Hæstiréttur íslands
Mál nr. 295/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudagur 4. júlí 2005. |
|
Nr. 295/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili, sem kveðst vera X, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum næsta dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júlí 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að að maður sem nefnir sig X, [kt.], bandarískur ríkisborgari, verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júlí nk. kl. 16.00 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 en til vara að honum verði á grundvelli 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 bönnuð för frá Íslandi á sama tíma.
Atvikum málsins er lýst í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní sl. sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 28. júní sl. í máli nr. 278/2005. Auk þess sem þar greinir kemur fram í greinargerð rannsóknara að í gær hafi lögreglu borist til viðbótar frumrit fimm falsaðra tékka að andvirði 5.200 bandaríkjadala sem kærði hafi ásamt öðrum nafngreindum aðila viðurkennt að hafa innleyst í Íslandsbanka. Einnig kemur fram að samkvæmt upplýsingum Interpol séu fingraför kærða þekkt í Austurríki vegna fjársvikamála. Eru fingraförin tengd manni sem gengið hefur undir sex mismunandi nöfnum þar á meðal nafni kærða. Þá bendir rannsóknari á að honum hafi borist upplýsingar frá Svíþjóð um að maður með sama nafn og kærði hafi reynt að hafa fé út úr banka í Gautaborg en hafi ekki náðst.
Rannsóknari telur að fyrir liggi sterkur og rökstuddur grunur um að kærði hafi ásamt umræddum aðila staðið að því að svíkja út verulegar fjárhæðir í bönkum í Reykjavík með innlausn tékka, sem þau hafi falsað frá rótum og jafnframt að svíkja út bíla á bílaleigum bifreiðar í því skyni að taka þær með sér brott af landinu. Hann telur ætluð brot kærða varða við 1. mgr. 155. og 248. gr. almennra hegningarlaga sbr. 19/1940. Refsing fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. laganna geti varðað allt að 8 ára fangelsi og brot gegn 248. gr. allt að sex ára fangelsi. Hann telur ætluð brot kærða beinist að hagsmunum að andvirði að minnsta kosti um 11.000.000 kr.
Af hálfu rannsóknara er upplýst að rannsókn málsins sé vel á veg komin þó henni sé enn ekki að fullu lokið. Fyrirhugað sé að höfða mál á hendur kærða í byrjun næstu viku. Samkvæmt framansögðu megi ætla að kærði muni reyna að komast hjá málsókn með því að hverfa úr landi gangi hann laus. Verði að telja eins og mál þetta liggi fyrir sé farbann ekki til þess fallið að tryggja það að kærði komist ekki af landi brott án vegabréfs til annars lands innan Schengen-svæðisins.
Af hálfu kærða er kröfu um gæsluvarðhald mótmælt. Hann vísar til þess að málið sé að fullu upplýst og engin ástæða til að halda honum í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna. Hann lýsir því yfir að hann hafi alls ekki í hyggju að yfirgefa landið og mótmælir fullyrðingum um að vafi leiki á því hver hann sé. Hann bendir einnig á að erfitt sé fyrir hann að aðstoða við rannsókn málsins ef honum sé haldið í gæsluvarðhaldi.
Samkvæmt gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geta varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði er erlendur ríkisborgari, með engin sérstök tengsl við Ísland og liggja fyrir sterkar vísbendingar um að hann hafi villt á sér heimildir í því skyni að komast hjá refsingu vegna brota. Þykir farbann því ekki fullnægjandi til að tryggja nærveru kærða meðan mál hans er til meðferðar hér á landi. Er því fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að fallast á kröfu rannsóknara um gæsluvarðhald, eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, bandarískur ríkisborgari, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júlí nk. kl. 16.00.