Hæstiréttur íslands
Mál nr. 395/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 23. ágúst 2010. |
|
Nr. 395/2010. |
Bláberg ehf. (Jóhann Pétursson hdl.) gegn Ingvari Helgasyni ehf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli B ehf. gegn I ehf. var vísað frá dómi án kröfu. B ehf. höfðaði málið til heimtu skuldar vegna sölu hans á bifreiðum í þágu I ehf. Talið var að hvorki lægi fyrir hvers efnis samningur B ehf. við I ehf. hefði verið um þóknun hins fyrrnefnda félags, né hvernig B ehf. ákvarðaði fjárhæðir einstakra reikninga um þóknun vegna sölu bifreiða, sem væru grundvöllur kröfu hans í málinu. Þá skýrði hann heldur ekki hvernig fjárhæðir annarra reikninga væru ákvarðaðar. Samkvæmt því væri málið vanreifað af hálfu B ehf. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Sóknaraðili höfðar mál þetta til heimtu skuldar, sem hann telur varnaraðila standa í við sig. Skuldin hafi stofnast vegna sölu hans á bifreiðum í þágu varnaraðila á árunum 1997 til 2004. Reisir sóknaraðili kröfu sína á viðskiptayfirliti og leggur fram tólf reikninga, sem tilgreindir eru á því. Á viðskiptayfirlitinu eru einnig tilgreindar innborganir, en engin fylgiskjöl eru lögð fram um þær. Þá eru á viðskiptayfirlitinu ýmsar færslur sem og leiðréttingar við þær og hafa færslurnar því ekki áhrif á niðurstöðu viðskiptayfirlitsins.
Með nokkrum þeirra reikninga, sem sóknaraðili reisir kröfur sínar um þóknun fyrir milligöngu hans um bifreiðaviðskipti í þágu varnaraðila á, fylgja yfirlit um seldar bifreiðar og ætlað söluverð þeirra. Sóknaraðili gerir þó enga grein fyrir því hvert samhengi sé milli yfirlitanna og fjárhæða sem þar eru tilgreindar og reikninga fyrir þóknun til hans um sölu á bifreiðum. Hann gerir heldur ekki grein fyrir efni þess samnings, sem hann kveður hafa verið milli sín og varnaraðila um viðskiptin. Ekki liggur því fyrir hvernig sóknaraðili ákvarðar fjárhæðir einstakra reikninga um þóknun vegna sölu bifreiða, sem eru grundvöllur kröfu hans í málinu. Hann skýrir heldur ekki hvernig fjárhæðir annarra reikninga eru ákvarðaðar.
Samkvæmt framansögðu er málið svo vanreifað af hálfu sóknaraðila að hinn kærði úrskurður verður staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Bláberg ehf., greiði varnaraðila, Ingvari Helgasyni ehf., kærumálskostnað, 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2010.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 7. ágúst 2009. Það var tekið til dóms 10. maí sl.
Stefnandi er Bláberg ehf., Illugagötu 43, Vestmannaeyjum.
Stefndi er Ingvar Helgason ehf., Sævarhöfða 2, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 2.418.117 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 31. desember 2003 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati réttarins eða málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.
Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda í báðum tilvikum, að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Málsatvik
Málsatvik eru umdeild, en þó liggur fyrir að stefnandi annaðist sölu bifreiða fyrir stefnda í Vestmannaeyjum og kveður stefnandi það hafa verið á árunum 1997-2004. Óumdeilt er að enginn skriflegur samningur var gerður milli aðila um viðskipti þessi.
Stefnandi kveðst ítrekað hafa reynt að fá greiðslu kröfu sinnar vegna umboðssölu þessarar og m.a. sent tölvubréf til stefnda þar að lútandi, en það ekki gengið. Stefndi skorar hins vegar á stefnanda að sýna fram á að hann eigi inni ógreidda reikninga hjá stefnda, og að stefndi hafi samþykkt viðskiptin, að stefnandi hafi innt þá vinnu af hendi sem hann heldur fram og að viðskiptin hafi verið fyrir milligöngu stefnanda.
Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda vegna þeirra viðskipta er mál þetta er sprottið af, en því máli var vísað frá með úrskurði dómsins 24. febrúar 2009.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður aðila hafa átt í föstu viðskiptasambandi um 7-8 ára skeið. Stefnandi hafi gefið út reikninga á hendur stefnda, en greiðslur frá stefnda hafi borist lítt eða ekki. Staðan á milli stefnanda og stefnda hafi verið sú sem greinir í viðskiptayfirliti sem lagt hafi verið fram, en slík viðskiptayfirlit hafi verið send stefnda reglulega meðan á viðskiptum aðila hafi staðið, eins og venja standi til milli aðila í föstu viðskiptasambandi.
Í viðskiptayfirlitinu komi fram útgefnir reikningar stefnanda og greiðslur stefnda. Mismunur þeirra fjárhæða myndi stefnufjárhæð. Þá komi fram í viðskiptayfirliti þessu fjárhæðir vegna bifreiðaviðskipta, en þær færslur tengist ekki stöðu kröfu milli aðila, en komi fram í viðskiptayfirliti, þar sem þær færslur hafi verið færðar með þeim hætti, samkvæmt bókhaldi stefnanda.
Málið snúist því um stöðu viðskiptayfirlits stefnanda á hendur stefnda þar sem fram komi upplýsingar um útgefna reikninga stefnanda og greiðslur stefnda vegna þeirra reikninga. Mismunur þessara fjárhæða nemi stefnufjárhæð.
Vegna þess máls sem vísað hafi verið frá dómi, vilji stefnandi taka fram að viðskipti stefnanda vegna Bílheima ehf. hafi verið tekin út úr málinu enda hafi krafa stefnanda á hendur stefnda stofnast fyrst og fremst vegna viðskipta við stefnda í máli þessu, en ekki við Bílheima ehf. Bílheimar ehf. og stefndi hafi verið sameinuð undir nafni stefnda.
Stefnandi byggir málsókn sína á almennum reglum kröfu- og samningaréttar og meginreglu um skuldbindingargildi samninga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveður að stefnandi hafi selt nýja og notaða bíla fyrir stefnda í Vestmannaeyjum á árunum 1998-2002. Stefnandi hafi fengið greidda þóknun fyrir hvern seldan bíl gegn framvísun reiknings og söluskýrslu vegna hverrar sölu. Stefndi kveðst ekki kannast við að skulda stefnanda neitt vegna framangreindra viðskipta og skorar á stefnanda að sýna fram á það með sannanlegum hætti að hann eigi ógreidda reikninga hjá stefnda, að stefndi hafi samþykkt viðskiptin, að stefnandi hafi innt af hendi þá vinnu sem haldið er fram og að viðskiptin hafi verið fyrir milligöngu stefnanda, sem og að stefnandi hafi óskað eftir þeirri þjónustu sem stefnandi telji sig eiga að fá greitt fyrir.
Stefndi bendir á að dómskjal sem stefnandi hefur lagt fram og er merkt sem nr. 3, sé ekki í neinu samræmi við viðskiptastöðu stefnanda hjá stefnda og að samkvæmt því dómskjali séu ákveðnir reikningar greiddir.
Þá kveður hann annað dómskjal, sem merkt er nr. 8, ekki vera vegna sölu á bílum. Þá mótmælir hann því að stefndi hafi selt þá bíla fyrir sig sem fram komi á reikningi að fjárhæð 1.039.136 krónur, sem er vegna meintrar sölu á bílum á árunum 2000 til 2003.
Stefndi byggi á því að allar kröfur sem stefnandi kunni að hafa átt á hendur sér séu fallnar niður fyrir tómlæti og fyrningu.
Þá er því mótmælt að aðilar málsins hafi átt í föstu viðskiptasambandi og því að stefndi hafi fengið árlegan viðskiptareikning.
Verði litið svo á að stefndi skuldi stefnanda eitthvað vegna þeirra reikninga sem stefnt er fyrir, krefst stefndi skuldajafnaðar á móti þeim kröfum sem hann telur sig eiga á hendur stefnanda.
Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfum stefnanda. Hafi þær verið fyrir hendi, er því haldið fram að þær séu fallnar niður fyrir tómlæti og fyrningu og að auki hafi kröfunum ekki verið haldið að stefnda fyrr en með málsókn þessari.
Kröfugerð, atvikalýsingum, málsástæðum og lagarökum stefnanda er mótmælt með skírskotun til þess sem að ofan greinir.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi jafnframt til meginreglna íslensks kröfufréttar og ákvæða laga um meðferð einkamála. Þá vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og til ákvæða laga um fyrningu nr. 14/1905.
Niðurstaða
Mál þetta er höfðað á hendur Ingvari Helgasyni ehf. til heimtu skuldar að fjárhæð 2.418.117 krónur. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var vísað frá dómi máli stefnanda á hendur stefnda, þar sem stefnufjárhæð nam 2.363.863 krónum, vegna sömu viðskipta og mál þetta er sprottið af.
Í stefnu segir að aðilar hafi verið í föstu viðskiptasambandi og hafi stefnandi verið umboðsaðili fyrir stefnda við sölu bifreiða. Þá segir í stefnu að í framlögðu viðskiptayfirliti komi fram útgefnir reikningar stefnanda og greiðslur stefnda. Mismunur þeirra fjárhæða myndi stefnufjárhæð. Jafnframt segir í stefnu að í viðskiptayfirliti komi fram ,,fjárhæðir vegna bifreiðaviðskipta, en þær færslur tengjast ekki stöðu kröfu milli stefnanda og stefnda, en koma fram í viðskiptayfirliti þar sem þær voru færðar með þeim hætti skv. bókhaldi stefnanda“.
Stefndi hefur mótmælt viðskiptayfirliti þessu og kveður það ekki í neinu samræmi við viðskiptastöðu stefnanda hjá stefnda. Þá kveður stefndi reikning að fjárhæð 1.039.136 krónur, sem er vegna meintrar sölu á bifreiðum á árunum 2000-2003, ekki réttan og mótmælir því að stefnandi hafi selt þessar bifreiðir fyrir sig.
Stefnandi hefur lagt fram ljósrit ellefu reikninga, sem stefnandi gaf út á árunum 1997-2003. Samkvæmt viðskiptayfirliti sem stefnandi lagði fram eru í það minnsta tveir þessara reikninga greiddir. Þá koma fram á viðskiptayfirliti þessu færslur sem virðast máli þessu óviðkomandi, þótt örðugt sé að átta sig á því hvort svo sé. Þar á meðal eru færslur sem bera yfirskriftina Sjóvá v/Ósvaldur, Gr. upp lán v/Ósvald, Páll Ágústss v/Almer, Jóhann P v/Almera. Færslur þessar eru síðar á yfirlitinu leiðréttar, og kvittaðar út. Þá eru á viðskiptayfirlitinu tvær færslur, sem ekki verður með neinu móti séð hvernig tengjast viðskiptum aðila, annars vegar færsla að fjárhæð 9.118 krónur og hins vegar færsla að fjárhæð 14.434 krónur. Þessar fjárhæðir eru hluti stefnufjárhæðar, án þess að séð verði hvernig þær tengjast viðskiptum aðila.
Stefna í máli þessu er því sama marki brennd og stefna í máli því sem vísað var frá dómi, með úrskurði dómsins frá 24. febrúar 2009, að kröfufjárhæð er ekki sundurliðuð, ekki tilgreindir þeir reikningar sem liggja henni að baki og ekki gerð grein fyrir innborgunum inn á kröfuna. Ekki er heldur unnt að staðreyna innborganir samkvæmt viðskiptayfirliti, þar sem ekki hafa verið lögð fram nein gögn varðandi þær.
Stefnandi grundvallar kröfu sína á viðskiptayfirliti því sem að framan greinir og er að mörgu leyti svo óljóst að erfitt er að átta sig á hvaða færslur verða raktar til viðskipta stefnanda og stefnda og hvaða færslur eru þeim óviðkomandi. Þessi grundvöllur kröfu stefnanda, sem og málatilbúnaður hans að öðru leyti, er svo vanreifaður og óljós að ekki verður lagður dómur á kröfu hans, sbr. d- og e-liður 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu sjálfkrafa frá dómi.
Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað að fjárhæð 100.000 krónur.
Ingveldur Einarsdóttir kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá dómi.
Stefnandi, Bláberg ehf., greiði stefnda, Ingvari Helgasyni ehf., 100.000 krónur í málskostnað.