Hæstiréttur íslands

Mál nr. 185/2009


Lykilorð

  • Líkamsárás


Fimmtudaginn 6. maí 2010.

Nr. 185/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari

gegn

Benjamín Þór Þorgrímssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Líkamsárás.

X var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa ráðist á A, snúið hann í jörðina og þá sparkað í höfuð hans, með þeim afleiðingum að hann hlaut brot í vinstri augntóft auk þess sem hann hlaut mar á efra og neðra augnloki vinstra megin. Talið var sannað að X hefði veist að A, þó ekki hefði verið leitt í ljós hvort hann kýldi eða sparkaði í höfuð A þar sem hann lá á jörðinni. Var brot X talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var X jafnframt sakfelldur fyrir tvær aðrar líkamsárásir gegn B og C. Var árás X á C sérstaklega hættuleg, þar sem X reyndi ítrekað að sparka í höfuð C þar sem hann lá í jörðinni. Ekki var fallist á þá málsvörn X að C hefði verið tálbeita sem notuð hefði verið til að egna X í gildru og að starfsmenn fréttaskýringarþáttar hefðu egnt gildruna. Var ekki annað fram komið í málinu en að framganga starfsmannanna hefði einungis verið fólgin í því að kvikmynda þá atburði er áttu sér stað. Voru þessi brot X talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Litið var til þess að X var sakfelldur í máli þessu fyrir þrjár tilefnislausar líkamsárásir, en tvær þeirra voru fólskulegar og hættulegar. X ætti sér engar málsbætur. Hann hefði áður hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot árið 1992, en þá var honum gert að sæta fangelsi í tvö ár fyrir nauðgun. Þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að sér verði ekki gerð refsing. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.

Með ákæru 20. nóvember 2008 er ákærða gefið að sök að hafa 21. febrúar sama ár ráðist á A á horni Frakkastígs og Lindargötu í Reykjavík, snúið hann í jörðina og sparkað í höfuð hans með þeim afleiðingum að hann hafi meðal annars hlotið brot í vinstri augntóft. Telst brot hans þar varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. A lýsti því fyrir lögreglu að umrætt sinn hafi maður ráðist á hann, sparkað í andlitið á honum og „örugglega gengið meira í skrokk“ á honum. Aðspurður fyrir dómi hvort maðurinn hafi sparkað í höfuð hans kvaðst A muna það óljóst og sagðist hann ekki geta gefið skýringu á hvernig hann fékk áverkana, þar sem hann myndi það ekki, enda hafi hann tekið deyfilyf og þá „bara slökknar á mér“. Ákærði hefur frá upphafi neitað að hafa sparkað í höfuð A, en fyrir lögreglu kvaðst ákærði hafa kýlt hann í höfuðið og „buffað“ hann. Fyrir dómi sagðist ákærði aðeins hafa snúið A niður og „buffað“ hann, en hann kvað síðastgreint orð merkja að „buga manninn bara niður.“ Við meðferð málsins í héraði voru af hálfu ákæruvaldsins lagðar fram ljósmyndir af A, sem bera með sér að hann hafi hlotið áverka við vinstra auga. Fyrir dómi bar lögreglumaður, sem handtók A eftir árásina, að myndir hafi verið teknar af honum strax eftir komu á lögreglustöð. Þá hefur verið lögð fyrir Hæstarétt skýrsla lögreglu 21. febrúar 2008, sem er í samræmi við þetta. Með þessu er sannað að A bar þennan áverka í beinu framhaldi af átökum við ákærða og liggur ekkert fyrir, sem bendir til að áverkinn hafi átt sér aðrar orsakir. Að þessu gættu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt þessari ákæru, þó ekki hafi verið leitt í ljós hvort hann kýldi eða sparkaði í höfuð A þar sem hann lá á jörðinni. Brot ákærða varðar við tilgreind lagaákvæði í ákæru.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða á sakargiftum sem honum eru gefnar að sök með ákæru 5. desember 2008.

Ákærði er sakfelldur í máli þessu fyrir þrjár tilefnislausar líkamsárásir, en tvær þeirra, 21. febrúar og 31. júlí 2008, voru fólskulegar og hættulegar. Ákærði á sér engar málsbætur. Hann hefur áður hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot 25. nóvember 1992, en þá var honum gert að sæta fangelsi í tvö ár fyrir nauðgun. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms um ákvörðun refsingar ákærða er hún ákveðin fangelsi í tvö ár.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Benjamín Þór Þorgrímsson, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 403.681 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. mars sl., var upphaflega höfðað fyrir dóminum á hendur ákærða Benjamín Þór Þor­gríms­syni, kt. [...], Naustabryggju 2, Reykja­vík fyrir líkamsárás með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuð­borgar­svæðinu 16. september 2008. 

Hinn 20. nóvember 2008 var sakamálið nr. 1654/2008 sameinað málinu en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgar­svæðinu sama dag líkamsárás, með því að hafa fimmtudaginn 21. febrúar 2008, á horni Frakkastígs og Lindargötu í Reykja­vík, ráðist á A, kt. [...], snúið hann í jörðina og þá sparkað í höfuð hans, með þeim afleiðingum að hann hlaut brot í vinstri augntóft auk þess sem hann hlaut mar á efra og neðra augnloki vinstra megin. 

Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsJr.

Með úrskurði héraðsdóms 2. desember 2008 var tveim ákæruskjölum lögreglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu báðum dagsettum 16. september 2008 á hendur ákærða vísað frá dóminum.

Hinn 14. janúar sl. var sakamálið nr. 1891/2008 sameinað þessu máli en þar eru ákærða gefnar að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgar­svæðinu 5. desember 2008 neðangreindar líkamsárásir:

a)                  með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 3. júlí 2008, á Hilton bar á Hiltonhótelinu á Suðurlandsbraut í Reykjavík, ráðist á B, kt. [...], og kýlt hann hnefahöggi í andlit og svo kýlt hann aftur í hægri vanga, þar sem B stóð við barinn á hótelinu, með þeim afleiðingum að B hlaut bólgu á gagnaugasvæði hægra megin sem teygði sig upp í hársvörð, bólgu framan við hægra eyra og niður eftir neðri kjálka, eymsli í kjálka og í hálsvöðvum hægra megin og heilahristing.

b)                  með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 31. júlí 2008, á bifreiðastæði við Hafnarvogina við Hafnarfjarðarhöfn, ráðist á C, kt. [...], og sparkað í hann, þá tekið hann hálstaki og þrýst honum niður til jarðar, þar sem hann sparkaði nokkrum sinnum í höfuð C þar sem hann lá í jörðinni, kýlt hann hnefahöggi í andlit auk þess sem hann kýldi hann hnefahöggum í líkama, allt með þeim afleiðingum að C hlaut kúlu vinstra megin á enni, heilahristing, eymsli í hársverði vinstra megin á höfði, tognun í brjóstkassa og tognun í hálsvöðvum.

Ofangreind háttsemi ákærða er talin varða við 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

                Ákæra 20. nóvember 2008.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá fimmtudeginum 21. febrúar 2008 kl. 16.35 barst lögreglu á þeim tíma tilkynning um hugsanlegt rán á Fótaaðgerðastofu [...] við Hverfisgötu í Reykjavík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögreglumenn sendir á staðinn. Fram kemur að vitni hafi haft samband við lögreglu og greint frá því að það væri á eftir ræningjanum. Eftir að lögreglumenn hafi komið að fótaaðgerðastofunni hafi borist önnur tilkynning frá vitninu um að ræning­inn væri nú kominn að veitingastaðnum Mónakó á Laugavegi. Í skýrslunni kemur fram að A, hinn grunaði ræningi í málinu, hafi verið handtekinn fyrir utan Mónakó. Er lögreglumenn hafi verið að ræða við starfsmann fótaaðgerða­stofunnar hafi vitni það sem fylgt hafi A eftir komið inn á fótaaðgerða­stofuna. Hafi vitnið ekki viljað láta nafn síns getið. Hafi því verið gerð grein fyrir vitnaskyldu sinni og vitnaábyrgð. Hafi það tjáð lögreglumönnum að ræninginn hafi hlaupið frá fótaaðgerðastofunni norður Frakkastíg að Lindargötu þar sem maður hafi gengið í skrokk á honum. Hafi sá maður verið klæddur í svartri úlpu með loðkraga, verið í ljósum buxum og með stutt skollitað hár. Maðurinn hafi sparkað í höfuð ræningjans þar sem ræninginn hafi legið í jörðinni. Að því búnu hafi maðurinn gengið suður Frakkastíg. Tekið er fram í frumskýrslu að nánari lýsing þessa vitnis sé meðfylgjandi frumskýrslu lögreglu þar sem það óski nafnleyndar.

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að þegar lögreglumenn hafi verið að ræða við starfsmann fótaðgerðarstofunnar hafi Benjamín Þór Þorgrímsson, ákærði í máli þessu, gengið inn á fótaaðgerðastofuna. Hafi ákærði spurt lögreglu hvort þeir hafi ,,náð manninum.“ Ákærði hafi verið klæddur í ljósar buxur og svarta úlpu með loðkraga. Í ljósi framburðar þess vitnis er óskað hafi nafnleyndar hafi vaknað grunur um að ákærði tengdist ráninu og að það hafi verið hann sem gengið hafi í skrokk á A. Hafi ákærði skýrt lögreglumönnum frá því að hann hafi lent í átökum við mann á horni Frakkastígs og Lindargötu. Hafi maðurinn ráðist á ákærða að tilefnis­lausu. Hafi ákærði snúið manninn í jörðina og hann yfirgefið manninn þar sem hann hafi legið í jörðinni. Fram kemur að ákærði hafi verið handtekinn og færður á lögreglu­stöð. Á lögreglustöð hafi verið rætt frekar við ákærða og hann þá spurt að því hvort ekki væri í lagi með A en ákærði hefði miklar áhyggjur af líðan hans.

Á dskj. nr. 12 er skýrsla lögreglu frá þessum degi sem ritað hafa lögreglumenn er handtóku A þennan dag. Fram kemur að lögreglumenn hafi farið að veitingastaðnum Monte Carlo við Laugaveg og hafi A verið handtekinn kl. 16.48, en lýsing vitnis á þeim manni sem reynt hafi að ræna fótaaðgerðastofu hafi komið heim og saman við A. Hafi A virst í mjög annarlegu ástandi og verið mjög ör. Hafi hann orðið æstari en róast niður þess á milli. Hafi A verið bólginn á vinstra auga og með hrufl á hægri fingri. A hafi verið fluttur á lögreglustöð þar sem tekin hafi verið ákvörðun um að A skyldi vistaður í þágu rannsóknar málsins. Hluti af lögregluskýrslunni eru myndir sem lögregla hefur tekið af A við komu á lögreglu­stöð.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá sama degi kl. 18.20 var lögregla kölluð að fanga­geymslum á lögreglustöð þar sem A hafi reynt að valda sjálfum sér skaða í fangaklefa. Fram kemur að A hafi verið fluttur með sjúkrabifreið á Land­spítala háskólasjúkrahús. Þar hafi A verið færður í röntgenmyndatöku en m.a. hafi verið teknar myndir af andliti vegna bólgu við vinstra auga. Eftir að teknar hafi verið myndir af A hafi hann farið á snyrtingu á spítalanum. Þar hafi hann brotið spegil með  höndunum. Hafi hann veitt sér yfirborðsáverka á hálsi. A hafi því næst verið fluttur á lögreglustöð en í lögreglubifreið á leið á stöðina hafi A ráðist að lögreglu­manni og veitt honum áverka. A hafi í kjölfarið verið færður í fangageymslur. 

Þórir Njálsson sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskóla­sjúkrahúss hefur ritað læknisvottorð vegna komu A á deildina 21. febrúar 2008. Fram kemur að við skoðun hafi A verið með áverka í andliti sem geti samsvarað því að hann hafi verið sleginn þungu höggi. Hafi hann verið með vax­andi mar yfir efra og neðra augnloki. Hafi hann verið settur í myndatöku sem sýnt hafi brot í vinstri augntóft.

Á meðal rannsóknargagna málsins er óundirritað skjal sem ekki er fært á eyðublöð lögreglu. Ber það þá yfirskrift að vera framburður D. Er tekið fram að D sé kynnt vitnaskylda og vitnaábyrgð. Hafi D lýst því að hann hafi verið að aka fram hjá fótaaðgerðastofunni þegar hann hafi séð að ekki hafi allt verið með felldu. Hafi hann haft samband við símanúmerið 118 og fengið samband við fótaaðgerðastofuna. Í samtali við starfsmann staðarins hafi hann fengið staðfest að gerð hafi verið tilraun til þess að ræna staðinn. Hafi D í beinu framhaldi haft samband við lögreglu og tilkynnt um hvað átt hafi sér stað. Hafi D haldið á eftir ræningjanum á bifreið sinni. Hafi hann séð ræningjann mæta manni sem gengið hafi í skrokk á ræningjanum. Viðkomandi hafi verið hávaxinn, þrek­inn og sennilega ekki að beita ofbeldi í fyrsta sinn miðað við aðfarir hans. Maður­inn hafi verið klæddur í svarta úlpu með loðkraga og í ljósum buxum. Þá hafi maðurinn verið með stutt skollitað hár. Maðurinn hafi sparkað í höfuð ræningjans þar sem ræninginn hafi legið í jörðinni. Að svo búnu hafi maðurinn gengið suður Frakka­stíg. Ræninginn hafi legið hreyfingarlaus um stund í jörðinni og svo staðið á fætur og hlaupið austur Lindargötu. Maðurinn hafi hlaupið að veitingastaðnum Mónakó við Laugaveg.  

Tekin var lögregluskýrsla af A næsta dag eftir vist í fanga­geymslu. Lýsti A ferðum sínum daginn á undan og samskiptum sínum við starfsmann Fótaaðgerðastofunnar [...] á Hverfisgötu. Eftir að hafa farið út af staðnum kvaðst A hafa gengið niður á Lindargötu. Þar myndi A eftir því að einhver maður hafi kallað í A og A því gengið til hans. Maðurinn hafi ráðist á A og sparkað í andlit hans. Myndi A í raun lítið eftir því sem gerst hafi og hljóti hann að hafa steinlegið í götunni. Hafi maðurinn örugglega gengið meira í skrokk á A þar sem A væri með verki um allan líkamann. Myndi A síðan ekki meira eftir sér fyrr en hann hafi verið handtekinn af lögreglu.  

Ákærði var færður til skýrslutöku eftir vist í fangageymslum. Ákærði kvaðst ekki þekkja A. Hafi ákærði verið á leið á fótaðgerðastofuna. Hafi hann setið inni í bifreið við Lindargötu þegar maður hafi nánast hlaupið á bifreið ákærða. Hafi ákærði farið út úr bifreiðinni til að athuga hvað maðurinn væri að gera og hafi maðurinn beðið í húsasundi skammt frá. Hafi ákærði litið inn í sundið en þá hafi maðurinn ætlað að rjúka í ákærða. Hafi ákærði ekki gefið honum færi á því og bakkað aðeins út á götuna. Þá hafi maðurinn ráðist á ákærða. Ákærði hafi tekið á honum og ,,buffað“ hann. Hafi ákærði ekki átt í neinum erfiðleikum með A þar sem A hafi verið léttur. Hafi ákærði hent honum upp í loftið, kýlt hann í höfuðið og sparkað í lærið á honum. Hafi ákærði séð fólk vera að tala í síma og litið svo á að það væri örugglega að hringja í lögregluna. Ákærði hafi því ákveðið að drífa sig í burtu. Hafi ákærði ekið um og látið málið ,,kólna“ aðeins. Síðar hafi ákærði farið á fótaaðgerðastofuna til að athuga hvort hægt væri að panta tíma. Þá hafi ákærði verið handtekinn af lögreglu. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa sparkað í höfuð mannsins. Ákærði viðurkenndi hins vegar að hafa tekið í manninn.     

Við aðalmeðferð málsins greindi ákærði frá því að umræddan dag hafi maður komið hlaupandi og lent á bifreið sem ákærði hafi verið í. Hafi ákærði ákveðið að athuga hvað væri í gangi og farið á eftir manninum. Maðurinn hafi þá ráðist á ákærða og komið rétt við höfuð ákærða. Ákærði hafi þá snúið manninn niður. Hafi ákærði ekki veitt manninum þá áverka er í ákæru greinir. Að því er framburð ákærða í lögregluskýrslu varðar hafi ákærði átt við að hann hafi snúið manninn niður þegar hann hafi sagt að hann hafi ,,buffað“ manninn. Ákærði kvaðst hafa verið vistaður í fangaklefa eftir þessa atburði. Það sama hafi gilt um árásarmanninn. Sá hafi verið í annarlegu ástandi og alveg tryllingslegur. Hafi maðurinn greinilega verið að hlaupa á veggi í fangaklefanum en dynkir hafi heyrst úr klefanum.

Fyrir dómi kvaðst A ekki muna neitt eftir atvikum málsins. Hafi hann greint sinn verið undir áhrifum lyfja. Geti hann því ekkert sagt til um hvort ákærði hafi veitt honum spark í höfuðið. Er borinn var undir A framburður hans í lögregluskýrslu kvaðst hann óljóst muna eftir að gengið hafi verið í skrokk á honum. Ekki vissi A hver þar hafi verið á ferð. Ekki myndi A eftir því að hann hafi hlaupið á veggi í fangaklefa. Gæti hann einfaldlega ekki gefið skýringu á áverkum þeim er hann hafi hlotið. Þá myndi hann ekki eftir þeirri atburðarás sem tekið hafi við eftir að hann hafi verið færður í fangaklefa.

D kvaðst umræddan dag hafa ekið eftir Hverfisgötu í Reykjavík og elt hugsanlegan ræningja sem gert hafi tilraun til að ræna fótaaðgerðar­stofu. Hafi D elt manninn að Mónakó við Laugaveg og hafi hann séð lögreglu handtaka manninn þar. Maðurinn hafi lent í einhverjum ryskingum á leiðinni og horfið sjónum D um stund. Hafi D því ekki séð hvort einhver hafi sparkað í höfuð mannsins á leiðinni. Kvaðst D ekki kannast við að hafa tjáð lögreglu­mönnum neitt í þá áttina.

Ásmundur Jónsson lögreglumaður kvaðst hafa handtekið A við Mónakó fimmtudaginn 21. febrúar 2008. Við handtöku hafi A verið með sjáanlega bólgu í andliti á vinstra auga og með hrufl á hendi. Við komu á lögreglustöð hafi verið teknar myndir af A áður en hann hafi verið færður í fangamóttöku. A hafi verið í annarlegu ástandi við handtöku. Fyrir dómi staðfesti Ásmundur að myndir á dskj. nr. 12 væru myndir sem teknar hafi verið af A við komu á lögreglustöð.

Andri Fannar Helgason lögreglumaður kvaðst hafa ritað frumskýrslu lögreglu vegna málsins. Eftir tilkynningu til lögreglu hafi verið haldið að fótaaðgerðastofunni við Hverfisgötu. Tilkynningin hafi verið frekar óljós. Í ljósi tilkynningarinnar hafi áhöfn í annarri lögreglubifreið verið send að Mónakó við Laugaveg en tilkynnandi hafi sagt að ræninginn væri þar staddur. Andri Fannar hafi rætt við starfsmann fóta­aðgerða­stofunnar sem verið hafi í uppnámi vegna atburðanna. Þá hafi vitni það sem tilkynnt hafi lögreglu um atburðinn og fylgt ræningjanum eftir komið á fótaaðgerða­stofuna. Þar hafi vitnið gefið lögreglumönnum sjálfstæða frásögn af atburðarásinni. Hafi þar komið fram hvernig vitnið hafi fylgt gerandanum frá fótaaðgerðastofunni þar til gerandinn hafi lent í átökum við mann. Vitnið hafi gefið greinargóða lýsingu á þeim manni. Er vitnið hafi lýst árás mannsins á gerandann hafi komið fram að maður­inn hafi gengið í skrokk á gerandanum og sparkað í höfuð hans. Umrætt vitni væri D. Hafi D óskað eftir nafnleynd og Andri Fannar því ritað framburð D niður á sérstakt blað og látið það fylgja frumskýrslu lögreglu. Eftir á að hyggja hefði sennilega verið rétt að rita framburð D niður á blað merkt lögreglu. Framburð D hafi Andri Fannar ritað niður samdægurs. Hafi verið greinilegt að D hafi verið skelkaður og óttast framhald málsins. Andri kvaðst hafa séð A í fangageymslum lögreglu eftir handtöku. Hafi hann þá verið töluvert bólginn eftir barsmíðar.

Garðar Haraldsson lögreglumaður kvaðst hafa unnið að málinu ásamt lögreglu­manninum Andra Fannari Helgasyni. Hafi lögreglumennirnir rætt við starfsmann fótaaðgerðastofunnar. Á staðnum hafi lögreglumenn fengið lýsingu frá vitni sem komið hafi á staðinn sem ekki hafi viljað gefa upp nafn sitt. Þar hafi komið fram hvernig gerandi í málinu hafi farið út af stofunni. Umrætt vitni væri D. Hafi Andri Fannar ritað á sérstakt blað það sem vitnið hafi tjáð lögreglu­mönnunum um atburði. Lýsing á blaði í rannsóknargögnum málsins sem fram kemur að höfð sé eftir D sé í samræmi við það sem vitnið hafi tjáð lögreglu­mönnunum um atburði. Eftir þetta hafi ákærði komið inn á stofuna og útlit hans komið heim og saman við lýsingu vitnisins á manninum sem ráðist hafi á gerandann í málinu. D hafi ekki virst standa á sama um málið og óttast um sig. Af þeim ástæðum hafi hann óskað nafnleyndar.

Þórður Geir Þorsteinsson lögreglumaður kvaðst hafa tekið lögregluskýrslu af A eftir vist í fangageymslu. Í frásögn af atburðum hafi A lýst því að ráðist hafi verið á sig eftir að hann hafi farið út af fótaaðgerðastofunni. Hafi maðurinn sparkað í höfuð A. Þessa frásögn hafi E fært í lögregluskýrslu eftir A.

Lögreglumennirnir Guðmundur Páll Jónsson og Guðmundur Haukur Gunnars­son komu fyrir dóminn og staðfestu að hafa verið viðstaddir er A gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins. Staðfestu þeir að það er ritað væri í skýrslu vegna málsins hafi verið það er fram hafi komið við yfirheyrslu í málinu. 

Þórir Njálsson læknir staðfesti fyrir dómi að hafa ritað læknisvottorð vegna A sem frammi liggur í málinu. Vottorðið sé ritað upp úr sjúkra­skrá spítalans en Þórir hafi ekki sjálfur skoðað A. Staðfesti Þórir að fram kæmi í sjúkraskrá A að hann hafi verið með brot í vinstri augntóft. Þórir kvaðst vera þeirrar skoðunar að áverkar þeir sem A hafi orðið fyrir með broti á augntóft gætu tengst myndum á dskj. nr. 12 þannig að A hafi verið kominn með áverkann er myndirnar hafi verið teknar. Misjafnt væri hversu mikil bólga hlytist af slíku broti en af myndum að dæma væru líkur á því að brot hafi verið til staðar við myndatökuna. Sá áverki er A hafi hlotið hafi líklega verið eftir högg eða spark. Sjálfsagt væri unnt að fá slíkan áverka við fall en varla væri hægt að fá slíkan áverka við það að hlaupa á eitthvað þar sem það mikið afl þyrfti til að brot sem þetta ætti sér stað.

Niðurstaða:  

Upphaf máls þessa má rekja til þess að fimmtudaginn 21. febrúar 2008 gaf vitni sig fram við lögreglu og greindi frá því að maður hefði gert tilraun til að ræna Fóta­aðgerðastofu Eddu við Hverfisgötu í Reykjavík. Eftir að hafa yfirgefið staðinn hafi verið ráðist á manninn, sem fyrir liggur að var A. Vitni þetta gaf lögreglu greinargóða lýsingu á árásarmanninum í beinu framhaldi af atvikinu og greindi frá því að árásarmaðurinn hefði m.a. sparkað í höfuðið á A. Vitni þetta er D. Tveir lögreglumenn, sem í framhaldi af verknaðinum ræddu við D, hafa staðfest að frásögn D hafi verið á þennan veg. Hafa lögreglumennirnir jafnframt greint frá því að D hafi verið skelkaður vegna atburðarins og ekki viljað að nafn hans kæmi fram í lögregluskýrslum. D hefur fyrir dóminum lýst atvikum á annan veg og kveðst nú ekki hafa séð þegar A hafi verið veittir áverkar. Í málinu liggur fyrir að við komu á slysadeild Land­spítala háskólasjúkrahúss fimmtudaginn 21. febrúar 2008 greindist A með brot í vinstri augntóft.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa rekist á mann sem komið hafi út af fóta­aðgerða­stofunni þennan dag. Var m.a. fært í lögregluskýrslu eftir ákærða að ákærði hefði hent manninum upp í loftið, kýlt hann í höfuðið og sparkað í lærið á honum. Þá hefði hann ,,buffað“ manninn, en ákærði hefur fyrir dómi skýrt á þann veg að í því felist að snúa manninn niður. Dómurinn telur verulegar líkur fyrir því að A hafi verið kominn með brot á vinstri augntóft er lögreglumenn handtóku hann þennan dag. Sækir það stoð í myndir sem teknar voru af honum í beinu framhaldi af handtöku, en á þeim má sjá greinilega áverka á vinstri auga A. Þá sækir það jafnframt stoð í lýsingu lögreglumanns, sem handtók A þennan dag, en lögreglumaðurinn hefur lýst bólgu á vinstra auga. Þá rennir framburður Þóris Njálssonar læknis stoðum undir þetta en fyrir liggur það mat læknisins að af myndum af A að dæma, sem teknar voru eftir handtöku, séu líkur fyrir því að A hafi verið kominn með áverkann við komu á lögreglustöð.

Að mati dómsins var lýsing D á þeim manni, sem réðst á A, í viðtali við lögreglumenn talsvert nákvæm, en hún leiddi til handtöku ákærða síðar þennan dag. Auk þess var lýsing hans greinargóð um það að maðurinn hefði sparkað í andlit A, en sú staðhæfing hans var fyrsta vísbending þess að svo hafi verið. Telur dómurinn fyrir liggja að D sé að breyta framburði sínum hér fyrir dómi. Þegar þau atriði málsins eru virt að A var með áverka við komu á lögreglustöð þennan dag í framhaldi af handtöku, að af myndum að dæma eru töluverðar líkur fyrir því að hann hafi þá verið kominn með brot í vinstri augntóft, að hann hafði fyrr þann dag lent í átökum við ákærða sem hafði hent A upp í loftið, kýlt hann í höfuðið og sparkað í lærið á honum og ,,buffað“ A og skilið við hann liggjandi í götunni og loks því að A lýsti því bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að einhver hefði sparkað í höfuð sitt þennan dag, er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi veist að A þennan dag og framið það brot sem um getur í ákæru með því að snúa hann niður og sparka í höfuð hans. Eru engin efni til að fallast á með ákærða að honum hafi verið heimill verknaðurinn á grundvelli 12. gr. laga nr. 19/1940. Er það niðurstaða dómsins að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.  

Ákæra 5. desember 2008.

a. liður.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá fimmtudeginum 3. júlí 2008 barst lögreglu þann dag kl. 20.55 tilkynning um slagsmál á Hilton bar á Hiltonhótelinu á Suðurlandsbraut í Reykjavík. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að er lögregla hafi komið á staðinn hafi ákærði verið fyrir utan hótelið. Er lögreglumenn hafi farið inn á hótelið hafi þeir rætt við B sem bent hafi á ákærða sem árársaðilann. Hafi B tjáð lögreglu að hann hafi verið á fundi ásamt ákærða, E og F. Ákærði hafi orðið ósáttur við svör B og farið að lemja B þar sem B hafi setið í sófa í horni við hótelbarinn. Hafi ákærði slegið B nokkrum sinnum með krepptum hnefa. B hafi þá farið að barnum til að borga fyrir gosdrykk. Þá hafi ákærði komið að og slegið B fast hnefahöggi sem komið hafi í andlit B. Lögregla hafi í framhaldi komið á staðinn.

Í frumskýrslu kemur fram að rætt hafi verið við ákærða á staðnum. Hafi hann tjáð lögreglumönnum að B hafi neitað að endurgreiða ákærða 30.000.000 króna sem ákærði hafi látið inn í fyrirtæki sem B hafi verið með. Af þeim ástæðum hafi ákærði ráðist á B. Ákærði hafi tjáð lögreglumönnum að hann hafi ekki lamið B fast heldur einungis gefið honum svonefndan selbita. Hafi ákærði tjáð barþjóni að blanda sér ekki í málið en ekki hafi ákærði ógnað þjóninum. Á staðnum hafi verið rætt við G barþjón. Hafi hann tjáð lögreglu að umræddir einstaklingar hafi setið í nokkra stund í horni á hótelbarnum. Hafi G heyrt skell og séð ákærða standa yfir B og séð ákærða slá hann hnefahöggi sem komið hafi í andlit B. B hafi eftir það komið að barnum til að greiða fyrir gosdrykk. Hafi hann greinilega verið mjög hræddur og látið G fá gleraugu sín og tösku. Í því hafi ákærði komið að og slegið B fast með krepptum hnefa og höggið komið í andlit B. Hafi ákærði öskrað á G að blanda sér ekki í málið. Aðstoðar­maður barþjóns, H, hafi tjáð lögreglu að hann hafi séð síðara höggið, en um hafi verið að ræða högg er ákærði hafi veitt B við barinn. Hafi ákærði slegið B fast með handarbakinu og hafi höggið komið á hægri vanga B. Á staðnum hafi einnig verið rætt við I sem hafi tjáð lögreglu að hann hafi hringt á lögreglu er ákærði hafi byrjað að láta höggin dynja á B.

Hlynur Þorsteinsson sérfræðingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur 25. júlí 2008 ritað læknisvottorð vegna komu B á slysadeild 3. júlí 2008 kl. 22.27. Í vottorðinu kemur m.a. fram að við skoðun megi sjá bólgu upp á gagnauga­svæði hægra megin sem teygi sig upp í hársvörð. Þá hafi B verið bólginn framan við hægra eyra og þaðan niður eftir neðri kjálka. Finni hann fyrir eymslum við að hreyfa kjálka og lýsi höfuðverk sem leiði af svæðinu og niður á enni. Við skoðun á hálsi séu eymsli í hálsvöðvum hægra megin. Þá sé talið að B hafi fengið snert af heilahristingi.

Ákærði hefur skýrt svo frá atvikum að umræddan dag hafi átt sér stað ákveðið rifrildi á milli ákærða og B. Í raun hafi ekkert gerst. Rifrildið hafi verið vegna peningaskuldar en B hafi skuldað ákærða um 30.000.000 króna í gegnum fyrirtæki. Engin átök hafi átt sér stað á staðnum og væru ákærði og B vinir í dag. Þeir hafi hins vegar deilt og deilan verið harkaleg. Ákærði kvaðst hafa setið við hlið B í sófa á barnum á Hiltonhóteli og hafi hann ýtt í B í sófanum. Hafi hann ýtt í skrokk B. Væri rangt að ákærði hafi slegið tvívegis í andlit B. Að því er varðar áverka á B kvaðst ákærði telja að B hafi veitt sér þá áverka sjálfur.   

B hefur lýst atvikum þannig að hann hafi farið á umrætt hótel til að hitta E og F, en þeir félagar hafi verið að ræða um fyrirtæki sem B sé aðaleigandi að en E og F hafi komið að því fyrirtæki sem fjárfestar. Eftir að fundurinn hafi staðið í stutta stund hafi ákærði komið á fundinn. Ákærði hafi einnig komið að fyrirtæki B sem fjárfestir. Hafi þeir fjórir rætt málið í um klukkustund. Ákærði hafi verið óánægður með svör B og tekið að berja B þar sem B hafi setið í sófa. Er B lagði fram kæru í málinu er fært í lögregluskýrslu um þetta atriði að ákærði hafi kýlt hann með kreppt­um hnefa nokkrum sinnum í andlitið þar sem B hafi verið í sófanum. Hafi B staðið upp og farið á barinn til að greiða fyrir gosdrykk. Þá hafi ákærði komið og kýlt B ítrekað í andlitið og höggin verið á bilinu þrjú til fjögur. Hafi B þá farið aftur fyrir barinn. Félagi B hafi komið á staðinn, en B hafi beðið hann um að fylgjast með fundinum ef ákærði skyldi mæta. Hafi félagi B ætlað að hringja á lögreglu en þá hafi komið fram að búið væri að hringja á lögreglu. Lögregla hafi komið að skömmu síðar. Hafi B farið strax eftir þetta á slysadeild til skoðunar. B kvað það rangt hjá ákærða að hann hafi sjálfur veitt sér þá áverka er komið hafi í ljós. Ákærði hafi ógnað B eftir þetta og hafi það gengið það langt að B hafi orðið að fá nálgunarbann sett á ákærða gagnvart sér. B kvaðst vera hræddur við ákærða í dag. 

I kvaðst hafa orðið vitni að átökum á Hiltonhóteli umrætt kvöld. Hafi B farið á fund á hótelinu og haft ástæðu til að óttast fundinn. Hafi hann farið þess á leit við I að hann yrði á staðnum vegna hugsan­legra leiðinda. Treglega hafi I samþykkt það og ákveðið að bíða úti í bifreið fyrir utan hótelið. B hafi hringt í I og beðið hann um að koma inn. Hafi I þá farið inn á hótelið. B hafi þá staðið við barinn og hafi I séð þar sem ákærði hafi slegið til hans. Hafi höggið lent á kinnbeini B. Í framhaldi hafi B farið á bak við barinn. I kvaðst hafa hringt á lögregluna og síðan beðið afsíðis þar til lögregla hafi komið á staðinn. I kvaðst ekki kannast við að ákærði hafi slegið B með handarbaki. Hafi I verið í um tveggja metra fjarlægð frá ákærða og B og því séð atvikið vel. I kvaðst hafa ekið B heim til sín eftir þetta. Á þeirri stundu hafi I séð að B hafi verið með áverka í andliti. 

G kvaðst hafa verið að vinna á barnum á hótelinu þetta kvöld. Hafi gestir verið á barnum og þeir setið nokkrir saman við borð. Þeir hafi hækkað róminn. Hafi einn gestanna viljað greiða fyrir veitingar og G verið að taka við greiðslu er gesturinn hafi kallað upp og því næst hlaupið aftur fyrir barinn. Hafi hann og annar maður kallast á. Í framhaldinu hafi verið hringt á lögreglu en annar mann­anna sagt að hann hafi verið slegin í andlitið. G kvaðst ekki hafa séð neinn sleginn. Hafi hann tekið skýrt fram við lögreglu í símtali er hann hafi átt við lögreglu­mann að hann hafi ekkert séð. Væri rangt fært í lögregluskýrslu um þetta atriði þar sem fram kæmi að G hafi eitthvað séð. Það sem fært væri í lögregluskýrslu væri einfaldlega það sem lögreglumaður hafi sagt að átt hafi að hafa gerst.

Á meðal rannsóknargagna málsins er lögregluskýrsla er Þórður Geir Þor­steinsson lögreglumaður hefur ritað í tengslum við símtal sem hann hefur átt við G 2. september 2008. Er fært í skýrsluna að G hafi tjáð lögreglu­manninum að G hafi veitt athygli rifrildi milli manna á staðnum. Hafi hann veitt því athygli að stór maður hafi kýlt í andlit annars manns með handarbaki fyrir framan afgreiðsluborð á barnum. Hafi þá sá sem laminn hafi verið komið inn fyrir barinn. Hafi sá sem laminn hafi verið sagt að áður hafi maðurinn verið búinn að lemja sig inni á barnum. Hringt hafi verið á lögreglu eftir þetta.

F og E báru fyrir dómi að þeir hafi verið boðaðir á fund á Hiltonhóteli af B en ræða hafi átt viðskipti. Fyrir hafi legið að B hafi lofað greiðslum vegna fjárfestinga sem þeir hafi lagt í. Þær fjárfestingar er um ræði hafi ekki skilað arði og hafi þeir ekki fengið neina peninga greidda til baka. Þeir þrír hafi hist við barinn á hótelinu. Ákærði hafi komið síðastur til fundarins. Mál hafi verið rædd og hafi m.a. komið fram að B hafi ætlað að láta þá félaga fá erlendar ávísanir sem endurgreiðslu. Þá hafi hann viljað fá meiri fjármuni inn í félagið frá þeim. Allir fundarmenn hafi orðið ósáttir við það sem B hafi haft fram að færa og hafi ákærði og B deilt harkalega. Hafi F og E litið svo á að fundurinn hafi farið út um þúfur. E kvaðst ekki hafa séð ákærða leggja hendur á B þar sem þeir hafi setið í sófa. Þegar þeir félagar hafi byrjað að rífast hafi E staðið á fætur og farið út af fundinum. Er hann hafi yfirgefið svæðið hafi ákærði og B staðið við barinn. Í máli H kom fram að ákærði hafi lamið B einu sinni í sófanum. Höggið hafi verið veitt með krepptum hnefa, en hann hafi ekki séð nákvæmlega hvar það hafi lent í B þó svo það hafi lent framan í honum. Við höggið hafi B misst gleraugu er hann hafi verið með. Er ákærði og B hafi staðið við barinn hafi hann séð ákærða lemja B með bakhönd eitt högg sem komið hafi í andlitið á B. Það högg hafi H séð mjög vel en hann hafi staðið í um metra frá þeim félögum. Höggið hafi komið í kinn B og verið ,,þéttingsfast“. 

F kvaðst hafa verið á fundi á Hiltonhóteli ásamt ákærða og nokkrum öðrum. Hafi B boðað til fundarins, en ræða hafi átt uppgjör í tengslum við fjárfestingu sem aðilarnir hafi varið fjármunum í. Sú fjárfesting hafi ekki skilað arði. Í ljós hafi komið á fundinum að B hafi ekkert ætlað sér að gera í málinu. Við það hafi fundarmenn orðið ósáttir. F kvaðst ekki hafa séð ákærða ráðast á B en F hafi ákveðið að yfirgefa fundinn.

Páll Bergmann lögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvað hann ákærða hafa verið fyrir utan hótelið er Páll hafi komið á staðinn. Í viðræðum við B hafi komið fram að ákærði hafi ráðist á B. Lögreglumenn hafi rætt við ákærða. Hafi hann tjáð lögreglumönnum að soðið hafi upp úr á fundi og að ákærði hafi gefið B selbita.

Þórður Geir Þorsteinsson lögreglumaður staðfesti að hafa tekið símaskýrslu af vitninu G. Í skýrslu hafi verið færður framburður vitnisins eins og hann hafi verið gefinn umræddan dag.

Hlynur Þorsteinsson læknir staðfesti læknisvottorð dagsett 25. júlí 2008 og gerði grein fyrir tilteknum atriðum í því. Kvað hann þá áverka er B hafa verið með hafa verið dæmigerða yfirborðsáverka og eymsli vegna hnykks er B hafi fengið á höfuðið. Geti áverkar komið heim og saman við að B hafi fengið högg hægra megin í andlitið en áverkar samrýmist því að hann hafi fengið tognun við það að höfuðið hafi farið til hliðar.

Niðurstaða:  

Í máli þessu liggur fyrir áverkavottorð er gefið var út í framhaldi af komu B á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss að kvöldi fimmtu­dagsins 3. júlí 2008. Var það í kjölfar fundar er B átti með ákærða og tveim öðrum nafngreindum einstaklingum á Hilton bar á Hiltonhótelinu við Suður­lands­braut í Reykjavík þar sem rædd voru viðskipti þeirra félaga. Var B við komu á slysadeild með bólgu á gagnaugasvæði hægra megin sem teygði sig upp í hársvörð. Þá var hann með bólgu við hægra eyra og niður eftir kjálka, eymsli í kjálka og í hálsvöðvum hægra megin. Loks var hann með heilahristing.  

B hefur staðhæft að ákærði hafi ítrekað lamið sig þetta kvöld. Hafi hann veitt B nokkur högg þar sem B hafi setið í sófa nálægt barnum. Þá hafi hann veitt B þrjú til fjögur högg þar sem B stóð við barinn. Ákærði hefur synjað fyrir þetta. Hefur hann fullyrt að hann hafi ýtt í B þar sem þeir hafi setið í sófa og gefið B selbita þar sem þeir stóðu við barinn. Nokkur vitni hafa gefið skýrslu um atvikið. H kvaðst hafa séð ákærða veita B eitt hnefahögg þar sem ákærði og B hafi setið í sófa og hafi höggið lent framan í B. Við barinn hafi ákærði veitt B högg með bakhönd sem lent hafi í höfði B. E kvað þá félaga hafa staðið við barinn er hann hafi yfirgefið svæðið. F kvaðst einnig hafa yfirgefið staðinn áður en nokkur átök hafi átt sér stað. I kvaðst ekki hafa séð það sem fram fór í sófanum en hann hafi séð ákærða veita B högg í andlitið við barinn og hafi höggið verið veitt með hnefa en ekki handarbaki. Framburður vitnisins G barþjóns birtist ekki með sama hætti í rannsóknargögnum málsins og í yfirheyrslu fyrir dómi. Í lögregluskýrslu, sem staðfest hefur verið af Þórði Geir Þor­steinssyni lögreglumanni, er fært eftir G að maður hafi verið laminn við barinn með handarbaki sem komið hafi í andlit mannsins. Fyrir dóminum bar vitni þetta að enginn hafi verið sleginn þetta kvöld. 

Málatilbúnaður ákæruvalds miðar við að ákærði hafi tvívegis kýlt B í andlitið þetta kvöld. Hafi það annars vegar verið í sófa í nágrenni við bar staðarins og síðan fyrir framan barinn. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að B hafi eftir þetta atvik sjálfur veitt sér þá áverka er í læknisvottorði greinir, en hann fór á slysadeild síðar þetta sama kvöld. Þeir áverkar er B bar eftir þetta eru slíkir að þeir verða ekki veittir með svonefndum selbita eða með handar­baki. Högg hefur verið veitt af slíkum krafti að höfuð B hefur svignað það mikið til hliðar að hann hefur tognað á hálsvöðvum og fengið heilahristing. Áverkar samkvæmt áverkavottorði eru frá hársverði niður á gagnauga og framan við hægra eyra og þaðan niður eftir neðri kjálka. Það yfirgripsmiklir áverkar koma ekki eftir eitt hnefahögg.  

B staðhæfir að höggin við barinn hafi verið tvö til þrjú. H nefnir högg við barinn og I nefnir högg í andlitið. Með hliðsjón af framburði brotaþola í málinu og vitnanna H og I þykir komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi kýlt B eitt hnefahögg í hægri vanga þar sem B stóð við barinn. Þá þykir með vísan til framburðar B og H, sem samrýmast áverkum þeim sem B bar eftir atlöguna og ná yfir stóran hluta andlits B, einnig komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi veitt B hnefahögg þar sem þeir voru í nágrenni við barinn þetta kvöld, áður en árásin við barinn sjálfan átti sér stað. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

b. liður.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fékk lögregla tilkynn­ingu fimmtudagskvöldið 31. júlí 2008 kl. 22.56 um líkamsárás á bifreiðastæði við Hafnarvogina í Hafnarfirði. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að lögregla hafi verið komin á vettvang skömmu síðar. Þar hafi lögregla hitt fyrir starfsmenn fréttaskýringar­þáttarins Kompás, þá J, K og L. Hafi þeir tjáð lögreglu að þeir hafi orðið vitni að líkamsárás þar sem Benjamín Þór Þorgrímsson, ákærði í máli þessu, hafi ráðist á C. Eftir árás­ina hafi ákærði sest upp í svarta bifreið af gerðinni Ford Explorer með tiltekið skrán­ingar­númer og ekið á brott. Fram kemur að sjúkrabifreið hafi verið komin á vettvang og hafi sjúkraflutningamenn verið að hlúa að C. Hafi hann í framhaldi verið fluttur á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Í viðræðum við J hafi komið fram að árásin hafi verið hrottafengin þar sem ákærði hafi ítrekað sparkað og kýlt C. Hafi ástæða árásarinnar verið sú að ákærði héldi því fram að C skuldaði sér 5 milljónir króna vegna ummæla C um ákærða í fjölmiðl­um. Í viðræðum við J hafi komið fram að upptökur væru til af árásinni. Í skýrsl­unni kemur fram að K hafi verið að ræða við ákærða í farsíma þegar lögregla hafi komið á vettvang. Hafi lögreglumaður rætt við ákærða í síma og hann samþykkt að hitta lögreglumenn vegna atburðarins. Í viðtali sem lögreglumenn hafi átt við ákærða skömmu síðar hafi komið fram að ákærði hafi tjáð lögreglu að hann hafi ráðist á C. Hafi hann lýst yfir að hann hafi sparkað í hann og kýlt hann. Hafi komið fram í máli ákærða að C hafi stöðugt verið að reyna að æsa ákærða upp þegar þeir hafi verið að ræða saman. Af þeim sökum hafi ákærði ráðist á C. Stuttu síðar hafi starfsmenn Kompás komið á staðinn. Hafi ákærði staðhæft að hann hafi verið mjög reiður á þeirri stundu. Í frumskýrslu er tekið fram að ákærði hafi verið rólegur og samstarfsfús í viðræðum við lögreglumenn. Þá kemur fram í frumskýrslu að lögreglumenn hafi rætt við C á slysadeild. Hafi C tjáð lögreglu­mönnum að árás ákærða hafi verið tilefnislaus, en ákærði og C ættu sér langa forsögu. Þá hafi verið rætt við unnustu C og hún tjáð lögreglu að fjölskyldan væri stöðugt áreitt af ákærða og félögum hans. Hafi ákærði ítrekað haft í hótunum og væri fjölskyldan búin að leita sér lögfræðilegrar aðstoðar vegna þessara deilna sem staðið hafi í langan tíma.

C mætti á lögreglustöð föstudaginn 1. ágúst 2008 og lagði þá fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Hlynur Þorsteinsson sérfræð­ingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur 15. ágúst 2008 ritað læknisvottorð vegna komu C á slysadeild 31. júlí 2008. Í vottorðinu kemur m.a. fram að við skoðun sé C með svolitla kúlu vinstra megin á enni og aumur í hársverði vinstra megin á höfði. Þegar hann hafi verið tekin úr hálskraga hafi hann verið farinn að stirðna í hálsi. Við skoðun á brjóstkassa hafi komið fram að hann hafi verið aumur í síðunni. Afráðið hafi verið að senda hann í sneiðmynd af höfði og röntgen­mynd af brjóstkassa og hálsliðum. Ekki hafi sést áverkamerki af þeim myndum. Við nánari skoðun á brjóstkassa sé C svolítið aumur í síðunni. Grein­ing á sjúkling séu yfirborðsáverkar á höfði og heilahristingur. Þá sé tognun í brjóst­kassa og tognun í hálsvöðvum. Grunur sé um rifbrot.

Á meðal rannsóknargagna málsins er myndupptaka er starfsmenn frétta­skýringarþáttarins Kompás önnuðust gerð á og sýnir atburðarásina við Hafnarvogina að kvöldi fimmtudagsins 31. júlí 2008. Þá er á meðal gagnanna útprentun af samtali er fram fór á milli ákærða og C greint sinn.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 1. september 2008. Ákærði bar að umrætt sinn hafi C beðið ákærða um að hitta sig til að fara yfir mál þeirra sem snérust um það að C hafi viðhaft óeðlileg ummæli um ákærða í fjölmiðlum auk þess sem ákærði kvaðst vera þeirrar skoðunar að C hafi kveikt í bifreið ákærða þó svo erfiðlega gengi að sanna það. Kvaðst ákærði kannast við að hafa tekið aðeins í C þetta kvöld. Hafi hann gefið honum hnéspark þannig að C hafi dottið í götuna. Í framhaldinu hafi ákærði kitlað C þannig að C hafi farið að væla. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa sent C sms símaskilaboð fyrir fundinn. Hafi gildra verið sett fyrir ákærða þetta kvöld. Er fyrir ákærða var spilað myndskeið úr fréttaskýringarþætti Kompás af umræddu atviki kvaðst ákærði kannast við að atvikið hafi átt sér stað og að hann væri á myndskeiðinu.

Við þingfestingu málsins kvaðst ákærði játa sakarefnið að hluta. Kvaðst hann játa að hafa ráðist að C og sparkað í hann. Kvaðst hann neita því að hafa tekið C hálstaki og neita því að hafa sparkað nokkrum sinnum í höfuð hans. Kvaðst ákærði játa að hafa ýtt með fæti í andlit C en neita því að hafa sparkað nokkrum sinnum í andlit hans. Þá kvaðst ákærði neita að hafa veitt honum hnefahögg í andlit og neita því að hafa kýlt hann nokkrum hnefahöggum í líkamann, en að því leyti kvaðst ákærði játa að hafa kýlt hann eitt til tvö högg í líkamann. Við aðalmeðferð málsins bar ákærði að umrætt kvöld hafi C hringt í ákærða og viljað hitta hann í Hafnarfirði. Hafi C tjáð ákærða að hann vildi gera upp skuld sína við ákærða. Ákærði hafi ákveðið að hitta C þetta kvöld. Á þeim fundi hafi soðið upp úr í samskiptum þeirra. Í símtalinu fyrr um kvöldið hafi C látið eins og hann vildi gera upp skuld sína við ákærða en á staðnum hafi hann verið allt annar maður. Ákærði hafi nánast ekkert gert við C. Hafi hann ýtt við honum en ekki sparkað í hann. Hann hafi gefið honum hnéspark í maga og kýlt hann einu sinni í síðuna. Hafi hann verið að hræða C. Hann hafi ýtt með fæti ofan á höfuð hans. Ekki hafi hann tekið hann hálstaki svo sem honum væri gefið að sök eða kýlt hann í andlitið. Þeir áverkar er læknisvottorð geti um geti ekki stafað frá ákærða.

C kvað ákærða hafa hótað sér margsinnis mánuðina áður en atvikið hafi átt sér stað. Hafi ákærði krafist þess að hitta C vegna um­mæla sem C hafi viðhaft í fjölmiðlum gagnvart ákærða. Þá hafi ákærði verið þeirrar skoðunar að C skuldaði honum einhverja fjármuni, sem ekki hafi verið rétt. Hafi ákærði sent C mörg sms símaskilaboð vegna þessa og C loks fallist á að hitta ákærða. Hafi C ákveðið að fundarstaður yrði við Hafnarvogina við Hafnarfjarðarhöfn. Ákærði hafi krafist fundarins en sms símaskilaboð væru til því til staðfestu. Starfsmenn fréttaskýringarþáttarins Kompás hafi verið búnir að fylgjast í talsverðan tíma við C vegna hótana sem C hafi verið búin að fá frá ákærða. Eftir að ákveðið hafi verið að ákærði og C myndu hittast hafi C haft samband við starfsmenn fréttaskýringarþáttarins og greint þeim frá fyrirhuguðum fundi. C hafi áður verið með starfsmenn fréttaskýringarþáttarins nálæga í sam­skiptum við ákærða og verið með upptökubúnað á sér. Áður hafi það gerst er fundur hafi verið haldinn á veitingastaðnum Thorvaldsen Bar í Austurstræti í Reykjavík. C kvaðst alltaf hafa haft samband við starfsmenn fréttaskýringarþáttarins að fyrra bragði. C hafi þetta kvöld farið á staðinn og ákærði komið til fundarins. Atburðarásin hafi síðan orðið sú sem fram komi á myndskeiði af atburðinum. Er ákærði hafi gengið í skrokk á C hafi starfsmenn fréttaskýringarþáttarins stöðvað atlöguna. Ákærði hafi í atlögunni sparkað í bak C, maga hans og háls. Þá hafi hann kýlt í rifbein C og höfuð. C kveðst eftir atburðinn hafa fengið frekari hótanir frá ákærða í gegnum þriðja aðila. Þá hafi honum verið bent á að ,,missa minnið“ við aðalmeðferð málsins. C kvaðst ekki hafa haft samband við lögregl­una vegna málsins áður en fundurinn hafi verið haldinn og vissi hann ekki til þess að aðrir hafi gert það.  

K kvað C hafa leitað til starfsmanna fréttaskýringarþáttarins Kompás í byrjun febrúar 2008 þar sem hann hafi verið að fá hótanir í tengslum við rekstur veitingastaða. Ákveðið hafi verið að fylgja C eftir í framhaldinu í tengslum við umfjöllun um undirheima á Íslandi. Umfjöllunarefnið hafi verið uppgjör og hótanir sem gengið hafi milli viðskiptamanna sem rekið hafi skemmtistaði. C hafi haft samband við starfsmennina og greint þeim frá því að ákærði ætlaði að hitta C við Hafnarvogina í Hafnarfirði að kvöldi fimmtudagsins 31. júlí 2008. Hafi komið fram í viðræðum við C að ákærði hafi óskað eftir fundinum en hann hafi verið að krefja C um skaðabætur vegna umfjöllunar um sig í fjölmiðlum. I kvaðst hafa séð á síma C sms símaskilaboð frá ákærða þar sem hann hafi óskað eftir þessum fundi. Starfsmenn fréttaskýringarþáttarins hafi komið sér fyrir á svæðinu og verið með myndavélar til að taka upp fyrirhugaðan fund. Fundurinn hafi síðan farið fram og ákærði ráðist á C. Í beinu framhaldi af árásinni hafi starfsmenn fréttaskýringarþáttarins stigið fram til að stöðva árásina. I kvaðst ekki hafa séð sjálfa árásina vel. Hafi hann séð ákærða hlaupa að C og byrja að lemja hann. Eftir atburðinn hafi starfs­mennirnir litið yfir atvikið en það hafi verið tekið upp á myndavél. J hafi fyrir atburðinn verið búinn að ræða við lögreglustjórann á höfuðborgar­svæðinu til að leita eftir samstarfi við lögreglu um að kvikmynda atburði í tengslum við undirheima borgarinnar. Hafi lögreglustjóri tjáð J að lögregla vildi ekki koma að slíku máli. I kvað C áður hafa verið með upptökutæki í samskiptum sínum við ákærða. Hafi t.a.m. verið haldinn fundur á veitingastaðnum Thorvaldsen Bar þar sem atburðarásin hafi verið tekin upp. Hafi það sennilega verið annað tveggja skipta þar sem C hafi verið með myndbandsupptökutæki falið á sér en hitt hafi verið atvikið í Hafnarfirði. Þar fyrir utan hafi C oftar verið með á sér hljóðupp­tökutæki.

K kvað C hafa haft samband við starfsmenn frétta­skýringarþáttarins Kompás og greint frá hótunum er hann hafi fengið frá svo­nefndum handrukkurum. Hafi starfsmennirnir í framhaldinu ákveðið að skoða þann vettvang og fengið tækifæri til að fylgjast með C. Hafi C fyrst haft sam­band um mánaðarmótin janúar til febrúar 2008. Varðandi atburðina í Hafnarfirði hafi starfsmennirnir frétt af því frá C að einhver átök hafi átt sér stað milli ákærða og C tveim dögum fyrr. Hafi C tjáð þeim að ákærði hafi í framhaldinu krafist fundar með C. Hafi Ingi séð sms símaskilaboð hjá C því til staðfestu að ákærði hafi krafist fundarins. Í framhaldi hafi fundarstaður verið ákveðinn í Hafnar­firði. Ákærði og C hafi rætt saman í um 20 mínútur og ákærði hótað C. Að lokum hafi ákærði gengið í skrokk á C. J kvaðst hafa verið að mynda atburðinn og horft á hann í gegnum myndavélina. Er átökin hafi farið að stað hafi J og félagar hans reynt að stöðva atburðarásina. J kvaðst ekki hafa rætt formlega við lögreglu um atvikið áður en það hafi átt sér stað. Hafi Ingi rætt við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um samvinnu í tengslum við umfjöllun um efni á þessum nótum. Fram hafi komið að maður væri að fara á fund við mann og væri hann hræddur. Starfsmenn Kompás hefðu í hyggju að mynda fundinn. Hafi lögreglustjóri tjáð J að engin slík samvinna kæmi til greina. J kvað starfsmenn fréttaskýringarþáttarins með engu móti hafa ýtt undir þann atburð er varð. Starfsmennina hafi ekki grunað að atburðarásin yrði svo ofbeldisfull sem orðið hafi. Atvikið hafi átt sér stað á vöktuðu svæði sem hafi átt að tryggja að engir alvarlegir atburðir ættu sér stað. Þá hafi C ekki verið gefin nein fyrirmæli um hvernig hann ætti að hegða sér. Starfsmennirnir hafi með engu móti haft áhrif á framvindu mála eða staðarvalið.

L kvað starfsmenn Kompás hafa verið í samskiptum við C frá því í janúar 2008 en hann hafi greint frá samskiptum sínum við eigendur skemmtistaða. Hafi hann greint frá því að ákærði hafi komið að því máli og átt tiltekinn þátt í uppgjöri. Í tengslum við það mál hafi C í tvö til þrjú skipti borið á sér upptökuvél. Hafi það verið þegar fundur fór fram á veitingastaðnum Thorvaldsen Bar og síðan í Hafnarfirði. Hafi starfsmenn fréttaskýringarþáttarins verið að fjalla um heim handrukkara. Hafi verið ætlunin að varpa ljósi á þessa starfsemi. L kvað einn úr hópi starfsmanna fréttaskýringarþáttarins hafa látið lögreglu fyrir fram vita af því að C myndi hitta ákærða á fundi. Hafi C tjáð starfsmönnum að fundurinn færi fram á vöktuðu svæði en staðsetninguna hafi C ákveðið.

Aðalbergur Sveinsson lögreglumaður kvað lögreglu hafa fengið tilkynningu um líkamsárás sem átt hafi sér stað í Hafnarfirði. Er lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi fjórir einstaklingar verið þar til staðar. Tilkynning hafi hljóðað um að árásarmaðurinn væri farinn á brott af vettvangi og hafi svo reynst raunin. Sjúkra­flutningamenn hafi þá verið að hlúa að brotaþola. Hafi nafn ákærða verið nefnt sem nafn árásarmannsins. Kvaðst Aðalbergur á vettvangi hafa tekið við síma af einum starfsmanna fréttaskýringarþáttarins Kompás og rætt við ákærða. Í framhaldi af því hafi lögreglumenn hitt ákærða og rætt við hann. Í framburði ákærða hafi komið fram að hann hafi kýlt C og rekið hné í síðu hans. Aðalbergur kvaðst hafa verið í tilteknu verkefni í Garðabæ er tilkynningin hafi borist. Hafi því tekið nokkrar mínútur að komast á svæðið. Ekki hafi hann haft vitneskju um það fyrir fram að þessir atburðir væru að fara að gerast.

Hlynur Þorsteinsson læknir staðfesti læknisvottorð sitt frá 15. ágúst 2008 og gerði grein fyrir einstökum atriðum í tengslum við það.

Niðurstaða:

Ákærði játar sakarefni málsins að hluta til. Hefur hann játað að hafa ráðist að C að kvöldi fimmtudagsins 31. júlí 2008 á bifreiðastæði við Hafnarvogina í Hafnarfirði og sparkað í hann. Hefur hann neitað því að hafa tekið C hálstaki og neitað því að hafa sparkað nokkrum sinnum í höfuð hans. Hefur ákærði játað að hafa ýtt með fæti í andlit C en neitað því að hafa sparkað nokkrum sinnum í andlit hans. Þá hefur ákærði neitað að hafa veitt honum hnefahögg í andlit og neitað því að hafa kýlt hann nokkur hnefahögg í líkamann, en að því leyti viðurkennt að hafa kýlt hann eitt til tvö högg í líkamann.

Varnir ákærða í málinu lúta annars vegar að því að hann telur ekki alla þá atvikalýsingu sannaða er fram kemur í ákæru og vísar þar um til játningar sinnar. Hins vegar lúta varnir ákærða að því að tiltekinna rannsóknargagna í málinu hafi verið aflað með ólögmætum hætti og að brotaþoli hafi verið notaður sem tálbeita til að egna gildru fyrir ákærða. Hafi starfsmenn fréttaskýringarþáttarins Kompás egnt gildruna.

Í málinu nýtur við myndupptöku af atburðinum við Hafnarvogina í Hafnarfirði sem tekin var af starfsmönnum fréttaskýringarþáttarins Kompás. Þá nýtur við útprent­unar af samtali ákærða og C það sinnið sem rituð hefur verið niður í samræmi við myndupptökuna. C hefur staðhæft að ákærði hafi sjálfur átt frum­kvæðið að því að ákærði og C hittust, en ákærði hafi ítrekað knúið á um fund til að ræða uppgjör þeirra á milli. Hafi C látið starfsmenn fréttaskýringar­þáttarins Kompás vita af fyrirhuguðum fundi og hafi starfsmennirnir fylgst með atburðinum. Þrír starfsmenn fréttaskýringarþáttarins, sem allir voru á vettvangi þetta kvöld, hafa staðfest að C hafi látið þá vita af því að til stæði að C myndi hitta ákærða þetta kvöld. Hafa tveir þeirra jafnframt staðfest að hafa séð af gsm síma C sms skeyti frá ákærða þar sem hann óskar eftir fundi með C. Hlutverk starfsmannanna hafi eingöngu verið að fylgjast með því sem fram fór og hafi þeir ekki lagt nein fyrirmæli fyrir C um hvernig hann skyldi hegða sér í samskiptum við ákærða. Þegar framburðir starfsmanna fréttaskýringarþáttarins eru virtir, sem og framburður C, telur dómurinn liggja fyrir að starfsmenn fréttaskýringarþáttarins hafi ekki átt frumkvæði að því að ákærði og C hittust greint sinn, auk þess sem dómurinn telur fyrir liggja með hliðsjón af fram­burðum þessara aðila að ákærði hafi leitað eftir fundi með C til að ræða uppgjör þeirra í milli. Fær það auk þess stoð í þeim staðhæfingum ákærða að C hafi skuldað honum fjármuni vegna ummæla C um ákærða í fjölmiðlum og þar sem C hafi valdið tjóni á bifreið ákærða. Með hliðsjón af þessu hefur þeirra sönnunargagna sem felast í myndskeiði af atburðinum eða útprentun á samtali ákærða og C ekki verið aflað með ólögmætum hætti. 

Við yfirferð á myndskeiði sem í rannsóknargögnum málsins er merkt IV/2 liggur fyrir atburðarás sem felst í því að ákærði kemur inn á bifreiðastæði við Hafnarvogina í Hafnarfjarðarhöfn. Ræða ákærði og C saman í ríflega 19 mínútur allt þar til ákærði ræðst á C. Atburðarásin samkvæmt myndskeiði leiðir í ljós að ákærði ræðst á C, veitir hann honum hnéspark og grípur um leið um háls C sem með réttu væri nefnt kverkatak en ákæruvald kýs að kalla hálstak. Í framhaldi af þessu þrýstir ákærði C í jörðina og kýlir hann einu sinni með hnefa og kemur höggið í andlit C. Því næst  reynir ákærði í tvígang að sparka í höfuð C. Missir hann marks í fyrra sinnið þar sem C nær að víkja sér undan sparkinu. Í það síðara tekst ákærða að koma sparki í höfuð C. Eftir þetta kýlir ákærði C a.m.k. tvívegis með krepptum hnefa og koma höggin í líkama C. Þessi atburðarás er í samræmi við atvikalýsingu í ákæru. Þær afleið­ingar er um getur í ákæru eru í samræmi við framlagt læknisvottorð í málinu en fyrir liggur að C var fluttur á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í kjölfar árásar­innar. Afleiðingar árásarinnar eru slíkar að á undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. 

Svo sem áður var rakið liggur fyrir að starfsmenn fréttaskýringarþáttarins Kompás fylgdust með atburðarásinni þetta kvöld. Hafa þeir fullyrt að C hafi ekki verið leiðbeint að neinu leyti um framgöngu sína og samskipti við ákærða. Út­prentun á samtali ákærða og C leiðir í ljós að ákærði krefur C um fjármuni. Synjar C fyrir að greiða þessa fjármuni. Af því spretta deilur, sérstak­lega um tilurð kröfu ákærða. Að mati dómsins ögraði C ákærða á engum tíma með því móti að réttlætti framgöngu ákærða í málinu. Þá verður ekki talið fram komið að atvik þessi hafi átt sér stað með vitund og vilja lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi þess sem áður var slegið föstu um aðdraganda þessara atburða fellst dómurinn ekki á þá málsvörn ákærða að C hafi verið tálbeita sem notuð hafi verið til að egna ákærða í gildru og að starfsmenn fréttaskýringarþáttarins Kompás hafi egnt gildruna. Er ekki annað fram komið í málinu en að framganga starfsmannanna hafi einungis verið fólgin í því að kvikmynda þá atburði er áttu sér stað. Í ljósi alls þessa verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum lið ákæru og verður háttsemin, í ljósi heim­færslu ákæruvaldsins til refsiákvæða, felld undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði er fæddur í júlí 1973. Hann á að baki sakaferil allt frá árinu 1992. Ekki er ástæða til að rekja sakaferil ákærða að öðru leyti en að hann var með dómi 4. nóvember 2003 dæmdur í 3ja mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Háttsemi ákærða samkvæmt ákæru 20. nóvember 2008 sem fólst í því að sparka í höfuð A þar sem hann lá í götunni var fólskuleg og stórhættuleg. Þá var háttsemi ákærða samkvæmt b-lið ákæru 5. desember 2008 sértaklega hættuleg þar sem ákærði reyndi ítrekað að sparka í höfuð C þar sem C lá í jörðinni. Verður að telja mildi að fyrsta spark ákærða hafi ekki hitt C í höfuðið en C náði að víkja sér undan sparkinu. Slíkt spark hefði getað orðið lífsógnandi ef það hefði hitt C í höfuðið. Nýtur ákærði þess í málinu að ákæruvald hefur kosið að fella háttsemina einungis undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Þá er það niðurstaða dómsins að sú aðstaða að B hafi skuldað ákærða fjármuni vegna sakarefnis samkvæmt a-lið ákæru frá 5. desember 2008 hafi með engu móti réttlætt þann verknað ákærða að kýla B hnefahögg í andlitið. Leiðir það ekki til þess að refsing ákærða í málinu verði milduð á þeim grundvelli. Er refsing ákærða, að teknu tilliti til 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940, ákveðin fangelsi í 14 mánuði, sem engu leyti verður bundið skilorði. 

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt þrem sakarkostnaðaryfirlitum og til­dæmd málsvarnarlaun, að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

                                                                     D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Benjamín Þór Þorgrímsson, sæti fangelsi í 14 mánuði.

Ákærði greiði 864.735 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, 683.256 krónur.