Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 25

Fimmtudaginn 25. mars 1999.

Nr. 81/1999.

Sigurður Gizurarson

(sjálfur)

gegn

íslenska ríkinu

(Jón G. Tómasson hrl.)

Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

S höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um að flytja hann úr embætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslumanns á Hólmavík. Með hliðsjón af því að krafa S um miskabætur hvíldi á þeirri grunnröksemd, sem taka þyrfti afstöðu til við úrlausn bótakröfunnar, að ákvörðun dómsmálaráðherra hefði verið ólögmæt, þótti hann ekki hafa hagsmuni af því, að sérstaklega yrði viðurkennt ólögmæti og ógildi hennar. Þá var einnig vísað frá héraðsdómi kröfu S um að hann skyldi taka aftur við embætti sýslumanns á Akranesi. S þótti hins vegar hafa hagsmuni af því að leyst yrði úr kröfu hans um bætur vegna miska sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna meintrar ólögmætrar ákvörðunar dómsmálaráðherra. Var því málinu vísað heim í hérað til efnismeðferðar að því er varðaði þessa kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason og Arnljótur Björnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 1999, sem barst réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 1999, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra 5. júní 1998 um að fela sóknaraðila að gegna embætti sýslumanns á Hólmavík frá 1. júlí 1998 í stað þess sýslumannsembættis, sem hann gegndi þá á Akranesi. Reisir sóknaraðili málsókn sína á því að ákvörðunin hafi verið ólögmæt og valdið sér miska. Samkvæmt stefnu hefur sóknaraðili uppi tvær kröfur á hendur varnaraðila. Annars vegar krefst hann þess að staðfest verði með dómi, að framangreind ákvörðun dómsmálaráðherra sé ólögmæt og ógild og sóknaraðili skuli taka aftur við embætti sýslumanns á Akranesi. Hins vegar krefst hann bóta fyrir miska, sem hann telur dómsmálaráðherra hafa valdið sér með ákvörðun sinni og „áreitni, ærumeiðingum og tilræði, er henni tengjast”.

II.

Telja verður síðari kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila reista á þeirri grunnröksemd, að framangreind ákvörðun dómsmálaráðherra um flutning hans í embætti hafi ekki verið skuldbindandi og varði því bótaskyldu. Verður því ekki leyst úr miskabótakröfu sóknaraðila án þess að taka afstöðu til þessarar röksemdar. Hins vegar hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á, að hann hafi af því hagsmuni að lögum, að jafnframt þessu verði sérstaklega viðurkennt með dómi ólögmæti og ógildi þessarar ákvörðunar. Ber því að vísa fyrri lið í fyrri kröfu sóknaraðila frá héraðsdómi.

 Með síðari hluta fyrri kröfu sóknaraðila krefst hann viðurkenningar á því að hann skuli taka aftur við starfi sýslumanns á Akranesi. Það er eigi á valdi dómstóla að ákveða hver skuli gegna embætti sýslumanns á Akranesi, sbr. meginreglu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Er þessi kröfuliður sóknaraðila því ekki dómhæfur og ber að vísa honum frá héraðsdómi.

III.

Með síðari kröfu sinni krefst sóknaraðili miskabóta vegna framangreindrar ákvörðunar dómsmálaráðherra og „áreitni, ærumeiðingum og tilræði, er henni tengjast“. Enda þótt þessi háttur á kröfugerð sóknaraðila sé ekki eins skýr og æskilegt væri, með því að það áreiti, þær ærumeiðingar og það tilræði, sem sóknaraðili vísar til er ekki tilgreint með viðhlítandi hætti, þykir ekki alveg nægileg ástæða til þess að vísa þessari kröfu sóknaraðila frá dómi af þeim sökum, enda verður af málatilbúnaði sóknaraðila í heild ráðið að hann krefjist miskabóta vegna framangreindrar ákvörðunar dómsmálaráðherra og þeirrar málsmeðferðar, sem lá henni til grundvallar.

Eins og áður greinir telur sóknaraðili sig hafa orðið fyrir miska vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra 5. júní 1998. Njóta þeir hagsmunir, sem sóknaraðili vísar til í þessu sambandi, æra hans og persóna, ótvírætt verndar skaðabótareglna, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt langri dómvenju eru dómstólar til þess bærir að skera úr um bótaskyldu stjórnvalda vegna ólögmætra stjórnvaldsathafna og eftir atvikum vegna miska, sem þær kunna að hafa valdið. Sú málsástæða varnaraðila að umrædd ákvörðun hafi aldrei komið til framkvæmda snýr að skilyrðum fyrir bótarétti sóknaraðila, sem fjalla ber um við efnislega úrlausn um kröfu hans.

Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er varðar síðari kröfu sóknaraðila og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að þessu leyti.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Viðurkenningarkröfum sóknaraðila, Sigurðar Gizurarsonar, sem fram koma í fyrsta tölulið kröfugerðar í stefnu, á hendur varnaraðila, íslenska ríkinu, er vísað frá héraðsdómi.

Að öðru leyti en að framan greinir, er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 1999

Ár 1999, mánudaginn 1. febrúar er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hirti O. Aðalsteinssyni, héraðsdómara, kveðinn upp úr­skurður í máli nr. E-3538/1998: Sigurður Gizurarson gegn dómsmálaráðherra f.h. ríkisins og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. janúar s.l. um frávísunarkröfu stefnda, íslenska ríkisins, er höfðað með stefnu út gefinni 24. júní s.l. og birtri daginn eftir.

Stefnandi er Sigurður Gizurarson, kt. 020339-4709, Víkurströnd 6, Seltjarnarnesi.

Stefndu eru Þorsteinn Pálsson, dómsmálaráðherra, kt. 291047-4679, Háteigsvegi 46, Reykjavík, fyrir hönd íslenska ríkisins og Geir Hilmar Haarde, fjármálaráðherra, kt. 080451-4749, Granaskjóli 20, Reykjavík, fyrir hönd ríkissjóðs.

Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að staðfest verði með dómi að ólögmæt og ógild sé ákvörðun stefnda, dómsmálaráðherra, sem hann tók með flutningsbréfi 5. júní s.l. um að flytja stefnanda úr embætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslu­manns á Hólmavík og í öðru lagi að stefnanda verði dæmdar bætur úr ríkissjóði að fjár­hæð kr. 7.000.000 fyrir miska, sem stefndi dómsmálaráðherra hefur valdið stefn­anda með ákvörðun sinni, áreitni, ærumeiðingum og tilræði, er henni tengjast. Enn fremur er gerð krafa um að stefnanda verði dæmdur hæfilegur málskostnaður úr rík­is­sjóði að mati dómsins.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefnandi var með bréfi handhafa forsetavalds dagsettu 24. septem­ber 1985 skipaður sýslumaður á Akranesi. Skipunin var ótímabundin og gilti frá 1. nóvember 1985. Við gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og um­boðsvalds kaus stefnandi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna að vera áfram sýslu­maður á Akranesi frá og með 1. júlí 1992.

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til stefnanda dagsettu 6. apríl s.l. var stefn­anda kynnt sú ákvörðun ráðuneytisins að fyrirhugað væri að flytja stefnanda úr em­bætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslumannsins á Hólmavík frá og með 1. júlí 1998. Lagaheimild til slíkrar ákvörðunar var talin vera í 4. mgr. 20. gr. stjórn­ar­skrár­innar og taldi ráðuneytið unnt að flytja embættismann úr einu embætti í annað, enda missi hann einskis í af embættistekjum sínum og sé honum veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lög­mælt­um ellistyrk. Einnig var vísað til 36. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins. Í bréfinu var skýrt frá því að Ríkisstjórn Íslands hefði tekið þá ákvörðun að við flutning embættismanna úr einu embætti í annað standi viðkomandi em­bættismanni til boða að taka eftirlaun samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfs­manna ríkisins nr. 1/1997, sem svari því að embættismaðurinn hefði látið af störfum við 70 ára aldur. Stefnanda var gefinn kostur á því að koma athugasemdum á fram­færi við ráðuneytið áður en ákvörðun yrði tekin og var honum veittur frestur til 20. apríl sama ár.

Með bréfi dagsettu sama dag til ráðuneytisins benti stefnandi m.a. á að ekki hefði verið getið ákvörðunarástæðu flutningsins. Þá lýsti stefnandi því yfir í lok bréfsins að hann myndi fara til Hólmavíkur ef ákvörðun yrði tekin um það, en jafnframt mótmæla henni sem löglausri og ógildri og áskildi hann sér rétt til að fá hana ógilta með dómi og sækja ráðherra fyrir dómstólum um skaðabætur úr ríkissjóði.

Með bréfi ráðuneytisins dagsettu 11. maí s.l. var fallist á að ekki hefði verið getið ákvörð­unarástæðu og var úr því bætt og gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar fyrirætlunum ráðuneytisins. Í fyrsta lagi var fjárhagsvandi sýslu­manns­em­bættisins á Akranesi talinn mjög mikill. Hafi verið óskað eftir því að stefnandi hag­aði rekstri embættisins á þann veg að á árinu 1997 tækist að minnka uppsafnaðan halla nokkuð. Það ár hafi halli á embættinu hins vegar aukist um 7,1 milljón króna og næmi uppsafnaður halli á embættinu síðustu ár samtals 26,1 milljón króna. Í ljósi þess að halli embættisins hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og nemi helmingi af rekstr­arvanda allra sýslumannsembætta í landinu, taldi ráðuneytið fullreynt að stefn­anda tækist að vinna bug á fjárhagsvanda embættisins. Í öðru lagi var vikið að em­bætt­isfærslu stefnanda vegna innheimtu á dómsekt og álögðum opinberum gjöldum Þórðar Þ. Þórðarsonar á Akranesi. Hefði fjármálaráðuneytið tekið þá ákvörðun að taka innheimtuna úr höndum stefnanda í fyrsta lagi vegna fyrri afskipta hans af málinu og í öðru lagi að ekki væri útilokað að við meðferð þess þyrfti að taka afstöðu til em­bætt­isfærslna stefnanda. Stefnanda var veittur andmælafrestur til 25. maí s.l.

Með bréfi stefnanda til ráðuneytisins dagsettu 25. maí s.l. mótmælti hann sjón­ar­mið­um ráðuneytisins og taldi fráleitt að ráðherra geti að eigin geðþótta stjakað for­seta­skip­uðum sýslumanni yfir landið þvert og endilangt.

Með flutningsbréfi dómsmálaráðherra dagsettu 5. júní 1998 var tekin sú ákvörðun með vísan til 36. gr. laga nr. 70/1996 að fela stefnanda að gegna embætti sýslumanns á Hólma­vík frá 1. júlí 1998. Með flutningsbréfinu fylgdi bréf þar sem gerð var nánari grein fyrir afstöðu ráðuneytisins. Þar sem ráðuneytið taldi ekki fullreynt að stefnandi gæti stjórnað embætti þar sem minni fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi, var talið rétt og skylt í ljósi meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að gefa stefnanda kost á að takast á við rekstur minna embættis. Sama dag var gefið út flutningsbréf fyrir Ólaf Þór Hauksson, sýslumann á Hólmavík, þar sem honum var falið að gegna embætti sýslu­manns á Akranesi frá sama tíma.

Málavextir eru ekki raktir frekar í stefnu en í greinargerð stefndu er því lýst að stefn­andi hafi um miðjan júnímánuð haft símasamband við ráðuneytisstjórann í dóms­mála­ráðuneytinu og spurt hvort hann ætti þess kost að hætta við að taka við embætti sýslu­manns á Hólmavík og þiggja í þess stað fyrrgreind eftirlaun, án þess að hann fyrir­gerði með þeim hætti rétti til málshöfðunar. Ráðuneytisstjórinn er sagður hafa svarað þessu játandi, enda hafi ráðuneytið ekkert ákvörðunarvald um möguleika stefn­anda á því að höfða mál. Við embættisathugun á sýslumannsembættinu á Akranesi 19. júní s.l. var stefnanda greint frá því að allt fram til 1. júlí 1998 væri ráðuneytið til­búið til að falla frá því að flytja hann í embætti sýslumanns á Hólmavík og honum stæði þá til boða lausn frá embætti sýslumanns á Akranesi með lögmæltum eft­ir­laun­um. Stefnandi mun hafa haft samband við skrifstofustjóra í ráðuneytinu 24. júní s.l. og lýst því yfir að hann hefði ákveðið að þiggja eftirlaun í samræmi við fyrri samtöl sín við ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra og færi hann því ekki til Hólmavíkur. Ráðu­neytinu barst síðan svohljóðandi bréf frá stefnanda daginn eftir: “Vísað er til sím­tals, sem ég átti við Björgu Thorarensen skrifstofustjóra í gær og við Þorstein Geirs­son fyrir nokkrum dögum. Staðfest er hér með, að viðbrögð mín við svokölluðu flutn­ingsbréfi dómsmálaráðherra, Þorsteins Pálssonar, dags. 5. júní sl. –óundirrituðu af forseta lýðveldisins- verða þau að taka ekki við starfi sýslumanns á Hólmavík 1. júlí nk. Ég hefi af því tilefni fengið útgefnar í Héraðsdómi Reykjavíkur tvær stefnur á hendur dómsmálaráðherra vegna athafna hans gagnvart mér, sem væntanlega verða birtar honum í dag, en þriðja stefnan mun bíða fram yfir réttarhlé. Sumarfrí hef ég ekki tekið síðasliðin tvö orlofsár og tel mig eiga þau inni. Bið ég yður að tilkynna launa­skrifstofu Fjármálaráðuneytis um, að ég muni ekki taka við starfi sýslumanns á Hólma­vík 1. júlí nk., og jafnframt um inneign mína í ríkissjóði vegna ótekinna sum­ar­leyfa.”

Með bréfi dagsettu 29. júní s.l. var stefnanda tilkynnt sú ákvörðun ráðuneytisins að fallið væri frá flutningi stefnanda í embætti sýslumanns á Hólmavík og að honum yrðu frá 1. júlí s.l. greidd eftirlaun í samræmi við þau kjör sem lýst hefur verið hér að framan. Samhliða var stefnanda veitt lausn frá embætti sýslumanns á Akranesi frá og með 1. júlí 1998.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi gerir grein fyrir málsástæðum og lagarökum sínum í 11 liðum í stefnu.

Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að stjórnarskráin veiti stefnanda vernd fyrir ákvörðun stefnda dómsmálaráðherra um flutning í annað embætti. Forsetaskipaða em­bættismenn megi ekki flytja úr einu embætti í annað nema forseti lýðveldisins und­ir­riti flutningsbréfið, sbr. 1. og 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi ákvörðun hafi ekki verið borin undir forseta, sbr. 18. gr. stjórnarskrárinnar og samkvæmt 19. gr. henn­ar veiti undirskrift forseta undir löggjafarmál og stjórnarerindi þeim gildi er ráð­herra ritar undir með honum. Dómsmálaráðherra hafi virt þetta stjórnarskrárákvæði að vettugi.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að með ákvörðuninni hafi meginstafir rétt­ar­örygg­is verið virtir að vettugi og stjórnskipan ríkisins unnið stórtjón. Sýslumenn séu sak­sóknarar hver í sínu umdæmi og geti ráðherra ekki flutt sýslumenn í annað um­dæmi að geðþótta sínum án þess að stofna réttaröryggi í tvísýnu.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra sé vanhæfur til að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir gagnvart stefnanda vegna opinbers fjandskapar við sig, sbr. 1.og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að rannsóknarreglu 11. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt. Þar eð flutningurinn sé í reynd frávikning úr starfi verði að fá rann­sókn málsins í hendur þeirrar nefndar sérfróðra manna sem getið er í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 70/1996.

Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að andmælaréttur stefnanda samkvæmt 13. gr. stjórn­sýslulaga hafi verið virtur að vettugi. Ljóst hafi verið af fréttum útvarps og sjón­varps 18. apríl s.l. að stefndi dómsmálaráðherra hafði þá þegar verið búinn að taka ákvörðun um flutninginn.

Í sjötta lagi byggir stefnandi á því að með ákvörðun um flutning hafi ráðherra gerst sekur um misbeitingu valds og valdníðslu. Ákvörðunin sé ekki studd við mál­efna­legar forsendur og til að víkja frá því jafnræði, sem sýslumenn almennt njóta í störf­um sínum og beita þannig mismunun, þurfi sérstakar ástæður, sbr. 11. gr. stjórn­sýslu­laga. Þær ástæður sem ráðherra nefni í bréfi sínu 11. maí s.l. séu tylliástæður sem bornar hafi verið fram eftir að raunveruleg geðþóttaákvörðun hafði verið tekin. Stefn­andi telur fjárhagsvanda embættisins vera afleiðingu athafna ráðherra sem hafi haft ákvörðunarvald um tekjur og útgjöld embættisins. Stefnandi hafi aðeins haft til­lögu­rétt en ráðherra hafi ávallt virt tillögur stefnanda að vettugi. Þá hafi meðferð stefn­anda á ÞÞÞ-máli verið á valdsviði hans og lögum samkvæmt, sbr. m.a. 2.-4. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga.

Í sjöunda lagi telur stefnandi sér mismunað gagnvart Ólafi Þ. Haukssyni með þeirri ákvörðun ráðherra að flytja hann í embætti sýslumanns á Hólmavík, sbr. jafn­ræð­isreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Ferill stefnanda sé margfalt fjölbreyttari og glæsi­legri.

Í áttunda lagi byggir stefnandi á því að engin málefnaleg þörf hafi verið á því að flytja stefnanda í annað embætti. Ákvörðunin sé íþyngjandi stjórnsýslugerningur og því ólögmæt og ógild, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

Í níunda lagi byggir stefnandi á því að skipun stefnanda í embætti sýslumanns á Akra­nesi hafi verið staðbundin og flutningur í embætti sýslumanns á Hólmavík því í reynd frávikning úr starfi sýslumanns á Akranesi. Um hafi verið að ræða afturköllun á skip­un stefnanda í Akranesembættið, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga og sú afturköllun sé frá­vikning úr starfi, sbr. 29. gr. laga nr. 70/1996. Afurköllun geti ekki gerst löglega sökum þess að hún hafi valdið stefnanda miska/tjóni og engar málefnalegar ástæður hafi verið fyrir hendi. Þar sem um frávikningu var að ræða geti hún ekki átt sér stað nema gætt sé málsmeðferðar þeirrar sem kveðið er á um í 27.-29. gr. laga nr. 70/1996.

Í tíunda lagi byggir stefnandi á því að ástæður þær sem stefndi dómsmálaráðherra bar fyrir ákvörðun sinni hafi verið rangfærslur, rangar sakargiftir og ærumeiðingar. Sé um að ræða brot gegn 148. gr almennra hegningarlaga.

Í ellefta lagi rökstyður stefnandi miskabótakröfu sína með þeim hætti, að ákvörðunin og yfirlýsingar á opinberum vettvangi hafi verið stórlega ærumeiðandi og til þess fallnar að eyðileggja mannorð og starfsheiður stefnanda. Órökstuddar yfir­lýs­ingar stefnda dómsmálaráðherra um að stefnandi sé óhæfur til að gegna embætti sýslu­manns á Akranesi hafi verið margendurteknar í fjölmiðlum. Framferði ráðherra varði við 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga og 26. gr. skaðabótalaga

Málsástæður og lagarök stefndu vegna frávísunarkröfu.

Stefndu byggja á því að stefnandi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun 25. júní 1998 að þiggja boð um eftirlaun í stað embættaskiptanna og í beinu framhaldi af því var honum veitt lausn frá embætti sýslumanns. Þær megindómkröfur stefnanda að ákvörðun um embættaskiptin verði dæmd ógild og að stefnandi taki því aftur við em­bætti sýslumanns á Akranesi, hafi því ekki raunhæft gildi. Stefnandi hefur ekki lög­varða hagsmuni af því að fá úrlausn um þessar dómkröfur. Samkvæmt grund­vall­ar­reglu 25. gr. laga nr. 91/1991 verða dómstólar ekki krafðir álits um lögfræðileg efni og það mælir einnig gegn öllum grundvallarreglum stjórnarfarsréttar og starfs­manna­lög­gjafar að maður geti fengið sér dæmt embætti. Beri af þessum ástæðum að vísa frá dómi meginkröfum stefnanda.

Stefndu byggja frávísunarkröfu einnig á því að krafa um greiðslu miskabóta sé svo órökstudd og vanreifuð að eigi fái samrýmst grundvallarreglum um meðferð einka­mála, sbr. 80. og 95. gr. laganna. Þá benda stefndu á það að stefnandi leggur fram mikinn fjölda skjala sem ekki verði séð að skipti máli um kröfugerð hans og mála­tilbúnað. Allar fullyrðingar stefnanda í stefnu og í bréfaskiptum hans þess efnis að dómsmálaráðuneytið eða starfsmenn þess hafi veist að honum með ómaklegum, ólög­legum eða meiðandi hætti séu beinlínis rangar, en að auki órökstuddar. Ýmsar full­yrðingar og glósur í bréfum stefnanda sjálfs í garð einstakra starfsmanna dóms­mála­ráðuneytis og ráðherra megi miklu fremur túlka sem meiðandi ummæli. Stefn­andi geri að auki enga tilraun til að lýsa því eða færa fyrir því rök í stefnu að hann hafi orðið fyrir fjárhagstjóni vegna málsins. Þvert á móti njóti stefnandi nú betri eftir­launa­réttar en til þekkist hjá öðrum fyrrverandi embættismönnum ríkisins og hafi að auki möguleika á að afla sér tekna með lögmannsstörfum.

Málsástæður og lagarök stefnanda vegna frávísunarkröfu.

Stefnandi verst frávísunarkröfu stefndu með eftirfarandi rökum:

Í fyrsta lagi snúist málið ekki aðeins um nauðungarflutning stefnanda til Hólma­víkur heldur og um brottvikningu úr starfi og ærumeiðingar og aðför á hendur stefn­anda sem einstaklingi.

Í öðru lagi hafi stefnandi allan tímann frá því stefndi dómsmálaráðherra lýsti því yfir í mars-apríl 1998 að hann hygðist flytja stefnanda til Hólmavíkur mótmælt þeirri fyrir­ætlan með þeim rökum að hún væri ólögleg brottvikning úr starfi og myndi stefn­andi höfða mál til að fá hana lýsta ólöglega og ógilda.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að hann hafi verið forsetaskipaður sýslumaður á Akranesi, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar og geti enginn nema forseti Íslands hróflað við stöðu hans.

Í fjórða lagi hafi flutningsákvörðunin jafngilt brottvikningu úr starfi.

Í fimmta lagi hafi ákvörðun dómsmálaráðherra verið lokaþáttur ólöglegrar aðfarar á hendur stefnanda.

Í sjötta lagi hafi stefnandi alla tíð hafnað samningum um þá kosti sem dóms­mála­ráð­herra gerði honum.

Í sjöunda lagi hafi ákvörðunin verið brot á 18.-19. gr. og 4. mgr. 20. gr. stjórn­ar­skrár­innar.

Í áttunda lagi sé mál þetta “prinsippmál” um stjórnarskrá og stjórnskipun ríkisins.

Að lokum byggir stefnandi á því að þrír nauðungarkostir hafi hlotist af flutn­ings­bréfi ráðherra:

a: Í fyrsta lagi var sá kostur að fara ekki til Hólmavíkur og sitja sem fastast á Akra­nesi og höfða jafnframt mál til að fá ákvörðun stefnda dæmda ólöglega og ógilda.

b: Í öðru lagi var sá kostur að fara til Hólmavíkur og taka þar upp störf sem sýslu­maður og höfða jafnframt mál til að fá ákvörðunina dæmda ólöglega og ógilda.

c: Í þriðja lagi var sá kostur að fara ekki til Hólmavíkur en hverfa úr starfi sýslu­manns á Akranesi og hefja önnur störf og höfða jafnframt mál til að fá ákvörðunina dæmda ólöglega og ógilda.

Niðurstaða.

Óumdeilt er í máli þessu að viðbrögð stefnanda við þeirri ákvörðun stefnda dóms­mála­ráðherra að flytja stefnanda úr embætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslu­manns á Hólmavík voru þau að taka ekki við embætti sýslumanns á Hólmavík en þiggja þess í stað þau eftirlaunakjör sem rakin hafa verið hér að framan. Verður að líta svo á að stefnandi hafi kosið að fá lausn frá embætti sýslumanns á Akranesi, enda verða eftirlaun ekki greidd öðrum en þeim sem látið hafa af störfum, sbr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, enda ekki annað í ljós leitt en stefndi hafi greitt til B-deildar sjóðsins. Með hliðsjón af þessum viðbrögðum stefnanda féll ráðu­neytið frá þeirri ákvörðun sinni að flytja stefnanda í embætti sýslumanns á Hólma­vík. Dómkröfur stefnanda lúta að því að ofangreind ákvörðun verði dæmd ógild og stefnandi taki aftur við embætti sýslumanns á Akranesi. Þegar litið er til þess að umrædd ákvörðun kom aldrei til framkvæmda vegna sérstakra óska stefnanda um aðrar málalyktir verður að telja að stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr þessu ágreiningsatriði fyrir dómi. Þá verður ekki talið, eins og stefna og kröfugerð í máli þessu er úr garði gerð, að heimilt sé að kveða á um það í dómi hvort aðgerðir ráðuneytisins gagnvart stefnanda jafngildi brottvikningu hans úr starfi. Verður þessum kröfulið stefnanda því vísað frá dómi.

Stefnandi krefst jafnframt bóta vegna miska sem hann telur stefnda dóms­mála­ráð­herra hafa valdið sér með ákvörðun sinni, áreitni, ærumeiðingum og tilræði, er henni tengjast. Telja verður að miskabótakrafa stefnanda sé í þeim tengslum við kröfugerð hans vegna flutningsákvörðunarinnar að ekki verði hjá því komist að vísa henni einnig frá dómi. Verður niðurstaðan því sú að máli þessu er í heild sinni vísað frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.