Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2000


Lykilorð

  • Biðlaun
  • Kjarasamningur
  • Varnarsamningur


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. júní 2000.

Nr. 16/2000.

Friðrik Heiðar Georgsson

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

                                                

Biðlaun. Kjarasamningur. Varnarsamningur.

F starfaði óslitið sem bifreiðarstjóri hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli frá 1971 til 1997 er starf hans var lagt niður. F taldi sig eiga rétt til biðlauna og vísaði til þess að samkvæmt yfirlýsingu starfsmannahalds varnarliðsins frá 1977 hefðu launakjör sín átt að miðast við samninga um kjör bifreiðarstjóra SVR, en þeir SVR hefðu notið biðlaunaréttar samkvæmt hliðstæðum reglum og greindi í 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Talið var að fastráðning bifreiðarstjóra hjá varnarliðinu leiddi ekki sjálfkrafa til þess að biðlaunaréttur skapaðist þeim til handa, en slík réttindi gætu ekki stofnast nema samkvæmt lögum eða samningum og skýrum ákvörðunum atvinnurekenda. Hefði þurft að taka það fram í áðurnefndri yfirlýsingu, sem fulltrúar bifreiðarstjóra samþykktu, ef biðlaunaréttur hefði átt að vera meðal starfskjara þeirra. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna íslenska ríkið af kröfu F um biðlaun, en F hafði beint kröfum sínum að ríkinu á grundvelli laga nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2000. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.797.726 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að stefnufjárhæð verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum látinn falla niður.

Ekki er ágreiningur um málavexti og er frá þeim sagt í héraðsdómi. Þar er jafnframt gerð grein fyrir stöðu varnarliðsins sem vinnuveitanda og réttarreglum um verkefni og valdsvið kaupskrárnefndar varnarsvæða, sbr. nú reglur nr. 78/1996, sem settar eru samkvæmt 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951, sbr. lög nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess. Þá er í héraðsdóminum fjallað um það, hvernig kjaraviðmiðun kaupskrárnefndar fyrir bifreiðarstjóra, sem annast hafa farþegaflutninga hjá framkvæmdadeild flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, hefur breyst á starfstíma áfrýjanda, sem var félagi í Bifreiðastjórafélaginu Keili, og ýmist farið eftir samningum Bifreiðastjórafélagsins Frama, Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis og frá 1. október 1976 samningum um kjör bifreiðarstjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur.

Þegar ákveðið var að miða kjör bifreiðarstjóra á Keflavíkurflugvelli við kjarasamning Reykjavíkurborgar og starfsmannafélags borgarinnar um bifreiðarstjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur gaf starfsmannahald varnarliðsins út yfirlýsingu 28. febrúar 1977, sem jafnframt var undirrituð til samþykktar fyrir hönd bifreiðarstjóra varnarliðsins og Bifreiðastjórafélagsins Keilis. Þar er fjallað um tilhögun starfa bifreiðarstjóra varnarliðsins og ýmsar greiðslur til þeirra, svo sem 19% kaupauka fyrir mismun á störfum hjá varnarliðinu og Reykjavíkurborg, greiðslur fyrir fatahreinsun og fæði auk greiðslna í orlofssjóð, sjúkra- og styrktarsjóð og lífeyrissjóð Bifreiðastjórafélagsins Keilis. Í upphafi yfirlýsingarinnar segir, að hún mæli fyrir um tilhögun, er sé til viðbótar og skýringar á kjarasamningi Reykjavíkurborgar og starfsmannafélags borgarinnar, er ráði hinum almennu kjörum bifreiðarstjóranna. Þá segir í niðurlagi hennar, að þetta fyrirkomulag skuli endurskoðað við gildistöku nýrra samninga hjá Reykjavíkurborg eða ákveði kaupskrárnefnd að taka aðra kjarasamninga til viðmiðunar um kaup og kjör bifreiðarstjóra varnarliðsins. Loks kemur fram, að með áritun sinni á yfirlýsinguna felli bifreiðarstjórar niður allar fyrri kröfur og ágreiningsmál við varnarliðið, enda verði fyrirkomulagi hennar ekki breytt af hendi varnarliðsins eða kaupskrárnefndar fyrir 1. júlí 1978.

Úrslit þessa máls ráðast af túlkun framangreindrar yfirlýsingar. Hún lýtur að tilhögun starfa umræddra bifreiðarstjóra hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og sérstökum kjörum þeirra en varðar ekki ráðningarsamband bifreiðarstjóranna við varnarliðið. Það helst óbreytt, þótt kaupskrárnefnd ákveði aðra viðmiðun launa en samning um kjör bifreiðarstjóra Strætisvagna Reykjavíkur. Í yfirlýsingunni er ekkert vikið að því, að bifreiðarstjórar varnarliðsins skuli njóta þess réttar til biðlauna við niðurlagningu stöðu, sem fastráðnir starfsmenn Reykjavíkurborgar gátu notið samkvæmt reglum um réttindi og skyldur starfsmanna borgarinnar og voru hliðstæðar ákvæðum 14. gr. þágildandi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Fastráðning bifreiðarstjóra hjá varnarliðinu leiddi ekki sjálfkrafa til þess, að biðlaunaréttur skapaðist þeim til handa. Slík réttindi eru sérstök og hafa ekki tíðkast á almennum vinnumarkaði. Gátu þau ekki stofnast nema samkvæmt lögum eða samningum og skýrum ákvörðunum atvinnurekenda. Hefði þurft að taka það fram í áðurnefndri yfirlýsingu, sem fulltrúar bifreiðarstjóra samþykktu, ef biðlaunaréttur átti að vera meðal starfskjara þeirra, en þar var áskilið, að efnisatriði hennar kynnu að taka breytingum með nýjum kjarasamningum milli Reykjavíkurborgar og starfsmannafélags borgarinnar eða ákvörðun kaupskrárnefndar um aðra viðmiðunarsamninga um kaup og kjör bifreiðarstjóranna. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Friðrik Heiðar Georgsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 1999.

 

Mál þetta sem dómtekið var þann 21. október 1999 er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri þann 9. mars 1999.

Stefnandi er Friðrik Heiðar Georgsson, Heiðarvegi 18, Keflavík kt. 170834-3809.

Stefndu eru utanríkisráðuneytið, kt. 670269-4779 og ríkissjóður, kt. 550169-2829, f.h. íslenska ríkisins.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu biðlauna samtals að fjárhæð 1.797.726 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III.kafla vaxtalaga nr. 25/1987 sem reiknist á eftirfarandi hátt:

af kr.64.337 frá1/5'97til15/5 '97

""128.674 "15/5 '97"29/5 '97

" "193.011 "29/5 '97 "12/6 '97

""257.348 "12/6 '97 "26/6 '97

" "321.685 "26/6 '97 "10/7 '97

" "386.022 "10/7 '97"24/7 '97

" "450.359 "24/7 '97 " 7/8 '97

" "514.696 "7/8 '97 "21/8 '97

" "579.033 "21/8 '97 "4/9 '97

" "643.370 "4/9 '97 "18/9 '97

" "707.707 "18/9 '97 "2/10 '97

" "772.044 "2/10 '97 "16/10 '97

" "836.381 "16/10 '97 "30/10 '97

" "900.718 "30/10 '97 "13/11 '97

" "965.055 "13/11 '97 "27/11 '97

" "1.029.392 "27/11 '97 "11/12 '97

" "1.093.729 "11/12 '97 "25/12 '97

" "1.158.066 "25/12 '97 " 8/1 '98

" "1.224.979 "8/1 '98 "22/1 '98

" "1.291.888 "22/1 '98 "5/2 '98

" " 1.358.799 "5/2 '98"19/2 '98

 " " 1.425.710 " 19/2 '98"5/3 '98

" " 1.492.621 " 5/3 '98" 19/3 '98

""1.559.532"19/3 '98"2/4 '98

" " 1.626.443"2/4 '98"16/4 '98

" " 1.693.354 " 16/4 '98 " 30/4 '98

og af stefnufjárhæð kr. 1.797.726 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Auk þess er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

 

Málavextir

Stefnandi máls þessa var bifreiðarstjóri hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Hann  kom fyrst til starfa 29. maí 1961 og starfaði þá í tæp tvö ár. Hann kom aftur til starfa 8. júní 1970 og starfaði til hausts sama ár og enn á ný 29. maí 1971 og vann þá samfellt hjá Varnarliðinu til 30. apríl 1997. Stefnandi var félagsmaður í Bifreiðastjóra­félaginu Keili.

Um langt árabil, eða allt frá 1. október 1976, voru almenn launakjör bifreiðastjóra á Keflavíkurflugvelli miðuð við kjarasamninga bílstjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur samkvæmt kjarasamningum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, en til viðbótar giltu sérstök kjör frá 1. október 1976 samkvæmt yfirlýsingu starfsmannahalds Varnarliðsins. Undir þessa yfirlýsingu rituðu og fulltrúar bifreiðastjóra Varnarliðsins og Bifreiðastjórafélagsins Keilis. Í 1. lið hennar segir: ,,Eftirfarandi tilhögun er gerð vegna sérstöðu í vinnutilhögun vaktavinnu bifreiðastjóra við akstur almenningsvagna flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Tilhögun þessi til viðbótar og skýringar á Reykjavíkurborgar (sic), sem ræður hinum almennu kjörum bifreiðastjóranna.”

Fyrir 1. október 1976 tóku launakjör stefnanda mið af samningum Bifreiðastjóra­félagsins Frama, þ.e. á árunum 1961-1963, og frá júní 1970 tóku kjör hans mið af samningi Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis.

Hinn 24. apríl 1996 var stefnanda sagt upp með 5 mánaða fyrirvara þar sem leggja átti starf hans niður. Var gert ráð fyrir að hann myndi hætta störfum 30. september það ár. Hinn 12. júní 1996 var ráðning hans framlengd til 28. febrúar 1997 og 26. febrúar 1997 var hún enn á ný framlengd til 30. apríl 1997 er stefnandi lét endanlega af störfum hjá Varnarliðinu.

Bifreiðastjórafélagið Keilir fór þess á leit við kaupskrárnefnd að stefnanda yrðu greidd biðlaun vegna niðurlagningar stöðu hans. Með úrskurði nefndarinnar 24. september 1998 var kröfu félagsins hafnað.

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort biðlaunaréttur stefnanda geti talist til almennra kjara bifreiðastjóra sem stefnandi eigi að njóta samkvæmt ofangreindri

yfirlýsingu starfsmannahalds Varnarliðsins.

Fyrir dóminn kom stefnandi málsins Friðrik Heiðar Georgsson, Heiðarvegi 18, Keflavík og vitnið Þórður Einarsson, Álfaskeiði 32, Hafnarfirði.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður að launakjör sín hafi miðast við samning Reykjavíkurborgar og bifreiðastjóra hjá SVR frá 1. október 1976. Bifreiðastjórar SVR sem fastráðnir hafi verið fyrir 1978 hafi notið biðlaunaréttar samkvæmt 14. gr. reglna um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Í 1. mgr. 14. gr. reglnanna segi eftirfarandi: ,,Nú er staða lögð niður, og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu borgarinnar skemur en 10 ár en í 12 mánuði eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum borgarinnar.”

Með uppsagnarbréfi 24. apríl 1996 hafi stefnanda verið tilkynnt að staða hans yrði lögð niður. Samkvæmt þeim reglum sem gilt hafi um bifreiðastjóra hjá SVR, og eru hluti af þeirra ráðningarkjörum, hafi stefnda, sem verið hafi skuldbundinn af því að láta sömu kjör gilda fyrir stefnanda og bifreiðastjóra SVR, borið að greiða stefnanda föst laun í 12 mánuði, þar sem stefnandi hafði starfað hjá stefnda lengur en 10 ár.

Réttur til biðlauna takmarkist samkvæmt íslenskum rétti ekki einungis við starfsmenn ríkis og sveitarfélaga, heldur geti hann verið til staðar samkvæmt sérstökum ráðningarsamningi eða ráðningarkjörum sem aðilar semji um sín í milli eða sérstakri ákvörðun sem um það er tekin, sbr. ummæli í Hrd. frá október 1998 í máli Reykjavíkur­borgar og íslenska ríkisins gegn Gunnhildi Sigurðardóttur vegna dánarbús Kristins Jónssonar og gagnsök.

Stefnandi kveður rétt til biðlauna vera hluta af ráðningarkjörum sínum. Með því að kaupskrárnefnd hafi tekið ákvörðun um að þau kjör skyldu ráða kjörum bifreiðastjóra hafi Varnarliðið orðið bundið af því að greiða stefnanda biðlaun þegar starf hans hafi verið lagt niður.

Jafnvel þótt kaupskrárnefnd segi nú að hún hafi á árinu 1976 ekki verið að taka afstöðu til biðlaunaréttar hafi hann verið hluti þeirra kjara sem giltu. Nefndin geti ekki valið úr þau kjaraatriði sem eigi að gilda og sleppt öðrum þegar hún telji svo henta. Í þeim tilvikum að aðrar reglur hafi verið settar um starfsmenn Varnarliðsins en viðmiðunar­hópa hafi verið um það að ræða að ómögulegt hafi verið að taka beint mið af viðmiðunarhópum. Hafi starfsmenn Varnarliðsins þá fengið aðra hluti í staðinn.   Kjaraviðmiðunin sé ein heild sem verði ekki aðskilin frá öðrum kjörum af öðrum aðilanum.

 Stefnandi byggir kröfu um laun á þeim föstu launum sem stefnandi hafi haft þegar starf hans hafi verið lagt niður.

 Kröfu um dráttarvexti reisir stefnandi á III. kafla vaxalaga nr. 25/1987 einkum 15. gr. Stefnandi krefur um dráttarvexti frá gjalddaga biðlauna en þau greiðast út með sama hætti og laun, þ.e. greiðslur fara fram á tveggja vikna fresti.

 Stefnandi byggir málskostnaðarkröfu á 129. gr. eml. nr. 91/1991.

Kröfu um virðisaukaskatt reisir stefnandi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

 

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu kveða að samkvæmt niðurlagi 4. tl. 6. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna, skuli ráðningarkjör og vinnuskilyrði, einkum um vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu fara að íslenskum lögum og venju. Biðlaunaréttur sem kjaraþáttur sé ekki venjubundinn þáttur í launakjörum á almennum vinnumarkaði. Biðlaunaréttur sé heldur ekki samþýðanlegur starfsemi Varnarliðsins og stöðu þess sem hluta bandarískra stjórnvalda. Varnarliðið og starfsemi þess hér á landi sé ekki varanleg stofnun heldur sé vera þess bundin því ástandi sem lýst er í inngangi varnarsamningsins, sbr. og uppsagnarákvæði 7. gr. hans.

Hjá Varnarliðinu starfi nú um 850 Íslendingar. Stefndu kveða kjör þessara starfsmanna vera miðuð við kjör hinna ýmsu starfshópa á íslenskum vinnumarkaði og hafi kaupskrárnefnd ítrekað byggt úrskurði sína á því að almennt sé ekki hægt að álykta svo að kjaraviðmiðun feli í sér að kjör viðkomandi starfsmanna skuli í einu og öllu fara eftir kjörum viðmiðunarhópsins. Sérstök og óvenjuleg ráðningarkjör geti samkvæmt því ekki almennt fylgt kjaraviðmiðun. Hafi bæði viðmiðunarhópar og viðmiðunarkjarasamningar jafnframt verið breytingum undirorpnir í gegnum tíðina. Hvað varði bifreiðastjóra almenningsvagna hjá Varnarliðinu hafi slíkar breytingar orðið. Þannig hafi verið miðað við samninga Bifreiðastjórafélagsins Frama er stefnandi hóf fyrst störf þar hinn 29. maí 1961. Er hann hafi ráðist til starfa á ný hinn 8. júní 1970 hafi kjör bifreiðastjóra miðast við samninga Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis, en þau félög hafi starfað á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Sú viðmiðun hafi verið endurskoðuð að ósk Bifreiðastjórafélagsins Keilis í febrúar 1977 og samkvæmt ákvörðun kaupskrárnefndar hafi þeirri viðmiðun verið breytt með gildistöku frá l. október 1976, þannig að frá þeim tíma hafi verið tekið mið af bílstjórum hjá Strætisvögnum Reykjavíkur og almenn launakjör miðuð við kjarasamninga þeirra sem var kjarasamningur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar en þeim til viðbótar hafi sérstök kjör gilt. Eftir þann tíma hafi sú viðmiðun verið tekin til endurskoðunar, en með bréfi hinn 5. maí 1988 hafði bifreiðastjórafélagið Keilir farið þess á leit við kaupskrárnefnd að hún endurskoðaði þær forsendur sem byggt hafi verið á við ákvörðun launa félagsmanna og að miðað yrði við launakjör bifreiðastjóra hjá Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur í stað launakjara bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Í kjölfar þess hafi verið gerður ítarlegur samanburður við kjör strætisvagna­bílstjóra í Reykjavík og hjá Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur. Niðurstaða kaupskrárnefndar þá hafi verið sú að ekki væru efni til að gera breytingar á viðmiðunarstarfshópi bifreiðastjóranna frá því sem verið hafði.

Ekki fái staðist að af kjaraviðmiðun við bifreiðastjóra hjá SVR hafi leitt að starfsmenn skyldu í einu og öllu njóta sömu almennra og sérstakra kjara er starfsmenn í viðmiðunarhópunum hafi notið, né að biðlaunaréttur hafi getað falist í þeim kjörum er fylgdu því að tekin var upp viðmiðun við strætisvagnastjóra hjá Reykjavíkurborg og kjarasamning þeirra hvað varðaði hin almennu launakjör. Í hinni sérstöku yfirlýsingu  sé þannig að finna ýmis almenn kjaraatriði sem eru frábrugðin eða eigi sér ekki samsvörun í kjarasamningi Reykjavíkurborgar.  Stefndu vekja sérstaka athygli á lið nr. 13, þar sem komi m.a. fram, að fyrirkomulag það sem yfirlýsingin kveði á um skuli endurskoðað ef aðrir samningar yrðu ákveðnir af kaupskrárnefnd sem viðmiðun fyrir

kaup og kjör bifreiðastjóra, en það undirstriki að viðmiðunin hafi verið almenn launa­viðmiðun sem hafi verið breytingum undirorpin. Hvorki í yfirlýsingunni né ákvörðun Kaupskrárnefndar sé vísað til sérstakra ráðningarkjara samkvæmt reglum um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Engum rökum eða gögnum sé stutt af hálfu stefnanda að af þeirri ákvörðun kaupskrárnefndar að taka mið af strætisvagnastjórum hjá Reykjavíkurborg varðandi almenn launakjör bifreiðastjóra Varnarliðsins, hafi sjálfkrafa leitt að lögum, að hinar sérstöku reglur Reykjavíkurborgar um réttindi og skyldur starfsmanna hennar varðandi ráðningarkjör öðluðust gildi gagnvart Varnarliðinu og bifreiðastjórum þess. Verði ekki annað séð en að í ákvörðun kaupskrárnefndar um viðmiðun kjara við kjör strætisvagnastjóra hjá Reykjavíkurborg hafi eingöngu falist tilvísun í hin almennu launakjör samkvæmt kjarasamningi Reykjavíkur­borgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar en í kjarasamningnum sjálfum hafi engin ákvæði verið um biðlaunarétt.

Um biðlaunarétt sem almennan ráðningar- eða kjaraþátt hjá bifreiðastjórum SVR hafi heldur ekki verið að ræða er viðmiðunin var tekin upp, né síðar. Hvorki kjarasamningar Reykjavíkurborgar né ráðning hjá Reykjavíkurborg ein og sér gat veitt strætisvagna­stjórum hjá Strætisvögnum Reykjavíkur réttarstöðu fastráðinna starfsmanna og biðlaunarétt er við það yrði tengt samkvæmt reglum um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Hafi fastráðningum hjá Reykjavíkurborg verið hætt á árinu 1978.

Samkvæmt 2. gr. reglna um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar, hafi fastráðning starfsmanna verið í afar formföstum skorðum. Þannig hafi það verið föst og ófrávíkjanleg regla að fastráðning hafi verið ákveðin af borgarráði eftir umsókn viðkomandi starfsmanns og ætíð gerð skriflega. Án slíkrar formbundinnar fastráðningar hafi starfsmenn ekki getað notið réttarstöðu fastráðinna starfsmanna Reykjavíkurborgar og þar með biðlaunaréttar samkvæmt reglunum, sbr. Hrd. frá l. október 1998 í málinu nr. 36/1998. Fyrir liggi að er stefnandi réðst á ný til Varnarliðsins á árinu 1971 hafi ráðningarkjör hans farið eftir kjarasamningi Bifreiða­stjórafélagsins Sleipnis. Er breyting hafi verið gerð á viðmiðunarhópi í ársbyrjun 1977 hafi engin breyting verið gerð á ráðningarsamningi við stefnanda í þá veru, að hann skyldi njóta biðlaunaréttar vegna starfa síns í samræmi við þann áskilnað reglnanna, að gagngert væri skriflega ákveðið eða um það samið. Engri skriflegri ákvörðun eða samningi sé því heldur fyrir að fara er stefnandi gæti stutt kröfur sínar við.

Kröfur stefnanda eigi samkvæmt framanröktu ekki lagastoð. Þeim verði, hvernig sem á yrði litið, ekki heldur fundin stoð í því, að frá október 1976 hafi verið tekið mið af bifreiðastjórum SVR og kjarasamningi Reykjavíkurborgar.

Til stuðnings varakröfu sinni benda stefndu á að stefnandi eigi ekki rétt á því að orlof reiknist á biðlaun, hvorki dagvinnulaun né fasta yfirvinnu. Þá geti stefnandi enga kröfu átt vegna yfirvinnu, nema um hafi verið að ræða fasta og ómælda yfirvinnu. Þá falli kaupauki og bónus utan fastra launa í skilningi 14. gr. reglna um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar.

 

Niðurstaða

Svo sérstaklega hagar til í máli þessu að vinnuveitandi stefnanda, Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli, semur ekki sjálft við íslenska starfsmenn sína um kaup og kjör, heldur er það hlutverk falið kaupskrárnefnd samkvæmt reglum nr. 78/1996, sem settar eru samkvæmt 4. tölulið 6. gr. viðbætis við varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1991, lögum nr. 110/1991. Samkvæmt 3. gr. reglnanna er hlutverk kaupskrárnefndar að sjá til þess að Íslendingar, sem starfa hjá Varnarliðinu eða erlendum verktökum þess á varnarsvæðum, fái kaup og kjör og njóti þess öryggis og aðbúnaðar á vinnustað sem íslensk lög, kjarasamningar og venjur segja til um á hverjum tíma. Þegar um er að ræða starf, sem gildandi kjarasamningar taka ekki til, getur nefndin við ákvörðun launa og annarra starfskjara valið viðmiðunarstarf eða viðmiðunarstörf sem að dómi hennar eru hliðstæð, enda séu ákvæði um þau störf að finna í viðurkenndum kjarasamningum. Slík viðmiðun getur gilt að hluta eða öllu leyti eftir ákvörðun nefndarinnar, sbr. 4. gr. reglnanna.

Ágreiningslaust er að frá 1. október 1976 voru almenn launakjör bifreiðastjóra á Keflavíkurflugvelli miðuð við kjarasamninga bílstjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur samkvæmt kjarasamningum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, en til viðbótar giltu sérstök kjör frá 1. október 1976 samkvæmt yfirlýsingu starfsmannahalds Varnarliðsins.  Undir þessa yfirlýsingu rituðu og fulltrúar bifreiðastjóra Varnarliðsins og Bifreiðastjórafélagsins Keilis, en stefnandi var félagsmaður í Keili.

Biðlaunaréttur nær til fárra hópa vinnumarkaðarins og telst ekki til venjubundins þáttar í launakjörum á almennum vinnumarkaði. Lengstum gátu aðeins þeir starfsmenn sem heyrðu undir lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna notið þessa réttar en viðurkennt er að aðrir starfsmenn geta samið um rétt til biðlauna í ráðningarsamningi með sérstöku ákvæði þar um. Telja verður að í þeim tilvikum þar sem biðlaunaréttur er hluti af ráðningarkjörum sé hann oft meðal mikilvægra forsendna þess að starfsmaður æskir starfsins og ræðst til þess.

Í málinu er fram komið að kjaraviðmiðun kaupskrárnefndar hefur verið undirorpin breytingum í áranna rás. Þannig var miðað við samninga Bifreiðafélagsins Frama er stefnandi hóf fyrst störf hjá Varnarliðinu árið 1961. Er hann réðst til starfa  á ný í júní 1970 voru kjör hans miðuð við samninga Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis. Bæði þessi félög störfuðu á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Frá 1. október 1976 hafa kjör stefnanda tekið mið af kjörum bílstjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Bifreiðastjórafélagið Keilir fór fram á endurskoðun þeirrar viðmiðunar með bréfi 5. maí 1988 til kaupskrárnefndar og var þess farið á leit að miðað yrði við launakjör hjá Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur. Niðurstaða kaupskrárnefndar í því máli var sú að ekki væru efni til að gera breytingar á viðmiðunarstarfshópi bifreiðastjóranna sem var.

Í 13. gr. ofangreindrar yfirlýsingar starfsmannahalds Varnarliðsins kemur enn fremur fram að fyrirkomulag það sem ákveðið er með yfirlýsingunni skyldi endurskoðað ef aðrir samningar yrðu ákveðnir af kaupskrárnefnd sem viðmiðun fyrir kaup og kjör bifreiðastjóra.

Samkvæmt ofangreindu hefur stefnandi frá upphafi starfsferils síns hjá Varnar­liðinu mátt gera ráð fyrir því að kaupskrárnefnd breytti viðmiðun sinni fyrir launakjör. Forsenda ráðningar hans hjá Varnarliðinu hefur því ekki getað verið sú að í ráðningarkjörum hans fælist réttur til biðlauna. Í tilkynningu um ráðningu stefnanda, sem liggur frammi í málinu, er ekkert kveðið á um biðlaun og þar kemur einvörðungu fram að kaup og kjör séu samkvæmt samningum.

 Stefnandi hefur á því byggt að um hann gildi 14. gr. reglna um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem mælir fyrir um biðlaun til handa fastráðnum starfsmönnum borgarinnar. Forsenda biðlauna samkvæmt reglunum var að starfsmaður væri fastráðinn og fór fastráðning fram með formbundnum hætti. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnandi hafi hlotið fastráðningu hjá Varnarliðinu með þeim hætti að jafna mætti til þeirrar formbundnu fastráðningar sem reglur um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar gerðu ráð fyrir.

 Í ofangreindri yfirlýsingu starfsmannahalds Varnarliðsins er enda ekkert að því vikið að þær sérstöku reglur sem Reykjavíkurborg hafði sett um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar, þar á meðal um rétt til biðlauna, og forsendur þess réttar, hafi átt að taka til starfsmanna Varnarliðsins. Verður þó að telja að fulltrúum bifreiðastjóra Varnarliðsins og Bifreiðastjórafélagsins Keilis, sem samþykktu yfirlýsinguna með undirritun sinni hefði borið nauðsyn til að árétta það sérstaklega, einkum með hliðsjón af því að í margnefndri yfirlýsingu er sérstaklega tekið fram að til þess geti komið að fyrirkomulag það sem kveðið er á um í yfirlýsingunni verði endurskoðað með nýjum samningum.  Þar sem það var ekki gert og stefnanda hefur mátt vera ljóst að kjaraviðmiðun kaupskrárnefndar gat tekið þeim breytingum að miða bæri við samninga félaga sem ekki nutu biðlaunaréttar, verður með vísan til alls ofangreinds ekki talið að biðlaunaréttur sé hluti þeirra almennu kjara bifreiðastjóra sem vísað er til í margnefndri yfirlýsingu.

Verður því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda en eins og atvikum er háttað í málinu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð

Stefndu, utanríkisráðuneytið og ríkissjóður, f.h. íslenska ríkisins eru sýkn af kröfum stefnanda, Friðriks Heiðars Georgssonar.

Málskostnaður fellur niður.