Hæstiréttur íslands

Mál nr. 535/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. ágúst 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. ágúst 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. september 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í hinum kærða úrskurði er frá því greint að Y hafi verið ökumaður bifreiðar sem kom hingað til lands með ferjunni [...] að morgni [...] ágúst 2017. Þar er því jafnframt lýst að bifreiðinni hafi verið ekið til Reykjavíkur meðan lögregla fylgdist með ferðum hennar og samskiptum ökumannsins við aðra. Samkvæmt skýrslum lögreglu lagði hann bifreiðinni fyrst á bílastæði við [...] hótel þar sem hann beið í um klukkustund uns annarri bifreið var ekið inn á stæðið. Farþegi úr þeirri bifreið settist inn í bifreið Y og var bifreiðunum síðan ekið að gistiheimili að [...] þar sem varnaraðili gisti um nóttina ásamt Y og Z, en varnaraðili kvaðst hafa komið hingað til lands frá Póllandi fyrr þennan sama dag. Snemma morguninn eftir, [...] ágúst 2017, óku þeir Z svo bifreiðinni, sem Y hafði komið með til landsins, um borgina og loks inn í bílskúr við gatnamót [...] og [...] þar sem þeir voru báðir handteknir. Í kjölfarið var Þ sem opnað hafði bílskúrinn fyrir þeim, tekinn höndum á flótta af vettvangi.

Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar er tekið fram að í bifreiðinni, sem Y kom með til landsins, hafi fundist 1310 ml af amfetamínbasa. Þá hafi meira óþekkt magn af sama efni lekið úr bifreiðinni þar sem gat hafi verið á brúsanum sem efnið fannst í.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sökum þess og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 til að úrskurða varnaraðila í gæsluvarðhald og láta hann jafnframt sæta einangrun þann tíma sem þar greinir. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. ágúst 2017.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, fæddur [...] 1972, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. september 2017 kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að hann hafi nú til rannsóknar innflutning á fíkniefnum hingað til lands. Lögreglu hafi borist upplýsingar um að grunur léki á að í [...] bifreiðinni [...] væru falin fíkniefni, en bifreiðin hafi verið um borð í ferjunni [...] á leið hingað til lands. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið Y. Ferjan hafi komið hingað til lands frá Danmörku að morgni fimmtudagsins [...] ágúst. Við skoðun á bifreiðinni hafi komið í ljós froðukenndur vökvi sem virtist hafa lekið úr undirvagni bifreiðarinnar. Við frekari skoðun og frumrannsókn lögreglu hafi komið í ljós að um væri að ræða amfetamínvökva.

Með heimild Héraðsdóms Reykjaness hafi lögreglan m.a. komið fyrir eftirfararbúnaði undir bifreiðinni og fylgt henni eftir þar sem henni hafi verið ekið áleiðis til Reykjavíkur. Y hafi komið til Reykjavíkur seint á fimmtudagskvöldi og lögregla fylgst með ferðum hans.

Y hafi átt í samskiptum við óþekkta aðila á leiðinni. Er hann kom til Reykjavíkur hafi hann lagt bifreiðinni við [...] hótelið og hitt þar kærða. Þeir hafi rætt saman í annarri bifreið í dágóða stund, m.a. um það hvort leitað hafi verið í [...] bifreiðinni á tollsvæðinu á [...]. Í morgun hafi meðkærði Y kærði X og annar aðili verið handteknir þar sem þeir hafi verið staðsettir inn í bílskúr við [...] í Reykjavík, en kærði X og meðkærði Z hefðu ekið bifreiðinni sem innihélt fíkniefnin þangað inn. 

Rannsókn málsins sé nú á frumstigi. Alls hafi fjórir aðilar verið handteknir í tengslum við innflutninginn. Í ljósi ofangreinds er það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og er það grunur lögreglu að fleiri aðilar tengist málinu. Telur lögregla því brýna nauðsyn á því að kærði sæti gæsluvarðhaldi, í einangrun, á þessu stigi máls þar sem ljóst sé að ef kærði gangi laus þá geti hann sett sig í samband við meinta samverkamenn eða þeir sett sig í samband við hann. Þá geti kærði einnig komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hafi ekki lagt hald á nú þegar.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og b-liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga,  er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

                 Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum og getur meint brot varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og virðist umfangsmikil. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa samband við samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. 

Úrskurðarorð:

                Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. september 2017, kl. 16:00.

                Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.