 3. febrúar 2011.  Sóknar­aðili er NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík, en varnaraðili er þ.b. Motormax ehf., Aðalstræti 6, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að krafa sóknaraðila samkvæmt lánssamningi nr. 0106-36-7453 sem lýst var í þrotabú varnaraðila sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, í 4. tl. kröfulýsingar dags. 15. júlí 2009, sem er hluti af kröfu nr. 17 í kröfuskrá varnaraðila, verði viðurkennd að fullu sem slík krafa að fjárhæð 275.867.666 krónur. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að kröfu sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði sú afstaða skiptastjóra til kröfu sóknaraðila í þrotabúið samkvæmt lánasamningi nr. 7453, að viðurkenna hana sem veðkröfu að fjárhæð 167.899.277 krónur. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.

II.

Þann 30. mars 2007 óskaði Motormax ehf. eftir 150.000.000 krónum í erlendu láni til 5 ára hjá Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf. Þann sama dag gerðu Landsbanki Íslands hf. og Motormax ehf. með sér lánssamning nr. 7453. Um fjölmyntalán til fimm ára var að ræða að jafnvirði 150.000.000 krónur í eftirfarandi myntum og hlutföllum: CHF 25%, JPY 15%, USD 35% og EUR 25%. Lánið skyldi greiðast með 16 afborgunum á 3ja mánaða fresti, þannig að á fyrstu 15 afborgunargjalddögum, hverjum um sig, skyldi greiðast 1/40 hluti lánsupphæðarinnar og á lokagjalddaga þann 5. mars 2012 skyldi greiðast 25/36 hluti lánsupphæðarinnar. Fyrsti gjalddagi afborgana skyldi verða 5. júní 2008. Vextir lánsins skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,70% vaxtaálags. Vextirnir reiknuðust frá útborgunardegi lánsins og skyldu greiðast eftir á á þriggja mánaða fresti út lánstímann, í fyrsta sinn 5. júní 2007. Við vaxtaútreikning skyldi taka mið af þeim vaxtareglum er varða dagafjölda sem í gildi eru á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma. Sóknaraðila barst beiðni um útborgun lánsins 30. mars 2007. Lánið var greitt út í samræmi við ákvæði lánssamningsins og voru lagðar inn á reikning lántaka 149.464.999 krónur. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins voru allsherjarveð tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka. Til frekari tryggingar tókst Bergey eignarhaldsfélag ehf., kt. 520406-0930 á hendur sjálfskuldarábyrgð á fullum efndum allra skuldbindinga samkvæmt lánssamningnum. Sjálfskuldarábyrgðin tók til greiðslu höfuðstóls allra lánshluta, auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta svo og alls kostnaðar, sem af vanksilum kynni að leiða.

Þann 11. maí 2009 var varnaraðili tekinn til gjaldþrotaskipta. Við gjaldfellingu kröfunnar þann dag var hún umreiknuð í íslenskar krónur í samræmi við heimild í grein 11.2. Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila vegna framangreinds lánssamnings samtals að fjárhæð 275.867.666 krónur þann 15. júlí 2009. Með bréfi dagsettu 7. október 2010 tilkynnti skiptastjóri varnaraðila sóknaraðila að hann samþykkti ekki kröfuna eins og henni var lýst heldur samþykkti hann hana með tilliti til nýgenginna dóma Hæstaréttar Íslands. Skiptastjóri leit á framangreint lán sem gengistryggt íslenskt lán. Sóknaraðili mótmælti afstöðu skiptastjóra með bréfi dagsettu 22. október 2010 enda væri um skuldbindingu í erlendri mynt að ræða sem ekki ætti undir fordæmi Hæstaréttar. Ekki tókst að jafna ágreining aðila á skiptafundi 25. október 2010. Þess vegna óskaði skiptastjóri, með vísan til 3. mgr. 128. gr., sbr. 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, úrlausnar héraðsdóms um þann ágreining sem stendur um þá ákvörðun skiptastjóra að viðurkenna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 167.899.277 krónur en ekki að fjárhæð 275.867.666 króna.

III.

Sóknaraðili kveður kröfu sína tilkomna þannig að eftirstöðvar höfuðstóls lánsins ásamt áföllnum vöxtum á úrskurðardegi, þann 11. maí 2009, hefi verið 275.862.666 krónur vegna EUR, USD. JPY og CHF, sem sé kröfufjárhæðin. Krafa sóknaraðila sé á því byggð að með undirritun sinni á lánssamning nr. 7453 við sóknaraðila hafi varnaraðili tekist á herðar skuldbinding um að taka erlent lán og greiða það til baka á nánar tilteknum gjalddögum. Sóknaraðili hafi ekki fengið lánið samþykkt í samræmi við efni lánssamningsins og þurfi sóknaraðili því að fá dóm fyrir kröfu sinni.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að skuldbinding varnaraðila samkvæmt lánssamningi aðila nr. 7453 sé skuldbinding í erlendri mynt. Þegar af þeirri ástæðu eigi ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki við samanber nánar 1. mgr. 13. gr. laganna þar sem segir að VI. kafli taki eingöngu til skuldbindinga um lánsfé í íslenskum krónum. Hins vegar hafi kröfufjárhæðinni nú verið umbreytt í íslenskar krónur í samræmi við heimild sóknaraðila í gr. 11.2 í lánssamningnum.

Í vaxtalögum sé ekki að finna skilgreiningu á því hvað skuli teljast vera ,,skuldbinding um lánsfé í íslenskum krónum“. Af því leiði að túlka verði samning aðila í hvert og eitt skipti. Við þá túlkun verði sem endranær að horfa til grundvallarreglu samningaréttar um samningsfrelsi aðila, en af henni leiði meðal annars að allar takmarkanir frá henni verður að túlka þröngt. Við mat á þessu verði því samkvæmt ofangreindu að skoða skuldbindingar aðila samkvæmt fyrirliggjandi lánssamningi. Þá kveður sóknaraðili að þýðingarmestu ákvæði um skuldbindingar varnaraðila samkvæmt lánssamningnum séu eftirfarandi:

1.        Í upphafi lánssamningsins komi skýrt fram að um „fjölmyntalán“ sé að ræða til 5 ára. Í þessu felist skýr yfirlýsing um að lánið sé ekki veitt í íslenskum krónum, heldur erlendri mynt.

2.        Í upphafi lánssamningsins komi skýrt fram hlutfall þeirra mynta sem lánað sé í. Þannig segir að lánssamningurinn sé 25% í svissneskum frönkum (CHF), 15% í japönskum jenum (JPY), 35% í dollurum (USD) og 25% í evrum (EUR). Í þessu felist að varnaraðili hafi samþykkt að undirgangast skuldbindingu um að taka lán í erlendum gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum.

Í grein 4.1. í lánssamningnum sé að finna ákvæði sem veiti skuldara heimild til að breyta hinni erlendu mynt sem lán var upphaflega tekið í, að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Beiðni um breytingu mynta þurfi að setja fram með ákveðnum fyrirvara, til að bankinn geti keypt viðkomandi myntir eða eftir atvikum gert skiptasamning við annan aðila um viðkomandi myntir, til að geta veitt skuldara þau vaxtakjör sem umræddar myntir buðu uppá.

3.        Í samningnum komi fram ,,jafnvirði láns“ í íslenskum krónum. Þannig segi orðrétt í upphafi lánssamningsins: ,,...að jafnvirði kr.......“. Orðalag þetta endurspegli það sem fyrr sagði um að skuldbindingin sé ekki í íslenskum krónum, heldur erlendri mynt. Að öðrum kosti myndi vera óþarfi að notast við orðið ,,jafnvirði“.

4.        Í gr. 7.1 í samningnum segi að bankinn hafi um það val, hvort krafist sé dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Sé það í samræmi við heimild bankans í gr. 11.2. Ekki verði annað ráðið af þessu en að um skuldbindingu í erlendri mynt hafi verið að ræða.

5.        Í 3. gr. lánssamningsins komi fram skylda lántaka til að greiða vexti af láninu. Samkvæmt greininni lofaði varnaraðili að greiða sóknaraðila vexti, sem skyldu vera breytilegir jafnháir LIBOR vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,70% vaxtaálags. LIBOR sé skammstöfun fyrir ,,millibankavexti í London“ (á ensku London Inter Bank Offered Rate). Skuldbinding varnaraðila fólst samkvæmt þessu ekki í greiðslu vaxta á íslenskar krónur. Ef svo hefði verið hefði skuldbinding varnaraðila að grunni til byggst á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir voru í raun. Af þessari ástæðu byggi sóknaraðili á því að óumdeilanlega verði að skilgreina skuldbindingu varnaraðila samkvæmt lánssamningnum sem skuldbindingu í erlendri mynt, en ekki íslenskum krónum.

6.        Grein 2 í lánssamningnum geri ráð fyrir endurgreiðslu í hinum erlenda gjaldmiðli. Kvittanir fyrir greiðslu á vöxtum og afborgunum sýni glögglega að endurgreiðsla hafi farið fram í samræmi við það enda komi skýrlega fram að þar hafi verið keyptur gjaldeyrir og um gjaldeyrisviðskipti hafi verið að ræða. Vísað sé sérstaklega til tveggja kvittana, dags. 9. desember 2008 og 26. febrúar 2009 þar sem getið sé að greitt hafi verið sérstaklega beint til bankans í dönskum krónum (DKK) annars vegar og evrum (EUR) hins vegar.

Þá komi skýrt fram í upphafsorðum lánssamningsins að lánið skuli endurgreitt í hinum erlendu gjaldmiðlum enda sé þar getið um hvernig farið skuli með endurgreiðslur ákveði lántaki að greiða afborganir, vexti eða dráttarvexti í íslenskum krónum.

Til viðbótar framanröktum ákvæðum lánssamningsins vísi sóknaraðili til þess að ósk varnaraðila hafi litið að láni í erlendri mynt. Þá hafi við útborgun lánsins til varnaraðila átt sér stað gjaldeyrisviðskipti vegna þessa tiltekna láns þar sem varnaraðili seldi CHF að fjárhæð 691.501,66 á myntgenginu 54,0400 eða samtals að fjárhæð 37.368.750 krónur, EUR að fjárhæð 425.854,70 á myntgenginu 87,75 eða samtals að fjárhæð 37.368.750 krónur, JPY að fjárhæð 40.217.488 á myntgenginu 0,55750 eða samtals að fjárhæð 22.421.250 krónur og USD að fjárhæð 797.990,39 á myntgenginu 65,56 eða samtals að fjárhæð 52.316.250 krónur samanber kaupnótu lánsins. Varnaraðila hafi  því verið að fullu ljóst að hann var að taka lán í erlendum myntum.

Að hálfu sóknaraðila sé á því byggt að framangreind atriði varpi skýru ljósi á þá staðreynd að skuldbinding varnaraðila samkvæmt umræddum lánssamningi hefi ekki verið í íslenskum krónum, heldur erlendum myntum. Ákvæði VI. kafla vaxtalaga eiga því ekki við um skuldbindingar varnaraðila.

Þá kveðst sóknaraðili, að fari svo að dómurinn telji skuldbindingu varnaraðila samkvæmt lánssamningnum í íslenskum krónum, byggja á því að aðilum samningsins hafi verið heimilt samkvæmt 2. gr. vaxtalaga að víkja frá ákvæðum VI. kafla vaxtalaga þar sem lánssamningurinn hafi verið varnaraðila til hagsbóta vegna ákvæða í lánssamningi um umtalsvert lægri vaxtagreiðslur en ef um lán í íslenskum krónum hefði verið að ræða.

Um lagarök vísar sóknaraðili til þess að hann byggi á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og efndaskyldu loforða. Kröfur um dráttarvexti, þar með talda vaxtavexti, styður sóknaraðili við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og 12. gr. sömu laga. Um málskostnaðarkröfu vísar sóknaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt af málskostnaði vísar sóknaraðili til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt en varnaraðli sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og sé því nauðsyn að fá fjárhæð sem svari virðisaukaskatti af dæmdum málskostnaði greidda úr hendi sóknaraðila.

Þá kveður sóknaraðili að um samninginn gildi íslensk lög og skuli mál vegna ágreinings um réttindi og skyldur aðila, rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. 16. gr. samningsins. Hvað aðild NBI hf. varði þá hafi Fjármálaeftirlitið tekið, með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. (NBI hf.) Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280 sé dagsett þann 9. október 2008.

IV.

Varnaraðili styður kröfu sína á því að mál þetta lúti að því hvort lán sóknaraðila til handa Motormax ehf., að fjárhæð 150.000.000 krónur, samanber lánasamning nr. 7453, sem innt var af hendi 2. apríl 2007, hafi verið í erlendri mynt, eða hvort lánið hafi verið í íslenskum krónum með gengistryggingu í sömu gjaldmiðlum. Á því sé byggt af hálfu varnaraðila að um sé að ræða gengistryggt íslenskt lán. Í dómum Hæstaréttar frá 16. júní 2010 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að lán sem bundin væru við gengi erlendra gjaldmiðla færu í bága við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í forsendum dómanna segi m.a. orðrétt: „Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum.“

Þar sem lán sóknaraðila til handa Motormax ehf. hafi verið gengistryggt megi ljóst vera að ógreiddar eftirstöðvar lánsins nemi mun lægri fjárhæð en sóknaraðili haldi fram enda geti fjárhæð lánsins í ljósi dóma Hæstaréttar ekki tekið mið af hækkun þeirra gjaldmiðla sem getið hafi verið í lánasamningi. Þess í stað beri lánið vexti frá lántökudegi sem á hverjum tíma séu jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum samanber dóm Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Þess sé því krafist að afstaða skiptastjóra, þess efnis að kröfu sóknaraðila í þrotabúið vegna umrædds lánasamnings nemi 167.899.277 krónum, verði staðfest með dómi. 

Í málinu sé ekki tölulegur ágreiningur og sé því aðeins deilt um hvort veðkrafa sóknaraðila samkvæmt fyrrgreindum lánasamningi sé að fjárhæð 275.867.666 krónur eða 167.899.277 krónur. Í málinu sé ekki til umfjöllunar endurkrafa sem varnaraðili kunni að eiga á hendur sóknaraðila vegna greiðslu hans af fyrrgreindu láni sem byggð hafi verið á útreikningi sóknaraðila meðal annars um gengistryggingu. Varnaraðili muni síðar krefja sóknaraðila um endurgreiðslu ef fallist verði á kröfur hans í málinu og í ljós komi að hann hafi ofgreitt sóknaraðila miðað við réttan útreikning lánsins.

Skiptastjóri varnaraðila hafi samþykkt fyrrgreinda kröfu sóknaraðila sem veðkröfu á grundvelli 111. gr. laga nr. 21/1991, en í þeirri afstöðu hafi falist að sú fjárhæð fengist greidd af söluverði veðsettra eigna og ef söluverð þeirra nægði ekki til greiðslu kröfunnar væru eftirstöðvar almenn krafa í búið.

Á forsíðu lánasamningsins komi skýrlega fram að um sé að ræða lánasamning í íslenskum krónum en þar sé lánsfjárhæðin tilgreind sem 150.000.000 krónur. Á forsíðu samningsins sé hvergi vikið að því að um sé að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðli. Þvert á móti sé sérstaklega tekið fram að skuldbindingin sé í íslenskum krónum. Telja verði að forsíða samningsins sé í algjöru ósamræmi við það sem haldið sé fram af sóknaraðila, það er að segja, að um sé að ræða skuldbindingu í erlendri mynt. Hafi það í raun verið ætlun sóknaraðila að veita lán í erlendri mynt hafi slíkt að sjálfsögðu verið tekið fram á forsíðu samningsins.

Þá bendi varnaraðili á að á annarri blaðsíðu lánasamningsins sé lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum, bæði með tölustöfum og bókstöfum. Hvorki þar né annars staðar í lánasamningnum sé að finna ákvæði um hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendri mynt en slíkt sé að mati varnaraðila algjör forsenda þess að um erlenda skuldbindingu sé að ræða. Með öðrum orðum, það sé hvergi staf að finna í lánasamningnum um fjárhæð hins ætlaðs erlenda láns. Þess í stað sé eingöngu tilgreint að um fjölmyntalán sé að ræða hlutföllunum:

·         Svissneskir frankar (CHF) = 25%

·         Japönsk jen (JPY) = 15%

·         Bandarískir dollarar (USD) = 35%

·         Evrur (EUR) = 25%

Að mati varnaraðila gefi þetta bersýnilega til kynna að lánið sé í raun og veru í íslenskum krónum og bundið við gengi umræddra gjaldmiðla í framangreindum hlutföllum, það er, að um sé að ræða gengistryggt myntkörfulán. Þá sé ennfremur tekið fram að viðmiðunargengi gjaldmiðlanna fari eftir gengi þeirra einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins, það er, 1. apríl 2007. Að mati varnaraðila þjóni þetta ákvæði samningsins vart öðrum tilgangi en að binda skuldbindinguna, sem sé í íslenskum krónum, við gengi gjaldmiðlanna á þeim tiltekna degi.

Í 1. kafla lánasamningsins sé fjallað um lánsfjárhæð og útborgun. Hvergi í þeim kafla sé vísað til lánsfjárhæðar í erlendri mynt. Þess í stað komi fram að sóknaraðili skuldbindi sig að lána Motormax ehf. „umsamda lánsfjárhæð“. Að mati varnaraðila liggi í augum uppi að verið sé að vísa til þeirrar fjárhæðar sem tilgreind sé á forsíðu og í upphafi samningsins þ.e. ISK 150.000.000,-. Í kaflanum sé ekki einu orði vikið að því að lánið sé erlendri mynt.

Í 4. kafla lánasamningsins sé fjallað um myntbreytingarheimild. Í grein 4.1. segir m.a. orðrétt „Sé skuldin í skilum getur lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða hluta við aðrar erlendir myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið“.

Að mati varnaraðila gefi þetta ákvæði það bersýnilega til kynna að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum enda komi það beinlínis fram í ákvæðinu að hægt sé að greiða eftirstöðvar skuldarinnar þannig að þær „miðist“ við aðrar myntir. Að mati varnaraðila sé vandséð af hverju erlent lán ætti að miðast við aðrar myntir ef það væri í raun í erlendri mynt. Með þessu ákvæði hafi lántaka verið veitt heimild til óska þess að breyta „vísitölu“ lánsins á meðan lánstíma standi. Sýni þetta glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla. Hafi lánið í reynd verið í erlendri mynt hefði heimildarákvæði um breytingu andlagi lánsfjárhæðar ekki kveðið á um breytingu á viðmiðum heldur beinlínis um sölu þess gjaldmiðils sem lánað var og kaup annars.

Þá sé í þessum kafla lánasamningsins nánar útfært með hvaða hætti skuli staðið að málum komi til breytingar á vísitölu lánsins.  Þar segi „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf., á íslensku krónunni.“

Að mati varnaraðila staðfesti framangreint ákvæði enn betur að með orðalaginu „miðist við“ sé verið að miða við tiltekna erlenda mynt, það er, gengistryggja samninginn. Þá staðfesti ákvæðið einnig, að við slíka breytingu á „myntvísitölu“ (gengistryggingu), sé höfuðstóll lánsins ávallt hugsaður í íslenskum krónum, enda sé beinlínis áskilið að sóknaraðili hafi heimild til þess að horfa til gengisskráningar á íslensku krónunni við aðgerðina komi til þess.  Þýðingarlaust hefði annars verið að vísa til gengisskráningar á íslensku krónunni við slíka myntbreytingarheimild, ef höfuðstóllinn sé ekki í þeirri mynt.  Með engu móti hafi verið hægt að útskýra þetta ákvæði samningsins með öðrum hætti, enda algerlega þýðingarlaust að umbreyta til dæmis samningi sem raunverulega væri í evrum fyrst í íslenskar krónur, ef breyta ætti honum í japönsk jen.

Ákvæði í grein 2.4. í samningnum staðfesti enn fremur ofangreindan skilning varnaraðila, en þar sé ítrekað talað um „reiknieiningu sem byggist á „myntkörfu“.  Hér sé í raun verið að vísa til mismunandi vísitalna.

Af hálfu sóknaraðila sé því borið við að orðalagið „að jafnvirði“ endurspegli að skuldbindingin sé ekki í íslenskum krónum heldur erlendri mynt. Að mati varnaraðila eigi þessi túlkun sér ekki nokkra stoð í lánasamningnum enda hafi í samningnum verið gengið út frá því að lánsfjárhæðin sé í íslenskum krónum og hvergi tilgreind í erlendri mynt. Að mati varnaraðila geti þetta orðalag eitt og sér aldrei leitt til þess að samningurinn teljist vera  lán í erlendri mynt. Þess í stað verði í öllum tilvikum að skoða efni, inntak og raunverulega tilhögun samningsins. Slík skoðun muni að mati varnaraðila aldrei leiða annað í ljós en að samningurinn hafi í raun verið í íslenskum krónum með gengistryggingu í erlendri mynt.

Í greinargerð sóknaraðila hafi því verið borið við að val hans á því hvort dráttarvextir reiknist af íslenskum krónum eða erlendri mynt, samanber grein 7.1. lánasamningsins, sé til marks um það að lánið hafi verið í erlendri mynt. Þessu sé alfarið hafnað af hálfu varnaraðila enda hafi þetta ætlaða val einungis verið að forminu til því öll viðskipti aðila hafi farið fram í íslenskum krónum. Af þeim sökum geti þetta ætlað val sóknaraðila á útreikningi dráttarvaxta ekki haft nokkra þýðingu við mat á því hvort um sé að ræða lán í íslenskum krónum eða erlendri mynt.

Þá telji sóknaraðili að ákvæði samningsins um LIBOR vexti feli í sér að um erlenda skuldbindingu hafi verið að ræða. Í þessu samhengi vísi varnaraðili til dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Í báðum málunum hafi verið um að ræða bílasamninga gengistryggða í erlendri mynt þar sem greiðsla skuldara tók mið af breytingum á gengi og LIBOR-vöxtum. Þetta atriði hafi þó ekki orðið til þess að talið væri að um væri að ræða samning í erlendri mynt heldur þvert á móti að um væri að ræða lánasamning í íslenskum krónum með gengistryggingu í erlendri mynt. Í þessu máli hafi mátt vera ljóst að tilhögun vaxta, þ.e. LIBOR-vaxta, sé tilkomin vegna gengistryggingarinnar lánasamningsins. Með öðrum orðum séu vextir afleiðing þess að lánasamningurinn hafi verið gengistryggður. Þar sem gengistryggingin sé ólögleg hafi vaxtafyrirkomulag hins ólögmæta samnings enga þýðingu við úrlausn þessa máls.

Af hálfu sóknaraðila sé því svo að lokum haldið fram að í 2. gr. lánasamningsins sé gert ráð fyrir endurgreiðslu í hinum erlenda gjaldmiðli. Þá vísi sóknaðili til þess að kvittanir fyrir greiðslu á vöxtum og afborgunum sýni glögglega að endurgreiðsla hafi farið fram í samræmi það. Hafi varnaraðili mótmælt þessari fullyrðingu enda sé hvergi í 2. gr. samningsins gert sérstaklega ráð fyrir því að lánið skyldi greiðast í erlendri mynt. Í raun sé ekki minnst einu orði á erlenda mynt í 2. gr. samningsins. Á hinn bóginn segi orðrétt í grein 2.2. „Greiðslustaður er hjá Landsbanka Íslands hf. Lántaki óskar eftir að reikningur hans nr. 0113-26-96 hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum.“

Í þessu ákvæði sé greiðslufyrirkomulag lánsins niður njörvað. Sá reikningur sem vísað sé til í ákvæðinu sé íslenskur tékkareikningur en ekki gjaldeyrisreikningur. Hafi því beinlínis verið gert ráð fyrir því að endurgreiðsla færi fram í íslenskum krónum. Samkvæmt þeim greiðsluseðlum sem lagðir hafa verið fram, hafi greiðslum lánsins verið hagað með eftirfarandi hætti:

·         5. júní 2007 – ISK 1.337.669 (af reikningi 0113-26-000096)

·         5. september 2007 – ISK 2.032.723 (af reikningi 0113-26-000096)

·         19. desember 2007 – ISK 2.175.256 (af reikningi 0113-26-008448)

·         5. mars 2008 – ISK 2.308.661 (af reikningi 0113-26-008448)

·         5. júní 2008 – ISK 7.230.891 (af reikningi 0113-26-008448)

·         10. september 2008 – ISK 7.984.964 (af reikningi 0113-26-000096)

·         9. desember 2008 – ISK 111.588 (af reikningi 0113-26-008448)

·         9. desember 2008 – ISK ISK 2.003.471 (af reikningi 0113-26-008448)

·         9. desember 2008 – ISK 188.410 (af reikningi 0113-26-008448)

·         9. desember 2008 – DKK 32.704,31 (af reikningi 0113-26-401414)

·         9. desember 2008 – DKK 7.220,03 (greiðslumáti ekki tekinn fram)

·         15. janúar  2009 – EUR 46.709,24 (greiðslumáti ekki tekinn fram)

·         5. mars 2009- ISK 8.958.117 (af reikningi 0113-26-008448)

Af þessu hafi mátt sjá að í nær öllum tilvikum hafi afborganir lánsins verið greiddar með íslenskum krónum. Í þremur tilvikum hafi hins vegar verið greitt í dönskum krónum og evrum. Á hinn bóginn beri þær greiðslukvittanir ekki með sér af hvaða reikningi hafi verið tekið út af og hver hafi verið eigandi viðkomandi reiknings. Þá hafi vakið athygli að greitt var inn á lánið með dönskum krónum en sá gjaldmiðill hafi ekki verið hluti lánasamningsins. Þá beri að líta til þess að þær greiðslur sem inntar voru af hendi með erlendum gjaldeyri fóru allar fram eftir efnahagshrunið í október 2008 en þá hafi Motormax ehf. átt í verulegum fjárhagsörðugleikum. Séu því greiðslurnar með hinni erlendu mynt því miklu frekar staðfesting þess að bankinn hafi verið reiðubúinn að sætta sig við annan greiðslumáta en venja stóð til. Gjaldeyrishöft hafi þá verið til staðar en varnaraðili seldi á þessum tíma til útlanda tæki og vörur, sem veðsettar voru sóknaraðila. Skýrir sú staðreynd það að greitt hafi verið með erlendri mynt í fáum tilvikum.

Að lokum leggi varnaraðili ríka áherslu á að lánsfjárhæðin hafi verið innt af hendi inn á tékkareikning varnaraðila nr. 0113-26-000096 í íslenskum krónum 2. apríl 2007. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu sóknaraðila sem staðreyni það að lántakan hafi í raun farið fram erlendri mynt og í þeim hlutföllum sem kveðið sé á um í lánasamningnum. Með öðrum orðum hafi sóknaraðili aldrei lagt CHF, JPY, USD og EUR inn á gjaldeyrisreikninga í eigu Motormax ehf. Að mati varnaraðila sé vandséð hvernig hægt sé að tala um að lán sé í erlendri mynt þegar lánveitandi láni aldrei viðkomandi mynt og lántakandi fær hana aldrei í hendur. Þá sé ekki einu orði minnst á erlenda lánsfjárhæð í lánasamningi.

Þá telji sóknaraðili það liggja í augum uppi að kaupnóta sé hreinn málamyndagerningur sóknaraðila enda liggi enginn löggerningur að baki umræddri nótu. Kaupnótan sé augljóslega tilbúningur sóknaraðila og sé ætlað að breiða yfir þá staðreynd að engin lántaka fór fram í erlendri mynt. Í nótunni komi fram að Motormax ehf. hafi selt CHF, JPY, USD og EUR dollara að verðmæti 149.464.999 krónur og að sú fjárhæð hafi svo verið lögð inn á reikning hans. Þetta standist enga skoðun enda hafi umræddar myntir aldrei verið millifærðar inn á reikning Motormax ehf. eða afhentar fyrirtækinu með öðrum hætti í kjölfar undirritunar lánasamningsins. Varnaraðili leggi áherslu á að til þess að hægt sé að selja eitthvað tiltekið söluandlag þurfi seljandi að eiga það. Það hafi alls ekki verið tilvikið hér.

Af hálfu varnaraðila verður ekki framhjá því litið að umrædd kaupnóta sé einhliða skjal sóknaraðila og ekki undirrituð af forsvarsmönnum Motormax ehf. Að mati varnaraðila verði að minnsta kosti að gera þá kröfu til sóknaraðila, sem sé fjármálafyrirtæki með yfirburðar þekkingu á sviði samninga, að tryggja sér sönnun fyrir því að löggerningur um kaup og sölu gjaldeyris að verðmæti 150.000.000 krónur hafi í raun átt sér stað. Slíkt hafi sóknaraðili hins vegar ekki gert og beri hann í öllum tilvikum hallann af þeim sönnunarskorti. Að mati varnaraðila hafi umrædd kaupnóta enga þýðingu í máli þessu enda sem fyrr segir hreinn tilbúningur. Þá sé einnig ítrekað að Motormax ehf. hafi aldrei óskaði eftir neinum gjaldeyrisviðskiptum við sóknaraðila og skýrt hafi verið tekið fram í viðauka I, að lánið skyldi greiðast inn á íslenskan krónureikning félagsins.

Að lokum hafi varnaraðili lagt ríka áherslu á að við mat á því hvort lán sóknaraðila  hafi verið gengistryggt íslenskt lán eða erlent lán, beri að skoða lántökuna í heild sinni og hvernig henni hafi í raun verið háttað.  Með öðrum orðum verði að taka efni samningsins framar formi hans. Sé slíkt í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í málunum nr. 92/2010 og 153/2010 en þar hafi rétturinn talið að líta beri til efnislegra atriða en ekki í hvaða búning fjármálafyrirtækin höfðu klætt samninga.  Þá komi það skýrt fram í forsendum réttarins að ókleyft sé að semja sig undan ákvæðum laga nr. 38/2001.

Í ljósi þessa sé á því byggt af hálfu varnaraðila að lán sóknaraðila til handa Motormax ehf., á grundvelli lánasamnings nr. 7453, hafi í raun verið lán í íslenskum krónum sem hafi verið gengistryggðar í erlendri mynt. Slík lán fari í bága við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr., líkt og staðfest hafi verið í framangreindum dómum Hæstaréttar þann 16. júní 2010.

Nemi því krafa sóknaraðila í bú varnaraðila 167.899.277 króna í stað 275.867.666 króna líkt og haldið sé fram af hálfu sóknaraðila. Sé þess því krafist að afstaða skiptastjóra til kröfu sóknaraðila verði staðfest. Varnaraðili leggi áherslu á að ekki sé í málinu tölulegur ágreiningur og sé því ekki deilt um að krafa sóknaraðila sé 275.867.666 krónur ef fallist verði á sjónarmið hans í málinu. Þá sé ekki ágreiningur um að réttur útreikningur kröfunnar sé 167.899.277 krónur ef fallist verði á sjónarmið varnaraðila í málinu.

Varnaraðili byggir aðallega á lögum nr. 38/2001 einkum 13. og 14. gr. sem og almennra reglna kröfuréttarins. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra, sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

V.

Mál þetta varðar ágreining um hvort lán er varnaraðili tók samkvæmt lánssamningi nr. 0106-36-7453 og undirritaður var 30. mars 2007, sé íslenskt lán með tengingu við erlendan gjaldmiðil eða hvort um sé að ræða lán í erlendri mynt. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í máli nr. 92/2010 var því slegið föstu að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Væru reglur 13. og 14. gr. laganna ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna. Þar sem samningur um gengistryggingu hafi verið í andstöðu við fyrirmæli laganna hafi hann ekki verið skuldbindandi. Eftir niðurstöðu Hæstaréttar 16. júní 2010 hafa risið álitaefni um hvaða skilyrðum þurfi að vera fullnægt til að lán sem tengd eru erlendum gjaldmiðlum teljist vera lán í íslenskum krónum.

Mánudaginn 14. febrúar 2011 féll dómur í Hæstarétti í máli nr. 603/2011 þar sem ágreiningur laut m.a. að því hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi hafi verið ákveðin í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Í því máli var um að ræða veðskuldabréf sem bar fyrirsögnina „Veðskuldabréf: Fasteignalán í erlendri mynt“ og áritunina „Skuldabréfið er gengistryggt, með breytilegum LIBOR vöxtum og jöfnum afborgunum.“ Lánsfjárhæð skuldabréfsins var tiltekin fjárhæð í íslenskum krónum, en tekið fram að hún væri „jafnvirði“ nánar tilgreindra erlendra mynta í hlutföllum sem þar greinir. Í 2. gr. skuldabréfsins var meðal annars kveðið á um að lánið væri „bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindum myntum. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn.“ Skuldabréfið var útgefið 14. maí 2007 til 482 mánaða, lánsfjárhæð 16.030.000 íslenskrar krónur í japönskum yenum (JPY 70%) og svissneskum frönkum (CHF 30%), með eins mánaðar LIBOR vöxtum og 2,75% vaxtaálagi.

Í lánssamningi þeim sem ágreiningur er um í þessu máli kemur m.a. fram að um sé að ræða fjölmyntalán til 5 ára að jafnfirði 150.000.000 krónur í myntum og hlutföllum sem eru svissneskir frankar (CHF 25%), japönsk yen (JPY 15%), bandaríkjadalir (USD 35%) og evrur (EUR 25%). Fram kemur að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist ekki fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Tekið er fram að greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga. Samkvæmt grein 2.1 er lánstími 5 ár. Afborganir eru reiknaðar þannig að á fyrstu 15 afborgunargjalddögum greiðist 1/40 hluti lánsfjárhæðarinnar og á lokagjalddaga greiðist 25/36 hluti lánsfjárhæðarinnar. Greiðslustaður sé hjá Landsbanka Íslands og óski lántaki eftir að tékkareikningur hans hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum. Samkvæmt grein 3.1 skulu vextir af láninu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,70% vaxtaálags. Þá er tekið fram í grein 4.1 að sé skuldin í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að öll myntsamsetning lánsins verði breytt með tilgreindum hætti. 

Hæstiréttur Íslands hefur í máli nr. 603/2010 skorið úr ágreiningi lánveitanda og lántaka þar sem deiluefnið og atvik voru að mörgu leyti áþekk og er í þessu máli og lýst var hér að framan. Að framan var gerð grein fyrir lánssamningi aðila, en þar skiptir mestu það efni hans að lánsfjárhæðin var ákveðin í íslenskum krónum og hún skyldi endurgreidd í sama gjaldmiðli, en tekið er fram að endurgreiðslufjárhæðin skuli skuldfærð af tékkareikningi varnaraðila hjá bankanum. Þá var lánið bundið sölugengi bankans, greiddi varnaraðili afborganir, vexti og dráttarvexti í íslenskum krónum svo sem miðað var við samkvæmt ofansögðu, sem bendir ótvírætt til að lánið sé í íslenskum krónum. Slík verðtrygging skuldbindinga í íslenskum krónum er ólögmæt samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Að því virtu skiptir ekki máli þótt fyrir liggi yfirlýsing í lánssamningi um að um sé að ræða fjölmyntalán að ,,jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Aðrar frambornar málsástæður sóknaraðila fá heldur ekki hnekkt því að lánið var ákveðið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

Þá ber sóknaraðili fyrir sig að samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hafi það verið til hagsbóta fyrir skuldara. Varnaraðili tók lán sitt hjá sóknaraðila á árinu 2007. Svo sem fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 603/2010 var þá þegar farið að gæta óstöðugleika á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og ári síðar féll gengi krónunnar mjög mikið. Þó svo að lán í því máli hafi verið til lengri tíma en í þessu máli var það engu að síður háð óvissu um hvernig höfuðstóll og gengi kynnu að þróast yfir tímabilið, sérstaklega þegar litið er til fjárhæðar þess. Svo unnt sé að slá föstu að gengisbundið lán sé til hagsbóta fyrir varnaraðila varð að líta til þess hvað ætla mætti um það þegar upp væri staðið að lánstíma loknum. Það varð á hinn bóginn ekki gert nema með samanburði lánskjara samkvæmt leiðum, sem val stóð um, í ljósi reynslu á tímabili til samræmis við lánstíma. Sóknaraðili átti þess kost að afla matsgerðar til stuðnings áðurnefndri staðhæfingu sinni, en engin slík sönnunarfærsla hefur verið viðhöfð í málinu. Að öllu virtu er þessi málsástæða sóknaraðila haldlaus. Er fallist á með varnaraðila að sóknaraðila hafi verið óheimilt að verðtryggja lán þess fyrrnefnda með því að binda það við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt þessu verður kröfum sóknaraðila í málinu hafnað.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu málsins verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað. Varnaraðili hefur lagt fram málskostnaðarreikning sem miðar við 85,75 tíma. Við ákvörðun málskostnaðar verður einkum litið til ákvörðunar málskostnaðar í títtnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 603/2010, en málatilbúnaður varnaraðila hefur talsverða samsvörun við málatilbúnað í hæstaréttarmálinu. Með vísan til þess greiði sóknaraðili varnaraðila 800.000 krónur í málskostnað.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Aðalsteinn Egill Jónasson hrl., en af hálfu varnaraðila flutti málið Halldór Reynir Halldórsson hrl.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 Kröfum sóknaraðila, NBI hf., er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, þ.b Motormax ehf., 800.000 krónur í málskostnað.