Hæstiréttur íslands

Mál nr. 505/2011


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Áminning


 

Fimmtudaginn 8. mars 2012.

Nr. 505/2011.

 

B

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Heilbrigðisstofnuninni C

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

 

Opinberir starfsmenn. Áminning.

Deilt var um gildi áminningar sem forstjóri heilbrigðisstofnunarinnar C veitti B á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í kjölfar þess að B tók með leynd sýni úr drykk hjá lækni sem starfaði hjá stofnuninni og sendi til rannsóknar. Var þessi hegðun B talin óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans og ekki í samræmi við starfsskyldur hans samkvæmt 14. gr. fyrrnefndra laga. Fullt tilefni hefði því verið til að veita B áminningu. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu heilbrigðisstofnunarinnar C.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 2011. Hann krefst þess að áminning sem forstjóri stefnda, Heilbrigðisstofnunarinnar C, veitti honum 18. október 2010 verði ógilt. Einnig krefst hann þess að stefndi greiði sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. október 2010 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, B, greiði stefnda, Heilbrigðisstofnuninni C, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af B, [...], [...], gegn C, [...], [...], með stefnu, áritaðri um birtingu 29. október 2010.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

Þess er krafist að áminning, sem forstjóri stefnda, C, D, veitti stefnanda með bréfi, dagsettu 18. október 2010, verði dæmd ógild.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.

Auk framangreinds krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru aðallega um sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Til vara er þess krafist að miskabótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Málsatvik

Stefnandi er framkvæmdastjóri lækninga á C og hefur verið starfandi hjá C um árabil. Stefnandi var í fæðingarorlofi frá 1. janúar 2010 til 1. júlí 2010 og síðan áfram í orlofi frá og með 1. júlí 2010 til og með 31. ágúst 2010. Í leyfi stefnanda gegndi E læknir stöðu framkvæmdastjóra lækninga hjá stefnda frá 1. janúar 2010 til og með 31. ágúst 2010.

Í lok mars 2010 réð forstjóri stefnda lækninn A til starfa og hóf hann störf 7. apríl 2010. Í starfsviðtali kom m.a. fram að hann væri að ná sér eftir erfið veikindi og væri að mestu orðinn frískur. Upplýsti A að hann væri alkóhólisti en hefði ekki drukkið í mörg ár. Fljótlega eftir að hann hóf störf fékk forstjóri stefnda tilkynningar frá starfsfólki að komið hefði verið að honum sofandi á skrifstofu sinni a.m.k. tvisvar sinnum. Ræddi forstjóri stefnda þau tilvik við A sem kvaðst lítið hafa getað sofið þær nætur vegna höfuðverkja.

Þann 11. maí 2010 fékk forstjóri stefnda erindi í tölvupósti frá E, settum framkvæmdastjóra lækninga. Þar mæltist E til þess að A yrði sagt upp störfum að loknum reynslutíma. Taldi hann að ekki væri allt með felldu með störf læknisins og heilsufar hans. Á fyrstu 3 vikum hans í starfi hafi þrír starfsmenn komið að honum sofandi í vinnutíma á bekk á stofu hans. Um hafi verið að ræða þrenn aðskilin tilvik og þrjá starfsmenn, þar á meðal E.

Stefnandi hafi komið að máli við forstjóra stefnda í maí 2010 og óskað eftir því að A yrði látinn fara í lok reynslutíma, þ.e. í lok júní 2010. Í júlí 2010 hafi stefnandi komið aftur að máli við forstjóra stefnda og ítrekað þá skoðun sína að A væri óhæfur til starfa hjá stofnuninni og að stefnandi treysti sér ekki til að vinna með honum. Stefnandi hafi enn komið að máli við forstjóra stefnda um miðjan ágúst 2010 og ítrekað fyrri beiðni og skoðanir á A og að hann yrði að fara frá störfum.

Stefnandi tók sýni úr gosdrykkjarflösku A án vitundar hans og sendi til rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði 19. ágúst 2010 með beiðni um ávana- og fíkniefnaleit í vökva með áherslu á slævandi lyf. Niðurstaða barst stefnda 7. september 2010, sem leiddi ekkert óeðlilegt í ljós.

Forstjóri stefnda upplýsti A um málið þann 9. september 2010 og tilkynnti það landlæknisembættinu með bréfi dags. 13. september 2010. Sama dag sagði A upp störfum hjá stefnda og óskaði eftir því að verða leystur frá störfum tafarlaust.

Með bréfi stefnda, dags. 14. september 2010, var stefnanda sent bréf vegna fyrirhugaðrar áminningar á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins vegna framangreindrar háttsemi. Var stefnanda gefinn andmælafrestur til 28. september 2010. Andmæli við boðaða áminningu komu frá lögmanni stefnanda með bréfi, dags. 12. október 2010.

Með bréfi stefnda, dags. 18. október 2010, var stefnanda síðan veitt áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 fyrir að hafa brotið starfsskyldur sínar með hegðun sem væri óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans sem læknis, með því að taka sýni úr drykk í eigu A og senda það til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði og beðið um ávana- og fíkniefnaleit með áherslu á slævandi lyf, án vitundar viðkomandi læknis.

Þar sem stefnandi telur að ekki hafi verið grundvöllur til þess að veita honum áminningu hefur hann höfðað mál þetta.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir málsókn sína á því að skilyrði hafi skort til að veita honum áminningu 18. október 2010. Til að áminning geti komið til greina þurfi hegðun sem áminnt sé fyrir með vísan til 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 að vera óhæfileg og ósamrýmanleg starfi stefnanda sem læknis. Jafnframt þurfi hegðunin að vera þess eðlis að hægt sé að bæta hana, enda tilgangur áminningar sá að gefa starfsmanni tækifæri til að gera betur í starfi sínu.

Sú hegðun sem stefnandi sé áminntur fyrir sé að hafa tekið sýni úr drykk í eigu samstarfsmanns síns, læknis, sem látið hafi af störfum hjá stefnda, og sent það sýni til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja og eiturefnafræði og beðið um ávana- og fíkniefnaleit með áherslu á slævandi lyf.

Þessi hegðun stefnanda hafi hvorki verið óhæfileg né ósamrýmanleg starfi hans.

Stefnandi sé framkvæmdastjóri lækninga við stefnda, C, og beri sem slíkur ábyrgð á faglegri þjónustu stofnunarinnar samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Stefnandi kveðst, ásamt samstarfsfólki sínu, hafa haft áhyggjur af starfsgetu samstarfsmanns síns, nýráðins læknis hjá stofnuninni, og grunur hafði vaknað um lyfjamisnotkun hans. Samstarfsmaðurinn hafði hafið störf í júní 2010 og hafði samstarfsfólk hans tekið eftir sérstakri hegðun hans, m.a. að hann svæfi í starfi sínu og af honum væri stæk spíralykt. Þegar hann og samstarfsfólk hans hafi orðið vör við að samstarfslæknir hans virtist vera í annarlegu ástandi í starfi hjá stefnda, hafi hann brugðist við með þeim eina hætti sem hann taldi vera réttan þegar svona vanda bar að höndum. Hann hafi leitað ráða hjá embætti landlæknis. Hlutverk landlæknis sé m.a. samkvæmt 4. gr. laga um landlækni nr. 41/2007 að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og að hafa eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum.

Í 5. gr. laga um landlækni sé m.a. fjallað um fyrirmæli, leiðbeiningar og ábendingar. Þar segi að landlæknir geti gefið heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum almenn fagleg fyrirmæli um vinnulag, aðgerðir og viðbrögð af ýmsu tagi sem þeim sé skylt að fylgja og að landlæknir geti gefið út faglegar leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisstofnana, þar á meðal leiðbeiningar sem miða að nálgun og lausn vandamála í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma.

Í 13. gr. laga um landlækni segi enn fremur að landlæknir hafi eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með því að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við eigi. Landlæknir geti krafist þess að heilbrigðisstarfsmaður gangist undir rannsókn sérfræðinga telji hann það nauðsynlegt til að meta hvort hann sé hæfur til að gegna starfi sínu. Leiki grunur á að heilbrigðisstarfsmaður sé undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við störf sín sé landlækni heimilt að krefjast þess að hann gangist þegar í stað undir nauðsynlegar rannsóknir til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Í það skipti sem hér um ræðir hafi landlæknir gefið umræddar leiðbeiningar til þeirra starfsmanna sem hann á að hafa eftirlit með.

Eftir að stefnandi hafði leitað ráða hjá landlæknisembættinu hafi orðið að ráði að stefnandi leitaði eftir efnagreiningu á drykk samstarfsmannsins. Hafi þetta verið gert með öryggi og velferð sjúklinga stofnunarinnar að leiðarljósi en hafi ekki með neinu móti beinst gegn viðkomandi samstarfsmanni. Vegna stirðleika í samskiptum við forstjóra stefnda hafi honum ekki verið greint frá umbeðinni rannsókn, en stirðleiki í samskiptum við forstjóra hafi verið viðvarandi á stofnuninni árum saman.

Hefði stefnandi ekki brugðist við með þeim hætti sem hann gerði hefði það mögulega getað valdið honum aðfinnslum af hálfu landlæknisembættisins, enda kveðið ítarlega á um skyldur heilbrigðisstarfsfólks að hlíta ráðum embættisins í lögum um landlækni.

Hegðun stefnanda hafi enn fremur verið þannig að hún verði ekki endurtekin þegar af þeirri ástæðu að sá samstarfsmaður sem í hlut eigi, læknirinn sem samstarfsfólkið hafði áhyggjur af að væri ekki starfi sínu vaxinn, sé hættur störfum hjá stefnda, C.

Miskabótakrafa stefnanda sé byggð á því að hann hafi orðið fyrir verulegri hneisu, álitshnekki og óþægindum við það að hafa verið áminntur fyrir það eitt að fylgja eftir leiðbeiningum landlæknisembættisins. Það sé ólíðandi að fá á sig skammir og aðfinnslur í starfi sem leiði síðan til áminningar af hálfu forstöðumanns stofnunar þegar stefnandi sé eingöngu að sinna skyldum sínum í starfi og bera hag stofnunarinnar fyrir brjósti. Þetta hafi valdið stefnanda hugarangri og ýmiss konar óþægindum. Í litlu samfélagi eins og [...] berist fréttir af atvikum sem þessum og verði þær til að rýra æru þeirra sem fyrir verða. Stefnandi gegni ábyrgðarstarfi á C og því sé skaði hans meiri fyrir vikið.

Málskostnaðarkrafa sé byggð á 1. mgr. 130. gr. eml. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé byggð á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málinu sé stefnt inn í Reykjavík þar sem ríkislögmaður taki til varna, sbr. 3. mgr. 33. gr. l. um meðferð einkamála nr. 91/1991. Varðandi réttarfar sé að öðru leyti vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Í máli þessu sé það óumdeild staðreynd að stefnandi hafi verið í leyfi frá störfum hjá stefnda og gegndi engum stafsskyldum hjá honum þann 19. ágúst 2010 er atburður sá sem leiddi til áminningar stefnda átti sér stað. E læknir hafi þá gegnt stöðu stefnanda sem framkvæmdastjóri lækninga hjá stefnda.

Óumdeilt sé að stefnandi hafi tekið sýni úr drykk starfandi læknis hjá stefnda þann 19. ágúst 2010 og sent það til rannsóknar með beiðni um ávana- og fíkniefnaleit með áherslu á slævandi lyf. Þetta hafi stefnandi gert með leynd, eða a.m.k. án vitundar viðkomandi læknis og forstjóra stefnda. Með þessari háttsemi hafi stefnandi brugðist trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnda og A. Hafi stefnandi bæði brotið gegn lögum og siðareglum með háttsemi sinni. Að mati stefnda sé þessi hegðun stefnanda óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans og sé gagnstæðri málsástæðu stefnanda mótmælt sem rangri, órökstuddri og ósannaðri.

Lögbrot stefnanda verði ekki réttlætt með vísun til þess að hann hafi verið að gæta að öryggi og velferð sjúklinga stefnda. Ekki liggur fyrir nein sönnun þess að stefnanda hafi reynst nauðsyn að brjóta lög til verndar þeim og fórnað þannig minni hagsmunum fyrir meiri. Stefndi telur gertæki stefnanda óásættanlegt og geti það engan veginn samrýmst stöðu hans og störfum sem læknir í starfi hjá stefnda.

Samkvæmt 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 séu forstjórar heilbrigðisstofnana skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn. Forstjóri beri ábyrgð á að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf samkvæmt 3. mgr. 9. gr. Samkvæmt 5. mgr. 9. gr. ráða forstjórar heilbrigðisstofnana starfslið heilbrigðisstofnana.

Samkvæmt 10. gr. laganna skuli m.a. starfa á heilbrigðisstofnun framkvæmdastjóri lækninga sem beri faglega ábyrgð á þjónustu stofnunarinnar gagnvart forstjóra. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/2007 komi fram að með þeim tillögum sem gerðar séu í frumvarpinu megi segja að verið sé að stíga skrefið til fulls hvað heilbrigðisstofnanir varðar og undirstrika að staða forstöðumanna þeirra sé sú sama og almennt gildi um forstöðumenn ríkisstofnana, sbr. lög nr. 70/1996. Þannig beri forstöðumenn, eða forstjórar eins og þeir séu nefndir í frumvarpinu, allra heilbrigðisstofnana ótvírætt ábyrgð gagnvart ráðherra, bæði á rekstri og þjónustu sinnar stofnunar, en faglegir yfirstjórnendur beri ábyrgð á faglegri þjónustu gagnvart forstjóra. Sé þetta ítrekað í umsögn um 9. gr. þar sem segir að faglegir stjórnendur beri ábyrgð gagnvart forstjóra stofnunar hver á sínu sviði eða í sinni sérgrein, allt í samræmi við stöðu sína í skipuriti stofnunarinnar, sbr. 10. gr. Stefnandi hafi verið í leyfi frá störfum er atvik það varð sem honum var veitt áminning fyrir. Ljóst sé að annar maður gegndi störfum hans, þ. á m. framkvæmdastjórastörfum, samkvæmt 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Málsástæðu stefnanda varðandi það hann hafi borið ábyrgð á faglegri þjónustu stefnda sé því mótmælt sem rangri og órökstuddri.

Lækni beri að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku, halda við þekkingu sinni og fara nákvæmlega eftir henni, sbr. 9. gr. læknalaga nr. 53/1988 og samkvæmt 18. gr. sé læknir háður eftirliti landlæknis í samræmi við ákvæði laga nr. 41/2007 um landlækni.

Eitt af hlutverkum landlæknis samkvæmt lögum nr. 41/2007 sé að hafa eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum, sbr. c. lið 4. gr. Í III. kafla laganna sé nánar kveðið á um eftirlit landlæknis með heilbrigðisstarfsmönnum, eins og þeir séu skilgreindir í 2. tl. 3. gr. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. hafi landlæknir eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við á. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. geti landlæknir krafist þess að heilbrigðisstarfsmaður gangist undir rannsókn sérfræðinga telji hann það nauðsynlegt til að meta hvort hann sé hæfur til að gegna starfi sínu. Leiki grunur á að heilbrigðisstarfsmaður sé undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við störf sín sé landlækni heimilt að krefjast þess að hann gangist þegar í stað undir nauðsynlegar rannsóknir til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Þessar heimildir landlæknis verði ekki framseldar öðrum.

Í þessu sambandi vill stefndi vekja athygli á því að hann fái ekki séð að forstjóri stefnda hafi lagaheimild til þess að óska eftir rannsókn á innihaldi drykkjar starfsmanns síns án samþykkis hans, hvað þá aðrir starfsmenn stefnda. Slík rannsókn sé einnig utan gildissviðs 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/2007, en samkvæmt henni geti landlæknir krafist þess að heilbrigðisstarfsmaður gangist þegar í stað undir nauðsynlega rannsókn til að ganga úr skugga um hvort grunur um áfengis- eða vímuefnanotkun eigi við rök að styðjast. Ekki komi fram í gögnum málsins að landlæknisembættið hafi séð ástæðu til að grípa til slíkrar rannsóknar á heilsufari A þrátt fyrir skýra heimild til þess í 2. mgr. 13. gr. Sú staðreynd hafi ekki gefið stefnanda heimild til að hefja eigin rannsókn á grunsemdum sínum og annars samstarfsfólks á áfengis- eða lyfjamisnotkun læknisins. Stefndi mótmælir því sem röngu og órökstuddu að hefði stefnandi ekki brugðist við með þeim hætti sem hann gerði hefði það getað valdið honum aðfinnslum af hálfu landlæknisembættis. Af gögnum verði ekki ráðið að landlæknisembættið hafi óskað eftir því að stefnandi tæki mál A til rannsóknar, hvað þá að sú rannsókn yrði framkvæmd með þeim hætti sem varð. Það að stefnandi hafi á einhvern hátt misskilið fyrirmæli landlæknis firri hann ekki ábyrgð á lögbrotum, né brotum gegn skráðum siðareglum. Slík brot séu ávallt ámælisverð og beri forstöðumanni stofnunar skylda til að áminna starfsmann fyrir slík brot samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996.

Í greinargerð með lögum nr. 41/2007 komi fram að samhliða áminningarheimild landlæknis gildi áfram, að því er varðar ríkisstarfsmenn, ákvæði laga nr. 70/1996 um áminningu forstöðumanns. Brot sem varða áminningu samkvæmt lögum um embætti landlæknis geti því eftir atvikum jafnframt varðað áminningu forstjóra samkvæmt ákvæðum starfsmannalaga eða eftir atvikum ráðningarsamningum eða kjarasamningum.

Samkvæmt lögum nr. 40/2007, 53/1988, 41/2007 og 70/1996 séu forstjóri heilbrigðisstofnunar og landlæknir þeir einu sem séu bærir til að taka ákvarðanir um atvik er varða heilbrigðisstarfsmenn. Stefnanda sem lækni, í leyfi frá störfum, bar því samkvæmt tilvitnuðum lögum, að upplýsa forstjóra stefnda og landlækni um áhyggjur af starfsgetu væntanlegs samstarfsmanns síns og grun um lyfjamisnotkun hans. Stefnanda bar að greina forstjóra stefnda frá áhyggjum sínum og skipti þá engu máli hvort meintur stirðleiki sé í samskiptum hans við forstjóra og hann hafi verið viðvarandi árum saman, sbr. ummæli í stefnu. Óljóst sé hvort stefnandi hafi upplýst forstjóra stefnda um áhyggjur sínar af meintri lyfjamisnotkun A. Hins vegar hafi stefnandi vitað að forstjóri stefnda hafði borið málefni A undir landlækni og embættið hafi ekki tilkynnt forstjóra stefnda um að ástæða þætti til að hafast eitthvað að. Það liggi fyrir að stefnandi hafi upplýst landlækni um áhyggjur sínar. Sú háttsemi ein og sér myndi aldrei geta orðið ástæða áminningar samkvæmt 21. gr., sbr. 13. gr. a laga nr. 70/1996. En sú einbeitta ákvörðun stefnanda að taka lögin í eigin hendur sem og óviðeigandi framganga hans gagnvart starfsmanni stefnda hafi leitt til þess að stefndi hafi metið það óhjákvæmilegt að veita honum áminningu, enda framkoma stefnanda bæði í senn óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans samkvæmt 14. og 21. gr. laga nr. 70/1996. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Friðhelgi einkalífsins njóti stjórnarskrárvarinnar verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, samanber og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Löggjafinn hafi heimild til að skerða verndina. Dæmi um slíka skerðingu sé 13. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og beri að túlka hana þröngt.

Æra manns njóti og lögverndar. Samkvæmt XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sé felld refsiábyrgð á þá sem gerast sekir um ærumeiðingar í garð annarra og brot gegn friðhelgi einkalífsins. Einnig geti þeir sem verða fórnarlömb slíkra afbrota krafist miskabóta úr hendi þeirra sem brjóta gegn æru þeirra eða persónu samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 sé lögð sú skylda á forstöðumann stofnunar að veita starfsmanni skriflega áminningu, hafi starfsmaður sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hafi ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hafi verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu.

Sú hegðun stefnanda að koma sérstaklega úr orlofi sínu til að taka, með leynd, sýni úr drykk hjá lækni sem starfaði hjá stefnda og senda til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja og eiturefnafræði verði að telja óhæfilega og ósamrýmanlega starfi stefnanda og ekki í samræmi við starfsskyldur hans samkvæmt 14. gr. laga nr. 70/1996. Telur stefndi þessa hegðun stefnanda óhæfilega og ósæmilega enda hafi hann brotið freklega gegn friðhelgi, æru og persónuvernd samstarfsmanns síns, sem geti ekki samrýmst starfi hans hjá stefnda. Málsástæðu stefnanda um að skilyrði hafi skort til að veita honum áminningu sé því mótmælt sem rangri, órökstuddri og ósannaðri.

Stefndi mótmælir jafnframt sem rangri, órökstuddri og ósannaðri þeirri málsástæðu stefnanda að hegðun hans verði ekki endurtekin þegar af þeirri ástæðu að sá samstarfsmaður sem í hlut eigi, læknirinn sem samstarfsfólkið hafði áhyggjur af að væri ekki starfi sínu vaxinn, sé hættur störfum hjá stefnda. Einn megintilgangur áminningar sé að gefa starfsmanni kost á að bæta ráð sitt. Hafi starfsmaður brotið starfsskyldur sínar og honum verið veitt áminning samkvæmt 21. gr. sé ætlast til þess að starfsmaðurinn bæti ráð sitt í kjölfarið en geri hann það ekki geti hann átt það á hættu að verða sagt upp störfum, sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996. Starfsmaðurinn geti bætt ráð sitt með því að endurtaka ekki ávirðingar af sama tagi eða með því að ráða bót á því sem hann hafi verið áminntur fyrir. Bæti starfsmaðurinn ráð sitt sé tilgangi áminningar náð og ekki þörf fyrir forstöðumann að aðhafast frekar. Þegar metið sé hvort starfsmaður hafi bætt ráð sitt, þurfi að gæta þess að hin endurtekna háttsemi sé hliðstæð þeirri háttsemi sem áminning hafi verið veitt fyrir. Sú háttsemi stefnanda að taka sýni úr drykk samstarfsmanns síns, með leynd og án samþykkis hans, snúi ekki eingöngu að A. Ekki sé útilokað að stefnandi geti endurtekið þessa háttsemi gagnvart öðru starfsfólki stefnda í nútíð og framtíð. Tilgangurinn með því að áminna stefnanda sé því m.a. að gefa honum kost á að bæta ráð sitt, en geri hann það ekki geti hann átt það á hættu að verða sagt upp störfum.

Tilvísun stefnanda til 5. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni eigi ekki við og sé máli þessu óviðkomandi.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda gerir hann þá kröfu að miskabætur verði felldar niður eða lækkaðar.

Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda sérstaklega. Sú staðreynd að landlæknir hafi ekki gripið til aðgerða í framhaldi af upplýsingum stefnanda hafi ekki gefið honum heimild til að hefja eigin rannsókn á grunsemdum sínum og annars samstarfsfólks á meintri áfengis- eða lyfjamisnotkun læknisins. Með ákvörðun forstjóra stefnda um að veita stefnanda áminningu vegna brota á starfsskyldu hafi ekki verið brugðist harkalegar við en ástæða var til.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda telur hann að miða beri upphafsdag dráttarvaxta við dómsuppkvaðningu.

Um lagarök vísar stefndi til áðurgreindra laga er varða sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Niðurstaða

Stefnandi sem er framkvæmdastjóri lækninga á C skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði fengið upplýsingar um það vorið 2010 þegar hann var í feðraorlofi að kvartanir hafi borist vegna nýráðins læknis á heilbrigðisstofnuninni m.a. að starfsfólk hefði komið að honum sofandi á læknastofunni. Stefnandi kveðst hafa átt fund með forstjóra stefnda um mánaðamótin júní/júlí og lýst áhyggjum sínum af málinu. Stefnandi kvaðst einnig hafa rætt við forstjóra og átti fund með honum í ágúst og sagt honum að sér litist ekki á blikuna varðandi störf læknisins, en forstjóri hafi gert lítið úr því. Eins og stefnandi hefur skýrt frá fyrir dómi tók hann vökva úr gosdrykkjaflösku sem var fyrir framan skrifstofuna hjá lækninum, sem hér um ræðir, og sendi til rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði 19. ágúst 2010 með beiðni um ávana- og fíkniefnaleit í vökva með áherslu á slævandi lyf. Hann kveðst hafa fengið upplýsingar hjá yfirlækni kvörtunar- og kærumála hjá landlæknisembættinu um hvert ætti að senda þennan vökva til rannsóknar. Stefnandi kvaðst hafa haft óljósar hugmyndir um það að hann væri á gráu svæði með þetta og til tals hefði komið við yfirlækninn hjá landlæknisembættinu að sýnatakan hefði ekkert lagalegt gildi. Stefnandi sagði að enginn annar hefði vitað af þessu og að það hefði ekki hvarflað að sér að ræða þetta við forstjórann.

D forstjóri stefnda skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði hitt landlækni tvisvar út af þessu máli, í fyrra skiptið eftir að hafa fengið tölvubréf frá settum yfirlækni, framkvæmdastjóra lækninga á [...]. Kvaðst hann strax hafa farið með málið til landlæknis, bæði til að leita ráðgjafar og eins að upplýsa landlækni um málið. Landlæknir hafi kallað viðkomandi lækni til sín, en ekkert hafi heyrst síðan af málinu. Kvaðst forstjórinn því hafa talið málið vera í góðum farvegi, fyrst engar athugasemdir bárust honum um annað. Í seinna skiptið kvaðst hann hafa hitt landlækni þegar þetta mál kom upp í byrjun september 2010. Hann hafi átt fund með landlækni og sagt honum frá þessu máli og hvernig til stæði að vinna úr því. Forstjórinn kvað stefnanda ekkert hafa rætt þetta mál við sig í ágúst, um það leyti sem sýnatakan fór fram. Hann hafi fyrst komist að þessu í september þegar óskað var eftir því að hann samþykkti reikning vegna rannsóknarinnar.

E læknir, staðgengill stefnanda, skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði ráðlagt forstjóra stefnda frá því að ráða A til starfa og ítrekaði þá skoðun sína með tölvubréfi. Í starfi kveðst hafa orðið var við að A væri gríðarlega hægur, líkamsburðir og hugsun væri öll mjög hæg. Eftir að hafa unnið með honum í nokkrar vikur og komið að honum sofandi inni á læknastofunni sinni, kveðst hann hafa skrifað landlækni bréf og óskaði eftir því að það yrði kannað hvort að maðurinn væri hæfur til starfsins, hvort hann væri undir áhrifum róandi lyfja eða hvort hann hefði orðið fyrir heilsutjóni. Engin viðbrögð hefðu borist frá landlækni.

F yfirlæknir hjá Landlæknisembættinu staðfesti fyrir dómi að hafa rætt við stefnanda í síma þar sem m.a. komu fram áhyggjur stefnanda af starfsgetu samstarfsmanns og gruns um lyfjamisnotkun. Kveðst vitnið hafa gert stefnanda mjög nákvæmlega grein fyrir því hvernig farið sé með svona mál á vegum landlæknisembættisins, sem hafi framkvæmdina á sinni hendi lögum samkvæmt.

Í 4. gr. laga um landlækni nr. 41/2007 er fjallað um hlutverk landlæknis. Þar kemur m.a. fram að hlutverk landlæknis sé að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum.

Í 13. gr. laganna segir enn fremur að landlæknir hafi eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með því að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við á. Landlæknir getur krafist þess að heilbrigðisstarfsmaður gangist undir rannsókn sérfræðinga telji hann það nauðsynlegt til að meta hvort hann sé hæfur til að gegna starfi sínu. Leiki grunur á að heilbrigðisstarfsmaður sé undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við störf sín er landlækni heimilt að krefjast þess að hann gangist þegar í stað undir nauðsynlegar rannsóknir til að ganga úr skugga um hvort svo sé.

Af gögnum máls verður ráðið að Landlæknisembættinu hafi verið kunnugt um málið og áhyggjur stefnanda sem framkvæmdastjóra lækninga á C af starfsgetu A og gruns um lyfjamisnotkun hans. Var þó ekki hlutast til um það af hálfu landlæknis að læknirinn, sem í hlut átti, gengist undir rannsókn til að kanna hvort hann væri undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við störf sín, eins og landlækni er heimilt samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/2007.

Samkvæmt 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 eru forstjórar heilbrigðisstofnana skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn. Forstjóri beri ábyrgð á að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf, sbr. 3. mgr. 9. gr. Samkvæmt 5. mgr. 9. gr. ráða forstjórar heilbrigðisstofnana starfslið heilbrigðisstofnana. Samkvæmt 10. gr. laganna skal m.a. starfa á heilbrigðisstofnun framkvæmdastjóri lækninga sem ber faglega ábyrgð á þjónustu stofnunarinnar gagnvart forstjóra. Samkvæmt skipuriti fyrir C, sbr. 11. gr. laga nr. 40/2007, er forstjóri æðsti starfsmaður stofnunarinnar og heyrir beint undir ráðherra.

Eins og fram er komið tók stefnandi sjálfur þá ákvörðun að taka sýni úr drykk starfandi læknis hjá stefnda og senda það til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði. Gerði hann þetta án vitundar viðkomandi læknis og án þess að láta forstjóra stefnda, yfirmann sinn vita. Gerði hann þetta þrátt fyrir að hann vissi eða mátti vita að framkvæmd slíkrar rannsóknar væri einungis á hendi landlæknis. Verður ekki fallist á að þetta hafi verið réttlætanlegt vegna sjónarmiða um öryggi og velferð sjúklinga stofnunarinnar eða að stefnanda hafi sem faglegum yfirstjórnanda borið að bregðast við með þessum hætti, eins og hann byggir á.

Með bréfi stefnda, dags. 18. október 2010, var stefnanda veitt áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins fyrir að hafa brotið starfsskyldur sínar með framangreindri hegðun sem væri óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans sem læknis. Hafði stefnanda áður verið gefinn kostur á að koma að andmælum vegna fyrirhugaðrar áminningar og er það ágreiningslaust með aðilum að ekki séu annmarkar á áminningu að formi til.

Stefnandi byggir á því að skilyrði hafi skort til að veita honum áminningu á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, auk þess þurfi hegðunin að vera þess eðlis að hægt sé að bæta hana, enda tilgangur áminningar sá að gefa starfsmanni tækifæri til að gera betur í starfi sínu.

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 skal forstöðumaður stofnunar veita starfsmanni skriflega áminningu ef framkoma hans eða athafnir í starfi þykja ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Framangreinda hegðun stefnanda, að taka með leynd sýni úr drykk hjá lækni sem starfaði hjá stefnda og senda til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, verður að telja óhæfilega og ósamrýmanlega starfi stefnanda og ekki í samræmi við starfsskyldur hans samkvæmt 14. gr. laga nr. 70/1996. Verður því að telja að þessi hegðun stefnanda samrýmist ekki starfi hans hjá stefnda og forstjóra stefnda hafi því borið að veita honum áminningu, eins og gert var. Fullt tilefni var til þess að veita stefnanda áminningu vegna þessa og er ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að áminning við þær aðstæður sem hér um ræðir hafi ekki þau varnaðaráhrif sem að er stefnt.

Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á að grundvöllur sé til þess áminning sú sem stefnanda var veitt með bréfi stefnda 18. október 2010 verði dæmd ógild. Af því leiðir að krafa stefnanda um miskabætur kemur ekki til álita. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu en málskostnaður verður felldur niður.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, C, skal vera sýkn af kröfum stefnanda,B, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.