Hæstiréttur íslands

Mál nr. 377/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


                                            

Mánudaginn 8. júní 2015.

Nr. 377/2015.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Framsal sakamanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Póllands var staðfest. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2015, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 13. febrúar sama ár um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að uppfyllt séu skilyrði laga nr. 13/1984 fyrir framsali varnaraðila til Póllands. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

                                                         Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2015.

                Sóknaraðili krefst staðfestingar á ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 13. febrúar 2015 um að framselja varnaraðila X til Póllands.

                Varnaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins um framsal varnaraðila verði hafnað. Réttargæsluþóknunar er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.

                Í greinargerð sóknaraðila, dagsettri 10. mars 2015, segir meðal annars svo:

                „Upphaf málsins má rekja til eftirlýsingar pólskra yfirvalda í Schengen-upplýsingakerfinu en í tilefni af henni var varnaraðili boðaður í skýrslutöku hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 26. maí 2014. Var honum kynnt eftirlýsingin og meðfylgjandi evrópsk handtökuskipun og staðfesti hann að gögnin ættu við hann. Um það sem fram kom í skýrslutökunni vísast til samantektar um hana. Í framhaldi af skýrslutökunni var varnaraðili úrskurðaður í farbann.

Framsalsbeiðni pólskra yfirvalda barst innanríkisráðuneytinu þann 13. júní 2014 og er beiðnin, dags. 2. júní 2014, gefin út af héraðsdómi í Varsjá í Póllandi. Með henni er óskað eftir framsali varnaraðila til fullnustu eftirstöðva 3 ára langrar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi dómstólsins frá [...] í máli nr. [...]. En eftirstöðvar fangelsisrefsingarinnar eru 2 ár, 1 mánuður og 12 dagar. Var varnaraðili sakfelldur fyrir tilraun til ráns, þ.e. brot gegn 1. mgr. 280. gr. pólskra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. sömu laga, með því að hafa þann 2. janúar 2007, í félagi við tvo meðákærða, veist með ofbeldi að brotaþolanum B, í því skyni að taka af honum bifreið að gerðinni [...], að verðmæti 6.000 zloty, sem var í eigu brotaþola, en ekki kom til fullframningar brotsins þar sem lögregla hafði afskipti af ákærðu. Með dómi áfrýjunardómstóls í Varsjá frá [...] í máli nr. [...] var dómur héraðsdóms staðfestur. Báðir framangreindir dómar eru meðfylgjandi framsalsbeiðninni.       

Fram kemur í framsalsbeiðninni að framkvæmd fullnustu refsingarinnar hafi verið frestað þann 18. júní 2010. Þá eru viðeigandi ákvæða pólskra laga rakin í framsalsbeiðninni.

Ríkissaksóknari framsendi framsalsbeiðnina til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þann 20. júní 2014, með beiðni um kynningu í skýrslutöku og framlengingu á farbanni. Lögreglustjórinn kynnti varnaraðila beiðnina þann 23. júní 2014. Aðspurður kvað varnaraðili framsalsbeiðnina eiga við sig og hafði engar athugasemdir við gögnin. Kvaðst hann ekki vilja fara til Póllands að afplána fangelsisrefsinguna og hafnaði framsali. Var honum m.a. kynnt 7. gr. framsalslaga nr. 13/1984 og kvað hann persónulega hagi óbreytta frá fyrri skýrslutöku, en þá gerði hann grein fyrir þeim.

Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dags. 13. ágúst 2014, og taldi skilyrði laga nr. 13/1984 uppfyllt sbr. einkum 1. mgr. og 3. mgr. 3. gr. um tvöfalt refsinæmi og lágmarksrefsingu, 5. mgr. 3. gr. varðandi grunnreglur íslenskra laga, og 8. – 10. gr. varðandi bann við endurtekinni málsmeðferð, fyrningu og meðferð annarra mála hérlendis, sem og 12. gr. laganna sem fjallar um formskilyrði.

Innanríkisráðuneytið ákvað að verða við framsalsbeiðninni með ákvörðun frá 13. febrúar 2015. Fram kemur í forsendum ráðuneytisins að ráðuneytið endurskoði ekki niðurstöðu ríkissaksóknara um skilyrði framsals. Ráðuneytið lagði heildstætt mat á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. laga nr. 13/1984 og mat þær svo að ekki þættu nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Einnig vísaði ráðuneytið til þess að varnaraðili hefði hlotið refsidóm fyrir alvarlegt hegningarlagabrot og hafi pólsk yfirvöld metið það sem svo að þau hefðu hagsmuni af því að fá hann framseldan til fullnustu refsingarinnar. Þá hefur varnaraðili viðurkennt að kannast við umrætt mál og væri það mat ráðuneytisins að varnaraðili hafi mátt vera fyllilega ljóst að pólsk dómsmálayfirvöld myndu krefjast afplánunar hans. Enn fremur tók ráðuneytið fram í forsendum sínum að engin gögn hafa komið fram í málinu sem leiða til þess að rökstudd ástæða sé til að ætla að framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda og meðfylgjandi gögn þyki ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun sakar, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Loks tók ráðuneytið fram í forsendum sínum að samkvæmt athugasemdum við 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 væru íslensk stjórnvöld skyldug, án frekari könnunar á sönnunaratriðum, að leggja erlendan dóm eða ákvörðun um handtöku eða fangelsun til grundvallar við meðferð framsalsmáls.

Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila þann 27. febrúar 2015 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þann sama dag krafðist varnaraðili úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til álitsgerðar ríkissaksóknara frá 13. ágúst 2014 og ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 13. febrúar 2015.

Eins og fram er komið sætir varnaraðili farbanni vegna málsins.“

Í greinargerð varnaraðila segir að hann hafi komið hingað til lands í atvinnuleit í mars 2008. Hann hefði kynnst núverandi eiginkonu sinni, pólskri konu, hér á landi og eigi þau saman barn auk þess sem ákærði á 13 ára stúlku sem býr í Póllandi. Varnaraðili hafi fasta vinnu hér á landi og fjölskyldan ráðgeri að setjast hér að til frambúðar. Framsalsbeiðni pólskra yfirvalda byggist á þriggja ára fangelsisdómi frá því í febrúar 2009 en er varnaraðili kom til landsins hafi hann ekki verið eftirlýstur af pólskum yfirvöldum og taldi hann að dómur yfir sér yrði skilorðsbundinn sem ekki reyndist vera. Varnaraðili hafi engar tilkynningar fengið frá pólskum yfirvöldum og hann því styrkst í þeirri trú að dómur yfir honum yrði skilorðsbundinn. Í þessu ljósi hafi framsalskrafa komið honum í opna skjöldu. Varnaraðili byggir kröfu sína meðal annars á þeirri málsástæðu að hagsmunir hans af því að vera ekki framseldur hljóti að vega þyngra en hagsmunir pólskra yfirvalda af því að fá hann framseldan. Vísað er til þess að varnaraðili sé fyrirvinna og fjölskylda hans lendi á vonarvöl verði hann framseldur. Þá telur varnaraðili að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga og ekki gætt meðalhófs við ákvörðun framsals hans. Varnaraðili telur þannig með vísan til framanritaðs og til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að hafna beri kröfunni um framsal varnaraðila.

Niðurstaða

                Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og fleira er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni liggja frammi í málinu. Varnaraðili var dæmdur fyrir ránstilraun í Póllandi en slík brot myndi hér á landi varða við 252. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga og er refsirammi þess lagaákvæðis slíkur að uppfyllt eru skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Dæmd refsing ákærða er ófyrnd, sbr. 2.tl. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga og eru því uppfyllt skilyrði 9. gr. laga nr. 13/1984. Ekki liggur annað fyrir í málinu samkvæmt gögnum þess en að gætt hafi verið meðalhófsreglu 12. gr. laga nr. 37/1993 við meðferð máls varnaraðila.

Samkvæmt öllu ofanrituðu er kröfu varnaraðila hafnað og staðfest ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 13. febrúar 2015 um að framselja varnaraðila til Póllands.

Þóknun réttargæslumanns að meðtöldum virðisaukaskatti er greidd úr ríkissjóði eins og greinir í úrskurðarorði.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun innarnríkisráðuneytisins frá 13. febrúar 2015, um að framselja X til Póllands, er staðfest.

Þóknun Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, 409.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.