Hæstiréttur íslands

Mál nr. 140/2000


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Hjón
  • Kaupmáli
  • Riftun


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. október 2000.

Nr. 140/2000.

Anna Eiríksdóttir

(Jón Hjaltason hrl.)

gegn

þrotabúi Páls Pálssonar

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

                                     

Gjaldþrotaskipti. Hjón. Kaupmáli. Riftun.

Á árinu 1991 keypti P ásamt fleirum nokkrar fasteignir af F þar sem þeir síðan ráku veitinga- og gistihús. Greiddu þeir hluta kaupverðsins með því að gefa út tvö skuldabréf og voru þau tryggð með fyrsta veðrétti í umræddum fasteignum. Á árinu 1995 hætti P þáttöku í rekstrinum og seldi einum sameigandanum sinn hlut í fasteignunum. Fasteignirnar voru seldar nauðungarsölu í mars 1998 og lýsti F í einu lagi kröfum samkvæmt báðum skuldabréfunum. Keypti F fasteignirnar og fékk greiddan tæpan helming krafna sinna og krafði síðar P og samskuldara hans um greiðslu þess sem uppá vantaði. Var bú P tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu F í júní 1998 og frestdagur við skiptin 15. maí sama árs. P og A gengu í hjúskap í nóvember 1997. Höfðu þau gert kaupmála í september sama ár þar sem íbúð og bifreið P voru gerð séreign A. Höfðaði þrotabú P mál til að fá þeim ráðstöfunum rift á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ekki var fallist á þá málsástæðu A að krafa um riftun kaupmálans væri ótímabær. Þá var talið að 131. gr. laga nr. 21/1991 næði almennt til riftunar á gjafagerningum þrotamanns óháð því hvort gjöf væri afhent með kaupmála eða með öðrum hætti og skipti þá ekki máli hvort gjöf væri afhent með kaupmála, sem gerður væri fyrir eða eftir stofnun hjúskapar. Með hliðsjón af því að skuldir þær sem P var í ábyrgð fyrir voru gjaldfallnar þegar kaupmáli P og A var gerður og að ekki var talið að sýnt hefði verið fram á að P hefði þá verið gjaldfær var skilyrðum 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 talið fullnægt og kröfur þrotabúsins um riftun teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen og Páll Sigurðsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2000 og krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að riftun nái einungis til helmings þeirra eigna, sem krafa stefnda beinist að. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Á árinu 1991 keypti Páll Pálsson og þrír bræður hans í sameiningu af Ferðamálasjóði nokkrar fasteignir í Vestmannaeyjum, þar sem þeir ráku síðan veitinga- og gistihús undir nafninu Hótel Bræðraborg. Greiddu þeir hluta kaupverðsins með því að gefa út tvö skuldabréf 20. maí 1991. Var annað þeirra að fjárhæð 20.000.000 krónur en hitt 332.336,32 bandaríkjadalir. Skuldabréfin voru tryggð með fyrsta veðrétti í hinum seldu eignum. Á árinu 1995 mun Páll hafa hætt þátttöku í rekstrinum og selt einum sameigandanum sinn hlut í fasteignunum.

Fasteignirnar voru seldar nauðungarsölu við uppboð 11. mars 1998. Við uppboðið lýsti Ferðamálasjóður í einu lagi kröfum samkvæmt skuldabréfunum tveimur frá 20. maí 1991, sem hann kvað alls nema 54.026.252 krónum. Keypti sjóðurinn hluta fasteignanna við uppboðið fyrir 23.500.000 krónur, en að teknu tilliti til uppgjörs sölulauna og lögveðskrafna fékk hann með þessum kaupum samtals 23.718.345 krónur greiddar upp í áðurnefndar kröfur. Miðað við áðurnefnda kröfulýsingu skorti því 30.307.907 krónur á að Ferðamálasjóður fengi við nauðungarsöluna fullnustu á kröfum sínum, sem voru tryggðar með veði í fasteignunum. Eftir nauðungarsöluna hefur Ferðamálasjóður krafið Pál Pálsson og samskuldara hans um greiðslu á fjárhæðinni. Að kröfu Ferðamálasjóðs var bú Páls tekið til gjaldþrotaskipta 30. júní 1998, en frestdagur við skiptin er 15. maí sama árs.

Eins og rakið er í héraðsdómi gengu áfrýjandi og Páll Pálsson í hjúskap 8. nóvember 1997. Höfðu þau 9. september sama árs gert kaupmála, þar sem íbúð Páls að Kleppsvegi 44 í Reykjavík og bifreið hans, PS 967, voru gerð að séreign áfrýjanda. Í máli þessu leitar stefndi eftir því að fá þessum ráðstöfunum rift.

II.

Áfrýjandi reisir kröfu sína meðal annars á því að kröfugerð stefnda sé ótímabær. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hennar hálfu vísað til þess að með stefnu 5. september 2000 hafi Páll Pálsson og bræður hans höfðað mál gegn Ferðamálasjóði og krafist meðal annars að viðurkennt yrði að sjóðnum bæri að fella alveg niður kröfu sína að fjárhæð 30.307.907 krónur á hendur þeim, en kröfunni hafi verið lýst við gjaldþrotaskipti á búum þriggja þeirra. Sé sú málshöfðun á því reist að eignir, sem sjóðurinn keypti við áðurnefnda nauðungarsölu, hafi verið mun meira virði en kaupverðinu nam. Vegna ákvæða 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu beri að færa niður kröfu Ferðamálasjóðs vegna mikils hagnaðar, sem hann hafi hlotið við það að kaupa fasteignirnar á svo lágu verði, sem raunin hafi orðið á. Þar til niðurstaða fáist í því máli verði ekki krafist riftunar kaupmála áfrýjanda og Páls, þar sem engin raunveruleg krafa sé fyrir hendi.

Af hálfu Páls Pálssonar og bræðra hans hefur tvívegis áður verið höfðað mál í því skyni að fá dóm um þá kröfu, sem að framan er getið. Í bæði skiptin var málum þeirra vísað frá héraðsdómi, sbr. dóma Hæstaréttar 9. desember 1999 í máli nr. 259/1999 og 15. júní 2000 í máli nr. 230/2000. Af hálfu stefnda hefur nú verið lagt fram bréf skiptastjóra stefnda til lögmanns Ferðamálasjóðs 10. júlí 2000. Er þar vísað til bréfs hins síðarnefnda þar sem fram komi að Ferðamálasjóður hafi hinn 10. maí 2000 selt umræddar fasteignir auk innbús fyrir samtals 22.000.000 krónur. Getur skiptastjórinn þess jafnframt að hann hafi fyrir hönd stefnda samþykkt áðurnefnda málshöfðun gegn Ferðamálasjóði, en efnisdómur í því muni þá jafnframt leysa úr ágreiningi, sem lúti að kröfu Ferðamálasjóðs gagnvart stefnda. Lýsir skiptastjórinn því yfir í bréfinu að hann viðurkenni kröfu sjóðsins á hendur stefnda eftir að leiðrétting hafi verið gerð á henni með 30.355.241 krónu. Áður hafði hann samþykkt mun lægri fjárhæð, en sú afstaða var á því reist að verðmæti eignanna hafi verið verulega hærra en nam kaupverðinu, sem sjóðurinn eignaðist þær fyrir við nauðungarsöluna.

Í 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 er þeim, sem kann að verða krafinn í kjölfar nauðungarsölu um ófullnægðar eftirstöðvar veðkröfu, heimilað að höfða mál á hendur kaupanda til að fá þær færðar niður. Þótt þeirrar heimildar sé neytt, svo sem á við hér, getur það ekki skotið loku fyrir að kröfuhafinn neyti lögmæltra úrræða til að innheimta eftirstöðvar kröfu sinnar. Hann verður hins vegar að bera ábyrgð á þeim aðgerðum, sem gripið er til í því skyni. Sú aðstaða er hér fyrir hendi fari svo að krafa Páls Pálssonar og samskuldara hans verði tekin til greina. Að þessu virtu verður ekki fallist á þá málsástæðu áfrýjanda að krafa stefnda um riftun kaupmála hennar og Páls Pálssonar hafi verið ótímabær.

III.

Stefndi reisir kröfu sína um riftun kaupmálans á 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Telur hann ljóst að Páll Pálsson hafi afhent áfrýjanda íbúð þá og bifreið, sem um ræðir í málinu, innan þeirra tímamarka fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti í búi gefandans, sem um ræðir í greininni. Sé um að ræða afhendingu eigna milli nákominna, sbr. 3. gr. áðurnefndra laga. Ekki sé í ljós leitt að þrotamaður hafi verið gjaldfær við afhendingu eignanna.

Til stuðnings sýknukröfu heldur áfrýjandi fram að ekki sé fyrir hendi nein krafa Ferðamálasjóðs á hendur eiginmanni hennar. Að minnsta kosti hafi svo ekki verið þegar kaupmálinn var gerður. Eiginmaður hennar hafi því verið gjaldfær þá og það þrátt fyrir afhendingu eignanna. Þá leiði ákvæði 73. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 til þess að gjöfinni verði ekki rift, en samkvæmt því eigi kröfuhafar þess kost að rifta gjafagerningi milli hjóna. Sú aðstaða sé ekki fyrir hendi hér, enda hafi kaupmálinn verið gerður áður en áfrýjandi gekk í hjúskap með áðurnefndum Páli.

Ákvæði 131. gr. laga nr. 21/1991 nær almennt til riftunar á gjafagerningum þrotamanns óháð því hvort gjöf er afhent með kaupmála eða öðrum hætti. Skiptir þá ekki máli hvort gjöf er afhent með kaupmála, sem gerður er fyrir eða eftir stofnun hjúskapar, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1976, bls. 730. Verður 73. gr. laga nr. 31/1993, sbr. einnig 72. gr. sömu laga, ekki skýrð svo að hún takmarki á nokkurn hátt þá almennu heimild þrotabús, sem felst í 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 til að krefjast riftunar á gjöfum þrotamanns.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var því hreyft af hálfu áfrýjanda að framlög með vinnu á heimili hennar og þrotamanns beri að meta nokkurs þegar litið sé til þess hvernig þeirra eigna var aflað, sem deila málsaðila snýst um. Var því mótmælt af hálfu stefnda að þessi nýja málsástæða kæmist að í málinu. Verður henni þegar af þeirri ástæðu ekki sinnt.

Varakrafa áfrýjanda er engum haldbærum rökum studd og verður hún ekki tekin til greina.

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans staðfest um annað en málskostnað. Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Anna Eiríksdóttir, greiði stefnda, þrotabúi Páls Pálssonar, samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 14. febrúar 2000.

 

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 6. febrúar 1999.

Stefnandi er þrotabú Páls Pálssonar, kt. 250266-­3169, Kleppsvegi 44 í Reykjavík.

Stefndi er Anna Eiríksdóttir, kt. 081161-3649, Kleppsvegi 44 í Reykjavík.

Þess er krafist að rift verði kaupmála stefndu og eiginmanns hennar, Páls Pálssonar, kt. 250266-3169, dagsettum og innfærðum í kaupmálabók 9. september 1997, og að viðurkennt verði að þær eigur sem kaupmálinn fjallar um eða aðrar sem komið hafa í stað þeirra, séu hjúskapareignir eiginmanns stefndu, Páls Pálssonar. Þess er krafist að stefnda afhendi stefnanda íbúð að Kleppsvegi í Reykjavík (íbúð 201-6364) og bifreiðina PS 967. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og henni dæmdur málskostnaður að mati dómsins.

 

MÁLSATVIK OG MÁLSÁSTÆÐUR

Á miðju ári 1990 stofnaði Páll Pálsson, eiginmaður stefndu, og þrír bræður hans sam­eignarfélagið Hótel Bræðraborg og skyldi félagið standa að hótelrekstri. Samkvæmt til­kynningu til firmaskrár Vestmannaeyja, dags. 14. ágúst 1995, sagði Páll sig þá úr sam­eignarfélaginu. Þá námu kröfur á félagið frá annars vegar Karli Kristmanns, kt. 450271­0129, og hins vegar frá H. Sigurmundssyni ehf., kt. 500670-0299, samtals 1.919.695 krónum auk dráttarvaxta að hluta frá júlímánuði 1994. Í tengslum við reksturinn tókst Páll persónulega á hendur sjálfsskuldarábyrgð vegna lántöku hjá Ferðamálasjóði í maí 1991, að fjárhæð annars vegar 20.000.000 króna og hins vegar USD 332.336,32. Skuldabréf Ferðamálasjóðs skyldu greiðast með 38 jöfnum afborgunum, tveimur á ári, í fyrsta sinn á árinu 1992. Ekki var greitt af bréfunum frá síðari hluta árs 1993.

Hinn 9. september 1997 gerðu Páll og stefnda með sér kaupmála vegna hjúskapar­stofnunar þeirra. Skyldi íbúð Páls að Kleppsvegi 44 í Reykjavík, ásamt öllu múr- og naglföstu sem íbúðinni fylgdi og fylgja bæri með tilheyrandi lóðarréttindum og mannvirkjum á lóð, svo og arður af þeirri eign, verða séreign stefndu. Þá skyldi bifreiðin PS 967, Hyundai 1994, einnig verða séreign stefndu. Kaupmálinn var innfærður sama dag hjá sýslumanninum í Reykjavík og fékk númerið S 282. Páll Pálsson og stefnda gegnu síðan í hjúskap 8. nóvember 1997.

Páll Pálsson lýsti yfir eignaleysi fyrir fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík hinn 7. apríl 1998 og var hann úrskurðaður gjaldþrota 30, júní 1998. Frestdagur við skiptin er 15. maí 1998. Í skýrslutöku hjá skiptastjóra 10. júlí 1998, kom fram að hann hefði keypt íbúð að Kleppsvegi 44 um það leyti sem þau hjón byrjuðu saman og hafi íbúðin hér um bil verið staðgreidd með skyldusparnaði o.fl. Þá kom fram að bifreiðin PS 967 hafi verið skráð á Pál fyrir gerð kaupmálans.

Á skattframtali ársins 1997 vegna eigna í lok árs 1996 voru eignir Páls og stefndu til­greindar alls 6.270.200 króna, þar af íbúðin að Kleppsvegi 44, 4.936.000 krónur og bifreiðin PS 967, 630.000 krónur. Aðrar eignir þeirra námu 704.200 krónum. Skuld við Lánasjóð íslenskra námsmanna nam 374.568 krónum. Á skattframtali ársins 1998 vegna eigna í lok árs 1997 voru eignir hjónanna tilgreindar alls 6.313.000 krónur, þar af íbúðin að Kleppsvegi 44, 5.107.000 krónur, og bifreiðin PS 967 567.000 krónur. Aðrar eignir þeirra námu 639.000 kr. Skuld við Lánasjóð íslenskra námsmanna nam 350.304 krónur.

Íbúðina að Kleppsvegi 44 keypti Páll af Páli Helgasyni 12. október 1987 á 1.950.000 krónur. Skuld við Pál Helgason er á skattframtölum Páls Pálssonar tilgreind 900.000 krónur í árs­lok 1987, 900.000 krónur í árslok 1988, 650.000 krónur í árslok 1989 og í árslok 1990 en 500.000 krónur í árslok 1991. Sú fjárhæð er óbreytt í árslok 1992, 1993 og 1994 en hefur verið greidd á árinu 1995. Samkvæmt því sem fram kemur á skattframtali ársins 1996 var skuldin greidd með sölu spariskírteina ríkissjóðs og bréfa í VÍB, sjóði 1. Samkvæmt upplýsingum annars vegar frá Lánasýslu ríkisins og hins vegar frá Verðbréfasjóði Íslandsbanka voru umrædd verðbréf í eigu Páls Pálssonar en ekki stefndu. Bifreiðin PS 967 var einnig keypt með söluandvirði bréfanna, a.m.k. að hluta til.

Stefnda og Páll Pálsson töldu fram saman til skatts frá og með gjaldárinu 1995 vegna tekna ársins 1994 og eigna í lok þess árs. Einu tekjur stefndu á árinu 1994 voru atvinnu­leysisbætur og námu þær 103.921 krónu en launatekjur Páls námu það ár 1.341.475 krónum. Á ár­inu 1995 er einnig verulegur mismunur á tekjum stefndu, sem hafði samtals 338.379 krónur í tekjur, og Páls, sem hafði 1.212.450 krónur í tekjur.

Samkvæmt þessu stóð Páll Pálsson einn að kaupum íbúðarinnar að Kleppsvegi 44 og bifreiðarinnar PS 967 og voru þessar eignir skráðar á hans nafn.

Hinn 11. júlí 1998 sendi skiptastjóri stefndu skeyti þar sem fram kom að kaupmáli hennar og Páls kynni að vera riftanlegur á grundvelli 20. kafla laga um gjaldþrotaskipti. Í kjölfar samtala við lögmann Páls sendi skiptastjóri honum og stefndu bréf, dags. 8. októ­ber 1998, þar sem skorað var á þau að samþykkja sjálf riftun kaupmálans svo ekki þyrfti að koma til málshöfðunar eða annarra eftirmála. Ekkert svar hefur borist frá stefndu út af þessu en lögmaður Páls hefur tekið fram í símtölum að málshöfðun sé óumflýjanleg.

Stefnandi vísar til XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 2. mgr. 131. gr. Um málskostnað vísast til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um virðisaukaskattsskyldu á málskostnað er vísað til laga nr. 50/1988, um virðisauka­skatt, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur samkvæmt þeim lögum.

 

Af hálfu stefndu er því haldið fram að hún hafi lagt til fé til kaupa á bifreiðinni PA 967 enda komi fram á skattframtali þeirra Páls á árinu 1995 að seld hafi verið bréf frá Verðbréfasjóði Íslandsbanka og spariskírteini ríkissjóðs vegna kaupa á bíl og greiðslu lána. Sé því fráleitt að rifta kaupmálanum hvað bifreiðina snerti.

Kaupmálinn hafi verið um eiginir sem aðilar hans hafi eignast á sambúðartíma frá 1985 til 1997 og skáðar hafi verið á nafn Páls Pálssonar m.a til þess að tryggja framatíð barna þeirra.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að ákvæði 2. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti eigi ekki við hér þar sem ákvæðið geri ráð fyrir því að vilji þrotamanns standi til þess að skjóta eignum undan skiptum.

Þá er á því byggt að í ákvæðum 72. gr. og 73. gr. laga nr. 31/1993 um stofnun og slit hjúskapar felist að kaupmáli fyrir giftingu sé ekki riftanlegur af kröfuhöfum.

Þá sé í kröfu Ferðamálasjóðs um gjaldþrotaskipti á búi Páls Pálssonar sagt að skuld hans við sjóðinn hafi numið 20.774.779 krónum 7. maí 1998. Sé ekki skýrt hvernig Ferðamálasjóður geti lýst kröfu í þrotabúið að fjárhæð 33.688.749 krónur. Er því haldið fram að Ferðamálsjóður eigi naumast kröfu á hendur stefnanda með því að sjóðurinn hafi með kaupum á uppboði fengið öllum kröfum sínum fullnægt samkvæmt reglum 57. gr. laga um nauðungarsölu.

Þá var því haldið fram við munnlegan flutning málsins að riftun sé ekki tímabær meðan ekki liggi fyrir hvort Ferðamálasjóður eigi kröfur á hendur stefnanda. Er því haldið fram að málatilbúnaður Ferðamálasjóðs hendur þrotamanni, Páli Pálssyni sé haldin ágöllum þannig að grundvöllur gjaldþrotaskiptanna sé ekki traustur.

 

NIÐURSTAÐA

Í málinu kemur fram að Ferðamálasjóður höfðaði mál á hendur Páli Pálssyni og þremur bræðrum hans til innheimtu kröfu samkvæmt skuldabréfi upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna en bréf þetta var fallið í gjalddaga samkvæmt efni sínu frá og með 20. desember 1993. Stefnukrafa máls þessa var 17.673.995 krónur og voru kröfur samkvæmt því gerðar aðfararhæfar gagnvart stefndu með áritun 19. desember 1998. Þrotamaður var sjáfskuldarábyrgðarmaður á nefndri skuld. Þá kemur og fram að þrotamaður var sjálfskuldarábyrgðarmaður fyrir skuld til Ferðamálsajóðs að fjárhæð 332.336,32 bandaríkjadalir og að sú skuld er í vanskilum. 

Við aðalmeðferð málsins kom fram að skiptastjóri hefur ekki tekið afstöðu til kröfu Ferðamálaráðs í þrotabúið sem er samkvæmt framangreindri áritaðri stefnu og vegna ofangreindrar skuldar í bandaríkjadölum.  Hins vegar eru viðurkenndar kröfur sem lýst hefur verið í búið að fjárhæð 1.919.695 krónur.

Í lok þess árs er kaupmáli var gerður með stefndu og Páli Pálssyni þ.e. 1997 voru eignir Páls og stefndu samkvæmt skattframtali þeirra 6.313.000 krónur en skuldir 350.304 krónur. Hins vegar voru framangreindir skuldir við Ferðamálsjóð, sem Páll Pálsson var sjálfskuldarábyrgðarmaður að, þá fallnar í gjalddaga og víðsfjarri að hann hafi þá verið fær um að greiða kröfur á hendur sér ef eftir hefði verið gengið og reyndar komið fram að tilefni gjaldþrots Páls var greiðslufall á kröfu Ferðamálasjóðs.

Með bréfi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. ágúst 1998 var synjað um endurupptöku ofangreinds máls Ferðamálasjóðs á hendur Páli Pálssyni og fjárnamsgerð í kjölfar áritunar var ekki skotið til dómstóla. Þá var úrskurði um gjaldþrotaskipti 30. júní 1998 unað. Þrotamaður, Páll Pálsson, lýsti því við skiptastjóra er sá síðarnefndi tók af honum skýrslu 10. júlí 1998 að hann væri eignalaus. Þá lýsti hann því við aðfarargerð sem fram fór hjá honum 7. apríl 1998 að hann ætti engar eignir og lauk fjárnámi án árangurs. Á grundvelli þessarar aðfarargerðar var bú Páls Pálssonar tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1998.              

Framangreindar úrlausnir sæta ekki endurskoðun hér. Samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti var skiptastjóra rétt að höfða mál þetta og er ekki fallist á það með stefndu að riftunarkrafa stefnanda sé ekki tímabær.

Eignir þær, sem ráðstafað var til stefndu með kaupmála þeim sem hér er krafist riftunar á, voru skráðar eignir þrotamanns á meðan þau stefnda voru í sambúð og er ekki sýnt fram á það af stefndu að hún hafi eignast hlutdeild í þeim með framlagi til öflunar þeirra. Fól því ráðstöfun þrotamanns á eignum þessum í sér gjafagerning í skilningi framagreinds ákvæðis.

Eins og að framan greinir hafði þrotamaður gengið í ábyrgð fyrir skuldum sem skiptu tugum milljóna og voru gjaldfallnar er kaupmáli aðila var gerður þann 9. september 1997 og með því að ekki er sýnt fram á að hann hafi verið gjaldfær þá og frestur sá er greinir í 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 var ekki liðinn, er skilyrðum ákvæðsins fullnægt og verða því kröfur stefnanda teknar til greina að öllu leyti og eftir úrslitum málsins verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað og er þá litið til reglna um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

 

DÓMSORÐ

                Kaupmála stefndu Önnu Eiríksdóttur og Páls Pálssonar frá 9. september 1997 er rift. Stefnda afhendi stefnanda, þrotabúi Páls Pálssonar, íbúð 201-6364 að Kleppsvegi 44 og bifreiðina PS 967.

                Stefnda greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.