Hæstiréttur íslands

Mál nr. 481/2004


Lykilorð

  • Óvígð sambúð
  • Kröfugerð
  • Dráttarvextir


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. september 2005.

Nr. 481/2004.

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Óvígð sambúð. Kröfugerð. Dráttarvextir.

M höfðaði mál á hendur K í kjölfar slita á sambúð þeirra til heimtu skuldar. Var deilt um kröfur M vegna endurbóta á íbúð og vegna greiðslna hans á afborgunum lána sem K tók á sambúðartímanum til að fjármagna kaup íbúðarinnar. Fallist var á með M að hann hefði lagt fram fé til endurbóta á íbúðinni og innt af hendi afborganir af lánum, sem tekin voru til kaupa á henni, á þeirri forsendu, að aðilar væru í óvígðri sambúð og hann væri að leggja fé af mörkum til eignamyndunar í þágu beggja málsaðila. Þá þótti ekki varhugavert að telja sannað að íbúðin hefði aukist að verðgildi um að minnsta kosti jafnvirði þeirra fjárhæða sem M lagði fram í þessu skyni. Var K því gert að greiða M 1.067.101 krónu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 19. október 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins þann 1. desember það ár og var málinu áfrýjað að nýju 3. desember 2004 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Krefst hann þess að stefnda verði dæmd til að greiða sér 2.300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. maí 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda greiddi skuld sína samkvæmt dómsorði héraðsdóms að honum gengnum, 335.000 krónur auk vaxta. Áfrýjandi hefur í dómkröfu sinni fyrir Hæstarétti tekið tillit til þessarar greiðslu og lækkað kröfuna sem henni nemur.

Eftir stendur í málinu ágreiningur aðila um fjárkröfur áfrýjanda vegna endurbóta á fasteigninni að B [...] og vegna greiðslna hans á afborgunum lána sem stefnda tók á sambúðartímanum til að fjármagna kaup íbúðarinnar.

Í héraðsdómsstefnu vísaði áfrýjandi um kröfur sínar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga og „ólögfestra en viðurkenndra reglna um að sameign stofnist hjá sambúðarfólki með verulegu fjárframlagi þess sem ekki er skráður fyrir eign til eignamyndunar.“ Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að stefnda hafi skuldbundið sig til að endurgreiða honum umkrafðar fjárhæðir. Stefnda bendir á að áfrýjandi hafi ekki gert kröfu um hlutdeild í eignamyndun sinni og heldur ekki um viðurkenningu á sameignarrétti í umræddri íbúð. Telur hún að ekki fái staðist að reisa kröfu um endurgreiðslu á ætluðum framlögum af fyrrgreindum sökum við reglur um að sameign geti myndast í sambúð að vissum skilyrðum uppfylltum.

Skilja verður málatilbúnað áfrýjanda þannig að hann telji sig með þátttöku sinni í endurbótum íbúðarinnar að B og greiðslu afborgana af lánum vegna hennar, hafa öðlast eignarrétt í íbúðinni, sem að verðmæti nemi þeim fjárhæðum sem hann hafi innt af hendi í þessu skyni. Gildi þetta hvað sem líði sönnun þess, að stefnda hafi viðurkennt myndun slíks eignarréttar eða skyldu sína til endurgreiðslu fjárhæðanna. Hann geti þá jafnframt krafið stefndu, sem var þinglesinn eigandi íbúðarinnar, um endurgreiðslu þessara fjárhæða, en fyrir liggur að stefnda hefur selt umrædda íbúð án atbeina frá áfrýjanda.

Fallast verður á að áfrýjandi geti gert kröfur á þessum grundvelli. Til þess að þær verði teknar til greina þarf þó að liggja fyrir, að verðmæti íbúðarinnar hafi að minnsta kosti vaxið við þessi framlög um fjárhæð sem þeim nemi.

Annmarkar hafa verið á kröfugerð áfrýjanda og málatilbúnaði hans frá upphafi málsins. Þannig er ekki samræmi milli fjárhæða sem hann kveðst hafa lagt til endurbóta á íbúðinni og samtölu kröfu hans af þessum sökum, án þess að skýringar hafi verið gefnar á þessu. Í málinu nýtur lítt gagna um þennan þátt kröfugerðar hans. Þá kvaðst áfrýjandi í stefnu hafa greitt „um það bil“ 1.000.000 krónur í afborganir lána og gerði kröfu um þá fjárhæð, án þess að hún væri byggð á samlagningu tiltekinna afborgana, sem hann hefði greitt. Í upphafi skorti af hans hálfu mjög á sönnunarfærslu fyrir staðhæfingum um þessar greiðslur. Við rekstur málsins lagði hann hins vegar fram aragrúa af skjölum sem ætlað var að bæta úr þessu. Raunar voru þeirra á meðal einnig allmörg önnur gögn um fjármál aðila, sem enga þýðingu hafa fyrir dómkröfur áfrýjanda. Gögnum þessum fylgdi hins vegar ekki samantekt á heildarfjárhæð þeirra afborgana lána, sem hann taldi felast í kröfu sinni. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var af hálfu áfrýjanda lagt fram yfirlitsblað, þar sem meðal annars voru talin þau gögn málsins sem sýni þessar afborganir. Ekki voru fjárhæðir þeirra þó lagðar saman heldur aðeins upplýst, að þær næmu 770 til 800 þúsund krónum.

Þrátt fyrir þessa annmarka á málatilbúnaði áfrýjanda verður talið unnt að leggja dóm á kröfur hans, þó að hann verði að bera hallann af skorti á sönnunarfærslu um fjárhæð þeirra. Meðal gagna málsins er bréf 30. desember 2002, sem lögmaður stefndu sendi lögmanni áfrýjanda á grundvelli skriflegs umboðs frá stefndu. Í bréfinu kemur meðal annars fram, að stefnda segi það „einnig rétt að hann (þ.e. áfrýjandi) hafi unnið við endurbætur á íbúðinni með sér og greitt um það bil 450.000 kr.“ Telja verður að stefnda sé bundin við þessa viðurkenningu á fjárhagslegri þátttöku áfrýjanda í endurbótum íbúðarinnar og telst því sannað að hún hafi að minnsta kosti numið þessari fjárhæð.

Við athugun á gögnum sem áfrýjandi vísar til um sönnun þess að hann hafi á sambúðartímanum greitt afborganir af húsnæðislánum vegna íbúðarinnar, er í ljós leitt að hann hafi greitt 617.101 krónu í afborganir, verðbætur, vexti og kostnað.

Fallist verður á það með áfrýjanda að hann hafi lagt fram fé til endurbóta á íbúðinni og innt af hendi afborganir af lánum, sem tekin voru til kaupa á henni, á þeirri forsendu, að aðilar væru í óvígðri sambúð og hann væri að leggja fé af mörkum til eignamyndunar í þágu beggja málsaðila. Jafnframt þykir, meðal annars miðað við upplýsingar um söluverð íbúðarinnar í október 2002, ekki varhugavert að telja sannað, að íbúðin hafi aukist að verðgildi um að minnsta kosti jafnvirði þeirra fjárhæða sem áfrýjandi lagði fram í þessu skyni. Verður stefnda því dæmd til að greiða áfrýjanda fyrrgreindar fjárhæðir, samtals 1.067.101 krónu, með dráttarvöxtum sem í dómsorði greinir frá þeim degi er málið var höfðað, en ekki verður séð að áfrýjandi hafi gert ákveðna greiðslukröfu á hendur stefndu fyrr en þá.

Stefnda verður dæmd til að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefnda, K, greiði áfrýjanda, M 1.067.101 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júní 2003 til greiðsludags.

Stefnda greiði áfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2004.

         Mál þetta var höfðað 11. júní 2003 og var dómtekið 29. apríl sl.    

         Stefnandi er M.

         Stefndi er K.

 

Dómkröfur

         Þess er krafist að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 2.635.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 3. maí 2002 til greiðsludags.

         Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.  Auk þess er krafist greiðslu er jafngildi virðisaukaskattsgreiðslu stefnanda af málflutningsþóknuninni.

         Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.  Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar til muna að mati dómsins.

         Jafnframt krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti.

 

Málavextir

         Stefnandi og stefnda kynntust sumarið 1996, en þá voru þau bæði við störf hjá [...] sem flugþjónar.  Haustið 1996 hófu þau búskap í íbúð móður stefndu í E þar sem dóttir þeirra X fæddist þann [...] 1998.  Fyrri hluta árs 1999 fluttu þau í íbúð sem stefnda festi kaup á í húsinu nr. [...] við B.  Bjó fjölskyldan þar, þar til um haustið 2001 er stefnandi flutti út vegna erfiðleika í sambúðinni.  Þann 7. maí 2002 gengu stefnandi og stefnda síðan frá samkomulagi um sameiginlega forsjá dótturinnar.

         Stefnandi heldur því fram að við slit sambúðar hafi stefnda staðið í skuld við sig og hefur því höfðað mál þetta til innheimtu þeirrar skuldar sem hann telur nema stefnufjárhæð.

         Samkvæmt kaupsamningi, dags. 23. mars 1999, var stefnda kaupandi íbúðarinnar að B.  Óumdeilt er að til kaupanna hafi stefnda varið meginhluta slysa- og örorkubóta sem hún fékk greiddar á árinu 1994 til greiðslu útborgunar.  Einnig er óumdeilt að stefnandi hafi greitt síðustu afborgun íbúðarinnar sem nam samkvæmt kaupsamningi 344.436 krónum, en stefnandi heldur fram að hann hafi greitt 335.000 krónur.

         Stefnandi heldur því fram að alltaf hafi staðið til að hann kæmi með greiðslur á móti upphaflegu framlagi stefndu og yrði jafnframt skráður fyrir íbúðinni.  Kveðst hann í því skyni hafa greitt síðustu afborgunina af íbúðinni, sem hann telur hafa numið 335.000 krónum.  Þá hafi hann lagt verulega vinnu í að gera upp íbúðina en sú vinna hafi aukið verðgildi fasteignarinnar verulega.  Stefnandi hafi lagt fram a.m.k. 1.100.000 krónur í viðbót við þær 335.000 krónur sem getið sé að framan, þ.e. stefnandi hafi greitt fyrir nýtt rafmagn ca 350.000 krónur, í nýtt eldhús 175.000 krónur, í endurnýjun á gangi og forstofu 200.000 krónur. Stefnandi hafi jafnframt keypt málningu og efni til málunar allrar íbúðarinnar að verðmæti um það bil 400.000 krónur og hafi hann einn unnið við að gera hana upp og halda henni við.

         Stefnandi kveðst hafa borgað afborganir vegna lána sem hvíldu á íbúðinni frá árinu 1999 fram til þess tíma þegar hann og stefnda slitu sambandinu eða u.þ.b. 1.000.000 króna.  Stefnandi telur að með þessu hafi stefnda hagnast með beinum hætti, vegna kaupa stefnda á efni til viðhalds og endurnýjunar íbúðarinnar, vinnu stefnanda og manna sem hann hafi greitt kaup, kaupsamningsgreiðslna og afborgana af íbúðinni á sambúðar­tímanum, um að minnsta kosti 3.000.000 króna.

         Stefnda heldur því fram að meðan á sambúðinni stóð hafi málsaðilar verið meira eins og tveir aðskildir einstaklingar en venjulegt par.  Þau hafi kynnst þegar þau voru að vinna sömu vinnu og hafi haldið því áfram sitt í hvoru lagi þar til stefnda hafi byrjað í námi.  Þau hafi haft að mestu leyti aðskilinn fjárhag og bæði séð um eigin fjárhagslegu þarfir.  Fyrstu árin þeirra í E hafi stefnda alfarið séð um greiðslur á rafmagni, hita og símakostnaði, en eftir að fjölskyldan flutti í B hafi stefnandi farið að taka þátt í greiðslu sameiginlegs reksturskostnaðar.  Stefnda kveðst ávallt hafa verið aflandi, ýmist með vinnu sinni eða námslánum utan veturinn 2000-2001.

         Stefnda kveður stefnanda hafa flutt út af heimilinu um haustið 2001.  Hann hafi þó ekki hirt um að flytja lögheimili sitt fyrr en tæplega ári síðar þrátt fyrir ítrekaða beiðni hennar, með þeim afleiðingum að námslánin hennar hafi skerst árið sem í hönd fór.  Hún hafi því neyðst til að taka dýr lán til þess að framfleyta fjölskyldunni.

         Stefnda kveður aldrei hafa komið til tals milli málsaðila að stefnandi yrði skráður fyrir eigninni að B, enda hefðu bæði litið svo á að stefnda væri ein kaupandi eignarinnar.  Til marks um það hafi fasteignasalinn fyrir misskilning ritað nafn stefnanda á kaupsamninginn, en hann hafi verið mættur til undirritunar í umboði stefndu sem hafi verið stödd í útlöndum.  Þetta hafi strax verið leiðrétt.  Þegar kom að síðustu afborgun kaupsamnings í desember 1999 kveður stefnda málsaðila hafa verið sammála um að stefnandi legði út fyrir greiðslunni, um 300.000 krónur, enda hafi stefnda áður varið eftirstöðvum tryggingafjárins til ýmissa hluta sem þau hafi bæði notið góðs af, svo sem til kaupa á dýrum rafmagnstækjum í eldhúsið o.fl.   Stefnda kveður aldrei hafa komið til tals að um lán væri að ræða, eða að ætlast væri til þess að hún endurgreiddi stefnanda fjárhæðina.  Sjálf hafi hún litið svo á að þetta væri hans framlag til sameiginlegs reksturs enda hafi hún fram til þess tíma talið sig hafa lagt meiri fjármuni til heimilisins, m.a. með tryggingarfjárhæðinni. 

         Stefnda kveður þau hafa verið samtaka um að laga og standsetja íbúðina að þeirra smekk.  Þau hafi látið draga inn nýjar rafmagnsleiðslur, málað og skipt um dúk á innra gangi.  Hinar raunverulegu endurbætur á baði hafi hún sjálf látið framkvæma skömmu áður en eignin var seld og hafi hún fjármagnað þær með tveimur lánum frá Lífeyrissjóði verslunarmanna.

         Þegar að því kom að stefnda hugðist selja íbúðina að B, eftir sambúðar­slitin, hafi stefnandi gert kröfu í söluandvirði hennar.  Stefndu hafi verið umhugað um að ljúka málinu með sátt og því gert stefnanda tilboð sem hafi miðað við fjárhæðina sem stefndi hafði lagt út við kaupin, 300.000 krónur, auk 450.000 króna til endurbóta á eigninni.  Tilboð þetta hafi verið gert án nokkurrar viðurkenningar á rétti stefnanda til íbúðarinnar.  Stefnandi hafi hafnað tilboði þessu og höfðað mál þetta.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

          Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefnda skuldi sér umstefnda fjárhæð og beri henni að greiða hana. 

         Á árinu 2000 hafi stefnandi fengið rúmlega 5.300.000 króna frá ættingjum í formi skuldabréfa.  Að minnsta kosti 2.500.000 krónur af þessu hafi farið í rekstur á sameiginlegu heimili stefnanda og stefnda.  Auk þess sem að framan sé greint hafi stefnandi nær einn staðið straum af rekstri heimilisins þann tíma sem stefnandi og stefnda voru í sambúð.  Stefnandi hafi unnið allan sambúðartímann sem flugþjónn, eða u.þ.b. 42 af 48 mánuðum, en stefnda hafi unnið sem flugfreyja í u.þ.b. 8 mánuði af sambúðartímanum.  Stefnda hafi nær allan sambúðartímann haft greiðslukort sem stefnandi hafi greitt.

         Stefnandi hafi greitt fyrir síma, hita og rafmagn, rekstur tveggja bifreiða, skólagjöld stefndu og bækur í a.m.k. 4 annir af 6.

         Allar ofangreindar greiðslur hafi verið inntar af hendi á þeirri forsendu að um áfram­haldandi samband yrði að ræða á milli stefnanda og stefndu, enda hafi fyrirvaralaus sambúðarslit komið stefnanda algjörlega á óvart.

         Ofan á allt það sem upp sé talið hafi stefnandi látið stefndu fá ca 300.000 krónur til uppihalds eftir að þau slitu samvistum.

         Stefnandi og stefnda hafi á sambúðartímanum haft sameiginlegan fjárhag, enda hafi stefnandi, nánast að öllu leyti, staðið að framfærslu fjölskyldunnar og afborgunum og viðhaldi fasteignarinnar.

         Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuld­bindinga og ólögfestra en viðurkenndra reglna um að sameign stofnist hjá sambúðarfólki með verulegu fjárframlagi þess sem ekki sé skráður fyrir eign til eignamyndunar.

         Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1997 og III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.

         Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 129. gr. sömu laga.

 

Málsástæður stefndu og lagarök

         Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að aldrei hafi myndast með stefnanda og stefndu sameignarfyrirkomulag sem hafi skapað stefnanda eignarrétt að íbúðinni í B [...].  Þau hafi verið í sambúð og séu því eins sett og tveir einstaklingar og því verði ágreiningur um fjármál þeirra leyst samkvæmt grundvallarreglum fjármunaréttarins.  Milli þeirra hafi ekki verið gagnkvæm framfærsluskylda og reglan um sameiginlega ábyrgð hjóna á útgjöldum vegna heimilisþarfa og þarfa barna gildi ekki um sambúðarfólk.  Í sambúð málsaðila hafi þau ávallt litið á sig sem fjárhagslega sjálfstæða einstaklinga með óverulega fjárhagslega samstöðu enda hafi þau aldrei talið fram saman til skatts.

         Í öðru lagi byggir stefnda sýknukröfu sína á því að íbúðin hafi nær eingöngu verið fjármögnuð fyrir fé stefndu.  Hún mótmælir sem rangri þeirri fullyrðingu stefnanda að málsaðilar hafi í sameiningu fest kaup á íbúðinni.  Hið rétta sé að stefnda hafi varið slysa- og örorkubótum, sem hún hafi fengið greiddar mörgum árum áður, til kaupa á íbúðinni að B [...].  Þessa fjárhæð hafi hún varðveitt til íbúðarkaupa.  Aldrei hafi komið til tals að stefnandi yrði skráður eigandi, hvorki þá né síðar.  Það séu því hrein ósannindi sem fram komi í stefnu að alltaf hafi staðið til að stefnandi kæmi með greiðslur á móti þessu framlagi stefndu, enda hafi ekkert slíkt hvarflað að honum þegar honum hafi áskotnast vegleg fjárhæð frá ættingjum sínum.  Stefnda hafi ein sótt um lán til íbúðarkaupanna og hafi ein borið ábyrgð á greiðslu þess, hún hafi ein talið eignina fram til skatts og hafi ein verið þinglýstur eigandi fasteignarinnar.

         Stefnda heldur því fram að greiðsla stefnanda á 300.000 krónum hafi ekki orðið grundvöllur eignaréttar án þess að þau hafi bæði stuðlað að því.  Því síður hafi þátttaka hans í standsetningu eignarinnar, í þá veru sem þau hafi getað sætt sig við, skapað honum sjálfkrafa eignarétt að fasteigninni.

         Stefnda mótmælir því alfarið að þau hafi litið svo á að með greiðslu einhverra afborgana hafi stefnandi verið að vinna sig inn í eignarhald á fasteigninni.  Þvert á móti hafi stefnda jafnan greitt afborganir af húsnæðislánum sínum, en þó hafi komið fyrir að stefnandi hafi greitt þessar afborganir á móti öðrum reikningum sem hún hafi greitt.  Stefnda mótmælir harðlega þeirri fullyrðingu stefnanda í stefnu að hún hafi hagnast með beinum hætti vegna afborgana stefnanda eða vinnuframlags hans við endurbætur á húsnæðinu.  Þvert á móti heldur hún því fram að hann hafi hagnast verulega á því að spara sér húsaleigukostnað í fimm ár.  Það hafi gert honum kleift að fjárfesta í öðrum hlutum sem hann hafi tekið með sér við lok sambúðar.  Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrgðina fyrir því að með þessum greiðslum hafi skuld stefndu stofnast við hann.

         Í þriðja lagi byggir stefnda sýknukröfu sína á því að stefnda hafi aldrei gengist undir neinar þær skuldbindingar sem geri henni skylt að endurgreiða stefnanda þær fjárhæðir sem hann sannanlega hafi lagt til heimilisins.  Stefnda kveður málsaðila hafa viljað búa við séreignafyrirkomulag, en kosið að reka heimilið saman.  Enda þótt fjárframlög hvors um sig hafi verið misjafnlega mikil, þegar horft sé til fimm ára sambúðar, breyti það því ekki að þegar upp er staðið hafi báðir greitt rekstrarkostnað heimilisins að jöfnu.  Afstaða stefnanda til þess eignafyrirkomulags sem þau hafi búið  við hafi komið skýrt fram er honum hafi áskotnast vegleg fjárhæð í formi skuldabréfa frá ættingjum sínum.  Í stað þess að verja fjárhæðinni til eignamyndunar í íbúðinni í B eða stofna til annarra sameigna hafi hann ákveðið að verja fjárhæðinni til þess að láta gamlan draum sinn rætast.  Eftir að hafa greitt upp gamlar skuldir sem hann hafi komið með inn í sambúðina hafi hann fest kaup á rándýrum ljósmyndavélum, linsum, stækkara og þess háttar, auk þess sem hann hafi keypt sér gamlan Ford.  Allt þetta hafi hann tekið með sér af óskiptu þegar sambúðinni lauk, enda hafi þau búið við séreignar­fyrir­komu­lag sem gildi í sambúð.  Aðilar þessa máls hafi hvorki gert með sér samning um sameign eða lán né hafi verið gert ráð fyrir því að stefndu bæri að endurgreiða stefnanda þá fjármuni sem hann hafi lagt til heimilisins meðan þau bjuggu saman.  Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir því að til slíkrar skuldar hafi verið stofnað.

         Lýsingar stefnanda á endurbótum íbúðarinnar séu stórlega ýktar og nefndar fjárhæðir séu ekki í neinu samræmi við raunveruleikann.  Málsaðilar hafi gert ýmsar lagfæringar á íbúðinni án þess að um gagngerar endurbætur hafi verið að ræða.  Þannig hafi verið dregið inn nýtt rafmagn, settur hafi verið nýr dúkur í fremri ganginn og í sameiningu hafi þau málað íbúðina.  Um hafi verið að ræða venjulegt viðhald á eldra húsnæði og hafi kostnaður við þetta ekki farið yfir 200.000 krónur enda hafi þau fengið hjálp frá vinum og vandamönnum.  Stefnda kveðst hafa varið hluta af slysabótunum til kaupa á raftækjum í eldhús svo sem nýja eldavél og ísskap og látið endurbæta eldhúsinnréttinguna sem fyrir var.  Skömmu áður en íbúðin var seld hafi stefnda hins vegar gengið í það að endurnýja baðherberi hennar með því að skipta um skolp- og frárennslisrör og endurnýja hreinlætistæki o.fl.  Þetta hafi kostað hana rúmlega eina milljón króna sem hún hafi fjármagnað með lífeyrissjóðs­láni sem tryggt hafi verið með veði í fasteign móður hennar.  Stefnda heldur því fram að þeir fjármunir sem kunni að hafa komið frá stefnanda í lagfæringar húsnæðisins séu eðlilegur kostnaður hans við húsnæði sem hann hafi búið í húsaleigufrítt.

         Stefnda byggir kröfu sína um sýknu á almennum reglum fjármunaréttarins og vísar hún til laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga nr. 7/1936, laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 svo og til almennra reglna kröfuréttar um stofnun samninga.

         Krafan um málflutningsþóknun er byggð á ákvæðum í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

         Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.  Stefnda kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur aðili og því beri henni nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum.

 

Niðurstaða

         Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að þótt stefnda sé, samkvæmt framlögðum kaupsamningi, kaupandi að íbúðinni að B [...], hafi alltaf staðið til að hann kæmi með greiðslur á móti upphaflegu fjárframlagi stefndu til íbúðarkaupanna og yrði jafnframt skráður fyrir íbúðinni.

         Ekki kom til þess að stefnandi yrði skráður eigandi að íbúðinni ásamt stefndu áður en til samvistarslita þeirra kom.  Stefnandi heldur því fram að með fjárframlögum sínum hafi hann í raun eignast hlutdeild í íbúðinni sem stefndu beri að endurgreiða honum.  Heildarfjárhæð þeirra greiðslna sem hann hafi innt af hendi í þágu íbúðarkaupanna, og sem stefndu beri að endurgreiða honum, nemi stefnufjárhæð.

         Sundurliðar stefnandi kröfu sína þannig að 335.000 krónur séu vegna greiðslu á síðustu afborgun af kaupverði íbúðarinnar.  Þá kveðst stefnandi hafa aukið verðgildi íbúðarinnar um 1.100.000 krónur með vinnu sinni við að gera íbúðina upp.  Innifalið í því sé það sem hann hafi greitt fyrir nýtt rafmagn, 350.000 krónur, í nýtt eldhús, 175.000 krónur, og í endurnýjun á gangi og forstofu, 200.000 krónur.  Þá hafi hann keypt málningu sem notuð var til að mála alla íbúðina fyrir um það bil 400.000 krónur.  Þá hafi hann, frá árinu 1999 til samvistarslita, greitt afborganir af lánum sem hvíldu á íbúðinni, greiðslur sem nemi um það bil 1.000.000 króna.

         Fyrir liggur að málsaðilar voru í sambúð í um það bil 5 ár.  Stefnandi heldur því fram að þau hafi á sambúðartímanum haft sameiginlegan fjárhag.  Gegn andmælum stefndu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að svo hafi verið enda liggur fyrir að þau töldu fram til skatts hvort í sínu lagi.  Sem sambúðaraðilar héldu þau hins vegar sameiginlegt heimili.

         Óumdeilt er að stefnandi greiddi síðustu afborgun af kaupverði íbúðarinnar, sem samkvæmt kaupsamningi nam 344.436 krónum en stefnandi heldur því fram að hann hafi greitt 335.000 krónur.  Stefnda heldur því fram að aldrei hafi staðið til að henni bæri að endurgreiða þessa fjárhæð og hafi hún litið svo á að þessi greiðsla væri framlag stefnanda til reksturs heimilisins.  Gegn andmælum stefnanda telst það ósannað og verður að líta svo á að um lán hafi verið að ræða sem stefndu beri, sem eiganda íbúðarinnar, að endurgreiða stefnanda.

         Stefnandi hefur ekki lagt fram nein haldbær gögn er sýna fram á útgjöld sem hann hefur haft vegna endurbóta á íbúð stefndu.  Hann hefur lagt fram tvær yfirlýsingar Péturs Hjálmarssonar rafvirkja um vinnu sem hann kveðst hafa unnið fyrir málsaðila og kostnað því samfara.  Hafa þessar yfirlýsingar ekki verið staðfestar fyrir dómi og verður því ekki á þeim byggt.  Þá eru þessar yfirlýsingar ekki studdar neinum gögnum svo sem reikningum fyrir vinnu eða útlagðan kostnað.  Sama er að segja um yfirlýsingu Ómars Kristinssonar sem kveðst hafa unnið við endurnýjun íbúðarinnar.

         Samkvæmt framansögðu telst ósannað með öllu að stefnandi hafi haft útgjöld af endurbótum við íbúð stefndu.

         Stefnandi hefur lagt fram í málinu ljósrit greiðsluseðla vegna tveggja lána við Íbúðalánasjóð upphaflega að fjárhæð 1.000.000 króna og 4.485.000 krónur.  Eru greiðsluseðlarnir allir stílaðir á stefndu.  Bera hvorki þau gögn né önnur, sem stefnandi hefur lagt fram, með sér að um sé að ræða greiðslur sem stefnandi hefur greitt í þágu stefndu.  Telst því ósönnuð sú fullyrðing stefnanda að hann hafi greitt afborgarnir af lánum sem hvíldu á íbúð stefndu.        

         Sundurliðun kröfugerðar er nokkuð óljós samanborið við stefnufjárhæð.  Þykir óljóst hvort stefnandi er í máli þessu að krefja stefndu um greiðslu 300.000 króna sem hann kveðst hafi látið stefndu í té til uppihalds eftir að þau slitu samvistum.  Þykir ekki ljóst hvort um gjöf eða lán hafi verið að ræða.  Er litið svo á að ekki sé gerð krafa um greiðslu vegna þessa, en engin gögn liggja fyrir í málinu varðandi þetta atriði.

         Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málsins að stefndu beri að greiða stefnanda 335.000 krónur ásamt umkröfðum dráttarvöxtum.

         Eins og atvikum háttar í máli þessu og með hliðsjón af því að stefnda hefur, samkvæmt framlögðum gögnum, löngu áður en mál þetta var höfðað lýst sig reiðubúna til þess að endurgreiða stefnanda afborgun þá af íbúð hennar sem hann greiddi á árinu 1999, þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

         Stefnda, K, greiði stefnanda, M, 335.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. maí 2002 til greiðsludags.

         Málskostnaður fellur niður.