Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-108

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Diego Sebastián S. Martínez (Bjarni Hauksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fíkniefnalagabrot
  • Peningaþvætti
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 27. júní 2024 leitar Diego Sebastián S. Martínez leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í máli nr. 275/2023: Ákæruvaldið gegn Diego Sebastián S. Martínez. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðanda var gefið að sök að hafa staðið að skipulagningu og fjármögnun á innflutningi á fíkniefnum sem ætluð voru til söludreifingar og fengið tvo menn til að flytja þau hingað til lands. Höfðu þeir menn verið sakfelldir í öðru máli fyrir innflutninginn með því að hafa flutt 867,5 g af kókaíni til landsins með flugi og var annar dómfelldu í því máli meðákærði leyfisbeiðanda í þessu máli. Leyfisbeiðanda var jafnframt gefið að sök peningaþvætti, annars vegar með því að hafa í að minnsta kosti tvö skipti, ásamt meðákærða, lagt reiðufé inn á bankareikning meðákærða og þannig nýtt sér eða umbreytt ávinningi af sölu og dreifingu á ótilteknu magni ávana- og fíkniefna og eftir atvikum ávinningi sem aflað var með öðrum ólögmætum og refsiverðum hætti. Hins vegar með því að hafa á rúmlega fjögurra ára tímabili tekið við, nýtt, umbreytt og/eða aflað sér, ávinnings með sölu og dreifingu á ótilteknu magni ávana- og fíkniefna og eftir atvikum með öðrum ólögmætum og refsiverðum hætti sem ákærði hefði meðal annars notað til eigin framfærslu, í gjaldeyriskaup og til að senda peninga til útlanda.

4. Með héraðsdómi var talið sannað að leyfisbeiðandi hefði staðið að skipulagningu og fjármögnun innflutningsins en ósannað að hann hefði fengið mennina tvo til verksins og var hann sýknaður af þeirri háttsemi. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms og heimfærslu háttseminnar til 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna frávísun á ákæruliðum vegna peningaþvættis. Leyfisbeiðandi var sakfelldur fyrir peningaþvætti sem honum var gefið að sök í báðum ákæruliðum en andlag peningaþvættis samkvæmt síðari liðnum lækkað þar sem hluta ákæruliða var vísað frá og sýknað vegna hluta innlagna á bankareikninga. Þá taldi Landsréttur ljóst að ávinningur sem ákæruliðirnir vörðuðu hefði ekki stafað frá þeim fíkniefnainnflutningi sem ákært var fyrir í málinu. Var háttsemi leyfisbeiðanda því eingöngu heimfærð til 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Málið hafi auk þess verulega almenna þýðingu enda feli niðurstaðan í sér að slakað hafi verið á formkröfum og vikið frá grundvallarreglunni um að sakborningur eigi að njóta alls skynsamlegs vafa. Leyfisbeiðandi byggir á því að ákæruliður sem varðar skipulagningu og fjármögnun innflutnings sé óskýr og ekki í samræmi við áskilnað c- og d-liða 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og jafnframt standist tilgreining á tímasetningu brots ekki. Þá sé niðurstaða dómsins ekki í samræmi við ákæru. Loks telur leyfisbeiðandi ákæruliðina tvo vegna peningaþvættis skarast og sé þannig ákært fyrir sama brot tvisvar sinnum. Enn fremur hafi verið verulegir annmarkar á rannsókn málsins og fjármálagreining lögreglu gölluð.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.