Hæstiréttur íslands

Mál nr. 512/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Miðvikudaginn 22. apríl 2015.

Nr. 512/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Ingólfi Þórði Möller

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

I var sakfelldur fyrir kynferðisbrot, sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa veist að A og ýtt henni niður í grasið, dregið buxur hennar niður um hana, káfað á líkama hennar og þröngvað henni með ofbeldi til samræðis. Við ákvörðun refsingar var litið til a. liðar 195. gr. almennra hegningarlaga, en brot I beindist úti á víðavangi gegn 16 ára stúlku sem átti sér einskis ills von er hún fór í göngutúr með I, sem var 20 árum eldri en A og hún treysti. Var refsing I ákveðin fangelsi í 3 ár og honum gert að greiða A miskabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins, til vara ómerkingar héraðsdóms en að því frágengnu refsimildunar. Einnig krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara lækkunar hennar.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Lögreglumenn sem handtóku ákærða vegna málsins að morgni 9. október 2012 komu ekki fyrir dóm við meðferð þess og verður því ekki byggt á því, sem fram kom í skýrslu um handtökuna um viðbrögð ákærða umrætt sinn og getið er í héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hafið er yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. sömu laga, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er hún þar réttilega heimfærð til refsiákvæðis. Slíkar tafir hafa ekki orðið á rannsókn eða meðferð málsins að áhrif eigi að hafa á ákvörðun refsingar ákærða. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hin áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ingólfur Þórður Möller, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 875.761 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 11. júní 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var 15. maí sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 28. nóvember 2013 á hendur ákærða, Ingólfi Þórði Möller,  kt. [...], til heimilis að [...], [...]

„fyrir nauðgun, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 7. október 2012, í grasbala við skemmtistaðinn B (svo) á Selfossi, veist að A, kennitala [...], og ýtt henni niður í grasið, dregið buxur hennar niður um hana, káfað á líkama hennar og þröngvað henni með ofbeldi til samræðis. Afleiðingar þessa urðu þær að A hlaut þrjár langar rispur á bringu og minni húðrispur á baki, rispu á  hægri fótlegg framanverðan, nokkrar rispur á vinstra hné sem og litlar rispur utanvert á rasskinnum, hrúður á neðri vör og húðblæðingu ofanvert við meyjarhaft.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu C, kennitala [...], fyrir hönd ófjárráða dóttur hennar, A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. október 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

                Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara krefst hann þess að ákvörðun refsingar verði frestað en að öðrum kosti að hann verði dæmdur til að þola vægustu viðurlög sem lög framast leyfa. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málavextir.

                Samkvæmt frumskýrslu lögreglu mætti mætti A, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöðina á Selfossi þann 7. október 2012 kl. 03:45 ásamt vinkonu sinni, D. Kvað brotaþoli sér hafa verið nauðgað skömmu áður við skemmtistaðinn B, hafi hún hitt þar strák sem hafi sagst heita Ingó og hafi þau verið að kyssast. Hún hafi farið með honum aftur fyrir húsið þar sem hann hafi rifið niður um hana buxurnar og nauðgað henni. Segir í skýrslunni að  maðurinn hafi sett getnaðarliminn inn í hana og sagt að hann hafi fengið fullnægingu inni í henni. Brotaþoli kvaðst hafa reynt að ýta honum frá sér og beðið hann um að hætta en hann hafi alltaf ýtt henni aftur niður. Hafi allt þetta að sögn brotaþola tekið um 20 mínútur. Þegar hann hafi lokið sér af hafi hún hysjað upp um sig og hlaupið aftur að B og hitt þar D vinkonu sína. Skömmu síðar hafi hún séð manninn framan við húsið og hafi þær D kýlt hann í andlitið. Þær hafi síðan fengið far á lögreglustöðina. Í lögregluskýrslu segir að brotaþoli hafi verið mjög róleg í samræðum við lögreglu en hún hafi endurtekið í sífellu að hún hafi ekki trúað því að þetta hefði átt sér stað. Hún hafi sagst hafa drukkið um 6 bjóra en verið vel viðræðuhæf og ekki sjáanlega undir miklum áhrifum áfengis. Brotaþoli lýsti Ingó þessum þannig að hann hafi verið um þrítugt með dökkt hár, hann hafi verið þybbinn en ekki feitur. Eftir að brotaþoli hafði farið með lögreglu að vettvangi, talsvert aftan við B, var hún færð á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota á Landspítalanum í Fossvogi. Brotaþoli gaf síðan skýrslu hjá lögreglu síðdegis sama dag.

                Á neyðarmóttökunni er haft eftir brotaþola samkvæmt skýrslu E læknis að hún hafi hitt mann um þrítugt og hafi þau farið að spjalla saman. Hann hafi beðið hana um að koma með sér fyrir aftan B og hafi þau gengið þangað. Hann hafi byrjað reyna við hana en hún hafi sagt nei, þetta sé ekki að fara að gerast. Hún hafi streist á móti og hafi komið til handalögmála milli þeirra, hann hafi verið öflugri, ýtt henni í grasið, rifið niður um hana buxurnar og nauðgað henni. Þegar hann hafi lokið sér af hafi hann ætlað að ræða við brotaþola en hún hafi klætt sig og hlaupið fram fyrir húsið og hitt vinkonu sína þar. Hafi hún sagt henni hvað hefði gerst og hringt í bróður sinn og hafi hann sagt henni að fara á lögreglustöðina og kæra. Þegar hún hafi verið að ræða við vinkonu sína fyrir framan B hafi maðurinn komið að og hafi hún og vinkona hennar ráðist á hann og lamið hann. Tekið er fram í skýrslu neyðarmóttöku að þótt brotaþoli sé dauðþreytt haldi hún vel vöku, sé skýr í hugsun og verki og sé allan tímann samvinnuþýð. Þá segir að hún sé mjög þreytt, reið og ákveðin, gefi greinargóða og skýra frásögn og muni allt sem hafi gerst. Þá sé hún grátbólgin. Þá segir að gras hafi verið í fötum hennar og leifar af grasi í mittisteygju á leðurjakka hennar. Þá segir í skýrslunni að þrjár ferskar, langar rispur séu á bringu, 3,5 cm og 2,5 cm langar og á baki séu minni og grynnri húðrispur, e.t.v. meira fersk rauð för. Í skýrslunni segir að rispur á bringu gætu verið eftir klór en för á bakinu gætu verið eftir föt eða hald/festingu á brjóstahaldara. Þá sé ein 3 cm þverrispa á framanverðum fótlegg og a.m.k. fjórar þverrispur á vinstra hné, sú lengsta 4 cm. Þá séu örlitlar rispur utanvert á vinstri rasskinn og för á hægri rasskinn og örlítið ferskt 3 mm hrúður á neðri vör. Þá segir í skýrslunni að roðablettur sé við leggangsop og fersk smá húðblæðing ofanvert við meyjarhaft. Þá hafi fundist þrjú smá grasstrá við leggangsop. Sæðisfrumur hafi ekki fundist. Í blóðsýni sem tekið var úr brotaþola kl. 05:19 sama dag mældist etanól 1,15 ‰, í blóðsýni sem tekið var kl. 07:09 mældist etanól 0,80 ‰ og í þvagsýni sem tekið var kl. 05:19 mældist etanól 1,80 ‰. Í matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði sem dagsett er 6. nóvember 2012 og undirrituð af Kristínu Magnúsdóttur deildarstjóra segir að niðurstöður mælinga í blóði og þvagi sýni að hlutaðeigandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar sýnin hafi verið tekin. Bendi niðurstöður mælinga til þess að styrkur etanóls í blóðinu hafi verið fallandi á þeim tíma, það styðji niðurstaða úr síðara blóðsýni. Hlutfall milli þvags og blóðs sé 1,6 en það bendi til þess að nokkur tími (klukkustundir) hafi liðið frá því hlutaðeigandi neytti áfengis síðast. Hvorki fundust lyf né ávana- og fíkniefni í mælanlegu magni í sýnunum.

                Við yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði brotaþoli frá því að þegar hún hafi verið að klæða sig hafi hún áttað sig á því að sími hennar hafi ekki verið á sínum stað. Hafi hún þá skipað manninum að hringja í hann svo hún gæti fundið hann og hafi hann gert það. Hafi hún þá fundið símann í grasinu. Við rannsókn lögreglu á símagögnum kom í ljós að á milli kl. 02:33:08 og 03:05:39 þann 7. október 2012 hafi ekki verið skráðar inn eða úthringingar tengdar símanúmerum brotaþola, I eða ákærða, en upplýst er í málinu að símanúmer hans var J. Samkvæmt gögnum símafyrirtækja var kl. 03:09:56 hringt úr síma ákærða J í síma F, [...] og stóð það samtal í 4 sekúndur. Kl. 03:05:39 var samkvæmt sömu gögnum hringt úr síma ákærða J í síma brotaþola, I sama dag. Kl. 02:33:08 var hringt úr síma ákærða í síma F en ekki svarað. Þá var kl. 02:27:13 hringt úr síma D [...] í síma brotaþola I og stóð það samtal í 17 sekúndur. Þá sést af gögnum málsins að hringt er úr síma ákærða í síma G [...] kl. 02:08:58 og kl. 02:10:29 sama dag og aftur kl. 03:10:31 sama dag og stóð það samtal í 80 sekúndur.

                Ákærði var handtekinn á höfuðborgarsvæðinu kl. 07:55 þann 9. október 2012 þar sem hann var staddur í bílakjallara við [...] ásamt 11 ára gömlum syni sínum. Í lögregluskýrslu er haft eftir ákærða að hann hafi að fyrra bragði sagt að hann vissi ekkert um hvað þetta snerist en hann hafi síðan bætt við að hann hefði bara verið eitthvað fullur við B, þetta hlyti því að vera einhver misskilningur. Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að hafa átt nokkur samskipti við brotaþola. Ákærði gat ekki skýrt hvernig á því stóð að símanúmer hans tengdist símanúmeri brotaþola en hann kvaðst hafa séð símanúmer hennar í sínum síma og flett númerinu upp. Kvaðst hann þá hafa komist að því að um stúlku var að ræða sem bjó á [...] og kvaðst hann hafa sent henni vinabeiðni á Facebook.

                Þann 17. október 2012 tóku brotaþoli og vitnið D þátt í sakbendingu þar sem ákærði stóð í röð ásamt sex öðrum karlmönnum. Verjandi ákærða gerði þá athugasemd varðandi þátttakendur að þeir hafi flestir ekki verið með skegg en ákærði hafi verið með þriggja daga skegg. Bókað er í lögregluskýrslu að verjanda hafi verið boðið að útvega rakvél fyrir ákærða en úr hafi orðið að ekkert hafi verið gert varðandi skegg hans. Brotaþoli benti á ákærða og kvaðst viss um að hann væri sá sem hlut átti að máli. Vitnið D kvað ákærða vera líkan geranda í málinu en tók fram að hún hefði þegar séð mynd af ætluðum geranda á Facebook.

                Aflað var vottorðs um veður á Selfossi á umræddum tíma og í skýrslu Páls Bjarnasonar byggingatæknifræðings dagsettri 6. maí sl. segir að á tímabilinu frá kl. 21:00 6. október 2012 til kl. 05:00 7. október sama ár hafi hitastig í byrjun verið 6,4C° en í lokin farið í 4,4 C°, lægst hafi hiti farið í 3,3C° um kl. 03:00. Vindur hafi verið hægur að suðvestan mestan hluta tímans en að norðvestan um miðnætti í um 40  mínútur. Rakastig hafi verið 100% megnið af tímanum eða frá kl. 22:40 og út athugunartímann en fyrir það hafi rakastig verið 96-99%. Úrkoma hafi mælst í þremur lotum, fyrst kl. 22:30-22:40, en þá hafi mælst 0,4 mm úrkoma og úrkomuhraði 1,4 mm/hr, næst sé úrkoma á bilinu kl. 01:10 til 01:50, en þá hafi verið samtals 1 mm úrkoma og úrkomuhraði hafi farið í 3,2 m m/hr. Að lokum hafi komið eitt útslag kl. 03:30, 0,2 mm. Í skýrslunni segir að úrkomuhraði yfir 3 mm/hr þýði að talsverð úrkoma hafi verið á þessum tíma, sennilega hellidemba.

                Í málinu hefur verið lagt fram vottorð H, uppeldis- og afbrotafræðings, dagsett 2. apríl 2014, en hún hitti brotaþola í Barnahúsi 21 sinni frá 23. nóvember 2012 til 24. mars 2014. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi orðið fyrir mörgum áföllum í lífinu sem hafi áhrif á líðan hennar. Hún nái þó að skilgreina líðan sína í tengslum við áföllin og eigi auðveldara með að skilja tilfinningar sínar. Skömmin og sektarkenndin varðandi ætlaða nauðgun hafi valdið henni nokkrum erfiðleikum því hún taki ábyrgð á því að hafa farið í umræddan göngutúr. Nokkuð beri á því að hún treysti ekki karlmönnum og hafi hún lítil sem engin samskipti viljað hafa við þá fram undir síðastliðið sumar. Hafi kvíðinn, þunglyndið og sjálfsvígshugsanir orðið henni til trafala í lífinu fram undir lok ársins og hafi hún ávallt reynt að hafa nóg að gera til að þurfa ekki að hugsa eða finna fyrir tilfinningum. Brotaþoli gæti þurft á frekari aðstoð að halda þegar hún byrjar í sambandi þar sem reynsla hennar af kynlífi sé að mestu lituð af ofbeldi. Ein af þekktum afleiðingum kynferðisofbeldis sé endurupplifun á broti þegar um kynlíf sé að ræða.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði kvaðst hafa farið með tveimur vinkonum sínum og einum félaga á dansleik á Selfossi frá Reykjavík og hafi þau verið komin um kl. hálf tvö. Þau hafi skemmt sér þarna inni, hann hafi spjallað við fólk og hafi þau farið aftur í bæinn um hálf fjögur eða rétt um fjögur. Ákærði kvaðst hafa verið inni á skemmtistaðnum allan tímann og ekkert farið út fyrr en þau hafi farið heim. Hann hafi ekkert erindi átt út, hann reyki ekki og þá hafi verið grenjandi rigning þessa nótt. Ákærði kannaðist ekki við að hafa hitt brotaþola en mögulega hefði hann hjálpað henni að leita að síma. Ákærði mundi ekki hve mikið hann hefði drukkið, en hann hefði fengið sér nokkra bjóra. Ákærði mundi eftir því þegar hann kom á Selfoss og þegar hann fór þaðan en hann útilokaði ekki að hann hefði dottið eitthvað út á þessum tíma. Ákærði kannaðist ekki við að brotaþoli og vinkona hennar hefðu slegið hann fyrir utan skemmtistaðinn. Ákærði kvað mögulegt að einhver stelpa sem hann hafi ekki vitað hver var hafi lent í vandræðum með síma og hélt hann að hann hefði hjálpað henni, hringt í síma hennar og skellt á. Þegar hann hafi skoðað síma sinn þegar heim var komið hafi verið þar eitthvert símanúmer og kvaðst hann hafa flett því upp og í framhaldi af því hafi hann í einhverjum fíflalátum sent stelpu frá [...] vinabeiðni á Facebook. Ákærði kvaðst ekkert vita hver hún væri. Ákærði kannaðist við að hafa verið með símanúmerið J á þessum tíma. Ákærði kannaðist ekki við að hafa hjálpað stúlkunni með símann bak við húsið og taldi það hafa gerst fyrir framan húsið. Ákærði kannaðist við að hafa hringt í félaga sinn F kl. 02:33 og aftur 03:09, en hann kvaðst hafa verið að athuga hvort þau væru ekki einhvers staðar því hann hafi ekki séð þau. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið síma sinn í hendurnar fyrr en á mánudeginum, hann hefði runnið úr vasa hans í bílnum hjá stúlkunum á leiðinni frá Selfossi. Hafi önnur hvor stúlknanna skilað símanum til F. Ákærði kvað vini sína kalla sig Ingó en hann kynni sig sem Ingólf. Ákærði kvað rangt eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann hafi strax tengt handtökuna við B. Ákærði gat ekki skýrt hvers vegna hann nefndi ekki hjá lögreglu að hann hefði hjálpað einhverri stúlku að leita að síma með því að hringja í hann. Ákærði mundi ekki eftir að hafa hjálpað stúlku að leita að síma sínum en hann kvaðst hafa séð það í símanum sínum daginn eftir.

                Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi farið með D vinkonu sinni og K á ball á Selfossi. Hafi K keyrt og með þeim hafi verið L vinur hans og M. Þau hafi verið komin um tvöleytið og um þrjúleytið hafi þau farið út að reykja og þar hafi hún hitt mann og farið að spjalla við hann. Þau hafi farið að kyssast og hafi hann sagst heita Ingó. Hafi hann beðið brotaþola að koma með sér í smá göngutúr og hafi þau gert það. Hún kvaðst hafa sagt honum að hún væri ekki að fara að sofa hjá honum. Maðurinn hafi þá ýtt henni niður í grasið, girt niður um hana og nauðgað henni. Hann hafi sett typpið í leggöng hennar og klipið hana í brjóstin. Ekki hafi verið um munnmök að ræða. Hún vissi ekki hversu lengi samfarirnar hafi staðið, hún hafi bara frosið. Hún kvaðst hafa beðið hann að hætta en hann hafi ekki svarað því. Hún taldi að honum ætti að hafa skilist að hún hafi ekki viljað þetta. Hún kvaðst hafa ýtt í hann og reynt að standa upp. Hún  kvaðst hafa upplifað þetta þannig að hann væri að beita hana líkamlegu valdi, hann hafi ekki haldið henni niðri en legið þungt ofan á henni. Brotaþoli kvaðst hafa rétt áður en þetta hætti hafa hent símanum sínum frá sér og beðið manninn að hringja í hann svo lögreglan ætti auðveldara með að finna hann. Maðurinn hafi gert það og hafi hún þá farið og hitt D og skýrt frá því að henni hefði verið nauðgað og þá hafi hún hringt í bróður sinn N, sem hafi verið að vinna við [...] og sagt honum hvað gerst hefði. Hann hafi sagt henni að fara upp á lögreglustöð. Hún kvaðst hafa séð manninn við inngang staðarins eftir að hún hafði talað við bróður sinn, hún hafi gengið að honum og slegið hann. Hafi D vinkona hennar gert slíkt hið sama. Maðurinn hafi ekki sagt neitt, dottið hálfpartinn utan í vegginn og hafi þær síðan farið á lögreglustöðina. Hafi O og P ekið þeim þangað. Þar hafi hún talað við Q lögreglumann og síðan hafi verið farið með hana í læknisskoðun. Hún kvaðst eftir þetta hafa verið með klór á bringunni og nuddsár á bakinu. Brotaþoli kvaðst hafa drukkið sex bjóra þetta kvöld. Hún kvaðst eftir þetta vera þunglynd og hafa fengið lyf við þunglyndi og kvíða og þá hafi hún misst mikið úr skólanum. Brotaþoli kannaðist ekki við að hafa sagt við lögreglu að maðurinn hefði fengið sáðlát, hún kvaðst hafa sagt lækninum að hún vissi það ekki. Brotaþoli mundi ekki eftir því að hafa talað við D og sagt henni að hún væri með manni og vildi ekki að hún kæmi og myndi hún segja henni frá þessu öllu á eftir. Vitnið minnti að það hefði ekki verið rigning meðan á þessu stóð. Vitnið gat ekki skýrt hvers vegna hún sagði hjá lögreglu að hún hafi áttað sig á því að síminn væri ekki á sínum stað og þá hefði hún skipað manninum að hringja í hann svo hún gæti fundið hann og ítrekaði að hún hefði hent símanum frá sér. Hún kvaðst muna þetta svona í dag, en langt væri um liðið. Brotaþoli staðfesti að hún  hefði orðið fyrir misnotkun af hálfu bróður síns þegar hún hafi verið 12 og 13 ára gömul. Hún kvað manninn hafa sent sér vinabeiðni á Facebook á sunnudeginum eða mánudeginum en hún kvaðst ekki hafa samþykkt hana en látið lögreglu vita. Hún kvaðst þá hafa séð mynd af ákærða og áttað sig á því að um sama mann var að ræða og hefði nauðgað henni.

 Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi eitthvað verið að hringja í brotaþola sem hafi sagt að hún væri með einhverjum strák bak við og að hún mætti ekki koma. Hún kvaðst hafa séð brotaþola kyssa einhvern strák fyrir utan skemmtistaðinn og hafi það verið sami strákur og átti að hafa nauðgað henni. Hún hafi svo komið grátandi til hennar og sagt að henni hefði verið nauðgað. Hún hafi ekki lýst því að öðru leyti hvernig það hafi atvikast. Vitnið staðfesti að brotaþoli hefði slegið þann sem brotaþoli sagði að hefði nauðgað sér en vitnið minntist þess ekki að hafa slegið hann eða hélt að hún hefði ekki gert það. Þær hafi síðan talað við vini sína og bróður brotaþola og síðan farið á lögreglustöðina með tveimur strákum frá Hellu. Hafi öðrum þeirra, P, verið sagt að brotaþola hefði verið nauðgað. Vitnið mundi ekki hvað brotaþoli sagði bróður sínum. Brotaþoli hafi ekki talað meira um atvikið fyrr en þær hafi verið komnar í bæinn upp á spítala. Vitnið kvað sér hafa liðið mjög illa meðan á þessu hafi staðið, hún hafi verið í sjokki. Vitnið kvað þær enn vera vinkonur og væri brotaþoli þyngri í skapinu og stundum erfiðara að tala við hana. Borin var undir vitnið staðhæfing þess hjá lögreglu að brotaþoli hefði gefið þrjár útgáfur af því sem gerst hefði. Hún kvað hana hafa sagt bróður sínum aðra útgáfu en hún sagði vitninu og lögreglunni enn aðra en vitnið mundi ekki nákvæmlega muninn á þessum útgáfum.  Vitnið kvaðst í fyrstu ekki hafa trúað frásögn brotaþola en síðan farið að hugsa að enginn myndi ljúga svona. Vitnið staðfesti að hafa rætt við föður sinn og hafi þeim þótt þetta eitthvað gruggugt. Vitnið staðfesti að hafa bent á ákærða við sakbendingu hjá lögreglu. Hún kvaðst í fyrstu ekki hafa verið viss því hún sæi mjög illa en þegar hún hafi farið nær hafi hún verið svona 90% viss. Vitnið staðfesti að hafa séð mynd af ákærða á Facebook hjá brotaþola áður en sakbendingin fór fram en gat ekki tjáð sig um það hvort það hefði  haft áhrif. Vitnið mundi ekki eftir því hvort brotaþoli hafi rætt um það að hún hafi týnt símanum sínum. Vitnið kvaðst eiga að nota gleraugu en ekki nota þau mikið. Hún kvaðst ekki hafa verið með gleraugun fyrir utan skemmtistaðinn.Vitnið kvaðst nú trúa brotaþola.

Vitnið O skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi skutlað brotaþola á lögreglustöðina ásamt vini sínum P, en hún mun hafa hringt í hann. Vitnið kvaðst ekki hafa verið á ballinu. Vitnið kvað brotaþola hafa verið hágrátandi og sagst hafa verið lamin eða kýld eða eitthvað álíka. Vitnið kvað P hafa sagt sér eftir á að brotaþola hefði verið nauðgað.

Vitnið R skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið í bifreið þegar brotaþola hafi verið ekið á lögreglustöðina og hafi hún sagt í bifreiðinni að henni hefði verið nauðgað. Hann kvað hana hafa verið grátandi og í uppnámi. Vitnið kvaðst hafa verið á ballinu en mundi ekki eftir að hafa hitt brotaþola þar.

Vitnið S skýrði svo frá fyrir dómi að hún, G og T hafi ætlað að fara á ball og þá hafi ákærði beðið G um far. Vitnið kvaðst ekkert hafa þekkt ákærða fyrir. Þær hafi sótt hann og vin hans í Breiðholtið og ekið á Selfoss. Ákærði hafi verið drukkinn á leiðinni og ágengur við stúlkurnar en hann hafi hætt því þegar hann hafi verið beðinn um það. Vitnið taldi að þau hefðu komið um eittleytið á ballið og hélt vitnið að ákærði og vinur hans hefðu farið á barinn. Þeir hafi sest smástund hjá þeim en síðan hafi þær ekki séð þá meira nema að vinur ákærða hafi nokkrum sinnum komið og spurt hvort þær vissu hvar ákærði væri. Þau hafi farið af ballinu um þrjúleytið og hafi þær beðið smástund úti í bíl eftir ákærða og vini hans, en þeim hafði verið lofað fari til baka. G hafi sagt að ákærði hefði hringt í hana og því hafi þær beðið eftir honum. Vitnið hélt að vinur ákærða hefði komið í bifreiðina á undan en síðan hefði ákærði komið og hélt vitnið að hann hefði verið að kaupa sér bjór. Vitnið kvað hann hafa verið mjög drukkinn þegar hann kom inn í bifreiðina. Vitnið hélt að ákærði og vinur hans hefðu ekki verið mikið saman á skemmtistaðnum. Vitnið kvað G hafa sagt sér að strákarnir báðir hefðu gleymt símum sínum í bílnum. Vitnið kvað G hafa sagt sér að ákærði drykki of mikið og eftir þetta kvaðst vitnið nokkrum sinnum hafa hitt ákærða á böllum og hafi hann alltaf verið leiðinlega fullur.

 Vitnið F skýrði svo frá fyrir dómi að þau hafi farið fimm í bifreið frá Breiðholtinu á ball í B á Selfossi og hefðu þau verið komin einhvern tíma eftir miðnætti. Hann og ákærði hafi þekkt strákana sem hafi verið að spila og hafi þeir rætt við þá baksviðs. Hann kvaðst hafa séð til ákærða við barinn og síðan hafi hann hitt hann fyrir utan um hálftíma eða klukkutíma áður en þau hafi farið, en það hafi verið um þrjúleytið. Vitnið mundi eftir því að á þessum tíma hafi verið úrhellisrigning og hafi hann eitthvað verið að reyna að hringja í ákærða og segja honum að drífa sig. Hann kvaðst hafa séð ákærða af og til á ballinu en ekki verið mikið með honum þar. Hann varð ekki var við að ákærði hefði verið í einhverjum samskiptum við stúlkur á ballinu eða fyrir utan aðrar en þær sem þeir hafi komið með. Vitnið vissi ekki til þess að ákærði hefði verið sleginn þarna og þá kvaðst hann ekki hafa séð áverka á honum. Vitnið kannaðist við að hafa á einhverjum tímapunkti spurt stúlkurnar hvort þær vissu um ákærða. Vitnið kvað ákærða ekkert hafa sagt um það sem gerst hefði og hefði hann verið drukkinn þegar hann hafi komið að bifreiðinni. Vitnið staðfesti að hann og ákærði hefðu gleymt símum sínum í bifreiðinni.

 Vitnið G skýrði svo frá fyrir dómi að þau hafi hist heima hjá F um kl. 23 og þá hafi verið ákveðið að fara á ballið. Vitnið kannaðist ekki við að ákærði hefði verið að reyna við stelpurnar í bifreiðinni en hann  hefði verið að stríða þeim. Hafi þau verið komin þangað rétt fyrir eitt og hafi strákarnir farið á undan inn þar sem byrjað hafi verið að rigna. Vitnið kvaðst hafa fengið hringingu frá ákærða kl. 2:08 og 2:10, það hafi verið „missed calls“ en hún hafi ekki heyrt í símanum þar sem hann hafi verið í jakka hennar. Hún kvaðst síðan kl. 3:10 hafa fengið hringingu frá ákærða og hafi hann spurt hvar þær væru, hann væri á leiðinni út til þess að athuga hvort þau væru komin út í bíl. Hann hafi þá sagt að hann ætlaði að koma aftur inn og kvaðst hún þá hafa heyrt í símanum að það kemur einhver stelpa upp að honum og spyr hvort hún megi hringja, síminn hennar sé batteríislaus, hún finni ekki símann sinn. Ákærði segi þá að hann ætli að leyfa þessari stelpu að hringja. Vitnið sagði að 2-3 mínútum síðar hafi hann komið inn og þá hafi hann viljað drífa sig heim. Hann hafi síðan farið að ná sér í eitthvað að drekka og síðan hafi hann og F komið inn í bifreiðina og þau ekið í bæinn um kl. 3:24. Lögreglan hafi hringt í hana á þriðjudeginum og spurt hana um tímann og kvaðst hún hafa skrifað þetta allt niður og geymt miðann í smá tíma. Vitnið kvaðst hafa kynnst ákærða í gegnum frænda hans og hafi hún hitt hann áður á skemmtistað. Vitnið kvaðst hafa gleymt að segja lögreglunni að hún hafi heyrt einhverja stelpu biðja ákærða að fá að hringja því henni hefði brugðið svo rosalega þegar lögreglan hringdi. Vitnið kvað ákærða hafa verið svo fullan þetta kvöld að hann myndi ekkert eftir því, hann hafi sagt henni það daginn eftir þegar hann hafi hringt til þess að fá símann.  Vitnið kvaðst síðast hafa rætt mál þetta við ákærða í október eða nóvember síðastliðnum og þá spurt hvort eitthvað væri komið út úr þessu máli en hann hafi neitað því. Hún kvaðst þá hafa vitað að sakarefnið væri nauðgun. Vitninu var bent á að samkvæmt símagögnum væri símtalið til brotaþola frá ákærða  kl. 3:05, en símtalið við vitnið hafi verið fimm mínútum síðar eða kl. 3:10. Vitnið gat ekki útskýrt þetta en taldi sig muna þetta með þessum hætti og hélt fast við framburð sinn þrátt fyrir að henni væru kynnt símagögn varðandi tímasetningar. Vitnið skýrði frá því að ákærði hefði hringt í sig 6. apríl sl. og hefði hann þá verið að reyna við hana en hann hafi þá vitað að hún ætti að mæta fyrir dóm í málinu. Vitnið kvaðst eftir þetta hafa ákveðið að hætta að svara ákærða. Þá  kannaðist vitnið við ítrekað aðspurt að ákærði hefði reynt við S á leiðinni á Selfoss. 

Vitnið N, bróðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi hringt í sig þar sem hann hafi verið að vinna í [...] og skýrt honum frá því að hún hefði verið að skemmta sér í B og hafi henni verið nauðgað þar fyrir utan. Hún hafi sagt að hún þekkti ekki manninn og þá hafi hún ekki lýst þessu nánar. Vitnið kvaðst hafa ráðlagt henni að leita til lögreglunnar. Vitnið kvaðst hafa merkt einhverjar breytingar á brotaþola eftir þetta, hún væri lokaðri gagnvart hinu kyninu en áður.

Vitnið P skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið fyrir utan B þegar brotaþoli kom grátandi að og skýrði frá því að henni hefði verið nauðgað. Henni hefði þá verið ekið á lögreglustöðina.

Vitnið E læknir staðfesti í símaskýrslu fyrir dómi afskipti sín af máli þessu. Vitnið staðfesti að rispur á rassi brotaþola hefðu getað komið hafi hún legið ber á grasi. Þá taldi vitnið ólíklegt að blettur við leggangsop og fersk húðblæðing við meyjarhaft hafi skapast við eðlilegar aðstæður og hafi þetta alla vega valdið sársauka í samförum.

Vitnið H, sérfræðingur frá Barnahúsi, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi átt viðtöl við brotaþola í Barnahúsi á grundvelli hugrænnar atferlismeðferðar og hefði hún hitt hana 22 sinnum. Hún sé rosalega dugleg, tali mikið en hún eigi mikla áfallasögu. Hún hafi skýrt frá kynferðisbroti sem hún hafi orðið fyrir af hálfu bróður síns þegar hún hafi verið 7-10 ára. Varðandi umrætt atvik þá hafi brotaþoli sagt að hún hafi verið á balli, farið út að reykja og hitt mann fyrir utan. Þau hafi gengið saman og hafi hún upplifað traust hjá honum, hann hafi hrósað henni en brotaþoli sé með gríðarlega lélega sjálfsmynd. Maðurinn hafi síðan farið með hana bak við hól þar sem hann hafi brotið á henni. Hún hafi oft sagt honum að hætta, eða fjórum, fimm sinnum og þá hafi hún reynt að ýta honum af sér með höndunum. Vitnið kvaðst vinna með sektarkennd brotaþola, hún kenni sjálfri sér um að hafa farið með manninum og hefði hún mátt vita betur. Brotaþoli sé með ofboðslegan kvíða, hún sé þunglynd og kvaðst vitnið hafa miklar áhyggjur af sjálfsvígshugsunum hennar. Vitnið kvað brotaþola hafa verið setta á lyf, þau hafi ekki skilað nægilega miklum árangri, mikil streita sé í henni, hún kippist til í viðtölum og allt sé þetta merki um streitu sem safnast hafi saman hjá henni í gegnum tíðina.  Hún fái martraðir, fyrst um bílslys sem hún hefði lent í en einnig um nauðgun. Brotaþoli sé stelpa sem hafi langa reynslu um áföll sem hún hafi aldrei tekist á við og hafi byggst upp mikil streita og vanlíðan hjá henni frá 6 ára aldri. Vitnið kvaðst upplifa brotaþola trúverðuga þegar hún hafi lýst umræddu atviki og hefði vitnið aldrei upplifað að hún væri að segja ósatt.

   Vitnið U rannsóknarlögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði annast sakbendingu í málinu. Sé reynt að velja þá sem best líkist hinum grunaða. Brotaþoli og vitnið D hafi báðar bent á ákærða og hafi enginn vafi verið hjá þeim. Vitnið tók fram að hann hafi ekki vitað að ákærði myndi mæta skeggjaður til sakbendingarinnar.

Vitnið Q lögreglufulltrúi skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi vísað á stað bak við B þar sem hún hafi sagt að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti. Þetta hafi verið á óbyggðri lóð, 50-150 metrum frá húsinu og hafi mátt sjá að grasið var bælt þarna. Brotaþoli hafi verið flutt á neyðarmóttökuna í Reykjavík og þegar hún hafi komið til baka hafi verið tekin af henni skýrsla í hljóði og mynd. Hafi brotaþoli sagt að hún hafi farið bak við húsið til að spjalla við mann, þau hefðu sest niður og í kjölfarið hefði hún verið þvinguð til samræðis. Vitnið kvað brotaþola hafa virkað á sig eins og hún hefði orðið fyrir áfalli, hún hafi verið trúverðug og verið brugðið og virkað sem manneskja sem hefði orðið fyrir árás sem þessari. Við skýrslutökuna hafi komið í ljós að hringt hefði verið í síma brotaþola og var símanúmerið rakið til ákærða. Vitnið minnti að brotaþoli hefði talað um að hún hefði misst símann sinn eða gleymt  honum og fengið að hringja úr síma ákærða í sinn síma. Vitnið kvaðst síðan hafa tekið skýrslu af ákærða en ekki haft afskipti af málinu eftir það.

Vitnið V rannsóknarlögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að Q hafi falið sér rannsókn málsins og kvaðst hann hafa tekið skýrslur, aflað einhverra gagna, gengið frá málinu og komið því til ákæruvaldsins. Vitnið staðfesti rannsókn sem fram fór á símasamskiptum í tengslum við mál þetta. Vitnið kvaðst hafa verið viðstatt síðari skýrslutöku yfir ákærða og mundi eftir því að það hafi komið á hann þegar rætt var um símatengslin milli ákærða og brotaþola.

Vitnið X lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi komið á lögreglustöðina ásamt vinkonu sinni og hafi sagt að hún hafi verið á balli í B og hafi strákur að nafni Ingó nauðgað henni. Hún hafi verið búin að drekka nokkra bjóra og verið að kyssa hann fyrir framan skemmtistaðinn, farið með honum aftur fyrir húsið þar sem hann hafi rifið niður buxurnar á henni og nauðgað henni. Hún hafi beðið hann um að hætta en hann hafi ekki sinnt því. Þetta hafi tekið um 20 mínútur og hafi hún sagt hann hafa fengið það inn í hana. Hún hafi hlaupið aftur að B og látið vinkonu sína vita hvað hefði gerst. Skömmu síðar hafi þær séð strákinn fyrir utan B og hafi þær báðar kýlt hann. Vitninu virtist brotaþoli vera mjög róleg yfir þessu, en auðsjáanlegt samt að hún hafi verið í uppnámi. Hún hafi virst vera í afneitun, tautað í sífellu að hún tryði ekki að þetta hefði gerst fyrir hana. Brotaþola hefði síðan verið ekið á neyðarmóttökuna. Vitnið kvað skýrslu sína byggða á skrifuðum punktum og hefði hún verið rituð strax eftir að hann hefði komið frá Reykjavík. Vitnið mundi ekki fyrir dómi hvað brotaþoli sagði við það orðrétt. Vitnið mundi ekki eftir að hafa rætt við D, vinkonu brotaþola.

Vitnið Y, sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti afskipti sín af máli þessu í símaskýrslu fyrir dómi. Hann staðfesti að við forvinnu hefðu engar sáðfrumur fundist sem unnt hefði verið að greina nánar og því engin ástæða til að senda sýni til DNA-greiningar. Vitnið taldi því útilokað að lífsýni úr ákærða hefðu fundist við slíka rannsókn.

Niðurstaða.

 Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa nauðgað brotaþola á grasbala við skemmtistaðinn B á Selfossi eins og nánar er rakið í ákæruskjali. Ákærði neitar sök og segist engin samskipti hafa átt við brotaþola.  Ákærði kvaðst hafa verið inni á skemmtistaðnum allan tímann og ekkert farið út fyrr en hann hafi farið heim ásamt fylgdarfólki sínu.  Hann kannaðist ekki við að hafa hitt brotaþola en mögulega hefði hann hjálpað henni að leita að síma en hann hefur ekki getað skýrt nánar frá þeim samskiptum. Samkvæmt símagögnum hringdi vitnið D í brotaþola kl. 02:27 og kvaðst brotaþoli þá vera með strák bak við hús. Þá er samkvæmt símagögnum óumdeilt að sími ákærða tengdist síma brotaþola kl. 03:05:39 umrædda nótt og þykja framangreind símagögn styrkja frásögn brotaþola um atvikin. Þess ber  hins vegar að geta að fyrir dómi kvaðst brotaþoli hafa hent símanum viljandi frá sér til þess að láta ákærða hringja í hann svo lögregla ætti auðveldara með að finna hann, en frásögn brotaþola hjá lögreglu var frábrugðin að þessu leyti. Þar kvaðst brotaþoli hafa týnt símanum og beðið ákærða að hringja í hann svo hún gæti fundið hann. Brotaþoli gat ekki skýrt þetta misræmi, hún kvaðst muna þetta svona í dag en langt væri um liðið. Ákærði kvað mögulegt að einhver stelpa sem hann hafi ekki vitað hver var hafi lent í vandræðum með síma og hélt hann að hann hefði hjálpað henni, hringt í síma hennar og skellt á. Hann hafi komist að þessu þegar hann hafi skoðað síma sinn þegar heim var komið en þá hafi verið þar eitthvert símanúmer sem hann hafi ekki kannast við. Ákærði gat ekki skýrt hvers vegna hann nefndi ekki hjá lögreglu að hann hefði hjálpað einhverri stúlku að leita að síma með því að hringja í hann. Brotaþoli hefur borið að hún og vitnið D vinkona hennar hafi eftir atvikið slegið ákærða fyrir utan skemmtistaðinn, en ákærði kannast ekki við það. Vitnið D mundi hins vegar ekki eftir því fyrir dómi að hafa slegið ákærða og þá taldi vitnið brotaþola hafa gefið þrjár útgáfur af því sem gerðist án þess vitnið gæti útskýrt nánar í hverju misræmið fólst. Vitnið tók þó fram að hún tryði nú frásögn brotaþola. 

Nægilega er upplýst að hringt var úr síma ákærða í síma brotaþola. Þá virtist ákærði samkvæmt lögregluskýrslu vita tilefni þess er hann var handtekinn og kvaðst hafa verið fullur við B. Vitnið G kvaðst kl. 03:10 hafa fengið hringingu frá ákærða og hafi hún heyrt í símanum að einhver stelpa spurði ákærða hvort hún mætti hringja, síminn hennar væri batteríislaus eða hún fyndi ekki símann sinn. Ákærði hafi þá sagt að hann ætlaði að leyfa þessari stelpu að hringja. Þessi framburður vitnisins stenst ekki í ljósi þess að hringt hafði verið í síma brotaþola um fimm mínútum fyrr. Að mati dómsins var framburður vitnisins G vægast sagt ótrúverðugur, hann breyttist í grundvallaratriðum fyrir dómi og var ekki í samræmi við framburð hennar hjá lögreglu. Þá verður ekki annað séð en að hún hafi reynt að draga úr gildi þeirra gagna um símasamskipti sem fyrir liggja í málinu. Ber því að hafna framburði hennar. Framburður ákærða er að mati dómsins ótrúverðugur, hann kvaðst í yfirheyrslu hjá lögreglu í fyrstu muna atburði en eftir að símagögn voru borin undir hann, brast minni hans. Hann kvaðst muna eftir símtali við F en hefur borið við minnisleysi varðandi símtalið við brotaþola. Það er fyrst fyrir dómi sem ákærði telur mögulegt að hann hafi hjálpað brotaþola að leita að síma hennar. Upplýst er að ferðafélagar ákærða sáu lítið til hans á ballinu en hann hefur sjálfur borið að hann hafi ekkert farið út fyrir. Að mati dómsins er framburður brotaþola trúverðugur, hún skýrði strax frá því að henni hefði verið nauðgað og hafa vitni borið að hún hafi verið grátandi og í miklu uppnámi. Þá var brotaþoli samkvæmt gögnum málsins með áverka sem samrýmast frásögn hennar af atburðum. Þá ber að líta til framburðar H frá Barnahúsi um að hún upplifði brotaþola trúverðuga þegar hún lýsti umræddu atviki og hefði vitnið aldrei upplifað að hún væri að segja ósatt. Þrátt fyrir að efast megi um gildi sakbendingar sem fram fór í málinu þar sem upplýst er að brotaþoli og vitnið D höfðu áður séð myndir af ákærða á Facebook, er að mati dómsins ekki varhugavert með vísan til alls þess sem að framan er rakið að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

                Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða var hann sektaður og sviptur ökurétti árið 2001 fyrir umferðarlagabrot og þann 22. mars 2011 sættist hann á sektargreiðslu fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf. 

 Ákærði hefur með greindri háttsemi sinni unnið sér til refsingar og ber við ákvörðun hennar að líta til þess að brotið beindist úti á víðavangi gegn 16 ára stúlku sem átti sér einskis ills von og fór í göngutúr með ákærða sem hún treysti, en hann er 20 árum eldri en hún. Verður því höfð hliðsjón af ákvæðum 195. gr. almennra hegningarlaga en samkvæmt a-lið greinarinnar skal, þegar refsing fyrir brot gegn 194. gr. laganna er ákveðin, virða það til  þyngingar ef þolandi er barn yngra en 18 ára. Hins vegar ber að líta til þess að ákæra í máli þessu var ekki gefin út fyrr en tæpu ári eftir að rannsókn þess lauk og hefur sá dráttur ekki verið skýrður. Með hliðsjón af öllu framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár.

 Miskabótakrafa brotaþola er þannig rökstudd að um sé að ræða mjög alvarlegt kynferðisbrot sem ákærði beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Hafi brotið verið alvarlegt þar sem ákærði þvingaði brotaþola til kynmaka þrátt fyrir að hún væri þeim mótfallin með því að halda henni niðri og setja lim sinn í leggöng hennar. Hann hafi einnig notfært sér líkamsyfirburði sína. Þá hafi brotaþola liðið mjög illa eftir atvikið. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, vottorðs og vættis H sem og þess sem fram er komið við meðferð málsins er það mat dómsins að framferði ákærða gagnvart brotaþola hafi valdið henni miska í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Ljóst er að brotaþoli hefur áður orðið fyrir áföllum í lífinu og ber ákærði því ekki einn ábyrgð á ástandi hennar í dag, en fyrri áföll geta hins vegar ekki dregið úr þeim miska sem ákærði hefur valdið brotaþola. Eru miskabætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

 Þá ber með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað, 538.879 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 840.850 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Það athugast að í sakarkostnaðaryfirlitum ákæruvaldsins er kostnaður vegna matsgerðar rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, 114.971 króna, tvítalinn. Þá ber að dæma ákærða til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 34.800 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ragnheiði Thorlacius og Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómurum.  

Dómsorð:

Ákærði, Ingólfur Þórður Möller, sæti fangelsi í 3 ár.

Ákærði greiði C, kennitala [...], fyrir hönd ófjárráða dóttur  hennar, A, kennitala [...], brotaþola í máli þessu, miskabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. október 2012 til 13. janúar 2014, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað, 538.879 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 840.850 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Þá greiði ákærði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 34.800 krónur.