Hæstiréttur íslands
Mál nr. 102/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Miðvikudaginn 5. mars 2008. |
|
Nr. 102/2008. |
M(Valborg Þ. Snævarr hrl.) gegn K (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Hæstiréttur féllst á kröfu M um að K yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli milli þeirra, með vísan til b. liðar 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Árangurslaust fjárnám hafði verið gert hjá K nokkrum dögum eftir að hinn kærði úrskurður gekk, þar sem héraðsdómari hafnaði kröfunni. Lagt var fyrir héraðsdóm að ákveða fjárhæð og form tryggingarinnar og innan hvaða frests hún skyldi sett.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. janúar 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á kröfu hans um að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu í málinu.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún þess „að sakarkostnaður vegna kæru málsins til Hæstaréttar, þ.m.t. þóknun lögmanns að viðbættum virðisaukaskatti, samkvæmt meðfylgjandi reikningi, greiðist úr ríkissjóði.“
Varnaraðili höfðaði mál þetta 3. október 2007. Þar krefst hún þess að sér verði með dómi einni falin forsjá sonar síns sem fæddur er á árinu 2002. Við þingfestingu málsins krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili setti tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, en varnaraðili mótmælti kröfunni. Málsatvikum og málflutningi aðila sem að þessu laut er lýst í hinum kærða úrskurði, þar sem kröfu sóknaraðila var hafnað.
Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt endurrit aðfarargerðar sýslumannsins á [...] hjá varnaraðila 5. febrúar 2008 að kröfu sóknaraðila. Gerðinni lauk án árangurs eftir að bókað hafði verið að varnaraðili, sem var mætt, lýsti yfir eignaleysi sínu. Með vísan til b. liðar 133. gr. laga nr. 91/1991 verður ekki hjá því komist að taka til greina kröfu sóknaraðila um málskostnaðartryggingu.
Sóknaraðili hefur ekki gert kröfu um ákveðna fjárhæð málskostnaðartryggingar varnaraðila. Slíkt er ekki skilyrði til að gera megi kröfu samkvæmt 133. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar kemur fjárhæð, form og frestur til að setja tryggingu til úrlausnar héraðsdóms eftir að aðilum hefur eftir atvikum verið gefinn kostur á að tjá sig um þessi atriði.
Samkvæmt gjafsóknarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 27. ágúst 2007 var gjafsókn varnaraðila bundin við rekstur málsins í héraði. Kemur því ekki til þess að mæla fyrir um gjafsóknarkostnað í kærumáli þessu, sbr. 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Varnaraðila, K, ber að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar sóknaraðila, M, með fjárhæð, formi og innan frests sem lagt er fyrir héraðsdóm að ákveða.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. janúar 2008.
Mál þetta, var höfðað með stefnu birtri 3. október 2007 af K, [kt. og heimilisfang], á hendur M, [kt. og heimilisfang].
Málið höfðar stefnandi til að fá þeirri dómkröfu framgengt að henni einni verði falin forsjá sonar hennar A, sem fæddur er 2002.
Við þingfestingu málsins krafðist stefndi þess að stefnanda yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Stefnandi andmælti kröfugerðinni og var ágreiningur þar um tekin til úrskurðar fyrr í dag.
Fyrir liggur að með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra þann 21. febrúar sl., í máli nr. E-124/2005, var fallist á dómkröfur stefnda, þar á meðal að honum yrði dæmd forsjá nefnds drengs. Var stefnanda með þessum dómi og gert að greiða stefnda málskostnað að fjárhæð kr. 622.500, en hún hafði gjafsókn í málinu.
Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur stefnandi gjafsókn, sbr. bréfi Dómsmálaráðuneytisins frá 27. ágúst s.l.
Stefndi styður kröfu sína um málskostnaðartryggingu við b lið 133. gr. laga nr. 91, 1991. Bendir hann á að stefnandi hafi í hinu fyrri málarekstri verið dæmdur til að greiða sér umræddan málskostnað, sem hann hafi enn ekki greitt. Þessu til stuðnings hefur stefndi lagt fram afrit innheimtubréfa sem dagsett eru í apríl og október s.l.. Þá hefur stefndi lagt fram afrit af aðfararbeiðni, sem dagsett er 11. desember sl. Kemur þar fram að nefnd krafa er með vöxtum og kostnaði að fjárhæð 862.614. Fram kemur og að stefnandi hafi ekki sinnt boðunum um að mæta til fjárnámsgerðar hinn 15. janúar sl. Staðhæfir stefndi að aðfarargerðinni verði nú alveg á næstunni fylgt eftir með aðstoð lögreglu, en af hans hálfu er og staðhæft að stefnandi sé í raun eignalaus.
Stefnandi andmælir staðhæfingum stefnda að hún sé algjörlega eignalaus. Stefnanda mótmælir því hins vegar ekki að hún hafi eigi greitt stefnda umræddan málskostnað. Að því leyti vísar hún á hinn bóginn til fordæmis um að þann kostnað geti stefndi eftir atvikum fengið greiddan hjá Dómsmálaráðuneytinu á grundvelli fyrrnefndar gjafsóknar hennar í máli nr. E-124/2005.
Samkvæmt ákvæði b liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91, 1991 skal stefnanda gert að leggja fram málskostnaðartryggingu ef leiddar hafa verið líkur að því að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Skýra ber ákvæði þetta með hliðsjón af 70. gr. Stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Að áliti dómsins hefur stefndi gegn andmælum stefnanda ekki leitt nægar líkur að því að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Eru því skilyrði fyrir kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu ekki fyrir hendi. Ber því að hafna kröfu stefnda.
Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson dómstjóri.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu stefnda, M, um að stefnanda K, verði gert að setja málskostnaðartryggingu.