Hæstiréttur íslands

Mál nr. 555/2006


Lykilorð

  • Útboð
  • Stjórnvaldsúrskurður
  • Málskostnaður


Mánudaginn 2

 

Mánudaginn 2. apríl 2007.

Nr. 555/2006.

Reykjavíkurborg

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

GT verktökum ehf.

(Marteinn Másson hrl.)

 

Útboð. Stjórnvaldsúrskurður. Málskostnaður.

R krafðist þess að ákvæði í úrskurði kærunefndar útboðsmála 19. apríl 2005, þess efnis að R bæri að greiða GT kostnað af kæru þess síðarnefnda til nefndarinnar, yrði fellt úr gildi. GT beindi kæru til kærunefndar útboðsmála 14. október 2004 vegna útboðs sem fram hafði farið á vegum R og GT hafði verið þátttakandi í. Nefndin hafnaði öllum kröfum GT en féllst þó á að R bæri að greiða honum kostnað hans við að hafa kæruna uppi, þar sem ákveðnir annmarkar hefðu verið á framkvæmd útboðsins. Samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála ákveðið að sá sem kæra til hennar beinist gegn greiði kæranda kostnað af því að hafa hana uppi. Í lögskýringargögnum varðandi þetta ákvæði kemur fram að slík ákvörðun eigi að jafnaði aðeins að koma til greina ef kærði tapar máli fyrir nefndinni í öllum verulegum atriðum. Þrátt fyrir að kærunefndin hefði talið ákveðna annmarka vera á útboðinu voru kröfur GT fyrir nefndinni í engu teknar til greina. Taldi Hæstiréttur fyrrnefnda ákvörðun nefndarinnar um að leggja kostnað á R því vera í ósamræmi við 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001. Var því fallist á kröfu R. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. október 2006. Hann krefst þess aðallega að fellt verði úr gildi ákvæði í úrskurði kærunefndar útboðsmála 19. apríl 2005 í máli nr. 40/2004 um að honum beri að greiða stefnda 485.000 krónur vegna kostnaðar af því að hafa uppi kæru á hendur áfrýjanda fyrir nefndinni, en til vara að sú fjárhæð verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins efndi Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar fyrir hönd Gatnamálastofu til útboðs í ágúst 2004 á hálkuvörn og snjóhreinsun gatna í borginni frá 15. nóvember 2004 til 15. apríl 2008. Í útboðs- og verklýsingu var ráðgert að þriggja manna dómnefnd færi yfir tilboð og gæfi þeim einkunn, sem myndi að þremur tíundu hlutum ráðast af fjárhæð tilboðs, en að öðru leyti af gæðum þess, þar sem einkum yrði litið til atriða varðandi stjórnendur bjóðanda, tækjakost og aðgengi. Tvö tilboð bárust í verkið, annars vegar frá Malbikunarstöðinni Höfða hf. og hins vegar frá stefnda, og voru þau opnuð 21. september 2004. Tilboð þess fyrrnefnda fékk heildareinkunnina 9,43 hjá dómnefnd, en tilboð stefnda 5,26. Á fundi innkauparáðs áfrýjanda 20. október 2004 var samþykkt tillaga gatnamálastjóra frá 12. sama mánaðar um að gengið yrði til samninga um verkið við Malbikunarstöðina Höfða hf. Áður en til þessa kom beindi stefndi kæru 14. október 2004 til kærunefndar útboðsmála, sem starfar samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, og krafðist þess að stöðvuð yrði gerð fyrirhugaðs samnings áfrýjanda við Malbikunarstöðina Höfða hf., fyrrgreint útboð yrði fellt niður og áfrýjanda gert að bjóða verkið út á ný, kærunefndin léti uppi álit um skaðabótaskyldu áfrýjanda gagnvart stefnda og áfrýjanda yrði gert að greiða stefnda kostnað af því að hafa kæruna uppi. Kærunefndin hafnaði fyrstnefndri kröfu stefnda með ákvörðun 24. október 2004, en tók afstöðu til annarra atriða í kærunni með úrskurði 19. apríl 2005. Í honum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að nánar tiltekin tengsl, sem þóttu hafa verið fyrir hendi milli áfrýjanda og Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf., hafi verið fallin til að veita þeim bjóðanda forskot í útboðinu eða valda hættu á því, en með þessu hafi verið brotið gegn meginreglu um jafnræði bjóðenda, sem fram komi í 1. gr. og 11. gr. laga nr. 94/2001. Kröfu stefnda um að útboðið yrði fellt niður og lagt fyrir áfrýjanda að bjóða verkið út á ný var þó hafnað með vísan til 1. mgr. 83. gr. sömu laga, þar sem bindandi samningur væri þegar kominn á um verkið milli áfrýjanda og Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. Þá var hafnað kröfu stefnda um að nefndin léti uppi álit um skaðabótaskyldu áfrýjanda, þar sem stefnda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hafi átt raunhæfan kost á að verða valinn til verksins, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Varðandi kröfu stefnda samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um að fá bættan úr hendi áfrýjanda kostnað af því að hafa kæruna uppi vísaði nefndin til þess að áfrýjandi hafi að mati hennar brotið gegn meginreglu um jafnræði bjóðenda, auk þess að hafa vanrækt að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu, sem nefndin taldi honum hafa borið að gera. Af þessum sökum var honum gert að greiða stefnda 485.000 krónur vegna kostnaðarins, sem hér um ræðir. Svo sem áður greinir leitast áfrýjandi við að fá þessu ákvæði í úrskurði nefndarinnar hnekkt með málsókn þessari.

Samkvæmt fyrrnefndri 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 getur kærunefnd útboðsmála ákveðið að sá, sem kæra til hennar beinist gegn, greiði kæranda kostnað af því að hafa hana uppi. Í lögskýringargögnum varðandi ákvæði þetta kemur fram að slík ákvörðun eigi að jafnaði aðeins að koma til greina ef kærði tapar máli fyrir nefndinni í öllum verulegum atriðum. Þótt kærunefnd útboðsmála hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrrgreindir annmarkar hafi verið á framkvæmd útboðsins, sem mál þetta varðar, voru kröfur stefnda fyrir henni, sem miðuðu að því að fá útboðinu hnekkt eða skaðabótaskyldu áfrýjanda slegið föstu, í engu teknar til greina. Ákvörðun nefndarinnar um að leggja á áfrýjanda kostnað stefnda af því að halda fram kæru til hennar var þannig í ósamræmi við þá skýringu 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001, sem löggjafinn lagði til grundvallar að beita ætti. Að því virtu verður að fella þessa ákvörðun úr gildi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi ákvæði í úrskurði kærunefndar útboðsmála 19. apríl 2005 í máli nr. 40/2004 um að áfrýjanda, Reykjavíkurborg, beri að greiða stefnda, GT verktökum ehf., 485.000 krónur vegna kostnaðar hans af því að hafa uppi kæru á hendur áfrýjanda fyrir nefndinni.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. október 2006.

Mál þetta var þingfest 29. júní 2005 og tekið til dóms 16. október sl.  Stefnandi er Reykjavíkurborg vegna Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar, en stefndi er G.T. verktakar ehf., Rauðhellu 1, Hafnarfirði.

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að felld verði úr gildi með dómi ákvörðun kærunefndar útboðsmála um málskostnað samkvæmt úrskurðarorði í kærumálinu nr. 40/2004 fyrir nefndinni sem upp var kveðinn 19. apríl 2005.  Til vara er þess krafist að kærumálskostnaður verði stórlega lækkaður.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

I.

Á fundi Innkauparáðs Reykjavíkur þann 4. ágúst 2004 var ákveðið að bjóða út vetrarþjónustu gatna í Reykjavík, það er hálkuvörn og snjómokstur árið 2004 til 2008.  Á fundinum lá fyrir útboðs- og verklýsing fyrir verkið.  Útboðið var auglýst stuttu síðar á vegum Innkaupastofnunar Reykjavíkur fyrir hönd Gatnamálastofu og bjóðendum gefinn kostur á að kaupa útboðsgögn hjá stofnuninni frá og með 10. ágúst 2004.  Samkvæmt auglýsingunni skyldi opnun tilboða fara fram 14. september 2004.  Útboðið var opið.  Þetta verkefni hafði aldrei áður verið boðið út en að sögn stefnda höfðu fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Malbikunarstöðin Höfði hf. og Vélamiðstöðin ehf., um langt árabil annast þessa þjónustu fyrir borgina.  Í útboðs- og verklýsingu var kveðið svo á að bjóðendur skyldu í tilboðum sínum láta uppi annars vegar upplýsingar um sjálfa sig og verðtilboð sín en hins vegar upplýsingar um hæfni sína til að annast verkið.  Skyldi verktilboðið gilda 30% í heildarmati við val verktaka en gæði 70%.  Þriggja manna dómnefnd, skipuð fulltrúa Gatnamálastofu, fulltrúa Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar og ráðgjafa frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, skyldi fara yfir tilboðin og gefa bjóðendum einkunn.  Það tilboð sem hlyti hæstu heildareinkunn fyrir verð og gæði skyldi talið hagstæðast.

Tilboð bárust frá tveimur aðilum í verkið.  Annars vegar frá stefnda og hins vegar frá Malbikunarstöðinni Höfða hf.  Við opnun tilboða þann 21. september 2004 var upplýst að stefndi hafði boðið 1.070.196.000 í verkið en Malbikunarstöðin Höfði hf. 739.448.000 krónur.  Auk þess hafði Malbikunarstöðin Höfði hf. hlotið hærri einkun.

Að fenginni niðurstöðu dómnefndar lagði gatnamálastjóri til í bréfi sínu til innkauparáðs 12. október 2004 að gengið yrði til samninga við lægstbjóðanda.  Var erindið samþykkt á fundi ráðsins hinn 20. október sama ár. 

Eftir að einkunnargjöf lá fyrir, en áður en gengið var til samninga við lægstbjóðanda, kærði stefndi útboðið til kærunefndar útboðsmála og krafðist þess meðal annars að samningsgerð yrði stöðvuð.  Með ákvörðun 24. október 2004 hafnaði nefndin kröfu stefnda með þeim rökstuðningi að ekki lægi fyrir að brotið hafi verið gegn stefnda samkvæmt útboðslögum eða útboðsreglum. 

Kærunefnd útboðsmála fjallaði aftur um málið 19. apríl 2005 með úrskurði.  Þá voru teknar fyrir kröfur stefnda um að fyrirhuguð samningsgerð kaupanda við Vélamiðstöðina ehf. eða Malbikunarstöðina Höfða hf. yrði stöðvuð, að hið kærða útboð yrði fellt niður og lagt fyrir kaupanda að bjóða verkið út að nýju, að nefndin láti upp álit sitt um skaðabótaskyldu kaupanda og að lokum að kaupanda yrði gert að greiða kæranda hæfilegan kærumálskostnað.  Með úrskurði sínum hafnaði kærunefnd útboðsmála ölum kröfum stefnda en úrskurðaði að Innkaupastofnun Reykjavíkur­borgar skyldi greiða stefnda 485.000 krónur í málskostnað. 

Máli þetta er sprottið af þessari ákvörðun kærunefndar útboðsmála að úrskurða stefnda til að greiða Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar málskostnað í kærumálinu enda þótt kröfum stefnda í kærumálinu hafi verið hafnað að öðru leyti.

                                                                                        II.

Í forsendum úrskurðar kærunefndar útboðsmála segir m.a. að ágreiningur aðila í málinu lúti einkum að því hvort kærði, Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar, hafi brotið gegn meginreglu útboðsréttar um jafnræði bjóðenda.  Í 1. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 sé tekið fram að tilgangur laganna sé að stuðla að jafnræði bjóðenda við opinber innkaup.  Þá sé ennfremur í 11. gr. laganna að finna frekari áréttingu á hinni almennu jafnræðisreglu útboðsréttar.  Kærandi, stefndi í máli þessu, byggði á því að annað þeirra tveggja tilboða sem borist hefði í hinu kærða útboði hafi verið frá Malbikunarstöðinni Höfða hf. og Vélamiðstöðinni ehf. sameiginlega.  Kærunefnd útboðsmála kemst að þeirri niðurstöðu að tilboðið hafi eingöngu komið frá Malbikunarstöðinni Höfða hf. en hins vegar hafi stefndi mátt ætla að svo væri ekki því í fundargerð vegna bókunartilboða, fundargerð opnunarfundatilboða, greinargerð kærða vegna stöðvunarkröfu kæranda og svari Gatnamálastofu vegna fyrirspurnar kæranda sé í öllum tilvikum gengið út frá því að um tvö tilboð hafi verið að ræða, annars vegar frá stefnda og hins vegar frá Malbikunarstöðinni Höfða hf. og Vélamiðstöðinni ehf. sameiginlega. Þá segir í úrskurði kærunefndar að Vélamiðstöðin ehf. sé að verulegu leyti í eigu Reykjavíkurborgar.  Jafnframt liggi fyrir að formaður Innkauparáðs Reykjavíkurborgar sitji í varastjórn Vélamiðstöðvarinnar ehf.  Samkvæmt því séu til staðar tengsl á milli kaupanda og annars bjóðanda í málinu.  Jafnframt liggi fyrir að formaður Innkauparáðs hafi tekið þátt í mikilvægum ákvörðunum sem teknar hafi verið við framkvæmd útboðsins.  Formaður Innkauparáðs hafi tekið þátt í ákvörðun Innkauparáðs Reykjavíkurborgar hinn 4. ágúst 2004 þar sem samþykkt hafi verið að bjóða út hið kærða verk á grundvelli útboðs og verklýsingar sem gatnamálastjóri hafi lagt fram.  Þá hafi hann greitt atkvæði með því að taka tilboði Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. á fundi ráðsins hinn 20. október 2004.  Í ljósi framangreindra tengsla og þess hlutverks sem Innkauparáð Reykja­víkurborgar hafi við framkvæmd hins kærða útboðs verði að telja að vafi geti leikið á því að kærði hafi gætt þeirrar skyldu að tryggja jafnræði bjóðenda.  Það er mat kærunefndar útboðsmála að trúnaðarstörf formanns Innkauparáðs fyrir Vélamið­stöðina ehf. séu til þess fallin að valda vafa um að annar bjóðenda, það er, Malbikunarstöðin Höfði hf. hafi notið forskots í útboðinu.  Þá liggi fyrir að í stjórn Vélamiðstöðvarinnar ehf. hafi setið þáverandi borgarverkfræðingur sem hafi verið sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkurborgar en undir það heyri Gatnamálastofa.  Verkið hafi verið boðið út af Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar fyrir hönd Gatnamálastofu og hafi Gatnamálastofa lagt til við Innkauparáð Reykjavíkurborgar að tilboð Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. yrði tekið.  Er það mat kærunefndar útboðsmála að þessi tengsl séu til þess fallin að valda vafa um hvort annar bjóðenda hafi notið forskots í útboðinu og að kærði hafi brotið gegn meginreglunni um jafnræði bjóðenda, sbr. 1. og 11. gr. laga nr. 94/2001.

Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga um opinber innkaup verði samningur við lægstbjóðenda ekki felldur úr gildi eða honum breytt.  Með skírskotun til 1. mgr. 84. gr. laganna var því hafnað að nefndin gæfi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða.

Þá segir í úrskurði kærunefndar útboðsmála varðandi málskostnað:

 „Kærandi hefur í máli þessu krafist kostnaðar við að hafa kæruna uppi.  Samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga um opinber innkaup hefur kærunefnd útboðsmála heimild til að ákveða að sá sem kæra beinist gegn skuli greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.  Með hliðsjón af ofangreindu, það er því að kærði vanrækti að bjóða hið kærða verk út á Evrópska efnahagssvæðinu og braut jafnframt gegn meginreglu útboðsréttar um jafnræði bjóðenda, verður kærða gert að greiða kæranda kr. 485.000 að meðtöldum virðisaukaskatti, í kostnað við að hafa kæru þessa uppi.“

III.

Stefnandi byggir á því að Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar hafi ekki brotið gegn hagsmunum stefnda í umræddu útboði og eigi hann því ekki rétt á málskostnaði úr hendi stefnanda.  Í athugasemdum við 3. mgr. 81. gr. laga nr. 84/2001 um opinber innkaup sé skýrt tekið fram að það komi aðeins til greina að fella málskostnað á kærða þegar kærði hafi tapað máli fyrir nefndinni í öllum verulegum atriðum.  Stefnandi telur að á grundvelli ríkjandi lögskýringaviðhorfa beri að túlka ákvæðið þröngri skýringu og miða við að einungis skuli úrskurða málskostnað þegar kærði tapi máli fyrir nefndinni í öllum verulegum atriðum.  Kærunefnd útboðsmála hafi hins vegar virt af vettugi þetta grundvallarskilyrði við ákvörðun málskostnaðar í umrædddu kærumáli.

Stefnandi viðurkennir fúslega að þau mistök hafi orðið í útboðsferlinu að verkið hafi ekki verið boðið út á hinu Evrópska efnahagssvæði eins og mælt sé fyrir um í reglugerð nr. 429/2004 og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup.  Þessi mistök hafi hins vegar engin áhrif haft á þátttöku stefnda í útboðinu.  Þessi mistök hafi ekki valdið stefnda tjóni né verið til þess fallin að skapa ójafnfræði á milli bjóðenda.  Heldur stefnandi því fram að kærunefnd útboðsmála hafi upp á sitt eindæmi aukið við kærumálið nýrri málsástæðu sem hún hafi síðan lagt til grundvallar við ákvörðun málskostnaðar.  Að mati stefnanda standi slík aðferðarfræði engan veginn auk þess sem hún brjóti í bága við þá meginreglu réttafarslöggjafar um að úrlausn máls verði ekki byggð á öðrum málsástæðum en þeim er málsaðilar hafi haldið fram. 

Þá byggi kærunefndin málskostnaðarákvörðun sína á þeirri röksemd að Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar hafi brotið gegn meginreglu útboðsréttar um jafnræði bjóðenda.  Stefnandi mótmælir alfarið þessari röksemdarfærslu nefndarinnar og telur hana á engan hátt eiga sér stoð í raunveruleikanum.  Gera verði athugasemd við umfjöllun nefndarinnar um þátt formanns innkauparáðs og fyrrverandi borgar­verkfræðings í málinu.  Nefndin hafi sjálf komist að þeirri niðurstöðu að engin tengsl hafi verið á milli Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. og Vélamiðstöðvarinnar ehf. í málinu.  Að þessu leyti gætir þversagnar í rökstuðningi nefndarinnar.  Hið rétta sé að tilboðið hafi einungis stafað frá Malbikunarstöðinni Höfða hf. en ekki einnig frá Vélamiðstöðinni ehf. eins og stefndi hafi haldið fram fyrir kærunefndinni.  Þess vegna beri að hafna þeirri niðurstöðu kærunefndar útboðsmála að Innkaupastofnun Reykjavíkur hafi brotið gegn meginreglu útboðsréttar um jafnræði bjóðenda.

Varakröfu sína byggir stefnandi á því að úrskurðaður málskostnaður sé allt of hár og í engu samræmi við þau sjónarmið sem kærunefnd útboðsmála hafi lagt til grundvallar við ákvörðun málskostnaðar í úrskurði sínum. 

IV.

Stefndi heldur því fram að í hlutverki kærunefndar útboðsmála felist meðal annars að leggja mat á þær málsástæður, sem aðilar styðja málatilbúnað sinn við, og að greina í forsendum úrskurðar frá niðurstöðu sinni um sérhverja málsástæðu.  Ekki sé útilokað að nefndin telji kaupanda samkvæmt lögunum hafa brotið gegn ákvæðum þeirra þótt atvikum sé svo háttað að ekki þyki ástæða til að beita úrræðum þeim er 80. og 81. gr. laganna heimilar.  Nefndin geti veitt álit sitt um meint brot á lögunum og eftir atvikum komist að þeirri niðurstöðu að um brot hafi verið að ræða þótt nefndin telji ekki fært að stöðva útboðið eða mæla fyrir um nýtt útboð.

Í forsendum úrskurðar kærunefndar útboðsmála sé ítarlega fjallað um tengsl kaupanda og lægstbjóðanda.   Niðurstaða nefndarinnar sé sú að þessi tengsl hafi verið til þess fallin að veita lægstbjóðanda forskot eða að minnsta kosti veruleg hætta hafi verið á því.  Í ljósi þess hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn meginreglunni um jafnræði bjóðenda sbr. 1. og 11. gr. laganna um opinber innkaup.

Stefndi heldur því fram að nefndin hafi ekki getað komist að annarri niðurstöðu og hafi þessi niðurstaða í raun falið í sér verulegan sigur fyrir stefnda.  Niðurstaðan hafi glögglega sýnt að stefndi hafi staðið mjög höllum fæti gagnvart lægstbjóðanda vegna tengsla þess síðastnefnda við kaupanda.  Vafalaust hefðu fleiri boðið í verkið ef þeir hefðu haft eins árs fyrirvara eins og lægstbjóðandi hafi haft.

Stefndi telur sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningu á brotum stefnanda, enda sé niðurstaða úrskurðar kærunefndar útboðsmála leiðbeinandi um hvað ber að varast við undirbúning og framkvæmd útboða í framtíðinni.  Niðurstaðan hafi einnig almenna þýðingu þegar skilgreina þurfi tengsl kaupenda við einstaka bjóðendur í útboðum.  Niðurstaðan feli í raun í sér lærdómsríkt fordæmi fyrir kaupendur og bjóðendur.

Með því að úrskurða stefnda málskostnað í kærumálinu hafi nefndin tekið þá afstöðu að fullt tilefni hafi verið til kærunnar.  Afstaða nefndarinnar hafi því byggst á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Fjárhæð málskostnaðarins hafi tekið mið af umfangi verksins við að halda kærunni fram, afla upplýsinga og reka málið fyrir nefndinni.  Stefndi hafnar þeim sjónarmiðum stefnanda að það hafi ekki valdið tjóni eða skapað ójafnræði milli sín og lægstbjóðanda að verkið var ekki boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu.  Lögbundin tilboðsfrestur vegna útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu sé mun lengri en í útboði því sem mál þetta sé risið af.  Rangt sé hjá stefnanda að kærunefnd útboðsmála hafi aukið við nýrri málsástæðu hvað þetta varðar.  Hið rétta sé að stefndi hafi bent á þetta atriði í bréfi sínu til nefndarinnar 10. janúar 2005.  Það hafi því verið að frumkvæði stefnda að þetta atriði hafi sætt skoðun af hálfu nefndarinnar. 

V.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup er tilgangur laganna að tryggja jafnræði bjóðenda við opinber innkaup og stuðla að virkri samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri.  Opinberum aðilum, stofnunum ríkisins og sveitarfélaga, ber að haga undirbúningi og framkvæmd útboða með hliðsjón af þessum skilgreinda tilgangi laganna.

Stefndi, sem bjóðandi í umrætt verk, naut réttinda samkvæmt lögunum og átti rétt á að skjóta umkvörtunarefnum sínum til kærunefndar útboðsmála, sbr. 77. gr. laganna.  Hlutverk kærunefndar útboðsmála er að leysa með skjótum og óhlutdrægnum hætti úr kærum vegna ætlaðra brota á lögum um opinber innkaup, sbr. 75. gr.  Um úrræði nefndarinnar er fjallað í 80. og 81. gr. en nefndin er sjálfstæð í störfum og verður ákvörðun hennar ekki skotið til annarra stjórnvalda, sbr. 3. mgr. 75. gr. laganna.

Eins og framan er rakið byggðist ákvörðun nefndarinnar um greiðslu málskostnaðar á því annars vegar að verkið hafi ekki verið boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar á því að stefnandi hafi brotið gegn meginreglu útboðsréttar um jafnræði bjóðenda.

Í úrskurði kærunefndar útboðsmála er því lýst ítarlega hvernig nefndin komst að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn reglunni um jafnræði bjóðenda.  Segir þar meðal annars að í fundargerð vegna bókunartilboða, fundargerð opnunarfundatilboða, greinargerð kærða vegna stöðvunarkröfu kæranda og svari Gatnamálastofu vegna fyrirspurnar kæranda sé í öllum tilvikum gengið út frá því að um tvö tilboð hafi verið að ræða, annars vegar frá stefnda og hins vegar frá Malbikunarstöðinni Höfða hf. og Vélamiðstöðinni ehf. sameiginlega. Síðan rekur kærunefnd tengsl stefnanda og Vélamiðstöðvarinnar ehf. og er því gert skil hér að framan í kafla II.

Stefnandi hefur ekki sýnt fram á í málatilbúnaði sínum hér fyrir dómi að framangreind atvikalýsing í úrskurði nefndarinnar sé röng eða á misskilningi byggð.  

Nefndin taldi hins vegar ekki efni til að beita úrræðum 80. og 81. gr. laganna þrátt fyrir niðurstöðu sína um að stefnandi hafi brotið gegn meginreglu laganna um jafnræði bjóðenda.  Játa verður kærunefnd útboðsmála rétt til að veita álit sitt á meintu broti á lögum um opinber innkaup enda þótt nefndin telji ekki fært að stöðva útboð, mæla fyrir um nýtt útboð eða láta uppi álit sitt um skaðabótaskyldu.  Með því að úrskurða stefnanda í málskostnað taldi nefndin að fullt tilefni hafi verið til kæru stefnda þó atvik máls hafi ekki gefið tilefni til frekari úrræða.  Verður því talið að málskostnaðarákvörðun kærunefndar útboðsmála hafi byggst á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. 

Í varakröfu sinni krefst stefndi þess að kærumálskostnaður verði lækkaður.  Telja verður kostnaðinn eðlilegan miðað við umfang verksins, þar með talið að halda kærunni fram, afla upplýsinga og reka málið fyrir nefndinni.  Stefndi verður því samkvæmt framansögðu alfarið sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.  Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 340.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Stefndi, G.T. verktakar ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Reykjavíkurborgar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 340.000  krónur í málskostnað.