Hæstiréttur íslands
Mál nr. 157/2000
Lykilorð
- Embættismenn
- Áminning
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 19. október 2000. |
|
Nr. 157/2000. |
Sigurður Gizurarson (sjálfur) gegn íslenska ríkinu (Jón G. Tómasson hrl.) |
Embættismenn. Áminning. Sératkvæði.
Dómsmálaráðherra veitti sýslumanninum S skriflega áminningu vegna embættisfærslu hans við innheimtu 50.000.000 króna sektar sem Hæstaréttur hafði dæmt Þ til að greiða. Laut áminningin að því að S hefði með gerð samkomulags við Þ um greiðslu sektarinnar brotið gegn 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 57/1997, sem mælir fyrir um, að ekki megi veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá því að sekt kemur til innheimtu. S hafði fengið sektina til innheimtu eftir gildistöku laga nr. 57/1997 og bar honum sem sýslumanni að kynna sér sérstaklega nýja lagasetningu sem varðaði störf hans og fara eftir henni. Samkvæmt lagaákvæðinu mátti hann ekki semja um innheimtu sektarinnar með þeim hætti sem hann gerði. Ekki var talið unnt að líta fram hjá því að með gerð samkomulagsins hefði S sýnt af sér athæfi í starfi sem heyrði undir 21. gr. laga nr. 70/1996. Ekki væri annað fram komið en að ráðherra hefði staðið réttilega að áminningunni. Miskabótakrafa S var leidd af kröfu hans um ógildingu áminningarinnar og kom sú krafa því ekki frekar til álita. Var íslenska ríkið sýknað af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason og Páll Sigurðsson prófessor.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 25. apríl 2000. Hann krefst þess að áminning, sem dómsmálaráðherra veitti honum 2. mars 1998, verði metin ógild og honum dæmdar 900.000 krónur í miskabætur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara gerir hann kröfu um verulega lækkun stefnukrafna.
I.
Áfrýjandi var skipaður bæjarfógeti á Akranesi 24. september 1985. Var skipunin ótímabundin og gilti frá 1. nóvember sama ár. Við gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, 1. júlí 1992, var áfrýjandi áfram sýslumaður á Akranesi samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laganna. Var áfrýjandi enn í því embætti er atburðir þeir gerðust, sem urðu tilefni áminningar þeirrar, sem um er fjallað í máli þessu.
Tildrög málsins og málsástæður aðila koma fram í héraðsdómi. Þar er rakið að dómsmálaráðherra áminnti áfrýjanda skriflega 2. mars 1998 vegna embættisfærslu hans við innheimtu 50.000.000 króna sektar samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands 12. júní 1997 í máli ákæruvaldsins gegn Þórði Þórðarsyni, Sóleyjargötu 18 á Akranesi. Fangelsismálastofnun ríkisins hafði sent sýslumanninum á Akranesi sektina til innheimtu 11. júlí 1997. Áminningin laut að því að áfrýjandi hefði 21. janúar 1998 gert samkomulag við Þórð Þórðarson um greiðslu sektarinnar. Taldi ráðuneytið að hann hefði með samkomulaginu brotið gegn 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 57/1997, sem mælir fyrir um, að ekki megi veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá því að sekt kemur til innheimtu. Ákvæði þetta öðlaðist gildi 1. júlí 1997. Ráðuneytið hafði með bréfi 30. janúar 1998 lýst þeirri fyrirætlan sinni að veita áfrýjanda áminningu á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem samkomlagið væri ámælisvert. Áfrýjanda var síðan gefinn kostur á að tala máli sínu áður en af áminningu yrði. Svaraði áfrýjandi bréfi þessu með greinargerð 5. febrúar 1998.
Í áminningarbréfi ráðuneytisins er andmælum áfrýjanda svarað og komist að þeirri niðurstöðu, að með samkomulaginu hafi hann „hvort tveggja sýnt vankunnáttu og óvandvirkni í starfi þegar litið er til efnis og skilmála“ þess og sýnt af sér óhlýðni við löglegt boð ráðuneytisins samkvæmt fyrirmælum í umburðarbréfi til lögreglustjóra 9. október 1997 um innheimtu sekta. Með bréfi ráðuneytisins til áfrýjanda 5. mars sama ár var fallið frá síðasta hluta áminningarinnar þar sem í ljós hafði komið, að ekki fannst hjá ráðuneytinu staðfesting þess að umburðarbréfið hefði verið sent áfrýjanda. Hins vegar var haldið fast við áminninguna að því er varðaði vankunnáttu og óvandvirkni og enn á ný vitnað til ákvæðis 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga.
II.
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 92/1989, sbr. lög nr. 15/1998, áður 15. gr. sömu laga, hafa sýslumenn yfirumsjón og ábyrgð á rekstri embætta sinna og eftir 5. gr. sömu laga, áður 14. gr., eiga málefni sýslumanna undir dómsmálaráðuneytið. Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eiga samkvæmt 1. gr. laganna við sýslumenn, eins og aðra þá sem skipaðir, settir eða ráðnir eru í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. þessara laga stýrir forstöðumaður embættis starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Í ákvæðinu segir jafnframt meðal annars að ráðherra geti veitt forstöðumanni áminningu samkvæmt 21. gr. sömu laga, sé verkefnum stofnunar ekki sinnt sem skyldi. Lagaákvæði þessi verða ekki öðru vísi skilin en að dómsmálaráðherra hafi eftirlit með störfum sýslumanns og veiti honum áminningu í samræmi við ákvæði 21. gr. laga nr. 70/1996 ef verkefnum er ekki sinnt sem skyldi, svo sem fari sýslumaður ekki eftir lögum við embættisfærslu sína.
Texti samkomulags þess sem áfrýjandi gerði við Þórð Þórðarson um innheimtu sektarinnar er í heild tekinn upp í héraðsdóm. Kemur þar fram að við gerð þess höfðu 7.500.000 krónur verið greiddar upp í sektina. Samkvæmt samkomulaginu átti síðan að greiða 2.500.000 krónur 2. febrúar 1998 og sömu fjárhæð 2. ágúst sama ár. Ekki var þar kveðið á um frekari greiðslur en því lofað að samið yrði um framhald greiðslna í síðasta lagi í janúar 1999. Áfrýjandi heldur því fram að samkomulagið hafi verið heiðursmannasamkomulag milli sín og Helga V. Jónssonar hæstaréttarlögmanns, fyrirsvarsmanns Þórðar Þórðarsonar. Hefur Helgi áritað samkomulagið svo sem rakið er í héraðsdómi. Samkvæmt efni samkomulagsins var það gert við Þórð Þórðarson og ritaði hann undir það, en hins vegar kom hæstaréttarlögmaðurinn fram fyrir Þórð við gerð þess. Ekki verður séð að það hafi þýðingu að lögum hvort samkomulag sé kallað heiðursmannasamkomulag eða eitthvað annað. Það sem hlýtur að ráða úrslitum er efni samkomulagsins og hvaða heimild sýslumaður hafði til að gera það. Þar sem um samkomulag var að ræða en ekki einhliða ákvörðun sýslumanns eiga stjórnsýslulög nr. 37/1993 ekki beint við, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.
Að framan er það rakið að áfrýjandi fékk sektina til innheimtu eftir gildistöku laga nr. 57/1997, sem breytti 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga. Eftir gildistöku ákvæðisins hlaut öll innheimta sekta að fara að ákvæðinu. Honum sem sýslumanni bar að kynna sér sérstaklega nýja lagasetningu sem varðaði störf hans og fara eftir henni. Samkvæmt lagaákvæðinu mátti hann ekki gera samning um innheimtu sektarinnar nema til 11. júlí 1998, en síðari gjalddagi samkomulagsins var 2. ágúst 1998. Meginmáli skipti þó að þar var enginn greiðslufrestur afmarkaður fyrir mestan hluta sektarinnar. Þess í stað var ákveðið að semja um eftirstöðvar hennar, 37.500.000 krónur, í síðasta lagi í janúar 1999, eða allt að hálfu ári eftir að greiðslufrestur samkvæmt lögunum rann út. Var því allt í óvissu um framhaldandi greiðslur. Verður ekki fram hjá því litið að með gerð samkomulagsins hafi áfrýjandi sýnt af sér athæfi í starfi sem heyri undir 21. gr. laga nr. 70/1996. Áfrýjanda var í samræmi við niðurlag ákvæðisins gefinn kostur á að tala máli sínu. Hann skilaði um það ítarlegri skýrslu og fékk í áminningarbréfinu svar við andmælum sínum. Ekki er annað fram komið en að ráðherra hafi staðið réttilega að áminningunni. Miskabótakrafa áfrýjanda er leidd af kröfu hans um ógildingu áminningarinnar. Kemur sú krafa því ekki frekar til álita. Af framangreindum ástæðum og að öðru leyti með tilvísun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Hvor aðila skal bera kostnað sinn af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð.
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Hjartar Torfasonar
Atvik máls þessa eru af því sprottin, að sýslumanninum á Akranesi bárust í hendur á árunum 1995 og 1997 þau erfiðu verkefni að innheimta hjá Þórði Þórðarsyni, sem rekið hafði gróið atvinnufyrirtæki þar í bænum um langt árabil, skuldir við ríkissjóð vegna brota á skattalögum, er samanlagt námu hátt á annað hundrað milljónum króna. Var þar annars vegar um að ræða skuldir vegna endurákvarðaðra opinberra gjalda og virðisaukaskatts og hins vegar vegna refsisektar að fjárhæð 50.000.000 krónur, sem fylgdi í kjölfarið. Lagabrotin voru í því fólgin, að hann hafði árum saman dregið undan sköttum umtalsverðan hluta af tekjum fyrirtækisins, og stóð svo enn, þegar skattyfirvöld tóku í taumana og leiðréttu gjöld hans að því marki, sem lög leyfðu. Var það verðskuldað, en af gögnum í dómsmálum vegna viðbragðanna verður þó ekki séð, að brotin hafi verið framin til að safna auði, heldur öllu fremur til að halda í horfi um reksturinn og framkvæmdir vegna hans. Skiptir þetta máli um það, sem á eftir fór.
Samkvæmt sömu gögnum og lögmálum almennrar skynsemi sýnist mega slá því föstu, að lítil ástæða hafi verið til að vænta þess fyrirfram, að unnt yrði nokkru sinni að leysa þessi verkefni með þeim hætti, að umræddar skuldir innheimtust að fullu. Hin eina lausn, sem beint lægi við eftir efninu, hafi verið sú, að ganga þegar í stað milli bols og höfuðs á skuldaranum og fyrirtæki hans með aðför í eignum og eftirfarandi nauðungarsölum og/eða gjaldþrotameðferð, þótt brugðið gæti til beggja vona um árangur af slíkum aðgerðum. Fyrir liggur, að sýslumaður tók fyrstu skrefin til að tryggja kost á þessari lausn í desember 1995, en fylgdi þeim ekki eftir um sinn. Af gögnum málsins verður ekki séð, að önnur yfirvöld hafi borið í brjósti sérstakan hug á því, að gengið yrði fram með skeleggari hætti að svo stöddu, og má kalla það skiljanlegt, ef svo var. Hins vegar hlaut það að fylgja því að sleppa hendi af þessari lausn, að öll önnur úrræði til innheimtu skuldanna bæru í sér vandræðalausnir miðað við þann lagaramma, sem málinu var sniðinn. Fram er að vísu komið, að fjölskylda Þórðar stóð þétt við hlið hans og vildi styðja að því að greiða niður skuldirnar, en til beinnar innheimtu refsisektarinnar úr hendi annarra en hans sjálfs var ekki unnt að efna, þar sem hún er harðlega bönnuð að lögum.
Mál þetta snýst einvörðungu um gildi og áhrif áminningar, sem dómsmálaráðherra veitti áfrýjanda, þá sýslumanni á Akranesi, með bréfi 2. mars 1998 vegna embættisfærslu hans við innheimtu umræddrar refsisektar, svo sem lýst er skýrum stöfum í atkvæði annarra dómenda. Fylgdi áminningin í kjölfar samkomulags varðandi greiðslur upp í sektina, sem undirritað var milli sýslumanns og Þórðar 21. janúar 1998 og kynnt dómsmálaráðuneytinu 29. sama mánaðar að gefnu tilefni, en staða innheimtunnar hafði nokkru áður vakið athygli alþingismanna og fjölmiðla og ríkisendurskoðun tekið hana til athugunar.
Áminning þessi er að miklu leyti á því reist, að gerð sýslumanns á umræddu samkomulagi hafi falið í sér skýlaust brot á 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem nýlega hafði verið breytt með 1. gr. laga nr. 57/1997. Á sama hátt er afstaða mín til áminningarinnar að miklu leyti mótuð af því, að ég get ekki verið sammála ráðherranum um skýleysi þeirrar lagabreytingar, sem gerð hafði verið, og þar með skýleysi brotsins, er sýslumanni var gefið að sök.
Efni 2. mgr. 52. gr. hafði frá öndverðu verið á þá leið, að lögreglustjórar skyldu annast innheimtu sekta, og væri þeim heimilt að innheimta þær með afborgunum. Við þann texta var því nú aukið, að eigi skyldi veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá því að sekt kæmi til innheimtu. Þessi viðbót var skýrt orðuð og án fyrirvara frá hendi löggjafans, en þar með var ekki ljóst, að hún gæti komið umsvifalaust til framkvæmda um allar sektir, sem til innheimtu væru sendar eftir gildistöku laganna. Í lagagreininni er að sjálfsögðu fjallað um heimildir lögreglustjóra til að stýra innheimtum sekta og taka við loforðum um lúkningu þeirra, en efni hennar snýr eigi að síður fyrst og fremst að þeim, sem til sektargreiðslu eru dæmdir. Í því hefur það falist alla tíð, að kosturinn á greiðslu sekta með afborgunum væri innbyggður þáttur í þessari tegund refsingar, sem yfirvöldum væri skylt að virða eftir atvikum með málefnalegum hætti. Um tilhögun sektargreiðslna höfðu fyrir breytinguna mótast tilteknar venjur og viðmið, sem að vísu voru ekki talin með öllu skýr og ekki án hættu á mismunun milli manna eða umdæma, en voru eigi að síður ávöxtur refsiframkvæmdar, er meta verður sem málefnalega að undirstöðu til og samkvæma lögunum.
Með lagabreytingunni var stefnt að auknu samræmi í innheimtu sekta, en jafnframt að verulegri þrengingu á því svigrúmi, sem innheimtumenn hefðu til að hagræða henni í þágu dæmdra manna, er vilja hefðu til að gjalda fyrir brot sín. Mátti ljóst vera, að sú þrenging gæti í raun jafngilt þyngingu þeirrar refsingar, sem dæmd hefði verið, og þá komið harðast niður þar sem erfiðast væri fyrir vegna umfangs sektarinnar og/eða greiðslugetu hins dæmda. Engin ástæða virðist til að gera því skóna, að löggjafinn hafi ætlast til, að framhjá þessu yrði litið, þegar breytingin kæmi til framkvæmda.
Í 2. gr. almennra hegningarlaga er lýst þeirri meginreglu, að refsilöggjöf skuli ekki vera afturvirk, hvorki um refsinæmi verknaðar né refsingu við honum, og sú meginregla er nú sett fram með skýrum hætti í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Í ljósi hennar hefði verið eðlilegt að miða áhrif lagabreytingarinnar gagnvart einstökum mönnum við þann tíma, er brot voru framin, og ætla framkvæmd hennar aðlögunartíma í samræmi við þá undirstöðu. Þetta mun þó ekki hafa verið gert, heldur virðast leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins til lögreglustjóra og sýslumanna hafa verið á þá leið, að reglunni um 12 mánaða hámark greiðslufrests yrði afdráttarlaust beitt um allar sektir, er til innheimtu kæmu eftir gildistöku breytingarinnar 1. júlí 1997, nema samningar um afborgun hefðu þegar verið gerðir eftir fyrri starfsháttum. Þetta viðhorf ráðuneytisins, sem lýst er í bréfinu til áfrýjanda, hefur að vísu hlotið stuðning í áliti umboðsmanns Alþingis 17. maí 1998 um úrskurð ráðuneytisins frá 21. janúar sama ár í tilteknu máli, en ég tel ekki unnt að fallast á það án þess fyrirvara, sem hér var lýst. Tel ég það veikja gildi áminningarinnar til sýslumanns, að hans var ekki gætt við útgáfu hennar.
Í annan stað virðist það veikja gildi áminningarinnar frá sjónarhóli almennra stjórnsýslureglna, að viðhorfi dómsmálaráðuneytisins þess efnis, að hið umdeilda samkomulag væri ólögmætt, var einvörðungu lýst gagnvart sýslumanni, í áminningarbréfinu og undanfarandi erindum, en ekki gagnvart hinum aðilanum, þ.e. Þórði Þórðarsyni sjálfum og Helga V. Jónssyni hæstaréttarlögmanni, sem kom fram fyrir hans hönd við gerð samkomulagsins. Var bréfið einnig ritað án þess að áður væri undir þá borið, hvaða augum þeir litu á stöðu og skuldbindingargildi þessa gernings. Þrátt fyrir aðkallandi þörf á viðbrögðum af hálfu ráðuneytisins verður að ætla, að unnt hefði verið að koma hvoru tveggja þessu við.
Í þriðja lagi var bréf ráðherra orðað svo, að áminningin væri veitt á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, án þess að annarra lagaheimilda væri jafnframt getið. Þetta var í raun ófullnægjandi, þar sem ákvæði 21. gr. eiga ekki beint við um forstöðumenn stofnana eða stjórnvöld á borð við sýslumenn. Í samræmi við kröfur um sjálfstæði stjórnvalda eftir meginreglum stjórnskipunarinnar hefði verið rétt að skírskota einnig til 2. mgr. 38. gr. laganna og hinnar hefðbundnu reglu um eftirlitsvald ráðherra gagnvart embættismönnum, sem kalla má undirstöðu að hinni síðarnefndu lagagrein. Eins og hér stóð á varðar það þó fremur form en efni, að þetta var ekki gert.
Um samkomulag það, er varð tilefni áminningarinnar, er á hinn bóginn það að segja, að fallast verður að miklum hluta á þá gagnrýni á gerð þess og efni, sem lýst er í bréfi ráðherra. Að vísu fjallaði texti samkomulagsins einvörðungu um tímasetningu og viðtöku á greiðslum upp í refsisekt Þórðar Þórðarsonar, ásamt ráðagerð um frekari greiðslur, og það var undirritað af honum einum af eðlilegum ástæðum. Eigi að síður verður að telja, að í því hafi falist fyrirheit um frestun á afplánun vararefsingar, ef staðin yrðu skil á hinum umsömdu greiðslum, og þá fram á það tímamark, er sett var til viðræðna um frekari greiðslur, þ.e. fram í janúar 1999 eða lengur. Var þannig greinilega gefið í skyn, að unnt væri eftir atvikum að dreifa greiðslu sektarinnar yfir lengri tíma en til álita gat komið eftir hinum eldri reglum um sektarafborganir, sem verið höfðu ólögfestar og miðuðust að hámarki við fyrningartíma sektanna. Verður því að taka undir þá skoðun ráðuneytisins, að skilmálar samkomulagsins hafi verið ámælisverðir.
Jafnframt verður að telja, að sýslumanni hafi borið í svo mikilvægu máli að leita samráðs við ráðuneyti dómsmála og fjármála í ríkara mæli en hann virðist hafa gert. Hann hefur að vísu lýst því, að tilraunir sínar í þá átt hafi hlotið takmarkaðar undirtektir, sem hann rekur að hluta til yfirstandandi breytinga á viðhorfi til stjórnarhátta, auk þess sem Helga V. Jónssyni hafi verið vísað til hans sjálfs, þegar lögmaðurinn bar mál Þórðar upp við ráðuneytin. Hafi raunin verið þessi þurfti hann því fremur að varast samkomulagsgerð með svo víðtæku efni, sem fyrr getur.
Þrátt fyrir áðurgreinda annmarka á áminningarbréfi ráðherra er það því niðurstaða mín, þegar málið er virt í heild, að kjarni þess standi óhaggaður. Sé hann svo mikilvægur, að ekki sé unnt að fallast á kröfu áfrýjanda um ógildingu áminningarinnar, né heldur um miskabætur hennar vegna.
Á þessum forsendum er ég sammála niðurstöðu annarra dómenda.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. nóvember s.l. er höfðað með stefnu út gefinni 25. júní 1998 og birtri daginn eftir.
Stefnandi er Sigurður Gizurarson, kt. 020339-4709, Víkurströnd 6, Seltjarnarnesi.
Stefndu eru Þorsteinn Pálsson, dómsmálaráðherra, kt. 291047-4679, Háteigsvegi 46, Reykjavík, fyrir hönd íslenska ríkisins og Geir Hilmar Haarde, fjármálaráðherra, kt. 080451-4749, Granaskjóli 20, Reykjavík, fyrir hönd ríkissjóðs. Meðan á rekstri málsins stóð tók Sólveig Pétursdóttir, kt. 110352-2499, Bjarmalandi 18, Reykjavík, við embætti dómsmálaráðherra.
Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að ógild sé áminning sú sem stefndi dómsmálaráðherra veitti honum með bréfi dagsettu 2. mars 1998 og í öðru lagi að stefnanda verði dæmdar bætur úr ríkissjóði að fjárhæð kr. 2.000.000 fyrir miska sem stefndi hefur valdið honum með áminningunni og áreitni og fréttaburði Dómsmálaráðuneytis sem henni tengist. Þá er gerð krafa um að stefnanda verði dæmdur hæfilegur málskostnaður úr ríkissjóði að mati dómsins.
Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða hæfilegan málskostnað að mati dómsins.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að með bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins dagsettu 11. júlí 1997 var stefnanda, sem þá var sýslumaður á Akranesi, sendur dómur Hæstaréttar Íslands frá 12. júní 1997 í máli ákæruvaldsins gegn Þórði Þórðarsyni, en með dóminum var ákærða meðal annars gert að greiða 50.000.000 króna sekt til ríkissjóðs. Greiddist sektin ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins skyldi ákærði sæta í hennar stað fangelsi í tólf mánuði. Með bréfi dagsettu 6. janúar 1998 óskaði dómsmálaráðuneytið eftir upplýsingum frá embætti stefnanda um það hvernig innheimtu sektarinnar væri háttað. Þá var óskað upplýsinga um ástæður þess að fjárnám í fasteign og tveimur skuldabréfum vegna skattaskulda Þórðar hafi í september 1997 verið fært aftur fyrir fjárnám fyrir sektinni. Þá var beðið um upplýsingar um tilboð sem komu fram í skuldabréfin þegar þau voru seld á nauðungarsölu á uppboði í nóvember 1997. Stefnandi svaraði fyrirspurninni daginn eftir og kom þar fram að greiðst hefðu kr. 7.571.000 inn á sektina og hefði lögmaður Þórðar farið þess á leit að samið yrði um greiðslu á sektarskuldinni með afborgunum. Ráðuneytið leitaði áfram upplýsinga hjá stefnanda um innheimtu sektarinnar og opinberum gjöldum Þórðar að fjárhæð um 142 milljónir króna. Þann 29. janúar 1998 barst ráðuneytinu vitneskja um samkomulag sem gert hafði verið 21. janúar sama ár um greiðslu sektarinnar. Stefnandi heldur því fram að samkomulagið hafi verið gert við Helga V. Jónsson, hrl., lögmann Þórðar, en texti samkomulagsins er svohljóðandi:
"Sýslumaðurinn á Akranesi og Þórður Þórðarson kt. 261131-2119, Sóleyjargötu 18, Akranesi, gera með sér svofellt samkomulag: Með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 12. júní 1996 (svo) í málinu nr. 121/1997 var Þórður Þórðarson dæmdur til að greiða kr. 50.000.000 í sekt og sakarkostnað kr. 140.000. Skuld þessi er til innheimtu hjá sýslumannsembættinu á Akranesi. Nú þegar hafa verið greiddar kr. 7.500.000 upp í skuldina. Samkomulag er um að Þórður greiði kr. 2.500.000 hinn 2. febrúar 1998 og kr. 2.500.000 hinn 2. ágúst 1998 upp í skuldina. Um framhald greiðslna verður samið í síðasta lagi í janúar 1999. Greiðslur skulu fara fram á skrifstofu embættisins, Stillholti 16-18, Akranesi. Verði afborganir ekki inntar af hendi samkvæmt samkomulagi þessu, fellur það úr gildi."
Skjalið er síðan undirritað af stefnanda og Þórði. Stefnandi hefur lagt fram ljósrit skjalsins með svofelldri áritun Helga V. Jónssonar, hrl.: "Af hálfu skuldara er samkomulag þetta gert í ljósi þess staðfesta ásetning hans og fjölskyldu hans, að ofangreind sektarskuld verði greidd. Á þessu ári er ábyrgst greiðsla á ofangreindum 5 millj. kr., en vonast er til að samkomulag náist um framhaldið í ársbyrjun 1999, hafi ekki tekist að afla fjár með öðrum hætti."
Ljóst er af gögnum málsins að skjalið bar ekki með sér síðastgreinda áritun þegar það var sent ráðuneytinu.
Með bréfum dagsettum 29. og 30. janúar 1998 lýsti ráðuneytið þeirri afstöðu sinni að samkomulagið gæti ekki talist gilt þar sem stefnandi hafi ekki haft heimild til þess að fara út fyrir þær lögmæltu heimildir sem 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga setur um eins árs greiðslufrest á sekt frá því hún kemur til innheimtu lögreglustjóra. Ráðuneytið leit svo á að samkomulagið væri skýlaust brot á 2. mgr. 52. gr. sömu laga og benti á ákvæði 21. gr. laga nr. 70/1996 þar sem heimilað er að veita embættismanni skriflega áminningu vegna ámælisverðrar háttsemi í starfi. Var stefnanda gefinn kostur á að tala máli sínu áður en til áminningar kæmi og var honum veittur frestur til andsvara til 9. febrúar sama ár. Með bréfi dagsettu 5. febrúar 1998 lýsti stefnandi sjónarmiðum sínum og 2. mars sama ár tók ráðuneytið afstöðu til röksemda hans og komst að eftirfarandi niðurstöðu: "Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að með samkomulagi yðar við Þórð Þórðarson, dags. 21. janúar 1998 hafið þér hvort tveggja sýnt vankunnáttu og óvandvirkni í starfi þegar litið er til efnis og skilmála framangreinds samkomulags og sýnt af yður óhlýðni við löglegt boð ráðuneytisins samkvæmt fyrirmælum í umburðarbréfi til allra lögreglustjóra frá 9. október 1997 um innheimtu sekta. Á grundvelli 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 er yður hér með veitt áminning."
Eftir að áminningin var veitt kom í ljós að ekki fannst staðfesting á því að umrætt umburðarbréf hefði verið sent stefnanda. Af þeirri ástæðu var því ekki haldið fram að stefnandi hefði brotið gegn sérstökum fyrirmælum bréfsins þar sem vakin var athygli á nýjum lögum um greiðslufrest sekta. Bent var á að lög nr. 57/1997 hefðu engu að síður verið birt í A-deild Stjórnartíðinda 29. maí 1997 og tekið gildi 1. júlí 1997. Var áminningin því látin standa óbreytt.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi gerir grein fyrir sjónarmiðum sínum í 8 tölusettum liðum í stefnu. Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að stefndi dómsmálaráðherra geti ekki hróflað við ákvörðun sýslumannsins á Akranesi frá 21. janúar 1998 sökum þess að hún hefur ekki verið kærð til hans samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Dómsmálaráðuneytið gegni eftirlitshlutverki gagnvart lögreglustjóraembættum og geti gefið þeim stjórnvaldsfyrirmæli um það hvernig taka skuli á tilteknum málefnum, t.d. með fyrirmælum um túlkun á 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga. Innheimta sektarinnar hafi farið fram á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar lögreglustjórans á Akranesi þar sem túlkun á nefndu lagaákvæði kom til álita. Stefnandi byggir á því að engin slík fyrirmæli um túlkun ákvæðisins hafi borist embættinu frá ráðuneytinu.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að stefndi dómsmálaráðherra geti ekki hróflað við lögbundinni stjórnsýslu lögreglustjórans á Akranesi. Um slíkar stjórnvaldsákvarðanir gildi ákvæði III.-IV. kafla stjórnsýslulaga og samkvæmt 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga hafi lögreglustjórinn á Akranesi einn vald til að taka þær stjórnsýsluákvarðanir sem þar er mælt fyrir um. Stefnandi byggir á því að um heiðursmannasamkomulag hafi verið að ræða sem lúti að greiðslu sektarinnar frá skyldmennum dómþola og falli því ekki undir 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga. Stefnda dómsmálaráðherra sé ekki heimilt að grípa eftir á fyrirvaralaust inn í valdsvið lögreglustjóra með afturköllun eða annars konar ógildingu á einstökum ákvörðunum hans, hvort heldur í búningi áminningarmáls eða með öðrum hætti. Ef ákvörðuninni hefði verið skotið til stefnda dómsmálaráðherra með stjórnsýslukæru hefði stefndi getað ógilt hana að lagaskilyrðum uppfylltum. Þá hefði verið unnt að höfða almennt dómsmál í því skyni að fá ákvörðunina ógilta. Hafi því engin formleg ógilding átt sér stað á samkomulaginu. Stefnandi byggir enn fremur á því að málsmeðferð stefnda, dómsmálaráðherra, fullnægi ekki rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Því hafi alltaf verið haldið fram að samkomulagið hafi verið gert við réttargæslumann Þórðar en ráðherra hafi ekki séð ástæðu til að kanna það. Þá telur stefnandi málsmeðferð stefnda dómsmálaráðherra ekki fullnægja jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Ráðherra láti stefnanda sæta allt annarri meðferð en réttargæslumann Þórðar. Ef 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga hefði verið brotin hefðu bæði stefnandi og réttargæslumaðurinn sem opinberir sýslunarmenn staðið að því broti. Þrátt fyrir þetta hafi ráðherra látið sem hann hefði ekki komið nálægt gerð samkomulagsins. Þá byggir stefnandi á því að málsmeðferðin fullnægi ekki andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga. Aðeins tveimur eða þremur klukkustundum eftir að ráðuneytinu barst vitneskja um samkomulagið hafi því verið lýst yfir opinberlega að stefnandi væri brotlegur við nefnt lagaákvæði. Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi hafi af þessum sökum verið vanhæfur til að veita stefnanda áminningu, sbr. 1. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að samkomulagið frá 21. janúar 1998 falli ekki undir 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga. Þórður Þórðarson hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 18. desember 1997 og hafi því ekki verið unnt með fjárnámi að knýja hann til að greiða sektina. Það ráðist fyrst og fremst af merkingu hugtaksins "innheimta sektar" í 2.-4. mgr. 52. gr. sömu laga hvort samkomulagið falli undir 2. mgr. 52. gr. sömu laga. Lögreglustjóri skuli ekki framfylgja sektarkröfu með fjárnámi hjá dómþola ef það myndi hafa í för með sér tilfinnanlega röskun á högum sökunauts eða manna, sem hann framfærir. Þá sé ekki unnt að krefja dánarbú eða skyldmenni dómþola um greiðslu sektar. Þá bendir stefnandi á að í samkomulaginu sé ekki tekið fram að frestað sé um eins árs skeið að láta Þórð Þórðarson afplána vararefsingu samkvæmt dóminum ef samkomulagið verður vanefnt. Það sé greiðslugetan sem skipti máli samkvæmt nefndum ákvæðum en ekki hvort maður er fjárráða eða hefur verið úrskurðaður gjaldþrota. Í raun hafi verið um heiðursmannasamkomulag að ræða sem falli ekki undir 2. mgr. 52. gr. sömu laga. Þá telur stefnandi rök til þess í ljósi 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar að 1. gr. laga nr. 57/1997 gildi ekki um innheimtu á áðurnefndri sekt. Dómur Hæstaréttar hafi verið kveðinn upp 12. júní 1997 en lög nr. 57/1997 hafi ekki gengið í gildi fyrr en 1. júlí sama ár.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að ógilding samkomulagsins geti haft í för með sér 30-40 milljóna króna tjón fyrir ríkissjóð. Sama máli gegni verði Þórður látinn hefja afplánun vararefsingarinnar.
Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að stefndi dómsmálaráðherra rugli saman annars vegna stjórnvaldinu lögreglustjóranum á Akranesi sem hafi tekið ákvörðun um innheimtu sektarinnar og hins vegar þeim einstaklingi sem veiti embættinu forstöðu. Stefnandi kveðst ekki hafa tekið stjórnvaldsákvörðunina um gerð samkomulagsins sem einstaklingur heldur sem lögreglustjóri. Ákvæði 21. gr. laga nr. 70/1996 geri yfirmanni ríkisstofnunar rétt og skylt að veita starfsmanni áminningu. Lögreglustjóraembættið á Akranesi og dómsmálaráðuneytið sé tvær aðskildar ríkisstofnanir. Geti ráðherra því engan veginn veitt stefnanda áminningu með vísan til 21. gr. laganna fyrir einstakar stjórnvaldsákvarðanir lögreglustjórans á Akranesi.
Í sjötta lagi bendir stefnandi á að samkomulagið sé enn þá fullgildur stjórnsýslugerningur sem ekki hafi sætt ógildingu þar til bærs stjórnvalds eða dómstóls. Jafnvel þótt stjórnvaldsákvörðun sæti ógildingu hafi það ekki í för með sér að sá einstaklingur sem gegni hlutverki lægra setts stjórnvalds skuli sæta áminningu af þeim sökum.
Í sjöunda lagi byggir stefnandi á því að áminningin geti ekki talist annað en misbeiting áminningarvalds stefnda dómsmálaráðherra og brjóti freklega gegn jafnræðisreglu 11. gr. laga nr. 70/1996. Sjónarmið réttaröryggis standi því í vegi að stefndi dómsmálaráðherra geti með áminningu eða annarri áreitni vegna einstakra stjórnvaldsákvarðana skotið sýslumönnum, þ.e. flestum saksóknurum landsins, svo skelk í bringu að þeir glati hæfni til að taka ákvarðanir af sjálfstæði og óhlutdrægni.
Í áttunda lagi rökstyður stefnandi miskabótakröfu sína með þeim hætti að með áminningunni og annarri áreitni, svo sem fréttaburði og yfirlýsingum í fjölmiðlum þess efnis að stefnandi hafi vanrækt sýslumannsembættið á Akranesi, hafi stefndi dómsmálaráðherra gerst brotlegur við 148. gr. og 234.-235. gr. almennra hegningarlaga og valdið stefnanda miska sem honum beri að bæta, sbr. 26. gr. skaðabótalaga. Athafnir stefnda hafi verið stórlega ærumeiðandi og til þess fallnar að eyðileggja mannorð og starfsheiður stefnanda. Starfsheiður og mannorð sé það sem litið sé til þegar lagður er dómur á hæfni lögfræðinga. Stefnandi hafi lagt mikið á sig, m.a. með frækilegum námsárangri, til að byggja upp starfsheiður sinn og álit sem lögfræðings. Tjón stefnanda sé af þeim sökum meira en almennt gerist og geti skipt máli ef hann sækir um starf í hinum opinbera geira svo og ef hann freistar þess að ná árangri í einkageiranum.
Stefndu byggja á því að embætti sýslumannsins/lögreglustjórans á Akranesi og dómsmálaráðuneytið standi í stjórntengslum sem lægra og æðra sett stjórnvald. Gildi því meginregla 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga að heimilt sé að kæra ákvarðanir lögreglustjóra til ráðuneytisins, nema annað leiði af lögum eða venju. Ráðuneytið hafi ríkar eftirlitsskyldur gagnvart lögreglustjórum í landinu og beri því að gæta þess að samræmi ríki í stjórnsýsluframkvæmd þeirra. Boðvald ráðuneytisins gagnvart lögreglustjórum sem umboðsmanna framkvæmdavalds í héraði sé skýrt og sé viðurkennt í stjórnsýslurétti að í því tilviki beri hinu æðra setta stjórnvaldi að sinna eftirlitsskyldu sinni og hafa afskipti af stjórnsýslu hins lægra setta stjórnvalds. Stefndu byggja á því að samkomulag um sektargreiðslur þar sem lögreglustjóri hafi farið út fyrir þær heimildir sem hann hefur samkvæmt lögum, geti ekki veitt viðsemjanda betri rétt en lög ákveða. Ekki hafi stofnast gildur samningur með samkomulaginu og var því ekki litið svo á að það þyrfti að ógilda með sérstakri ákvörðun.
Stefndu byggja á því að lögreglustjórar hafi enga heimild til að gera annars konar samkomulag eða fallast á viljayfirlýsingu sektarskuldara, sem veitir honum rýmri greiðslufrest en kveðið er á um í 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga. Skipti engu máli hvaða nafni slíku samkomulagi er gefið. Stefndu fallast ekki á þá afstöðu stefnanda að vararefsing sekta sé eingöngu sálrænt þvingunarúrræði og að lögreglustjóra sé rétt að fella hana niður ef dómþoli er ógreiðslufær. Með því taki lögreglustjóri sér vald til að fella niður refsingu dómþola, en engin heimild standi til slíks í ákvæðum almennra hegningarlaga um innheimtu sekta. Það hljóti að koma í hlut löggjafans en ekki sýslumanna að meta hvort rétt sé að breyta ákvæðum almennra hegningarlaga þyki þau of fortakslaus að þessu leyti.
Stefndu byggja á því að samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 sé forstöðumanni stofnunar heimilt að áminna starfsmann hafi hann sýnt vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi. Með vísan til ákvæða 1. gr. laganna gildi ákvæði IV. kafla laganna um skyldur starfsmanna ríkisins jöfnum höndum um embættismenn og aðra starfsmenn. Dómsmálaráðherra skipi sýslumenn og leiki því ekki vafi á því að honum er heimilt að veita sýslumanni áminningu á grundvelli 21. gr. laganna. Ógerlegt sé að marka skýr skil á milli þess hvort embættismaður starfar sem stjórnvald eða einstaklingur og hvaða athafnir falli í hvorn þessara flokka. Eigi gildissvið 21. gr. laganna ekki að ná til embættisathafna þess einstaklings sem embætti gegnir, t.d. þegar hann fer ekki að lögum við framkvæmd starfa sinna, hljóti að draga verulega úr gildi og aðhaldsáhrifum 21. gr. laganna.
Grundvöllur áminningarinnar hafi verið sú skoðun ráðuneytisins að óvandvirkni og vankunnátta stefnanda hafi ráðið því að hann gerði fyrrgreint samkomulag. Ef um mistök var að ræða hefði mátt leiðrétta þau með gerð nýs samkomulags innan gildandi lagaheimilda en stefnandi hafi aldrei léð máls á því. Óvandvirkni og vankunnátta stefnanda hafi falist í því að markmið samkomulagsins hafi m.a. verið að fresta greiðslum á 3/4 hlutum sektargreiðslunnar ótímabundið með því að semja um að um þann hluta skuli samið eigi síðar en í janúar 1999, u.þ.b. hálfu ári eftir að lögbundinn frestur 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga til að ljúka sektargreiðslum var útrunninn. Auk þess hafi verið samið um greiðslur fjórðungshlutans á lengri tíma en lög heimiluðu.
Stefndu byggja á því að dómsmálaráðuneytið hafi engin afskipti haft af störfum eða ákvörðunum stefnanda sem ákæranda. Staða hans sem ákæranda gat þó ekki komið í veg fyrir að ráðuneytið sinnti eftirlitsskyldu sinni gagnvart öðrum störfum hans sem lögreglustjóra og beitti þeim agaviðurlögum sem tiltæk voru að lögum.
Stefndu byggja á því að stefnandi hafi engin haldbær rök fært fyrir þeim staðhæfingum sínum að athafnir dómsmálaráðherra hafi verið til þess fallnar að eyðileggja mannorð hans og starfsheiður. Allar aðgerðir ráðuneytisins hafi verið byggðar á málefnalegum grundvelli og í samræmi við reglur stjórnsýslu- og starfsmannalaga. Stefndu byggja á því að stefnandi hafi hallað réttu máli er hann sagði samkomulagið gert við lögmann Þórðar Þórðarsonar. Fram hafi komið í málinu að skjalið var ekki undirritað af lögmanninum þegar það barst ráðuneytinu og hafi undirritunin því komið til síðar. Þá feli undirskrift lögmannsins á engan hátt í sér beina aðild hans að samkomulaginu. Byggja stefndu á því að þetta háttarlag stefnanda hafi verið meðvirkandi þáttur í þeirri ákvörðun að veita stefnanda áminningu.
Forsendur og niðurstaða.
Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um skriflega áminningu sem stefndi dómsmálaráðherra veitti stefnanda vegna samkomulags um greiðslu eftirstöðva 50 milljóna króna fjársektar er Þórði Þórðarsyni var með dómi Hæstaréttar Íslands gert að greiða. Snýst ágreiningurinn m.a. um heimild ráðuneytisins til afskipta af lögbundinni stjórnsýslu stefnanda sem lögreglustjóra, hvort samkomulagið falli undir 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga og hvort unnt sé að veita embættismanni áminningu á grundvelli laga nr. 70/1996 vegna stjórnvaldsákvarðana er hann tekur. Þá krefst stefnandi bóta vegna miska sem hann telur stefnda dómsmálaráðherra hafa valdið sér með áminningunni og áreitni er henni tengist.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 70/1996 taka lögin til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, án tillits til þess hvort og þá hvaða stéttarfélagi hann tilheyrir, enda verði starf hans talið aðalstarf. Í II. hluta laganna eru sérstök ákvæði um embættismenn, en þeir eru taldir upp í 22. gr. laganna. Þá tekur III. hluti laganna einvörðungu til annarra starfsmanna ríkisins. Er því ljóst að ákvæði 21. gr. laganna sem er í IV. kafla I. hluta laganna gildir um alla starfsmenn ríkisins. Samkvæmt þeirri lagagrein skal forstöðumaður stofnunar veita starfsmanni skriflega áminningu hafi hann sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.
Samkomulag það, sem stefnandi gerði um sektargreiðslu Þórðar Þórðarsonar, var samkvæmt efni þess og undirritun við Þórð persónulega og ber að hafna þeirri viðbáru stefnanda að samkomulagið hafi verið gert við lögmann Þórðar. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga annast lögreglustjórar innheimtu sekta og er þeim heimilt að leyfa að sekt sé greidd með afborgunum. Með 1. gr. laga nr. 57/1997 bættist nýr málsliður við 2. mgr. 52. gr. laganna og samkvæmt því lagaákvæði var eigi heimilt að veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá því sekt kemur til innheimtu. Þessi lagabreyting tók gildi 1. júlí 1997, en samkvæmt gögnum málsins fékk stefnandi sektina til innheimtu 11. júlí sama ár. Samkvæmt skýrum lagaákvæðum var stefnanda óheimilt að semja um lengri greiðslufrest en til 11. júlí 1998 og ber að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að 1. gr. laga nr. 57/1997 hafi ekki gilt um innheimtu á viðkomandi sekt. Allt að einu gekk stefnandi til samninga við dómþola um að greiddar yrðu kr. 2.500.000 þann 2. febrúar 1998 og kr. 2.500.000 þann 2. ágúst sama ár. Þá var ákvæði þess efnis í samningnum að um framhald greiðslna skyldi samið í síðasta lagi í janúar 1999.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 92/1989 um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, sbr. 36. gr. laga nr. 15/1998 og 27. gr. laga nr. 83/1997, skipar ráðherra sýslumenn til fimm ára í senn og eiga málefni sýslumanna undir dómsmálaráðherra. Er því vafalaust að dómsmálaráðherra er bær til þess að veita sýslumönnum áminningu samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996.
Eins og að framan er rakið fór stefnandi gegn skýru lagaboði við gerð umrædds samnings með því að veita lengri greiðslufrest á sektargreiðslunni en heimilt var. Ber að fallast á það mat ráðuneytisins að stefnandi hafi með þessari háttsemi sinni sýnt af sér slíka vankunnáttu og óvandvirkni í starfi að áminningu varðaði. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en gætt hafi verið að rétti stefnanda í hvívetna áður en áminningin var veitt. Þá verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að ekki sé unnt að veita honum áminningu sem einstaklingi vegna ákvarðana sem hann tekur sem stjórnvald andstætt lögum.
Samkvæmt framansögðu skulu stefndu sýknir af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisins og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, skulu vera sýknir af öllum kröfum stefnanda, Sigurðar Gizurarsonar í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.