Hæstiréttur íslands

Mál nr. 103/2002


Lykilorð

  • Einkahlutafélag
  • Bókhald
  • Kyrrsetning


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. september 2002.

Nr. 103/2002.

Gylfi Traustason og

Nesbrú ehf.

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

gegn

Magnúsi ehf.

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

og gagnsök

og

Magnús ehf.

gegn

Sigríði Davíðsdóttur

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Einkahlutafélög. Bókhald. Kyrrsetning.

Ágreiningur reis um úttektir G úr sjóðum M ehf. þegar hann starfaði sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi M ehf., en fyrirtækið var í eigu G og bróður hans R. M höfðaði mál á hendur G, S, eiginkonu G, og N, sem alfarið var í eigu þeirra, og krafði G og S um greiðslu skuldar og að staðfest yrði kyrrsetning í öllum hlutum N ehf. og eignum þess. Í héraðsdómi var fallist á kröfu M ehf. að hluta jafnframt sem viðurkennd var til lækkunar krafa G til launa. Kyrrsetning í hlutum G í N ehf. og eignum þess var staðfest en felld niður í hlutum S. Með vísan til forsendna var dómur héraðsdóms staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 28. febrúar 2002. Þeir krefjast sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu gagnvart stefndu 6. mars 2002 og gagnvart aðaláfrýjendum með stefnu 20. mars 2002. Gagnáfrýjandi krefst þess, að aðaláfrýjandi Gylfi Traustason verði dæmdur til að greiða sér 24.862.527 krónur auk nánar tilgreindra dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. janúar 1997 til greiðsludags. Hann krefst þess einnig, að stefnda verði dæmd til að greiða sér in solidum með aðaláfrýjanda Gylfa 24.011.928 krónur af dómkröfunni auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 7. janúar 1997 til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi staðfestingar á kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík 3. desember 1999 á öllum hlutum stefndu og aðaláfrýjanda Gylfa í aðaláfrýjanda Nesbrú ehf. og fiskiskipinu Sæljósi ÁR-11, skipaskrárnúmer 467, auk alls fylgifjár þess, þar með talið aflaheimildir, aflahlutdeild og aflamark. Loks krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar in solidum úr hendi aðaláfrýjenda og stefndu.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda málskostnað svo sem í dómsorði greinir en málskostnaður milli gagnáfrýjanda og stefndu fellur niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjendur, Gylfi Traustason og Nesbrú ehf., greiði gagnáfrýjanda, Magnúsi ehf., sameiginlega 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður milli gagnáfrýjanda og stefndu, Sigríðar Davíðsdóttur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2001.

Mál þetta sem dómtekið var 5. desember sl. er höfðað með stefnu birtri 28. desember 1999 og framhaldsstefnu birtri 26. apríl sl.

Stefnandi er Magnús ehf. Mýrarási 13, Reykjavík.

Stefndu eru Gylfi Traustason, Maríubakka 18 Reykjavík, Sigríður Davíðsdóttir, sama stað og Nesbrú ehf., sama stað.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi, Gylfi Traustason, verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 35.215.837,50 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 835.631 frá 31.12.1995 til 28.02.1996, af kr. 1.069.264 frá þ.d. til 31.10. s.á., af kr. 1.333.262,60 frá þ.d. til 30.11. s.á., af kr. 2.632.053,60 frá þ.d. til 31.12. s.á., af kr. 2.674.276,40 frá þ.d. til 31.01.1997, af kr. 2.840.059,40 frá þ.d. til 28.02. s.á., af kr. 24.977.207,70 frá þ.d. til 31.03. s.á., af kr. 25.383.722,70 frá þ.d. til 30.04. s.á., af kr. 27.370.614,70 frá þ.d. til 31.05. s.á., af kr. 27.350.415,70 frá þ.d. til 30.06. s.á., af kr. 26.834.893,70 frá þ.d. til 31.07. s.á., af kr. 27.051.425,70 frá þ.d. til 31.08. s.á., af kr. 27.117.398,70 frá þ.d., til 30.09. s.á., af kr. 27.101.436,70 frá þ.d. til 31.10. s.á., af kr. 26.577.763,70 frá þ.d. til 30.11. s.á., af kr. 26.563.827,70 frá þ.d. til 31.12. s.á. og af kr. 26.494.459,70 frá þ.d. til 31.01.1998, af kr. 26.696.607,70 frá þ.d. til 29.02. s.á., af kr. 26.678.551 frá þ.d. til 30.04. s.á., af kr. 26.818.457 frá þ.d. til 31.05. s.á., af kr. 26.787.877 frá þ.d. til 31.07. s.á., af kr. 27.095.173 frá þ.d. til 31.08. s.á., af kr. 27.082.431 frá þ.d. til 30.09. s.á., af kr. 27.228.732,50 frá þ.d. til 31.10. s.á., af kr. 27.187.788,50 frá þ.d. til 31.12. s.á. og af kr. 27.264.498,50 frá þeim degi til 5. nóvember 2000 og af kr. 35.215.837,50 frá þ.d. til greiðsludags.

Að stefnda, Sigríður Davíðsdóttir, verði dæmd til þess að greiða in solidum með stefnda, Gylfa Traustasyni, af dómkröfunni gegn honum kr. 24.013.143 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 91.500 frá 07.01.1997 til 15.01. s.á., af kr. 131.500 frá þ.d. til 03.02. s.á., af kr. 3.302.251 frá þ.d. til 04.02. s.á., af kr. 3.927.036 frá þ.d. til 06.02. s.á., af kr. 18.927.036 frá þ.d. til 07.02. s.á., af kr. 19.027.036 frá þ.d. til 13.02. s.á., af kr. 21.077.036 frá þ.d. til 28.02. s.á., af kr. 21.500.026 frá þ.d. til 07.03. s.á., af kr. 21.555.065 frá þ.d. til 14.03. s.á., af kr. 21.928.143 frá þ.d. til 01.04. s.á., af kr. 23.928.143 frá þ.d. til 26.08. s.á. og af kr. 24.013.143 frá þeim degi til greiðsludags.

Að staðfest verði kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík 3. desember 1999 á öllum hlutum í einkahlutafélaginu, stefnda Nesbrú ehf., Maríubakka 18, Reykjavík og fiskiskipinu Sæljósi ÁR-11, skipaskrárnúmer 467, auk alls fylgifjár þess, þ.m.t. aflaheimildir, aflahlutdeild og aflamark.

Að stefndu verði auk þess dæmd til að greiða stefnanda in solidum málskostnað.

Með framhaldsstefnu birtri 26. apríl sl. höfðaði stefnandi framhaldssök á hendur stefnda, Gylfa Traustasyni, og Nesbrú ehf. og gerði þær kröfur auk þeirra sem gerðar eru í aðalsök að stefndi, Gylfi, verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að upphæð 7.951.229 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá 5. nóvember 2000 til greiðsludags.  Þá er krafist staðfestingar kyrrsetningar frá 3. desember 1999 á öllum hlutum í stefnda, Nesbrú ehf., og fiskiskipinu Sæljósi ÁR-11 auk fylgifjár þess. Enn fremur krefst stefnandi málskostnaðar. Í lýsingu um kröfur aðila hér að framan er krafa þessi talin með og er fjárkrafan hluti af þeim 35.215.837,50 krónum sem stefnandi krefur um í málinu.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda

Til vara að stefndi verði alfarið sýknaður af þeim kröfum sem fram koma í framhaldssök.

Til þrautavara að kröfur stefnanda í framhaldssök verði stórlega lækkaðar.

Þá er þess krafist í framhaldssök að hafnað verði staðfestingu kyrrsetningar í hlutum stefnda í Nesbrú ehf. hvort sem krafa stefnanda í framhaldssök verði tekin til greina að hluta eða öllu leyti.

Þá er gerð krafa um að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað.

Stefndi og bróðir hans, Ragnar Magnús Traustason, stofnuðu einkahlutafélagið Magnús 29. ágúst 1995.  Samkvæmt stofnsamningi er tilgangur félagsins rekstur útgerðar og fiskvinnslu svo og skyldur rekstur, lánastarfsemi og rekstur fasteigna.  Hlutafé félagsins er sagt 500.000 krónur og að Ragnar Magnús hafi lagt fram 375.000 krónur en stefndi 125.000 krónur samkvæmt stofnsamningi og að hlutafé sé allt greitt.  Við aðilaskýrslu kom fram að hlutaféð hefur ekki verið greitt. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár segir að Ragnar Magnús Traustason sé stjórnarmaður en stefndi í varastjórn. Stjórnarmaður riti firmað.  Framkvæmdastjóri var stefndi og hafði hann prókúruumboð svo og Ragnar Magnús Traustason stjórnarmaður. Með bréfi dagsettu 22. nóvember 1999 til stefnda tilkynnti lögmaður stefnanda honum þá ákvörðun félagsins að víkja stefnda úr starfi framkvæmdastjóra og afturkalla prókúruumboð hans.  Jafnframt var hann boðaður til aðalfundar félagsins.  Ragnar Magnús Traustason tók við framkvæmdastjórn félagsins sama dag.  Framangreindu bréfi fylgdi fundarboð til aðalfundar félagsins fyrir árin 1995, 1996, 1997 og 1998 sem haldinn var fimmtudaginn 9. desember 1999.  Í fundargerð þess fundar kemur fram í 5. tölulið að samþykkt hefði verið að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur stefnda, Gylfa Traustasyni, að upphæð 28.975.365,50 krónur en síðar yrði tekin ákvörðun um bótakröfu gegn honum vegna annars tjóns.

Með bréfi skattstjórans í Reykjavík, dagsettu 7. febrúar 1997, var lagt fyrir stefnanda að láta skattstjóra í té öll bókhaldsgögn vegna reksturs félagsins á árunum 1995 og 1996, þ.m.t. öll fylgiskjöl, lista yfir reikningslykla á umræddum árum, lista yfir hreyfingar einstakra reikningslykla, dagbókarlista, ásamt öðrum þeim gögnum er kynnu að fylgja bókhaldinu. 

Nokkur bréfaskipti urðu með stefnanda, skattstjóra og skattrannsóknarstjóra sem enduðu með því að bókhaldi félagsins umrædd ár var komið í hendur skattrannsóknarstjóra og síðan í hendur Tryggva Geirssonar endurskoðanda.  Við athugun hans á bókhaldi stefnanda kveður forsvarsmaður stefnanda hafa komið í ljós að færa hefði þurft bókhald stefnanda að nýju.  Við það verk hafi komið í ljós að ýmsar úttektir stefnda, Gylfa, úr sjóðum stefnanda á árunum 1996, 1997 og 1998 væru ekki studdar gögnum eða skýringum og hafi þær verið færðar honum til skuldar á sjóðreikning nr. 7010 á nafni hans.

Með bréfi dagsettu 16. apríl 1999 sendi endurskoðunarskrifstofa Tryggva Geirssonar ljósrit 16 tékka og hreyfingarlista á reikningslykli 7010 sem merktur var sjóður v/Gylfa Traustason.  Kemur fram í bréfinu að bréfritari telji víða mismun á bankagreiðslu með ávísun og heildarfjárhæð þeirra reikninga eða gagna sem hann hefði undir höndum eða að skýringa væri vant við ýmsar útgefnar ávísanir.  Var svars stefnda við þessum athugasemdum óskað.  Greiðslur þessar, sem voru inntar af hendi á árinu 1997, námu samtals 26.574.609,30 krónum að því er segir í bréfinu.

Stefndi, Gylfi Traustason, svaraði bréfi þessu 22. júlí 1999 og 26. ágúst s.á. Samkvæmt yfirliti sem fylgdi síðarnefnda bréfinu kvaðst hann hafa fengið 13.676.789 krónur frá stefnanda og nefnir yfirlitið kvittun fyrir eftirfarandi greiðslum frá Magnúsi ehf.  Er því ekki ágreiningur um að stefndi hafi tekið út 13.676.789 krónur af ofangreindri fjárhæð í samtals 14 greiðslum á árinu 1997.

Með úrskurði ríkisskattstjóra 8. mars 2000 var stefnanda gert að greiða samtals 2.692.091 krónu í álag vegna virðisaukaskatts árin 1995 og 1996. Tekjuskattur og eignarskattur árin 1997, 1998 og 1999 hækkaði samtals með álagi og dráttarvöxtum um 3.075.585 krónur og staðgreiðsla opinberra gjalda 1995 og 1996 hækkaði samtals um 614.674 krónur. Þá kveður stefnandi kostnað vegna starfa Tryggva Geirssonar endurskoðanda vera 1.290.000 krónur og innheimtukostnað vera 274.989 en samtals eru þessar fjárhæðir 7.951.229 krónur.

Stefnandi kveður mál þetta sprottið af störfum stefnda, Gylfa Traustasonar, sem framkvæmdastjóra stefnanda, Magnúsar ehf. Fjárkrafan gegn honum sé samkvæmt reikningsyfirliti sjóðsreiknings nr. 7010 á hans nafni í bókhaldi stefnanda. Um sé að ræða óheimilar úttektir hans úr sjóðum stefnanda sem hann hafi framkvæmt í skjóli stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins, aðallega á árinu 1997.

Stefndi, Gylfi, hafi annast daglegan rekstur stefnanda, borið ábyrgð á bókhaldi þess og skattskilum og haft fjárreiður þess með höndum. Verulegir annmarkar hafi verið á bókhaldi hans og skattskilum fyrir stefnanda. Hann hafi vanrækt starfsskyldur sínar og misnotað aðstöðu sína. Sökum þess hafi stefnandi sætt skattrannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins fyrir rekstrartímabilið 1. ágúst 1995 til 31. desember 1996 sem staðið hafi frá ársbyrjun 1998. Aðgerðir skattyfirvalda hafi þó hafist fyrr eða í febrúar 1997 með kröfu skattstjórans í Reykjavík um afhendingu bókhaldsgagna stefnanda eftir að skattstjóranum á Vestfjörðum hafi borist ábending um skattsvik. Komið hafi á daginn að ekkert væri byggjandi á því bókhaldi sem stefndi, Gylfi, hafi fært né heldur þeim skattskilum stefnanda sem hann hafði unnið. Virðisaukaskattskýrslur, skýrslur um afdregna staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna, ársreikningar og önnur skattskilagögn, sem hann hafði gert og skilað hafi verið, væru efnislega röng í veigamiklum atriðum og vísvitandi að því er best verði séð. Augljóst hafi verið að ekki væri unnt að koma nokkru lagi á þetta nema með því að færa bókhald stefnanda upp á nýtt. Það verk hafi annast Tryggvi E. Geirsson, löggiltur endurskoðandi. Tryggvi hafi ítrekað leitað eftir gögnum og upplýsingum frá stefnda, Gylfa, sem reynst hafi ósamvinnuþýður bæði við hann sem og við skattyfirvöld, komið fram með rangfærslur og ekki lagt fram bókhaldsgögn til grundvallar verulegum útgreiðslum úr sjóðum stefnanda eða til sönnunar því að um greiðslur á skuldbindingum stefnanda væri að ræða.

Rannsóknarskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi legið fyrir í nóvember 1998 og þá verið send stefnanda og fyrirsvarsmönnum þess til andmæla. Þau andmæli hafi Tryggvi E. Geirsson sent í febrúar 1999, en þá hafi verið lokið færslu bókhaldsins að nýju, gerð nýrra ársreikninga og skattskilagagna vegna áranna 1995 og 1996. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi lokið í maí 1999. Hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að leggja mætti hin nýju skattskilagögn til grundvallar álagningu opinberra gjalda og virðisaukaskatts á stefnanda vegna nefndra ára að teknu tilliti til tiltekinna minni háttar atriða. Með bréfi 17. nóvember 1999 hafi ríkisskattstjóri boðað stefnanda skattbreytingar á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Rannsóknin hafi leitt í ljós að virðisaukaskattur áranna 1995 hafi verið vantalinn. Boði ríkisskattstjóri endurákvörðun virðisaukaskatts stefnanda auk 10% álags, en við það bætist síðan dráttarvextir frá viðkomandi gjalddögum hvers virðisaukaskattstímabils. Sömuleiðis boði hann endurákvörðun skattstofna til tekju- og eignaskatts, þ.m.t. rekstrartaps, vegna rekstraráranna 1995 til 1996 og að leggja til grundvallar þeirri skattákvörðun hin nýju skattskilagögn. Þar sem þau gögn hafi óhjákvæmilega áhrif á þau rekstrarár sem á eftir koma boði ríkisskattstjóri einnig endurákvörðun skattstofna stefnanda vegna rekstraráranna 1997 og 1998 og geri stefnanda að sæta 25% álagi á vantalda tekjuskattsstofna rekstraráranna 1995, 1996, 1997 og 1998 og vantalinn eignarskattsstofn rekstrarársins 1998. Stefnandi kveður vanhöld einnig hafa verið á að staðgreiðslu af launum starfsmanna stefnanda hafi verið réttilega skilað.

Stefnandi kveðst byggja fjárkröfur sínar á hendur stefnda, Gylfa, á því að hann hafi sem framkvæmdastjóri stefnanda borið ábyrgð á því að bókhald stefnanda væri fært í samræmi við lög og venjur um bókhald og ársreikninga og að meðferð eigna stefnanda væri með tryggilegum hætti. Á það hafi verulega skort. Hann hafi hvorki er hann færði bókhaldið né síðar komið fram með fullnægjandi gögn eða skýringar á fylgiskjölum og færslum varðandi úttektarupphæðir úr sjóðum stefnanda. Þær úttektir séu því færðar honum til skuldar á sjóðsreikning nr. 7010 á nafni hans, þar sem hann sé ábyrgur fyrir slíkum úttektum og öllum bókhaldsfylgiskjölum vegna stöðu sinnar á þeim tíma hjá félaginu. Stefndi hafi fengið ítrekaðar fyrirspurnir um hvort tveggja frá endurskoðandanum og tækifæri til útskýringa og afhendingar gagna þeim til sönnunar. Endurskoðandinn hafi vandað mjög til allrar vinnu sinnar við færslu og endurfærslu bókhaldsins í samræmi við skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi. Hafi sú vinna verið metin vönduð að verðleikum af skattyfirvöldum með því að ríkisskattstjóri hafi ákveðið að leggja hin nýju skattskilagögn vegna rekstraráranna 1995 og 1996 til grundvallar endurákvörðunum skattstofna. Ef ekki hefði verið stofnað til þeirrar vinnu sé ljóst, að stefnanda hefðu verið áætlaðir skattstofnar og þá mun hærri en nemur skattstofnum samkvæmt hinum nýju skattskilagögnum auk boðaðs álags á þá. Vinna endurskoðandans sé því stefnda, Gylfa, öðrum þræði til hagsbóta, enda dragi hún úr tjóni stefnanda sem ella hefði orðið. Við þessa vinnu hafi endurskoðandinn gætt þess að færa ekkert á nefndan sjóðsreikning nema það sem fyllilega réttlætanlegt og nauðsynlegt var og ekki beri eða réttlætanlegt sé að færa á aðra bókhaldsreikninga.

Fjárkröfurnar á hendur stefnda, Gylfa, kveður stefnandi einnig við það reistar að hann hafi valdið stefnanda tjóni. Úttektirnar hafi verið óheimilar og ýmist í hans þágu, eiginkonu hans, stefndu Sigríðar, og Nesbrúar ehf., sem sé alfarið í eigu þeirra og orðið það 1. janúar 1997. Hann hafi með því misnotað stöðu sína sem framkvæmdastjóri stefnanda og dregið sér fjármuni í eigu stefnanda, sem honum hafi verið trúað fyrir og hann hafði í sínum vörslum stöðu sinnar vegna. Með því hafi hann brotið gegn samþykktum félagsins, lögum um einkahlutafélög og almennum hegningarlögum og orðið bótaskyldur gagnvart stefnanda fyrir því tjóni sem fólgið sé í fjárkröfunum. Bæði sé hann greiðsluskyldur félaginu samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins og bótaskyldur samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins og hlutafélagaréttarins.

Stefnandi kveður stefndu, Sigríði Davíðsdóttir, vera eiginkonu stefnda, Gylfa Traustasonar. Svo sem fram komi í yfirliti meðfylgjandi bréfi endurskoðandans, dags. 16. apríl 1999, til stefnda, Gylfa, hafi stefnda, Sigríður, framselt þargreinda tékka sem gefnir séu út af honum á tékkareikning stefnanda nr. 36 í Sparisjóði Bolungarvíkur aðrar en þær sem varða fskj. nr. 8, 38, 15 og 16. Óskýrður mismunur vegna þeirra tékka sé samtals kr. 850.599,30, en óskýrður mismunur allra tékkanna samtals kr. 26.574.609,30. Stefnda, Sigríður, hafi því móttekið og ráðstafað andvirði tékka að upphæð kr. 25.724.010 (kr. 26.574.609,30 - kr. 850.599,30) án þess að hafa átt nokkra kröfu til þeirrar fjárhæðar að meira eða minna leyti á stefnanda. Hvorki hún né stefndi, Gylfi, hafi skýrt hvernig þeirri fjárhæð var varið og verði að líta svo á að fjárhæðinni hafi verið ráðstafað í hennar eigin þágu og/eða beggja stefndu. Með framsali tékkanna liggi fyrir hlutdeild stefndu, Sigríðar, í fjárdrætti stefnda, Gylfa, sbr. 22. gr. alm. hgl., sem valdið hafi stefnanda tjóni. Byggist krafan á hendur stefndu, Sigríði, bæði á almennum reglum kröfuréttarins, þar sem hún hafi enga kröfu átt á hendur félaginu, og almennum reglum skaðabótaréttarins.

Stefnandi kveðst byggja kröfuna um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar á því að uppfyllt hafi verið skilyrði laga um kyrrsetningu og lögbann fyrir gerðinni.

Stefnandi kveðst vísa til almennra reglna kröfuréttarins og skaðabótaréttarins, 2. og 3. mgr. 44 gr., 2. mgr. 51. gr. og 108. gr. laga um einkahlutafélög nr. 130/1994, laga um ársreikninga nr. 144/1994 með síðari breytingum og laga um bókhald nr. 145/1994 með síðari breytingum, einkum 2. gr., 1. tl. 1. gr., 4. gr., 6. gr., 8.-11. gr., 13. gr., 15. gr., 17. gr. og 18.-20. gr., sbr. 37.gr. og 36. gr. þeirra og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum, laga nr. 75/1981 um tekju-og eignarskatt með síðari breytingum, laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og laga nr. 113/1990 um tryggingagjald.

Til stuðnings kyrrsetningargerðinni og staðfestingu hennar vísar stefnandi til 5. gr., 4. mgr. 8. gr. og VII. kafla laga nr. 31/1990, sbr. 2. og 3. tl. 3. mgr. 21. gr, laga nr. 90/ 1989. gr. laga nr. 31/1990.

Til stuðnings vaxtakröfum vísar stefnandi til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.

Til stuðnings málskostnaðarkröfum vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. og 2. mgr. 130. gr., sbr. 3. mgr.

Í málinu byggir stefndi, Gylfi, á því að stefnandi eigi enga kröfu á hendur sér, hvorki skaðabótakröfu né kröfu byggða á reglum kröfuréttarins, a.m.k. ekki á þeim grunni sem fram komi í stefnu. Þá byggir stefndi á því að ársreikningur Tryggva Geirssonar lögg. endurskoðanda gefi ranga og villandi mynd af stöðu stefnda, úttektum Ragnars Traustasonar, úttektum sínum og rekstrarafkomu fyrirtækisins.

Stefndi, Gylfi, byggir jafnframt á því að færsla endurskoðandans á einkareikning stefnda og afstaða endurskoðandans til útskýringa stefnda fái ekki staðist. Þá hafi stefndi, Gylfi, ekki greitt sjálfum sér laun fyrir störf sín í þágu stefnanda. Þess í stað hafi hann fært laun sín í bókhaldi félagsins sem skuld fyrirtækisins við Nesbrú ehf. Við færslur endurskoðandans á hinu endurskoðaða bókhaldi hafi allar þessar greiðslur verið þurrkaðar út á þeirri forsendu að enginn skriflegur samningur hafi verið gerður um laun eða þóknun til stefnda meðan hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra félagsins og fyrir færslu bókhaldsins og annars sem tengdist rekstrinum.

Hann hafi gefið skýringar á þeim atriðum sem um var spurt og vísar til handskrifaðra athugsemda sinna við yfirlit endurskoðandans sem liggi frammi á dskj. nr. 27 en nánari útlistun á því komi fram í niðurstöðukafla dóms þessa þar sem afstaða er tekin til krafna í málinu.

Stefndi bendir á að til þess sé að líta að Ragnar sé aðalmaður í stjórn fyrirtækisins og beri jafnt og stefndi mikla eða meiri ábyrgð á bókhaldinu og skattskilunum. Undan því geti hann ekki vikist enda honum fullkunnugt um hvernig að málum var staðið.

Stefndi mótmælir því að úttektir stefnda hafi verið ólögmætar og án heimildar og kveður hann ekki vera um aðrar úttektir að ræða af hans hálfu en þær sem hann hafi haft löglegt tilkall til og ekki hafi verið um aðrar greiðslur að ræða en sem numið hafi skuld stefnanda við hann og svo greiðslur inn á laun stefnda/Nesbrúar ehf., hjá stefnanda. Eigi verði séð á þeim gögnum sem liggja fyrir hvert tjón það sé sem stefndi hefur valdið stefnanda. Þvert á móti hafi stjórn stefnda leitt til þess að fyrirtækið hafi skilað umtalsverðum hagnaði.

Stefnda, Sigríður, ber fyrir sig að ekkert liggi fyrir um fjárdrátt af hálfu stefnda, Gylfa, eða að hann hafi misfarið með fé stefnanda. Ekki verði séð hvaða tjóni hún hafi getað valdið stefnanda með því að framselja löglega útgefnar ávísanir og á hvaða grunni stefnandi byggi skaðabótakröfu sína. Ekkert liggi fyrir um tjón stefnanda, sem rekja megi til athafna stefndu.  Jafnframt telur stefnda að stefndi, Gylfi, hafi haft lögformlegar heimildir til útgáfu þeirra ávísana sem henni voru afhentar til greiðslu reikninga.  Hún hafi ekki orðið eigandi ávísananna og þeirrar fjárhæðar sem þær mæltu fyrir um heldur hafi hún tekið við tékkanum í þeim tilgangi einum að greiða þá reikninga sem umboðsmaður reikningseiganda hefði falið henni að greiða.  Enda þótt hún hafi í einhverjum tilvikum framselt tékka eða fyllt út felist í því fyrst og fremst ábyrgð framseljanda gagnvart viðtakanda tékkans en ekki reikningseiganda.

Stefndu krefjast þess að synjað verði um staðfestingu kyrrsetningargerðar. Sýslumaður hafi ekki við framkvæmd fjárnámsins gætt leiðbeiningarskyldu sinnar. Kveður stefndi að hann hafi ekki átt þess kost að leita sér lögfræðiaðstoðar þegar kyrrsetningin fór fram. Sýslumaður hefði átt að gera sér fulla grein fyrir þessu og jafnframt að við þær aðstæður hafi hvílt á honum mun ríkari leiðbeiningarskylda en ef stefndi og kona hans hefðu verið boðuð til kyrrsetningar. Eins og kyrrsetningin hafi verið framkvæmd kveður stefndi að sýslumaður og lögmaður stefnanda hafi birst sér og konu sinni mjög að óvörum. Þau hafi komið af fjöllum þegar þeim var kunngerð krafa stefnanda enda hvorki verið sent innheimtubréf né Ragnar ámálgað við hann að krafa af þessu tagi yrði höfð uppi á hendur stefnda eða eiginkonu hans. Stefndi sem sé ólöglærður kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir hvað þau gætu gert og að þeim hjónum væri óskylt eða óheimilt að benda til kyrrsetningar á eignir fyrirtækis þeirra, Nesbrúar ehf. Þau hafi því treyst fulltrúa sýslumanns að það skipti ekki máli hvað þau gerðu. Kyrrsetningin í þessum eignum færi fram hvort sem þau bentu á þær eða ekki.

Með vísan til ofangreinds telur stefndi að synja eigi um staðfestingu gerðarinnar eða a.m.k. að því leyti sem viðkemur eignum Nesbrúar ehf. Stefndi bendir jafnframt á að bókun sýslumanns fái ekki staðist. Tilgreining á hlutum þeirra hjóna hvors fyrir sig í hlutafélaginu Nesbrú ehf., komi hvergi fram eða nafnverð þeirra hluta. Einungis sé minnst á hluta þeirra í félaginu.

Um skaðabætur vegna kyrrsetningarinnar vísa stefndu til þess að mál þetta hafi valdið þeim miklum álitshnekki og verið þeim erfitt sakir þess að verið er að bera á stefnda, Gylfa, sakir sem séu úr lausu lofti gripnar.

Til stuðnings sýknukröfunni vísar stefndi til reglna samninga og kröfuréttarins um umboð hans til áritunar á tékka sem framkvæmdastjóri stefnda og réttar hans til að fá endurgreitt það fé sem hann hefur lánað. Þá bendir hann á þá reglu kröfuréttar að sá sem leggur fram vinnu eigi rétt á að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt á grundvelli samninga eða í samræmi við það sem sanngjarnt og eðlilegt geti talist. Þá bendir hann á reglur skaðabótaréttarins og ákvæða laga um einkahlutafélög, lög um virðisaukaskatt, um staðgreiðslu ofl, um ábyrgð stjórnarmanna sameiginlega að rekstri færslu bókhalds og gerð ársreikninga.

Um málskostnað er bent á ákvæði 130. og 131. gr. einkamálalaga. Vísað er til laga um virðisaukaskatt um skyldu lögmanna til greiðslu virðisaukaskatts af málsflutningsþóknun en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

Niðurstaða

Stefndi gaf út tékka af reikningi stefnanda nr. 36 í Sparisjóði Suðureyrar að fjárhæð 34.750.751,30 krónur 3. febrúar 1997. Samkvæmt bréfi endurskoðunarskrifstofunnar vantaði gögn um 4.431.418,50 krónur sem óskað var skýringa á.  Stefndi gaf þær skýringar í svarbréfi sínu dagsettu 25 ágúst 1999 að af þeirri fjárhæð hafi hann greitt 1.261.281 krónu vegna Spillis ehf. og 3.170.136 krónur sem færast ætti á víxilskuldir og kvað fylgiskjöl vera hjá Ragnari.  Í málinu hefur verið lögð fram kvittun dagsett 3. febrúar 1997 þar sem Nesbrú ehf. greiðir lokagreiðslu af skuldabréfi að fjárhæð 2.525.314,10 krónur og enn fremur er greitt af skuldabréfi 644.222,10 krónur eða samtals 3.169.536,20 krónur.  Kvittanir þessar eru gefnar út af  bankagjaldkera þeim sem tók við ofangreindum tékka og á sama tíma og hann var framseldur, eftir því sem fram kemur á ljósriti tékkans og kvittununum.  Þá kemur fram í ódagsettu yfirliti Tryggva Geirssonar endurskoðanda sem lagt var fram undir meðferð málsins að 1.260.667 krónur höfðu runnið til greiðslu vegna Spillis ehf. og því ekki gerð krafa á hendur stefnda vegna þeirrar fjárhæðar.  Samkvæmt þessu þykir sannað að stefndi, Gylfa Traustason, skuldi stefnanda 3.169.536,20 krónur vegna þessa liðar.

Þann 6. febrúar 1997 gaf stefndi, Gylfi, út tékka af reikningi stefnanda nr. 36 í Sparisjóði Suðureyrar að fjárhæð 16.500.000 krónur sem framseldur var í Landsbanka Íslands og samkvæmt kvittun dagsettri sama dag og á sama tíma af sama gjaldkera og tók við tékkanum voru 15.000.000 króna lagaðar inn á reikning stefnda og 1.500.000 krónur lagðar inn á reikning Ragnars M. Traustasonar.  Í fyrrgreindu bréfi stefnda frá 26. ágúst 1999 kvittar hann fyrir að hafa tekið við 10.583.789 krónum af tékkafjárhæðinni.  Skýringar skortir fyrir mismuninum 4.416.202 krónum.  Stefndi lýsti því í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði gögn um úttektir sínar í bókhaldi Nesbrúar ehf. en hefur ekki lagt þau gögn fram og eins og sönnunarstöðu er háttað hér þykir sannað að stefndi skuldi stefnanda ofangreindar 4.416.202 krónur.

Þann 13. febrúar 1997 gaf stefndi, Gylfi, út tékka af reikningi stefnanda nr. 36 í Sparisjóði Suðureyrar að fjárhæð 2.050.000 krónur sem framseldur var í Landsbanka Íslands sama dag og var andvirði tékkans lagt inn á reikning vandamanns stefnda, 50.000 krónur og 2.000.000 króna inn á reikning stefnda sjálfs.  Í fyrrgreindu bréfi stefnda frá 26. ágúst 1999 kvittar hann fyrir að hafa tekið við 450.000 krónum af ofangreindri tékkafjárhæð og standa því eftir 1.600.000 krónur.  Stefndi hefur ekki gert grein fyrir því hverjar greiðslur í þágu annarra en hans sjálfs voru inntar af hendi umrætt sinn og verður sú krafa stefnanda að stefndi skuldi honum ofangreindar 1.600.000 krónur tekin til greina.

Þann 1. apríl 1997 gaf stefndi, Gylfi Traustason, út tékka af reikningi stefnanda nr. 36 í Sparisjóði Suðureyrar að fjárhæð 2.000.000 króna sem framseldur var í Landsbanka Íslands.  Fram kemur á ljósriti tékkans að hann er bókaður kl. 13.24.08.  Á sama stað, dag og tíma voru þrír tékkar að fjárhæð samtals 86.547 krónur framseldir og andvirði þeirra lagt inn á reikning stefnda, Gylfa Traustasonar, auk andvirðis fyrrgreinds tékka eða samtals 2.086.547 krónur.  Verður fallist á það með stefnanda að stefndi, Gylfi, skuldi honum 2.000.000 króna vegna þessa.

Í málatilbúnaði stefnanda er auk fjárhæða þeirra sem gerð er grein fyrir hér að framan krafið um  2.400.756,20 krónur sem séu mismunur á úttektum stefnda, Gylfa, og greiðslum frá honum samkvæmt bókhaldi.  Engin fylgigögn liggja fyrir í málinu til grundvallar þessari fjárhæð og verður hún því ekki tekin til greina.

Samkvæmt því sem hér að framan segir nemur skuld stefnda, Gylfa Traustasonar, við stefnanda, Magnús ehf., samtals 24.862.527,00 krónum, þ.e.a.s. 13.676.789 krónur sem stefndi, Gylfi, kannast við að hafa fengið frá stefnanda og   11.185.738 krónur sem dómurinn telur sannað að runnið hafi til stefnda, Gylfa, samkvæmt framansögðu.

Stefndi, Gylfi, hefur krafist þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og heldur því fram að samkomulag hafi verið með honum og Ragnari M. Traustasyni um að hann tæki sér laun í nafni Nesbrúar ehf. fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi fyrir stefnanda og fyrirtækið Spilli ehf. sem er eign Ragnars M. Traustasonar.  Hefur hann lagt fram reikning dagsettan 30. júní 1999 þar sem hann krefur um verktakalaun fyrir tímabilið 1. ágúst 1995 til 30. september s. á., 100.000 krónur fyrir hvorn mánuð eða samtals 200.000 krónur.  Þá krefur hann um verktakalaun fyrir tímabilið 1. október 1995 til 31. mars 1997, 300.000 krónur fyrir hvern mánuð eða samtals 5.400.000 krónur.  Loks krefur hann um verktakalaun fyrir tímabilið 1. apríl 1997 til 30. júní 1999, 25.000 krónur eða samtals 675.000 krónur.  Er krafa sú er hann gerir á hendur stefnanda um verktakalaun þannig samtals 6.275.000 krónur.  Stefndi hefur og sett fram reikning á hendur Spilli ehf. að fjárhæð samtals 3.600.000 krónur en með því að Spillir ehf. á hér enga aðild máls verður ekki frekar fjallað um þá kröfu stefnda.

Þrátt fyrir þá fullyrðingu forsvarsmanns stefnanda að stefndi hafi ekki átt að fá laun fyrir störf sín í þágu stefnanda, einungis hlutdeild í hagnaði ef til kæmi, verður byggt á því hér að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að stefnda beri laun fyrir vinnu þá sem hann innti af hendi í þágu stefnanda með því að samkomulag um annað er ekki sannað. Eftir atvikum þykir hæfilegt að viðurkenna kröfu, stefnda Gylfa, um laun með 4.000.000 króna fyrir greint tímabil.

Stefndi, Gylfi, krefst einnig lækkunar á kröfum stefnanda vegna þess að hann hafi á þeim tíma er hann gegndi starfi framkvæmdastjóra stefnanda greitt af eigin fé samtals 18.064.708 krónur og vísar hann um þetta til viðskiptareiknings síns eins og hann var upphaflega færður af stefnda sjálfum í bókhaldi stefnanda árið 1996.  Sagði stefndi í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði greitt af reikningi Nesbrúar ehf. og að gögn um þetta væri að finna í bókhaldi þess fyrirtækis.  Fram kemur í framburði Tryggva Geirssonar endurskoðanda og öðrum gögnum málsins að af hálfu stefnanda hafi verið tekið tillit til þessara atriða við kröfugerð þar sem gögn um greiðslu frá stefnda lágu fyrir.  Þess ber að gæta að fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra vegna rekstraráranna 1995 og 1996, þar sem fjallað er um bókhald stefnanda, að framlögð tekju- og gjaldafylgiskjöl hafi verið geymd í númeraröð í möppum sem þó hafi ekki alveg verið samfelld. Styður þetta þá fullyrðingu endurskoðandans að skort hafi á að allar númeraðar og bókfærðar bókhaldsfærslur hafi verið að finna sem fylgiskjöl í bókhaldi áranna 1995 og 1996 sem stefndi annaðist og afhenti síðan til skattrannsóknarstjóra. Ekki kemur annað fram en að stefndi hafi sjálfur bókhald fyrirtækis síns, Nesbrúar ehf., undir höndum en hann hefur ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir þá staðhæfingu hans að ofangreind fjárhæð hafi runnið til stefnanda frá Nesbrú ehf.  Verður þessum vörnum því ekki sinnt frekar hér.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða um kröfu stefnanda á hendur stefnda, Gylfa Traustasonar, sú að stefnda beri að greiða stefnanda 20.862.827 krónur með dráttarvöxtum frá birtingardegi stefnu.

Fram hefur verið lögð fundargerð stefnanda frá 17. janúar 2001 en þar var samþykkt að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur stefnda að fjárhæð 7.951.339 krónur .

Samkvæmt 110. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög skal félag höfða skaðabótamál gegn framkvæmdastjóra innan tveggja ára frá lokum þess reikningsárs þar sem ákvörðunin eða athöfnin sem málið byggist á, var samþykkt eða gerð.  Bókhaldi því er stefndi færði fyrir stefnanda árin 1995 og 1996 var ábótavant að mati skattyfirvalda og rannsókn skattrannsóknarstjóra leiddi til þess að skattstofnar til tekju- og eignaskatts og virðisaukaskatts voru endurákvarðaðir með álagi vegna rekstraráranna 1995 og 1996 og sú breyting leiddi óhjákvæmilega til breytinga skattstofna og álags vegna rekstraráranna 1997 og 1998. Hins vegar er til þess að líta að stjórnarformaður stefnanda hlutaðist aldrei til um að formlegir fundir væru haldnir í félaginu svo séð verði fyrr en í desember 1999 né heldur hafði hann það eftirlit með störfum stefnda sem honum bar sem stjórnarformanni og verður stefnandi að bera hallann af því auk þess að til þess er að líta að samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í 110. gr. laganna var málshöfðunarfrestur liðinn er framhaldssök var höfðuð og verður henni því vísað frá dómi.

Fram kom við meðferð málsins að stefnda, Sigríður Davíðsdóttir, eiginkona stefnda, Gylfa, hafði þann starfa að fara í banka ýmist með útfylltar eða óútfylltar ávísanir fyrir stefnda, Gylfa, og greiða ýmsa reikninga.  Verður hún sýknuð af öllum kröfum stefnanda með því að ekki er sýnt fram á að hún hafi með ólögmætum eða saknæmum hætti átt þátt í því tjóni sem stefnandi varð fyrir vegna fjárvöntunar í sjóði stefnanda.  Hins vegar fellur málskostnaður á milli aðila niður.

Skilyrði laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl. þykja vera uppfyllt og er ekki fallist á það með stefnda, Gylfa, að skilyrði hafi skort til framkvæmdar kyrrsetningar eða að annmarkar hafi verið á framkvæmd hennar sem leiði til þess að hún verði ekki staðfest. Hins vegar er stefnda, Sigríður, sýknuð af kröfum stefnanda og verður kyrrsetning því felld niður gagnvart henni. Framangreind kyrrsetningargerð verður því staðfest gagnvart stefnda, Gylfa, og stefnda, Nesbrú ehf., en felld niður hvað snertir stefndu, Sigríði.

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Halldóri Arasyni og Sigurði P. Sigurðssyni endurskoðendum.

DÓMSORÐ

Stefndi, Gylfi Traustason, greiði stefnanda, Magnúsi ehf., 20.862.827 krónur með dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga frá 28. desember 1999 til greiðsludags.

Stefndi, Gylfi Traustason, greiði stefnanda 2.000.000 króna í málskostnað.

Stefnda, Sigrún Davíðsdóttir, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda en málskostnaður milli hennar og stefnanda fellur niður.

Framangreind kyrrsetning í hlutum stefnda, Gylfa, í Nesbrú ehf. og eignum Nesbrúar frá 3. desember 1999 er staðfest en kyrrsetning í hlutum stefndu Sigríðar fellur niður.

Kröfum í framhaldssök er vísað frá dómi en málskostnaður í þeim þætti málsins fellur niður.