Hæstiréttur íslands
Mál nr. 149/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Vitni
|
|
Þriðjudaginn 9. apríl 2002. |
|
Nr. 149/2002. |
Sýslumaðurinn í Kópavogi(Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Finnboga Geirssyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Vitni.
S gerði fjárnám hjá F vegna ógreiddra opinberra gjalda og virðisaukaskatts. Í máli sem var rekið um gildi fjárnámsgerðarinnar krafðist F þess að honum yrði heimilað að leiða fimm vitni til skýrslugjafar. Taldi F að öll vitnin gætu borið um atriði sem skiptu máli þegar leyst væri úr því hvort ákvarðanir skattyfirvalda hefðu verið reistar á réttum grunni. Í dómi Hæstaréttar segir að við mat á því hvort F geti fengið notið undanþágu samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til að leiða vitni í málinu verði að líta sérstaklega til þess að S hafi ekki stutt beiðni sína um fjárnám hjá F við dómsúrlausn, heldur við sérreglu 9. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um heimild til fá gert án undangengins dóms eða sáttar fjárnám fyrir kröfu um skatta. Þegar svo sé ástatt geti komið til þess í máli, sem rekið sé eftir ákvæðum 15. kafla sömu laga, að vafi sé uppi um réttmæti kröfu, sem fjárnám hafi verið gert fyrir, en hann verði ekki af tekinn nema með því að hlýða á framburð vitna. Samkvæmt þeirri meginreglu, sem komi fram í síðari málslið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, verði dómari að öðru jöfnu að bregðast þannig við slíkum vafa að hann heimili ekki vitnaleiðslu, heldur leysi að efni til úr máli og felli þá ef nauðsyn ber til úr gildi fjárnám, verði talið varhugavert að láta það standa óraskað á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem almennt fái komist að í máli af þessum toga. Yrði þá gerðarbeiðandi knúinn til að leita sér aðfararheimildar með því að höfða mál eftir almennum reglum, þar sem ekki gildi sömu takmarkanir á sönnunarfærslu. Í málinu hafi F ekki borið því við að brýnum hagsmunum hans gæti verið búin svo mikil hætta af slíkri málsmeðferð að efni séu til að víkja frá þeirri almennu reglu 94. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989 að vitni verði ekki leidd í máli, sem er rekið eftir ákvæðum 15. kafla laganna. Verði því kröfu F hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. mars 2002, þar sem varnaraðila var heimilað að leiða fimm nafngreinda menn fyrir dóm sem vitni til skýrslugjafar í máli sínu gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði ekki heimilað að leiða þessi vitni í málinu, en kærumálskostnaður verði felldur niður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Í máli þessu, sem var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 18. mars 1999 og er rekið samkvæmt ákvæðum 15. kafla laga nr. 90/1989, er til úrlausnar krafa, sem varnaraðili bar upp við dóminn með bréfi 23. janúar sama árs, um að fjárnám, sem sóknaraðili gerði hjá honum 21. desember 1998 fyrir skattkröfu að höfuðstól 6.792.229 krónur, verði aðallega fellt úr gildi, en til vara breytt þannig að það taki til lægri fjárhæðar. Samkvæmt gögnum, sem lögð voru fram við fjárnámið, var skattkrafan, sem sóknaraðili hefur til innheimtu, annars vegar um opinber gjöld varnaraðila frá árunum 1992 og 1994 að fjárhæð samtals 4.553.778 krónur og hins vegar um virðisaukaskatt hans frá árunum 1991 til 1994 alls að fjárhæð 2.238.451 króna. Af málatilbúnaði aðilanna verður ekki annað ráðið en að þessi krafa eigi rætur að rekja til endurákvörðunar ríkisskattstjóra 3. október 1997 á gjöldum varnaraðila, sem hafi verið reist á niðurstöðum skattrannsóknar, sem hafi lokið 6. mars 1995. Þessa endurákvörðun mun varnaraðili hafa kært til ríkisskattstjóra 20. október 1997, en sá síðastnefndi staðfesti hana með úrskurði 21. október 1998. Var staða málsins því þessi þegar fjárnám sóknaraðila var gert 21. desember sama árs.
Varnaraðili kærði 12. janúar 1999 til yfirskattanefndar áðurnefndan úrskurð ríkisskattstjóra frá 21. október 1998. Að ósk varnaraðila, sem sóknaraðili samþykkti, féllst héraðsdómari við þingfestingu málsins á að fresta því um ótiltekinn tíma þar til niðurstaða um kæruna yrði fengin hjá yfirskattanefnd. Nefndin kvað upp úrskurð um hana 8. mars 2000. Að hluta tók hún þar til greina kröfur varnaraðila og lækkaði gjöld hans, sem fjárnámið hafði verið gert fyrir. Hinn 17. júlí sama árs mun varnaraðili hafa krafist þess að málið yrði tekið upp á ný fyrir yfirskattanefnd. Því hafnaði nefndin með úrskurði 11. apríl 2001. Héraðsdómari tók málið aftur til meðferðar 17. maí 2001. Hefur sóknaraðili krafist þess að fjárnámið verði staðfest, en þó þannig að höfuðstóll kröfunnar, sem það taki til, verði 4.905.895 krónur.
Í greinargerð fyrir héraðsdómi, sem lögð var fram í málinu 16. október 2001, lét varnaraðili uppi ósk um að umrædd fimm vitni yrðu leidd til skýrslugjafar við aðalmeðferð þess. Þeirri ósk andmælti sóknaraðili í þinghaldi 19. febrúar 2002. Var leyst úr ágreiningi aðilanna um þetta með hinum kærða úrskurði.
II.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði ber varnaraðili fyrir sig að í málinu eigi hann rétt á að fá leyst úr efnislegu réttmæti kröfu sóknaraðila, en það verði ekki gert nema umrædd vitni komi fyrir dóm. Eigi að afla frásagnar eins vitnisins um viðskipti sín við varnaraðila, en annað vitnanna geti einnig borið um þau, auk þess sem það geti greint frá framkvæmd nánar tiltekins verks og fjárhagslegu uppgjöri fyrir það. Þriðja vitninu, sem hafi verið starfsmaður varnaraðila, sé ætlað að segja frá því hvernig staðið hafi verið að framleiðslu tiltekinnar vörutegundar. Fjórða vitnið geti borið um að það hafi tekið að sér að farga gölluðum vörum fyrir varnaraðila, en það fimmta um rýrnun á ákveðinni vörutegund. Öll þau atriði, sem hér um ræðir, skipti máli þegar leyst verði úr því hvort áætlun skattyfirvalda að baki endurákvörðun gjalda varnaraðila hafi verið reist á réttum grunni.
Ákvæði laga nr. 90/1989 leggja ekki hömlur við því að í máli, sem rekið er fyrir dómi samkvæmt V. þætti þeirra, verði tekin efnisleg afstaða til kröfu, sem leita á eða leitað hefur verið aðfarargerðar fyrir. Það verður þó að öðru jöfnu aðeins gert á grundvelli þeirra takmörkuðu sönnunargagna, sem aflað verður í slíku máli og um ræðir í 1. mgr. 83. gr. og 1. mgr. 90. gr., sbr. 94. gr. laganna. Við mat á því hvort varnaraðili geti fengið notið undanþágu samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði til að leiða í málinu vitnin, sem ágreiningur aðilanna stendur um, verður að líta sérstaklega til þess að sóknaraðili studdi ekki beiðni sína um fjárnám hjá varnaraðila við dómsúrlausn, heldur við sérreglu 9. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um heimild til fá gert án undangengins dóms eða sáttar fjárnám fyrir kröfu um skatta. Þegar svo er ástatt getur komið til þess í máli, sem rekið er eftir ákvæðum 15. kafla sömu laga, að vafi sé uppi um réttmæti kröfu, sem fjárnám hefur verið gert fyrir, en hann verði ekki af tekinn nema með því að hlýða á framburð vitna. Samkvæmt þeirri meginreglu, sem kemur fram í síðari málslið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, verður dómari að öðru jöfnu að bregðast þannig við slíkum vafa að hann heimili ekki vitnaleiðslu, heldur leysi að efni til úr máli og felli þá ef nauðsyn ber til úr gildi fjárnám, verði talið varhugavert að láta það standa óraskað á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem almennt fá komist að í máli af þessum toga. Yrði þá gerðarbeiðandi knúinn til að leita sér aðfararheimildar með því að höfða mál eftir almennum reglum, þar sem ekki gilda sömu takmarkanir á sönnunarfærslu. Í málinu hefur varnaraðili ekki borið því við að brýnum hagsmunum hans gæti verið búin svo mikil hætta af slíkri málsmeðferð að efni séu til að víkja frá þeirri almennu reglu 94. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989 að vitni verði ekki leidd í máli, sem er rekið eftir ákvæðum 15. kafla laganna. Verður því hafnað kröfu varnaraðila um að honum verði heimilað að leiða fyrir dóm þau vitni, sem nánar greinir í dómsorði.
Með því að sóknaraðili krefst ekki málskostnaðar í þessum þætti málsins verður hann ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Finnboga Geirssonar, um að honum verði heimilað að leiða Eystein Jónsson, Magnús Geirsson, Sigurð Björnsson, Einar Ásgeirsson og Eirík Ingvar Ingvarsson fyrir dóm sem vitni í máli þessu.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. mars 2002.
Mál þetta, sem lagt var fyrir dóminn með bréfi sóknaraðila frá 23. janúar 1999 var þingfest 18. mars s.á. Er málið rekið á grundvelli 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili, Finnbogi Geirsson, kt. 101263-5929, Bakkasmára 15, Kópavogi, krefst þess aðallega að fjárnámsgerð sýslumannsins í Kópavogi, nr. 037-1998-02116, sem fram hafi farið hjá sóknaraðila 21. desember 1998 að kröfu varnaraðila, sýslumannsins í Kópavogi, kt. 490169-4159, Dalvegi 18, Kópavogi, verði felld úr gildi ásamt álagi og dráttarvöxtum en til vara að henni verði breytt á þann veg að hún verði látin ná til mun lægri fjárhæðar og kostnaðar hlutfallslega, þ.á.m. dráttarvaxta.. Að auki krafðist sóknaraðili þess að yrði hin umdeilda gerð staðfest yrði kveðið á um það í úrskurði að málsskot úrskurðarins frestaði frekari fullnustugerðum. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sýslumannsins í Kópavogi nr. 037-1998-02116 verði staðfest fyrir 4.905.895 krónum auk dráttarvaxta að fjárhæð 3.142.943 krónur til 10. desember 2001 af vangoldnum virðisaukaskatti, dráttarvaxta að fjárhæð 2.214.921 króna til 1. desember 2001 af vangoldnum opinberum gjöldum, auk áfallandi dráttarvaxta til greiðsludags, ásamt kostnaði við fjárnaámsgerðina. Að auki krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins.
Þegar mál þetta var þingfest þann 18. mars 1999 hafði sóknaraðili kært til Yfirskattanefndar endurákvörðun þeirra opinberru gjalda sem varð tilefni þeirrar fjárnámsgerðar sem deilt er um í málinu. Var samkomulag með aðilum að fresta málinu ótiltekið þar til úrskurður nefndarinnar lægi fyrir og féllst dómari á það að rök væru til þess eins og hér stóð sérstaklega á.
Í þeim þætti málsins sem hér er tekinn til úrskurðar krefst sóknaraðili þess að honum verði heimilað að leiða eftirtalin vitni:
1. Eystein Jónsson, kt. 130941-2309
2. Magnús Geirsson, kt. 090561-2519
3. Sigurð Björnsson, kt. 191151-2919
4. Einar Ásgeirsson, kt. 230569-3289
5. Eirík Ingvar Ingvarsson, kt. 270268-5879
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að leiða framangreind vitni verði hafnað. Aðilar gera ekki kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um vitnaleiðslur einkum á því að hann eigi rétt á því að dómurinn fjalli efnislega um réttmæti kröfu varnaraðila og að í því máli sem hér liggi fyrir verði það ekki gert nema með því að leiða umrædd vitni. Kveður sóknaraðili að sú sönnun sem felist í framburði nefndra vitna hafi ekki verið virt fyrr fyrir dómi og hafi úrskurðir skattyfirvalda byggst að minnsta kosti að hluta á því sem viðkomandi vitni hafi borið við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra, en skýrsla hans sé grunvöllur þeirra endurákvarðana opinberra gjalda sem sóknaraðili reyni að fá hnekkt hér fyrir dómi.
Varnaraðili byggir kröfu sína um það að synja eigi um vitnaleiðslur, á reglu 94. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. aðfararlaga, en þar sé kveðið á um að vitnaleiðslur í málum sem þessum skuli að jafnaði ekki fara fram. Kveður varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki gert nægilega grein fyrir því á hvaða forsendum hann byggi kröfu sína um vitnaleiðslur. Fyrrnefnd regla aðfararlaganna leggi þá skyldu á herðar þeim sem vill leiða vitni í máli sem þessu að hann færi fyrir því haldbær rök að víkja eigi frá meginreglu þeirri sem þar kemur fram. Ennfremur byggir varnaraðili á því að krafa sú sem krafist var fjárnáms fyrir byggi á lögmætum áætlunum skattyfirvalda sem gripið hafi verið til vegna þess að upplýsingar voru ekki færðar með fullnægjandi hætti í bókhald sóknaraðila. Geti framburður vitna ekki breytt viðkomandi áætlunum.
Í máli þessu er grundvöllur aðfarargerðar þeirrar sem sóknaraðili krefst að verði hnekkt, krafa skattyfirvalda sem byggir á endurákvörðunum opinberra gjalda sóknaraðila í kjölfar skattrannsóknar sem hann sætti árið 1995. Hefur málið fengið meðferð á öllum stigum skattsýslunnar, nú síðast með úrskurði yfirskattanefndar frá 11. apríl 2001 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar frá 8. mars 2000. Eins og fyrr segir liggur úrskurðum þessum til grundvallar rannsókn skattrannsóknarstjóra sem lauk 6. mars 1995. Er sú rannsókn byggð að hluta á munnlegum framburði vitna og skriflegum vottorðum manna um viðskipti við sóknaraðila. Var niðurstaða rannsóknarinnar í stuttu máli sú að sóknaraðili hefði ekki gert viðskiptamönnum sínum reikning vegna tiltekinna verka og eins að sóknaraðili hafi selt umtalsvert magn af vatnskössum án þess að reikningur hafi verið gerður.
Í 94. gr. aðfararlaga kemur fram um málsmeðferð fyrir dómi samkvæmt 15. kafla laganna skuli gilda fyrirmæli 87.-89. gr. og 1. mgr. 90. gr., en að öðu leyti skuli fara eftir reglum um meðferð einkamála í héraði, eftir því sem við geti átt. Í 1. mgr. 90. gr. er mælt fyrir um það að vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skuli að jafnaði ekki fara fram í málum samkvæmt þeim kafla laganna. Í greinargerð með frumvarpi til aðfararlaga kemur fram að í tilvitnaðri grein sé lagt bann við vitnaleiðslum og að regluna verði að skýra þröngt þegar metið er hvort ástæða sé til að víkja frá því banni. Í dómi hæstaréttar frá 1995 á blaðsíðu 1900 kemur m.a. fram að líta verði svo á að í 92. gr. laga nr. 90/1989 felist heimild til að bera undir héraðsdómara öll atriði er varði aðfarargerð, sem lokið sé, þar á meðal efnislegt réttmæti kröfu gerðarbeiðanda, enda hafi dómstóll ekki áður tekið afstöðu til þess, sbr. og 95. gr. laganna. Er þetta í dóminum sagt styðjast við ummæli í greinargerð með frumvarpi að lögunum og einnig áratuga réttarframkvæmd um úrskurðarvald fógetaréttar um skattskyldu, áður en núgildandi lög hafi verið sett. Hefur afstaða sú sem fram kemur í dóminum verið ítrekuð í síðari dómum réttarins.
Sóknaraðili hefur hefur rökstutt hvaða málsástæður sínar hann hyggst sanna með framburði þeirra vitna sem nafngreind eru hér að framan. Kveður sóknaraðili að endurákvörðun opinberra gjalda sem hann hafi verið látinn sæta hafi byggst annars vegar á birgðatalningu á vatnskössum. Hafi að mati skattyfirvalda ekki verið gerð nægjanlega grein fyrir mismun á innkaupum á þessari vörutegund og því hvað sóknaraðili seldi. Hafi sóknaraðili alltaf haldið því fram að rýrnun hafi verið umtalsverð á vatnskössum frá tilteknum framleiðanda og hafi gallaðri vöru ekki verið skilað heldur hafi hún verið sett í endurvinnslu. Kveður sóknaraðili að ekki hafi verið tekið fullnægjandi tillit til þessarra skýringa hans við meðferð málsins hjá skattyfirvöldum og krefst þess að hann fái að freista þess að sanna mál sitt með því að leiða vitni sem geti borið um afdrif þeirra vatnskassa sem ekki var gerð grein fyrir í bókhaldi hans. Kveður sóknaraðili að vitnin Sigurður Björnsson, Einar Ásgeirsson og Eiríkur Ingvar Ingvarsson eigi að bera um þetta atriði. Hins vegar kveður sóknaraðili að við endurákvörðun opinberra gjalda honum til handa hafi verið gert ráð fyrir því að tiltekin viðskipti sem hann kveður bróður sinn, Magnús Geirsson, hafa átt í, hafi verið færð sóknaraðila til tekna. Hyggst sóknaraðili til að hnekkja þessu leiða Magnús sem vitni í málinu og eins Eystein Jónsson en hann hafi verið sá sem Magnús hafi átt viðskipti við.
Það er mat dómsins, þegar horft er til þeirrar afstöðu sem kemur fram í hæstaréttardómi þeim sem fyrr er vitnað til, þess að aðfararlögin leggja ekki fortakslaust bann við því að leiða vitni í máli sem þessu og eins því að sóknaraðili hefur rökstutt með þeim hætti sem að framan er rakinn kröfu sína um vitnaleiðslur í málinu, að rétt sé að heimila honum að leiða þau vitni sem hann hefur nafngreint. Er þá horft til þess að vitnum þessum er ætlað að sanna tilteknar málsástæður sóknaraðila, sem hann hefur gert grein fyrir. Eins er horft til þess að skýrsla skattrannsóknarstjóra sem hefur verið grundvöllur málsins á öllum stigum skattsýslunnar er að nokkru byggð á munnlegum framburði og eins á skriflegum vottorðum manna sem greina hvernig viðskiptum þeirra við sóknaraðila var háttað. Þá er og tekið mið af því að dómstóll hefur ekki áður fjallað um málefnið og að sóknaraðili á í raun ekki annan kost til að renna stoðum undir þær málsástæður sínar sem hann byggir að meginstefnu á og eru grundvöllur kröfugerðar hans um réttmæti krafna skattyfirvalda á hendur honum. Það er því mat dómsins að eins og hér stendur sérstaklega á verði að fallast á kröfu sóknaraðila um vitnaleiðslur fari fram yfir þeim vitnum sem hann hefur tilgrent í greinargerð sinni.
Málskostnaðar var ekki krafist af hálfu aðila í þessum þætti málsins og verður hann því ekki dæmdur.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Sóknaraðila Finnboga Geirssyni er heimilt að leiða, Eystein Jónsson, Magnús Geirsson, Sigurð Björnsson, Einar Ásgeirsson og Eirík Ingvar Ingvarsson sem vitni í máli þessu.