Hæstiréttur íslands

Mál nr. 388/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Börn
  • Umgengni
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Aðfararheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                     

Þriðjudaginn 2. september 2008.

Nr. 388/2008.

K

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

gegn

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Innsetningargerð. Börn. Umgengni. Lögvarðir hagsmunir. Aðfararheimild. Frávísun

máls frá Hæstarétti að hluta. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem M var heimilað að fá dóttur aðilanna tekna úr umráðum K með aðfarargerð til þriggja vikna sumarumgengni við sig og einnig framvegis til reglulegrar umgengni annan hvern miðvikudag, allt í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2005. Fyrir lá að innsetningargerð hafði farið fram til að koma á umgengni M við dóttur aðila í þriggja vikna sumarleyfi á árinu 2008. Hafði K því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt niðurstöðu hins kærða úrskurðar um heimild til aðfarargerðar í þessu skyni og var málinu vísað frá Hæstarétti að þessu leyti. Í dómi Hæstaréttar sagði að almennar reglur laga nr. 90/1989 um aðför tækju til aðfarargerðar sem þessarar að því leyti sem ekki væru sérreglur um annað í barnalögum nr. 76/2003. Af II. kafla aðfararlaga yrði ráðið að heimild til aðfarargerðar væri háð því almenna skilyrði að efndatími skyldu, sem leitað væri fullnustu á, hefði liðið án þess að sá, sem hana ber, hafi fullnægt henni. Þá væri sérstaklega áskilið í 50. gr. barnalaga að krafa um aðfarargerð yrði fyrst höfð uppi þegar árangurslaust fjárnám hefði verið reynt með dagsektum og fjárnámi fyrir þeim til að knýja forsjármann barns að láta af tálmun við umgengni. Voru því ekki lagaskilyrði til að verða við kröfu M um að honum yrði nú í einu lagi heimilað um ókomna tíð að leita aðfarargerðar til að koma á umgengni við dóttur sína og var þessum kröfum M því vísað frá héraðsdómi.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2008, þar sem varnaraðila var heimilað að fá dóttur aðilanna, A, tekna úr umráðum sóknaraðila með aðfarargerð til þriggja vikna sumarumgengni við sig og einnig framvegis til reglulegrar umgengni annan hvern miðvikudag, í fyrsta sinn 10. september 2008, allt í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2005. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfum varnaraðila um heimild til aðfarargerða. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði voru aðilar málsins í sambúð á árunum 1994 til 2002 og eignuðust þrjár dætur, sem fæddar eru 1995, 1997 og 2002. Fyrrgreindar kröfur varnaraðila um heimild til aðfarargerða varða yngstu dótturina. Ágreiningur reis með aðilunum um forsjá dætranna, sem leyst var úr með dómi Hæstaréttar 27. maí 2004 í máli nr. 31/2004, en með honum var sóknaraðila falin forsjá þeirra allra. Varnaraðili höfðaði mál á ný 18. apríl 2005 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að fá forsjána dæmda sér, en með dómi 22. desember sama ár urðu lyktir þess mál á sama veg og í fyrri dóminum. Í síðastnefndum dómi var mælt ítarlega fyrir um umgengni varnaraðila við dætur sínar, sem meðal annars skyldi vera í annarri hvorri viku frá kl. 13 á miðvikudegi til kl. 9 næsta mánudag, svo og sex vikur á hverju sumri eftir nánar tilteknum reglum. Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila fór umgengni fram í samræmi við niðurstöður þessa dóms allt þar til í september 2007, en upp frá því hafi ekki orðið af henni. Af þeim sökum leitaði varnaraðili 16. nóvember 2007 eftir því við sýslumanninn í Reykjavík að dagsektir yrðu lagðar á sóknaraðila til að koma á umgengni eftir ákvæðum 48. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í úrskurði sýslumanns 2. maí 2008 var krafa varnaraðila tekin til greina að því er varðaði dagsektir til að koma á umgengni hans við yngstu dóttur aðilanna, en að öðru leyti var kröfu hans hafnað. Voru dagsektir úr hendi sóknaraðila ákveðnar 5.000 krónur frá uppsögu úrskurðarins þar til hún léti af tálmun umgengni, en þær skyldu þó ekki falla á lengur en í 100 daga. Sóknaraðili mun hafa kært þennan úrskurð 5. maí 2008 til dóms- og kirkjumálaráðherra, en ekkert liggur fyrir í málinu um frekari afdrif þeirrar kæru.

Með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2008 leitaði varnaraðili heimildar til aðfarargerðar á grundvelli 50. gr. barnalaga til að koma á umgengni við yngstu dóttur aðilanna um sex vikna skeið í sumarleyfi, sem hæfist ekki síðar en 21. júlí sama ár. Jafnframt leitaði hann heimildar dómsins til aðfarargerðar til að koma framvegis á reglulegri umgengni annan hvorn miðvikudag, í fyrsta sinn 10. september 2008. Samkvæmt því, sem fram kom í beiðni þessari, hafði sóknaraðili á þeim tíma greitt með tíu daga millibili áfallnar dagsektir samkvæmt úrskurði sýslumanns frá 2. maí 2008, en ekki hafði orðið af umgengni. Mál þetta er rekið í tilefni af þessari beiðni varnaraðila. Með hinum kærða úrskurði voru kröfur hans teknar til greina, en þó þannig að heimilað var að komið yrði á með aðför umgengni hans við dóttur sína um þriggja vikna skeið í sumarleyfi árið 2008.

II.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík, þar sem fram kemur að innsetningargerð hafi farið fram í samræmi við hinn kærða úrskurð 21. júlí 2008 til að koma á umgengni varnaraðila við dóttur aðilanna í þriggja vikna sumarleyfi á því ári. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt niðurstöðu hins kærða úrskurðar um heimild til aðfarargerðar í þessu skyni. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti að þessu leyti.

III.

Samkvæmt 50. gr. barnalaga getur héraðsdómari orðið við kröfu þess, sem á rétt til umgengni við barn, um að honum verði heimilað að koma henni á með aðfarargerð, enda tálmi forsjármaður barnsins umgengni þrátt fyrir úrskurð sýslumanns um dagsektir og fjárnám fyrir þeim eftir 48. gr. og 49. gr. sömu laga. Um meðferð máls um slíka kröfu og framkvæmd aðfarargerðar er í 50. gr. vísað til 45. gr. laganna. Í 1. mgr. síðastnefndrar lagagreinar er mælt fyrir um að farið skuli með kröfu um heimild til aðfarargerðar eftir ákvæðum 13. kafla laga nr. 90/1989, en að þessu frágengnu eru ekki sérreglur í barnalögum um skilyrði fyrir því að hafa kröfu sem þessa uppi, til hvers hún geti tekið eða hvernig farið verði með hana fyrir dómi. Af þessum sökum verður að líta svo á að almennar reglur laga nr. 90/1989 taki til þessara atriða að því leyti, sem annað leiðir ekki af fyrirmælum 50. gr. barnalaga.

Af ákvæðum II. kafla laga nr. 90/1989 verður ráðið að heimild til aðfarargerðar sé háð því almenna skilyrði að efndatími skyldu, sem leitað er fullnustu á, hafi liðið án þess að sá, sem hana ber, hafi fullnægt henni. Sjálfgefið er að beiðni um aðfarargerð verður ekki lögð fyrir sýslumann eða borin undir héraðsdóm, þegar það á við, áður en þessu skilyrði er fullnægt nema sérstaklega sé mælt fyrir um annað í lögum, svo sem gert er með 1. mgr. 70. gr. laga nr. 90/1989. Af 50. gr. barnalaga verður ekki leidd sérregla af þeim toga um öflun heimildar til aðfarargerðar til að koma á umgengni við barn á grundvelli úrskurðar sýslumanns, enda er þar þvert á móti áskilið að krafa um þá heimild verði fyrst höfð uppi þegar árangurslaust hafi verið reynt með dagsektum og fjárnámi fyrir þeim að knýja forsjármann barns til að láta af tálmun við umgengni. Af þessum sökum eru ekki skilyrði að lögum til að verða við kröfu varnaraðila um að honum verði nú í einu lagi heimilað um ókominn tíma að leita aðfarargerðar til að koma á umgengni við dóttur sína hverju sinni, sem misbrestur kynni að verða á því að sóknaraðili virði rétt hans í þeim efnum. Verður því að vísa frá héraðsdómi kröfu varnaraðila um að kveðið verði á um heimild hans framvegis til að koma á með aðfarargerð reglulegri umgengni við dóttur aðilanna.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar ákvæði hins kærða úrskurðar um heimild varnaraðila, M, til að fá A tekna úr umráðum sóknaraðila, K, til að koma á umgengni við þá fyrrnefndu í sumarleyfi á árinu 2008.

Að öðru leyti en að framan greinir er málinu vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2008.

I

Beiðni gerðarbeiðanda barst dóminum 20. júní 2008. Málið var þingfest 24. júní og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 8. júlí sl.

Gerðarbeiðandi er M, [heimilisfang], Reykjavík.

Gerðarþoli er K, [heimilisfang] Reykjavík.

Gerðarbeiðandi gerir eftirfarandi kröfur:

1. Að úrskurðað verði að sex vikna sumarumgengni gerðarbeiðanda og dótturinnar A, kt. [...], samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2005 verði komið á með aðför, sbr. 50. gr. laga nr. 76/2003 þannig að hún hefjist eigi síðar en mánudaginn 21. júlí og ljúki sex vikum frá þeim degi sem sumarumgengni kemst á með aðför.

2. Að úrskurðað verði að reglulegri umgengni gerðarbeiðanda og dótturinnar A verði framvegis unnt að koma á með aðför, sbr. 50. gr. laga nr. 76/2003, þannig að hún hefjist miðvikudaginn 10. september 2008 og verði síðan annan hvorn miðvikudag eftir það.

Jafnframt krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar úr hendi gerðarþola að teknu tilliti til skyldu hans til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknuninni.

Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður úr hendi hans. Við munnlegan flutning málsins krafðist gerðarþoli þess jafnframt að kæra fresti aðför, verði hún heimiluð.

II

Aðilar málsins bjuggu saman frá árinu 1994 til 2002 og eignuðust á sambúðartímanum þrjár dætur. B er elst, fædd 1995, þá C, fædd 1997, en A er fædd 2002. Deilt er um umgengni gerðarbeiðanda og yngstu dótturinnar, A.

Aðilar slitu samvistum í árslok 2002. Með dómi Hæstaréttar 27. maí 2004 var gerðarþola falin forsjá dætranna. Kveðinn var upp úrskurður hjá sýslumanni 24. nóvember 2004 um umgengni og var úrskurðurinn staðfestur í dómsmálaráðuneytinu 10. júní 2005. Gerðarbeiðandi kveðst hafa höfðað forsjármál á hendur gerðarþola í apríl 2005, vegna tálmana á umgengni gerðarbeiðanda við dætur sínar. Dómur gekk í því máli í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. desember það ár.

Niðurstaða héraðsdóms var sú að gerðarþoli skyldi fara með forsjá dætranna þriggja. Mælt er ítarlega fyrir um umgengni, en reglulegri umgengni og umgengni að sumri skyldi hagað þannig:

„Reglulega umgengni aðra hverja viku frá miðvikudegi kl. 13.00 til mánudags kl. 9.00. Séu stúlkurnar ekki í skóla skal stefnandi sækja þær og skila á heimili stefndu.

...

Stúlkurnar dvelji hjá stefnanda í samtals sex vikur á hverju sumri á meðan leyfi er í grunnskólum. Skal þessum tíma skipt í tvö jafnlöng tímabil. Aðilar skulu eigi síðar en 1. maí ár hvert semja um tilhögun þessa. Náist ekki samkomulag hefur stefnda sjálfdæmi um tímabil fyrsta árið en stefnandi það næsta. Skal þá tilkynna tilhögun eigi síðar en 15. maí. ...“

Gerðarbeiðandi segir að umgengni hans og dætranna hafi gengið að mestu hnökralaust fram í september 2007 þegar gerðarþoli hafi stöðvað umgengnina. Stúlkurnar voru hjá föður sínum frá 26. til 27. september 2007, en hinn 16. nóvember 2007 barst sýslumanninum í Reykjavík beiðni gerðarbeiðanda um álagningu dagsekta skv. 48. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Í niðurstöðu sýslumanns, dagsettri 2. maí sl., kemur fram að aðilum málsins hafi verið boðin sérfræðiráðgjöf og samtöl við Gunnar Hrafn Birgisson, en faðir og aðilarnir báðir bæru ábyrgð á að ekki hefði orðið af þessu. Börnin hafi neitað að fara til föður í þau fjögur skipti sem látið var á umgengni reyna með hjálp Barnaverndar Reykjavíkur. Hafi Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur rætt við tvær eldri stúlkurnar í kjölfarið en þær hefðu lýst því yfir við hann, og starfsmenn Barnaverndar einnig, að þær vildu ekki hitta föður sinn. Var það álit sýslumannsins, að teknu tilliti til aldurs stúlknanna tveggja, að móðir hefði ekki tálmað umgengni föður við B og C. Þar sem móðirin þótti ekki hafa tálmað umgengni voru ekki skilyrði til að leggja dagsektir á hana vegna þeirra.

Í úrskurði sýslumannsins segir að A hafi ekki viljað tjá sig um umgengni við föður sinn en hefði ekki fengist til að fara í umgengni við hann þegar látið var á það reyna. Sýslumaður vísaði til ungs aldurs A og þess að hún teldi sér skylt að sýna samstöðu með eldri systrum sínum. Var það álit sýslumanns að svo ungt barn yrði að lúta vilja forsjárforeldris og að afstaða þess foreldris ráði miklu um afstöðu barnsins. Var það lagt til grundvallar að orsök þess að umgengni við föður hefði ekki orðið væri sú að móðirin hefði í reynd tálmað umgengni. Fallist var á kröfu um 5.000 króna dagsektir hvað A varðaði.

Gerðarbeiðandi kveðst hafa reynt að sækja A á leikskólann á hverjum miðvikudegi síðan úrskurður sýslumanns var kveðinn upp. Hann segir gerðarþola hins vegar hafa reynt að koma í veg fyrir að sóknaraðili gæti rækt skyldur sínar og barnið ávallt verið tilkynnt fjarverandi þegar sóknaraðili reyndi að nálgast það. Gerðarþoli hafi sagt upp leikskólaplássi dótturinnar um miðjan maí sl. Þá hafi gerðarþoli ekki svarað neinum hringingum frá gerðarbeiðanda. Gerðarþoli hafi heldur ekki tilkynnt tilhögun sumarleyfa svo sem henni beri skv. fyrrnefndum dómi.

Gerðarþoli kveður A ekki vilja fara til gerðarbeiðanda í umgengni og það sé ástæða þess að hún hafi ekki farið.   

Gerðarþoli hefur á 10 daga fresti og greitt dagsektirnar til sýslumanns.

III

Gerðarbeiðandi byggir á því að gerðarþoli hafi með einbeittum og markvissum hætti tálmað umgengni gerðarbeiðanda og dætra hans frá í september 2007. Hafi dagsektarúrskurður sýslumanns ekki haft nein áhrif.

Dóttirin A engan sjálfstæðan vilja varðandi umgengni við gerðarbeiðanda. Engar aðrar ástæður séu fyrir því að umgengnin gangi ekki en vilji gerðarþola. Gerðarbeiðandi telur að gerðarþoli beiti dæturnar áróðri og sverti gerðarbeiðanda í augum þeirra. Vísar hann máli sínu til stuðnings til álits Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings.

Gerðarbeiðandi kveður aðrar og viðurhlutaminni aðgerðir ekki hafa borið árangur og telur að ekki verði lengur unað við núverandi stöðu mála. Krefst hann innsetningar í dæmda umgengi sína við yngstu dótturina.

Af hálfu gerðarbeiðanda var kröfu um að kæra fresti aðför mótmælt sem of seint fram kominni. Þá var kröfunni mótmælt þar sem ef hún yrði tekin til greina myndi ekkert verða úr sumarumgengni.

Um lagarök vísar hann til 50. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 45. gr. sömu laga.

IV

Gerðarþoli byggir kröfu sína á því að ekki sé heimilt að koma á umgengni með aðför þar sem ekki hafi verið gert fjárnám hjá henni fyrir álögðum dagsektum. Fjárnám sé eitt þriggja skilyrða fyrir aðför skv. 50. gr. barnalaga. Öll skilyrðin þurfi að vera uppfyllt til að gera megi aðför.

Gerðarþoli byggir jafnframt á að hún hafi ekki tálmað umgengi frá uppkvaðningu úrskurðar um hana. Gerðarþola sé ómögulegt að neyða A til að umgangast föður sinn. Stúlkan hafi ítrekað neitað að fara til hans og gerðarþoli geti ekki neytt hana til að fara, ekki síst þegar eldri systur hennar fara ekki. A hafi ekki áður farið ein til pabba síns.

Gerðarþoli byggir á að aðför geti fyrst komið til greina þegar öll önnur úrræði laganna séu fullnýtt. Dagsektarúrskurðurinn sem kveðinn var upp hafi ekki runnið sitt skeið og gerðarþoli sé enn að reyna að koma á umgengni samkvæmt honum. Fyrst ætti að láta þennan úrskurð renna sitt skeið og sjá hvort hann dugi ekki til, svo ætti jafnvel að úrskurða um aðrar dagsektir ef þörf krefur. Það verklag hafi verið viðhaft hjá sýslumanni.

Einnig byggir gerðarþoli á að hagsmunum barnsins væri betur borgið með að aðilar undirgengust sáttameðferð til að koma á umgengni. Börnin þurfi að sættast við föður sinn og treysta honum til að umgengnin geti gengið áfallalaust fyrir sig. Gerðarbeiðandi hafi ekki verið tilbúinn að taka þátt í slíku ferli og ætti þar með að fyrirgera rétti sínum til að þvingunarráðstöfunum verði beitt á sama tíma.

Gerðarþoli byggir loks á því að þar sem búið sé að kæra úrskurð sýslumanns um dagsektir til dómsmálaráðuneytisins sé ekki tímabært að kveða upp dómsúrskurð um aðför. Enda myndi dómsúrskurðurinn meðal annars byggjast á því að varnaraðila bæri að fara eftir þeim úrskurði.

Gerðarþoli vísar til barnalaga nr. 76/2003, einkum 50. gr., en til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um málskostnað.

V

Í dómi Héraðsdóms frá desember 2005 er mælt fyrir um að gerðarþoli fari með forsjá A.  Þá var þar dæmt um umgengni föður við dóttur sína.

Gerðarbeiðandi byggir kröfu sína á hendur gerðarþola á 50. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Í þeirri lagagrein er kveðið á um að ef forsjármaður tálmi umgengni þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám fyrir þeim getur héraðsdómari, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, heimilað að henni verði komið á með aðfarargerð.

Í maí á þessu ári kvað sýslumaðurinn í Reykjavík upp úrskurð á grundvelli 49. gr. barnalaga nr. 76/2003, um að gerðarþoli greiddi dagsektir, þar til hún hefði látið af tálmunum á rétti föður til umgengni við dóttur sína, A.  Hefur gerðarþoli frá þeim degi greitt álagðar dagsektir en engin umgengni hefur verið milli feðginanna þrátt fyrir úrskurðinn.  Kom fram í forsendum úrskurðarins að við mat sýslumanns á því hvort gerðarþoli hefði tálmað umgengni gerðarbeiðanda og A yrði að líta til afstöðu stúlkunnar og ungs aldurs hennar og þess sem fyrir lægi um framkomu gerðarþola.   Þegar reynt hafi verið að koma á umgengni hjá sýslumanni hafi hún neitað að fara til föður síns en ekki viljað tjá sig munnlega, hvorki við barnaverndarnefnd né við sálfræðinginn. Var talið líklegt að A teldi sér skylt við þessar aðstæður að sýna samstöðu með eldri systrum sínum og móður. Hljóti vilji gerðarþola að ráða að mestu leyti hegðun hennar. Þannig yrði að telja að gerðarþoli tálmaði umgengninni fremur en að vilji barnsins réði.

Samkvæmt 46. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.  Við skilnað eða slit á sambúð hvílir sú skylda á báðum foreldrum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur barnsins sé virtur.  Foreldri sem barn býr ekki hjá á í senn rétt og ber skylda til að rækja umgengni og samneyti við barn sitt.   

Eins og fram kemur í áðurgreindum héraðsdómi, sem kveðinn var upp í desember 2005, hefur ósætti aðila í kjölfar skilnaðar þeirra bitnað á dætrunum.  Kemur fram í dóminum að gerðarþoli hafi ekki lagt mikið upp úr því að stúlkurnar umgangist föður sinn og hafi hún komið í veg fyrir umgengni dætranna við sóknaraðili í um þriggja mánaða skeið.  Hafi gerðarþoli með því brotið alvarlega gegn dætrum sínum.  Skýringar hennar sýnast ekki eiga neina stoð í raunveruleikanum og vera tilbúningur.  Fram kom í málinu að eftir að dómur gekk hafi umgengni verið nokkurn veginn eðlileg, en frá því í september á síðasta ári hefur umgengni hins vegar legið niðri.

Við úrlausn um hvort barn verði afhent gerðarbeiðanda með beinni aðfarargerð úr umsjá varnaraðila ber í samræmi við meginreglu barnaréttar við slíka ákvörðun sem endranær, þegar málum barna er skipað, að fara eftir því sem barni er fyrir bestu.  Því verður aðfararbeiðni synjað ef varhugavert þykir fyrir velferð barnsins að hún nái fram að ganga.

Eins og áður greinir ræddi sálfræðingur við barnið að beiðni sýslumanns til að kanna viðhorf þess til málsins.  Fram kemur í skýrslu sálfræðingsins, dagsettri 1. apríl 2008, að mikilvægt sé að vinna að því að koma aftur á umgengni milli föður og dætra. Stúlkurnar líði fyrir að hún liggi niðri og það virðist báðum foreldrum í hag að umgengnin komist á aftur hið fyrsta. Sérstök ástæðu væri til þess að horfa til aðstöðu A sem virtist lenda á milli steins og sleggju. Kysi hún að tjá sig ekki eða þyrði því ekki. Virtist hún líða fyrir það spennuástand sem hefði skapast og fyrir það að umgengni lægi niðri.

A er rúmlega sex ára gömul.  Er það álit dómsins að svo ungt barn verði að lúta vilja forsjárforeldris varðandi umgengni og að afstaða forsjárforeldris ráði miklu um afstöðu barnsins.  

Ljóst er að tálmun gerðarþola á umgengni er skýlaust brot á forsjárskyldum og rétti barns til að umgangast föður sinn, sem og rétti föður til umgengni við dóttur sína.

Reynt var að halda sáttafundi hjá sýslumanni og sátta var ítrekað leitað fyrir dómi, en án nokkurs árangurs.   Hefur gerðarþoli með öllu haft að engu dóma og úrskurði um umgengni.  Liggur fyrir að gerðarþoli hefur ekki látið af tálmunum þrátt fyrir dagsektarúrskurð en hefur til þess að koma í veg fyrir umgengni greitt álagðar dagsektir, án þess að þurft hafi að gera fjárnám fyrir þeim.  Í málinu þykir því vera nægilega fram komið að gerðarþoli hefur tálmað umgengni gerðarbeiðanda og A og að gerðarþoli hyggist halda því áfram þrátt fyrir álagðar dagsektir.  Álagðar dagsektir hafa því ekki borið tilætlaðan árangur og sýnt þykir að svo muni ekki verða.  Umgengni hefur legið niðri frá því í lok september á síðasta ári en liðnir eru 70 dagar frá úrskurði sýslumanns.  

Samkvæmt framansögðu er því fullnægt skilyrðum 50. gr. barnalaga nr. 76/2003, um að umgengni verði komið á með aðför.  Hefur gerðarþoli ekki fært fram slík rök að varhugavert verði talið, að gerðin nái fram að ganga.  Í dómi héraðsdóms er mælt fyrir um að sumarumgengni verði tvisvar sinnum þrjár vikur á hverju sumri á meðan leyfi er í grunnskólum.  Þannig þykir ekki vera unnt að ákveða með úrskurði að umgengni skuli vera sex vikur samfleytt. Verður því fallist á kröfu gerðarbeiðanda um að umgengni verði komið á með beinni aðfarargerð, svo sem gerðarbeiðandi hefur krafist, þó þannig að sumarumgengni verði aðeins þrjár vikur og ljúki þar af leiðandi 11. ágúst 2008.  Engin efni eru til að verða við kröfu gerðarþola um að mæla svo fyrir að kæra úrskurðar fresti aðfarargerð samkvæmt heimild í 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða gerðarþola til þess að greiða gerðarbeiðanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                              Úrskurðarorð

Gerðarbeiðanda, M, er heimilt að fá barnið, A, tekið úr umráðum gerðarþola, K, í síðasta lagi 21. júlí 2008 til þriggja vikna sumarumgengni gerðarbeiðanda og dótturinnar A samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2005.

Gerðarbeiðanda er og heimilt að fá barnið, A, framvegis tekið úr umráðum varnaraðila, til reglulegrar umgengni gerðarbeiðanda og dótturinnar A samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2005, þannig að sú umgengni hefjist miðvikudaginn 10. september 2008 og verði síðan annan hvern miðvikudag eftir það.

Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda 200.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.