Hæstiréttur íslands

Mál nr. 408/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Börn
  • Umgengni


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. október 2004.

Nr. 408/2004.

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Bráðabirgðaforsjá. Börn. Umgengnisréttur.

K og M deildu um forsjá tveggja barna þeirra til bráðabirgða og umgengni við þau. Með vísan til matsgerðar dómkvadds manns þar sem fram kom að forsjárhæfni K væri stórlega ábótavant en að M væri hæfur til að fara með forsjá barnanna var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að M færi með forsjánna á meðan á rekstri málsins stæði. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um umgengnisrétt K við börnin.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2004, þar sem skorið var úr ágreiningi aðilanna um forsjá tveggja barna þeirra til bráðabirgða og umgengni við þau. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um bráðabirgðaforsjá barnanna Til vara krefst hann þess að umgengni samkvæmt úrskurði héraðsdóms verði breytt þannig að stúlkurnar dvelji hjá sóknaraðila frá kl. 12 24. desember 2004 til hádegis daginn eftir og frá kl. 12 28. sama mánaðar til hádegis 1. janúar 2005 og þær dvelji hjá sóknaraðila frá kl. 12 laugardag fyrir páska til kl. 18 á annan dag páska. Þá krefst hún að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði liggur fyrir matsgerð dómkvadds manns. Þar kemur fram að forsjárhæfni sóknaraðila sé stórlega ábótavant en að varnaraðili sé hæfur til að fara með forsjá barnanna. Með vísan til þessa er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að varnaraðili fari með forsjá barnanna á meðan á rekstri málsins stendur. Þá er ekki ástæða til að breyta niðurstöðu héraðsdóms um umgengnisrétt sóknaraðila við þau. Samkvæmt framanrituðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2004.

Með bréfi sem lagt var fram í þinghaldi 19. ágúst 2004 krefst stefnandi, M, úrskurðar um forsjá til bráðabirgða samkvæmt 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Stefnda er K.

Krafa stefnanda er að honum verði úrskurðuð til bráðabirgða forsjá telpnanna X, fæddrar [...] 1990, og Y, fæddrar [...] 1993, sem eru börn hans og stefndu, meðan forsjármál vegna þeirra er rekið. Þá krefst hann þess að dómurinn ákveði inntak umgengnisréttar stefndu og telpnanna. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefnda krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað auk málskostnaðar.

Framangreind krafa stefnanda kom fram undir rekstri einkamáls sem stefnandi höfðaði gegn stefndu 15. nóvember 2003 til að fá dæmda forsjá umræddra barna og ákvörðunar á umgengnisrétti. Af hálfu stefndu hefur þing ekki verið sótt í málinu frá þingfestingu þess 20. nóvember 2003. Í þinghaldi 3. febrúar 2004 ákvað dómari með vísan til 39. gr. barnalaga að skipa Valborgu Snævarr hrl. málsvara stefndu.

Að beiðni stefnanda hefur dómari aflað gagna frá [...]skóla og Barnavernd Reykjavíkur. Í þinghaldi 13. febrúar 2003 var Sigurður Eyjólfsson klíniskur sálfræðingur dómkvaddur sem matsmaður til að leggja sérfræðilegt mat á forsjárhæfni stefnanda annars vegar og forsjárhæfni stefndu hins vegar með tilliti til þess að unnt yrði að ákveða með dómi hvort þeirra teljist hæfara til að fara með forsjá telpnanna. Í sama þinghaldi var ákveðið með vísan til 1. mgr. 43. gr. barnalaga að fela nefndum matsmanni að kynna sér viðhorf barnanna og gefa um þau skýrslu fyrir dómi áður en kæmi að gerð formlegrar matsgerðar samkvæmt framangreindu. Í þinghaldi 5. mars 2004 gaf matsmaður skýrslu um könnun sína á viðhorfum barnanna. Matsmaður lauk matsgerð sinni 17. júlí 2004 og var hún lögð fram í þinghaldi 16. ágúst 2004. Í þinghaldi 19. sama mánaðar óskaði skipaður málssvari eftir því að fram færi viðbótarmat þannig að áður dómkvaddur matsmaður lyki við þau sálfræðipróf á stefndu sem ekki hafði tekist að gera. Með vísan til samkomulags aðila um þetta atriði féllst dómari á viðbótarmat. Viðbótarmatsgerð liggur ekki fyrir. Vegna kröfu um bráðabirgðaforsjá ákvað dómari í þinghaldi 26. ágúst 2004 að kveðja til sérfróða meðdómendur. Jafnframt ákvað dómari að gefa umræddum telpum kost á að tjá sig um málið með vísan til 1. mgr. 43. gr. barnalaga. Fór könnun á viðhorfum telpnanna fram 14. september 2004 að fjarstöddum aðilum og fulltrúum þeirra í samræmi við ákvörðun dómsformanns. Krafa um bráðabirgðaforsjá var tekin til úrskurðar að undangengnum munnlegum flutningi í þinghaldi sama dag.

I.

Málsaðilar eiga saman dæturnar X, fædda [...] 1990, og Y, fædda [...] 1993. Þau hafa aldrei búið saman og hefur stefnda farið með forsjá þeirra frá fæðingu. Samkvæmt stefnu var ekki gengið frá feðrun telpnanna fyrr en árið 1994 og staðfesti sýslumaður í framhaldi af því samkomulag um að stefnandi greiddi meðlag með dætrunum.

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu var umgengni eðlileg til ársins 1999 þegar stefnda neitaði stefnanda um að hitta telpurnar. Er í stefnu lýst ýmsum erfiðleikum við að fá eðlilega umgengni við telpurnar sem ekki er ástæða til rekja nánar meðal annars eftir að samningur um umgengni var gerður 19. febrúar 2004. Hefur umgengni stefnanda við telpurnar verið slitrótt. Í greinargerð stefndu er því mótmælt að erfiðleika í umgengni sé að rekja til atvika sem séu á ábyrgð stefndu og vísað til þess að telpurnar hefðu stundum ekki viljað hitta stefnanda, meðal annars vegna erfiðleika í samskiptum við sambýliskonu hans.

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu hefur stefnandi og sambýliskona hans um árabil haft áhyggjur af uppeldi og aðbúnaði telpnanna. Kemur þar fram að frá því haustið 2001 hafi stefnandi og sambýliskona hans verið í sambandi við barnaverndaryfirvöld vegna telpnanna og er sú fullyrðing í samræmi við gögn frá Barnavernd Reykjavíkur. Illa hafi gengið að koma á stuðningi við telpurnar í gegnum barnavernd þar sem stefnda hafi ekki verið til neinnar samvinnu. Þá virðist sem mál telpnanna hafi orðið útundan vegna tíðra mannabreytinga hjá barnavernd.

Í málinu liggur fyrir bréf Barnaverndar Reykjavíkur til héraðsdómara 2. febrúar 2004 ásamt gögnum um afskipti barnaverndaryfirvalda af málsaðilum og telpunum. Í bréfinu segir að samkvæmt gögnum barnaverndar hafi verið höfð ítrekuð afskipti af högun telpnanna á grundvelli barnaverndarlaga allt frá árinu 1995. Tilefni afskipta hafi verið tilkynningar um vanrækslu telpnanna á heimili móður. Tilkynningar hafi bæði borist frá tilkynnendum sem óskað hafi nafnleyndar, frá skóla, heilsugæslu og sambýliskonu föður. Þá hafi einnig borist skýrslur lögreglu á árunum 2001 og 2002 vegna heimilisófriðar. Stefnda hafi ítrekað verið boðuð til samvinnu en hún hafi undantekningarlítið ekki mætt eða afboðað viðtöl, fundi og heimsóknir. Þá kemur fram að upplýsingar frá skóla telpnanna, heilsugæslustöð og leikjanámskeiðum hafi staðfest að tilkynningar um aðbúnað telpnanna ættu við rök að styðjast. Einnig má sjá í gögnunum að stefnda  nýtti illa eða ekki sum þau beinu úrræði sem buðust telpunum til handa; nefna má að leikskólavist Y varð slitrótt og styrkur frá Velferðarsjóði barna lá ósóttur mánuðum saman. Að öðru leyti er ekki ástæða til að rekja gögn barnaverndaryfirvalda.

Samkvæmt bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til skipaðs málsvara stefndu 17. ágúst 2004 þáði stefnda stuðning barnaverndar síðastliðið sumar og undirritaði meðferðaráætlun til sex mánaða 25. júní 2004. Er í áætluninni meðal annars gert ráð fyrir því að stefnda fari í fjölskylduviðtöl, fái aðstoð við að kaupa fatnað á þær, X fái persónulegan ráðgjafa og komist að í unglingaathvarfi.

Í málinu liggur fyrir bréf [...]skóla til héraðsdómara 24. janúar 2004 ásamt fylgigögnum. Í bréfinu kemur meðal annars fram að námsleg staða X sé afar slæm, hún fylgi ekki námsefni jafnaldra sinna, fái mikla sérkennslu og stuðning í sérkennsluveri skólans og sæki einungis örfáa tíma með sínum bekk. Námsleg staða Y er sögð þokkaleg, hún eigi þó í erfiðleikum með stærðfræði, fylgi ekki jafnöldrum í þeirri grein og hafi fremur slakan lesskilning. Aðbúnaði og umhirðu beggja telpnanna er lýst svo að þær séu oft illa til hafðar og illa hirtar, og að X sé oft í þvældum og skítugum fötum sem stingi í stúf við klæðnað annarra. Í bréfinu kemur fram að telpurnar þurfi á stuðningi að halda, jafnt námslegum sem félagslegum og að stuðningur við X þurfi að vera verulegur við nám sem og við daglegt líf. Í bréfinu kemur einnig fram að á síðasta ári hafi faðir telpnanna haft samband til að tryggja að X gæti farið í skólabúðir á Reykjum. Skólinn hafi staðið straum af kostnaði við ferðina. Móðir hafi fengið úthlutað styrk frá Félagsþjónustunni fyrir kostnaði en ekki skilað þeim peningum til skólans.

Eins og áður greinir ákvað dómsformaður að gefa X og Y kost á að tjá sig um málið með vísan til 1. mgr. 43. gr. barnalaga. Fyrir dómurum lýstu báðar telpurnar þeirri skoðun að þær vildu búa hjá móður sinni. Þessi skoðun kom nokkuð afdráttarlaust fram hjá Y, en ekki eins afdráttarlaust hjá X.

II.

Eins og áður greinir skilaði dómkvaddur matsmaður matsgerð 17. júlí 2004. Er óhjákvæmilegt að gera grein fyrir athugunum matsmanns á aðstæðum og forsjárhæfni málsaðila.

Samkvæmt matsgerð byggjast niðurstöður matsmanns að því er varðar stefndu á samskiptasögu matsmanns við stefndu. Er ástæða þess sú að stefnda reyndist ekki til samvinnu hvað varðaði formleg viðtöl eða prófatöku, ef frá er skilið MMPI-2 próf sem stefnda svaraði að hluta en fékkst ekki til að ljúka og var því ómarktækt. Þá byggir matsmaður á þeim gögnum sem lögð höfðu verið fram fyrir dómi, en þar á meðal voru áðurlýst gögn frá Barnavernd Reykjavíkur.

Niðurstaða matsmanns um forsjárhæfni stefndu er að ýmsum grunnþáttum í foreldrahæfni hennar sé stórlega ábótavant. Þar beri hæst að stefnda setji eigin þarfir að því er virðist í forgang á kostnað telpnanna. Ítrekað komi fram vanhæfni stefndu til að setja sig í spor telpnanna og taka tillit til þarfa þeirra. Grunnatriði eins og stöðugleiki, gott líkamlegt atlæti (t.d. varðandi máltíðir,  hreinlæti og fatnað), tilfinningalegt öryggi og örvun og hvatning til þroska virðist ekki vera til staðar. Stefnda vísi ábyrgð á líðan, umhirðu og öryggi telpnanna til annarra, aðallega skóla og barnaverndar, en sé þrátt fyrir það ekki til samstarfs við þessa aðila.

Samkvæmt matsgerð byggjast niðurstöður matsmanns að því er varðar stefnanda á viðtölum, meðal annars á heimili stefnanda, og niðurstöðum sálfræðilegra prófa og matslista. Í matsgerð er fjölskylduaðstæðum stefnanda lýst svo að hann hafi verið í sambúð með A í um tvö ár, en kynni þeirra hafi hafist fyrir um fjórum árum. Stefnandi vinni hjá tiltekinni [...]. Þá kemur fram að stefnandi hafi átt við áfengisvandamál að stríða en hafi farið í áfengismeðferð 1984 og áfengi ekki verið vandamál síðan þá. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að í greinargerð stefndu koma fram fullyrðingar um drykkjuskap stefnanda á allra síðustu árum.

Niðurstaða matsmanns um forsjárhæfni stefnanda er að hann sé hæfur sem foreldri. Hann sýni væg merki depurðar, virðist eiga erfitt með félagsleg samskipti og nokkuð skorti á hæfni hans til að tjá tilfinningar og líðan. Stefnandi virðist hafa litla þekkingu á hugsunum og tilfinningum telpnanna en það verði að skoðast í ljósi þess að umgengni hafi ekki verið regluleg. Framangreindir þættir geti hamlað stefnanda í foreldrahlutverkinu en geri hann þó ekki vanhæfan sem foreldri. Hann virðist hafa mikinn vilja til þess að leita sér aðstoðar hvað varði telpurnar og sé meira umhugað um líðan þeirra nú en eigin þarfir og óskir. Samband hans við sambýliskonu hans styrki hann sem uppalanda og sé mikilvægt að einlægur vilji komi fram hjá henni um að annast telpurnar með honum.

Samkvæmt matsgerð eru tilfinningatengsl telpnanna sterkari við stefndu en virðast ótrygg og merkt því að telpurnar hafi miklar áhyggjur af móður sinni og líðan hennar. Tengsl telpnanna við stefnanda hafi hins vegar verið takmörkuð í gegnum tíðina. Könnun matsmanns á vilja og viðhorfum telpnanna leiddi í ljós að X vildi búa hjá föður sínum, en Y hjá móður sinni. Y sagði þó að henni væri sama ef hún þyrfti að búa hjá föður sínum. Eins og áður segir lýsti X gagnstæðri skoðun fyrir dómurum 14. september 2004.

III.

Stefnandi telur sig knúinn til að krefjast forsjár til bráðabirgða í ljósi þess að stefnda hafi farið fram á viðbótarmat og frekari tafir geti orðið á málinu. Stefnandi tekur fram að hann muni fúslega leyfa telpunum að umgangast stefnanda verði honum úrskurðuð bráðabirgðaforsjá og leggja sig fram um að hafa friðsamleg samskipti vegna þess. Telur sóknaraðili að brýna nauðsyn beri til að ákvarða um forsjá til bráðabirgða vegna þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um stöðu telpnanna. Að mati sóknaraðila sé það telpunum fyrir bestu að honum verði falin forsjá þeirra meðan forsjármálið er rekið. Hann hafi upp á mun betri og stöðugri aðstæður að bjóða fyrir telpurnar, enda sé hann í sambúð sem staðið hafi í fjölda ára og þekki dætur hans sambýliskonu hans vel. Þá er vísað til niðurstöðu dómkvadds matsmanns sem áður er lýst.

Stefnda telur að það væri andstætt hagsmunum telpnanna að fallast á kröfu stefnanda. Væri með því tekin mikil áhætta enda hafi telpurnar ávallt búið hjá varnaraðila og stefnandi lengst af sýnt þeim lítinn sem engan áhuga.  Ljóst sé að telpurnar séu tengdar stefndu sterkum böndum, en á skorti í matsgerð dómkvadds matsmanns að tengslin hafi verið könnuð með viðeigandi prófum. Þekkja telpurnar stefnanda lítið sem ekkert og komi það fram í matsgerð að stefnandi telji sig þekkja telpurnar lítið. Þá liggi ekki fyrir forsjárhæfnimat á varnaraðila, enda hafi enn ekki verið lokið við viðbótarmatsgerð. Ekki sé heppilegt að breyta aðstæðum aðila og telpnanna í miðju vinnsluferli matsgerðar, en matsgerðin, eins og hún liggur fyrir nú, gefi alls ekki rétta mynd af aðstæðum.

Af hálfu stefndu er vísað til þess að verið sé að vinna í málefnum telpnanna af hálfu barnaverndaryfirvalda, í góðu samstarfi við stefndu. Ekki sé heppilegt að rjúfa þá meðferð sem þegar sé hafin í góðri samvinnu við barnaverndaryfirvöld með því að flytja telpurnar til stefnanda. Málefni fjölskyldunnar virðist vera á réttri leið og engin ástæða sé til að gera breytingar á högum telpnanna.  Telpunum líði vel hjá stefndu og séu ánægðar með sína stöðu eins og er, skóli sé að hefjast og fráleitt að mati stefndu að leggja á þær flutninga af heimili stefndu.  Stefnda hafi áhyggjur af því að mikið álag sé á telpunum og vanlíðun þeirra mikil vegna málsins.  Séu þær kvíðnar og hræðist að verða teknar af heimili stefndu.

Af hálfu stefndu er vísað til þess að vilji telpnanna sé skýr um að þær vilji búa hjá henni. Í þessu sambandi er dregið í efa að telpurnar hafi lýst raunverulegum vilja við dómkvaddan matsmann og ítrekað að engin tengslapróf hafi verið lögð fyrir telpurnar.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að aðstæður á heimili séu góðar, stöðugleiki sé í húsnæðismálum og hafi telpurnar sérherbergi. Aðstæður séu allar ákjósanlegar og eigi telpurnar nú kött sem þær hafi mikið dálæti á. Stefnda vill taka fram að hún neyti áfengis hóflega og aldrei í viðurvist telpnanna.

IV.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild í máli um forsjá barns til að úrskurða til bráðabirgða, að kröfu aðila, hvernig fara skuli um forsjá þess eftir því sem barninu er fyrir bestu. Dómarar fallast á þau sjónarmið sem fram komu hjá skipuðum málssvara stefndu við munnlegan flutning málsins um að þetta úrræði eigi fyrst og fremst við þegar frumákvörðun um forsjá liggur ekki fyrir og nýlegar breytingar hafa orðið á högum barns, t.d. vegna skilnaðar eða samvistarslita foreldra. Helgast þetta af því að röskun á högum barns í kjölfar breytinga á forsjá er óæskileg og því almennt ekki réttlætanleg þegar óvissa ríkir um lyktir forsjármáls og endanlega skipan forsjár. Samkvæmt þessu verður að ganga út frá þeirri meginreglu að þegar krafist er breytingar á lögákveðinni forsjá móður, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnalaga, eins og um ræðir í máli þessu, komi almennt ekki til greina að gera breytingu á forsjá til bráðabirgða undir rekstri máls. Við þessa meginreglu verður þó að gera þann fyrirvara að það foreldri, sem fer með forsjána, sé ekki berlega óhæft til að sinna þeim skyldum sem felast í forsjá samkvæmt 28. gr. barnalaga. Að mati dómara getur það þannig aldrei verið barni fyrir bestu í skilningi 1. mgr. 35. gr. barnalaga að láta foreldri, sem fyrirsjáanlega muni vanrækja forsjár- og uppeldisskyldur sínar, fara áfram með forsjá, jafnvel þótt breyting á forsjá kosti röskun á högum barns.

Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns er forsjárhæfni stefndu málsins stórlega ábótavant, eins og áður greinir. Ekki verður fallist á það með skipuðum málssvara stefndu að matsgerð sé órökstudd eða ólokið að því er varðar mat á forsjárhæfni stefndu. Ber matsgerðin skýrlega með sér viðleitni matsmanns til þess að taka viðtöl við stefndu og gera skipulegar prófanir án þess að þær tilraunir hafi borið árangur vegna afstöðu stefndu. Telja dómarar að við þessar aðstæður hafi af matsmanni verið rétt að draga ályktanir um forsjárhæfni stefndu af samskiptum sínum við hana svo og af fyrirliggjandi gögnum málsins. Þá getur það ekki haggað umræddri niðurstöðu matsgerðar að fallist hefur verið á kröfu um viðbótarmat sem felur í sér að matsmaður mun ljúka þeim prófunum sem ekki tókst að gera við umrætt mat af þeim ástæðum sem áður greinir.

Enda þótt dómarar telji varhugavert að líta á einstakar tilkynningar og athugasemdir barnaverndaryfirvalda, sem fyrir liggja í málinu, sem sönnun fyrir vanrækslu stefndu og slæmum aðbúnaði telpnanna, verður ekki fram hjá því litið að þau gögn, sem liggja fyrir í málinu frá barnaverndaryfirvöldum, styrkja í heild sinni framangreinda niðurstöðu matsmannsins. Er þá litið til þess langa tíma sem þau taka til, umfangs þeirra og hversu samhljóða þau eru um skort stefndu á skilningi á þörfum telpnanna og samstarfi við barnaverndaryfirvöld. Er það því niðurstaða dómara að ganga verði út frá því í málinu að forsjárhæfni stefndu sé stórlega ábótavant og sé hún ekki í stakk búin til að fullnægja þeim skyldum sem lagðar eru á forsjárforeldri í áðurgreindri 28. gr. barnalaga.

Í málinu liggur fyrir sú afstaða telpnanna að þær vilji búa hjá móður sinni. Að virtri niðurstöðu dómkvadds matsmanns um þetta atriði er þó ljóst að afstaða eldri telpunnar, X, í þessu efni er reikul. Í samtölum sem dómarar áttu við systurnar kom fram að þeim var umhugað um að sýna móður sinni hollustu. Dómurinn dregur þá ályktun að telpurnar séu báðar háðar móður sinni en telur það ekki mælikvarða á heilnæmi tengslanna eða þroskavænleika. Hér er á það að líta að uppeldissaga systranna vitnar um langvarandi vanrækslu af hálfu móðurinnar og er þekkt að öryggisleysið sem af slíku hlýst leiðir til ósjálfstæðis hjá börnum og lýsir sér meðal annars í undirgefni og einhæfum tengslum þeirra við viðkomandi uppalanda. Þá liggur fyrir að þótt telpurnar lýsi þeirri skoðun, í tilefni af máli þessu, að þær vilji heldur búa hjá stefndu en stefnanda hafa þær jákvæða eða að minnsta kosti hlutlausa afstöðu til þess að búa hjá stefnanda. Þá hafa þær jákvæða eða að minnsta kosti hlutlausa afstöðu í garð sambýliskonu hans og bera veru á heimili þeirra vel söguna.

Í málinu liggur fyrir það álit dómkvadds matsmanns að stefnandi málsins sé hæfur til að fara með forsjá telpnanna. Við þær aðstæður sem áður er lýst telja dómarar hagsmunum telpnanna betur borgið hjá stefnanda en stefndu, jafnvel þótt með þeirri niðurstöðu sé högum þeirra raskað og gengið gegn því viðhorfi sem þær hafa lýst fyrir dómurum. Er því óhjákvæmilegt að taka til greina kröfu stefnanda um að hann fari með forsjá telpnanna meðan á rekstri málsins stendur. Er þá gengið út frá því að skólaganga telpnanna verði óbreytt, stuðningur skóla og barnaverndaryfirvalda við telpurnar haldist og umgengni við stefndu verði rúm, eins og síðar greinir.

Eins og áður segir miða dómarar við það að umgengni verði rúm. Samkvæmt þessu skal stefnda hafa umgengni við telpurnar á hverjum miðvikudegi að loknum skóla þar til morguninn eftir og þannig bera ábyrgð á því að telpurnar fari til skóla. Þá skal hún hafa umgengni aðra hverja helgi frá kl. 18 á föstudegi til kl. 18 á sunnudegi, í fyrsta sinn föstudaginn 1. október 2004. Telpurnar skulu dvelja hjá stefndu frá kl. 14 hinn 25. desember til kl. 14 hins 27. sama mánaðar og  frá kl. 14 hinn 1. janúar til kl. 14 hins 2. sama mánaðar. Telpurnar skulu dvelja hjá stefndu frá kl. 14 á skírdag til kl. 14 þarnæsta dag. Telpurnar skulu dvelja hjá stefndu í fimm vikur í sumarleyfi og skal stefnda tilkynna stefnanda fyrir 1. maí ár hvert þau tímabil sem hún kýs. Miðað er við að stefnandi sjái um að flytja telpurnar milli heimila eftir því sem þörf krefur.

Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegs dóms í málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Dögg Pálsdóttir hrl.

Af hálfu stefndu flutti málið skipaður málssvari hennar Valborg Snævarr hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan ásamt meðdómsmönnunum Valgerði Magnúsdóttur sálfræðingi og Þorgeiri Magnússyni sálfræðingi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Stefnandi, M, fari til bráðabirgða með forsjá X, fæddrar [...] 1990, og Y, fæddrar [...] 1993, eða þar til mál sem hann hefur höfðað gegn stefndu, K, um forsjá barnanna er endanlega til lykta leitt.

Stefnda skal hafa umgengni við börnin á hverjum miðvikudegi að loknum skóla þar til morguninn eftir. Þá skal hún hafa umgengni aðra hverja helgi frá kl. 18 á föstudegi til kl. 18 á sunnudegi, í fyrsta sinn föstudaginn 1. október 2004. Börnin skulu dvelja hjá stefndu frá kl. 14 hinn 25. desember til kl. 14 hins 27. sama mánaðar og  frá kl. 14 hinn 1. janúar til kl. 14 hins 2. sama mánaðar. Börnin skulu dvelja hjá stefndu frá kl. 14 á skírdag til kl. 14 þarnæsta dag. Börnin skulu dvelja hjá stefndu fimm vikur í sumarleyfi og skal stefnda tilkynna stefnanda fyrir 1. maí ár hvert þau tímabil sem hún kýs. Miðað er við að stefnandi sjái um að flytja telpurnar milli heimila eftir því sem þörf krefur.