Hæstiréttur íslands
Mál nr. 596/2008
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Kjarasamningur
- Ráðningarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 24. september 2009. |
|
Nr. 596/2008. |
Einar Stefánsson(Karl Axelsson hrl.) gegn Landspítala háskólasjúkrahúsi (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Kjarasamningur. Ráðningarsamningur.
E hóf störf á augndeild L árið 1989 sem yfirlæknir með stjórnunarskyldur. Þá rak hann eigin læknastofu samhliða yfirlæknisstarfi sínu. E fór í launalaust leyfi frá störfum á árinu 2000. Þegar hann hóf störf á ný í september 2002 tók hann aftur við stöðu yfirlæknis en annar yfirlæknir gegndi áfram stjórnunarskyldum við deildina. Árið 2001 ákvað framkvæmdastjórn sjúkrahússins að hefja undirbúning að breytingum á starfstilhögun yfirmanna þess þannig að þeir myndu framvegis vera í 100% starfi og ekki sinna störfum utan sjúkrahússins öðrum en kennslu á háskólastigi og setu í nefndum á vegum hins opinbera. E mun hafa tilkynnt L í ágúst 2006 að hann væri reiðubúinn að taka á ný við stjórnunarskyldum en L mun ekki hafa fallist á að E tæki við þeim nema hann hætti rekstri læknastofu. Starf yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild var auglýst laust til umsóknar í kjölfar þess að E gat ekki sætt sig við skilyrði L. Viðræður milli E og L um að E tæki að sér stöðuna hófust á ný í mars 2007 og lauk með því að E féllst á skilyrði L og hætti rekstri læknastofu sinnar. E höfðaði síðar mál og gerði fyrir Hæstarétti kröfu um vangoldin laun og dráttarvexti af þeim á þeim grunni að L hefði einhliða breytt starfshlutfalli hans úr 100% í 80% eftir að nýr kjarasamningur tók gildi 1. febrúar 2006. Þá krafðist hann viðurkenningar á því að L hefði verið óheimilt að banna sér haustið 2006 að stunda sjálfstæðan stofurekstur samhliða því að gegna stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur. Fyrir lá að E þáði frá 1. september 2002 80% laun fyrir fullt starf hjá L á grundvelli bókunar í kjarasamningi aðila frá 2002, þar sem læknum, sem rækju læknastofu jafnhliða starfi sínu, var gert að lækka annaðhvort hlutfall starfa sinna eða taka fyrir þau 20% lægri laun. E valdi ekki á milli þeirra kosta sem í boði voru. Var þegar af þessari ástæðu talið að bókunin gæti efni sínu samkvæmt ekki haft áhrif á launakjör hans eftir að nýr kjarasamningur tók gildi á árinu 2006, en sambærilegt ákvæði var hvorki að finna í samningnum né bókunum sem honum fylgdu. Var því fallist á með E að L hefði verið óheimilt án samþykkis E að skerða laun hans frá og með 1. febrúar 2006, er nýr kjarasamningur tók gildi, til 30. júní 2007, er hann hætti rekstri læknastofu sinnar. Var krafa hans um vangoldin laun á þessu tímabili því tekin til greina ásamt dráttarvöxtum. Þá var talið að með samkomulagi E og L í maí 2007, þar sem ákveðið var að E tæki við starfi yfirlæknis með stjórnunarskyldum á ný, hefði jafnframt verið mælt fyrir um starfskjör hans og því hefði samkomulagið falið efnislega í sér breytingar á ráðningarsamningi hans hjá L. Var því ekki litið svo á að ómálefnalegt hefði verið af L að setja E það skilyrði að hann léti af rekstri læknastofu samhliða því að hann tæki að sér aukin störf og ríkari ábyrgð fyrir L. Var L sýkn af viðurkenningarkröfu E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. nóvember 2008. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.841.035 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann viðurkenningar á að stefnda hafi verið óheimilt að banna sér haustið 2006 að stunda sjálfstæðan stofurekstur, utan umsamins vinnutíma hjá stefnda, samhliða því að gegna stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild stefnda. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í héraði krafðist áfrýjandi í fyrsta lagi greiðslu á tilteknu álagi á laun sín ásamt dráttarvöxtum. Stefndi hafði greitt höfuðstól þeirrar kröfu, en hafnað dráttarvöxtum. Í öðru lagi gerði áfrýjandi kröfu um vangoldin laun og dráttarvexti af þeim á þeim grunni að stefndi hefði einhliða breytt starfshlutfalli hans úr 100% í 80% eftir að nýr kjarasamningur fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og St. Franciskuspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar tók gildi 1. febrúar 2006. Loks krafðist áfrýjandi viðurkenningar á því að stefnda hafi verið óheimilt að banna sér haustið 2006 að stunda sjálfstæðan stofurekstur, utan umsamins vinnutíma hjá stefnda, samhliða því að gegna stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild stefnda. Með hinum áfrýjaða dómi var stefnda gert að greiða áfrýjanda dráttarvexti af fyrrnefndu álagi á laun hans og er óumdeilt að stefndi hafi eftir uppkvaðningu dómsins gert þá kröfu upp við áfrýjanda. Stefndi var hins vegar sýknaður af öðrum kröfum áfrýjanda, en málskostnaður látinn niður falla. Stendur því eftir ágreiningur aðila um kröfu áfrýjanda um vangreidd laun og framangreinda viðurkenningarkröfu hans. Verður krafa stefnda um staðfestingu héraðsdóms því skilin á þann veg að í henni felist krafa um sýknu.
II
Eins og fram kemur í héraðsdómi var áfrýjandi 21. desember 1987 skipaður prófessor í augnsjúkdómafræði við læknadeild Háskóla Íslands frá 1. janúar 1988 að telja. Því embætti fylgdi staða yfirlæknis í sérgreininni og hóf áfrýjandi störf á augndeild Landakotsspítala árið 1989 sem yfirlæknir með stjórnunarskyldur. Við sameiningu Landakotsspítala og Borgarspítala undir heitinu Sjúkrahús Reykjavíkur 1. janúar 1996 mun starfsemi augndeildarinnar hafa flust til ríkisspítala, en við þann flutning hélt áfrýjandi stöðuheiti sínu og ráðningarkjörum. Starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur og ríkisspítala var sameinuð á árinu 2000 og tók stefndi þá við rekstrinum. Áfrýjandi fór í launalaust leyfi frá störfum á því ári og lauk leyfinu 1. september 2002. Þegar hann hóf störf á ný tók hann aftur við stöðu yfirlæknis við augndeild, en annar yfirlæknir gegndi áfram stjórnunarskyldum við deildina. Áfrýjandi rak frá árinu 1989 læknastofu samhliða starfi sínu sem yfirlæknir.
Á fundi framkvæmdastjórnar stefnda 11. desember 2001 var samþykkt að hafinn skyldi undirbúningur að breytingum á starfstilhögun yfirmanna á sjúkrahúsinu á þann hátt að þeir myndu gegna þar fullu starfi og sinntu almennt ekki öðrum störfum. Skyldi þessi skipan taka gildi ekki síðar en í árslok 2002. Lýsti stjórnarnefnd stefnda sig samþykka þessu fyrirkomulagi á fundi 13. sama mánaðar.
Áfrýjandi mun í ágúst 2006 hafa tilkynnt forstjóra stefnda að hann væri reiðubúinn að taka á ný við stjórnunarskyldum þegar yfirlæknirinn, sem hafði gegnt þeim frá árinu 2000, leitaði eftir að verða leystur undan þeim. Stefndi mun ekki hafa fallist á að áfrýjandi tæki við stjórnunarskyldum nema hann hætti rekstri læknastofu og var í því efni vísað í samþykkt stjórnarnefndar stefnda 13. desember 2001. Áfrýjandi sætti sig ekki við það skilyrði og auglýsti stefndi starf yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild laust til umsóknar 25. febrúar 2007. Viðræður milli áfrýjanda og stefnda um að áfrýjandi tæki að sér stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur hófust á ný í mars 2007. Þeim lauk með því að áfrýjandi féllst á skilyrði stefnda um að hætta rekstri læknastofu og undirritaði samkomulag við stefnda um starf og kjör sín 24. maí 2007, sem síðar verður vikið að. Áfrýjandi hætti rekstri læknastofu sinnar 30. júní 2007.
Málsatvikum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi svo og málsástæðum aðila.
III
Í bókun 2 með kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og St. Franciskuspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, sem undirritaður var 2. maí 2002, sagði meðal annars: „Þeir læknar sem við gildistöku samnings þessa reka læknastofur jafnhliða starfi sínu skulu hafa val um hvort þeir lækki núverandi starfshlutfall sitt um fimmtung eða taki laun samkvæmt launatöflu sem er 20% lægri en launatafla í grein 3.1.1. Velji læknir að lækka starfshlutfall sitt tekur sú ákvörðun gildi frá og með næstu mánaðamótum eftir að tilkynning þar að lútandi berst yfirmanni hans.“ Fyrir liggur að þegar áðurnefndu leyfi áfrýjanda lauk 1. september 2002 tók hann við fullri stöðu hjá stefnda en þáði 80% laun samkvæmt þessu ákvæði kjarasamningsins. Nýr heildarkjarasamningur milli sömu aðila var undirritaður 5. mars 2006 með gildistöku 1. febrúar sama ár, en með honum féll kjarasamningurinn frá 2. maí 2002 úr gildi. Sambærilegt ákvæði og var í bókun 2 var hvorki að finna í kjarasamningum frá 2006 né bókunum sem fylgdu honum.
Stefndi heldur því fram að áfrýjandi hafi verið bundinn af samþykkt framkvæmdastjórnar stefnda frá 2001 og því orðið að sæta 20% skerðingu launa sinna á því tímabili sem hann rak læknastofu samhliða störfum sínum sem yfirlæknir hjá stefnda eftir gildistöku kjarasamningsins frá 5. mars 2006. Samkvæmt efni sínu fjallaði samþykktin ekki um slíka launaskerðingu heldur um tiltekna almenna stefnumörkun stefnda sem varðaði meðal annars undirbúning þess að yfirmenn hjá honum skyldu gegna 100% starfi og ekki nema í undantekningartilvikum sinna öðrum aukastörfum en kennslu á háskólastigi og setu í nefndum á vegum hins opinbera. Slík samþykkt gat heldur ekki einhliða breytt launakjörum áfrýjanda. Um laun yfirmanna hjá stefnda samdist hins vegar síðar milli hans og stéttarfélags áfrýjanda með áðurnefndri bókun við kjarasamninginn frá 2002. Í henni var gert ráð fyrir að læknir í þjónustu stefnda ætti kost á að halda áfram rekstri læknastofu gegn því að lækka hlutfall starfs síns hjá stefnda eða taka hlutfallslega lægri laun fyrir það. Eins og áður er getið var áfrýjandi í 100% stöðu hjá stefnda eftir að hann kom til starfa á ný 1. september 2002 að loknu leyfi og fékk þá greidd 80% launa á grundvelli áðurnefndrar bókunar. Hann hefur sætt sig við þá skerðingu fram að þeim tíma er nýr kjarasamningur tók gildi 1. febrúar 2006, en hann telur að frá þeim tíma hafi stefnda ekki verið heimilt að skerða einhliða starfshlutfall hans eða launakjör.
Óumdeilt er að áfrýjandi tilkynnti ekki stefnda í kjölfar kjarasamningsins frá 2002 að hann hygðist lækka starfshlutfall sitt eins og gert var ráð fyrir að yfirmönnum stefnda stæði til boða samkvæmt bókun 2 með samningnum ef þeir vildu áfram reka læknastofu. Hann valdi heldur ekki milli þeirra kosta að lækka annaðhvort hlutfall starfa sinna eða taka fyrir þau 20% lægri laun. Þegar af þessari ástæðu gat bókunin efni sínu samkvæmt ekki haft áhrif á launakjör áfrýjanda eftir að nýr kjarasamningur tók gildi á árinu 2006. Í ljósi þessa verður fallist á með áfrýjanda að stefnda hafi verið óheimilt án samþykkis áfrýjanda að skerða laun hans frá og með 1. febrúar 2006, er nýr kjarasamningur tók gildi, til 30. júní 2007, er áfrýjandi hætti rekstri læknastofu sinnar. Verður krafa hans um vangoldin laun á þessu tímabili, sem ekki er tölulegur ágreiningur um, því tekin til greina ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
IV
Eins og aðilar hafa hagað málflutningi um viðurkenningarkröfu áfrýjanda verður að líta svo á að hún lúti að því að stefnda hafi verið óheimilt að setja áfrýjanda það skilyrði við gerð samkomulags þeirra 24. maí 2007 að hann myndi ekki stunda sjálfstæðan rekstur læknastofu samhliða störfum sínum hjá stefnda.
Áfrýjandi gekkst eins og áður greinir 24. maí 2007 undir samkomulag „um starf og kjör yfirlæknis augndeildar“. Þar sagði meðal annars að yfirlæknir skyldi starfa samkvæmt þeim reglum sem spítalinn hefði sett 13. desember 2001 og ennfremur kom þar fram að „forsenda samkomulags þessa er að yfirlæknir augndeildar stundi ekki sjálfstæðan rekstur lækningastofu frá og með 1. júní 2007“. Áfrýjandi telur að ólögmætt hafi verið að setja þetta skilyrði, þar sem með því hafi verið afturkölluð fyrri ákvörðun um að heimila honum að stunda þetta aukastarf allt frá árinu 1989, er hann var skipaður yfirlæknir. Við þá afturköllun hefði borið að gæta málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda geti 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ekki átt við um aukastarf áfrýjanda. Eins og rakið hefur verið kom áfrýjandi úr leyfi haustið 2002 og kaus þá að taka við starfi yfirlæknis án þess að gegna jafnframt þeim stjórnunarstörfum sem hann hafði áður sinnt. Með samkomulaginu 24. maí 2007 var ekki aðeins ákveðið að áfrýjandi tæki við þeim störfum á ný, heldur var þar jafnframt mælt fyrir um starfskjör hans og fól samkomulagið því efnislega í sér breytingar á ráðningarsamningi hans hjá stefnda. Ekki verður litið svo á að ómálefnalegt hafi verið af stefnda að setja áfrýjanda það skilyrði að hann léti af rekstri læknastofu samhliða því að hann tæki að sér aukin störf og ríkari ábyrgð gagnvart stefnda, en fyrir þessu skilyrði var viðhlítandi stoð í 20. gr. laga nr. 70/1996. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákvörðun stefnda um að setja áfrýjanda þetta skilyrði hafi heldur ekki farið í bága við 11. gr. eða 12. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfu áfrýjanda.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Landspítali - háskólasjúkrahús, greiði áfrýjanda, Einari Stefánssyni, 1.841.035 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 113.886 krónum frá 1. mars 2006 til 1. apríl sama ár, af 227.772 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 341.658 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 455.544 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 569.430 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 683.316 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 797.202 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 911.088 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 1.024.974 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 1.138.860 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2007, af 1.252.746 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 1.369.935 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 1.487.124 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 1.604.313 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 1.721.502 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár og af 1.841.035 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi er sýkn af viðurkenningarkröfu áfrýjanda.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2008.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 19. september sl., er höfðað með stefnu birtri 10. janúar 2008.
Stefnandi er Einar Stefánsson, Fjarðarási 13, Reykjavík.
Stefndi er Landspítali-háskólasjúkrahús, Eiríksgötu 5, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að stefndi verði dæmdur til að greiða honum vangreidd laun samkvæmt kjarasamningi að fjárhæð 2.825.196 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001, af 15.252 kr. frá 1. september 2002 til 1. október 2002, frá þeim degi af 30.504 kr. til 1. nóvember 2002, frá þeim degi af 45.756 kr. til 1. desember 2002, frá þeim degi af 61.008 kr. til 1. janúar 2003, frá þeim degi af 76.718 kr. til 1. febrúar 2003, frá þeim degi af 92.428 kr. til 1. mars 2003, frá þeim degi af 108.138 kr. til 1. apríl 2003, frá þeim degi af 123.848 kr. til 1. maí 2003, frá þeim degi af 139.558 kr. til 1. júní 2003, frá þeim degi af 155.268 kr. til 1. júlí 2003, frá þeim degi af 170.978 kr. til 1. ágúst 2003, frá þeim degi af 186.688 kr. til 1. september 2003, frá þeim degi af 202.398 kr. til 1. október 2003, frá þeim degi af 218.108 kr. til 1. nóvember 2003, frá þeim degi af 233.818 kr. til 1. desember 2003, frá þeim degi af 249.528 kr. til 1. janúar 2004, frá þeim degi af 265.709 kr. til 1. febrúar 2004, frá þeim degi af 281.890 kr. til 1. mars 2004, frá þeim degi af 298.071 kr. til 1. apríl 2004, frá þeim degi af 314.252 kr. til 1. maí 2004, frá þeim degi af 330.433 kr. til 1. júní 2004, frá þeim degi af 346.614 kr. til 1. júlí 2004, frá þeim degi af 362.795 kr. til 1. ágúst 2004, frá þeim degi af 378.976 kr. til 1. september 2004, frá þeim degi af 395.157 kr. til 1. október 2004, frá þeim degi af 411.338 kr. til 1. nóvember 2004, frá þeim degi af 427.519 kr. til 1. desember 2004, frá þeim degi af 443.700 kr. til 1. janúar 2005, frá þeim degi af 460.366 kr. til 1. febrúar 2005, frá þeim degi af 477.032 kr. til 1. mars 2005, frá þeim degi af 493.698 kr. til 1. apríl 2005, frá þeim degi af 510.364 kr. til 1. maí 2005, frá þeim degi af 527.030 kr. til 1. júní 2005, frá þeim degi af 543.696 kr. til 1. júlí 2005, frá þeim degi af 560.362 kr. til 1. ágúst 2005, frá þeim degi af 577.028 kr. til 1. september 2005, frá þeim degi af 593.694 kr. til 1. október 2005, frá þeim degi af 610.360 kr. til 1. nóvember 2005, frá þeim degi af 627.026 kr. til 1. desember 2005, frá þeim degi af 643.692 kr. til 1. janúar 2006, frá þeim degi af 665.914 kr. til 1. febrúar 2006, frá þeim degi af 798.022 kr. til 1. mars 2006, frá þeim degi af 930.130 kr. til 1. apríl 2006, frá þeim degi af 1.062.238 kr. til 1. maí 2006, frá þeim degi af 1.198.901 kr. til 1. júní 2006, frá þeim degi af 1.331.009 kr. til 1. júlí 2006, frá þeim degi af 1.463.117 kr. til 1. ágúst 2006, frá þeim degi af 1.595.225 kr. til 1. september 2006, frá þeim degi af 1.727.233 kr. til 1. október 2006, frá þeim degi af 1.859.441 kr. til 1. nóvember 2006, frá þeim degi af 1.991.549 kr. til 1. desember 2006, frá þeim degi af 2.123.657 kr. til 1. janúar 2007, frá þeim degi af 2.259.596 kr. til 1. febrúar 2007, frá þeim degi af 2.395.535 kr. til 1. mars 2007, frá þeim degi af 2.531.474 kr. til 1. apríl 2007, frá þeim degi af 2.667.413 kr. til 1. maí 2007, frá þeim degi af 2.806.071 kr. til 1. júní 2007, frá þeim degi af 2.825.196 kr. og til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 984.161 kr. hinn 1. júlí 2007.
Í öðru lagi krefst hann þess að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að banna stefnanda haustið 2006 að stunda sjálfstæðan stofurekstur, utan umsamins vinnutíma hjá stefnda, samhliða því að gegna stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild stefnda.
Stefnandi gerir enn fremur í báðum tilvikum kröfu um málskostnað að skaðlausu úr hendi stefnda, að teknu tilliti til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði.
Stefndi gerir eftirfarandi dómkröfur:
1. Viðurkennt verði að stefnandi eigi rétt á dráttarvöxtum frá 10. janúar 2004 af sérstöku álagi á laun samkvæmt launaflokki 300, 4. þrepi samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og fl. og Læknafélags Íslands frá 2. maí 2002 og kjarasamningi sömu aðila frá 5. mars 2006 fyrir tímabilið frá 1. september 2002 til 1. júní 2007, í samræmi við útreikninga stefnanda í stefnu. Þess er krafist að innborgun stefnda að fjárhæð 984.151 kr. þann 1. júlí 2007 komi til greiðslu inn á dómkröfuna miðað við þann dag.
2. Stefndi krefst sýknu af öllum öðrum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins.
Málavextir.
Stefnandi var skipaður prófessor við læknadeild Háskóla Íslands 1. janúar 1988 en þeirri stöðu fylgdi staða yfirlæknis við Landspítala-háskólasjúkrahús, LSH. Hann starfaði sem yfirlæknir með stjórnunarskyldur við augndeild stefnda á árunum 1989-2000 en fór þá í tveggja ára leyfi frá störfum. Á sama tíma og stefnandi gegndi starfi yfirlæknis hjá stefnda rak hann eigin læknastofu frá árinu 1989 til 30. júní 2007. Á grundvelli samkomulags LSH og Háskóla Íslands frá 10. maí 2001 og viðauka frá 28. júní 2002 var stefnanda tryggð yfirlæknisstaða án stjórnunarskyldu hjá LSH vegna starfa hans sem prófessors við Háskóla Íslands.
Þegar leyfi stefnanda frá störfum rann út 1. september 2002 tók stefnandi við fyrri stöðu sinni sem yfirlæknir við deildina, en tók ekki jafnframt við stjórnunarskyldum. Höfðu þá orðið ákveðnar breytingar á starfsumhverfi stefnanda samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnar LSH frá 11. desember 2001 og samþykkt stjórnarnefndar sjúkrahússins. Fólust þær í því að stjórnendur innan LSH skyldu starfa í 100% starfi innan sjúkrahússins og ekki hafa önnur aukastörf með höndum en kennslu á háskólastigi eða störf við háskóla. Þeim læknum, sem kysu að starfrækja sjálfstæðar lækningastofur, var boðið að starfa í 80% starfi sérfræðilæknis. Í greinargerð stefnda kemur fram að miðað við framangreindar breytingar á starfsumhverfi stefnanda hefði hann á því tímamarki þurft að taka afstöðu til þess hvort hann hygðist halda áfram starfi yfirlæknis og láta samhliða af rekstri sjálfstæðrar lækningastofu sinnar eða halda áfram slíkum rekstri og láta af starfi yfirlæknis. Til þess hafi þó ekki komið á því tímamarki, þar sem stefnandi hafi þá verið og sé enn starfandi prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og honum því tryggð yfirlæknisstaða án stjórnunarskyldu hjá stefnda. Hafi stefnandi starfað sem slíkur allt til þess tímamarks er hann réð sig til starfa sem yfirlæknir með stjórnunarskyldur á árinu 2007. Áður en til þess kom höfðu forstjóri og lækningaforstjóri stefnda gert þá kröfu að stefnandi léti af sjálfstæðum stofurekstri sínum utan sjúkrahússins. Samþykkti stefnandi skilyrði stefnda við ráðningu í starf yfirlæknis með stjórnunarskyldur og ritaði undir þrjú skjöl sem fólu í sér samkomulag um starf og kjör yfirlæknis augndeildar, dags. 24. maí 2007, samkomulag vegna augndeildar LSH og starfs yfirlæknis deildarinnar, dags. 24. maí 2007, og starfslýsingu yfirlæknis augnlækninga, dags. 1. júní 2007. Stefnandi hætti rekstri lækningastofu sinnar 30. júní 2007 í samræmi við skriflegt samkomulag hans og yfirstjórnar sjúkrahússins. Eftir það hefur stefnandi gegnt störfum yfirlæknis augndeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss með þeim stjórnunarskyldum sem fylgja starfi yfirlæknis deildarinnar.
Í grein 3.2.1.4 í kjarasamningi milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskusspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar frá 2002 er kveðið á um að læknir með sérfræðileyfi sem lokið hefur doktorsprófi eða jafngildu prófi að mati Læknadeildar Háskóla Íslands, skuli fá sérstakt álag af launaflokki 300, 4. þrepi.
Frá þeim tíma er stefnandi kom aftur til starfa, fékk hann ekki greitt umrætt álag á laun, í samræmi við kjarasamninga. Leiðrétting á þessum greiðslum var gerð 1. júlí 2007 en þá greiddi stefndi eingöngu höfuðstól án vaxta. Stefnandi beindi kröfu um greiðslu dráttarvaxta til stefnda þegar ljóst var að eingöngu höfuðstóll álagsins hafði verið greiddur. Eins og greinir í dómkröfum stefnda viðurkennir hann ófyrnda dráttarvaxtakröfu stefnanda varðandi hið sérstaka 3% álag á laun stefnanda á tímabilinu frá 1. september 2001 til og með 1. júní 2007. Samkvæmt þessu samþykkir stefndi að greiða stefnanda dráttarvexti frá 10. janúar 2004 til greiðsludags, þ.e. miðað við stefnubirtingu 10. janúar 2008 og 4 ára fyrningartíma, en mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda fyrir þann tíma sem fyrndri. Ágreiningur málsaðila varðandi fyrri kröfulið stefnanda snýst því um hvort dráttarvextir á 3% álag á laun stefnanda séu fyrndir fyrir tímabilið 1. september 2002 til 10. janúar 2004.
Í öðru lagi er ágreiningur um fjárkröfu stefnanda vegna vangoldinna launa á tímabilinu 1. febrúar 2006 til 30. júní 2007 auk dráttarvaxta. Hvað varðar þá kröfu kveður stefnandi málavexti vera þá að eftir að nýr kjarasamningur var gerður milli fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs og St. Franciskusspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar með gildistöku 1. febrúar 2006 hafi stefndi breytt starfshlutfalli stefnanda einhliða úr 100% í 80%. Fram að þeim tíma, eða frá gildistöku kjarasamnings árið 2002 var stefnandi í 100% stöðu, en þáði 80% laun samkvæmt sérstakri bókun, bókun 2, í kjarasamningi frá 2. maí 2002, vegna lækna sem sinntu störfum utan spítalans.
Þá er ágreiningur í málinu um hvort stefnda hafi verið óheimilt að banna stefnanda að stunda sjálfstæðan stofurekstur samhliða því að gegna stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild stefnda.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur stefnandi og Friðbert Jónasson.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Málsástæður varðandi dráttarvexti á vangoldið álag á laun.
Stefnandi bendir á að hann sé ríkisstarfsmaður. Fyrir gildistöku laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi hann fengið laun sín greidd fyrirfram og hafi þeirri framkvæmd verið fylgt í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögunum. Stefnandi vísar til 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu um heimild sína til að krefjast dráttarvaxta frá gjalddaga fram að greiðsludegi. Stefnandi byggir á því að stefnda beri að greiða honum dráttarvexti frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi þar sem um sé að ræða peningakröfu með fyrirfram ákveðnum gjalddaga.
Málsástæður varðandi vangoldnar launagreiðslur auk dráttarvaxta.
Stefnandi byggir fjárkröfu sína á hendur stefnda á því að honum beri óskertar launagreiðslur frá og með tímabilinu 1. febrúar 2006, þegar nýr kjarasamningur hafi tekið gildi, til 30. júní 2007, þegar hann hafi hætt rekstri augnlæknastofu sinnar. Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi, eftir gildistöku núgildandi kjarasamnings frá 1. febrúar 2006, ætlað að framfylgja framkvæmd samkvæmt bókun við kjarasamninginn frá 2002. Engin slík bókun sé í núgildandi kjarasamningi og sé því um að ræða skerðingu á launum til stefnanda sem eigi sér enga stoð í gildandi kjarasamningi eða öðrum réttarheimildum. Það leiði af almennum reglum vinnuréttarins að kaup og kjör starfsmanna ráðist af ákvæðum gildandi kjarasamninga aðila. Gildandi kjarasamningur kveði ekki á um sérstök kjör til lækna, sem auk þess að gegna stöðu yfirlæknis hjá stefnda, stundi sjálfstæðan stofurekstur utan sjúkrahúss, eins og verið hafi í tíð kjarasamnings frá 2002. Stefndi hafi vísað til bókunar við þann kjarasamning um heimild til skerðingar á launum stefnanda, sbr. bréf stefnda frá 17. janúar 2007, en bókunum við kjarasamning sé ætlað að greiða úr tilteknum ágreiningsefnum, t.d. þannig að þar sé skráður sameiginlegur skilningur aðila um atriði sem deilt hefur verið um. Með bókuninni við kjarasamninginn frá 2002 hafi verið kveðið á um lakari rétt ákveðinna lækna, þannig að þeir myndu annað hvort minnka starfshlutfall sitt eða taka 80% laun fyrir 100% starf. Hefði slíkt íþyngjandi ákvæði átt að binda aðila eftir gildistöku nýs kjarasamnings, hefði verið nauðsynlegt að það kæmi fram í kjarasamningnum eða í bókun við hann. Byggir stefnandi á því að fyrrgreind bókun geti því ekki haft nokkra þýðingu við túlkun gildandi samnings aðila. Stefnandi byggir jafnframt á því að séu kjör starfsmanns lakari en samkvæmt kjarasamningum brjóti slíkt gegn 24. gr. laga nr. 97/1996 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Stefnandi krefst með vísan til alls framangreinds greiðslu úr hendi stefnanda á 20% launa samkvæmt launatöflu 3.1.1. í gildandi kjarasamningi á tímabilinu frá 1. febrúar 2006 til 30. júní 2007 auk dráttarvaxta samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Um frádrátt frá fjárkröfu vísar stefnandi til kröfugerðar og málsatvikalýsingar. Stefnandi krefst þess að innborgun frá 1. júlí 2007 komi fyrst til greiðslu vaxta og kostnaðar áður en hún kemur til lækkunar á höfuðstól.
Málsástæður varðandi það að stefnda hafi verið óheimilt að banna stefnanda að stunda sjálfstæðan stofurekstur samhliða því að gegna starfi yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild stefnda.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að ákvörðun stjórnarnefndar stefnda frá 13. desember 2001 hafi verið ólögmæt. Í ákvörðuninni hafi bæði verið tekin afstaða til þess hvernig standa skyldi að því að breyta starfafyrirkomulagi þáverandi yfirlækna og einnig hvaða stefnu skyldi fylgt við síðari ráðningar yfirlækna til stefnda. Fyrrnefnt hafi því falið í sér að afturkalla hafi þurft fyrri ákvarðanir gagnvart þeim yfirlæknum sem á þessu tímamarki hafi stundað sjálfstæðan atvinnurekstur, um að þeim væri leyft að stunda stofurekstur að aukastarfi.
Áðurnefnd ákvörðun hafi verið tekin án þess að gætt væri að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, auk þess sem enginn rökstuðningur hafi verið fyrir henni. Stefnandi vísar í þessu sambandi til athugasemda með 20. gr. starfsmannalaga, en þar er því slegið föstu að ákvörðun um bann við aukastörfum sé stjórnvaldsákvörðun. Ákvörðunin frá 13. desember 2001 hafi ekki verið tekin sérstaklega gagnvart einstökum læknum og hvert mál hafi því ekki verið rannsakað sérstaklega. Hafi því hvorki verið fylgt form- né efnisreglum stjórnsýsluréttar. Stefnanda var því meðal annars ekki gefinn kostur á að tjá sig áður en sú ákvörðun var tekin, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Tilvísanir til ákvörðunar stjórnarnefndar standist ekki sem fullnægjandi rökstuðningur fyrir banni við því að stunda stofurekstur samhliða því að gegna yfirlæknisstöðu með stjórnunarskyldur. Við afturköllun stjórnvaldsákvörðunar skuli fylgja reglum stjórnsýslulaga líkt og almennt við töku stjórnvaldsákvörðunar. Byggir stefnandi á því að þar sem ákvörðunin frá 13. desember 2001 hafi verið ólögmæt sé ákvörðun sú sem sérstaklega beindist að honum og byggð var á þeirri fyrrnefndu, þegar af þeirri ástæðu ólögmæt.
Varðandi þá ákvörðun sem sérstaklega beindist að stefnanda er byggt á eftirfarandi málsástæðum:
Við töku ákvörðunarinnar hafi ekki verið farið að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að neinu leyti. Stefnanda hafi eingöngu verið tilkynnt haustið 2006, með vísan til áðurnefndrar ákvörðunar stjórnarnefndar stefnda að honum bæri að láta af stofurekstri sínum hefði hann í hyggju að sinna stjórnunarskyldum á augndeild stefnda. Hafi honum ekki verið tilkynnt áður að stefndi hefði tekið mál hans til meðferðar, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga og hafi honum ekki verið veitt tækifæri til þess að tjá sig áður en ákvörðun var tekin, sbr. 13. gr. laganna.
Þá byggir stefnandi á því að með ákvörðuninni hafi verið brotið gegn efnisreglum stjórnsýsluréttarins og því sé ákvörðunin ólögmæt.
a) Jafnræðisreglan.
Stefnda hafi verið skylt að gæta samræmis og jafnræðis við úrlausn mála. Stefnanda sé kunnugt um að banni við sjálfstæðum stofurekstri yfirlækna hjá stefnda hafi verið fylgt mishart eftir gagnvart einstökum yfirlæknum. Af samþykkt stjórnarnefndar stefnda frá 13. desember 2001 verði ekki annað ráðið en að það sama ætti að gilda um alla yfirmenn hjá stefnda. Augljós mismunun felist í afgreiðslu stefnda að þessu leyti, enda hafi stefndi ekki fært málefnaleg rök fyrir þeirri mismunun.
b) Meðalhófsreglan.
Stefnandi byggir á því að ákvörðun stefnda feli í sér brot gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Stefnanda sé ekki enn ljóst í hvaða tilgangi hin ólögmæta ákvörðun hafi verið tekin og hverju það bann sem í ákvörðuninni fólst, átti að koma til leiðar, en stefndi hafi gengið mun lengra en efni stóðu til.
c) Lögmætisreglan-málefnaleg sjónarmið.
Stefnandi byggir á því að 2. mgr. 20. gr. laga nr. 70/1996 geti ekki átt við um aukastarf hans. Stefndi hafi ekki vísað beint til framangreinds lagaákvæðis en af samskiptum aðila megi ætla að ákvörðun um bann við aukastarfi stefnanda byggist á ákvæðinu. Stefnandi bendir á að hann hafi athugasemdalaust gegnt aukastarfi frá árinu 1989 frá því að hann var skipaður yfirlæknir hjá stefnda. Hafi það starf aldrei komið niður á störfum hans í þágu stefnda og engar athugasemdir hafi verið gerðar við að hann sinnti aukastarfi samhliða starfi sínu hjá stefnda, allt þar til stefnubreyting hafi orðið hjá stjórn stefnda. Samkvæmt stjórnsýslurétti sé óumdeilt að það að heimila starfsmanni að stunda aukastarf samhliða aðalstarfi sé stjórnvaldsákvörðun. Að sama skapi sé ákvörðun um að banna starfsmanni aukastarf, sem honum hafi áður verið heimilað að stunda, stjórnvaldsákvörðun. sbr. athugasemdir við 20. gr. frumvarps til laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með því að banna stefnanda að stunda aukastarf sé verið að afturkalla fyrri ákvörðun um að leyfa aukastarf og gildi um það málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Stefnandi bendi enn fremur á að viðurkennt sé samkvæmt stjórnsýslurétti að strangar kröfur séu gerðar þegar til standi að afturkalla ívilnandi ákvörðun.
Stefnandi bendir á að jafnvel þótt sú ákvörðun að banna stefnanda að stunda aukastörf, verði ekki talin stjórnvaldsákvörðun, hafi stefnda borið að fara að meginreglum stjórnsýsluréttarins, áður en ákvörðun var tekin. Þær meginreglur hafi mun víðtækara gildissvið en stjórnsýslulög.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi fellst á ófyrnda dráttarvaxtakröfu stefnanda varðandi hið sérstaka 3% álag á laun stefnanda á tímabilinu 1. september 2001 til og með 1. júní 2007, þannig að upphaf dráttarvaxtakröfu miðist við 10. janúar 2004, þ.e. miðað við stefnubirtingu 10. janúar 2008 og 4 ára fyrningartíma.
Varðandi kröfu stefnanda um að honum beri óskertar launagreiðslur frá 1. febrúar 2006, til 30. júní 2007, mótmælir stefndi þeirri skýringu stefnanda að um skerðingu á launum hafi verið að ræða, sem eigi sér enga stoð í gildandi kjarasamningi. Stefndi bendir á að ákvörðun stefnda byggi ekki á núgildandi kjarasamningi, heldur á tillögu framkvæmdastjórnar LSH frá 11. desember 2001 og á samþykkt stjórnarfundar LSH og bókunar 2 í þágildandi kjarasamningi aðila, þar sem samningsaðilar hafi samþykkt tiltekið starfsfyrirkomulag. Ekki hafi því verið nauðsynlegt að geta um óbreytt fyrirkomulag í núgildandi kjarasamningi eða í bókun með honum. Nýr kjarasamningur hafi ekki breytt því fyrirkomulagi sem fyrrgreind bókun fjallaði um, þ.e. stefnandi hélt áfram stofurekstri sínum til 1. júlí 2007 og fékk áfram greidd 80% laun á nákvæmlega sama grundvelli og fyrr og án sérstakra mótmæla af hálfu stefnanda.
Stefndi krefst sýknu af þeirri viðurkenningarkröfu stefnanda að stefnda hafi verið óheimilt að banna stefnanda haustið 2006 að stunda sjálfstæðan stofurekstur, utan umsamins vinnutíma hjá stefnda, samhliða því að gegna stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild stefnda og bendir á að starf það sem stefnandi sinni í dag, hafi verið auglýst til umsóknar og í auglýsingu hafi þess sérstaklega verið getið að um 100% starf væri að ræða. Jafnframt hafi þess verið krafist að yfirlæknir hefði ekki önnur störf með höndum utan sjúkrahúss. Stefnandi hafi átt viðræður við framkvæmdastjóra lækninga hjá stefnda áður en komið hafi til ráðningar hans í starfið og honum verið gerðir skilmálar ljósir. Stefnandi hafi gengist undir þessa skilmála og ráðið sig til starfa. Samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sé stefnda heimilt að gera þá kröfu til starfsmanna sinna að þeir hafi ekki önnur aukastörf með höndum. Hafi stefndi gert þá kröfu til yfirmanna sinna allt frá árinu 2002.
Í því tilviki sem hér um ræði hafi stefnandi gengist við ráðningarskilmálum að undangengnum viðræðum við framkvæmdastjóra lækninga hjá stefnda. Hafi þetta verið ákvörðun stefnanda sjálfs. Þannig hafi stefnandi ekki verið sviptur rétti til að sinna störfum á sjálfstæðri lækningastofu, eins og stefnandi haldi nú fram. Stefnandi hafi ráðið sig til starfa þar sem kröfur séu gerðar til þess að hann hefði ekki með höndum störf utan sjúkrahúss, önnur en kennslu, og hafi hann einfaldlega gengist við þeim skilmálum ráðningar. Í stefnu sé því haldið fram að stefnandi hafi gengist nauðugur undir það skilyrði stefnda að hætta starfrækslu lækningastofu sinnar. Stefnandi hafi í engu sýnt fram á í hverju sú nauðung hafi falist, en eðli málsins samkvæmt hafi honum verið frjálst að taka að sér það starf sem auglýst var, en að öðrum kosti sleppa því. Stefndi leggi áherslu á, að stefnandi hafi gengist undir skilmála ráðningar af fúsum og frjálsum vilja. Hluti þeirra skilmála hafi falist í því að stefnandi hafi fallist á að starfa samkvæmt stefnumörkun LSH frá árinu 2001 og samhliða hafi verið gerðar breytingar á launum og öðrum starfskjörum. Með framangreindu hafi stefnandi tekist á hendur samningsskuldbindingar og þar með stefnumörkun sjúkrahússins um takmörkun á heimild yfirmanna til að starfa á sjálfstæðri lækningastofu samhliða starfi hjá stefnda.
Stefndi mótmælir þeirri frumforsendu kröfugerðar stefnanda að honum hafi verið bannað að stunda stofurekstur. Stefnandi hafi áfram getað stundað stofurekstur en hann hafi þó ekki samhliða getað verið yfirlæknir með stjórnunarskyldur. Þar hafi stefnandi dregið mörkin, sbr. fyrri stefnumörkun sjúkrahússins frá desember 2001. Stefndi telji sig hafa haft lagalegar og stjórnunarlegar heimildir til að krefjast þess að við ráðningu yfirlæknis í starf með stjórnunarskyldum að viðkomandi sinnti ekki sjálfstæðum stofurekstri.
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnumörkun sú, sem samþykkt var á fundi framkvæmdastjórnar 11. desember 2001, hafi ekki að geyma stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Á sama hátt byggi stefndi á því að meðferð stefnumörkunar fyrir stjórnarnefnd 13. desember 2001 verði ekki talin fela í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Einungis hafi verið um stefnumörkun að ræða og kveði textinn skýrlega á um að gengið skuli til gerðar samkomulags við yfirmenn. Af beinu orðalagi stefnumörkunar leiði að ákvörðun yrði samkvæmt því aldrei tekin fyrr en reynt hefði verið til hlítar að ganga frá samkomulagi. Stefndi byggi á því að ráðstafanir varðandi slík mál séu á sviði starfsmannaréttar samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en feli ekki í sér ákvörðun um rétt eða skyldur í skilningi stjórnsýsluréttar, þ.e. teljist ekki til stjórnvaldsákvarðana.
Jafnvel þótt talið yrði að ákvæði stjórnsýslulaga eða meginreglna stjórnsýsluréttar hafi átt við, er á því byggt að stefndi hafi uppfyllt slík ákvæði gagnvart stefnanda.
Stefndi mótmælir því að stefnumörkun hans gagnvart störfum yfirmanna utan sjúkrahúss hafi brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Í því sambandi bendir stefndi á, að þær tillögur sem lagðar voru fyrir framkvæmdastjórn og stjórnunarnefnd stefnda 11. og 13. desember 2001, hafi falið í sér almenna stefnumörkun um störf yfirmanna hjá sjúkrahúsinu. Í tillögu hafi komið fram að gengið yrði frá samkomulagi við hlutaðeigandi yfirmenn. Framangreind stefnumörkun hafi grundvallast á stefnumiðum LSH og hafi tekið jafnt til allra yfirmanna sem eins hafi verið ástatt um.
Stefndi byggir á, eins og fyrr er rakið, að skýr lagaheimild sé fyrir hendi til þess að banna starfsmönnum að hafa önnur störf með höndum, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996. Í þessu samhengi sé rétt að horfa til stjórnunarréttar forstöðumanns, en í honum felist allvíðtækur réttur forstöðumanns til að skipuleggja starfsemi stofnunar, vera leiðandi í stefnumótun vegna þeirra verkefna sem stofnunin hafi með höndum. Stefnandi bendir á að sú grundvallarregla gildi um ríkisstarfsmenn að þeim sé óheimilt, án sérstaks leyfis að gegna aukastarfi utan aðalstarfs. Ákvæði kjarasamninga aðila styðji ennfremur þessi sjónarmið og takmarki rétt stefnanda að þessu leyti.
Stefnumörkun stefnda varðandi störf yfirmanna hafi verið tekin í kjölfar sameiningar Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Við ákvarðanir þar að lútandi hafi verið litið til verulegs og aukins umfangs starfseminnar vegna sameininga einstakra deilda og sviða, stefnumörkunar um styrkingu starfseminnar t.d. varðandi göngudeildarþjónustu o.fl. Forsendur að baki stefnumörkunar hafi því varðað rekstrar- og stjórnunarlegar ástæður. Af hálfu stefnda er á því byggt að ástæður og forsendur hafi verið lögmætar.
Stefndi telur að sú ráðagerð sjúkrahússins að ráða yfirmann sjúkrahússins í 100% starf og gera kröfu til þess að þeir starfi ekki utan sjúkrahúss, hafi ekki gengið lengra en nauðsynlegt var, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993. Stefndi bendir á að ákvörðun hafi byggst á hagsmunum sjúkrahússins og framtíðarsýn stjórnenda varðandi uppbyggingu starfseminnar. Ákvörðunin sé í reynd í samræmi við almenn sjónarmið um starfsemi sjúkrahússins og styðjist auk þess við hagkvæmnisrök. Hún hafi tekið til allra sem eins var ástatt um og vandséð sé hvers vegna læknar, einir allra starfsstétta hjá stefnda, njóti sérstaks réttar umfram aðra starfsmenn að starfa utan sjúkrahúss, hvað þá stefnandi einn allra yfirmanna sjúkrahússins. Vegna þessa hafi jafnræðissjónarmiða verið gætt í hvívetna sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993.
Stefndi byggir enn fremur á því að sérstakur andmælaréttur í tengslum við meinta ákvörðun á fundi stjórnarnefndar 13. desember 2001 hafi í reynd alls ekki átt við eða talist nauðsynlegur. Í því sambandi vísist til afgreiðslu stjórnarnefndar þar sem hún lýsi sig samþykka stefnumörkun, en engin sérstök ákvörðun hafi verið tekin á fundi. Jafnvel þótt talið yrði að ákvörðun hafi verið tekin á fundi stjórnarnefndar hafi andmælaréttur verið óþarfur í skilningi 13. gr. laga nr. 37/1993. Í tilviki stefnanda liggi hins vegar fyrir að stefnandi hafi fengið tækifæri til að tjá sig um afstöðu stefnda áður en til ráðningar kom. Afstaða stefnanda til þessa atriðis liggi fyrir í gögnum málsins.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu í stefnu að ýmsum yfirlæknum sé heimilað að stunda aukastörf samhliða störfum yfirlæknis. Allir yfirmenn sem stefndi hafi gert kröfu um að starfi ekki utan sjúkrahúss, hafi uppfyllt skilyrði stefnda þar að lútandi.
Niðurstaða.
Stefnandi krefst þess fyrsta lagi að stefndi verði dæmdur til að greiða honum vangreidd laun samkvæmt kjarasamningi að fjárhæð 2.825.196 krónur auk dráttarvaxta. Lýtur kröfugerðin annars vegar að kröfu vegna dráttarvaxta á vangoldið álag og hins vegar að kröfu vegna vangoldinna launa og dráttarvaxta.
Stefnandi er ríkisstarfsmaður með fyrirfram greidd laun. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er kveðið á um að sé gjalddagi peningakrafna fyrir fram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
Stefndi heldur því fram að dráttarvextir, sem kunni að hafa fallið á kröfu stefnanda fyrir 10. janúar 2004, séu fyrndir. Vísar hann til þess að kröfur um vexti fyrnist á fjórum árum. Stefna í málinu hafi verið birt 10. janúar 2008 og séu vextir sem fallið hafi til fyrir 10. janúar 2004 fyrndir.
Af gögnum málsins verður ráðið að ætlan stefnda var í upphafi sú að greiða einungis höfuðstól hins vangoldna álags, en ekki áfallna dráttarvexti. Verður að telja að greiðsla höfuðstóls skuldarinnar og sú viðurkenning á skuldinni sem í því felst af hálfu stefnda feli ekki jafnframt í sér viðurkenningu skyldu stefnda til greiðslu dráttarvaxta, en reglur laga nr. 14/1905 miðast við að höfuðstóll skuldar annars vegar og vextir og dráttarvextir hins vegar, fyrnist sjálfstætt. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, verður fallist á með stefnda að dráttarvextir sem féllu til fyrir 10. janúar 2004 séu fyrndir.
Stefnandi hefur einnig gert kröfu um greiðslu vangoldinna launa og dráttarvaxta sem hann byggir á því að stefndi hafi, eftir gildistöku nýs kjarasamnings frá 1. febrúar 2006 breytt starfshlutfalli stefnanda einhliða úr 100% í 80% og hafi hann því ekki fengið nema 80% þeirra launa sem honum bar.
Fyrir liggur í málinu að nýr kjarasamningur milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskusspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar tók gildi 1. febrúar 2006. Í honum er ekki bókun samsvarandi þeirri bókun er gerð var við kjarasamning frá 2002, bókun 2. Í bókun 2 segir að þeir læknar sem við gildistöku samningsins reki læknastofur jafnhliða starfi sínu skuli hafa val um það hvort þeir lækki starfshlutfall sitt um fimmtung eða taki laun samkvæmt launatöflu sem er 20% lægri en launatafla í grein 3.1.1. Stefnandi valdi þá leið að taka laun samkvæmt launatöflu sem var 20% lægri en launatafla í grein 3.1.1., en var áfram í 100% starfshlutfalli. Bókun þessi er í samræmi við tillögu framkvæmdastjórnar LSH frá 11. desember 2001 og samþykkt stjórnarnefndar LSH frá 13. desember 2001, um breytingar á ráðningum og starfstilhögun yfirmanna á LSH þess efnis að yfirmenn gegni ávallt starfi sem svari til 100% starfshlutfalls og sinni ekki öðrum störfum utan LSH nema kennslustörfum við háskóla. Óumdeilt er að stefnandi rak lækningastofu samhliða því að gegna starfi yfirlæknis allt til 1. júlí 2007 og að fyrrgreindar samþykktir LSH, sem byggðust á ákveðinni stefnumótun innan spítalans eru enn í gildi. Er því fallist á með stefnda að ekki hafi verið nauðsynlegt að geta um óbreytt fyrirkomulag í kjarasamningi frá 2006 eða í bókun með honum. Er því stefndi sýknaður af kröfu stefnanda um vangreidd laun og dráttarvexti á þau laun.
Síðari krafa stefnanda er viðurkenningarkrafa, þar sem stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að banna stefnanda haustið 2006 að stunda sjálfstæðan stofurekstur utan umsamins vinnutíma hjá stefnda, samhliða því að gegna stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild stefnda.
Stefnandi heldur því fram að hann hafi í ágúst 2006 gert kröfu um að taka aftur við stjórnunarskyldum þeim sem Friðbert Jónasson hafði áður gegnt í leyfi stefnanda, en því er mótmælt af hálfu stefnda. Sönnunarbyrðin fyrir þessari fullyrðingu hvílir á stefnanda. Er ósannað, gegn mótmælum stefnda, að stefndi hafi bannað stefnanda haustið 2006 að stunda sjálfstæðan stofurekstur, utan umsamins vinnutíma hjá stefnda, samhliða því að gegna stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur.
Hins vegar liggur fyrir í málinu að áður en til þess kom um vorið 2007, að stefnandi sótti um stöðu yfirlæknis hjá stefnda með stjórnunarskyldur, átti stefnandi viðræður við framkvæmdastjórn LSH um það skilyrði, sem fram kom af hálfu LSH, að stefnandi ræki ekki lækningastofu, samhliða yfirlæknisstarfi með stjórnunarskyldur hjá stefnda.
Í fundargerð framkvæmdastjórnar LSH frá 11. desember 2001 segir að frá 1. janúar 2002 skuli hafinn undirbúningur að gerð breytinga á ráðningarsamningum og/eða starfstilhögun starfandi yfirmanna hjá sjúkrahúsinu á þann hátt að þeir gegni starfi sem svari til 100% starfshlutfalls og að þeir sinni ekki öðrum störfum utan sjúkrahúss en kennslu á háskólastigi. Skuli þessi regla hafa tekið gildi eigi síðar en í árslok 2002 og skuli ráðningum yfirmanna til sjúkrahússins framvegis svo varið, nema í undantekningartilvikum að annað sé talið henta sjúkrahúsinu. Í fundargerð stjórnarnefndar LSH frá 13. desember 2001 er greint frá fyrrgreindri samþykkt framkvæmdastjórnar um breytingar á ráðningum og starfstilhögun starfsmanna á LSH.
Sú stefna sem mörkuð var með ofangreindum fundargerðum framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar LSH um bann við aukastörfum yfirmanna LSH á sér stoð í 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem kveðið er á um hömlur eða bann við því að starfsmaður hafi aukastarf með höndum. Því er ekki fallist á að stefndi brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar við ráðningu stefnanda í starf yfirlæknis með stjórnunarskyldur.
Forsendur að baki fyrrgreindrar stefnumörkunar voru af rekstrarlegum og stjórnunarlegum toga og komu til m.a. vegna sameiningar Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Stefnumörkunin byggðist á þeim hagsmunum sjúkrahússins að yfirmenn sjúkrahússins helguðu sig algerlega starfi sínu. Hún fól í sér ákveðnar breytingar á starfstilhögun og ráðningum, sem taka áttu til allra yfirmanna LSH, lækna jafnt sem annarra. Málefnalegur ástæður lágu því að baki fyrrgreindri stefnumörkun og gekk hún ekki lengra en nauðsynlegt var. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á LSH hafi ekki gert sömu kröfur um bann við aukastörfum við ráðningu í sambærilegt starf og stefnandi gegnir nú.
Framangreindar samþykktir framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar LSH frá desember 2001 lágu fyrir þegar stefnandi sótti um starf sem yfirlæknir með stjórnunarskyldur í maí 2007 og hefur stefnandi því átt þess kost að kynna sér þær. Hann undirritaði samkomulag um starf og kjör yfirlæknis augndeildar, dagsett 24. maí 2007, þar sem segir í 1. grein að yfirlæknir starfi samkvæmt þeim reglum sem spítalinn hafi sett um störf yfirlækna, dags. 13. desember 2001. Í starfslýsingu yfirlæknis augnlækninga, sem stefnandi undirritaði 1. júní 2007, er að auki vísað til fyrrgreinds samkomulags frá 24. maí 2007.
Samkvæmt framansögðu er það mat dómsins að stefndi hafi ekki brotið gegn málsmeðferðar- eða efnisreglum stjórnsýsluréttarins við ráðningu stefnanda í starf yfirlæknis með stjórnunarskyldur vorið 2007 og er stefndi því sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda.
Það er því niðurstaða dómsins að einungis krafa stefnanda um dráttarvexti frá 10. janúar 2004 á sérstakt álag á laun verði tekin til greina og verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. janúar 2004 af 16.181 krónum til 1. febrúar 2004, en frá þeim degi af 32.362 krónum til 1. mars 2004, en frá þeim degi af 48.543 krónum til 1. apríl 2004, en frá þeim degi af 64.724 krónum til 1. maí 2004, en frá þeim degi af 80.905 krónum til 1. júní 2004, en frá þeim degi af 97.086 krónum til 1. júlí 2004, en frá þeim degi af 113.267 krónum til 1. ágúst 2004, en frá þeim degi af 129.448 krónum til 1. september 2004, en frá þeim degi af 145.629 krónum til 1. október 2004, en frá þeim degi af 161.810 krónum til 1. nóvember 2004, en frá þeim degi af 177.991 krónu til 1. desember 2004, en frá þeim degi af 194.172 krónum til 1. janúar 2005, en frá þeim degi af 210.838 krónum til 1. febrúar 2005, en frá þeim degi af 227.504 krónum til 1. mars 2005, en frá þeim degi af 244.170 krónum til 1. apríl 2005, en frá þeim degi af 260.836 krónum til 1. maí 2005, en frá þeim degi af 277.502 krónur til 1. júní 2005, en frá þeim degi af 294.168 krónum til 1. júlí 2005, en frá þeim degi af 310.834 krónum til 1. ágúst 2005, en frá þeim degi af 327.500 krónum til 1. september 2005, en frá þeim degi af 344.166 krónum til 1. október 2005, en frá þeim degi af 360.832 krónum til 1. nóvember 2005, en frá þeim degi af 377.490 krónum til 1. desember 2005, en frá þeim degi af 394.164 krónum til 1. janúar 2006, en frá þeim degi af 416.386 krónum til 1. febrúar 2006, en frá þeim degi af 434.608 krónum til 1. mars 2006, en frá þeim degi af 452.830 krónum til 1. apríl 2006, en frá þeim degi af 471.052 krónum til 1. maí 2006, en frá þeim degi af 493.829 krónum til 1.júní 2006, en frá þeim degi af 512.051 krónu til 1. júlí 2006, en frá þeim degi af 530.273 krónum til 1. ágúst 2006, en frá þeim degi af 548.495 krónum til 1. september 2006, en frá þeim degi af 566.717 krónum til 1. október 2006, en frá þeim degi af 584.939 krónum til 1. nóvember 2006, en frá þeim degi af 603.161 krónu til 1. desember 2006, en frá þeim degi af 621.383 krónum til 1. janúar 2007, en frá þeim degi af 640.133 krónum til 1. febrúar 2007, en frá þeim degi af 658.883 krónum til 1. mars 2007, en frá þeim degi af 677.633 krónum til 1. apríl 2007, en frá þeim degi af 696.383 krónum til 1. maí 2007, en frá þeim degi af 715.508 krónum til 1. júní 2007, en frá þeim degi af 734.633 krónum til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda að fjárhæð 984.161 krónur, 1. júlí 2007 sem kemur til greiðslu inn á dómkröfuna miðað við þann dag.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi, Landspítali háskólasjúkrahús, greiði stefnanda, Einari Stefánssyni, dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. janúar 2004 af 16.181 krónum til 1. febrúar 2004, en frá þeim degi af 32.362 krónum til 1. mars 2004, en frá þeim degi af 48.543 krónum til 1. apríl 2004, en frá þeim degi af 64.724 krónum til 1. maí 2004, en frá þeim degi af 80.905 krónum til 1. júní 2004, en frá þeim degi af 97.086 krónum til 1. júlí 2004, en frá þeim degi af 113.267 krónum til 1. ágúst 2004, en frá þeim degi af 129.448 krónum til 1. september 2004, en frá þeim degi af 145.629 krónum til 1. október 2004, en frá þeim degi af 161.810 krónum til 1. nóvember 2004, en frá þeim degi af 177.991 krónu til 1. desember 2004, en frá þeim degi af 194.172 krónum til 1. janúar 2005, en frá þeim degi af 210.838 krónum til 1. febrúar 2005, en frá þeim degi af 227.504 krónum til 1. mars 2005, en frá þeim degi af 244.170 krónum til 1. apríl 2005, en frá þeim degi af 260.836 krónum til 1. maí 2005, en frá þeim degi af 277.502 krónur til 1. júní 2005, en frá þeim degi af 294.168 krónum til 1. júlí 2005, en frá þeim degi af 310.834 krónum til 1. ágúst 2005, en frá þeim degi af 327.500 krónum til 1. september 2005, en frá þeim degi af 344.166 krónum til 1. október 2005, en frá þeim degi af 360.832 krónum til 1. nóvember 2005, en frá þeim degi af 377.490 krónum til 1. desember 2005, en frá þeim degi af 394.164 krónum til 1. janúar 2006, en frá þeim degi af 416.386 krónum til 1. febrúar 2006, en frá þeim degi af 434.608 krónum til 1. mars 2006, en frá þeim degi af 452.830 krónum til 1. apríl 2006, en frá þeim degi af 471.052 krónum til 1. maí 2006, en frá þeim degi af 493.829 krónum til 1.júní 2006, en frá þeim degi af 512.051 krónu til 1. júlí 2006, en frá þeim degi af 530.273 krónum til 1. ágúst 2006, en frá þeim degi af 548.495 krónum til 1. september 2006, en frá þeim degi af 566.717 krónum til 1. október 2006, en frá þeim degi af 584.939 krónum til 1. nóvember 2006, en frá þeim degi af 603.161 krónu til 1. desember 2006, en frá þeim degi af 621.383 krónum til 1. janúar 2007, en frá þeim degi af 640.133 krónum til 1. febrúar 2007, en frá þeim degi af 658.883 krónum til 1. mars 2007, en frá þeim degi af 677.633 krónum til 1. apríl 2007, en frá þeim degi af 696.383 krónum til 1. maí 2007, en frá þeim degi af 715.508 krónum til 1. júní 2007, en frá þeim degi af 734.633 krónum til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda að fjárhæð 984.161 krónur, 1. júlí 2007 sem kemur til greiðslu inn á dómkröfuna miðað við þann dag.
Málskostnaður fellur niður.