Hæstiréttur íslands

Mál nr. 309/1999


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. janúar 2000.

Nr. 309/1999.

Viðar Zophoníasson

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

Garðey ehf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Vinnuslys. Skaðabætur. Gjafsókn.

 

V starfaði sem matsveinn um borð í skipi G. Hann var staddur í matvælageymslu skipsins þegar ólag reið yfir það með þeim afleiðingum að hann tókst á loft og skall aftur á bak á hurð kælisins, sem opnaðist út á gang, en hentist síðan yfir ganginn og lenti á handriði gegnt hurðinni. Talið var að nægilega væri leitt í ljós hvernig slys V hefði borið að höndum og skipti því ekki máli þótt dregist hefði að halda sjópróf á atvikum að slysinu. Ekki var á það fallist að það teldist til saknæms vanbúnaðar á skipinu þótt hurð kæliklefans opnaðist út andstætt því, sem gert hafði verið ráð fyrir við hönnun þess. Þá var hvorki talið að skipið hefði verið vanbúið vegna þess að það hefði verið ranglega eða ofhlaðið né hefðu skipstjórnarmenn sýnt af sér gáleysi við siglingu þess í umrætt sinn. Var G sýknað kröfu V um bætur vegna slyssins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 1999. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 9.182.756 krónur með nánar tilteknum ársvöxtum frá 13. mars 1995 til 22. apríl 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann skaðabóta úr hendi stefnda að mati Hæstaréttar auk vaxta og málskostnaðar svo sem lýst er í aðalkröfu. Til frekari vara er þess krafist að málskostnaður í héraði og Hæstarétti verði felldur niður.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms auk málskostnaðar fyrir báðum dómstigum, en til vara lækkunar á kröfum áfrýjanda og að málskostnaður falli niður.

Við munnlegan málflutning lagði áfrýjandi nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt. Framlagning þeirra er andstæð ákvæðum 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 14. gr. laga nr. 38/1994. Þegar af þeirri ástæðu geta þau engu breytt um úrslit málsins.

Eins og fram kemur í héraðsdómi slasaðist áfrýjandi við störf í fiskiskipi stefnda 13. mars 1995. Atvikum að því er lýst í dagbók Andeyjar SF 222 með allítarlegri færslu. Lögregluskýrsla var tekin 1. nóvember 1995 af 1. vélstjóra, sem var eini sjónarvottur að slysinu. Sjópróf var ekki haldið fyrr en í mars 1996. Lýsingu áfrýjanda og vélstjórans á atvikum að slysinu ber saman í þeim atriðum, sem máli skipta. Telja verður að með framburði þeirra tveggja og öðrum gögnum málsins sé nægilega leitt í ljós hvernig slys áfrýjanda bar að höndum. Þykir því ekki skipta máli að dregist hafi að halda sjópróf til rannsóknar á atvikum  að slysinu.

Ósannað er að áfrýjandi hafi sýnt af sér gáleysi í umrætt sinn. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Viðars Zophoníassonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 17. mars 1999, er höfðað fyrir dómþinginu með stefnu áritaðri um birtingu 21. ágúst 1998 og var málið þingfest 1. september sama ár.

Stefnandi er Viðar Zophaníasson, kt. 050663-2999, Hraunbæ 48, Reykjavík.

Stefndi er Garðey ehf., kt. 650777-0189, Krosseyrarvegi 15, Höfn, Hornafirði.

Réttargæslustefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík.Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 9.182.756 krónur með 2% ársvöxtum frá slysdegi 13. mars 1995 til 22. apríl 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafist að dæmt verði að vextir verði lagðir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 13. mars 1996 og síðan árlega þann dag.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.

Stefnandi kveðst ekki gera sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda í máli þessu.

Endanlegar dómkröfur stefnda; Garðeyjar ehf., eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins  Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.

II. 

Málsatvik

Málavextir eru þeir að stefnandi varð fyrir slysi við störf sín sem matsveinn um borð í skipi stefnda, ms. Andey SF-222, hinn 13. mars 1995.  Skipið hafði verið á veiðum en í umrætt sinn var skipið á siglingu áleiðis til Vestmannaeyja til að taka olíu.  Veðurhæð var um það bil 9 vindstig.  Stefnandi var að undirbúa málsverð og átti erindi í kæli skipsins til að sækja þangað matvörur.  Kveðst hann hafa farið inn í kælinn og lokað hurðinni á eftir sér.  Á meðan stefnandi var þar inni reið ólag yfir skipið með þeim afleiðingum að stefnandi tókst á loft og skall aftur á bak á hurðina, sem opnaðist út á gang.  Kveðst hann hafa henst yfir ganginn og skollið á handrið handan hans gegnt hurðinni.  Stefnandi kveðst hafa hlotið þungt högg á höfuð og bak og verið mjög kvalinn eftir atvikið.  Þegar skipið kom til Vestmannaeyja var farið með stefnanda á Heilsugæslustöð Vestmannaeyja þar sem hann var skoðaður af lækni.  Kvaðst stefnandi eiga erfitt með að sitja og standa og hafa slæma verki í höfði, hálsi og hnakka.  Við skoðun kom í ljós stór kúla í hnakkanum.  Teknar voru röntgenmyndir af hálsi, höfði, herðum og brjóstkassa, en ekki greindust nein brot.  Skoðun leiddi einnig í ljós mikil þreifieymsli yfir báðum herðablöðum og á milli þeirra og upp eftir vöðvum brjósthryggjar og hálsvöðvum alveg upp í hnakka.  Þetta var túlkað sem tognun og vægur heilahristingur og var stefnanda ráðlagt að taka inn bólgueyðandi lyf og verkjatöflur.  Fékk hann ströng fyrirmæli um að yrði hann undarlegur eða skrítinn yfir höfði skyldi hann strax leita læknis.  Stefnandi var sendur heim að lokinni skoðun.  Fór stefnandi til Reykjavíkur og mun hafa legið fyrir á heimili sínu.  Hann leitaði til heimilislæknis síns 21. mars 1995.  Í læknaskýrslu segir að kvartanir stefnanda hafi verið óljósar.  Stefnandi hafi sagst vera kominn til að láta meta sig eftir vinnuslys.  Þá hafi stefnandi tjáð lækninum að hann ætti að fara út á sjó 24. mars í þriggja vikna túr.  Niðurstaða læknisins var sú að stefnandi yrði að ákveða það sjálfur hvort hann færi.  Fram kemur í sömu sjúkraskýrslu að stefnandi hringdi í heimilislækni sinn utan af sjó 28. mars til að biðja um áverkavottorð.  Þar segir og að læknirinn sé búinn að fá gögn frá Vestmannaeyjum, en hann vanti lýsingu á slysinu frá bátsmanni eða stýrimanni og muni stefnandi koma með afrit af því næst þegar hann kæmi inn eftir u.þ.b. þrjár vikur.

Skip stefnanda kom til Vestmannaeyja 31. mars 1995 vegna brælu og kveðst stefnandi þá hafa verið illa haldinn af verkjum, enda þótt hann hafi verið á sterkum verkja- og bólgueyðandi lyfjum.  Í landi lenti hann í ryskingum við annan sjómann og skarst á hendi.  Stefnandi mun ekki hafa farið aftur til starfa um borð í skipi stefnda, ms. Andey SF-222.

Sigurjón Sigurðsson bæklunarlæknir mat örorku stefnanda og er matsgerð hans dagsett 26. október 1996.  Í niðurlagi matsgerðar hans segir svo:  “Hér er um að ræða ungan mann, sem lendir í því við vinnu sína úti á sjó þegar dýfa kom á skipið að hann kastast aftur á bak og lendir á hurð og síðan áfram í gegnum hurðina sem opnaðist og aftur á bak á handrið.  Við þetta hlaut hann áverka á höfuð, háls, hæ öxl og herðablaðasvæði.  Þrátt fyrir ýmiss konar meðferð svo sem sjúkraþjálfun, bólgueyðandi lyfjameðferð, sem hann raunar er á ennþá, hefur hann enn töluverð einkenni sem lýsa sér sem stöðugur þreytuseyðingur í hálsi og herðum og niður á milli herðablaða og í hægri öxl og aukast þau einkenni við allt álag.  Hann hefur nú þegar skert úthald til vinnu.  Nú er það langur tími liðinn frá því að áverki þessi átti sér stað og einkenni hafa lengi verið óbreytt og má því álykta að um frekari bata verði ekki að ræða og því sé um nokkra varanlega örorku að ræða.”  Niðurstaða læknisins var sú, að tímabundin örorka stefnanda hefði verið 100% í tvær vikur og varanleg örorka væri 20%.

Þá liggur frammi í málinu vottorð Braga Guðmundssonar bæklunarlæknis dags. 20. júní 1997, en til hans leitaði stefnandi í apríl sama ár.  Stefnandi kvartaði þá um verki í baki, einkum brjósthrygg, og kvaðst bólgna milli herðablaða.  Kvaðst stefnandi vera stirður frá hnakka og niður eftir bakinu alveg niður í mjóbak.  Samkvæmt vottorðinu er niðurstaða læknisins eftirfarandi:  “Sjúkl. hefur við umrætt fall hinn 13.03. 1995 hlotið samfall á 4. og 5. brjósthryggjarlið.  Þetta skýrir einkenni hans um þreytu, bólgu og úthaldsleysi í baki.  Á hann eftir þessi meiðsli erfiðara með að lyfta þungum hlutum og færa til.  Brot þessi eru í sjálfu sér gróin en röskun verður við slys af þessu tagi á liðþófum í brjósthryggnum og getur tekið mörg ár fyrir brjóskið að gróa.  Sjúkl. hefur því hlotið varanleg meiðsl sem valda því að hann á erfitt með að taka upp fyrra starf sem matreiðslumaður til sjós.  Honum hefur einnig reynst nokkuð erfitt að stunda matreiðslustörf við léttari kringumstæður.  Vinnufærni sjúkl. er því verulega skert.”

Í tilefni af þessu vottorði mat Sigurjón Sigurðsson bæklunarlæknir örorku stefnanda á ný og er endurmat hans dags. 23. október 1997.  Í niðurlagi matsgerðarinnar segir, að stefnandi hafi eftir slysið 13. mars 1995 verið með vaxandi einkenni frá hálsi, höfði, brjóstbaki og jafnvel mjóbaki.  Þetta hafi háð honum svo mjög að nú sé hann orðinn óvinnufær til allrar erfiðisvinnu og sé hann að reyna að endurmennta sig til léttari og heppilegri starfa vegna einkenna sinna sem frekar hafi versnað frá því að örorkumat dags. 26. október 1996 hafi verið framkvæmt.  Ennfremur hafi komið fram að stefnandi hafi hlotið í áðurnefndu slysi greinilegt samþjöppunarbrot á 4. og 5. brjósthryggjarlið.  Af þessum sökum þótti lækninum rétt að endurmeta þá varanlegu örorku sem stefnandi teldist hafa hlotið af völdum slyssins 13. mars 1995 og þótti lækninum hún hæfilega metin 30%.

Þá liggur frammi í málinu vottorð Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis dags. 10. mars 1998.  Þar segir m.a. að stefnandi sé algjörlega óvinnufær vegna verkja frá baki.  Hann snarversni við minnsta álag.  Liðin séu þrjú ár frá slysinu og hafi enginn bati orðið enn.  Bati sé því ósennilegur og þau einkenni sem til staðar séu verði varanleg.  Einkennin séu greinilega frá umræddu svæði í baki þar sem brot hafi orðið á 4. og 5. brjósthryggjarlið.  Stefnandi hafi ekki aðeins hlotið tvö hryggbrot heldur einnig hnykk og sé hann með leiðsluverki fram í brjóstkassa.

Jón E. Þorláksson reiknaði út tjón stefnanda 22. apríl 1998 og tók þá mið af endurskoðuðu örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis 23. október 1997.  Í útreikningnum er gengið út frá því að tímabundin örorka hefði verið 100% í tvær vikur, varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 væri 30%, varanleg örorka skv. 5. gr. sömu laga væri sömuleiðis 30% og að stefnandi hefði verið rúmliggjandi í 14 daga.  Samkvæmt ósk lögmanns stefnanda lagði trygginga-fræðingurinn tekjur stefnanda í febrúar og mars 1995 til grundvallar útreikningnum.  Tekjur stefnanda fyrir tímabilið 29. janúar til 24. mars 1995 hefðu verið 565.401 króna samkvæmt launaseðlum frá stefnda.  Leit tryggingafræðingurinn á það sem 1/6 hluta árstekna, sem samkvæmt því væru 3.392.406 krónur.  Þar við bætti tryggingafræðingurinn 203.544 krónum vegna 6% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð.  Útreikningur tryggingafræðingsins er eftirfarandi:

 

Þjáningabætur, rúmliggjandi:

14 dagar x 1.300 kr. = 18.200 kr. x 3607/3282.....................................20.002 kr.

Varanlegur miski:

30% x 4.000.000 kr. = 1.200.000 kr. x 3607/3282...........................1.318.830 kr.

Varnaleg örorka:

30% x 3.595.950 kr. = 1.078.785 kr. x 94% = 1.014.058 kr.

x 7,5 = 7.605.435 kr. x 3607/3282...................................................8.063.728 kr.

Bætur samtals: .................................................................................9.402.561 kr.

Stefndi krafðist frávísunar málsins þar sem örorkumötin, sem lægju frammi í málinu, væru ekki byggð á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, en þau hafi verið í gildi er umrætt slys átti sér stað.  Væri hér um að ræða örorkumöt eins og tíðkuðust fyrir gildistöku skaðabótalaga og væri þar einungis metin hefðbundin læknisfræðileg örorka.  Kröfur stefnanda væru hins vegar byggðar á ákvæðum skaðabótalaganna og gerðar með vísan til þeirra.  Þar sem fjártjón stefnanda yrði ekki metið á grundvelli framlagðra gagna í málinu taldi stefndi gagnaöflun stefnanda svo áfátt að ekki yrði komist hjá því að vísa málinu frá dómi.

Með tilliti til þessa endurskoðaði Sigurjón Sigurðsson bæklunarlæknir matsgerð sína frá 23. október 1997 og er sú endurskoðun dags. 1. desember 1998.  Niðurstaða læknisins var sú, að tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skaðabóta laga væri 100% í þrjá mánuði.  Með vísan til 3. gr. skaðabótalaga teldist stefnandi hafa verið rúmfastur í tvær vikur og síðan veikur án þess að vera rúmliggjandi í þrjá mánuði.  Miskastig vegna varanlegs miska, sbr. 4. gr. skaðabótalaga, þótti hæfilega metið 30% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga 30%.

Með beiðni dags. 19. janúar 1999 óskaði réttargæslustefndi eftir að örorkunefnd skv. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 mæti varanlega örorku og miskastig stefnanda.

Í þinghaldi 10. febrúar 1999 féll stefndi frá kröfu sinni um að málinu yrði vísað frá dómi og kvaðst mundu afturkalla ofangreinda beiðni sína til örorkunefndar.  Lögmenn aðila kváðust sammála um að leggja til grundvallar í máli þessu örorkumatsgerð Sigurjóns Sigurðssonar dags. 23. október 1997, sbr. endurskoðun hans með tilliti til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 dags. 1. desember 1998, en þó með þeirri breytingu að miskastig vegna varanlegs miska væri hæfilega metið 25%.

Við munnlegan málflutning lækkaði stefnandi stefnukröfur sínar í samræmi við ofangreint samkomulag aðila um 219.805 krónur, þar sem bætur vegna varanlegs miska lækkuðu úr 1.318.830 krónum í 1.099.025 krónur.

Haldin voru sjópróf vegna slyssins í Héraðsdómi Austurlands 14. mars 1996, sbr. 1. tl. 219. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

II.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndi beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda þar sem vanbúnaður um borð í skipi stefnda og gáleysi starfsmanna hans hafi með samverkandi hætti valdið því að stefnandi varð fyrir umræddu slysi.

Stefnandi telur að vanbúnaðurinn hafi annars vegar falist í því að hurð á fyrrgreindum kæliklefa hafi verið með ófullnægjandi læsingabúnaði og hafi hurðin opnast út á gang í stað þess að opnast inn í kæliklefann, svo sem ráð sé fyrir gert á teikningum af skipinu.  Stefnandi telur að dyraumbúnaður á kæliklefa skipsins hafi með réttu átt að vera þannig, að traust festing væri á hurðinni sjálfri í lokaðri stöðu og einnig festing á vegg fyrir hurðina í opinni stöðu.  Hefði dyraumbúnaður verið með þeim hætti á kæliklefa skips stefnda hefði umrætt slys ekki átt sér stað.  Þá hefði slysið ekki átt sér stað hefði hurðin opnast inn en ekki út.

Hins vegar hafi vanbúnaðurinn falist í því að skipið hafi verið hlaðið aukaveiðarfærabúnaði, sem verið hafi á brúarvæng og víðar í skipinu langt ofan sjólínu.  Fari það í bága við fyrirmæli Siglingamálastofnunar um hleðslu skipsins miðað við stöðugleikapróf og stöðugleikahæfni skipsins.  Telur stefnandi að skipið hafi verið ranglega hlaðið og ofhlaðið af aukaveiðarfærum. 

Stefnandi kveður gáleysi skipsstjórnenda hafa falist í því að sigla skipinu ógætilega og óeðlilega við slæmar aðstæður þrátt fyrir þá staðreynd og vissu að skipið valt óhæfilega og hafi átt til að taka fyrirvaralausar og snöggar dýfur við keyrslu.  Af framburðum vitna í sjóprófi, sem haldið hafi verið vegna slyssins, sé ljóst að skipið hafi verið slæmt sjóskip og oltið mikið.  Upplýst sé að er slysið varð hafi veðurhæð verið 9 vindstig og hafi því verið rangt og gálaust að keyra skipið með þeim hætti, sem gert hafi verið, enda verði að telja að það sé ein orsök þess að stefnandi varð fyrir umræddu slysi.  Þá verði að hafa í huga að skipið hafi verið eins og áður segir ranglega hlaðið og ofhlaðið aukaveiðarfærum.

Stefnandi telur ofangreind atriði hafa með samverkandi hætti valdið því að stefnandi slasaðist í umrætt sinn og sé um að kenna vanbúnaði um borð í skipi stefnda og gáleysi starfsmanna stefnda.  Beri stefndi, sem eigi og geri út skipið, bótaábyrgð á tjóni stefnanda.

Stefnandi kveður ótvírætt af læknaskýrslum að stefnandi hafi hlotið meiðsl sín vegna slyssins um borð í skipi stefnda 13. mars 1995.  Læknar hafi ekki greint meiðsl hans rétt og jafnframt hafi skipstjórnarmenn á ms. Andey ekki meðhöndlað stefnanda á réttan hátt.  Stefnanda hafi ekki verið komið strax í land, ekki hafi verið tekin af honum lögregluskýrsla og sjópróf hafi ekki verið haldin fyrr en löngu eftir að umræddur tjónsatburður átti sér stað.  Skipstjórinn á ms. Andey hafi borið það fyrir rétti í sjóprófum, sem haldin hafi verið síðar, að hann hafi ekki metið stöðuna rétt.  Hann hafi talið að ekki þyrfti að hafa samband við lögreglu út af atvikinu þó að það hafi hvarflað að honum að gera það.  Stefnandi telur að vegna þessa beri að skýra allan vafa stefnda í óhag.  Svo sem fram hafi komið hafi stefnandi ekki fengið vottorð um óvinnufærni hjá heimilislækni sínum eftir slysið, en læknir þessi hafi ekki greint meiðsl hans rétt.  Stefnandi hafi því neyðst til að fara út á sjó í nokkra daga eftir slysið, kvalinn og á verkjalyfjum.  Sú staðreynd breyti því ekki að stefnandi hafi verið óvinnufær eftir slysið 13. mars 1995 og þær ryskingar, sem stefnandi hafi lent í síðar, hafi ekkert með tjónsatburð þann, sem um ræðir í málinu, að gera.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á húsbóndaábyrgð skaðabótaréttar að því er varðar gáleysi starfsmanna stefnda og á ábyrgð eiganda á vanbúnaði um borð í skipinu.  Jafnframt vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum I. kafla þeirra.  Þá kveðst stefnandi byggja á ábyrgðarreglum siglingalaga nr. 34/1985 og sjómannalaga nr. 35/1985 að því er varðar ábyrgð útgerðar gagnvart starfsmönnum sínum.  Að því er kröfu um málskostnað varðar vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. tl. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styður stefnandi við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til þess að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

III.

Málsástæður stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að umrætt slys hafi ekki orðið með þeim hætti að stefndi beri á því bótaábyrgð að lögum.

Stefnandi hafi verið vanur sjómaður og verið að sinna venjulegu og eðlilegu verki um borð í skipinu í umrætt sinn.  Óumdeilt sé að veltingur skipsins hafi valdið því að stefnandi missti jafnvægið og slasaðist, en slíkt geti alltaf gerst á Íslandsmiðum, einkum yfir vetrarmánuðina.  Ekki sé hægt að fallast á það að útgerð eða eigendur skipa beri að lögum ábyrgð á slíku, heldur hljóti þetta að teljast óhappatilvik.

Stefndi hafnar því að skip stefnda hafi verið vanbúið og sá vanbúnaður hafi verið orsök slyssins.

Læsingabúnaður umræddrar hurðar hafi verið ósköp venjulegur og í engu frábrugðinn því sem tíðkist um borð í skipum og reyndar víðar.  Ekkert bendi til þess að læsingabúnaðurinn hafi gefið sig, enda hafi ekkert séð á honum eftir óhappið.  Allt eins líklegt sé því, að hurðinni hafi ekki verið almennilega lokað heldur aðeins hallað aftur.  Það að hurðin hafi opnast út en ekki inn eins og teikningar geri ráð fyrir sé atriði sem ekki verði heimfært undir saknæman vanbúnað af hálfu stefnda.  Í því efni sé engin algild regla og engin skynsamleg rök styðji það að hurðir skuli endilega opnast inn en ekki út við aðstæður sem þessar.  Í umræddu tilviki sýnist einfaldlega eðlilegra að hurðin opnist út en ekki inn, enda muni það vera venjan.

Þá kveðst stefndi ekki geta fallist á það að veiðarfærabúnaður, sem verið hafi um borð í skipinu í umrætt sinn, geti talist vanbúnaður skipsins.  Hafi þetta í engu verið frábrugðið því sem tíðkist á svipuðum skipum og engar athugasemdir hafi verið gerðar við að hann væri um borð.  Hafa beri í huga að ms Andey SF-222 sé frystiskip og úthald geti því stundum verið langt.  Slík skip hafi ávallt aukaveiðarfæri um borð, bæði til skipta og til vara.  Það hafi því ekkert óvenjulegt verið við það, að umræddur aukaveiðarfærabúnaður var um borð í skipinu í umrætt sinn.

Þeirri málsástæðu að sigling skipsins hafi í umrætt sinn verið gáleysisleg er mótmælt af hálfu stefnda þar sem ekkert liggi fyrir í málinu sem styðji þá fullyrðingu.  Skipið hafi verið á venjulegri siglingaleið til Vestmannaeyja.  Ekki sé um það deilt að veður hafi verið slæmt, en hins vegar ekki neitt fárviðri og ekki verra veður en gengur og gerist á Íslandsmiðum á þessum árstíma.  Hraði skipsins hafi verið u.þ.b. 7 sjómílur á klukkustund, sem sé ekki full ferð og ekki geti talist óvarleg sigling.

Það kunni að vera rétt að skipið Andey hafi oltið óvenju mikið.  Alkunna sé hins vegar að skip velti mismikið og séu misgóð sjóskip.  Stefndi kveðst hins vegar ekki fallast á það að bótagrundvöllur geti byggst á því að skip velti mikið.  Aðalatriðið sé það, að skipið hafi haft gilt haffærisskírteini og því ljóst að útgerð og eigendum þess hafi verið heimilt að halda því til veiða.  Þá bendir stefndi á að stefnandi, sem sé vanur sjómaður og hafði að auki verið skipverji á ms. Andey um nokkurra mánaða skeið, hafi mátt vera við því búinn að skipið tæki hressilegar dýfur og hafi því átt að gæta þess að vera í aðstöðu til að halda sér eða grípa í eitthvað ef á þyrfti að halda.  Hafa beri í huga þá meginreglu að menn verði almennt að kunna fótum sínum forráð og kveðst stefndi fullyrða að með eðlilegri aðgæslu og varkárni hefði stefnandi ekki misst fótanna og slasast.  Þá bendir stefndi á að enginn annar um borð hafi orðið fyrir meiðslum eða lent í erfiðleikum á sama tíma.  Stefndi telji því að hér hafi farið saman óhappatilvik og óaðgæsla stefnanda og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi kveður þrautavarakröfu um lækkun stefnufjárhæðar byggjast á því, að leiði framanritað ekki til sýknu, þá hljóti stefnandi a. m.k. að þurfa að bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar, sbr. framanritað.  Þá sé þess krafist að þær greiðslur, sem stefnandi kunni að hafa fengið vegna slyssins, dragist frá endanlegum bótum svo sem ákvæði skaðabótalaga kveði á um, sbr. einkum 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 5. gr. þeirra.

Stefnandi mótmælir tekjuviðmiðun þeirri, sem Jón E. Þorláksson reiknaði bótakröfur stefnanda út frá.  Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skuli miðað við heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð.  Stefnandi miði hins vegar við tveggja mánaða laun í byrjun árs 1995, sem standist ekki.  Þá mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta, enda sé hann órökstuddur af stefnanda.

IV.

Niðurstaða

Svo sem fyrr greinir reisir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda á því, að stefndi beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda þar sem vanbúnaður um borð í skipi stefnda og gáleysi starfsmanna hans hafi með samverkandi hætti valdið því að stefnandi varð fyrir umræddu slysi.

Í fyrsta lagi telur stefnandi vanbúnað skipsins hafa falist í ófullnægjandi læsingabúnaði á hurð á kæli skipsins og því að hurðin hafi opnast út á gang en ekki inn í kæliklefann eins og teikningar af skipinu gerðu ráð fyrir.

Fyrir liggur að um var að ræða venjulega hurð með læsingajárni eins og tíðkast almennt um borð í skipum.  Gekk læsingajárnið, sem var ávalt öðru megin, inn í venjulegan fals í dyrakarmi.  Ekki hefur verið sýnt fram á það í málinu að læsingabúnaður hurðarinnar hafi verið í ólagi í umrætt sinn.  Stefnandi bar fyrir héraðsdómi Austurlands við áðurnefnd sjópróf, að ekkert hefði séð á hurð eða dyraumbúnaði eftir slysið.  Á sömu lund báru einnig vitnin Borgar Antonsson og Kristinn Pétursson.  Ekki verður fallist á það með stefnanda að dyraumbúnaður þessi hafi verið með þeim hætti að um saknæman vanbúnað á skipi stefnda hafi verið að ræða, sem leitt geti til bótaábyrðgar.  Ekki þykir skipta máli í þessu sambandi þótt gert hafi verið ráð fyrir því á teikningum af skipinu að umrædd hurð opnaðist inn í kæliklefann, en ekki út á gang eins og hún gerði í raun.  Af ljósmyndum, sem lagðar hafa verið fram í málinu af umræddum kæliklefa og dyraumbúnaði hans þykir mega ráða að vegna stærðar klefans hafi einfaldlega verið mun hagkvæmara að láta hurðina á klefanum opnast út en ekki inn.  Ekki verður fallist á að slíkt geti talist til saknæms vanbúnaðar á skipinu.

Í öðru lagi telur stefnandi vanbúnað skipsins hafa falist í því að skipið hafi verið ranglega hlaðið og ofhlaðið aukaveiðarfærum.

Fram hefur komið í málinu að skipið Andey SF-222 er frystitogari.  Ljóst er að úthald slíkra skipa getur orðið langt.  Það er álit dómsins að alvanalegt sé að slík skip fari út með aukaveiðarfærabúnað og að venjan sé þá sú, að hann sé geymdur þar sem rúm er fyrir hann á skipinu.  Fram hefur komið að um borð í skipinu Andey hafi í umrætt sinn verið aukaveiðarfærabúnaður, sem samsvarað hafi um það bil fjórum trollum.  Dómurinn telur að slíkt magn af aukaveiðarfærabúnaði sé hefðbundið miðað við skip af þeirri stærð og tegund sem ms. Andey er.  Stöðugleiki skipa er m.a. reiknaður út frá því að aukaveiðarfærabúnaður sé hafður um borð.  Telur dómurinn ósannað að sá aukaveiðarfærabúnaður, sem talið er að hafi verið um borð í skipinu umrætt sinn, hafi skaðað sjóhæfni skipsins.  Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefnanda að skip stefnda hafi verið vanbúið að þessu leyti.

Þá byggir stefnandi á því að gáleysi skipstjórnarmanna og starfsmanna stefnda hafi valdið því að stefnandi varð fyrir umræddu slysi og hafi gáleysi þeirra falist í því að sigla skipinu ógætilega og óeðlilega við slæmar aðstæður þrátt fyrir þá staðreynd að skipið valt óhæfilega og hafi átt til að taka fyrirvaralausar og snöggar dýfur á siglingu.

Óumdeilt er að er slysið varð var veðurhæð 9 vindstig og að skipinu var siglt á u.þ.b. sjö sjómílna hraða á klukkustund, sem samsvarar því að að skipinu hafi verið siglt með 70% vélarafli.  Dómurinn telur að það hafi ekki verið óeðlilegt eða óvarlegt af hálfu skipstjórnarmanna að sigla skipinu með sjö sjómílna hraða við áðurgreindar aðstæður.  Fram hefur komið í málinu að skip stefnda valt óvenju mikið og átti til að taka fyrirvaralausar og snöggar dýfur.  Alkunna er að skip velta mismikið og eru misgóð sjóskip.  Telja verður hins vegar ósannað að skipið Andey hafi verið hættulegt og að óforsvaranlegt hafi verið af hálfu stefnda að halda því til veiða.  Líta verður til þess að skip stefnda hafði á þeim tíma, sem hér um ræðir, gilt haffærisskírteini, útgefið 30. desember 1994, þar sem segir að skipið fullnægi ákvæðum laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum og það megi vera í förum.  Svo sem fyrr greinir er ekki talið sannað að aukaveiðarfærabúnaður um borð hafi skaðað sjóhæfni skipsins.  Með hliðsjón af ofangreindu telur dómurinn að skipstjórnarmenn á skipi stefnda hafi ekki sýnt af sér gáleysi við siglingu skipsins í umrætt sinn.

Ekki er fallist á það með stefnanda að sá dráttur, sem varð á því að sjópróf voru haldin, leiði til þess að skýra beri allan vafa, sem vera kann á atvikum málsins, stefnanda í hag.  Líta verður til þess, að meiðsl stefnanda litu ekki út fyrir að vera alvarleg í byrjun og að stefndi kom aftur til vinnu sinnar um borð u.þ.b. 10 dögum eftir slysið.  Þá hefur komið fram í málinu að stefnandi slasaðist í átökum 31. mars 1995 og var lagður inn á sjúkrahús vegna þeirra meiðsla sinna.  Einnig bera gögn málsins með sér að stefnandi áskildi sér fyrst rétt til að krefja stefnda um bætur vegna slyssins 13. mars 1995 með bréfi til réttargæslustefnda 2. október 1995.

Fram hefur komið í málinu að stefnandi var vanur sjómaður og hafði verið skipverji á umræddu skipi um nokkurra mánaða skeið.  Stefnandi mátti því vera við því búinn að skipið tæki snöggar dýfur og bar því að gæta fyllstu varúðar.  Upplýst er að engir aðrir um borð í ms. Andey lentu í erfiðleikum eða urðu fyrir meiðslum á sama tíma og stefnandi slasaðist.  Að öllu framansögðu verður að telja ósannað að vanbúnaður um borð í skipi stefnda eða gáleysi starfsmanna hans hafi valdið því að stefnandi varð fyrir umræddu slysi.  Verður að telja að tjón stefnanda verði eingöngu rakið til óhappatilviks og óaðgæslu stefnanda í umrætt sinn.  Ber samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Stefndi, Garðey ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Viðars Zophaníassonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.