Hæstiréttur íslands
Mál nr. 204/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 28. maí 2003. |
|
Nr. 204/2003. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X(Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júní nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Varnaraðili er grunaður um stórfelld auðgunar- og bókhaldsbrot [...]
[...]
[...] Rannsókn máls þessa hófst fyrir örfáum dögum. Verður samkvæmt framansögðu fallist á með héraðsdómara að skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila séu fyrir hendi. Ekki kemur til álita að fallast á þá kröfu varnaraðila að farbann yfir honum komi í stað gæsluvarðhalds. Að þessu athuguðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, eins og þeim var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 23. maí 2003.
Fulltrúi ríkislögreglustjóra hefur í dag krafist þess að X verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júní 2003, kl. 16.00.
[...]
Rannsókn máls þessa, sem varðar stórfelldan fjárdrátt, er á frumstigi. Hætta er á því að kærði geti skemmt fyrir rannsókninni með því að spilla sakargögnum, skjóta undan munum, hafa áhrif á vitni eða samseka menn eða komist undan. Er því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Eru skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. uppfyllt og ber að verða við kröfu ríkislögreglustjóra og ákveða að kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júní 2003, kl. 16.00.