Hæstiréttur íslands

Mál nr. 384/2001


Lykilorð

  • Matvæli
  • Skaðsemisábyrgð
  • Gagnaöflun


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. mars 2002.

Nr. 384/2001.

Hildur Guðjónsdóttir og

Ýmir Vésteinsson

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

Reykjagarði hf.

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Matvæli. Skaðsemisábyrgð. Gagnaöflun.

H og Ý keyptu ófryst kjúklingalæri frá R í apríl 1999 og óku í sumarbústað við Flúðir, þar sem lærin voru elduð fyrir samkvæmi sem þar var. Lærin voru matreidd á grilli og neyttu H og Y þeirra ein. Umbúðir kjötsins voru merktar á þann hátt að þeim sem matreiddu það bæri annaðhvort að gegnumsteikja það eða sjóða. Nokkrum dögum síðar veiktust þau H og Ý og í ljós kom að þau höfðu smitast af kampýlóbakter sýkli. Höfðuðu þau mál gegn R til greiðslu skaðabóta og héldu því fram að R hafi verið kunnugt um sýkinguna og því hafi merkingin á vörunni verið ófullnægjandi. Talið var að H og Ý bæru sönnunarbyrði um ágalla vörunnar og um orsakatengsl milli ágalla og tjóns, sbr. lög um skaðsemisábyrgð. Í málinu lá fyrir rannsókn frá ágúst 1999 þar sem fram kom að þá var kampýlóbaktermengun óvenjumikil hjá framleiðendum kjúklinga og jafnframt lá fyrir að R hafi átt við þetta vandamál að stríða í framleiðslu sinni í verulegum mæli. Heilbrigðisyfirvöld höfðu einnig látið málið til sín taka þá um haustið og hvatt til þess að almenningur yrði upplýstur um smithættu matvæla og hvernig koma mætti í veg fyrir smit. Ekkert lá fyrir í málinu um umfang kampýlóbaktersýkingar í apríl 1999 eða aðvaranir heilbrgiðisyfirvalda þar að lútandi. Þá höfðu H og Ý ekki skorað á R að leggja fram upplýsingar, sem varpað gætu ljósi á hvaða vitneskju hann hafi þá búið yfir um mengunina. Ágreiningslaust var talið, að væri umræddum leiðbeiningum fylgt kæmi sýking kjúklinga af kampýlóbakter ekki að sök, þar sem bakterían hefði lítið hitaþol. Eins og málið var lagt fyrir dóminn þótti ekki nægjanlega í ljós leitt af hálfu H og Ý að R hefði mátt vita að svo mikill hluti kjúklingaframleiðslu hans væri sýktur í apríl 1999 að honum hafi borið að vara neytendur sérstaklega við og skora á þá að fylgja leiðbeiningunum fast eftir. Var því ekki talið að H og Ý hafi tekist að sanna að varan hafi verið haldin ágalla í merkingu laga um skaðsemisábyrgð. Var R því sýknaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. október 2001. Þeir krefjast þess að stefndi greiði áfrýjendunum Hildi 83.811 krónur og Ými 160.811 krónur, auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. apríl 1999 til 6. apríl 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þeir krefjast og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara lækkunar krafna, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjendur keyptu ófryst kjúklingalæri 24. apríl 1999 kl. 19.44 í verslun í Reykjavík, óku úr bænum og í sumarbústað við Flúðir og komu þangað síðar um kvöldið. Afhentu þau lærin manni sem sá um að elda matinn fyrir samkvæmi sem þarna var. Lærin voru matreidd á grilli og þau ein neyttu læranna sem þau höfðu keypt. Ágreiningslaust er að varan hafi verið merkt eins og í héraðsdómi er rakið, að þeim sem matreiddu hana bæri annaðhvort að gegnumsteikja vöruna eða sjóða.

Í fréttatilkynningu um „kampýlóbakterfaraldurinn á Íslandi“ frá sóttvarnalækni, Hollustuvernd ríkisins og yfirdýralækni 6. september 1999, sem lögð var fram í héraði, kemur fram að snemma árs 1999 hafi kannanir sýnt að kampýlóbaktersýkingar hefðu aukist umtalsvert árið 1998 miðað við undangengin ár og ljóst hafi verið að aukning tilvika héldi áfram árið 1999. Sóttvarnaráð hafi mælt með því í marsmánuði að almenningi yrði kynntur þessi vandi og gefnar út leiðbeiningar um það með hvaða hætti hann gæti varist smiti. Þá hafi verið vitað að þessa mengun væri helst að finna í kjúklingum á markaði hér á landi. Bráðabirgðaniðurstöður rannsókna hafi meðal annars verið þær, að útbreiðsla sýkinga hafi aukist hröðum skrefum, einkum undanfarin tvö ár. Þegar á fyrstu átta mánuðum ársins 1999 hafi greinst 339 sýkingar í mönnum miðað við 250 tilvik allt árið 1998. Borið hafi á sýkingum meðal starfsmanna ákveðins kjúklingabús og sláturhúss á Suðurlandi. Á tímabilinu frá 16. júní til 20. ágúst 1999 reyndust þrír starfsmanna kjúklingabúsins hafa sýkst. Samkvæmt rannsóknum gerðum af Hollustuvernd ríkisins 9.-27. ágúst hafi 8 af 10 sýnum kjúklinga (80%) verið menguð af kampýlóbakter frá einum framleiðanda og 11 af 21 sýni (52%) frá öðrum, en þeir hafi báðir notað sama sláturhús. Álit rannsakenda hafi verið, að miðað við fyrirliggjandi gögn mætti rekja meginskýringu gífurlegrar aukningar á kampýlóbakter-sýkingu hér á landi til kampýlóbakter-mengunar í kjúklingum. Í lok tilkynningarinnar kemur fram að ýmsar tillögur hafi verið gerðar, þar á meðal að skylt yrði að upplýsa um smithættu matvæla og hvernig koma mætti í veg fyrir smit með áberandi hætti á matvælum sem seld séu almenningi.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir, einn þeirra er stóð að greindri tilkynningu, kom fyrir héraðsdóm. Skýrði hann svo frá að það hafi svo til einungis verið í alifuglakjöti sem hægt hafi verið að finna kampýlóbakter-mengun í vörum á markaði. Frysting á kjúklingum hafi dregið verulega úr þessu þannig að smitlíkurnar hafi orðið minni. Lykilþáttur í þeim varnaraðgerðum sem gripið hafi verið til hafi verið að setja ekki kjúklinga á markað öðruvísi en frysta ef þeir höfðu haft kampýlóbakter í sér. Aðspurður hvort komið hafi til tals hjá heilbrigðisyfirvöldum að setja sölubann á sýkta kjúklinga sagði hann að það hafi ekki verið gert. Sagðist hann ekki vita um sölubann á matvöru vegna kampýlóbakter-mengunar nokkurs staðar í heiminum. Betra væri að upplýsa almenning um það að ákveðin hætta fylgdi þessu og koma með leiðbeiningar um hvernig unnt væri að forðast smit. Hann sagði að ekkert leyndarmál hafi verið að þetta vandamál hafi tengst stefnda, þar hafi verið hæst smittíðni.

II.

 Áfrýjendur byggja mál sitt á því að stefndi hafi vitað að stór hluti kjúklinga þeirra sem hann framleiddi í apríl 1999 hafi verið sýktur af kampýlóbakter, og að þess vegna hafi ekki verið nægilegt að merkja vöruna með þeim hætti sem gert var. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli skuli framleiðendur matvæla tryggja að þau valdi ekki heilsutjóni. Geri framleiðandi það ekki sé hann ábyrgur og sé óheimilt að dreifa slíkum matvælum. Í reglum um framleiðendaábyrgð felist að framleiðendum sé skylt að gera kaupendum fullnægjandi grein fyrir hættueiginleikum vöru um leið og þeir viti um þá. Þetta þurfi að gera með áberandi hætti. Samkvæmt 5. gr. laga um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991 hafi vara þessi verið haldin ágalla, þar sem hún hafi ekki verið svo örugg sem með réttu hafi mátt vænta eftir öllum aðstæðum. Þess vegna verði að telja merkinguna á vörunni ófullkomna. Það sé almennt vitað að kjöt þurfi að sjóða en í þessu tilviki hafi ekki verið nóg að segja það. Þarna hefði þurft að vara við þeirri hættu sem neyslu vörunnar væri samfara. Að þessu leyti hafi merkimiðinn ekki fullnægt kröfunum, þar sem varúðarmerkingu skorti. Neytandinn hefði átt að fá fullnægjandi upplýsingar um þá hættu sem fylgt gæti neyslu vörunnar svo að hann ætti raunverulegt val. Láti framleiðandinn undir höfuð leggjast að gera kaupendum grein fyrir hættueiginleikum vöru sem hann þekkir beri hann ábyrgð á því tjóni sem kaupendur vörunnar kunni að verða fyrir og rakið verði til ófullnægjandi kynningar á hættuleiginleikum vörunnar.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um skaðsemisábyrgð beri tjónþola að sanna tjón sitt, ágalla vöru og orsakatengsl milli ágalla og tjóns. Áfrýjendur hafi hvorki sannað að varan hafi verið haldin ágalla né að um orsakatengsl hafi verið að ræða. Engin sýni hafi verið varðveitt af vörunni og engin sönnun sé fyrir því að þessi kjúklingalæri hafi verið menguð af kampýlobakter. Varðandi ágalla vörunnar fari það samkvæmt 5. gr. laga um skaðsemisábyrgð eftir aðstæðum hverju sinni hvort vara sé talin haldin ágalla eða ekki. Almennt sé vitað að hrátt kjöt skuli sjóða eða gegnumsteikja. Þetta hafi verið skýrlega tilgreint á merkingu vörunnar og ljóst sé að hefði eftir þessu verið farið hefði engin sýking orðið. Kampýlóbakter sé umhverfisvandamál sem framleiðendur kjúklinga þurfi að búa við og hvorki hér á landi né í öðrum löndum hafi fundist leiðir til að tryggja að kjúklingaframleiðsla sé með öllu laus við þetta smit.

III.

Áfrýjendur bera í máli þessu sönnunarbyrði um ágalla vörunnar og um orsakatengsl milli ágalla og tjóns, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um skaðsemisábyrgð.

Í 5. gr. laganna er skilgreint hvenær vara telst haldin ágalla, og er það þegar hún er ekki svo örugg sem með réttu mátti vænta eftir öllum aðstæðum, einkum eftirfarandi:

1.      Hvernig hún var boðin og kynnt.

2.      Notkun þeirri sem með sanngirni mátti gera ráð fyrir.

3.      Hvenær vöru var dreift.

Samkvæmt þessu þurfa áfrýjendur fyrst að sanna að kjúklingalærin hafi verið haldin ágalla í skilningi þessa lagaákvæðis.

Svo sem rakið hefur verið kom fram í rannsókn í ágúst 1999, að kampýlóbakter-mengun var óvenju mikil hjá framleiðendum kjúklinga og jafnframt liggur fyrir, að stefndi hafi átt við þetta vandamál að stríða í framleiðslu sinni í verulegum mæli.  Í þessu ljósi og með hliðsjón af 10. gr. laga um matvæli þarf að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu áfrýjenda, að varan hafi ekki verið nægilega kynnt í skilningi 1. tl. 5. gr. þar sem ekki hafi verið nóg að geta einungis um að vöruna hafi þurft að sjóða eða gegnumsteikja heldur hafi stefndi þurft að kynna hana með varúðarmerkingu um þessa hættuleiginleika.

Ekkert liggur fyrir í málinu um umfang kampýlóbakter-sýkingar í apríl 1999 eða aðvaranir heilbrigðisyfirvalda þar að lútandi. Áfrýjendur hafa ekki skorað á stefnda að leggja fram skýrslur um kjúklingaframleiðslu hans á þeim tíma sem hér um ræðir eða upplýsingar úr framleiðsluferli, sem varpað gætu ljósi á hvaða vitneskju hann hafi þá búið yfir um mengunina. Að framan er því lýst hvernig leiðbeiningum um meðferð vörunnar var háttað. Ágreiningslaust er að sé þeim fylgt komi sýking kjúklinga af kampýlóbakter ekki að sök, þar sem bakterían hafi lítið hitaþol. Hvergi hefur tekist að gera þessa framleiðslu alveg örugga fyrir þessari sýkingu. Eins og mál þetta er lagt fyrir dóminn þykir ekki nægjanlega í ljós leitt af hálfu áfrýjenda að stefndi hafi mátt vita að svo mikill hluti kjúklingaframleiðslu hans væri sýktur í apríl 1999 að honum hafi borið að vara neytendur sérstaklega við og skora á þá að fylgja leiðbeiningunum fast eftir. Samkvæmt gögnum málsins var það svo ekki fyrr en um haustið að heilbrigðisyfirvöld settu fram aðvaranir. Hefur áfrýjendum því ekki tekist að sanna að varan hafi verið haldin ágalla í merkingu 5. gr. laga um skaðsemisábyrgð. Verður því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera órsakaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2001.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 4. apríl 2000.

Stefnendur eru Hildur Guðjónsdóttir, kt. 230176-5589 og Ýmir Vésteinsson, kt. 180372-3349 bæði til heimilis að Álftamýri 46, Reykjavík.

Stefndi er Reykjagarður hf. kt. 430272­-0719, Suðurreykjum 3, Mosfellsbæ.

Stefnendur krefjast þess, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta til stefnanda þannig:

Til Hildar Guðjónsdóttur 83.811,50 krónur og til Ýmis Vésteinssonar 160.811,50 krónur (þ.e. 83.811,50 krónur og  77.000 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns) auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26.4.1999 til þingfestingardags stefnu, 6. apríl 2000, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og leggist áfallnir dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 6. apríl 2001.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda skv. mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, en stefnendur eru ekki virðisaukaskattsskyldir.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnenda að skaðlausu að mati dómsins.

Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður í því tilviki verði felldur niður.

Með úrskurði dómsins 23. nóvember sl. var máli þessu vísað frá dómi en með dómi Hæstaréttar 8. desember var úrskurðinum hrundið og í framhaldi af því var málið tekið til efnismeðferðar.

MÁLSATVIK

Stefnendur, sem eru sambýlisfólk, keyptu laugardaginn  24. apríl 1999 ófryst kjúklingalæri, svonefndan Holtakjúkling, sem framleiddur er af stefnda, í verslun Nýkaups á Eiðistorgi, Seltjarnarnesi.  Kjúklingurinn var matreiddur sama dag.  Stefnendur tóku ofangreind kjúklingalæri með sér í samkvæmi sem haldið var í sumarbústað nálægt Flúðum í Hrunamannahreppi og voru lærin grilluð þar.  Fram kom hjá vitninu Matthíasi Guðmundssyni að stefnendur hefðu komið seinna í samkvæmið en aðrir og að einn gestanna, Haraldur að nafni, hefði eldað allan matinn, þar á meðal kjúklingalæri stefnenda.  Stefnendur komu seinna en aðrir þar sem stefnandi, Ýmir, var að vinna fram að þeim tíma að þau fóru í samkvæmið og keyptu stefnendur kjúklinginn á leiðinni þangað.  Þegar þau komu austur höfðu aðrir gestir í samkvæminu lokið við að elda sinn mat.  Kjúklingur stefnenda var síðan matreiddur á grilli og stefnendur neyttu hans ein.  Ekki er vitað til þess að aðrir gestir hafi sýkst í samkvæmi þessu.

Mánudagskvöldið 26. apríl 1999 veiktist stefnandi Hildur og stefnandi Ýmir þriðjudagsmorguninn 27. apríl 1999.  Voru þau bæði send með sjúkrabíl á fimmtudagsmorgni  29. apríl 1999 á bráðamóttöku á Landsspítalanum og við rannsókn á sýklafræðideild sjúkrahússins kom í ljós, að þau höfðu smitast af svonefndum "Campylobacter jejuni" sýkli.  Áttu þau við veikindi að stríða og þjáningar vegna þessarar sýkingar í rúma viku og voru frá vinnu auk þess sem þau kveðast hafa þurft að að greiða margvíslegan kostnað vegna veikindanna.  Þrátt fyrir að verstu afleiðingar smitunarinnar hafi liðið hjá á rúmri viku, kveðast þau ekki hafa náð fullum líkamlegum styrk og úthaldi fyrr en um haustið 1999. Hafi þau því átt við afleiðingar smitunarinnar að stríða í marga mánuði.

Stefnendur hafi átt við alvarleg og sársaukafull veikindi að stríða í rúma viku vegna ofangreindrar "Campylobacter jejuni" sýkingar eins og að ofan greini.  Báðir stefnendur hafi verið frá vinnu þann tíma sem þau voru veik, en stefnandi Hildur hafi verið að lesa undir próf og fengið til muna lakari útkomu úr þeim, en hún hafi fyrir fram átt von á vegna veikinda sinna.  Þá hafi stefnendur greitt sameiginlega margvíslegan kostnað vegna veikindanna.  Ýmir hafi orðið fyrir verulegu atvinnutjóni, en hann var um þær mundir sem hann smitaðist að ljúka við gerð bókar skv. útgáfusamningi við Lyfju hf. sem tafist hafi verulega vegna veikinda Ýmis.  Skv. útgáfusamningnum skyldi Ýmir fá greidd ákveðin laun auk hagnaðarhlutfalls.

Útlagðan kostnað stefnenda vegna sýkingarinnar kveða þau nema 19.423 krónum og sundurliðast þannig: kaupverð kjúklingsins 619 krónur kostnaður sjúklings vegna komu á göngudeild og vegna rannsókna 3.670 krónur fyrir hvort um sig eða samtals 7.340 krónur, sjúkraflutningur 2.400 krónur, lyfjakostnaður samtals 9.064 krónur.  ­Þjáningabætur vegna veikinda hvors stefnanda í 7 daga 9.100 krónur eða samtals 18.200 krónur.

Miski hvors um sig sé 65.000 krónur eða samtals 130.000 krónur.  Tímabundið atvinnutjón Ýmis sé 77.000 krónur.­

Samtals séu dómkröfur stefnenda 244.623 krónur.­

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnendur byggja kröfur sínar á því, að þau hafi keypt vöru af stefnda og varan hafi verið haldin galla, sem stefndi beri skaðabótaábyrgð skv. almennum ólögfestum reglum skaðabótaréttarins, skaðabótalögum nr. 50/1993 og lögum um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991.

Vara sú, sem stefnendur keyptu í smásöluverslun hafi verið svonefnt "Holta ferskt Texaslæri" þ.e. kjúklingalæri, sem framleitt var og sett í smásölu af stefnda. Stefnendur halda því fram, að umrædd vara hafi verið haldin þeim alvarlega ágalla, að hún hafi verið sýkt af sýklinum "Campylobacter jejuni" og hafi það orðið þess valdandi, að stefnendur veiktust heiftarlega innan tveggja sólarhringa frá því að þeir neyttu vörunnar.

Þar sem vara sú sem þau keyptu af stefnda hafi verið haldin ofangreindum ágalla beri stefndi þegar af þeim sökum skaðabótaábyrgð skv. 1. gr. laga um skaðsemisábyrgð.  Ljóst sé að umrædd vara hafi verið haldin ágalla sbr. skilgreiningu 5. gr. laga um skaðsemisábyrgð.  Sérstaklega er bent á varðandi 5. gr. l. um skaðsemisábyrgð, að það skipti m.a. máli varðandi mat á því hvort um sé að ræða skaðabótaskyldan ágalla eða ekki, hvernig varan sé boðin og kynnt og hvernig hún sé notuð, sem megi með sanngirni gera ráð fyrir.  Umrædd vara hafi verið boðin og kynnt sem matvara og notkun hennar af hálfu stefnenda í samræmi við það sem með sanngirni mátti ætla að matvaran yrði notuð til, þ.e. hún var etin af stefnendum með þeim afleiðingum að þau sýktust vegna ágallans á vörunni.

Því er haldið fram, að stefnda hafi verið um það kunnugt, að stór hluti framleiðslu hans væri haldin "Campylobacter jejuni" sýkingu þegar vara sú sem hér um ræðir var sett til sölu til neytenda í stórmarkaði.  Nokkrum mánuðum eftir að stefnendur sýktust hafi verið gert opinbert, að stefndu hefðu fengið margvíslegar viðvaranir og kvartanir eftirlitsaðila og heilbrigðisyfirvalda vegna víðtækra og yfirgripsmikilla "Campylobacter jejuni" sýkinga á framleiðsluvörum stefnanda. Upplýsingar um ofangreinda sýkingu í stórum hluta af þessum framleiðsluvörum stefnda hefði hann fengið löngu áður.  Stefnda hafi því verið ljóst, þegar hann setti þá vöru sem hér ræðir um á markað, að hún var líklega smituð af "Campylobacter jejuni" allavega, miðað við hlutfall sýkinga, að það voru meiri líkur en minni á því, að umrædd vara væri sýkt af ofangreindum sýkli.  Þrátt fyrir þessa vitneskju sína hafi stefndi enga tilraun gert til að gera neytendum grein fyrir því að þessi hættulega sýking væri í framleiðsluvörum hans og stefndi hafi engar viðvörunarmerkingar sett á umbúðir um vöruna með þeim afleiðingum, að fjöldi fólks smitaðist af ofangreindri sýkingu vegna þess, að það neytti framleiðslu stefnda.

Því er haldið fram af stefnendum, að það hafi verið vítavert gáleysi af stefnda að láta hjá liða að vara neytendur við ofangreindri smitun þegar stefnda var ljóst, að stór hluti framleiðslu hans var smituð.  Þá halda stefnendur því einnig fram, að það hafi verið vítavert gáleysi af hálfu stefnda að setja ekki sérstakar meðferðarmerkingar á framleiðsluvöru sína til að freista þess að koma í veg fyrir að neytendur yrðu í grandaleysi fyrir smitun vegna ágallans á vörunni, eins og raun varð á um stefnendur og fjölda annarra Íslendinga sumarið 1999.

Ekki komi til greina að stefnendur hafi smitast af öðrum ástæðum en þeim, að þau hafi neytt umræddra kjúklingabita sem voru framleiddir af stefnda.  Ofangreint smit greinist vart í íslensku umhverfi nema í ferskum kjúklingum framleiddum af stefnda. Þau hafi ekki neytt neins annars, sem borið hefði getað í sér "Campylobacter jejuni" smit og því sé óhugsandi, að um aðrar smitleiðir sé að ræða.  Ekki geti verið um krossmengun að ræða í umræddu tilviki. Ljóst sé því, að það séu ofangreindir kjúklingabitar, framleiddir af stefnda, sem hafi valdið því að þau smituðust svo sem gerð sé grein fyrir hér að ofan.

Þá er fullyrt að meiri hluti framleiðslu stefnda á ferskum kjúklingum hafi verið haldin "Campylobacter jejuni" smiti á þessum tíma enda hafi það naumast verið fyrir hendi í íslensku umhverfi nema í framleiðsluvörum stefnda og því haldið fram, að eðlilegt, sé miðað við aðstæður, að stefndi eigi sönnunarbyrðina fyrir því, að umrætt smit stafi ekki af neyslu stefnenda á ofangreindum kjúklingalærum, sem stefndi framleiddi.

Kröfugerð í málinu sé stillt mjög í hóf.  Þannig sé miskabótakrafa aðila mjög lág miðað við þann miska og alvarlegu afleiðingar, sem umrætt smit hafi haft í för með sér fyrir stefnendur.

Lög og réttarreglur sem vísað er til:

Vísað er til almennra ólögfestra reglna skaðabótaréttarins. Þá er vísað til laga um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991, skaðabótalaga nr. 50/1993 m.a. 26. gr. laganna, einnig er vísað til 1. nr. 93/1995 um matvæli og reglugerð nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, einkum 4. gr. og 6. gr. og viðauka sömu reglugerðar nr. 1. -9, einkum viðauki 1. tl. 2.  Vísað er til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um málskostnað er einkum vísað til 1. mgr. 130.gr. laga um meðferð einkamála.  Um varnarþing fari eftir 1. mgr. 32. gr. l. nr. 91/1991 sbr. l. tl. 2. gr. l. nr. 15/1998 um dómstóla.

Af hálfu stefnda er því sérstaklega mótmælt að stefnda hafi verið kunnugt um að fyrrnefnt smit væri algengt í framleiðsluvörum hans er stefnendur sýktust og þeirri fullyrðingu stefnenda, að engar sérstakar varúðar- eða meðferðarmerkingar hafi verið á umbúðum kjúklingsins þegar þau keyptu hann.

Stefndi hafi lagt fram upplýsingar um "campylobakter" sýkilinn í skýrslu dags. í nóvember 1997 sem unnin hafi verið af matvælaeftirlitsstofnun bandaríska landbúnaðarráðuneytisins (Food Safety and Inspection Service United States Department of Agriculture Washington). Í skýrslunni komi m.a. fram eftirfarandi:

· Bakterían er algeng í meltingarvegi ýmissa dýra t.d. í nautgripum, sauðfé, svínum, hundum, köttum, fuglum og jafnvel mönnum.

· Bakterían er mjög viðkvæm og drepst auðveldlega við matseld. Hitaþol hennar er 160° F (70° C).

· Til að minnka hættu á campylobakter-smiti og öðru bakteríusmiti skal m.a. fylgja grundvallarreglum um örugga meðhöndlun matvæla, þar með talið að gegnumsteikja kjöt.  Forðast skal krossmengun með því að gæta hreinlætis og þess að hrátt kjöt komist ekki í snertingu við annan matbúnað eða matvöru.

Stefndi mótmælir því sem ósönnuðu að kjúklingalærin, sem stefnendur kveðast hafa keypt í Nýkaup, haf verið sýkt af campylobakter.  Jafnframt er því mótmælt sem ósönnuðu að orsakatengsl séu á milli sýkingar stefnenda og kaupa þeirra eða neyslu á framleiðsluvöru stefnda.  Engin gögn séu lögð fram til sönnunar um orsakatengslin og engin sýni til af þeirri vöru sem stefnendur telja hafa verið sýkta.

Stefndi reki stærsta kjúklingabú á landinu og fylgi við rekstur þess öllum reglum sem settar séu.  Starfsemi hans sæti m.a. reglulegu eftirliti dýralæknis.  Stefndi hafi lagt sig fram við að eiga gott samstarf við umhverfis- og heilbrigðisyfirvöld og virt öll þau fyrirmæli og athugasemdir, sem fram hafi komið af hálfu yfirvalda á hverjum tíma.

Engin gögn séu lögð fram sem sýna að margnefnd kjúklingalæri, framleidd af stefnda, hafi verið haldin göllum eða kampýlóbaktersýkingu eða að orsakatengsl hafi verið milli sýkingarinnar, sem stefnendur fengu, og kaupa eða neyslu á framleiðsluvöru frá stefnda.  Án sönnunar um slík orsakatengsl geti aldrei orðið um skaðabótaskyldu að ræða, sbr. almennu skaðabótaregluna og 6. gr. laga um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991.  Því er sérstaklega mótmælt að heimild sé til þess að snúa sönnunarbyrði við í þessu máli. Fyrir því sé engin lagastoð.

Í öðru lagi er það skoðun stefnda að þótt kjúklingar eða önnur matvara reynist smituð af kampýlóbakter sé það ekki ágalli, eins og hugtakið er skilgreint í 5. gr. laganna nr. 25/1991.  Þar sé miðað við að vara teljist haldin ágalla þegar hún er ekki svo örugg sem vænta mátti eftir aðstæðum.  Við mat á aðstæðum skal litið til þess hvernig varan var boðin og kynnt og þeirrar notkunar sem með sanngirni mátti gera ráð fyrir.

Stefndi telur að það sé almenn vitneskja, sem þurfi ekki sérstakrar kynningar við, að kjötvörur megi ekki meðhöndla hvernig sem er.  Það sé vitað að bakteríur sæki í kjöt og að aldrei sé hægt að útiloka að bakteríur leynist í hráu kjöti.  Við matreiðslu á hráu kjöti, ekki síst kjúklingakjöti, beri að gæta þrifnaðar, gæta þess að útiloka krossmengun og matreiða kjötið þannig að hugsanleg kampýlóbaktermengun eða önnur hugsanleg bakteríusýking geti ekki valdið tjóni.  Kampýlóbakter sé viðkvæmur og valdi ekki tjóni ef grundvallarreglum við matreiðslu er fylgt, eins og áður segir.

Hafa beri í huga að kampýlóbakter sé umhverfisvandamál sem framleiðendur kjúklinga verði að lifa við.  Hvorki hér á landi né í öðrum löndum hafi fundist leiðir til þess að tryggja að kjúklingaframleiðsla sé með öllu laus við kampýlóbaktersmit. Enginn framleiðandi kjúklinga hér á landi hafi sloppið við að smit fyndist í framleiðslu frá honum.  Það sé almenn vitneskja að hráu kjúklingakjöti fylgir sýkingarhætta og heilbrigðisyfirvöld hafi hvergi í heiminum treyst sér til þess að setja reglur sem banna dreifingu kjúklingakjöts þótt það kunni að vera smitað af þessari bakteríu.  Viðleitnin hafi alls staðar verið sú að reyna að draga úr hættunni eins og kostur er og gera neytendur meðvitaða um nauðsyn þess að meðhöndla vöruna rétt fyrir neyslu.

Þá vísar stefndi til 9. gr. lagan nr. 25/1991.  Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að lækka eða fella niður bætur ef tjónþoli er meðvaldur að tjóni af ásetningi eða gáleysi.  Verði sýnt fram á orsakatengsl milli kampýlóbaktersýkingar stefnenda og neyslu á kjúklingalærum unnum af stefnda, blasi við að þau hafi ekki gætt að grundvallaratriðum við matseld kjötsins, þ.e. hreinlætis og þess að gegnumsteikja kjötið.  Með því hefðu þau útilokað að tjón gæti af hlotist.  Jafnframt sé ljóst að stefnendur hafi ekki fylgt leiðbeiningunum um matreiðslu á umbúðum kjötsins.  Gáleysi þeirra hafi því verið stórfellt.  Af þeirri ástæðu geti þau ekki átt rétt til skaðabóta úr hendi stefnda.

Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 93/1995 um matvæli eða reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti. Staðhæfingar stefnanda um brot séu órökstuddar og sönnunargögn ekki lögð fram. Bent er á að þó svo að slíkt brot teldist sannað, þá leiði það eitt ekki til bótaréttar stefnenda á hendur stefnda.

Málsvarnir stefnda byggjast á meginreglum skaðabótaréttarins og ákvæðum laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda, telur stefndi að lækka beri dómkröfur stefnenda verulega. Vísast um það til framangreinds um stórfellda eigin sök stefnenda. Þá gerir stefndi eftirtaldar athugasemdir við einstaka kröfuliði stefnenda:

1. Stefndi gerir ekki tölulega athugasemd við kröfu stefnenda vegna útlagðs kostnaðar.

2. Miskabótakröfu stefnenda er sjálfstætt mótmælt þar sem undir engum kringumstæðum séu huglæg lagaskilyrði til að dæma miskabætur í máli þessu.  Vísist um þetta til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Minnt sé á, að er hið meinta bótaskylda atvik eigi að hafa átt sér stað höfðu lög nr. 37/1999 um breytingu á skaðabótalögunum ekki tekið gildi, en með 13. gr. þeirra laga hafi verið slakað á skilyrðum til greiðslu miskabóta frá því er áður giltu.

3. Kröfu um 77.000 krónur til handa stefnanda Ými vegna tímabundins atvinnutjóns hans er mótmælt.  Engin gögn séu lögð fram til stuðnings kröfunni og hið meinta tjón því alveg ósannað.  Að auki sé tjónið of fjarlægt og uppfylli ekki kröfur um sennilega afleiðingu.

Kröfu stefnda um málskostnað úr hendi stefnenda reisir hann á 130. gr. laga nr. 91/1991.

NIÐURSTAÐA

Af hálfu stefnenda hefur verið lagt fram ljósrit kvittunar fyrir vörur keyptar 24. apríl 1999 í versluninni Nýkaup, Eiðistorgi 11, þar á meðal Holta ferskt Texaslæri.  Þá hafa verið lagðar fram niðurstöður rannsóknar sem sýndu að stefnendur höfðu sýkst af Camfylobacter jejuni.

Telur dómurinn að sýnt sé fram á að stefnendur keyptu vöru framleidda af stefnda og neyttu hennar og í framhaldi af þeirri neyslu greindust þau með fyrrnefnda sýkingu.

Á umbúðum um kjúklingalæri þau sem stefnendur keyptu var miði þar sem á stóð m.a. KJÚKLINGALÆRI TEXAS KRYDDUÐ - FRÁBÆR Í OFNINN - EÐA Á GRILLIÐ.  Þá var á miða þessum svofelld áletrun, með smærra letri en ofangreindur texti, en þó greinileg og læsileg.  "GÆTIÐ ÞESS AÐ HRÁTT KJÚKLINGAKJÖT OG VÖKVI ÚR ÞVÍ KOMIST EKKI Í SNERTINGU VIÐ AÐRA MATVÖRU, MATREIÐSLUÁHÖLD OG BÚNAÐ, KJÖTIÐ SKAL GEGNUMSTEIKJA EÐA SJÓÐA.  Af leiðbeiningum þessum um notkun vörunnar er ljóst að stefnendum, eða þeim sem matreiddi vöruna, bar að gæta varúðar við matreiðsluna þ.e. annaðhvort gegnumsteikja hana eða sjóða.   Í yfirliti frá Food Safety and Inspection Service í Bandaríkjunum um Campylobacter sem liggur frammi í málinu kemur fram að til þess að tryggja að sýkillinn drepist, sé kjúklingur grillaður, skuli þess gætt að hitastig sé 180° F en því hitatigi hefði verið náð með því að gegnumsteikja eða sjóða umrædd kjúklingalæri.

Samkvæmt þessu verður á því byggt hér að vara sú er stefnendur keyptu 24. apríl 1999 hafi verið merkt með þeim hætti að þeim sem matreiddi hana hafi mátt vera ljóst að rík ástæða væri til þess að gæta réttra aðferða við matreiðslu hennar.  Telur dómurinn að mjög sterkar líkur séu fyrir því leiddar að sýking hafi komið frá kjúklingalærum þeim sem stefnendur neyttu en að neysla þeirra hefði ekki leitt til sýkingar þeirrar sem stefndu urðu fyrir umrætt sinn hefði verið staðið rétt að matreiðslu hennar og hún farið fram í samræmi við ábendingar framleiðanda.

Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi Reykjagarður, skal sýkn af öllum kröfum stefnenda, Hildar Guðjónsdóttur og Ýmis Vésteinssonar.