Hæstiréttur íslands

Mál nr. 398/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsvist


Miðvikudaginn 28

 

Miðvikudaginn 28. ágúst 2002.

Nr. 398/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

 

(Egill Stephensen saksóknari)

 

gegn

 

X

 

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsvist.               

Hæstiéttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að aflétt yrði takmörkunum á aðgangi X að fjölmiðlum á meðan gæsluvarðhaldsvist hans stæði, sbr. e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að aflétt yrði takmörkunum á aðgangi hans að fjölmiðlum á meðan gæsluvarðhaldsvist stæði. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði áfram gert að sæta takmörkunum á aðgangi að fjölmiðlum, sbr. e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2002.

Hilmar Ingimundarson hrl. hefur krafist þess fyrir hönd gæsluvarðhalds­fangans X aflétt verði fjölmiðlabanni sem hann sætir í gæsluvarðhaldi.  X hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 4. ágúst sl. og hefur lögreglustjórinn í Reykjavík, sem fer með rannsókn málsins, takmarkað rétt fangans samkvæmt b-, c-, d- og e-liðum 1. mgr. 108. gr. laga um meðferð opinberra mála á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Krafan er rökstudd á þann veg að með bréfi dags. 19. ágúst 2002 til lögreglunnar í Reykjavík hafi þess verið farið á leit að svokölluðu fjölmiðlabanni skv. e-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 yrði aflétt.  Þessu hafi verið hafnað af hálfu lögreglunnar samkvæmt bréfi dags. 22. ágúst 2002 og aðeins sagt að embættið telji sér ekki fært að aflétta fjölmiðlabanninu að svo komnu.  Ekki sé gerð grein fyrir þessu frekar. Í e-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 komi fram sú grundvallarregla að gæslufangar megi lesa dagblöð og bækur svo og fylgjast með útvarpi. Þó geti sá sem rannsókn stýri takmarkað aðgang að fjölmiðlum ef nauðsyn beri til í þágu rannsóknar.  Í þessu felist að rannsóknari verði að sýna fram á með ótvíræðum hætti þessa nauðsyn að halda gæsluföngum frá allri fjölmiðlun. Nú hafi kærði setið í gæsluvarðhaldi í algjörri einangrun í tæpar þrjár vikur.  Þetta hafi tekið verulega á hann bæði andlega og líkamlega. Það myndi því létta einangrunarvistina verulega af fjölmiðlabanninu yrði aflétt. Því sé sú krafa sett fram af hans hálfu að felld verði úr gildi synjun lögreglustjórans í Reykjavík á að aflétta fjölmiðlabanninu eins og farið hafi verið fram á.

Af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík er þess krafist að kröfu verjandans verði hafnað. Bent er á að kærði sé í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa ásamt tveimur öðrum ráðist á mann og séu sakargiftir mjög alvarlegar. Óheppilegt sé að hann geti fengið fréttir af málinu og geti það ógnað stöðu rannsóknar málsins en lögreglan hafi ekki stjórn á öllum fréttaflutningi.

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skulu gæsluvarðhaldsfangar sæta þeirri meðferð sem nauðsynleg er til þess að gæslan kom að gagni og góð regla haldist í gæslunni. Varast skal að beita þá hörku eða harðýðgi. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi í um þrjár vikur vegna gruns um alvarlegra líkamsárás framda í félagi við tvo aðra sem einnig sæta gæsluvarðhaldi. Upplýst hefur verið að síðast var tekin af honum lögregluskýrsla 9. ágúst sl.

Þegar kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 4. ágúst sl., með vísan til a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, var tilhögun gæsluvarðhalds ákveðin með takmörkunum samkvæmt b-, c-, d- og e-liðum 108. gr. laga nr. 19/1991 og er svo enn. Samkvæmt e-lið 108. gr. mega gæslufangar lesa dagblöð og bækur, svo og fylgjast með útvarpi. Þó getur sá sem rannsókn stýrir takmarkað aðgang gæslufanga að fjölmiðlum ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknar.

Fallast má á með verjanda að takmörkun á aðgangi kærða að fjölmiðlum sé honum verulega íþyngjandi við þessar aðstæður. Verður því að gera þá kröfu að sérstaklega sé rökstudd nauðsyn þess að beita slíkri takmörkun á frelsi í þágu rannsóknar málsins.  Þetta á sérstaklega við þegar gæsluvarðhaldsvist hefur staðið svo lengi sem raun ber vitni.  Að mati dómara hefur þetta ekki verið gert heldur er af hálfu lögreglu aðeins á það bent að óheppilegt sé að kærði geti fengið fréttir af málinu eins og staða rannsóknar sé. Fellst dómari ekki á að sýnt hafi verið fram á af hálfu lögreglu að nauðsyn beri til að takmarka aðgang kærða að fjölmiðlum. Er því krafa kærða um að aflétt verði takmörkunum á aðgangi hans að fjölmiðlum, samkvæmt e-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991, tekin til greina.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Krafa gæsluvarðhaldsfangans, X, um að aflétt verði takmörkunum á aðgangi hans að fjölmiðlum, samkvæmt e-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991, er tekin til greina.