Hæstiréttur íslands
Mál nr. 602/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Fimmtudaginn 29. október 2009. |
|
Nr. 602/2009. |
Kristinn Sigurjónsson(Kristinn Sigurjónsson hrl.) gegn Böðvari Bragasyni (enginn) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu K um að dómari viki sæti í máli sem hann hafði höfðað gegn B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari viki sæti í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu og sérstökum setudómara, sem sé óháður Héraðsdómi Reykjavíkur, gert að fara með það ásamt sérfróðum meðdómendum. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu er aðeins hinn kærði úrskurður til endurskoðunar og getur sóknaraðili ekki haft uppi kröfur um annað en það sem þar var til meðferðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Af því leiðir að ekki eru efni til að taka kröfu sóknaraðila um kærumálskostnað til greina.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2009.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 1. október sl., um kröfu stefnanda að dómari málsins víki sæti, er höfðað af Kristni Sigurjónssyni, Reykjavíkurvegi 33, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 18. mars 2009.
Dómkröfur stefnanda eru þær, „1. Að stefnda verði gert með dómi, að nema á brott allan gróður v/aspartrjáa af landi stefnanda, en þessi gróður er aðallega trjágreinar, sem nema nokkrum metrum inn á lóð stefnanda, svo og ofaná liggjandi rætur, sem hvoru tveggja stafa af asparrækt stefnda á lóðarmörkum. Enn fremur, að stefndi lækki aspartré sín á lóðarmörkum niður í 1.80 metra, svo að eigi valdi aspirnar skuggamyndun á lóð stefnanda. 2. Stefnda verði gert að greiða kr. 5.000 í dagsektir, 15 dögum eftir uppkvaðningu dóms í máli þessu, verði hann eigi við niðurstöðu dómsins. 3. Krafist er málskostnaðar að mati dómsins ásamt dráttarvöxtum frá uppkvaðningu dóms til greiðsludags, skv. 6. gr. laga nr. 38/2001. 4. gerð er sú krafa, að settur verði sérstakur setudómari í máli þessu, sem er óháður Héraðsdómi Reykjavíkur, svo og sérfróðir meðdómendur.“
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá gerir stefndi þá kröfu að nánar tilgreind ummæli í stefnu verði dæmd dauð og ómerk, en til vara að stefnandi sæti réttarfarssekt. Auk þess krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Dómari máls þessa fékk málinu úthlutað 1. júní sl. Í fyrsta þinghaldi eftir úthlutun málsins var málinu frestað til 1. október, þar sem lögmönnum aðila var gefinn kostur á að tjá sig um fram komna körfu stefnanda um að dómari málsins viki sæti.
Stefnandi færði þau rök fyrir kröfu sinni um að dómari málsins víki sæti, að Ingimundur Einarsson héraðsdómari hafi verið vanhæfur til þess að dómkveðja matsmenn í málið, eins og hann hafi gert, þar sem hann hafi fyrrum verið aðstoðarmaður stefnda, er stefndi var lögreglustjóri í Reykjavík. Hafi Ingimundur dómkvatt Steinþór Einarsson, sem áður hafi unnið fyrir stefnda við að planta umdeildum trjám, sem og aðstoðað stefnda við að taka gróðurmold af eign stefnanda. Samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er dómari vanhæfur til að fara með mál, ef fyrir hendi eru aðstæður, sem fallnar eru til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
Sakarefni máls þessa er alls óviðkomandi störfum Ingimundar Einarssonar og skipta fyrrum tengsl Ingimundar og stefnda ekki máli við úrlausn þess. Þá leiðir það ekki til vanhæfis dómara að fara með málið þó svo að stefnandi telji, að Ingimundur Einarsson héraðsdómari hafi ekki verið hæfur til þess að dómkveðja matsmann, að hans beiðni, en stefnandi hefur lagt fram þá matsgerð í málinu. Getur það ekki leitt til vanhæfis dómara þó svo að stefnandi telji þá matsgerð ekki vera hlutlausa, enda eru stefnanda færar aðrar leiðir til þess að sanna mál sitt svo sem með því að afla annarrar matsgerðar, telji hann svo vera. Eru og engin þau tengsl á milli Ingimundar Einarsson héraðsdómara og dómara málsins, þannig að stefnandi hafi af þeim sökum réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni dómarans í efa.
Með vísan til framanritaðs eru því ekki lagaskilyrði til þess, að dómari hliðri sér hjá því að fara með málið. Ber því að hafna kröfu stefnanda um að dómari víki sæti í málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu stefnanda, Kristins Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, um að dómari víki sæti.