Hæstiréttur íslands

Mál nr. 532/2009


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Skaðabætur


                                                        

Fimmtudaginn 27. maí 2010.

Nr. 532/2009.

Íslensk tækni ehf.

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

Kristni Hallbirni Þorgrímssyni

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

Ráðningarsamningur. Riftun. Skaðabætur.

K starfaði sem verslunarstjóri í versluninni D, sem var í eigu Í ehf., og stundaði viðskipti með gæludýr og gæludýravörur. Hann sinnti einnig eftirliti með verslun Í ehf. utan venjulegs vinnutíma. Í lok júní tilkynnti K um þau áform sín að hefja samkeppnisrekstur við Í ehf.  og þann 30. júní 2006 sagði hann upp störfum og hóf töku orlofs sem hann átti inni. Þann 31. júlí 2006 var K tilkynnt að ekki yrði óskað eftir því að hann ynni þriggja mánaða uppsagnarfrest. Með tilkynningu  forsvarsmanns Í ehf. þann 3. ágúst sama ár var K fyrirvaralaust sagt upp störfum og kröfu hans til launa í uppsagnarfresti hafnað. Hann var jafnframt sakaður um refsiverða háttsemi. K höfðaði mál og krafði Í ehf. meðal annars um greiðslu bóta sem jafngiltu launum í uppsagnarfresti vegna ágúst og september 2006 og miskabóta. Talið var að þær ásakanir sem Í ehf. hefði borið á K um þjófnað og fjárdrátt, og lagt til grundvallar fyrirvaralausri uppsögn hans, hefðu verið tilhæfulausar. Þá var ekki fallist á K hefði brotið gegn starfs- og trúnaðarskyldum sínum við Í ehf. með áformum um fyrirhugaðan samkeppnisrekstur. Fyrirvaralaus riftun Í ehf. á ráðningarsamningi aðila var því talin óréttmæt og þær sakir sem á hann voru bornar voru taldar fela í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hans og æru. Var fallist á kröfur K í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að krafa hans verði lækkuð og dráttarvaxtakröfu vísað frá dómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fallist er á með héraðsdómi að tilvísun til lagaákvæða vegna vaxtakröfu sé fullnægjandi og verður því körfu áfrýjanda um frávísun hennar hafnað.

Stefndi hafði unnið hjá áfrýjanda frá vori 1998 þegar hann sagði upp störfum 30. júní 2006. Hóf hann þá jafnframt töku orlofs sem hann átti inni. Ágreiningslaust er nú að þriggja mánaða uppsagnarfrestur stefnda hófst 1. júlí 2006. Þann mánuð var hann í orlofi og krefst hann bóta sem jafngilda launum í uppsagnarfresti vegna ágúst og september sama ár. Frá 1. október 2005 hafði stefndi fengið í föst mánaðarlaun 451.000 krónur. Er ágreiningur um hvort þar var um heildarlaun að ræða eða hvort stefndi naut að auki réttar til aukafrídaga vegna þess að sinna þurfti dýrum í verslun áfrýjanda um helgar og á hátíðisdögum. Stefnda var tjáð 31. júlí 2006 að ekki væri óskað eftir að hann ynni í uppsagnarfresti, og 3. ágúst sama ár var honum fyrirvaralaust sagt upp störfum og kröfu hans til launa í uppsagnarfresti hafnað. Um málavexti og málsástæður aðila er að öðru leyti vísað til hins áfrýjaða dóms.

Eins og lýst er í héraðsdómi leiddi rannsókn lögreglu í ljós að ásakanir sem áfrýjandi bar á stefnda um þjófnað og fjárdrátt og lagði til grundvallar fyrirvaralausri uppsögn hans voru tilhæfulausar. Áfrýjandi byggir og á þeirri málsástæðu að stefndi hafi brotið trúnaðarskyldu gagnvart sér með því að undirbúa á uppsagnarfresti rekstur í samkeppni við áfrýjanda, en til þessa var ekki vísað í uppsagnarbréfi áfrýjanda. Fram er komið að stefndi hafði, áður en hann sagði upp starfinu, tjáð áfrýjanda að hann hefði í hyggju að stofna eigið fyrirtæki á gæludýramarkaði. Nægilega er upplýst í málinu að stefndi leigði húsnæði fyrir slíka starfsemi í október 2006 og opnaði verslun þar í byrjun desember sama ár. Framangreint þykir ekki fela í sér brot á starfs- og trúnaðarskyldum stefnda og skráning félags í ágústmánuði þykir ekki breyta neinu þar um. Áfrýjandi hefur ekki byggt á því að stefndi hafi skuldbundið sig til að stunda ekki samkeppnisrekstur í einhvern tiltekinn tíma eftir starfslok. Fyrirvaralaus riftun áfrýjanda á ráðningarsamningi stefnda var því óréttmæt og á stefndi rétt á bótum sem jafngilda launum í uppsagnarfresti fyrir ágúst og september 2006 eins og endanleg krafa hans hljóðar um.

Áfrýjandi byggir á því að stefnda hafi borið að takmarka tjón sitt með því að ráða sig í aðra vinnu á uppsagnarfresti, en þess í stað hafi hann unnið að því að setja á fót eigið fyrirtæki í samkeppni við áfrýjanda. Því er áður svarað að stefndi telst ekki hafa rofið trúnað við áfrýjanda. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefndi hafi aflað tekna hjá öðrum á uppsagnarfresti og heldur ekki að hann hafi hafnað kostum sem honum hafi boðist í því efni. Héraðsdómur fjallaði ekki sérstaklega um þessa málsástæðu áfrýjanda, en eftir atvikum þykir það þó ekki eiga að varða ómerkingu héraðsdóms.

Með vísan til alls framangreinds verður fallist á með héraðsdómi að stefndi eigi rétt til bóta sem jafngilda launum í tvo mánuði, og með vísan til forsendna dómsins verður staðfest niðurstaða hans um önnur efnisatriði, tildæmda fjárhæð, dráttarvexti og málskostnað.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Íslensk tækni ehf., greiði stefnda, Kristni Hallbirni Þorgrímssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2009.

I

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 7. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristni Hallbirni Þorgrímssyni, kt. 141274-3689, Birkiteig 2, Mosfellsbæ, með stefnu, birtri 16. janúar 2008, á hendur Íslenskri tækni ehf., kt. 530476-0579, Grensásvegi 14, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda vangoldin laun auk miskabóta, samtals að fjárhæð kr. 1.749.736, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af kr. 301.774 frá 1. ágúst til 3. ágúst 2006 og frá þeim degi af kr. 601.774 til 1. september 2006 og frá þeim degi af kr. 1.136.022 til 1. nóvember 2006 og frá þeim degi af kr. 1.749.736 til greiðsludags. Þá er þess krafizt, að dæmt verði, að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. ágúst 2007, en síðan árlega þann dag. Enn fremur er krafizt málskostnaðar að mati dómsins, sem beri vexti samkvæmt 3. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafizt virðisauka af málskostnaði, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega, að hann verði sýknaður að kröfu stefnanda, en til vara, að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og dráttarvaxtakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Jafnframt er þess krafizt, að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, verði fallizt á aðalkröfu hans, en ella að málskostnaður milli aðila falli niður.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að stefndi rekur verzlunina Dýragarðinn, sem selur með gæludýr og gæludýravörur. Samtals eru verzlanir stefnda þrjár, tvær í Reykjavík, á Grensásvegi og í Skútuvogi, og ein á Akureyri. Stefnandi hóf störf hjá stefnda, Dýraríkinu ehf., í maí 1998 og starfaði sem verslunarstjóri í verzluninni Dýraríkinu á Grensásvegi. Stefnandi starfaði einnig við eftirlit með verzlun stefnda utan venjulegs vinnutíma, sem fólst meðal annars í því að fóðra og annast dýr, sem í verzlun voru. Félagið hefur nú verið sameinað öðru félagi og heitir Íslensk Tækni ehf., og yfirtók félagið öll réttindi og skyldur gagnvart stefnanda.

Laun stefnanda voru framan af greidd samkvæmt tímaskráningu, sem hann hélt utan um sjálfur, en frá 1. október 2005 fékk hann föst laun, kr. 451.000 á mánuði. Stefnandi hafði einnig afnot af bifreið í eigu stefnda, og kveður stefndi hann hafa haft bifreiðina jafnt til afnota vegna vinnu sem og til einkanota.

Greinir aðila á um, hvort um heildarlaun hafi verið að ræða frá 1. október 2005, eða hvort stefnandi átti að fá greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu.

Stefnandi kveður vinnu utan venjulegs vinnutíma, auk vinnu á stórhátíðisdögum og öðrum helgidögum, hafa skapað sérstakan frítökurétt samkvæmt venju milli aðila. Stefndi hafnar því og kveður hin föstu laun hafa verið heildarlaun.

Hinn 28. júní 2006 óskaði stefnandi, ásamt öðrum starfsmanni, Gunnari Wedholm Helgasyni, eftir fundi með forsvarsmanni stefnda. Stefndi kveður stefnanda og nefndan Gunnar hafa krafizt þess á fundinum, að þeir yrði meðeigendur í fyrirtækinu. Forsvarsmaður stefnda kveðst hafa óskað eftir umhugsunarfresti vegna þessarar kröfu.

Tveimur dögum síðar sögðu stefnandi og Gunnar Wedholm samtímis upp störfum sínum, en stefndi kveðst ekki, á þeim tíma, hafa verið búinn að svara kröfum þeirra um að gerast meðeigendur.

Stefndi kveðst hafa orðið þess áskynja, skömmu eftir að stefnandi sagði upp störfum, að stefnandi hefði verið í samskiptum við samkeppnisaðila stefnda og m.a. tjáð honum u.þ.b. viku fyrir uppsögnina, að hann og nefndur Gunnar ætluðu að stofna eigið fyrirtæki og fara í samkeppni við stefnda.

Eftir að stefnandi sagði upp störfum hafi komið upp mál, sem varði misnotkun stefnanda á stöðu sinni. Forsvarsmaður stefnda hafi komizt að því, þegar hann hugðist rukka viðskiptamann sinn, Húsgagnaverslunina Smart sófa, um uppsetningu fiskabúrs, að stefnandi hefði komið fram sem eigandi stefnda og tekið út vörur sem greiðslu fyrir fiskabúrið og uppsetningu þess. Þetta hafi forsvarsmaður Smart sófa staðfest með yfirlýsingu, dags. 1. ágúst 2006. Þá hafi annar starfsmaður stefnda komið fram, eftir að stefnanda hafði verið sagt upp störfum, og greint frá því, að stefnandi hefði tekið fræhreinsivél úr verzluninni og ekki skilað, þrátt fyrir áskoranir þar um.

Málið var kært til lögreglu í byrjun ágúst 2006 og stefnanda jafnframt tilkynnt þann 31. júlí 2006, að ekki yrði óskað eftir vinnuframlagi hans í uppsagnafresti vegna brota á trúnaðarskyldu. Þann 3. ágúst 2006 var stefnanda formlega sagt upp störfum með símskeyti. Var þá, að sögn stefnda, búið að greiða honum laun fyrir einn mánuð uppsagnarfrests, þ.e. fyrir júlímánuð 2006.

Stefnandi heldur því hins vegar fram, að ákveðið hefði verið með þó nokkrum fyrirvara, að stefnandi tæki sér sumarfrí allan júlímánuð 2006.

Stefnandi á nú og rekur eigin gæludýraverslun að Síðumúla 10. Hlutafélag um verzlunina var stofnað 29. ágúst 2006, en verslunin var opnuð formlega þann 2. desember 2006.

Kærumálið á hendur stefnanda var fellt niður og var sú niðurfelling kærð til ríkissaksóknara, sem lagði fyrir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, að taka málið upp á ný. Við endurupptöku málsins þótti ekki tilefni til aðgerða af hálfu lögreglu.

Stefnandi kveður sér hafa borizt bréf hinn 3. ágúst 2006, þar sem fram komi ásakanir um þjófnað og fjárdrátt stefnanda í störfum hjá stefnda. Jafnframt hafi honum verið sagt fyrirvaralaust sagt upp störfum og hafi vinnuframlagi, ásamt greiðslu launa á uppsagnarfresti, alfarið verið hafnað. Stefnandi kveðst hafa leitað aðstoðar VR og svarað ásökunum stefnda í bréfi, dags. 8. ágúst 2006. Í svari stefnanda hafi verið áskilinn réttur til launa í uppsagnarfresti, auk miskabóta, enda hafi stefnandi í engu brotið starfsskyldur sínar.

Hið rétta sé, að stefnandi hafi sett upp fiskabúr í frítíma sínum, ásamt Eldjárni Hallgrímssyni, vinnufélaga sínum, fyrir aðila, sem hefði keypt notað fiskabúr. Þau viðskipti komi stefnda ekkert við.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi hafi, einhliða og á ólögmætan hátt, haldið eftir launagreiðslum til stefnanda. Laun vegna ágúst og september 2006 hafi ekki verið greidd, auk orlofs, sem hafi átt að greiða við starfslok, skv. 8. gr. laga um orlof nr. 30/1987. Stefnandi hafi verið í orlofi allan júlímánuð 2006 og hafi því nýtt 21 frídag af þeim 24 dögum, sem hann hafi verið búinn að ávinna sér vegna orlofsársins 2005-2006. Stefnandi eigi því kröfu til þriggja daga orlofs vegna orlofsársins 2005-2006.

Auk lögbundins orlofs hafi stefnandi áunnið sér samtals 11,5 frídaga vegna skerðingar á frítökurétti. Hafi hann áunnið sér 6 daga sérstakan frítökurétt vegna eftirlits með verzlun, auk þess að fóðra og hugsa um dýrin, sem hafi verið í verzlun stefnda. Vinnan hafi meðal annars farið fram á stórhátíðadögum og öðrum helgidögum. Vegna álags í desember hafi aðilar samið svo um, og hafi stefnandi áunnið sér tveggja daga frítökurétt.

Umsamið hafi verið milli aðila, að stefnandi fengi auka-orlofsdaga í stað styttingar vinnuvikunnar úr 40 klst. í 39,5 klst., eins og samið hafi verið um í október 2000, sbr. kafla 2.1 í kjarasamningi VR og SA, sem gerður hafi verið í maí 2000. Hafi stefnandi áunnið sér vegna þessa samkomulags samtals 3,5 auka-orlofsdaga. Stefnandi eigi því samtals, auk launa í uppsagnarfresti og orlofs, kröfu til greiðslu launa vegna 11,5 viðbótarfrídaga.

Gerð sé krafa um laun í uppsagnarfresti vegna ágúst og september 2006, orlofs af launum í uppsagnarfresti, greiðslu launa vegna viðbótarfrídaga, vangoldins orlofs vegna orlofsársins 2005-2006, auk desember- og orlofsuppbóta.

Þá sé krafið um bætur vegna ólögmætrar meingerðar gegn æru og persónu stefnanda með ásökunum um þjófnað, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993

Krafan sundurliðist sem hér segi:

Laun vegna ágúst 2006

kr. 451.000

Laun vegna september 2006

kr. 451.000

Viðbótarfrídagar 11.5 dagar (451.000/21,67* 11,5)

kr. 239.338

Orlof v/ 2005-2006, 3 dagar

kr.  62.436

Orlof v/2006/2007, 10 dagar                           

kr. 208.120

Orlofsuppbót 5/12 hluti.

kr.  7.042

Desemberuppbót 8/12 hluti.                          

kr.  30.800

Miskabætur sbr. 26. gr. skaðabótalaga

kr. 300.000

Höfuðstóll

kr. 1.749.736

Þar sem innheimtutilraunir, sbr. bréf frá VR, dags. 8. ágúst 2006, auk ítrekunar, dags. 27. október 2006, og bréf frá Guðmundi B. Ólafssyni hrl., dags. 6. nóvember 2006, hafi reynzt árangurslausar, sé málshöfðun nauðsynleg.

Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við lög um orlof nr. 30/1987, lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002, skaðabótalög nr. 50/1993, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar og kjarasamninga Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og vinnuveitenda, og bókanir, sem teljist hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og kröfur um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sbr. 4. tl. 129. gr. um vexti af málskostnaði. Einnig sé krafizt virðisaukaskatts af málskostnaði, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður stefnda

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að hann hafi haft fulla heimild til þess að víkja stefnanda fyrirvaralaust úr starfi, þar sem hann hafi bæði orðið uppvís að óverjandi háttsemi og brotið gegn trúnaðar- og heiðarleikaskyldu sinni við stefnda.

Stefndi telji sannað, að stefnandi hafi gerzt brotlegur í starfi, þegar hann hafi blekkt viðskiptamenn stefnda og selt vörur í eigin nafni. Slíkt hafi á engan hátt verið í samræmi við verksvið stefnanda og brottrekstrarsök. Mótmælt sé skýringum stefnanda í þessu efni í stefnu.

Stefndi telji augljóst, að á þeim tíma, sem stefnanda var sagt upp störfum, hafi hann þegar verið búinn að hefja undirbúning að stofnun hlutafélagsins Amazon Imports, sem reki gæludýraverzlunina Dýragarðinn að Síðumúla 10, Reykjavík. Samkvæmt hlutafélagskrá séu samþykktir félagsins dagsettar 29. ágúst 2006, og sé stefnandi stjórnarmaður og prókúruhafi. Undirbúningur að stofnun félagsins hafi því augljóslega hafizt á uppsagnarsagnarfresti stefnanda, þegar hann hafi enn verið bundinn af ráðningarsamningi sínum við stefnda, þ.e. trúnaðar-, hollustu- og heiðarleikaskyldu, og hafi ekki mátt fara í samkeppni við stefnanda.

Verzlun stefnanda, Dýragarðurinn, sé í beinni samkeppni við verzlun stefnda, Dýraríkið. Undirbúningur stefnanda að því að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri, án þess að stefndi væri upplýstur um slík áform, sé ósamrýmanlegur þeirri trúnaðarskyldu, sem stefnandi hafi borið gagnvart stefnda. M.a. með vísan í dóm Hæstaréttar í máli nr. 500/1998 frá 20. maí 1999 telji stefndi sig hafa haft heimild til þess að víkja stefnanda úr starfi. Jafnframt sé vísað til hæstaréttardóms í máli nr. 606/2006 frá 5. desember 2006.

Með allri þessari háttsemi sinni, sem framkvæmd hafi verið af ásetningi, hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til launa í þá tvo mánuði af uppsagnarfrestinum, sem eftir hafi verið, þegar stefndi vék honum úr starfi vegna brota hans í starfi, sem augljóslega hafi skaðað fyrirtæki stefnda. Harðlega sé mótmælt fullyrðingum um, að eitthvert samkomulag hafi verið um það, að júlímánuður 2006 yrði ekki fyrsti mánuður uppsagnarfrests stefnanda.

Stefndi mótmæli sérstaklega kröfu stefnanda um orlofsgreiðslu og útreikningi orlofskröfunnar. Eins og áður sé rakið, hafi, í október 2005, verið endursamið við stefnanda um kaup og kjör. Frá þeim tíma hafi hann verið með kr. 451.000 í laun á mánuði. Þessi laun hafi verið heildarlaun, þ.e. fyrir alla vinnu unna í þágu stefnda, bæði dagvinnu og yfirvinnu. Yfirvinna, væri hún unnin, hafi ekki skapað stefnanda neinn rétt, hvorki rétt til frekari launagreiðslna né frítökurétt. Krafa um uppsöfnun vikulegra frídaga eigi enga stoð í kjarasamningi SA og VR. Allar fullyrðingar stefnanda um annað séu rangar.

Stefnandi hafi verið yfirmaður. Hann hafi gegnt stöðu verzlunarstjóra og séð sjálfur um að skipuleggja vinnutíma sinn og annarra starfsmanna. Fyrirmæli forsvarsmanns stefnda til stefnanda sem verzlunarstjóra hafi verið þau, að allir starfsmenn fengju a.m.k. einn frídag í viku. Það hafi verið verkefni stefnanda sem verzlunarstjóra að framfylgja þeim fyrirmælum og raða starfsmönnum á vaktir með þeim hætti, að þessi fyrirmæli væru virt. Skýrt komi fram í gr. 2.4.2 í kjarasamningi VR, að forsenda frítökuréttar vegna brota á ákvæði um 11 klst. lágmarkshvíld á sólarhring sé sú, að starfsmaður sé sérstaklega beðinn um að brjóta á hvíldartímaákvæðum. Slík brot skuli skráð og viðurkennd með áritun á launaseðli. Vikulegir frídagar samkvæmt gr. 2.4.4. safnist hins vegar ekki upp samkvæmt kjarasamningi. Um slík lögbrot hafi einfaldlega ekki verið samið í kjarasamningi. Vikulegir frídagar séu aldrei launaðir dagar, nema frí sé tekið á virkum degi. Þetta sé jafnframt ljóst af bókun, sem sé hluti af gr. 2.4.4. Samtök atvinnulífsins hafi harðlega mótmælt slíkri kröfugerð löngu eftir starfslok launafólks.

Þá byggi stefndi sýknukröfu sína á tómlæti. Stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti við innheimtu meintrar launakröfu, að hann hafi fyrirgert rétti sínum til kröfunnar, eigi hann hana. Krafa um vangreidd orlofslaun, meinta yfirvinnu og frítökurétt komi fyrst fram eftir starfslok stefnanda. Þessar nýju launakröfur séu hreinn tilbúningur stefnanda. Stefna í máli þessu sé ekki þingfest fyrr en 24. janúar 2008, tæplega einu og hálfu ári eftir að stefndi sagði stefnanda upp störfum.

Til stuðnings varakröfu um lækkun stefnukröfunnar vísi stefndi til sömu málsástæðna og um aðalkröfu. Stefnandi beri sjálfur alla ábyrgð á starfslokum sínum, og hafi hann sjálfur hafið undirbúning eigin reksturs í beinni samkeppni við stefnda á uppsagnarfresti. Óskýrt sé með öllu, af hverju stefnandi hafi ekki fundið ekki annað launað starf á þeim tveimur mánuðum, sem eftir voru af uppsagnarfrestinum. Eina og augljósasta skýringin á því sé sú, að stefnandi hafi þá þegar verið búinn að stofna til eigin atvinnurekstrar og hafi notað þessa tvo mánuði til þess að undirbúa opnum verzlunar í samkeppni við stefnda.

Allar tekjur, sem stefnandi hafi aflað eða getað aflað á uppsagnarfresti, eigi að koma til frádráttar kröfu hans. Sama gildi um tekjur vegna vinnu stefnanda í eigin þágu, m.a. vegna stofnunar eigin atvinnurekstrar.

Þá sé kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga mótmælt sérstaklega. Stefnandi beri sjálfur alla sök á starfslokum sínum. Stefndi telji áskilnaði um greiðslu miskabóta ekki vera fullnægt. Stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til þess að kæra stefnanda til lögreglu, eftir að í ljós hafi komið, að hann hafi þótzt vera eigandi stefnanda og tekið út vörur hjá viðskiptavini vegna kröfu stefnda á þann sama viðskiptavin. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram neina sönnun á því, að uppsögnin hafi valdið honum miska.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt og þess krafizt, að henni verði vísað frá dómi, þar sem hún sé hvorki mörkuð með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót, né með vísun til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Um málskostnaðarkröfu stefnda vísist til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 130. gr.

Við munnlegan málflutning kvaðst lögmaður stefnda, auk þess sem fram kemur í greinargerð stefnda, byggja á þeirri málsástæðu, að stefnandi hefði gerzt brotlegur í starfi, þegar hann setti upp fiskabúr í eigin nafni, en ekki í nafni fyrirtækisins. Kvaðst lögmaðurinn telja málsástæðu þessa felast í fyrstu málsástæðu stefnda í greinargerð.

Af hálfu stefnanda var málsástæðu þessari mótmælt sem of seint fram kominni. Þá mótmælti hann yfirlýsingu á dskj. nr. 16 sem óstaðfestri, auk þess sem hann lýsti því yfir, að uppsetning fiskabúra hefði ekki verið hluti af starfsemi stefnda.

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar auk stefnanda og fyrirsvarsmanns stefnda, Gunnars Vilhelmssonar, Bjarney Gunnarsdóttir skrifstofumaður og meðeigandi stefnda, Birgir Sigþórsson, fyrrum starfsmaður Dýraríkisins, Kristín Erna Reynisdóttir, starfsmaður Dýraríkisins, og Eldjárn Már Hallgrímsson, fyrrum starfsmaður Dýraríkisins.

Ágreiningslaust er með aðilum, að stefnandi sagði upp störfum hjá stefnda hinn 30. júní 2006 með hefðbundnum uppsagnarfresti. Hann tók sumarleyfi í júlímánuði og greiddi stefndi honum laun fyrir þann mánuð athugasemdalaust, en hann hefur hins vegar haldið því fram, að sá mánuður teljist fyrsti mánuður uppsagnarfrests.

Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi, sem fyrirsvarsmaður stefnda hefur jafnframt staðfest, tilkynnti stefnandi stefnda í lok júní, að hann hygðist fara í samkeppni við stefnda, og kveðst fyrirsvarsmaður stefnda hafa tekið þá tilkynningu alvarlega. Engu að síður greiddi hann stefnanda laun í júnímánuði án athugasemda, svo sem fyrr segir, og liggur ekki annað fyrir, að hann hafi á þeim tíma fallizt á, að stefnandi ynni í uppsagnarfresti. Það var fyrst í lok júlí, að stefndi tilkynnti stefnanda með símskeyti, að ekki væri óskað starfsframlags hans á meðan mál vegna meintra misfellna í starfi væri til rannsóknar, og hinn 3. ágúst 2006 barst stefnanda uppsagnarbréf, þar sem honum var vikið fyrirvaralaust úr starfi og gefið að sök að hafa stungið greiðslum til fyrirtækisins í eigin vasa.

Stefndi kærði meint misferli til lögreglu, en rannsókn lögreglu leiddi ekki í ljós, að stefnandi hefði gerzt sekur um þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök og leiddu til fyrirvaralausrar uppsagnar hans.

Við skýrslugjöf fyrir dómi skýrði fyrirsvarsmaður stefnda svo frá, að hann hefði ranglega talið, að fiskabúr það, sem stefnandi setti upp ásamt félaga sínum Eldjárni og sem var tilefni kæru hans til lögreglu, hefði verið tekið úr eigu Dýraríkisins.

Þá kom fram í framburði stefnanda, sem staðfest var samkvæmt framburði Kristínar Ernu Reynisdóttur starfsmanns í Dýraríkinu, að stefnandi hefði fengi fræhreinsivél þá, sem getið er í lögreglukæru, að láni.

Samkvæmt framansögðu var fyrirvaralaus uppsögn stefnanda úr starfi án tilefnis og bera stefnanda því laun í uppsagnarfresti. Síðar til komnar ástæður, svo sem meint samkeppni við stefnda, breyta ekki þessari niðurstöðu, enda var stefnda kunnugt um, að slíkt stæði fyrir dyrum, þegar hann sendi uppsagnarbréfið, án þess að hann teldi það vera brot á trúnaði á þeim tíma. Þá liggur einnig fyrir, að sú samkeppni hófst ekki fyrr en nokkru eftir að uppsagnarfresti lauk.

Ekki liggur annað fyrir en að stefnandi hafi átt inni sumarorlof, þegar hann sagði upp störfum, og er ljóst, að stefndi leit einnig svo á með því að greiða honum laun í júlímánuði, þótt stefnandi væri ekki við störf þann mánuð, og er ekki fallizt á, að orlof stefnanda falli innan uppsagnarfrests hans.

Stefndi byggir á því, að stefnandi eigi ekki kröfu til orlofslauna, þar sem laun hans frá október 2005 hafi verið heildarlaun fyrir alla vinnu í þágu stefnda, bæði vegna dagvinnu og yfirvinnu. Hafi unnin yfirvinna því hvorki skapað stefnanda rétt til frekari launagreiðslna né frítökurétt.

Stefndi hefur hins vegar ekki borið á móti því, að stefnandi hafi unnið á frídögum, bæði á stórhátíðum sem og öðrum helgidögum, svo sem stefnandi heldur fram í stefnu. Stefnandi hefur haldið því fram, að sú vinna hafi skapað honum rétt til aukafrídaga.          

Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda. Ber stefndi því sönnunarbyrðinga fyrir því, að samið hafi verið svo milli aðila, að mánaðarlaun stefnanda, eins og þau voru frá október 2005, skyldu vera heildarlaun. Með því að stefndi hefur ekki haldið því fram, að frídagafjöldi vegna helgidagavinnu stefnanda sé rangt reiknaður, verður þessi kröfuliður tekinn til greina að fullu. Þá er enn fremur ósannað, að ekki hafi átt að bæta stefnanda umframvinnu vegna styttingar vinnuvikunnar með aukafrídögum, en af hálfu stefnda er því ekki andmælt að stefnandi hafi unnið þá umframvinnu.

Ákvæði kjarasamnings VR og Samtaka atvinnulífsins um, að uppsafnaður frítökuréttur skuli koma fram á launaseðli, tengist skerðingu á hvíldartíma. Á því er krafa stefnanda þó ekki byggð, og er því ekki fallizt á varnir stefnda, sem lúta að því, að ekki hafi verið skráð um frítökurétt á launaseðla stefnanda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á tómlæti stefnanda við innheimtu kröfunnar.

Mál þetta er höfðað með birtingu stefnu hinn 16. janúar 2008. Með bréfi VR til stefnda, dags. 8. ágúst 2006, gerði félagið, f.h. stefnanda, fyrirvara um launakröfur stefnanda, auk þess sem óskað var staðfestingar á því, að kæra á hendur stefnanda vegna meintra auðgunarbrota væri komin til lögregluyfirvalda. Lögreglurannsókn lauk hins vegar ekki fyrr en skömmu fyrir aðalmeðferð máls þessa, og er ekki fallizt á, að stefnandi hafi með tómlæti fyrirgert launakröfum sínum, enda höfðaði hann málið, á meðan meint auðgunarbrot hans voru enn til rannsóknar hjá lögreglu.

Stefndi hefur ekki sérstaklega andmælt útreikningi stefnanda á orlofsdögum, orlofsuppbót eða desemberuppbót, og er fallizt á þær kröfur sem hluta af samningsbundnum launakjörum stefnanda.

Síðasti kröfuliður stefnanda er miskabótakrafa að fjárhæð kr. 300.000.

Stefnandi var kærður fyrir meint auðgunarbrot til lögreglu, enda þótt síðar hafi komið í ljós, að aðaltilefni kærunnar, stuldur á fiskabúri úr verzlun stefnda, ætti sér enga stoð og umrætt búr hafi aldrei verið í eigu stefnda. Þá kom einnig í ljós, að stefnandi hefði fengið fræhreinsivél í eigu stefnda að láni. Komu engar sannanir fram við rannsókn lögreglu um misferli af hálfu stefnanda af neinum toga. Var lögreglukæran þannig illa grunduð og er fallizt á með stefnanda, að þær sakir, sem á hann voru bornar, hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hans og æru samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1990. Þykir miskabótakröfu stefnanda vegna þessa í hóf stillt og er tekin til greina að fullu.

Málsástæða stefnda, sem fram kom við munnlegan málflutning kemur ekki fram í stefnu og telst, gegn andmælum stefnanda, of seint fram komin og kemur því ekki til álita hér.

Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina að fullu og dæmast vextir eins og krafizt er, en ekki er fallizt á, að tilvísun til lagaákvæða vegna vaxtakröfu sé ófullnægjandi.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 500.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Íslensk tækni ehf., greiði stefnanda, Kristni Hallbirni Þorgrímssyni, kr. 1.749.736, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af kr. 301.774 frá 1. ágúst 2006 til 3. ágúst 2006 og frá þeim degi af kr. 601.774 til 1. september 2006 og frá þeim degi af kr. 1.136.022 til 1. nóvember 2006 og frá þeim degi af kr. 1.749.736 til greiðsludags, og leggjast dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. ágúst 2007. Þá greiði stefndi stefnanda kr. 500.000 í málskostnað.