Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Skuldabréf
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 5. desember 2013. |
|
Nr. 446/2013. |
Jóhann Sigurðsson (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) og gagnsök |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Skuldabréf. Gengistrygging.
J höfðaði mál gegn Í hf. og krafðist greiðslu fjárhæðar sem hann taldi sig hafa ofgreitt af láni sem hann tók hjá forvera Í hf. Greindi aðilana á um hvort lánið hefði verið í íslenskum krónum og bundið gengi erlendra gjaldmiðla svo í bága hefði farið við ákvæði 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eða hvort um hefði verið að ræða lán í erlendum myntum. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að um hefði verið að ræða skuld reista á skuldabréfi, sem samkvæmt yfirskrift þess hefði verið í erlendum gjaldmiðlum. Hefði fjárhæð skuldarinnar verið skýrlega tilgreind í erlendum myntum, sem sagt hefði verið að væru jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Form og efni skuldaskjalsins hefði ótvírætt borið með sér að um væri að ræða lán í hinum erlendu myntum. Að þessu gættu gat ákvæði lánssamningsins um endurgreiðslu skuldarinnar í íslenskum krónum engu breytt. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Í hf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2013. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 13.856.791 krónu með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. desember 2011 til 17. desember 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. ágúst 2013. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem aðaláfrýjanda verði gert að greiða í héraði og fyrir Hæstarétti.
Í málinu greinir aðila meðal annars á um hvort lán, sem aðaláfrýjandi tók 30. nóvember 2004 hjá Íslandsbanka hf., sem gagnáfrýjandi leiðir rétt sinn frá, hafi verið í íslenskum krónum og bundið gengi erlendra mynta með þeim hætti að í bága færi við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001, eða hvort um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum. Lánið var veitt með því að aðaláfrýjandi gaf út skuldabréf, sem bar yfirskriftina: ,,Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum Húsnæðislán“. Þá sagði í skuldabréfinu: ,,Undirritaður útgefandi viðurkennir með undirritun sinni á skuldabréf þetta að skulda Íslandsbanka hf. ... CHF 197.719 ... JPY 3.559.563 ... EUR 104.281 ... Jafnvirði í íslenskum krónum þann 29.11.2004 22.500.000“. Í 5. lið skuldabréfsins sagði svo: ,,Greiðslur af láni þessu skal lántaki inna af hendi í íslenskum krónum. Íslandsbanki skal reikna út fjárhæð hverrar afborgunar og/eða vaxta miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstendur af allt að 10 dögum fyrir gjalddagann.“ Efni skuldabréfsins er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Eins og að framan greinir var um að ræða skuld reista á skuldabréfi, sem samkvæmt yfirskrift þess var í erlendum gjaldmiðlum og þar sem fjárhæð skuldarinnar var skýrlega tilgreind í þremur erlendum myntum, sem sagt var að væru jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Form og efni skuldaskjalsins bar því ótvírætt með sér að um væri að ræða lán í hinum tilgreindu erlendu myntum. Að þessu gættu gat framangreint ákvæði um endurgreiðslu skuldarinnar engu breytt. Þegar af þessum ástæðum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður látinn falla niður. Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, eins og hún er tilgreind í dómsorði, greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda, Jóhanns Sigurðssonar, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 550.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 30. maí sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Jóhanni Sigurðssyni, Gvendargeisla 94, Reykjavík, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 17. desember 2012.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 13.856.791 krónu, með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. desember 2011 til stefnubirtingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi Innanríkisráðuneytisins 25. mars 2013.
II
Málavextir eru þeir, að hinn 30. nóvember 2004 undirritaði stefnandi veðskuldabréf til handa Íslandsbanka hf. Samkvæmt umræddu veðskuldabréfi viðurkennir stefnandi að skulda Íslandsbanka hf., 197.719 CHF (svissneska franka) 3.559.53 JPY (japönsk jen) og 104.281 EUR (evrur), eða að jafnvirði 22.500.000 krónur. Skuldabréfið ber yfirskriftina „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“ og voru vextir af skuldinni í samræmi við það að skuldbindingin væri í erlendum gjaldmiðlum. Afborganir af láninu áttu samkvæmt skuldabréfinu að greiðast í íslenskum krónum, og skyldi fjárhæð afborgana reiknast út „miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstefndur af“, eins og segir í bréfinu. Lánsumsókn stefnanda vegna umrædds láns er dagsett 30. nóvember 2004, og eru þar tilgreindar fjárhæðir lánsfjárhæða í hinum erlendu gjaldmiðlum og jafnvirði þeirra í íslenskum krónum. Er þar óskað eftir láni til uppgreiðslu á áhvílandi lánum.
Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 7. október 2008, með stoð í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af þessu var stofnaður Nýi Glitnir banki hf., sem nú ber heiti stefnda, og óumdeilt að kröfu samkvæmt skuldabréfinu var ráðstafað til hans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 15. október 2008.
Í skilmálabreytingum, dagsettum 6. nóvember 2008, og 18. september 2009, eru eftirstöðvar lánsfjárhæðar eingöngu tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum.
Með undirritun yfirlýsingar, dagsettrar 28. desember 2011, vegna erlends íbúðarláns, óskaði stefnandi eftir því að umþrætt lán myndi sæta höfuðstólslækkun og myntbreytingu, og afþakkaði jafnhliða endurútreikning, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001. Í umsókn um höfuðstólslækkun og myntbreytingu sagði: „Breytingin felst í því að skilmálum lánsins er breytt þannig að eftirstöðvar þess umreiknast í íslenskar krónur frá og með 06.12.2011. Miðað er við lækkun á höfuðstól þannig að hann sé umreiknaður í íslenskar krónur m.v. sölugengi undirliggjandi mynta þann 29.09.2008 samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands. Munurinn á þeirri stöðu og uppreikningi þann 06.12.2011 er höfuðstólsleiðrétting lánsins. Vanskil og áfallnir vextir frá síðasta gjalddaga sæta ekki leiðréttingu og leggjast ofan á höfuðstól óverðtryggða lánsins. Höfuðstóll hins nýja óverðtryggða láns verður kr. 30.623.149. Leiðréttingin nemur því kr. 9.617.669.“ Jafnhliða var gefið út nýtt veðskuldabréf í íslenskum krónum, og skyldu fyrri skuldbindingar samhliða felldar niður.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort umdeilt veðskuldabréf sé um lán í erlendum gjaldmiðlum eða skuldbinding í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Stefndi gerir ekki athugasemdir við tölulegan útreikning stefnanda ef fallist yrði á það að um lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla sé að ræða, og ef fallist yrði á endurheimtukröfu stefnanda, eins og hún er sett fram, þ.e. að við útreikning endurheimtukröfu beri að leggja samningsvexti til grundvallar vaxtaviðmiðun.
III
Stefnandi byggir á því að í 5. gr. skilmála umrædds veðskuldabréfs komi fram að krafa stefnda lúti eingöngu að því að stefnandi greiði íslenskar krónur á gjalddögum. Stefndi muni hins vegar breyta greiðslunni til samræmis við breytingar á framangreindum gjaldmiðlum miðaða við „skráð sölugengi Seðlabanka Íslands“. Vísar stefnandi til þess að á framsíðu skuldabréfsins segi: „Útgefandi lofar að endurgreiða skuldina eins og tilgreint er samkvæmt skilmálum bréfsins og á þeim gjalddögum ár hvert og þeim mánaðafjölda sem að ofan greinir.“ Stefnandi kveðst hafa greitt skilvíslega af láninu, þ.m.t. greiðslu í samræmi við hækkun framangreindra gjaldmiðla.
Gengistrygging lánsfjárhæðar í íslenskum krónum sé ólögmæt samkvæmt VI. kafla laga nr. 38/2001. Þegar samningurinn hafi verið gerður hafi 18. gr. hljóðað svo: „Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.“ Samningsákvæði um gengistryggingu hafi því verið ólögmætt. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 600/2011 og fleiri dómum falli umsamdir vextir á brott og skuli þess í stað greiða vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt sama dómi verði fullnaðarkvittanir ekki teknar upp á ný. Ákvæði laga nr. 151/2010 um annað fari gegn stjórnarskránni nr. 33/1944. Skuld þessi hafi verið greidd upp í desember 2011 með 30.623.149 krónum, með nýju láni hjá stefnda.
Stefnandi hefur sundurliðað kröfugerð sína þannig:
Staða láns þann 28. desember 2011 ef um væri að ræða
íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu: kr. 16.766.358
Greiðsla af láninu þann 28. desember 2011 kr. -30.623.149
Mismunur (stefnufjárhæð) kr. 13.856.751
Stefnandi kveðst ekki fallast á það að umræddur lánssamningur sé löglegur samningur í erlendum myntum. Samkvæmt 5. gr. veðskuldabréfsins segi: „Greiðslur af láni þessu skal lántaki inna af hendi í íslenskum krónum. Íslandsbanki skal reikna út fjárhæð hverrar afborgunar og/eða vaxta miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstandi af allt að 10 dögum fyrir gjalddagann.“ Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 66/2012 komi skýrt fram hver mælistikan sé við mat á því hvort um íslenskt lán sé að ræða eða erlent. Komi þar fram að gæta verði að því hvernig háttað hafi verið ákvæðum samningsins um efndir aðilanna og hvernig að þeim hafi verið staðið í raun, sbr. og dóma réttarins í málunum nr. 3/2012 og 155/2011. Í samræmi við þessi sjónarmið hafi Hæstiréttur litið fram hjá orðalagi samningsins að öðru leyti og talið að um erlent lán væri að ræða því skuldbinding skuldara væri í erlendri mynt samkvæmt ákvæðum samningsins sjálfs. Hér hátti öðru vísi til. Skuldbinding stefnanda hafi verið í íslenskum krónum, samkvæmt ákvæðum samningsins um efndir aðilanna og skuldari losni ekki undan greiðsluskyldu sinni með því að greiða í neinum öðrum gjaldmiðli. Með því að andlag kröfuréttindanna séu íslenskar krónur leiði af 14. gr. laga nr. 38/2001 að óheimilt sé að gengistryggja greiðsluna miðað við erlendar myntir. Ofan á allt þetta hafi stefndi reiknað út skuldina miðað við gengi krónunnar á útgáfudegi greiðsluseðla og í samræmi við nefnda 5. gr. samningsins en ekki gjalddaga kröfunnar. Það sýni, svo ekki verði um villst, að efndir aðilanna hafi verið í íslenskum krónum ella hefði umreikningurinn átt sér stað miðað við gengi hinnar erlendu myntar á gjalddaga. Í málinu séu lagður fram fjöldi greiðsluseðla sem sanni þetta. Jafnframt séu lögð fram skjöl sem sýni á hvaða degi gengi afborgana hafi verið reiknað.
Auk þess bendir stefnandi á að við lánveitinguna hafi aðeins íslenskar krónur skipt um hendur. Af skuldinni hafi aðeins verið greitt í krónum, í lánssamningnum sé tekið fram að um húsnæðislán sé að ræða sem greinilega sé ætlað til fjárfestingar hér á landi. Talað sé um jafnvirði í íslenskum krónum í þeim reitum sem mest séu áberandi á lánssamningnum. Þótt talað sé um Libor vexti sé ætlast til að greiddir séu íslenskir dráttarvextir, sbr. 7. gr. samningsins, og að fullnusta fari fram í íslenskum krónum. Lánsumsóknin sé með sama hætti. Þar sé fjallað um hámarkslán í íslenskum krónum, þar sem fjallað sé um viðmiðunargengi og íslenskar krónur í síðasta dálki. Ráðstöfun sé til uppgreiðslu á áhvílandi íslenskum lánum á viðkomandi eign. Greiðsluáætlun hafi verið í íslenskum krónum þegar lánið hafi verið tekið og afborganir hafi verið reiknaðar í íslenskum krónum. Heildstætt mat sé því stefnda einnig mjög í óhag.
Stefnandi telur ekki vafa á að útgefnar fullnaðarkvittanir séu bindandi löggerningar og loforð af hálfu stefnda. Til viðbótar dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 600/2011 bendir stefnandi á að bankinn hafi verið grandsamur um verðtryggingarbannið þegar hann hafi veitt lánið. Við mat á grandsemi lúti spurningin að því hvort stefndi hafi verið grandsamur um þá réttaróvissu sem hafi verið um gildi lánssamninga af þessu tagi. Nægilegt sé að stefnda hafi mátt vera um slíka óvissu kunnugt en ekki hvort henni hafi raunverulega verið fyrir að fara í huga þeirra sem þar hafi starfað. Bonus pater mælikvarðinn sé objektívur, ekki einstaklingsbundinn eins og lengi hafi gilt í vátryggingarrétti og gildi að einhverju leyti enn. Lögin sjálf og lögskýringargögn séu skýr um réttaróvissuna sem stefndi hafi ratað í þegar hann hafi gert umræddan lánssamning. Þar að auki hafi heildarsamtök lánastofnana bent á þetta þegar lögin hafi verið samin, en í þeim samtökum hafi stefndi, eða fyrirrennari hans, verið þegar umrædd lög hafi verið sett. Stefnandi kveðst líta svo á að í raun myndi engu máli skipta hvernig samningurinn hefði hljóðað að öðru leyti. Ef andlag kröfuréttindanna (greiðslan/skuldbindingin) er í íslenskum krónum sé óheimilt að verðtryggja það.
Við aðalmeðferð málsins óskaði lögmaður stefnanda eftir að bókað yrði, að gengið væri út frá því að reglur um endurgreiðslu ofgreidds fjár, eigi við ef um ólögmæta gengistryggingu íslensks láns er að ræða.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 129. gr. og 130. gr., og krefst stefnandi þess að tekið verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá aðfararhæfan dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að umdeilt lán sé gilt lán í erlendum gjaldmiðlum. Beri því þegar af þeim ástæðum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Við munnlegan málflutning kvað stefndi, að enginn tölulegur ágreiningur væri með aðilum, að því gættu að fallist yrði á með stefnanda að um væri að ræða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, og að við útreikning endurheimtukröfu bæri að leggja samningsvexti til grundvallar, sem vaxtaviðmiðun, og ef fallist yrði á endurheimturétt yfir höfuð. Af fyrirliggjandi réttarframkvæmd verði skýrlega ráðið að þegar höfuðstóll lánsskuldbindingar sé sérstaklega tilgreindur í erlendum gjaldmiðlum, líkt og hér hátti til, sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum að ræða. Á slíka skuldbindingu hafi fyrst reynt í dómi Hæstaréttar Íslands frá 3. nóvember 2011 í málinun nr. 520/2011. Þá hafi reynt á nokkuð áþekkar skuldbindingar í dómum Hæstaréttar Íslands frá 23. nóvember 2011 í málum nr. 551/2011 og 552/2011. Af röksemdum í dóminum megi ráða að tilgreining lánsskuldbindingarinnar sjálfrar skipti mestu við úrlausn á því hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, og þá einkum hvort höfuðstóll hinna erlendu lánsfjárhæða sé tiltekinn. Slík skuldbinding geti talist vera í erlendum gjaldmiðlum enda þótt efndir fari í reynd fram í íslenskum krónum. Niðurstaðan í hæstaréttarmálinu nr. 552/2011 hafi verið með áþekkum hætti, en af forsendum í því máli virðist mega ráða að báðir aðilar hafi efnt samningsskyldur sínar í íslenskum krónum.
Í dómi Hæstaréttar Íslands 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011, hafi reynt á lánsskuldbindingu, þar sem tilgreiningin hafi verið með nokkuð áþekkum hætti og í hæstaréttarmálinu nr. 520/2011. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 524/2011 hafi sagt að við úrslausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum væri að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum væri fyrst að líta til heitis skuldabréfsins en fyrirsögnin væri: „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“ Í öðru lagi að lánsfjárhæðin væri samkvæmt orðalagi skuldabréfsins fyrst tilgreind í þremur erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum, japönskum yenum og evrum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi væru vextir samkvæmt skuldabréfinu, til samræmis við að um erlent lán væri að ræða, tilgreindir Libor og Euriborvextir. Í fjórða lagi bæri að líta til skilmálabreytingar, en fyrirsögn hennar væri: „Skilmálabreyting skuldabréfs í erlendum myntum/mynteiningum“ og væri jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum þar ekki getið. Þegar framangreind atriði væru virt yrði lagt til grundvallar að hér hafi verið tekið gilt lán í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum. Eins og í fyrri dómum væri vísað til tilgreiningar lánsskuldbindingar í hinum erlendu gjaldmiðlum, en fleiri atriði þó jafnframt talin renna stoðum undir að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum væri að ræða.
Stefndi vísaði og til dóms Hæstaréttar frá 27. september 2012 í málinu nr. 50/2012. Í því máli hafi lánsfjárhæðin verið tilgreind í erlendum gjaldmiðlum, en jafnframt kveðið á um að lántaki veitti lánveitanda heimild til að skuldfæra reikning sinn í íslenskum krónum hjá lánveitanda fyrir afborgunum, vöxtum, gengismun, verðbótum, dráttarvöxtum og hvers konar kostnaði, þar með talið innheimtukostnaði, á gjalddögum lánsins, svo sem nánar megi ráða af forsendum hins áfrýjaða dóms. Hafi lánsskuldbindingin því verið talin vera í erlendum myntum.
Önnur atriði umþrættrar skuldaviðurkenningar, sbr. ekki síst heiti bréfsins, tilgreining vaxta og skilmálabreytingar, auk lánsumsóknar, og yfirlýsing um að afþakka endurútreikning, séu jafnframt hver um sig og saman sjáanlega til marks um að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða.
Af málatilbúnaði stefnanda verði vart annað ráðið en að hann telji, þrátt fyrir framangreint, að um ólögmætt gengistryggt lán sé að ræða. Virðist hann í þeim efnum einkum byggja á því, að þar sem ráðgert hafi verið að efndir aðalskyldu stefnanda skyldu fara fram í íslenskum krónum sé um lán í íslenskum krónum að ræða. Sú málsástæða sé haldlaus og í andstöðu við dómaframkvæmd, en í fjölmörgum málum, sem komið hafa til kasta Hæstaréttar Íslands hafi verið ráðgert að skyldur aðila skyldu efndar í íslenskum krónum. Hafi það engu gilt enda skuldbindingin sem slík nægilega skýrlega tilgreind í erlendum gjaldmiðlum til þess að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum teldist vera að ræða.
Tilvísun stefnanda til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 66/2012 sé jafnframt haldlaus í því samhengi sem reyni á. Í því máli, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands í málum nr. 32/2011, 31/2011, 155/2011, 332/2012, 3/2012 og 19/2012, hafi háttað svo til að lánsskuldbinding hafi eingöngu verið orðuð sem jafnvirði fjárhæða í íslenskum krónum er skiptast skyldi eftir ákveðnum hlutföllum í tvær eða fleiri erlendar myntir, án þess að fjárhæð lánsins væri tilgreind í hinum erlendu myntum, líkt og hér um ræði. Þegar svo hátti til verði því að horfa til annarra þátta, einkum þess hvernig efndir aðila hafi verið. Í fyrirliggjandi máli séu fjárhæðir skuldbindingarinnar í erlendum gjaldmiðlum hins vegar skýrlega getið.
Loks vísar stefndi til þess að við túlkun umþrættrar skuldaviðurkenningar beri að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum. Stefndi telur og að dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 600/2011 taki ekki til sakarefnisins.
Dómkrafa stefnanda sé reist á þeirri forsendu að um gengistryggt lán sé að ræða og jafnframt að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 taki til sakarefnisins. Að mati stefnda taki tilvísaður dómur ekki til þeirrar aðstöðu sem hér sé uppi og beri þegar af þeim ástæðum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda og það jafnvel þótt talið yrði að um ólögmætt gengistryggt lán væri að ræða. Stefndi vísar til þess að með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 471/2010 hafi verið til úrlausnar hvernig færi með vexti af gengistryggðum skuldbindingum og hafi verið dæmt að í stað umsaminna erlendra vaxta skyldu vextir miðast við 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011, sbr. og dóm réttarins í máli nr. 464/2012, hafi niðurstaðan orðið sú að vextir af slíkri skuldbindingu töldust fullgreiddir samkvæmt fullnaðarkvittun kröfuhafa. Kröfuhafi gæti ekki krafið skuldara um greiðslu vaxta umfram þá erlendu vaxtaviðmiðun, sem hann hefði greitt. Rangur lagaskilningur aðila, sem legið hefði til grundvallar lögskiptum þeirra um vaxtakjör, yrði ekki leiðréttur aftur í tímann heldur einungis vegna vaxta framtíðar. Viðbótarkröfu hafi því verið hafnað.
Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 464/2012 sé nánar vikið að dómi réttarins í hæstaréttarmálinu nr. 600/2011. Telur stefndi að af forsendum dómsins, líkt og fyrri dómum, megi ráða að reglur kröfuréttar um viðbótargreiðslur fyrir liðna tíma, og undantekningar frá henni, taki til þeirrar aðstöðu þegar réttarsambandið sé tekið upp vegna liðins tíma og skuldara síðan gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð, þvert á væntingar hans um hið gagnstæða. Samkvæmt forsendum Hæstaréttar búi hér að baki sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en því geti fylgt mikil röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, sem um lengri tíma hafi hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp vegna liðins tíma.
Með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, sbr. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, fái stefndi ekki ráðið við erlenda samningsvexti. Ekki sé um það að ræða að kröfuréttarsambandið sé tekið upp vegna liðins tíma og skuldara síðan gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar hans um hið gagnstæða, og með tilheyrandi röskun hagsmuna hans, líkt og háttað hafi til í hæstaréttarmálinu nr. 600/2011. Þær aðstæður hafi svo, sem fyrr segi, verið taldar leiða til þess að réttur lánveitanda til vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, falli niður. Þvert á móti sé kröfuréttarsambandið hér þegar liðið undir lok og skuldari, hér stefnandi, en ekki kröfuhafi, að endurvekja það. Standi því engin rök til annars og til samræmis við dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, en að í stað umsaminna erlendra vaxta skuli vextir miðast við 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, við útreikning endurheimtukröfu, eins og hér standi á. Með öðrum orðum verði regla kröfuréttar um undantekningu frá rétti kröfuhafa til að krefjast viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð, með tilliti til þeirrar röskunar sem slíkt kunni að hafa í för með sér á hagsmunum skuldara, ekki heimfærð yfir á reglur kröfuréttar um endurheimturétt, sem séu af allt öðrum toga, líkt og stefnandi hafi hins vegar reynt að byggja á.
Til samræmis við framangreint sé þannig ekki um það að ræða að þegar uppgreitt lán, líkt og hér hátti til, geti stuðst við aðra vaxtaviðmiðun en samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, þ.e. við útreikning hvers konar endurheimtukröfu.
Til samræmis við framangreint sé jafnframt ljóst að sé endurheimturéttur til staðar á annað borð verði sú regla, sem fram komi í 5. mgr. 18. gr. um útreikning endurheimtukröfu, sbr. 2. málslið ákvæðisins um vaxtaviðmiðun, ekki talin í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, þ.e. þannig að um afturvirka réttarreglu sé að ræða. Sú vaxtaviðmiðun sem þar sé tilgreind sé enda til samræmis við þá niðurstöðu sem þegar hafi leitt af gildandi réttarreglum, þ.e. samkvæmt 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Þar sem stefnandi hafi ekki sett fram neina endurheimtukröfu með tilliti til ofangreinds verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, en þess utan hafi stefnandi afsalað sér slíkum útreikningi, sem fyrr segi.
Stefndi telur það ekki vera alls kostar námkvæmt sem fram komi í stefnu, að umþrætt skuld hafi verið greidd upp í desember 2011 með 30.623.149 krónum, með nýju láni hjá stefnda. Líkt og að framan sé rakið, hafi stefnandi farið þess á leit með undirritun yfirlýsingar „vegna erlends íbúðarláns“, dagsettar 28. desember 2011, að umþrætt lán myndi sæta höfuðstólslækkun og myntbreytingu, og hafi hann jafnframt afþakkað endurútreikning þann sem mælt hafi verið fyrir um í lögum nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001. Í umsókn um höfuðstólslækkun og myntbreytingu segi: „Breytingin felst í því að skilmálum lánsins er breytt þannig að eftirstöðvar þess umreiknast í íslenskar krónur frá og með 06.12.2011. Miðað er við lækkun á höfuðstól þannig að hann sé umreiknaður í íslenskar krónur m.v. sölugengi undirliggjandi mynta þann 29.09.2008 samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands. Munurinn á þeirri stöðu og uppreikningi þann 06.12.2011 er höfuðstólsleiðrétting lánsins. Vanskil og áfallnir vextir frá síðasta gjalddaga sæta ekki leiðréttingu og leggjast ofan á höfuðstól óverðtryggða lánsins. Höfuðstóll hins nýja óverðtryggða láns verður kr. 30.623.149. Leiðréttingin nemur því kr. 9.617.669.“ Jafnhliða, og framangreindu til samræmis, hafi verið gefið út nýtt veðskuldabréf í íslenskum krónum, og skyldu fyrri skuldbindingar um leið felldar niður.
Byggir stefndi á því, að engin greiðsla hafi átt sér stað þannig að til endurheimturéttar geti komið með þeim hætti sem á sé byggt, enda hafi „uppgreiðsla“ stefnanda eingöngu, og a.m.k. í reynd, falið í sér breytingu á lánsskuldbindingum gagnvart stefnda, en ekki ráðstöfun fjármuna með þeim hætti sem almennt sé talinn þurfa að liggja til grundvallar endurheimturétti samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. „Uppgreiðsla“ stefnanda hafi að þessu leyti ekki falið í sér annað og meira en nýtt greiðsluloforð í stað hinna eldri. Hin gömlu og „nýju“ lánsloforð myndi raunar ákveðna samfellu og ekki sé um að tefla fjárhæðir sem „inntar hafi verið af hendi“ í skilningi 3. málsliðar 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og/eða meginreglna kröfuréttar.
Yrði allt að einu litið svo á, gagnstætt því sem gögn málsins og atvik beri með sér, að stefnandi teljist hafa greitt umþrætta lánsskuldbindinu með þeim hætti sem hann virðist líta á, telur stefndi slíkt allt að einu standa hvers konar endurheimturétti í vegi með þeim hætti sem kröfugerð stefnanda feli í sér. Önnur niðurstaða væri enda í andstöðu við eðli málsins, grunnreglur kröfuréttar og myndi sýnilega leiða til óréttmætrar auðgunar stefnanda á kostnað stefnda. Nánar tiltekið fæli niðurstaðan í sér að stefnandi yrði talinn hafa ofgreitt eldri lánsskuldbindingu í formi nýrrar lánsskuldbindingar, sem myndi jafnframt skapa stefnanda endurheimturétt úr hendi stefnda vegna hinnar fyrri lánsskuldbindingar, enda þótt hin síðari lánsskuldbinding væri umtalsvert lægri, eða tæpum tíu milljónum króna, en sú skuldbinding sem hún hafi verið notuð til að greiða. Slíkt væri ekkert annað en gjöf eða „gjafaígildi“, stefnanda til handa. Slík niðurstaða fengi ekki staðist. Slík kröfugerð stefnanda, og málsástæður henni til stuðnings, fengi ekki staðist. Þvert á móti ætti stefnandi, væri um ólögmæta gengistryggingu að ræða, tilkall til þess að hin upprunalega lánsskuldbinding væri reiknuð til samræmis við lög nr. 151/2010, þ.e. hún endurvakin og eftir atvikum að teknu tilliti til þeirra réttaráhrifa sem kynnu að leiða af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011, og stefnandi um leið leystur undan þeirri skilmálabreytingu sem hin „nýja“ lánsskuldbinding fæli í sér. Önnur niðurstaða brjóti bersýnilega gegn öllum skynsemis- og eðlisrökum og þeim forsendum sem legið hafi til grundvallar framangreindum lögskiptum aðila. Stefnandi geti ekki bæði haldið og sleppt. Þar sem kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda taki hins vegar ekkert mið af þessu sé óhjákvæmilegt að stefndi verði sýknaður af dómkröfum stefnanda.
Yrði allt að einu fallist á að hin fyrri lánsskuldbinding teldist greidd með hinni nýju, sé endurheimturéttur vegna hinnar fyrri lánsskuldbindingar allt að einu útilokaður, a.m.k. þannig að samningsvextir yrðu vaxtaviðmiðun líkt og málatilbúnaður stefnanda gangi út á.
Í öllu falli sé ljóst, yrði fallist á einhvers konar endurheimturétt til handa stefnanda, að við útreikning endurheimtukröfu yrði að draga frá þá skuldaleiðréttingu/-lækkun sem stefnandi hafi þegar notið, án þess að til greiðslu hafi komið, eða að fjárhæð 9.617.669 krónur, miðað við dagsetninguna 28. desember 2011. Nánar tiltekið hvers konar krafa yrði að vera að frádreginni þessari fjárhæð. Sé ekki fallist á framangreint, verði að líta svo á að forsendur áðurgreindrar skuldaleiðréttingar að fjárhæð 9.617.669 krónur séu brostnar, sem skapi stefnda jafnframt endurheimtukröfu úr hendi stefnanda, sem koma eigi til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda, miðað við dagsetninguna 28. desember 2011.
Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um dráttarvexti. Telur stefndi að dráttarvextir verði, eins og mál þetta sé vaxið, eingöngu reiknaðir frá dómsuppsögu. Þá verði ekki séð að krafa stefnanda um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 eigi sér lagastoð, þ.e. þegar um endurheimtukröfu sé að ræða, og sé henni jafnframt andmælt.
Stefndi kveður hins vegar ekki vera sérstakan tölulegan ágreining með aðilum verði fallist á forsendur málatilbúnaðar stefnanda.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna fjármunaréttar, þ. á m. um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga. Einnig vísar stefndi til meginreglu kröfuréttar um endurheimturétt. Þá vísar stefndi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, með síðari breytingum, þ. á m. laga nr. 151/2010, og meginreglna samningaréttar um brostnar forsendur.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna.
V
Ágreiningur máls þess þessa lýtur að því hvort veðskuldabréf útgefið 30. nóvember 2004 af stefnanda til Íslandsbanka hf. sé skuld í erlendri mynt eða íslenskum krónum sem bundnar séu gengi erlends gjaldmiðils með ólögmætum hætti, samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001.
Um heimildir til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár fer eftir 14. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt ákvæðinu er ekki heimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla eða á annan hátt en þann sem sérstaklega er heimilaður í lögum, sbr. dómafordæmi Hæstaréttar Íslands. Skuldbinding í erlendum gjaldmiðli fer hins vegar ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar, m.a. í málunum nr. 551/2011 og 552/2011, verður við úrlausn framangreinds ágreiningsefnis fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim gerningum. Í dómafordæmum Hæstaréttar kemur fram, að við úrlausn á því hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðli sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum sé fyrst að líta til heitis skuldabréfsins sem deilt sé um, tilgreiningu lánsfjárhæðar og hvort vaxtakjör séu í samræmi við það að um erlent lán sé að ræða. Veðskuldabréf það sem liggur til grundvallar lögskiptum aðila í þessu máli ber yfirskriftina „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum Húsnæðislán“. Þykir þetta atriði benda til þess að hér sé um að ræða skuldbindingu í erlendri mynt, en ekki í íslenskum krónum. Þá er upphafleg lánsfjárhæð í bréfinu tilgreind í svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum, að jafnvirði 22.500.000 íslenskra króna hinn 29. nóvember 2004, eða daginn fyrir undirritun bréfsins. Styður þetta að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða. Vextir af láninu eru tilgreindir Libor vextir af hinum tilgreindu fjárhæðum ásamt föstu vaxtaálagi. Rennir það stoðum undir að um erlent lán sé að ræða. Þá var í skilmálabreytingu veðskuldabréfsins hinn 6. nóvember 2008 tilgreint hversu hátt upphaflega lánið hefði verið í hinum erlendu myntum og eftirstöðvar þess í hinum erlendu myntum, en ekki var breytt um myntsamsetningu á láninu og eftirstöðvar lánsins í hverri mynt fyrir sig getið. Skilmálunum var breytt þannig að eftirstöðvar lánsins skyldu endurgreiðast með 2 vaxtagjalddögum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 5. desember 2008 og 145 afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 5. júní 2009. Þá skyldu vextir reiknast frá 5. september 2008. Skilmálum bréfsins var aftur breytt 18. september 2009 og voru þá eftirstöðvar lánsins umreiknaðar í íslenskar krónur og höfuðstóll lánsins lækkaður um 9.617.669 krónur. Skilmálabreytingar þær sem hér að framan getur þykja ekki styðja þá staðhæfingu stefnanda að talið hafi verið að um væri að ræða lán í íslenskum krónum, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 524/2011.
Stefnandi byggir á því að afborganir hans af láninu til Íslandsbanka hf. hafi verið ákveðnar í íslenskum krónum, sbr. 5. tölulið veðskuldabréfsins og að miða skyldi við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðlum sem lánið var í, allt að 10 dögum fyrir gjalddaga. Með þessu samningsákvæði hafi skýrlega komið fram að aðalskyldu hans yrði aðeins fullnægt með greiðslu í íslenskum krónum og þar með hafi báðir aðilar í raun fullnægt aðalskyldu sinni í íslenskum krónum. Af dómum Hæstaréttar Íslands verður hins vegar ályktað að ekki skipti máli þótt greiðslur fari fram í íslenskum krónum þegar skýrt komi fram í lánssamningi að skuldin sé í erlendri mynt.
Með vísan til framanritaðs verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi tekið gilt lán í erlendum gjaldmiðli. Verður stefndi því þegar af þeim sökum sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi nýtur gjafsóknar við rekstur málsins, samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 25. mars 2013. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, þykir hæfilega ákveðinn 850.000 krónur og greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar hefur verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jóhanns Sigurðssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 850.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. virðisaukaskattur.