Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-60
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Almannatryggingar
- Stjórnvaldsákvörðun
- Lögskýring
- Stjórnarskrá
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 21. apríl 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. mars 2023 í máli nr. 207/2022: A gegn Tryggingastofnun ríkisins. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að ákvörðun gagnaðila um að synja leyfisbeiðanda um heimilisuppbót. Leyfisbeiðandi höfðaði mál á hendur gagnaðila og krafðist þess að ákvörðun hans og úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðunina yrðu ógilt.
4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda staðfest að öðru leyti en því að vísað var frá héraðsdómi kröfu leyfisbeiðanda um að felld yrði úr gildi ákvörðun gagnaðila um að synja leyfisbeiðanda um greiðslu heimilisuppbótar. Í dómi Landsréttar kom fram að synjun gagnaðila og úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi byggst á því að leyfisbeiðandi teldist ekki hafa verið einhleyp í skilningi 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem hún hefði verið skráð í sambúð í Þjóðskrá á þeim tíma sem umsókn hennar tók til. Þrátt fyrir að óumdeilt væri að leyfisbeiðandi og barnsfaðir hennar hefðu slitið samvistum árið 2015 taldi Landsréttur það felast í ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur að ekki hefði verið heimilt að „slíta skráðri sambúð“ leyfisbeiðanda og þáverandi sambýlismanns hennar fyrr en ágreiningi sem þau áttu í vegna barna sinna hefði verið ráðið til lykta. Samkomulag um það hefði verið staðfest af sýslumanni 2020 og þau skráð úr sambúð í kjölfarið.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi einkum að því er að varðar skýringu á hugtakinu óvígð sambúð í lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í niðurstöðu Landsréttar felist að leggja beri skráningu sambúðar í þjóðskrá til grundvallar úrlausn um réttindi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 99/2007 og 100/2007 óháð raunverulegri sambúðarstöðu þeirra. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að sú niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að óheimilt hafi verið að slíta skráðri sambúð leyfisbeiðanda og fyrrum sambýlismanns hennar fyrr en ágreiningi sem þau áttu í vegna forsjár barna sinna hefði verið ráðið til lykta með staðfestingu sýslumanns. Þessari niðurstöðu verði hvorki fundin stoð í ákvæðum 31. gr. barnalaga né 5. eða 6. gr. laga nr. 80/2018 sem vísað er til í dómi Landsréttar. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til þess að með ákvörðuninni hafi henni verið synjað um aðstoð í skilningi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sem hún hafi haft þörf fyrir vegna örorku og að slík ákvörðun þurfi að eiga sér skýra stoð í lögum. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða um framangreint hafi verulegt almennt gildi.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.