Hæstiréttur íslands
Mál nr. 327/2000
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Mál fellt niður fyrir Hæstarétti
- Gjafsókn
|
|
Föstudaginn 24. nóvember 2000. |
|
Nr. 327/2000. |
M(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn K (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Börn. Forsjá. Mál fellt niður fyrir Hæstarétti. Gjafsókn.
Mál M gegn K var fellt niður fyrir Hæstarétti að kröfu M og féll K frá kröfum sínum um annað en málskostnað. Þegar litið var til atvika málsins og ástæðu niðurstöðu þess var talið rétt að hvor aðili bæri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti, en M og K höfðu bæði gjafsókn fyrir réttinum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 24. ágúst 2000. Hann krafðist þess að honum yrði falin forsjá barna hans og stefndu, A og B. Þá krafðist hann þess að kostnaður hans af áfrýjun málsins yrði greiddur úr ríkissjóði og stefndu gert að greiða málskostnað, svo sem mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Stefnda krafðist staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar, svo sem málið væri ekki gjafsóknarmál.
Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Að héraðsdómi gengnum óskaði áfrýjandi eftir því að tekin yrði til yfirmats sálfræðileg matsgerð, sem fram var lögð í héraði. Yfirmatsgerð sálfræðinganna Einars Inga Magnússonar, Margrétar Bárðardóttur og Sólveigar Ásgrímsdóttur frá 21. nóvember 2000 var síðan lögð fram í upphafi munnlegs málflutnings fyrir Hæstarétti. Að henni fram kominni óskaði áfrýjandi eftir því að málið yrði fellt niður og féll frá kröfum sínum fyrir Hæstarétti öðrum en til greiðslu málskostnaðar. Stefnda hélt fast við málskostnaðarkröfu sína.
Þar sem aðilar hafa fallið frá kröfum sínum öðrum en um málskostnað fyrir réttinum fellur málið niður.
Þegar litið er til atvika málsins og ástæðu þessarar niðurstöðu er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Báðir aðilar hafa gjafsókn fyrir réttinum og greiðist kostnaður þeirra af áfrýjun málsins því úr ríkissjóði þar með talin þóknun til lögmanna þeirra fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Mál þetta fellur niður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður aðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns áfrýjanda, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur, og lögmanns stefndu, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.