Hæstiréttur íslands

Mál nr. 98/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                                 

Mánudaginn 15. mars 1999.

Nr. 98/1999.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi)

gegn

Hallbirni Einari Guðjónssyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

                                                                           

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Ákæra hafði verið gefin út á hendur H vegna þjófnaðabrota auk þess sem rökstuddur grunur þótti vera  um að hann hefði gerst sekur um fleiri slík brot eftir að ákæra hafði verið gefin út. Var talið að ætla mætti að H myndi halda áfram brotum meðan málum hans væri ólokið og því fallist á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. mars nk. kl. 12.30. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er meðal annars vísað til þess að 12. janúar 1999 hafi lögreglustjórinn í Reykjavík gefið út  ákæru á hendur varnaraðila fyrir sjö brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk fíkniefnabrots, en þau voru framin á tímabilinu 17. júlí til 6. desember 1998. Samkvæmt greinargerðinni liggur einnig fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi enn gerst sekur um þjófnað, sem kærður var til lögreglunnar 8. mars 1999. Að auki er varnaraðili borinn sökum um brot 4. mars 1999, sem um ræðir í hinum kærða úrskurði. Hann hlaut og dóm fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 27. nóvember 1998 fyrir ýmis brot gegn umferðarlögum og almennum hegningarlögum, en þeim dómi hefur verið áfrýjaða til Hæstaréttar. Að þessu gættu þykir mega ætla að varnaraðili muni halda áfram brotum meðan ólokið er framangreindum málum hans, en fangelsisrefsing liggur við þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök. Er því fullnægt skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila, en engin efni eru til að marka því skemmri tíma. Verður úrskurður héraðsdóms staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. mars 1999.

                Sýslumaðurinn í Kópavogi hefur krafist þess að Hallbjörn Einar Guðjónsson, kt. 191156-2189, Frakkastíg 19, Reykjavík sæti gæsluvarðhaldi til 30. mars 1999  12:30.

                Kærði var handtekinn í gær vegna gruns um aðild að þjófnaðarbroti. Hafði veski verið stolið úr skrifborðsskúffu á réttingaverkstæði við Nýbýlaveg í  Kópavogi á meðan eigandi fyrirtækisins brá sér frá stutta stund. Að sögn eiganda voru í veskinu 150.000-270.000 krónur í tékkum og 120.000 í reiðufé, auk þriggja debetkorta, eins  kreditkorts og tékkheftis. Við húsleit hjá kærða í gistiheimili að Auðbrekku 23, Kópavogi fannst hluti þýfisins og tæki og efni til fíkniefnaneyslu.

                Kærði hefur játað brot sitt en segir að einungis 70.000 krónur hafi verið í reiðufé í veskinu og engir tékkar.

                Krafan um gæsluvarðhald er byggð á c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 en auk þess styður lögreglan kröfuna þeim rökum að eftir sé að kanna afdrif hinna meintu stolnu tékka og fá úr því skorið hvort þeir hafa verið framseldir.

                Kærði er síbrotamaður. Hann hefur alls komist 46 sinnum á sakaskrá, oftast fyrir brot á 155. gr. og 244. gr. alm. hgl. Fram kemur í lögregluskýrslu að hann er fíkniefnaneytandi en stundar ekki fasta vinnu. Þann 27. nóvember 1998 hlaut kærði 10 mánaða fangelsisdóm og hefur hann áfrýjað þeim dómi. Telja verður líkur á því að kærði haldi áfram brotastarfsemi gangi hann laus. Verður því fallist á kröfu sýslumannsins og kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald með skírskotun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður honum því gert að sæta gæsluvarðhaldi til 30. mars 1999 kl. 12:30 eða þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti Íslands.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Kærði, Hallbjörn Einar Guðjónsson, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. mars 1999 kl. 12:30.