Hæstiréttur íslands
Mál nr. 701/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Föstudaginn 17. desember 2010. |
|
Nr. 701/2010.
|
X (Hreinn Pálsson hrl.) gegn Félagsþjónustu A (Árni Pálsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdómara um að hafna kröfu X um að fellt yrði úr gildi samþykki dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins til þess að hann yrði vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. desember 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði niður nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu 2. desember 2010. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr., lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi auk kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur auk greiðslu þóknunar skipaðs talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr., lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Hreins Pálssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.400 krónur til hvors, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. desember 2010.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag, er til komið vegna kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], [...], B, um að felld verði úr gildi nauðungarvistun hans á geðdeild Sjúkrahússins á C, er dóms- og mannréttindaráðuneytið veitti samþykki fyrir þann 2. desember s.l.
Varnaraðili, Félagsþjónustan á B, [...], krefst þess að ofangreind nauðungarvistun sóknaraðila standi óhögguð.
Hin kærða ákvörðun um nauðungarvistun er reist á vottorði D, heilsugæslulæknis, dags. 1. desember s.l., sem ritað var að beiðni varnaraðila félagsmálaráðs B. Í nefndu læknisvottorði, sem er í samræmi við önnur gögn, er því lýst að sóknaraðili hafi verið lagður inn brátt á geðdeild Sjúkrahússins á C hinn 30. nóvember s.l. vegna gruns um alvarlegan geðsjúkdóm. Í vottorðinu er lýst högum og aðstæðum sóknaraðila svo og því að hann hafi harðneitað allri samvinnu og að sjúkdómsinnsæi hans sé ekki til staðar.
Fyrir liggur að af hálfu dóms- og mannréttindaráðuneytisins var samþykkt hinn 2. desember s.l. á grundvelli fyrirliggjandi gagna og beiðni, að sóknaraðili yrði vistaður á sjúkrahúsi skv. heimild í 3. mgr. sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.
Kæra sóknaraðila barst dóminum 14. desember s.l. Að tilhlutan dómsins ritaði E, forstöðulæknir geðdeildar Sjúkrahússins á C, vottorð um geðheilsu sóknaraðila og lá það frammi við fyrirtöku málsins fyrr í dag. Í vottorðinu er greint frá því að sóknaraðili hafi lagst inn á geðdeild Sjúkrahúss C 30. nóvember, en hann hafi komið þangað af bráðamóttöku sjúkrahússins í fylgd. Lýst er læknismeðhöndlun sóknaraðila á geðdeildinni fram til þessa, en síðan segir í niðurstöðukafla um geðskoðun sóknaraðila:
„ Sjúkrasaga hans benda eindregið til að hann sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs geðsjúkdóms. Meðferð sjúkdómsins hefur ekki enn borið þann árangur sem dugi. Grunur er um að A sé haldinn [...] ([...]).
Batahorfur A ráðast af meðferðarstjórn og þarf fyrst og fremst að gefa honum geðrofslyf og sefandi lyf með reglulegu millibili til að fyrirbyggja og stytta núverandi geðrofslotu. Sérhver geðrofslota í geðrofssjúkdómi brýtur niður geðheilsu meira en sjúkdómurinn sjálfur gerir.
Geðræn veikindi A eru mjög alvarlegs eðlis og sjúkdómsinnsæi hans ekkert. Afar ólíklegt er að bati náist án viðeigandi meðferðar. Nauðungarvistun á sjúkrahúsi virðist því óhjákvæmilegt til að hægt verði að koma við nauðsynlegri og reglubundinni lyfja- og læknismeðferð.“
Við þingfestingu málsins fyrr í dag gaf sóknaraðili skýrslu að viðstöddum skipuðum talsmanni sínum. Sóknaraðili ítrekaði kröfur sínar og vísaði m.a. til þess að hann væri fús til að þiggja læknishjálp, en ekki vera á lokaðri geðdeild.
Sóknaraðili hefur lýst því yfir hér fyrir dómi, að hann sé fús til að þiggja læknishjálp, en samkvæmt vottorðum fyrr nefndra lækna eru líkur á að hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og hafi ekki sjúkdómsinnsæi. Líkt og heilsufari sóknaraðila er lýst í nefndum vottorðum verður ekki komist að annarri niðurstöðu en að vistun hans á geðdeild sé nauðsynleg. Er þannig fullnægt skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71, 1997. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila, en staðfesta áður greinda ákvörðun dóms- og mannréttindaráðuneytisins um nauðungarvistun.
Samkvæmt 31. gr. sbr. 17. gr. lögræðisaðila ber að greiða þóknun talsmanns sóknaraðila, Hreins Pálssonar, hrl., 75.300 krónur úr ríkissjóði og er þá virðisaukaskattur með talinn.
Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], um að fella úr gildi ákvörðun dóms- og mannréttindaráðuneytisins frá 2. desember 2010, um nauðungarvistun hans á geðdeild Sjúkrahússins á C.
Málskostnaður talsmanns sóknaraðila, Hreins Pálssonar hrl. 75.300 krónur greiðist úr ríkissjóði.