Hæstiréttur íslands
Mál nr. 589/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 7. september 2012. |
|
Nr. 589/2012.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Stefán Eiríksson lögregslustjóri) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. september 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. september 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. október 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. september 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði kærða, X, kt. [...], til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. október 2012 kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að laugardaginn 28. júlí sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að maður hefði verið stunginn með hníf við Laugaveg í Reykjavík, til móts við Fíladelfíukirkjuna, en árásarmaðurinn eða mennirnir hefðu hlaupið á brott. Brotaþolinn, A, hafi reynst vera með skurði á baki og stungusár á síðu og hafi hann verið fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar. Við [...] í Reykjavík hafi lögregla veitt athygli tveimur mönnum en annar þeirra, kærði, hafi reynst vera með djúpan skurð á hendi sem talsvert blæddi úr og hafi mátt rekja blóðslóð hans frá árásarvettvangi norður [...] og að [...].
Kærði neiti hvorki né játi. Sagðist hann ekki muna atburðarrásina vel enda hefði hann verið mjög ölvaður. Sagðist hann hafa verið í gleðskap að [...] en síðan farið út og þar lent í slagsmálum við brotaþola. Sagði hann annan hvorn þeirra hafa dregið upp hníf í slagsmálunum en sjálfur sagðist kærði almennt ekki ganga um með hníf á sér. Kærði segist hafa flúið af vettvangi en sagðist ekki muna hvað hann hefði gert við hnífinn. Sagðist hafa farið að [...] og hitt þar kunningja sína sem hafi ætlað að keyra honum á sjúkrahús til aðhlynningar. Lögreglan hafi hins vegar komið áður og hann reynt að hlaupa undan henni. Aðspurður hafi hann ekki getað skýrt hversvegna hann hafi reynt að komast undan lögreglu. Þegar kærði hafi verið spurður að hvort það hefðu verið fleiri en hann og brotaþoli sem hafi tekist á sagðist hann ekki vita það. Kærði hafi neitað að hafa haft í hótunum við brotaþola og sagði brotaþola hafa byrjað slagsmálin með því að hafa kýlt sig í höfuðið.
Í skýrslu sem tekin hafi verið af brotaþola meðan hann hafi legið á sjúkrahúsi þann 29. júlí sl. sagðist brotaþoli lítið muna eftir því hvað gerðist. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 7. ágúst sl. hafi brotaþoli skýrt frá því að hann hefði verið á leið heim úr gleðskap þegar hann hafi heyrt kærði segja: „Ég drep þig“ og í kjölfarið hafi kærði stungið sig í vinstri síðuna. Brotaþoli hafi beðið kærða að hætta en þá hefði hann ráðist á sig og lagt hnífinn að hálsi hans en brotaþoli hafi náð að víkja undan og því aðeins hlotið rispur á hálsinum. Þá hafi kærði skorið brotaþola í bakið. Skyndilega hafi móðir brotaþola byrst og öskrað á kærða að hætta og þá hafi kærði flúið af vettvangi. Brotaþoli hafi skýrt frá því að fyrir árásina hefði kærði hótað að „stúta honum“.
Í áverkavottorði B yfirlæknis á LSH sé því líst að brotaþoli hafi hlotið opið sár á brjósti eftir hnífstungu, blæðingu í vinstra brjóstholi og loftbrjóst. Þá hafi hann verið með yfirborðsskurð langsum eftir hryggsúlunni vinstra megin og skrámur á hálsi vinstra megin. Í vottorði B sé tekið fram að stunga yfir hjarta í gegnum lunga sé lífshættulegur áverki þótt í þessu tilviki hafi stungan ekki náð svo djúpt að valda skaða á hjarta eða ósæð.
Vitnið C, móðir brotaþola, hafi óvænt verið stödd í námunda við [...] þegar hún sá brotaþola koma gangandi. Hún hafi séð annan strák hinum megin við götuna, sem hafi öskrað á brotaþola að koma til sín. Strákurinn hafi síðan hlaupið yfir til brotaþola og slegið og sparkað í hann og hafi hann dottið í jörðina. Þá hafi hún orðið vör við að strákurinn hafi verið með stóran hníf í hendinni. Sagðist vitnið hafa öskrað á strákinn að láta brotaþola í friði en strákurinn hafi þá hlaupið í burtu.
Vitnin D og E sögðust hafa farið í partý í [...] en þar hafi m.a. verið kærði og brotaþoli. D sagði strákana hafa rifist og síðan hafi þeir farið út. Stuttu síðar hafi kærði komið hlaupandi inn alblóðugur á hendi og annar á eftir honum. Kærði hafi hlaupið inn á klósett án þess að segja neitt en stuttu eftir það hafi D fundið 20 cm tenntan hníf í vaskinum á klósettinu sem hún hafi vafið í viskastykki og sett upp á skáp. E hafi hins vegar ætlað að keyra kærða á sjúkrahús en þau hafi verið stöðvuð af lögreglu. D hafi vísað lögreglu á hnífinn og viðurkennt í skýrslutöku að hafa þrifið blóð á vettvangi.
Vegna rannsóknar málsins hafi verið haldlagðir tveir hnífar. Annars vegar tenntur hnífurinn sem hafi fundist í skúffuhillum á gangi íbúðarinnar við [...] og hins vegar búrhnífur sem hafi fundist úti í garði sunnanmegin við [...]. Ætla megi að tennti hnífurinn sé sá sem notaður hafi verið við árásina.
Við rannsókn tæknideildar LRH á fatnaði brotaþola hafi fundist blettir sem hafi gefið jákvæða svörun við LMG blóðprófi og ABA Hematrace staðfestingarprófi. Sömuleiðis hafi fundist blettir á fatnaði kærða sem hafi gefið jákvæða svörum við LMG blóðprófi og ABA Hematrace staðfestingarprófi og hafi því verið um að ræða mennskt blóð í báðum tilvikum. Sýnin hafi verið send til DNA rannsóknar hjá Statens Kriminalteknisk Laboratorium í Svíþjóð og sé niðurstöðu þeirra rannsóknar beðið. Að öðru leiti sé rannsókn málsins lokið og verði málið sent Ríkissaksóknara á næstu dögum.
Í framhaldi af handtöku kærða hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðahald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b- liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Kærði sæti nú gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 399/2012 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr. 539/2012.
Kærði liggi nú undir sterkum grun um að hafa ráðist á brotaþola án nokkurrar ástæðu og veitt honum áverka sem hefðu hæglega geta dregið brotaþola til dauða. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærði er hættulegur umhverfi sínu og sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Brot kærða sé talið varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga og kunni því að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til framlagðra gagna og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 539/2012 er á það fallist að kærði sé undir sterkum grun um aðild að afbroti sem að lögum getur varðað tíu ára fangelsi. Þá verður að telja að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt og verður krafa sóknaraðila því tekin til greina eins og hún er fram sett.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. október 2012 kl. 16.00.