Hæstiréttur íslands
Mál nr. 568/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 2. nóvember 2007. |
|
Nr. 568/2007. |
Ríkissaksóknari(Bogi Nilsson, ríkissaksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. október 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili var úrskurðaður í gæsluvarðhald 30. janúar til 2. febrúar 2007 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Að kvöldi 30. janúar strauk hann úr fangelsinu ásamt öðrum og hafði hann brotist inn í tvö íbúðarhús og stolið bifreið þegar hann náðist. Hann var aftur úrskurðaður í gæsluvarðhald 2. febrúar 2007, nú á grundvelli c. liðar sama ákvæðis. Hafði hann þá játað tvö rán og tilraun til ráns í lok október 2006, auk þjófnaðar úr bifreið í desember sama ár og innbrot í íbúðarhús og þjófnað í janúar 2007. Til rannsóknar voru fjölmörg hegningarlagabrot auk brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í úrskurði héraðsdómara segir að við yfirheyrslu hafi komið í ljós að hann væri í fíkniefnaneyslu og fjármagni neyslu sína með innbrotum. Á þessum tíma hafði hann aðeins einu sinni hlotið refsingu og var þar um fíkniefnalagabrot að ræða. Gæsluvarðhald var framlengt 2. mars 2007. Hinn 22. sama mánaðar var gefin út ákæra og hún þingfest 30. sama mánaðar og 17. apríl var ný ákæra vegna ráns sameinuð málinu. Aðalmeðferð hófst 27. apríl, en varð ekki lokið fyrr en 23. maí. Dómur gekk 12. júlí 2007 og var varnaraðila þar gerð fangelsisrefsing í 30 mánuði. Gæsluvarðhald var framlengt 30. mars 2007 og enn á ný 23. apríl, 11. maí, 13. júní og loks 27. sama mánaðar. Var síðastgreindur úrskurður kærður til Hæstaréttar, en fjórum sinnum áður hafði varnaraðili kært úrskurði héraðsdóms um gæsluvarðhald til Hæstaréttar og þeir verið staðfestir. Með dómi 2. júlí 2007 ákvað Hæstiréttur að málsmeðferðin hefði dregist lengur en ásættanlegt væri og dómur hefði ekki verið kveðinn upp innan lögmæltra tímamarka. Var gæsluvarðhaldsúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Fjórum dögum síðar hinn 6. sama mánaðar var varnaraðili enn úrskurðaður í gæsluvarðhald, en hann hafði verið handtekinn grunaður um að hafa, eftir að honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi, gerst sekur um auðgunar- og umferðalagabrot. Gæsluvarðhald var framlengt 16. júlí, en þá hafði verið gefin út ákæra fyrir hin nýju brot, dómur verið kveðinn upp í eldra málinu og varnaraðili tekið sér áfrýjunarfrest. Var þessum úrskurði skotið til Hæstaréttar sem staðfesti hann. Hinn 10. ágúst féll dómur í síðara málinu, var varnaraðili sakfelldur og dæmdur hegningarauki í 45 daga. Tók hann sér áfrýjunarfrest en hafði þá lýst yfir áfrýjun dómsins frá 12. júlí. Hinn 10. ágúst var gæsluvarðhald varnaraðila framlengt til 31. október 2007. Nú liggur fyrir að hann hefur áfrýjað síðara málinu.
Með dómum héraðsdóms frá 12. júlí og 10. ágúst 2007 hefur varnaraðili verið sakfelldur fyrir fjölmörg alvarleg brot, þar á meðal rán, íkveikju, innbrot í íbúðarhúsnæði, hraðbanka og bifreiðar, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og eignaspjöll. Vegna dráttar á meðferð máls þessa og dráttar hjá Héraðsdómi Reykjaness við að koma frumgögnum til ríkissaksóknara hefur varnaraðili nú setið lengur í gæsluvarðhaldi en æskilegt getur talist. Engu að síður verður, í ljósi þess að varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir svo mörg alvarleg brot, og ljóst er að brotaferill hans tengist neyslu fíkniefna, að staðfesta úrskurð héraðsdóms með framangreindum athugasemdum og með vísan til forsendna hans að öðru leyti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. október 2007.
Ríkissaksóknari hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 1. febrúar 2008. kl. 16:00
Krafan er reist á ákvæðum c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106 gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Fyrir dóminum mótmælti dómfelldi kröfu Ríkissaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald og krafðist þess til vara að gæsluvarðhaldinu yrði markaður skemmri tími. Byggir dómfelldi mótmæli sín á því að dregist hafi úr hófi að afgreiða mál hans til Hæstaréttar Íslands og hafi með því verið brotinn á honum réttur.
Í kröfu Ríkissaksóknara kemur fram að með dómi héraðsdóms Reykjaness 12. júlí sl. í máli nr. S-64/2007 hefði dómfelldi X hlotið 30 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir fjölda afbrota. Þann 10. ágúst hafi hann verið dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir auðgunarbrot, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjaness nr. S-622/2007. Þessir dómar séu ekki fullnustuhæfir þar sem dómfelldi hafi kosið að áfrýja þeim til Hæstaréttar Íslands, sbr. Hæstaréttarmálin nr. 488/2007 og 511/2007.
Þann 30. janúar sl. hafi dómfelldi fyrst verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðahaldi til 2. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra nr. R-6/2007. Með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 73/2007 hafi honum verið gert að sæta áfram gæsluvarðahaldi með vísan til c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til 2. mars og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-153/2007, hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til 30. mars og aftur með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-63/2007, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 3. apríl sl. í máli nr. 183/2007, til 23. apríl sl. Með dóm Hæstaréttar nr. 219/2007 hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til 11. maí, en það hafi síðan verið framlengt áfram til 13. júní, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness nr. R-97/2007, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar nr. 268/2007. Dómfellda hafi enn verið gert að sæta gæsluvarðhaldi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-121/2007 til 27. júní sl. Þann dag hafi dómfelldi verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 11. júlí sl. Hinn síðastnefndi úrskurður hafi hins vegar verið felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar Íslands 2. júlí sl. nr. 345/2007 með eftirgreindum rökum:
„Samkvæmt 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 skal dómur kveðinn upp í opinberu máli svo fljótt sem unnt er og að jafnaði ekki síðar en þremur vikum eftir dómtöku. Mál [S-64/2007] sóknaraðila á hendur varnaraðila var dómtekið í héraði 23. maí 2007 og eru því liðnar tæpar sex vikur án þess að dómur hafi verið kveðinn upp í málinu. Sérstaklega rík skylda er til að hraða málsmeðferð þegar ákærði sætir gæsluvarðhaldi. Með hliðsjón af framangreindu og eins og atvikum er háttað verður varnaraðila ekki gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er enn ódæmt. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.“
Hinn 6. júlí sl. hafi dómfelldi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald með úrskurði Hérðasdóms Reykjaness í máli nr. R-134/2007 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 til 16. júlí sl. Gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt til 13. ágúst sl. með úrskurði Hérðasdóms Reykjaness nr. R-138/2007 og var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti, sbr. dóm réttarins nr. 383/2007. Með dómi Hæstaréttar 14. ágúst sl. nr. 422/2007 hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til kl. 16:00 í dag með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Af hálfu ríkissaksóknara er á því byggt að í ljósi brotaferils dómfellda teljist hann vera vanaafbrotamaður í skilningi ákvæða 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot þau sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í ofanangreindum tveimur dómum séu annars vegar framin á tímabilinu 30. nóvember 2006 til 30. janúar 2007 og hins vegar þann 5. júlí sl., þ.e. þremur dögum eftir að hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 2. júlí.
Við rannsókn mála dómfellda hafi komið í ljós að hann var í mikilli óreglu og án atvinnu. Brotaferill hans hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglu að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Það sé og mat Ríkissaksóknara, sbr. meðfylgjandi bréf hans, dagsett í gær, að nauðsynlegt sé að dómfelldi sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans fyrir Hæstarétti.
Fyrir liggi í máli þessu mat Hæstaréttar Íslands, sbr. hina fjölmörgu dóma réttarins sem vísað sé til, að skilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt og að ekkert sé fram komið í málinu sem breytt geti því mati. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að framlengt verði það gæsluvarðhald sem dómfelldi hefur sætt frá 6. júlí sl. uns dómur fellur í Hæstarétti þó eigi lengur til föstudagsins 29. febrúar nk. kl. 16:00.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí sl. var dómfelldi dæmdur í 30 mánaða fangelsi fyrir fjölmörg auðgunar- og fjármunabrot auk fíkniefna- og umferðarlagabrota en með dómi dagsettum 10. ágúst sl. var dómfelldi síðan dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar og umferðarlagabrot en þau brot voru framin þremur dögum eftir að honum var þann 2. júlí sl. sleppt úr gæsluvarðhaldi sem hann hafði þá sætt óslitið frá 30. janúar sl. Háttsemi dómfellda sýnir að full ástæða er til að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi svo koma megi í veg fyrir frekari brotastarfsemi af hans hálfu þar til meðferð mála hans er lokið fyrir æðri dómi. Þess mun ekki vera að vænta að málin komist á dagskrá Hæstaréttar á þessu ári. Að öllu framangreindu virtu og með vísan til ákvæða c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 og atvika málsins að öðru leyti, verður því fallist á kröfu ríkissaksóknara um gæsluvarðhald. Þó þykir rétt að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma eða til föstudagsins 1. febrúar 2008, kl. 16:00.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans eru til meðferðar fyrir æðri dómi, þó eigi lengur en til föstudagsins 1. febrúar 2008 kl. 16:00.