Hæstiréttur íslands
Mál nr. 289/2006
Lykilorð
- Landskipti
- Sameign
- Stjórnsýsla
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 22. mars 2007. |
|
Nr. 289/2006. |
Anna Guðmundsdóttir og Guðmundur B. Guðmundsson (Gústaf Þór Tryggvason hrl.) gegn Guðrúnu Ólafíu Jónsdóttur og Knúti Jeppesen (Karl Axelsson hrl.) og Guðrún Ólafía Jónsdóttir og Knútur Jeppesen gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Landskipti. Sameign. Stjórnsýsla. Skaðabætur.
GJ og KJ kröfðust ógildingar á landskiptagerð fyrir jörðina G og að Í yrði dæmt til að greiða þeim þann kostnað sem þau hefðu innt af hendi við landskiptin. Þau byggðu kröfu sína einkum á því að ekki hefðu verið uppfyllt skilyrði 1. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 fyrir því að fara þá leið við slit á sameign sem lögin byðu, þar sem jörðin G væri aðeins eitt býli. Talið var að landskiptalögum yrði ekki beitt nema um væri að ræða mannvirki eða land, sem tvö eða fleiri býli hefðu eða hefðu haft til samnota. Gætu frístundahús málsaðila á jörðinni ekki talist býli í skilningi laganna og var því ekki talið að uppfyllt hefðu verið skilyrði til beitingar þeirra. Var krafa GJ og KJ um ógildingu gerðarinnar því tekin til greina. Þá var talið að Í bæri skaðabótaábyrgð vegna þeirra mistaka sýslumanns að verða við beiðni lögmanns AG og GG um skipun matsmanna samkvæmt lögunum án þess að kanna málið frekar eða gefa GJ og KJ færi á að tjá sig um beiðnina. Var því jafnframt fallist á fjárkröfu þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjendurnir Anna Guðmundsdóttir og Guðmundur B. Guðmundsson skutu málinu til Hæstaréttar 31. maí 2006. Þau krefjast þess að skiptagerð landskiptanefndar 19. maí 2005 fyrir jörðina Grjóteyri í Borgarfjarðarsveit verði staðfest og þinglýstri stefnu á jörðina aflýst. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefndu Guðrúnar Ólafíu Jónsdóttur og Knúts Jeppesen.
Áfrýjendurnir Guðrún Ólafía Jónsdóttir og Knútur Jeppesen skutu málinu til Hæstaréttar 18. júlí 2006. Þau krefjast þess að niðurstaða héraðsdóms verði staðfest, að öðru leyti en því að stefndi íslenska ríkið verði dæmt til að greiða þeim 765.961 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. ágúst 2005 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda íslenska ríkisins, en málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjendanna Önnu og Guðmundar.
Stefndi íslenska ríkið krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjendanna Guðrúnar og Knúts.
I.
Lögmaður áfrýjendanna Önnu og Guðmundar fór þess á leit við sýslumanninn í Borgarnesi með bréfi 4. júní 2004 að úttektarmenn samkvæmt 4. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 yrðu kvaddir til að skipta jörðinni Grjóteyri í Borgarfjarðarsveit. Í beiðninni voru taldir upp eigendur jarðarinnar, sem eru áfrýjendur málsins, og getið hlutfallslegrar eignar hvers þeirra. Þá var tekið fram að þrír af fjórum sameigendunum ættu sumarhús á jörðinni og hvar þau eru staðsett. Gerði Guðmundur áfrýjendunum Guðrúnu og Knúti kunnugt um þetta 27. júní 2004, en í niðurlagi bréfs hans var tekið fram að með fylgdi afrit af beiðni „sem send verður sýslumanni um leið og þetta bréf fer til ykkar.“ Með bréfi til allra áfrýjenda 2. júlí sama ár tilkynnti sýslumaður að samkvæmt beiðni og með vísan til landskiptalaga hafi hann skipað þrjá nafngreinda menn til að skipta jörðinni Grjóteyri. Hófu þeir störf fljótlega eftir það og komu allir málsaðilar á framfæri við matsmenn ítarlegum kröfum og rökstuðningi um hvernig jörðinni skyldi skipt. Luku matsmenn verkefni sínu með landskiptagerð 19. maí 2005. Guðrún og Knútur leituðu eftir það til lögmanns, sem lýsti því yfir í bréfi til annarra aðila málsins og matsmanna 7. júlí 2005 að þau teldu sig óbundin af niðurstöðum „svokallaðrar landskiptagerðar, sem að lögum er ekkert annað en marklaust plagg.“ Þau höfðuðu síðan málið með stefnu 19. september sama ár. Málavöxtum og málsástæðum aðilanna er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
II.
Krafa áfrýjendanna Guðrúnar og Knúts lýtur annars vegar að því að sameigendum þeirra að jörðinni Grjóteyri verði gert að þola ógildingu á áðurnefndri landskiptagerð 19. maí 2005. Er krafan einkum studd þeim rökum að landskiptalög hafi að geyma sérreglu til slita á sameign, sem ekki eigi við eins og hér standi á. Samkvæmt 1. gr. laganna skuli farið samkvæmt þeim ef skipta skuli landi eða mannvirkjum, sem tvö eða fleiri býli hafa eða hafa áður haft til samnota. Sú aðstaða sé hér ekki fyrir hendi þar sem jörðin Grjóteyri sé aðeins eitt býli. Skilyrði séu því ekki uppfyllt til að fara þá leið, sem þessi lög bjóða, heldur verði að fylgja reglum, sem almennt eigi við um slit á sameign. Í hinum áfrýjaða dómi var þessi krafa tekin til greina.
Áfrýjendurnir Anna og Guðmundur mótmæla sérstaklega þeim ummælum í forsendum héraðsdóms að ósannað sé að jörðin Grjóteyri hafi á árum áður verið fleiri bújarðir og telja þau ekki standast. Hafa þau lagt fyrir Hæstarétt ýmsar heimildir fyrir því að undir hana hafi fallið gömul býli, sem nefndust Skógarkot og Grjóteyrartunga. Samkvæmt sömu heimildum hafa þessi býli fyrir löngu verið sameinuð Grjóteyri og liggur ekki annað fyrir en að áfrýjendur eigi það land, sem áður tilheyrði þessum býlum, í sömu hlutföllum og land Grjóteyrar. Er samkvæmt þessu ekki hald í nefndum gögnum til stuðnings því að landskiptalög eigi hér við. Þá verður fallist á úrlausn héraðsdóms um það að frístundahús málsaðila á jörðinni geti ekki talist býli í skilningi landskiptalaga. Að því gættu, sem að framan er rakið og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að áðurnefnd landskiptagerð skuli ógilt.
III.
Fyrir héraðsdómi kröfðust áfrýjendurnir Guðrún og Knútur þess að sameigendur þeirra að jörðinni og stefndi íslenska ríkið yrðu dæmd til að greiða óskipt 765.961 krónu, sem var sá kostnaður við landskiptin, sem þeim var gert að greiða og þau inntu af hendi. Niðurstaða héraðsdóms var sú að kröfunni á hendur Önnu var vísað frá dómi en aðrir, sem kröfunni var beint að, voru sýknaðir. Guðrún og Knútur una þessum úrslitum að því er varðar Önnu og Guðmund. Þau hafa hins vegar áfrýjað héraðsdómi til að fá þessari niðurstöðu breytt gagnvart stefnda íslenska ríkinu.
Að framan var komist að þeirri niðurstöðu að landskiptalögum verði ekki beitt nema um sé að ræða mannvirki eða land, sem tvö eða fleiri býli hafa eða hafa haft til samnota. Verður jafnframt fallist á með Guðrúnu og Knúti að orðalag 1. gr. sé alveg skýrt að þessu leyti, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 10/1976 í dómasafni 1976, bls. 26. Sýslumaðurinn í Borgarnesi varð hins vegar við beiðni lögmanns Önnu og Guðmundar og skipaði matsmenn samkvæmt landskiptalögum án þess að kanna málið frekar að því er séð verður. Gaf hann Guðrúnu og Knúti ekki heldur færi á að tjá sig um beiðnina áður en hann afgreiddi erindið. Er stefndi íslenska ríkið skaðabótaskylt vegna þessara mistaka, en ekki er tölulegur ágreiningur í þessum þætti málsins. Verður stefndi dæmdur til að greiða kröfuna með dráttarvöxtum frá 24. ágúst 2005 þegar mánuður var liðinn frá því áfrýjendur kröfðu sýslumanninn í Borgarnesi um greiðslu.
Rétt er að allir áfrýjendur beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti vegna innbyrðis ágreiningsefna þeirra. Stefndi íslenska ríkið verður dæmt til að greiða áfrýjendunum Guðrúnu og Knúti málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um það að landskiptagerð matsmanna 19. maí 2005 fyrir jörðina Grjóteyri í Borgarfjarðarsveit sé ógilt.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjendunum Guðrúnu Ólafíu Jónsdóttur og Knúti Jeppesen 765.961 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. ágúst 2005 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti milli áfrýjenda, Önnu Guðmundsdóttur, Guðmundar B. Guðmundssonar, Guðrúnar Ólafíu Jónsdóttur og Knúts Jeppesen fellur niður.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjendunum Guðrúnu Ólafíu Jónsdóttur og Knúti Jeppesen samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 18. apríl 2006.
Mál þetta höfðuðu stefnendur, Knútur Jeppesen, Dísarási 1, Reykjavík, og Guðrún Ólafía Jónsdóttir, Bergstaðastræti 81, Reykjavík, 19. og 22. september 2005, gegn stefndu, íslenska ríkinu, Guðmundi B. Guðmundssyni, Sóltúni 9, Reykjavík, og Önnu Guðmundsdóttur, Borg, Borgarbyggð.
Kröfur stefnenda eru að stefndu Guðmundi og Önnu verði með dómi gert að þola ógildingu á landskiptagerð landskiptanefndar, dags. 19. maí 2005, fyrir jörðina Grjóteyri, Borgarfjarðarsveit. Stefnendur krefjast þess einnig að stefndu öll verði in solidum dæmd til greiðslu 765.961 krónu auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. ágúst 2005 til greiðsludags. Þá gera stefnendur enn fremur kröfu um að stefndu verði dæmd in solidum til greiðslu málskostnaðar.
Stefndu Guðmundur og Anna gera þær kröfur að þau verði sýknuð af kröfum stefnenda og að stefnendum verði in solidum gert að greiða þeim málskostnað.
Stefnda íslenska ríkið gerir þær kröfur í málinu að það verði sýknað af kröfum stefnenda og stefnendur dæmdir til greiðslu málskostnaðar.
I.
Stefnandi Guðrún og stefndi Guðmundur keyptu jörðina Grjóteyri í Borgarfjarðarsveit árið 1968. Jörðin er nú í óskiptri sameign stefnenda og stefndu Guðmundar og Önnu. Stefnandi Guðrún mun vera eigandi 43,335% jarðarinnar, stefnandi Knútur 13,33%, stefndi Guðmundur 40,555% og stefnda Anna 2,78%.
Samkvæmt gögnum málsins stóðu viðræður um skiptingu jarðarinnar yfir árum saman milli stefnda Guðmundar, fyrir hans hönd og stefndu Önnu, og stefnenda, en án árangurs. Með bréfi 4. júní 2004 óskaði stefndi Guðmundur síðan eftir því við sýslumanninn í Borgarnesi að hann kveddi til úttektarmenn samkvæmt 4. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 til að skipta jörðinni. Hinn 2. júlí 2004 skipaði sýslumaður Inga Tryggvason hdl., Bjarna Guðmundsson prófessor og Sigurbjörgu Ósk Áskelsdóttur arkitekt til að skipta jörðinni á grundvelli landskiptalaga.
Við meðferð málsins hjá landskiptanefnd var málsaðilum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, svo sem þeir og gerðu. Niðurstaða nefndarinnar lá fyrir 19. maí 2005. Samkvæmt framlagðri landskiptagerð var jörðinni skipt í tvo eignarhluta, öðrum til handa stefnendum en hinum til handa stefndu.
Hlutur stefnenda í kostnaði við störf landskiptanefndar var 765.961 króna samkvæmt reikningum dagsettum 19. og 20. maí 2005, en kostnaði við skiptin var deilt á sameigendur í hlutfalli við eignarhluta þeirra í jörðinni. Stefnendur greiddu nefnda fjárhæð 14. júní 2005.
Með bréfi til lögmanns stefndu Guðmundar og Önnu 7. júlí 2005 lýsti lögmaður stefnenda því yfir að stefnendur teldu sig með öllu óbundna af niðurstöðum landskiptanefndar þar sem öll málsmeðferðin eftir að skiptabeiðnin barst sýslumanninum í Borgarnesi 4. júlí 2004 hefði verið lögleysa ein þar sem engin lagaskilyrði hefðu verið til landskipta á grundvelli landskiptalaga nr. 46/1941. Í bréfinu áskildu stefnendur sér jafnframt allan rétt til kröfu á fjárhæð þeirri sem þeir hefðu í rangri trú greitt vegna meðferðar málsins fyrir landskiptanefnd. Var afrit af bréfi þessu meðal annars sent embætti sýslumannsins í Borgarnesi.
Sjónarmiðum og kröfu stefnenda var alfarið hafnað með bréfi stefnda Guðmundar 8. júlí 2005. Engin viðbrögð bárust hins vegar frá embætti sýslumannsins í Borgarnesi. Með bréfi 24. júlí 2005 kröfðu stefnendur stefnda Guðmund og sýslumanninn í Borgarnesi samhliða og óskipt um áðurnefnda fjárhæð. Var greindum aðilum gefinn frestur til 8. ágúst 2005 til að inna greiðslu af hendi, ella myndu stefnendur höfða mál án frekari viðvarana til heimtu greiðslunnar. Engin viðbrögð urðu við þessu bréfi stefnenda af hálfu stefnda Guðmundar eða sýslumannsins í Borgarnesi.
Sýslumaðurinn í Borgarnesi færði hina umþrættu landskiptagerð í þinglýsingabók embættisins 17. ágúst 2005 án athugasemda.
Eins og áður er rakið höfðuðu stefnendur síðan mál þetta með birtingu stefnu í september 2005.
II.
Kröfu um ógildingu landskiptagerðar frá 19. maí 2005 reisa stefnendur á því að lagaskilyrði hafi ekki verið fyrir skipun landskiptanefndar. Skiptagerð nefndarinnar sé því ógild að lögum, hún sé ekki landskiptagerð í merkingu landskiptalaga nr. 46/1941.
Stefnendur segja í 1. gr. laga nr. 46/1941 að finna afar skýra útlistun á gildissviði laganna. Skilyrði fyrir því að landskipti fari fram á grundvelli laganna sé að um sé að ræða tvö eða fleiri býli sem hafi, eða hafi áður haft, jörð til samnota. Það sé því skilyrði samkvæmt lögunum að um óskipt land að minnsta kosti tveggja eða fleiri jarða sé að ræða. Þetta grundvallarskilyrði sé ekki uppfyllt í málinu. Þessi augljósi lagaskilningur styðjist ekki einungis við skýr lögskýringargögn heldur einnig órofa réttarframkvæmd. Óskiljanlegt sé hvernig þetta fortakslausa lagaskilyrði landskiptalaga virðist hafa farið fram hjá annars vegar landskiptabeiðendum, sem notið hafi lögmannsaðstoðar við skiptin, og hins vegar sýslumanninum í Borgarnesi, er athugasemdalaust hafi skipað landskiptanefndina. Af hálfu stefnenda er því haldið fram að úr réttarágreiningi aðila hafi borið að leysa á grundvelli ólögfestra og lögfestra reglna íslensks réttar um óskipta sameign. Samkvæmt framangreindu telja stefnendur sig með öllu óbundna af niðurstöðum landskiptanefndar.
Skaðabótakröfu sína reisa stefnendur á því að þeim hafi verið gert að greiða hluta þess kostnaðar sem hlotist hafi af störfum landskiptanefndar, samtals 765.961 krónu, án þess að lagaskilyrði fyrir skipun nefndarinnar hafi verið uppfyllt. Alfarið hafi því skort heimild til kröfu um greiðslu þess kostnaðar sem af störfum nefndarinnar hlaust. Stefnendur hafi greitt kostnaðinn í þeirri trú að landskiptabeiðendur hefðu að uppfylltum lagaskilyrðum óskað eftir skipun landskiptanefndar og að sýslumaðurinn í Borgarnesi hefði skipað nefndina á grundvelli landskiptalaga nr. 46/1941. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að nefndin lauk störfum og stefnendur höfðu greitt reikning nefndarinnar í rangri trú á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1941, sem þeim hafi orðið ljóst að lagaskilyrði til landskipta voru ekki fyrir hendi. Taka stefnendur sérstaklega fram í þessu sambandi að þeir hafi ekki notið lögmannsaðstoðar í aðdraganda og við framkvæmd hinna meintu landskipta.
Stefnendur beina skaðabótakröfu sinni að stefndu öllum in solidum. Þeir kveða ljóst að stefndu beri sameiginlega og óskipta skaðabótaábyrgð á tjóni stefnenda. Stefnda íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð á mistökum sýslumannsins í Borgarnesi á grundvelli meginreglunnar um fébótaábyrgð ríkissjóðs vegna skaðaverka í stjórnsýslu. Stefndu Guðmundur og Anna beri skaðabótaábyrgð á grundvelli þess að þau lögðu ranglega fram beiðni um landskipti til sýslumannsins í Borgarnesi. Með því hafi þau átt beinan þátt í tjóni stefnenda og vísa stefnendur sérstaklega til þess að stefndu hafi notið lögmannsaðstoðar við undirbúning og framkvæmd landskiptanna. Segja stefnendur beint orsakasamband milli háttsemi stefndu og tjóns stefnenda.
Hlut sinn í heildarkostnaði við störf landskiptanefndar kveða stefnendur hafa verið 765.961 krónu, sbr. reikninga landskiptanefndar dagsetta 19. og 20. maí 2005, og það sé fjárhæð skaðabótakröfu þeirra í málinu, auk dráttarvaxta af kröfunni frá 7. ágúst 2005, en þann dag hafi einn mánuður verið liðinn frá því að stefnendur kröfðu stefndu um greiðslu, sbr. bréf lögmanns þeirra frá 24. júlí sl.
Um aðild stefndu að málinu taka stefnendur fram að stefnda íslenska ríkinu sé stefnt vegna skaðabótaábyrgðar þess á áðurlýstum mistökum sýslumannsins í Borgarnesi. Stefndu Guðmundi og Önnu sé stefnt til greiðslu skaðabóta vegna ábyrgðar þeirra á tjóni stefnenda. Þá sé þeim enn fremur stefnt sem sameigendum stefnenda til að þola ógildingu meintrar landskiptagerðar. Heimild til samlagsaðildar byggist á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Hvað varðar kröfu um málskostnað benda stefnendur sérstaklega á að þeir séu ekki virðisaukaskattsskyldir aðilar og beri þeim því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi gagnaðila sinna.
Um lagarök vísa stefnendur til landskiptalaga nr. 46/1941 til stuðnings kröfu sinni um ógildingu landskiptagerðar, sem og reglna stjórnsýsluréttarins, lögfestum og ólögfestum, meðal annars reglna um ógildingu stjórnvaldsákvarðana. Til stuðnings skaðabótakröfu sinni vísa stefnendur til meginreglunnar um fébótaábyrgð ríkissjóðs vegna skaðaverka í stjórnsýslu og meginreglna skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð utan samninga.
III.
A.
Til stuðnings kröfu sinni um sýknu vísa stefndu Guðmundur og Anna til þess að upphaflega hafi verið um að ræða þrjár jarðir, Grjóteyrartungu, Skógarkot og Grjóteyri, sem sameinaðar hafi verið og nefndar Grjóteyri. Nú séu á jörðinni þrjú býli. Tvö þeirra séu skráð hjá Fasteignamati ríkisins undir nafni Grjóteyrar en eitt undir nafni Grjóteyrartungu. Býlin séu að nokkru nýtt allt árið, en aðallega þó á sumrin.
Stefndu Guðmundur og Anna segja málatilbúnað stefnenda byggjast á misskilningi sem meðal annars liggi í því að þeir haldi að orðið býli merki bújörð. Samkvæmt íslenskri orðabók merki orðið hins vegar bústaður, (bónda) bær. Bústaður sé heimili, bólstaður. Samkvæmt þessu kveða stefndu skilyrði 1. gr. landskiptalaga uppfyllt í málinu.
Sameigendum jarðarinnar Grjóteyrar segja stefndu Guðmundur og Anna hafa verið ljóst, og þeir um það sammála, að ganga þyrfti frá skiptum jarðarinnar. Viðræður um skipti hafi staðið yfir í fjögur en án þess að niðurstaða fengist.
Stefndu Guðmundur og Anna segja aldrei annað hafa staðið til en að skipta jörðinni. Engin áform hafi því verið um að einhver eða einhverjir eigenda jarðarinnar leystu til sín eignarhluta annarra eigenda hennar. Því liggi fyrir að þegar lögmaður stefnenda bendi á þá einu leið til lausnar að krefjast nauðungarsölu til slita á sameign sé hann að kynna nýja leið, en ekki þá sem eigendur jarðarinnar hafi ávallt stefnt að. Úrræði þetta hafi því aldrei komið til álita.
Til að fá faglega niðurstöðu í ágreiningi aðila segja stefndu Guðmundur og Anna bestu leiðina til að skipta jörðinni hafa verið farna, enda hafi skilyrði þeirrar leiðar verið uppfyllt. Hvergi í málatilbúnaði stefnenda sé að finna óánægju þeirra með niðurstöðu landskiptanefndarinnar, einungis kostnaðinn af skiptunum. Staðreyndin sé enda sú að fagmennska hafi ráðið niðurstöðunni, við hana hafi engar athugasemdir verið gerðar, sem staðfesti að skiptin hafi verið réttlát.
Þá málsástæðu stefnenda að þeir hafi ekki notið aðstoðar lögmanns kveða stefndu Guðmundur og Anna vera út í hött. Vitað sé um aðstöðu aðila og vísa stefndu um það atriði meðal annars til framlagðra gagna fyrir landskiptanefnd. Enn fremur segja þau lítið gert úr þekkingu stefnanda Guðrúnar.
Skaðabótakröfu stefnenda segja stefndu Guðmundur og Anna haldlausa og krefjast ótrúlegs hugmyndaflugs. Stefnendur hafi gert sér fulla grein fyrir kostnaði við skiptin, ef til vill mun betur en stefndu, sbr. þau orð í greinargerð þeirra til landskiptanefndar að kostnaður vegna vinnu matsmanna greiddist samkvæmt landskiptalögum. Þau hafi síðan greitt sinn hluta kostnaðarins, án fyrirvara.
Samkvæmt öllu framangreindu telja stefndu ljóst að beiðni þeirra um skipti hafi verið réttmæt og nauðsynleg.
B.
Stefnda íslenska ríkið segir málshöfðum stefnenda því á hendur aðeins snúa að greiðslu skaðabóta ásamt vöxtum, auk málskostnaðar. Hvorki sé krafist ómerkingar eða ógildingar á ákveðinni stjórnsýsluákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi né öðrum gerningi handhafa ríkisvalds. Krafa stefnenda á hendur íslenska ríkinu hljóti þó að vera því háð að skipun landskiptanefndar og landskiptagerð nefndarinnar verði felld úr gildi og ómerkt. Kröfur á hendur stefnda séu samkvæmt þessu því ómarkvissar og ekki settar fram sem skyldi.
Stefnda íslenska ríkið kveður jörðina Grjóteyri vera í sameign aðila málsins. Á jörðinni séu húseignir sem ekki séu í sameign heldur sé eignarhald á þeim með öðrum hætti. Tilraunir til skipta á landinu hafi staðið lengi yfir, en án árangurs. Af þeim sökum hafi verið óskað landskipta samkvæmt landskiptalögum.
Vafalaust er að áliti stefnda íslenska ríkisins að ekki þurfi allir eigendur að standa að beiðni um landskipti. Í 1. gr. landskiptalaga komi fram að hver einstakur eigandi eða umráðamaður jarðar eða jarðarparts geti krafist skipta. Ekki standi það landskiptagerðinni því fyrir þrifum að allir eigendur hafi ekki eftir henni óskað.
Stefnda íslenska ríkið kveðst mótmæla þeirri fullyrðingu stefnenda að það sé fortakslaust og ófrávíkjanlegt skilyrði landskipta samkvæmt landskiptalögum að um sé að ræða tvær eða fleiri jarðir. Skilyrði það sé hvergi að finna í landskiptalögum heldur verði þvert á móti af lögunum ráðið að undir ákvæði þeirra geti vel fallið að skipta einni jörð í eigu fleiri manna, sbr. það sem segir um sameignarjörð í 2. mgr. 3. gr. laganna, en sameignarjörð geti ekki verið annað en jörð í sameign fleiri en eins eiganda. Þá tekur stefnda fram að orðið „býli“, sem fram komi í landskiptalögum, þýði ekki „jörð“ heldur bústaður eða bólstaður, eftir atvikum heimili. Stefnda segir það styðjast við lögskýringargögn og forsögu umræddra ákvæða að á einni jörð geti verið fleiri býli og að skipun umræddrar landskiptanefndar hafi því verið í fullu samræmi við lög. Á jörðinni Grjóteyri hátti einmitt þannig til að á henni séu fleiri býli en eitt. Áður fyrr hafi jörðin raunar verið þrjár bújarðir.
Landskiptalög geyma að áliti stefnda íslenska ríkisins sérreglur sem ganga framar almennum reglum um slit á sameign. Stefnda segir þá sem óski eftir að skipta löndum sínum ekki bundna við almennar reglur um slit á sameign. Ekki sé víst að eigendur vilji selja jörð þótt þeir vilji afmarka hlut hvers um sig, en sú hafi einmitt verið staðan hjá eigendum jarðarinnar Grjóteyrar. Stefnda kveður þá niðurstöðu ótæka að mönnum sem eigi land saman sé ekki önnur leið fær en sú að selja landið til að skipta með sér eign sinni, komi upp ágreiningur milli eigenda um hvernig skiptin skuli vera. Slíka túlkun landskiptalaga telur stefndi ekki eðlilega.
Á það er bent af hálfu stefnda íslenska ríkisins að stefnendur hafi tekið fullan þátt í meðferð málsins fyrir landskiptanefnd og þeir skilað inn til nefndarinnar öllum þeim sjónarmiðum og gögnum sem þeir vildu. Þá hafi stefnendum frá upphafi verið fullljós kostnaðurinn við landskiptin, svo sem glögglega megi sjá af greinargerð þeirra til landskiptanefndar, og að hann myndi falla á þá sjálfa. Kostnaðinn hafi stefnendur greitt athugasemdalaust og án fyrirvara um endurgreiðslu eða ómerkingu gerðarinnar. Við meðferð málsins hafi stefnendur hvorki gert athugasemdir í þá veru að annmarkar væru á málsmeðferðinni eða skipun nefndarinnar, né heldur um að störf nefndarinnar byggðust ekki á viðhlítandi lagagrundvelli. Segir stefnda hér engu skipta hvort aðilar að landskiptunum hafi notið aðstoðar lögmanna. Stefnda íslenska ríkið geti ekki borið ábyrgð á því í hvaða farveg stefnendur kusu að fara með mál sín. Þá bendir stefnda enn fremur á að svo virðist sem stefnendur hafi verið fullsáttir við málsmeðferðina allt þar til þeim hugnaðist ekki niðurstaða landskiptanefndar. Í því ljósi hefði réttara verið fyrir stefnendur að krefjast yfirmats á grundvelli landskiptalaga.
Stefnda íslenska ríkið segir ekki stoða fyrir stefnendur að bera fyrir sig vankunnáttu, eða að þeir hafi ekki notið lögmannsaðstoðar, enda hafi þeim verið í lófa lagið að leita sér slíkrar aðstoðar líkt og þeir hafi nú gert. Gangi menn til samninga eða takist á hendur ákveðnar skyldur leysi það þá ekki undan skyldum að hafa ekki þekkt efni réttarreglna. Löggerningar verði ekki ómark vegna vanþekkingar samningsaðila á lögum, eða vegna annars athugunarleysis. Kjósi menn að sinna málum sínum án lögmanns geri þeir það á eigin ábyrgð. Hins vegar verði ekki af greinargerðum stefnenda ráðið að málatilbúnaður þeirra hafi liðið fyrir lögmannsleysi.
Þá mótmælir stefnda íslenska ríkið því að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni í skilningi skaðabótaréttar. Stefnendur hafi vissulega greitt fyrir landskiptagerðina en þeir fengið hana í staðinn og greitt samkvæmt reikningi, sem þeir hafi ekki gert athugasemdir við. Stefnda segir það rangt að ekki hafi verið til staðar heimild til að krefjast greiðslu fyrir landskiptagerðina, sbr. 2. mgr. 6. gr. landskiptalaga. Óumdeilt sé að landskiptanefnd var skipuð á grundvelli landskiptalaga og að hún vann sitt verk. Óhjákvæmilegt hafi verið að fyrir það verk yrði greitt.
Enn fremur heldur stefnda íslenska ríkið því fram að ekki séu uppfyllt skilyrði skaðabótareglna um ólögmæti hinnar meintu bótaskyldu háttsemi. Í þeirri stjórnsýsluathöfn að skipa landskiptanefnd til að skipta jörðinni Grjóteyri hafi ekki falist réttarbrot eða annað sem gengið hafi gegn rétti nokkurs manns. Ekki sé um að ræða ólögmæta athöfn í skilningi skaðabótaréttar, jafnvel þó að eftirá yrði talið að stjórnsýsluathöfnin hefði ekki verið lögfræðilega kórrétt. Það að skipa landskiptanefnd sé lögmætur gerningur og mikill munur sé á því hvort athöfn sé annars vegar beinlínis andstæð lögum og hins vegar hvort hún sé hárrétt eða lögfræðilega umdeilanleg. Skipun nefndarinnar hafi stuðst við tiltekin lagaákvæði og verið framkvæmd á réttan hátt samkvæmt formreglum stjórnsýslulaga
IV.
A.
Ekki verður séð að stefnda íslenska ríkið geti haft lögvarða hagsmuni af ógildingu hinnar umdeildu landskiptagerðar. Af málatilbúnaði stefnenda má skýrlega ráða að kröfugerð þeirra á hendur stefnda íslenska ríkinu byggist á því að með skipun landskiptanefndar hafi sýslumaðurinn í Borgarnesi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leitt hafi til tjóns fyrir stefnendur. Samkvæmt þessu stóðu rök ekki til þess að gera þær kröfur á hendur íslenska ríkinu að því yrði með dómi gert að þola ógildingu landskiptagerðarinnar eða skipunar landskiptanefndar. Stefnendum var því rétt að haga kröfugerð sinni á hendur stefnda íslenska ríkinu svo sem þeir gerðu.
Samkvæmt 1. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 geta eftir lögunum komið til skipta eða endurskipta að nokkru eða öllu leyti heimalönd sveitajarða og afréttarlönd, sem jöfnum höndum eru notuð til vetrarbeitar, tún, sáðreitir, engi, landsnytjar aðrar og hlunnindi svo og mannvirki, sem tvö eða fleiri býli hafa eða hafa áður haft til samnota.
Skilja verður málatilbúnað stefnenda svo að ofangreint lagaskilyrði hafi ekki verið fyrir hendi svo skipta mætti landi jarðarinnar Grjóteyrar á grundvelli landskiptalaga.
Hugtakið „býli“ er ekki skilgreint í landskiptalögum nr. 46/1941. Skilgreiningu á hugtakinu var heldur ekki að finna í eldri landskiptalögum. Í frumvarpi til landskiptalaga nr. 43/1913 var hugtakið „jörð“ upphaflega notað í því samhengi sem hér um ræðir, en í meðförum þingsins var það fellt út og kom hugtakið „býli“ þess í stað. Verður „býli“ í 1. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 að þessu athuguðu því vart túlkað svo þröngt að með því sé átt við „jörð“, svo sem stefnendur hafa haldið fram í málinu.
Af athugasemdum við frumvarp til landskiptalaga árið 1913, athugasemdum við frumvarp til breytinga á lögunum árið 1927 og athugasemdum við frumvarp til núgildandi landskiptalaga, sem og öðrum lögskýringargögnum, er ljóst að við setningu landskiptalaga var, eðli málsins samkvæmt, horft til búskaparhátta á þeim tíma sem lögin voru sett. Ákvæði 1. gr. landskiptalaga hefur verið óbreytt frá árinu 1941 en alkunna er að á þeim áratugum sem síðan eru liðnir hefur landnýting til sveita tekið miklum breytingum. Löggjafinn hefur allt að einu ekki séð ástæðu til að breyta umræddu ákvæði laganna.
Óumdeilt er að á jörðinni Grjóteyri eru nú þrjú frístundahús. Að öllu framangreindu virtu er það álit dómsins að slík híbýli geti ekki talist „býli“ í skilningi landskiptalaga. Þá þykir ósannað gegn mótmælum stefnenda að jörðin Grjóteyri hafi á árum áður verið fleiri bújarðir, svo sem stefndu hafa haldið fram.
Samkvæmt öllu framangreindu er það álit dómsins að lagaskilyrði hafi ekki verið til að skipta landi jarðarinnar Grjóteyrar á grundvelli landskiptalaga. Verður því fallist á kröfu stefnenda um ógildingu skiptagerðarinnar.
B.
Samkvæmt framlagðri beiðni um landskipti vegna jarðarinnar Grjóteyrar, dags. 4. júní 2004, er stefndi Guðmundur einn skiptabeiðandi. Í bréfi sýslumannsins í Borgarnesi til eigenda jarðarinnar frá 2. júlí 2004 er til þess vísað að sýslumaður hafi samkvæmt beiðni Gústafs Þórs Tryggvasonar hrl., fyrir hönd stefnda Guðmundar, skipað þrjá nafngreinda einstaklinga til að skipta jörðinni. Þá kemur fram í hinni umdeildu landskiptagerð frá 19. maí 2005 að nefndur lögmaður hafi farið fram á landskiptin fyrir hönd stefnda Guðmundar með áður tilvitnuðu bréfi. Í samræmi við allt framangreint beindu stefnendur skaðabótakröfu sinni að stefnda Guðmundi og stefnda íslenska ríkinu með bréfi 24. júlí 2005.
Svo sem rakið er í kafla II. hér að framan reisa stefnendur skaðbótakröfu sína á hendur stefndu Guðmundi og Önnu á þeim grundvelli að þau hafi ranglega lagt fram beiðni um landskipti til sýslumannsins í Borgarnesi og með því átt beinan þátt í tjóni stefnenda. Málatilbúnaður þessi á hendur stefndu Önnu er ekki í samræmi við framlögð gögn líkt og að framan er rakið. Að því virtu þykir verða að vísa bótakröfu stefnenda á hendur henni frá dómi án kröfu vegna vanreifunar.
Grundvöllur skaðabótakröfu stefnenda á hendur stefnda Guðmundi er reifaður hér að framan. Málatilbúnaður stefnda Guðmundar hvað bótakröfuna varðar er ekki svo glöggur sem skyldi. Þó þykir verða að skilja hann svo að af stefnda hálfu sé því mótmælt að með því að setja fram beiðni um landskipti hafi hann sýnt af sér saknæma háttsemi í skilningi skaðabótaréttar.
Fallast þykir verða á það með stefnda Guðmundi að það eitt að setja fram beiðni um landskipti verði ekki metið honum til sakar í skilningi skaðabótaréttar og getur í því sambandi engu máli skipt hvort skilyrði til skipta voru fyrir hendi, eða hvort stefndi naut lögmannsaðstoðar við framsetningu beiðnar sinnar. Verður hann því ekki dæmdur til að greiða stefnendum skaðabætur á þeim grundvelli sem þeir hafa krafist í málinu.
Samkvæmt 4. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 skulu úttektarmenn vera matsmenn og gera skiptin hver í sínu umdæmi. Ef úttektarmaður er hindraður, við málið riðinn eða nákominn aðilum, kveður sýslumaður annan í hans stað. Sýslumaður skal og kveðja oddamann til skiptagerðar. Þá er í 7. gr. laganna sérákvæði um kvaðningu sérstakra fagmanna til skipta. Í málinu hefur ekki verið á því byggt af hálfu aðila að hin umdeilda skipun sýslumannsins í Borgarnesi á landskiptanefnd hafi farið í bága við tilvitnuð lagaákvæði landskiptalaga.
Í 2. mgr. 6. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 segir meðal annars að kostnað við skipti greiði sá, er þeirra beiðist, ef skiptatilraun verði árangurslaus sökum vanheimilda. Lagaregla þessi kom upphaflega inn í landskiptalög með samþykkt frumvarps til laga um breyting á landskiptalögum nr. 43/1913 árið 1927. Í greinargerð, sem umræddu lagafrumvarpi fylgdi, sagði meðal annars um ákvæðið: „Það getur auðveldlega komið fyrir, að skifta sje krafist og að það komi í ljós þegar matsmenn eru komnir á vettvang, að skiftatilraun verði árangurslaus, vegna þess að heimild til skifta felist ekki í lögunum.“
Af framangreindu er ljóst að við setningu landskiptalaga var sérstaklega ráð fyrir því gert að sú staða gæti komið upp, eftir að landskiptanefnd hefði tekið til starfa, að í ljós kæmi að lagaskilyrði væru ekki til hinna umbeðnu landskipta. Með vísan til þessa og þegar virt eru heildstætt ákvæði 1., 4. og 6. gr. landskiptalaga verður því ekki talið að á sýslumanninum í Borgarnesi hafi hvílt sú skylda, áður en hann skipaði landskiptanefnd að beiðni stefnda Guðmundar, að ganga úr skugga um að skilyrði til skipta á grundvelli landskiptalaga væru fyrir hendi í því tilfelli sem hér um ræðir. Samkvæmt því verður stefnda íslenska ríkið sýknað af skaðabótakröfu stefnenda.
C.
Samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að stefndu Guðmundur og Anna greiði stefnendum málskostnað sem hæfilega þykir ákveðinn svo sem í dómsorði greinir. Þá þykir rétt að málskostnaður falli niður milli stefnenda og stefnda íslenska ríkisins.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Landskiptagerð landskiptanefndar, dags. 19. maí 2005, fyrir jörðina Grjóteyri, Borgarfjarðarsveit, er ógilt.
Skaðabótakröfu stefnenda, Knúts Jeppesen og Guðrúnar Ólafíu Jónsdóttur, á hendur stefndu Önnu Guðmundsdóttur, að fjárhæð 765.961 króna, er vísað frá dómi án kröfu.
Stefndu Guðmundur B. Guðmundsson og íslenska ríkið skulu sýkn af skaðabótakröfu stefnenda að fjárhæð 765.961 króna.
Stefndu Guðmundur B. Guðmundsson og Anna Guðmundsdóttir greiði stefnendum óskipt 400.000 krónur í málskostnað.
Málskostnaður fellur niður milli stefnenda og stefnda íslenska ríkisins.