Hæstiréttur íslands
Mál nr. 333/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 26. júní 2007. |
|
Nr. 333/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 allt til föstudagsins 3. ágúst 2007 kl. 16.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en sóknaraðili krefst.
Fram er kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um tilraun til vopnaðs ráns, sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi. Eins og atvikum máls er háttað er nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, eins og sóknaraðili krefst.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. ágúst 2007 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdómur Reykjavíkur 22. júní 2007.
Ár 2007, föstudaginn 22. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Eggerti Óskarssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X [kennitala] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. ágúst nk. kl. 16:00.
Í greinargerð kemur fram að aðfararnótt fimmtudagsins 21. júní sl., um kl. 00:40, hafi lögreglu borist tilkynning um ránstilraun í verslun 10/11, Dalvegi 18, Kópavogi.
Að sögn starfsstúlku í versluninni hafi hún verið að raða vörum í kælihillu á móts við innganginn inn í verslunina er aðili hafi komið aftan að henni og rifið í hægri handlegg hennar. Hafi aðilinn snúið henni við frá kælihillunni, dregið hana frá henni og otað hníf að andliti hennar. Hafi aðilinn því næst gengið með hana bakatil í vörugeymsluna og beint inn á skrifstofuna þar sem hann hefði strax farið í það að reyna að opna peningaskápinn en það ekki tekist og hafi hann þá skipað henni að opna skápinn. Aðilinn hafi í kjölfarið byrjað að leita í kringum sig og spurt hvernig opna ætti peningaskápinn. Sagði afgreiðslustúlkan að styggð hefði komið að aðilanum er bjalla fór að hringja inni í versluninni og aðilinn því næst hlaupið út af skrifstofunni og farið út um bakdyr verslunarinnar.
Hafi afgreiðslustúlkan lýst hníf þeim sem aðilinn bar í hægri hendi með svörtu skefti, breiðu hnífsblaði og ca. 10 sm á lengd. Þá hefði aðilinn verið karlmaður, grannur að vexti, 175-180 sm. á hæð, í dökkum buxum, hvítri/kremaðri peysu með röndum og með blá augu. Hefði aðilinn borið svarta lambhúshettu á höfði með götum fyrir munnvik og augu. Hafi afgreiðslustúlkan tekið það sérstaklega fram að hún teldi sig kannast við aðilann, en hún héldi að hann væri fyrrverandi starfsmaður í versluninni, mundi þó ekki nafn hans en sagði hann vera rauðhærðan.
Rannsókn lögreglu beindist að kærða eftir að tveir stjórnendur hjá 10/11 höfðu skoðað myndupptökur af vettvangi greint sinn.
Kærði var handtekinn um kl. 14:00 í gærdag. Í yfirheyrslu hjá lögreglu játað kærði að hafa framið þann verknað sem honum er gefið að sök. Kvaðst hann hafa keypt lambhússettu í Kolaportinu fyrir nokkrum vikum, tekið hníf úr eldhússkúffu í íbúð þar sem hann dvelst að [...] og gengið að versluninni. Hefði hann um stund gengið um í nágrenni við verslunina og svo sett á sig lambhúshettuna og farið inn í verslunina með hníf í hönd. Hafi hann ætlað að taka uppgjörið sem geymt sé í peningaskáp á bakvið. Hefði hann lagt á flótta út um bakdyr verslunarinnar þar sem hann hefði ekki fundið lykil að peningaskápnum. Hafi hann hlaupið að Hlíðarhjalla 14, Kópavogi og falið lambhúshettuna, hnífinn og gúmmíhanska sem hann íklæddist greint sinn. Hafi ástæða verknaðarins verið sú að hann skuldi handrukkurum peninga en honum og fjölskyldu hans hefði ítrekað verið hótað líkamsmeiðingum nýverið.
Sterkur rökstuddur grunur sé fyrir hendi þess efnis að kærði hafi framið brot gegn 252., sbr. 20. gr. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981, sem geti varðað allt að 10 eða 16 ára fangelsi. Til meðferðar sé mál þar sem kærði hafi játað að hafa ógnað afgreiðslustúlku með stórhættulegu vopni í því skyni að fá peninga afhenta úr versluninni. Þá telji lögreglustjóri rétt að vísa til þess að kærði hefur samkvæmt sakavottorði hlotið tvo refsidóma, m.a. gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og sé með háttsemi sinni nú að rjúfa skilorð á 13 mánaða dómi er hann hlaut 30.11.2005. Telji lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði hefur viðurkennt bæði fyrir lögreglu og dómi að hafa framið þann verknað sem honum er gefið að sök. Málið telst því upplýst en krafa lögreglustjóra um gæsluvarðhald er eingöngu byggð á 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Ströng skilyrði eru fyrir því að sakborningar verði látnir sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli þessa lagaákvæðis. Fullnægt er því skilyrði tilvitnaðs lagaákvæðis að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi sbr. 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar litið er til þess að kærði hefur greiðlega játað brot sitt, sem er að fullu upplýst, og um var að ræða tilraun en ekki fullframið brot af hálfu kærða, verður að telja að ekki sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærða sé gert að sæta gæsluvarðhaldi. Eru því ekki næg efni til að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald kærða á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurðarorð:
Kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um það að X [kennitala], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 3. ágúst 2007 kl. 16:00, er hafnað.