Hæstiréttur íslands

Mál nr. 509/2004


Lykilorð

  • Ákæra
  • Endurskoðandi
  • Reikningsskil
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Lögreglurannsókn


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. maí 2005.

Nr. 509/2004.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Löggiltir endurskoðendur. Reikningsskil. Lögreglurannsókn. Ákæra. Frávísun máls frá héraðsdómi.

 

X var gefið að sök að hafa vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi með því að hafa eftir endurskoðun á ársreikningum Tryggingasjóðs lækna á nánar tilteknu árabili áritað þá án fyrirvara og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag og breytingu á eign, án þess að hafa aflað fullnægjandi gagna til að byggja slíkt álit á og kannað nægilega fyrirliggjandi gögn. Hafi hann ekki hagað endurskoðun sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju eins og nánar var lýst í fjórum liðum ákærunnar. Í dómi Hæstaréttar var talið að til þess að rætt yrði um refsivert brot, sem stafi af vanrækslu um að gæta góðrar endurskoðunarvenju, væri ekki nægilegt að líta til þess eins, sem sá maður, sem sökum væri borinn, væri talinn hafa gert eða vanrækt að gera, heldur yrði að horfa til þess samhliða hvað sú góða venja hefði krafist af honum eða heimilað honum að láta ógert. Þetta yrði jafnframt að skoðast með tilliti til einstakra og nánar tiltekinna atriða varðandi rækslu starfa endurskoðanda, en ekki með heildstæðu mati á störfum yfir lengra tímabil. Talið var að mjög hafi skort á að rannsókn lögreglu hafi náð því markmiði, sem mælt er fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991. Þá væri verknaðarlýsing í ákæru verulegum annmörkum háð, en X væri gefið þar meðal annars að sök að hafa á tilteknu árabili ekki gætt góðrar endurskoðunarvenju og brotið á þann hátt gegn tilgreindum lagaákvæðum með því að „hafa ekki kannað á fullnægjandi hátt gögn sem lágu að baki skuldabréfalistum sem fyrir hann voru lagðir á umræddu tímabili”. Væri þar ekkert frekar vikið að því um hvaða gögn gæti hér verið að ræða eða hvað hefði átt að mega finna í þeim, hversu oft þetta var talið hafa gerst og þá hvenær á níu ára tímabili, í hverju ætluð háttsemi X fólst nánar í hvert skipti og hvað skorti þá á að störf hans teldust fullnægjandi. Önnur atriði, sem tilgreind væru í upptalningu fjögurra liða í ákæru, væru þessu sama marki brennd. Vegna þessara annmarka væri ófært að fella efnisdóm á málið og yrði ekki komist hjá því að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

 Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2004 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing og gert að sæta sviptingu réttinda sem löggiltur endurskoðandi.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

I.

Samkvæmt gögnum málsins varð ákærði löggiltur endurskoðandi 1985 og vann sem slíkur til ársloka 1993, þegar hann hvarf til starfa á öðrum vettvangi. Á árinu 1986 tók hann að sér að endurskoða reikninga Tryggingasjóðs lækna og hélt því verki áfram til 2001, þótt hann hafi annars látið af störfum sem endurskoðandi. Ákærði endurskoðaði þannig síðast ársreikning tryggingasjóðsins fyrir árið 2000, sem hann áritaði 11. júní 2001.

Í byrjun maí 2002 beindi Lárus Halldórsson því til ríkislögreglustjóra að tekin yrðu til rannsóknar brot, sem hann hefði framið í starfi framkvæmdastjóra Tryggingasjóðs lækna, en því hafði hann gegnt frá árinu 1969 og annast rekstur sjóðsins sem verktaki. Kvaðst Lárus, sem jafnframt var löggiltur endurskoðandi, hafa dregið sér fé, farið gáleysislega með fjármuni, brotið gegn lögum um bókhald og ársreikninga og blekkt stjórn sjóðsins og endurskoðanda, en þetta hafi hann einkum gert á árunum 1984 til 1994. Í skriflegri samantekt, sem Lárus hafði gert í tengslum við þetta 30. apríl 2002, kom fram að honum væri ekki ljóst hversu mikið fé hann hafi dregið sér frá tryggingasjóðnum, þar sem bókhald hans væri í slíku horfi að ekki yrði komist að því nema með tímafrekri rannsókn. Lárus kvaðst hafa endurgreitt sjóðnum samtals 27.100.000 krónur, sem hann teldi geta svarað til fjárdráttarins, en til þess hafi hann varið öllum eignum sínum. Varðandi brot á lögum um bókhald og ársreikninga sagði í samantektinni að ekki væri heil brú í bókhaldi sjóðsins. Daglegar færslur væru að vísu í lagi og afstemmingar bankareikninga, en allt væri löngu gengið úr skorðum varðandi reikningsskil, svo og tengsl sérstaks skuldabréfabókhalds og bókhalds séreignasjóðs við aðalbókhald, sem ekki hafi stemmt saman um árabil. Útreikningur vaxta í séreignasjóði hafi að litlu leyti stuðst við raunverulega afkomu tryggingasjóðsins, en þessu kvaðst Lárus hafa hagað þannig til að ekki yrði kvartað undan henni. Af því leiddi að skuldabréfaeign tryggingasjóðsins væri stórlega ofmetin. Einnig var tekið fram í sambandi við þetta að daglegt bókhald hafi verið fært af starfsmönnum á skrifstofu Lárusar, en sjálfur hafi hann sinnt allri vinnu við uppgjör og gerð ársreikninga. Um fyrrnefndar blekkingar sagði meðal annars eftirfarandi í samantektinni: „Það, að þessi afglöp hafi getað staðið allan þennan tíma, án þess að upp kæmist, er fyrst og fremst vegna þess að stjórn sjóðsins og endurskoðandi hafa ranglega dregið þá ályktun að ég væri trausts þeirra verður. ... Um núverandi endurskoðanda sjóðsins gildir það að ég tel að hann hafi, vegna gamallar vináttu við mig, áritað reikninga sjóðsins enda hefur hann alla tíð talið að ekkert væri athugavert við rekstur sjóðsins. Ég hef auk þess lagt fyrir hann fölsuð gögn, sem áttu að sýna að rétt væri að öllu staðið.“

Lárus gaf skýrslu fyrir lögreglu vegna framangreinds 8. maí 2002. Þar ítrekaði hann það, sem áður sagði um að fjárdráttur hans frá Tryggingasjóði lækna hafi byrjað 1984, en hann taldi þetta jafnvel hafa staðið yfir fram á árið 1996. Hann hafi dregið sér fé með þrennu móti, í fyrsta lagi með því að taka það af bankareikningi og færa fjárhæðina í bókhaldi sem kaup á verðbréfum, í öðru lagi með því að greiða sjálfum sér fyrir vinnu umfram það, sem honum bar, og færa þær greiðslur á sama hátt í bókhaldi og í þriðja lagi með því að taka til sín tékka fyrir greiðslu á iðgjöldum til sjóðsins, en ráðstöfun á andvirði iðgjaldanna hafi hann fært í bókhaldi sem kaup á verðbréfum eða endurgreiðslur á iðgjöldum til sjóðfélaga, sem hafi þá ekki verið tengdar bókhaldi yfir séreignarsjóði þeirra. Varðandi blekkingar í garð ákærða og sjóðstjórnar var eftirfarandi meðal annars bókað eftir Lárusi í lögregluskýrslunni: „Hann vill sérstaklega geta þess að hann hafi lagt fölsuð gögn fyrir endurskoðanda sjóðsins, X. X hafi lært til endurskoðanda hjá honum á sínum tíma og verið samstarfsmaður hans um nokkurra ára skeið auk þess sem persónuleg vinátta var til staðar. Samstarfi þeirra hafi verið þannig háttað að X hafi borið til hans fyllsta traust. Lárus kveðst alltaf hafa verið nálægur þegar X hafi farið yfir bókhaldið, vitandi það sem löggiltur endurskoðandi, hvað það væri sem X myndi hugsanlega spyrja um. Hann hafi því haft þau gögn tilbúin sem til þurfti vegna endurskoðunarinnar.“

Af gögnum málsins verður ráðið að ríkislögreglustjóri hafi 22. október 2002 leitað eftir því að Grant Thornton endurskoðun ehf. kannaði meðferð fjármuna og bókhald Tryggingasjóðs lækna, en ætla verður eftir málflutningi fyrir Hæstarétti að þetta hafi verið gert í samvinnu við Fjármálaeftirlitið og tryggingasjóðinn, sem jafnframt hafi falið sömu endurskoðunarstofu að starfa fyrir sig. Með bréfi til ríkislögreglustjóra 4. febrúar 2003 skilaði endurskoðunarstofan skýrslu um rannsókn á bókhaldi sjóðsins vegna ætlaðs fjárdráttar Lárusar Halldórssonar, en rannsókn þessi tók að ósk lögreglu aðeins til áranna 1992 til 2002. Í skýrslunni var meðal annars greint frá því að umrædd ár hafi verið fært bókhald fyrir sjóðinn, en afstemmingum verið verulega áfátt. Í mörgum tilvikum hafi færslur ýmist ekki stuðst við fullnægjandi fylgiskjöl eða engin gögn verið þar að baki. Þá hafi skort tengingar og tengsl við undirkerfi í bókhaldi. Við undirbúning ársreiknings fyrir árið 2001 hafi komið í ljós óskýrður mismunur milli fjárhagsbókhalds og skuldabréfakerfis að fjárhæð 24.787.670 krónur. Þá hafi kröfur „í verulegri áhættu“ numið 34.154.668 krónum, en staðfestar eignir 10.956.000 krónum. Í bókhaldi hafi á móti þessu verið færðar inneignir sjóðfélaga í séreignarsjóði að fjárhæð 52.867.301 króna og vegna örorkusjóðs 17.031.037 krónur. Undirkerfi í bókhaldi, sem hafi átt að halda um séreignir sjóðfélaga, hafi á hinn bóginn sýnt samanlagðar skuldbindingar tryggingasjóðsins við þá að fjárhæð 124.928.738 krónur. Þótti ljóst að ekki væri unnt að byggja á því, sem fram kæmi í þessu undirkerfi. Tekið var fram í skýrslunni að í þessum fjárhæðum væri búið að taka tillit til endurgreiðslna frá Lárusi. Heildarniðurstöður endurskoðunarstofunnar voru þær að á umræddu árabili hafi Lárus dregið sér af tveimur tilgreindum bankareikningum tryggingasjóðsins samtals 75.874.755 krónur, af tilteknu skuldabréfi 1.192.367 krónur, með svokölluðum blekkingarfærslum í bókhaldi 759.730 krónur, með færslum í bókhaldi án fylgiskjala 581.586 krónur og af greiðslu iðgjalda fyrir sjóðfélaga 8.517.653 krónur, eða alls 86.926.091 krónu. Frá þeirri fjárhæð höfðu endurgreiðslur Lárusar ekki verið dregnar.

Lárus Halldórsson gaf skýrslur hjá lögreglu 5. og 6. febrúar 2003, þar sem honum var kynnt framangreind rannsóknarskýrsla og gefinn kostur á að gera athugasemdir og gefa skýringar. Að þeim fram komnum var niðurstaða rannsóknarskýrslunnar endurskoðuð þannig að heildarfjárhæðin, sem Lárus var talinn hafa dregið sér, nam 75.330.552 krónum. Lýsti hann því yfir að hann samþykkti þessa niðurstöðu að öllu öðru leyti en því að hann gerði fyrirvara um einn tiltekinn lið. Ríkislögreglustjóri höfðaði mál á hendur Lárusi með ákæru 6. febrúar 2004, en þar var honum gefið að sök að hafa dregið sér frá Tryggingasjóði lækna samtals 75.865.553 krónur, auk þess að hafa framið nánar tilgreind bókhaldsbrot. Fyrir dómi gekkst Lárus við sakargiftum um fjárdrátt og jafnframt að verulegu leyti að því er varðar bókhaldsbrot. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2004 var Lárus sakfelldur fyrir þau brot, sem hann gekkst við, og honum gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði, auk þess sem hann var sviptur löggildingu sem endurskoðandi og dæmdur til að greiða Tryggingasjóði lækna 47.565.553 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum og kostnaði, svo og til að greiða sakarkostnað. Dómi þessum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

 

 

II.

Samkvæmt gögnum málsins mun ríkislögreglustjóri í september 2003 hafa leitað til Árna Tómassonar löggilts endurskoðanda um aðstoð við undirbúning skýrslutöku af ákærða vegna málefna Tryggingasjóðs lækna. Tók lögregla síðan skýrslu í fyrsta sinn af ákærða 24. september 2003. Við upphaf skýrslutöku var honum tjáð að við rannsókn á ætluðum brotum Lárusar Halldórssonar hafi vaknað grunur um að ákærði kynni í störfum sínum sem löggiltur endurskoðandi Tryggingasjóðs lækna að hafa gerst sekur um brot gegn lögum nr. 18/1997 um endurskoðendur, lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 144/1994 um ársreikninga og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Í lögregluskýrslunni staðfesti ákærði að hann hafi áritað ársreikninga tryggingasjóðsins fyrir árin 1992 til og með 2000. Hann kvaðst í starfi sínu fyrir sjóðinn aldrei hafa orðið var við verulega galla á rekstri hans eða á atriðum varðandi innra eftirlit, innheimtu iðgjalda, tryggingu útlána eða meðferð fjármuna. Umfang starfsins hafi verið það sama á hverju ári og það beinst að því að staðfesta og bera saman gögn, sem hann hafi fengið til endurskoðunarinnar, en hann hafi gengið lengra en almennt gerðist við öflun gagna, þrátt fyrir að framkvæmdastjóri sjóðsins væri löggiltur endurskoðandi. Við endurskoðunina hafi hann fengið gögn úr bókhaldi, svo sem aðalbókarlista og hreyfingalista, sem Lárus hafi lagt til. Kvaðst ákærði hafa borið þau saman við önnur gögn, meðal annars varðandi bankareikninga, en hann hafi engra gagna aflað sjálfur, heldur fengið þau öll hjá Lárusi. Hann hafi staðreynt tilvist skuldabréfa í eigu sjóðsins, sem greint var frá í ársreikningum, með því að fara yfir aðalbókarlista og afstemmingu úr skuldabréfakerfi. Ekki hafi hann farið sérstaklega yfir tryggingar fyrir þessum skuldabréfum, en að vanskilum af þeim hafi hann gætt með því að fara yfir lista úr skuldabréfakerfinu. Aðspurður um bókfærða eign sjóðsins í ríkistryggðum skuldabréfum samkvæmt ársreikningi 2000 sagðist ákærði ekki hafa farið yfir þetta atriði í þeim reikningi, en hann hafi gert úrtaksathugun á þessum eignum gegnum árin, meðal annars 1993 þegar honum hafi verið sýnd ljósrit af spariskírteinum ríkissjóðs, sem Lárus hafi sagst varðveita í bankahólfi. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa farið sérstaklega yfir lífeyrisgreiðslur, endurgreiðslur iðgjalda, réttindaflutning eða útborganir inneigna hjá sjóðnum, en þeir hlutir hafi verið í höndum Lárusar. Hafi ákærði ekki borið upplýsingar um þetta í bókhaldi saman við það, sem fram kæmi í ársreikningum. Þá sagðist hann ekki hafa farið sérstaklega yfir inneign sjóðfélaga hjá tryggingasjóðnum, en um það hafi Lárus séð, auk þess sem sjóðfélagar hafi árlega fengið yfirlit um inneign sína og ákærði aldrei fengið athugasemdir frá þeim. Við þessa skýrslugjöf var ákærða kynnt fyrrnefnd rannsóknarskýrsla Grant Thornton endurskoðunar ehf. og samantekt frá Árna Tómassyni, svo og hvað Lárus hefði í meginatriðum borið fyrir lögreglu um fjárdrátt sinn. Þá afhenti ákærði lögreglu við þetta tækifæri vinnugögn, sem hann hafði undir höndum vegna endurskoðunarstarfs fyrir Tryggingasjóð lækna.

Að fenginni framangreindri skýrslu leitaði ríkislögreglustjóri álits Árna Tómassonar á framburði ákærða. Í minnisblaði 26. september 2003 lét Árni uppi þá skoðun að margt benti til að ekki stæðist að ákærði hafi fylgt góðri endurskoðunarvenju í starfi sínu fyrir Tryggingasjóð lækna, en um þetta var nánar vísað til ýmislegs, sem fram hafði komið í skýrslu ákærða. Í lok minnisblaðsins benti Árni á að tryggja mætti betur grundvöll málsins með því að leita álitsgerðar endurskoðendaráðs eða álitsnefndar Félags löggiltra endurskoðenda um hvort ákærði hafi í starfi sínu fylgt góðri endurskoðunarvenju. Einnig var vakin athygli á því að Lárus Halldórsson hafi borið að hann hafi lagt fölsuð skjöl fyrir ákærða, en ef það ætti að „rannsaka það sem má verða X til málsbóta jafnt hinu sem miður hefur farið, má segja að þeim mun meira af vel fölsuðum gögnum sem Lárus hefur látið hann fá sem ætla mátti að væru frá utanaðkomandi aðilum, þeim mun betra fyrir X”.

Fyrir liggur að ríkislögreglustjóri fól Grant Thornton endurskoðun ehf. 20. október 2003 að fara yfir vinnugögnin, sem ákærði afhenti við skýrslugjöf 24. september sama ár, og bera þau saman við bókhald og önnur gögn varðandi Tryggingasjóð lækna. Í skýrslu endurskoðunarstofunnar um þetta 3. nóvember 2003 var talið upp án frekari skýringa eða athugasemda hver þessi vinnugögn væru nánar varðandi hvert ár, sem störf ákærða tóku til.  Að þeirri talningu lokinni sagði eftirfarandi um niðurstöður athugunarinnar: „Í þeim vinnugögnum sem lögð hafa verið fram eru eingöngu staðfestingar um stöðu bankareikninga um áramót og útprentanir úr bókhaldi sjóðsins. Útprentanir úr bókhaldi sjóðsins á viðskiptareikningum, stöðulistum og útprentanir úr skuldabréfakerfi sjóðsins geta ekki talist staðfestingar einar sér. Upplýsingar um endurskoðun allra annarra þátta í starfsemi lífeyrissjóðsins vantar ... Framangreind gögn geta ekki talist nægilegur rökstuðningur fyrir áliti endurskoðandans og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga lífeyrissjóðsins fyrir árin 1992-2000.”

Ákærði var kvaddur á ný til skýrslugjafar hjá lögreglu 27. nóvember 2003, þar sem honum var meðal annars kynnt framangreind skýrsla Grant Thornton endurskoðunar ehf. Kom fram að hann teldi rangt að hann hafi ekki aflað fullnægjandi gagna til stuðnings því áliti, sem hann hafi látið uppi í áritun á ársreikningum Tryggingasjóðs lækna, enda hafi hann gengið úr skugga um eignir sjóðsins, svo sem staðfest væri með gögnum í vinnuskjölum hans um skuldabréfaeign og bankareikninga, ásamt því að leggja ýmsar spurningar fyrir Lárus Halldórsson. Þótt skuldabréfalista hafi vantað fyrir einstök ár í vinnugögnum ákærða hafi hann allt að einu farið yfir þá, en ekki séð ástæðu til að taka afrit af þeim. Í lok skýrslunnar óskaði ákærði eftir því að rannsakað yrði frekar hvernig samræmi hafi verið milli skuldabréfakerfis tryggingasjóðsins og raunverulegrar skuldabréfaeignar hans þegar uppgjör fór fram, svo og hvort eitthvað í gögnum sjóðsins benti til að fyrirliggjandi skuldabréfalistar væru rangir eða falsaðir. Bar ríkislögreglustjóri þessi atriði undir Grant Thornton endurskoðun ehf. 28. nóvember 2003 og fékk þaðan skýrslu 8. desember sama ár, þar sem gefin voru svör um þau, þar á meðal að við nánari athugun hefði komið í ljós að samtölur í sumum skuldabréfalistum, sem voru í vinnugögnum ákærða,væru augljóslega rangar.

Í framhaldi af þeirri skýrslu, sem ákærði gaf fyrir lögreglu og síðast var getið, afhenti hann ríkislögreglustjóra tvær álitsgerðir Jóns Þ. Hilmarssonar endurskoðanda frá 16. desember 2003 og 3. febrúar 2004 um atriði, sem vörðuðu rannsókn málsins og fyrirliggjandi skýrslur Grant Thornton endurskoðunar ehf. Í tilefni af þessu leitaði ríkislögreglustjóri eftir því að endurskoðunarstofan gerði yfirlit um eignir Tryggingasjóðs lækna í árslok 2000 og bæri það saman við ársreikning fyrir sama ár miðað við upplýsingar í bókhaldi sjóðsins. Lét endurskoðunarstofan í té skýrslu um þetta 7. febrúar 2004 og komst að þeirri niðurstöðu að mismunur milli eigna, sem í reynd hafi verið fyrir hendi, og þeirra, sem greindi í ársreikningi 2000, hafi alls numið 55.968.681 krónu. Ríkislögreglustjóri leitaði einnig athugasemda Árna Tómassonar um atriði, sem fram komu í fyrrnefndum álitsgerðum, og gerði hann þær í minnisblaði 4. febrúar 2004. Skýrsla var síðan tekin af ákærða fyrir lögreglu 2. mars 2004. Þar ítrekaði hann fyrri athugasemdir um rannsókn málsins og fyrirliggjandi gögn. Lutu þær meðal annars að því að ekki hafi verið rannsakað á hvern hátt Lárus Halldórsson hafi blekkt ákærða. Í því sambandi benti hann sérstaklega á fimm atriði, nánar tiltekið fölsun afstemminga og skuldabréfalista, fölsun ljósrita spariskírteina ríkissjóðs, fölsun á tölvulistum skuldabréfa ársins 1998, færslu á tvöföldu bókhaldi og fölsun upplýsinga um vanskil í skuldabréfalistum. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að þessar athugasemdir hafi leitt til frekari rannsóknar á málinu.

Ríkislögreglustjóri höfðaði mál þetta með ákæru 16. apríl 2004. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærða gefið þar að sök að hafa á árunum 1993 til 2001 vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi með því að hafa eftir endurskoðun á ársreikningum Tryggingasjóðs lækna fyrir árin 1992 til 2000 áritað þá án fyrirvara og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag og breytingu á eign, án þess að hafa aflað fullnægjandi gagna til að byggja slíkt álit á og kannað á fullnægjandi hátt fyrirliggjandi gögn. Hafi ákærði þannig ekki hagað endurskoðun sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju með því að hafa ekki í fyrsta lagi kannað á fullnægjandi hátt gögn að baki skuldabréfalistum, sem lagðir voru fyrr hann, þótt um 90% af eignum tryggingasjóðsins væru bundin í skuldabréfum, í öðru lagi aflað gagna um lífeyrisgreiðslur, endurgreiðslur, réttindaflutning og útborganir úr sjóðnum, í þriðja lagi aflað gagna um sundurliðaða inneign sjóðfélaga og borið þau saman við eign þeirra samkvæmt ársreikningi, og í fjórða lagi aflað að öðru leyti nægilegra gagna um eignastöðu og skuldbindingar sjóðsins til að geta endurskoðað ársreikningana í samræmi við reglur bankaeftirlitsins og síðar fjármálaeftirlitsins um endurskoðun lífeyrissjóða, en í ljós væri komið að raunvirði eigna tryggingasjóðsins í árslok 2000 hafi verið innan við 35% af verðmæti þeirra samkvæmt ársreikningi fyrir það ár. Ákærði hefur að öllu leyti neitað sök í málinu.

III.

Samkvæmt ákæru er ákærði sakaður í málinu um að hafa brotið á áðurgreindan hátt gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, 63. gr. og 85. gr., sbr. 82. gr. laga nr. 144/1994, 2. mgr. 7. gr. og 8. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 18/1997, og nánar tilteknum stjórnvaldsfyrirmælum um endurskoðun lífeyrissjóða, sbr. 42. gr. og 55. gr. laga nr. 129/1997. Að auki eru tilgreind í ákæru ákvæði eldri laga um hliðstæð efni, sem voru í gildi á fyrri stigum starfa ákærða sem endurskoðanda Tryggingasjóðs lækna. Eins og ráðið verður af áðursögðu er hér í meginatriðum um að ræða ætluð brot á sömu lögum og ákærða var greint frá að hann væri grunaður um að hafa brotið gegn þegar hann gaf í fyrsta sinn lögregluskýrslu vegna málsins 24. september 2003. Verður þannig að líta svo á að rannsókn gagnvart ákærða hafi frá öndverðu beinst að þeim meginatriðum, sem fram koma í ákæru.

Eins og þeirri háttsemi, sem ákærða er gefin að sök, er lýst í ákæru varða sakargiftir á hendur honum vanrækslu um að gæta í störfum fyrir Tryggingasjóð lækna góðrar endurskoðunarvenju og vinnubragða, sem um ræðir í 1. mgr. 63. gr. og 2. tölulið 85. gr. laga nr. 144/1994 og 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laga nr. 18/1997, sbr. 42. gr. laga nr. 129/1997, þannig að til refsingar leiði samkvæmt öðrum áðurnefndum lagaákvæðum. Refsinæmi slíkrar vanrækslu, eins og henni er lýst í tilvitnuðum ákvæðum, er ekki háð því að hún hafi leitt til tjóns. Getur því ekki talist annmarki á rannsókn þessa máls eða saksókn að ekki hafi verið kannað af nákvæmni á hvaða hátt og að hvaða marki röng reikningsskil kunni að hafa stafað af ætlaðri vanrækslu ákærða eða það verið tíundað í ákæru, þótt það hefði áhrif við mat á refsinæmi vanrækslunnar og heimfærslu brots til refsiákvæða ef sök teldist sönnuð. Þetta breytir því á hinn bóginn ekki að til þess að rætt verði um refsivert brot, sem stafi af vanrækslu um að gæta góðrar endurskoðunarvenju, er ekki nægilegt að líta til þess eins, sem sá maður, sem sökum er borinn, er talinn hafa gert eða vanrækt að gera, heldur verður og að horfa til þess samhliða hvað sú góða venja hefði krafist af honum að gera eða heimilað honum að láta ógert. Verður þetta jafnframt að skoðast með tilliti til einstakra og nánar tiltekinna atriða varðandi rækslu starfa endurskoðanda, en ekki með heildstæðu mati á störfum yfir lengra tímabil.

Hér að framan er getið athugana og niðurstöðu þeirra kunnáttumanna, sem ríkislögreglustjóri leitaði til um aðstoð við rannsókn málsins, sbr. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í áðurnefndri skýrslu Grant Thornton endurskoðunar ehf. 3. nóvember 2003 voru í einu lagi færð stuttorð rök fyrir því að vinnugögn, sem ákærði hafði látið af hendi, gætu ekki talist nægilegur rökstuðningur fyrir áliti hans sem endurskoðanda og fyrirvaralausri áritun hans á ársreikninga Tryggingasjóðs lækna fyrir árin 1992 til 2000. Í minnisblaði Árna Tómassonar löggilts endurskoðanda frá 26. september 2003 var sem áður segir komist að þeirri niðurstöðu að margt benti til að ákærði hafi ekki fylgt góðri endurskoðunarvenju í starfi sínu fyrir tryggingasjóðinn, en þetta álit var reist á nánar tilgreindum atriðum, sem getið var í minnisblaðinu og fram komu í lögregluskýrslu ákærða 24. sama mánaðar. Þessar álitsgerðir kunnáttumanna beindust aðeins að litlu leyti að ætlaðri vanrækslu ákærða varðandi endurskoðun á nákvæmlega tilgreindum þáttum reikningsskila í nánar tilteknum ársreikningum, heldur fjölluðu þær að mestu með almennum orðum um fjölda atriða í senn á löngu árabili. Þá var þar að engu teljandi leyti brugðið ljósi á það hvernig endurskoðandi hefði nánar átt að bera sig að í starfi við sömu atriði ef gætt væri góðrar endurskoðunarvenju. Önnur gögn, sem liggja fyrir í málinu, ráða ekki bót á því, sem hér um ræðir. Auk þessa verður að gæta að því að allt frá upphafi lögreglurannsóknar á ætluðum brotum Lárusar Halldórssonar hefur legið fyrir frá hans hendi að hann hafi blekkt ákærða skipulega í sambandi við endurskoðun ársreikninga tryggingasjóðsins. Þrátt fyrir fyrrnefndar ábendingar Árna Tómassonar og ítrekaðar óskir ákærða lét lögregla undir höfuð leggjast að kanna þetta frekar ef frá er talið að seint og um síðir var leitað eftir því að Grant Thornton endurskoðun ehf. athugaði hvort fölsuð gögn væri að finna í vinnugögnum ákærða og var staðfest að svo hafi verið. Ófært er að leggja mat á það hvort ákærði hafi gætt góðrar endurskoðunarvenju í störfum fyrir tryggingasjóðinn án þess að fyrir liggi hvort verk hans kunni í einhverjum atriðum að hafa tekið mið af rangfærðum gögnum, sem honum verði ekki metið til lasts að hafa ekki tortryggt. Eins og lögregla hagaði hér rannsókn skorti þannig mjög á að hún hafi náð því markmiði, sem mælt er fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991.

Auk þess, sem að framan greinir, er til þess að líta að verknaðarlýsing í ákæru er verulegum annmörkum háð. Þannig er ákærða gefið þar meðal annars að sök að hafa á árunum 1993 til 2001 ekki gætt góðrar endurskoðunarvenju og brotið á þann hátt gegn tilgreindum lagaákvæðum með því að „hafa ekki kannað á fullnægjandi hátt gögn sem lágu að baki skuldabréfalistum sem fyrir hann voru lagðir á umræddu tímabili”. Er þar ekkert frekar vikið að því um hvaða gögn gæti hér verið að ræða eða hvað hefði átt að mega finna í þeim, hversu oft þetta var talið hafa gerst og þá hvenær á níu ára tímabili, í hverju ætluð háttsemi ákærða fólst nánar í hvert skipti og hvað skorti þá á að störf hans teldust fullnægjandi. Önnur atriði, sem tilgreind eru í upptalningu fjögurra liða í ákæru, eru þessu sama marki brennd. Vegna þessara annmarka er ófært að fella efnisdóm á málið.

Vegna alls þessa verður ekki komist hjá því að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi. Verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða, X, í héraði, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 850.000 krónur, og málsvarnarlaun síðarnefnda hæstaréttarlögmannsins sem skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember

             Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember sl., er höfðað með ákæru Ríkislögreglustjórans, 16. apríl 2004, á hendur X, [...],

,,fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ársreikninga, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um endurskoðendur, með því að hafa á árunum 1993 til 2001 vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi ársreikninga Tryggingasjóðs lækna, með því að hafa eftir endurskoðun á ársreikningum sjóðsins fyrir árin 1992 til 2000, áritað ársreikningana án fyrirvara, og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag og breytingu á eign, án þess að hafa við endurskoðunarvinnuna aflað fullnægjandi gagna til að byggja slíkt álit á og ekki kannað á fullnægjandi hátt þau gögn sem fyrir lágu, og þannig ekki hagað endurskoðunarvinnu sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju, með því að:

1)       hafa ekki kannað á fullnægjandi hátt gögn sem lágu að baki skuldabréfalistum sem fyrir hann voru lagðir á umræddu tímabili, þrátt fyrir að fyrirliggjandi gögn gæfu til kynna að um 90% eigna sjóðsins væru bundin í skuldabréfum,

2)       hafa ekki aflað gagna varðandi lífeyrisgreiðslur, endurgreiðslur, réttindaflutning og útborganir úr sjóðnum,

3)       hafa ekki aflað gagna um sundurliðaða inneign sjóðfélaga í Tryggingasjóðnum og borið saman við eign sjóðfélaga samkvæmt ársreikningi,

4)       hafa að öðru leyti ekki aflað nægilegra gagna um eignastöðu og skuldbindingar sjóðsins til að geta endurskoðað ársreikningana í samræmi við reglur bankaeftirlitsins og síðar Fjármálaeftirlitsins um endurskoðun lífeyrissjóða, en við rannsókn á stöðu sjóðsins kom í ljós að raunvirði eigna sjóðsins í árslok 2000 var innan við 35% af metnu verðmæti eignanna samkvæmt ársreikningi fyrir það ár.

 

Teljast brot þessi varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, 63. og 85. sbr. 82. gr. laga um ársreikninga nr. 144/1994, sbr. 3. gr. laga nr. 37/1995, sbr. áður 3. gr. sbr. 6. gr. eldri laga um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða nr. 27/1991,  2. mgr. 7. gr. og 8. gr., sbr. 20. gr. laga um endurskoðendur, nr. 18/1997, sbr. áður 10. sbr. 17. gr. eldri laga um endurskoðendur nr. 67/1976, og reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 685/2001, um endurskoðun lífeyrissjóða, sbr. áður reglur bankaeftirlits Seðlabanka Íslands nr. 541/1998 um endurskoðun lífeyrissjóða, sbr. 42. gr. sbr. 55. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997.  

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot. Þess er ennfremur krafist, með vísan til 68. gr. almennra hegningarlaga og 20. gr. laga um endurskoðendur að ákærði verði sviptur réttindum til starfa sem löggiltur endurskoðandi.

 

Endanleg bótakrafa skilanefndar Tryggingasjóðs lækna er að ákærði verði dæmdur til að greiða sjóðnum 47.565.553 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu aðallega frá 5. febrúar 2004 til 2. apríl 2004, en með vöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. apríl 2004 til greiðsludags. Til vara krefst skilanefndin þess að ákærði verði dæmdur til að greiða Tryggingasjóði lækna,  22.911.859 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2004 til 2. apríl 2004, en með vöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. apríl 2004 til greiðsludags.

             Hvort sem aðal- eða varakrafan verður tekin til greina er gerð krafa um það að Tryggingasjóður lækna fái dæmdar bætur vegna kostnaðar við að koma bótakröfunni á framfæri, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. 

             Verjandi ákærða, Kristinn Bjarnason hrl., krefst sýknu af kröfum ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa og lækkunar á bótakröfu. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði og að Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttarlögmanni verði ákvörðuð hæfileg málsvarnarlaun vegna þeirrar vinnu er unnin var áður en Kristinn tók við verjandastarfi.

 

Málsatvik.

             Með bréfi verjanda Lárusar Hallórssonar, fyrrum framkvæmdastjóra Tryggingasjóðs lækna, 7. maí 2002 og minnisblaði Lárusar frá 30. apríl 2002 til Ríkislögreglustjóra, fór Lárus þess á leit að hafin yrði opinber rannsókn á starfi hans fyrir Tryggingasjóð lækna vegna fjárdráttarbrota hans, gáleysilegrar meðferðar á fjármunum, brotum á lögum um bókhald og ársreikninga og blekkingar við stjórn sjóðsins og endurskoðanda. Í minnisblaði Lárusar viðurkennir hann að hann hafi með skipulegum hætti blekkt stjórn sjóðsins og endurskoðanda, en ákærði í máli þessu var endurskoðandi Tryggingasjóðs lækna frá árinu 1986. Í bréfi Lárusar kemur jafnframt fram að ákærði hafi áritað reikninga sjóðsins í þeirri trú að ekkert væri athugavert við rekstur sjóðsins og Lárus auk þess lagt fyrir hann fölsuð gögn sem hafi átt að sýna að rétt væri að öllu staðið.

             Í kjölfar þessa fór fram rannsókn hjá Grant Thornton endurskoðun ehf., á meðferð fjármuna og bókhalds hjá Tryggingasjóði lækna vegna fyrrgreindra ætlaðra brota Lárusar Halldórssonar. Rannsóknin var gerð að beiðni stjórnar Tryggingasjóðs lækna í samráði við Fjármálaeftirlitið og embætti Ríkislögreglustjóra, sbr. greinargerð Skilanefndar Tryggingasjóðs lækna frá 13. nóvember 2003. Í VII. kafla greinargerðarinnar, undir liðnum ,,Bótakröfur í opinberu máli”, segir eftirfarandi: ,,Þær upplýsingar fengust frá efnahagsbrotadeild að endurskoðandinn hefði sagt í yfirheyrslu að hann væri með starfsábyrgðartryggingu sem endurskoðandi. Ef svo fer að endurskoðandinn verði fundinn sekur í málinu og bótakrafa sjóðsins tekin til greina er mögulegt að fá greiðslur út úr starfsábyrgðartryggingu hans. Mestu möguleikar sjóðsins á að fá eitthvað af tjóni sínu bætt liggja því í opinbera málinu”.

             Í bréfi þeirra Theodórs Sigurbergssonar og Magnúsar Arnar Ragnarssonar, löggiltra endurskoðenda hjá Grant Thornton endurskoðun ehf., til Ríkislögreglustjóra 4. febrúar 2003, kom fram að til rannsóknar hafi verið bókhaldsgögn fyrir árin 1988 til 2002. Af þeim gögnum hafi einungis verið tölvufært bókhald fyrir árin 1992-2002. Var ákveðið í samráði við Ríkislögreglustjóra að afmarka rannsóknina við þau ár. Við yfirferð á bókhalds- og tölvugögnum hafi komið í ljós að bókhald hafi verið fært en afstemmingum hafi verið verulega áfátt. Bókhald hafi verið mikið fært án löglegra reikninga og fylgiskjala eða án fylgiskjala. Tengingar og tengsl við undirkerfi hafi ekki verið til staðar. Þá hafi því verið verulega ábótavant hvernig haldið var utan um skuldbindingar sjóðsins.

             Rannsóknarskýrslunni var skipt niður í kafla, sem tilgreind voru sem rannsóknartilvik A-J og nam niðurstaða ætlaðs fjárdráttar Lárusar samtals 86.926.091 krónu.

             Í bréfi Grant Thornton endurskoðun ehf., frá 24. janúar 2003 til lögmanns bótakrefjanda kemur meðal annars fram að Grant Thornton hafi að beiðni lögmannsins, sem tilsjónarmanns Tryggingasjóðs lækna tekið saman ,,eftirfarandi greinargerð”. Við yfirferð á bókhalds- og tölvugögnum sjóðsins hafi komið í ljós að bókhald hafi verið fært en afstemmingum verulega áfátt og að ársreikningur 2000 sé síðasti ársreikningur fyrir Tryggingasjóð lækna. Þá kemur þar fram að meðal skulda sjóðsins miðað við 31. desember 2002 sé ógreiddur kostnaður vegna þjónustu Grant Thornton endurskoðunar ehf., 1.563.195 krónur.

             Niðurstöður rannsóknarskýrslunnar voru kynntar Lárusi við yfirheyrslu hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra í febrúar 2003. Þá játaði Lárus brot sín að mestu greiðlega og gaf skýringar á ákveðnum færslum sem hann taldi ekki vera fjárdrátt. Að fengnum skýringum Lárusar varðandi greiðslur til hans og félags hans Hjaldar ehf., vegna vinnu og kostnaðar í þágu Tryggingasjóðs lækna og eftir að fallið hafði verið frá rannsóknartilvikum C-E, urðu heildarniðurstöður rannsóknarinnar þær að Lárus hafi á árunum 1992-2002 dregið sér samtals 75.330.553 krónur úr sjóðum Tryggingasjóðs lækna og jafnframt að Lárus hefði greitt til baka 27.600.000 krónur af þeirri fjárhæð. Þá var niðurstaða rannsóknarinnar varðandi bókhaldsbrot að Lárus hefði af ásetningi og með kerfisbundnum og skipulögðum hætti rangfært bókhald og ársreikninga Tryggingasjóðs lækna í því skyni að dylja fjárdráttarbrot sín.

             Í lögregluyfirheyrslu yfir Lárusi 8. maí 2002 kom fram að Lárus hefði lagt fyrir ákærða fölsuð gögn, en ákærði hafi lært til endurskoðanda hjá Lárusi og borið til hans fyllsta traust. Lárus kvaðst alltaf hafa verið nálægur þegar ákærði fór yfir bókhaldið, vitandi það sem löggiltur endurskoðandi hvað ákærði myndi hugsanlega spyrja um.

             Lárus Halldórsson var ákærður fyrir fjárdráttarbrot og bókhaldsbrot og féll dómur í máli hans 12. júlí 2004, þar sem hann var sakfelldur fyrir fjárdrátt og hluta þeirra bókhaldsbrota sem ákært var út af.

             Í bréfi Árna Tómassonar, endurskoðanda, frá 21. júní 2004 kemur fram að hann hafi verið beðinn um það í september 2003 að aðstoða Ríkislögreglustjóraembættið vegna fyrirhugaðrar yfirheyrslu yfir ákærða í máli þessu. Hann hafi skilað Ríkislögreglustjóra óformlegu minnisblaði 26. september 2003 og hafi niðurstaða Árna orðið sú að ekki yrði hjá því komist að láta reyna á ábyrgð endurskoðanda í þessu tilviki. Ef Ríkislögreglustjóri gerði það ekki mætti áfellast embættið fyrir að sinna ekki lögboðnum skyldum sínum. Árni hafi aðstoðað starfsmenn Ríkislögreglustjóra við gerð spurninga sem ráðgert hafi verið að leggja fyrir ákærða við yfirheyrslur. Einkum hafi verið lögð áhersla á að leiða í ljós eftirfarandi:

a) Hvort endurskoðandi hafi gert sér ljóst hvað áritun hans þýddi,

b) hver hafi verið skilningur hans á hugtakinu ,,góð endurskoðunarvenja”

c) hvort honum hafi verið kunnar helstu leiðbeinandi reglur (,,staðlar”) sem farið skyldi eftir við endurskoðun,

d) hvort honum hafi verið kunnugt um þýðingu innra eftirlits fyrir endurskoðun og hvernig bregðast mætti við ef nægu innra eftirliti væri ekki til að dreifa,

e) hvað eignir megi vera mikið oftaldar sem fjárhæð eða hlutfall af heildareignum til þess að fullyrðingin um að ,,ársreikningurinn sé í meginatriðum án annmarka” geti staðist,

f) hvort endurskoðandi geti lagt fram gögn sem sýni að hann hafi við starf sitt tekið mið af framangreindum atriðum,

g) hvaða vinnugögn endurskoðandi geti lagt fram sem sýni hvaða starf hann hafi innt af hendi við endurskoðun sjóðsins.

             Í bréfi Árna kemur fram að ekkert í hans athugun gefi til kynna að ákærði hafi vitað um fjárdrátt og falsanir framkvæmdastjórans eða komið að því að nokkurn hátt. Hann lætur þó í ljós þá skoðun að fjölmargt megi tína til sem bendi til þess að góðri endurskoðunarvenju hafi ekki verið fylgt og að verulega hafi skort á að svo væri.

 

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             Ákærði kvaðst hafa verið endurskoðandi Tryggingasjóðs lækna frá árinu 1986 til ársins 2001. Hann kvað Lárus Halldórsson hafa beðið sig að taka að sér starfann, en kvað þá Lárus hvorki vera persónulega vini né hafa átt nokkur samskipti utan vinnustaðar.

             Ákærði kvað umfang endurskoðunar koma fram í sínum gögnum, en því færi fjarri að öll vinna endurskoðanda kæmi nákvæmlega fram í öllum gögnum, það er að segja, endurskoðandi ljósriti ekki öll gögn sem hann skoði.

             Ákærði kvað ársuppgjör og bókhald hafa verið unnið af Lárusi Halldórssyni og hann hafi sjálfur ekkert komið að því enda hafi legið fyrir tilbúinn ársreikningur, oftast þegar áritaður af stjórn, þegar hann kom að verkinu. Hann hafi óskað eftir og fengið aðalbókarlista úr bókhaldi sjóðsins og væru þeir í vinnumöppum hans. Hann hafi síðan farið í gegnum listann og kannað tilurð eigna og rakið þær til bókhalds og ársreiknings og úr skuldabréfakerfi yfir í aðalbókarlista og þaðan í ársreikning.

                Ákærði óskaði eftir að fá að fara nákvæmt í hvernig hann framkvæmdi endurskoðun með tilvísun til fyrirliggjandi gagna. Ákærði skýrði hvernig vinnumappa hans væri uppsett. Hann vísaði á samþykktir Tryggingasjóðs lækna sem væri að finna í vinnumöppu ársins 1992 ásamt fyrri samþykktum Elli- og örorkutryggingasjóðs lækna og sagði að eftir þessum samþykktum hafi hann unnið sína vinnu. Ákærði vísaði á bréf til stjórnar Tryggingasjóðs lækna sem hann skrifaði að lokinni endurskoðun fyrir árið 1992. Í bréfinu segir að við endurskoðunina hafi hann farið yfir alla bankareikninga, verðbréfaeign og breytingar á árinu.  Einnig að hann hafi farið í gegnum aðra viðskiptamenn, viðskiptareikning umsjónarmanns sjóðsins og rekstrarkostnað sjóðsins. Við endurskoðunina hafi ekkert komið fram sem kalli á athugasemdir. Loks hafi í bréfinu verið bent á nauðsyn þess að settar yrðu ákveðnar reglur um innheimtu skuldabréfa hjá sjóðnum. Ákærði vísaði einnig á bréf til stjórnar sjóðsins frá árinu 1989 þar sem fram kemur að hann hafi skoðað öll keypt verðbréf.

                Ákærði vísaði sérstaklega í vinnuskjöl vegna ársins 1992 og benti á útskrift úr bókhaldi sjóðsins sem hann hafi notað til að ,,tékka af ” viðkomandi reikningslykla, ,,tékka af ” að ársreikningurinn væri í samræmi við bókhaldið og að undirgögn sem væru hluti af vinnupappírunum væru í samræmi við bókhaldið og ársreikninga. Ákærði benti á  hvernig hann skrifaði út allan rekstrarkostnað og fór í gegnum hann og þá sérstaklega liðinn bókhald og afgreiðslu sem væri um 80% af heildarkostnaðinum og kæmi til af þeirri þóknun sem Lárus Halldórsson eða hans skrifstofa fékk fyrir þjónustuna. Ákærði sagðist hafa farið yfir þann lið öll árin og skoðað í því samhengi viðskiptareikning Lárusar. Þá kvað hann merkingar inn á vinnupappírana merkja að hann hafi farið yfir og skoðað gögn sem að baki lægju.

                Ákærði vísaði í vinnuskjöl vegna ársins 1996 vegna endurskoðunar efnahagsliða.   Hann vísaði í saldólista efnahagsreiknings og undirgögn með þeim lista þ.e. yfirlit bankareikninga, útskrift úr bókhaldi yfir viðskiptamenn með athugasemdum hans og loks afstemmingu milli bókhalds og skuldabréfakerfis. Ákærði benti sérstaklega á merki við viðskiptareikning Seðlabanka Íslands í útskrift úr skuldabréfakerfinu. Ákærði sagðist hafa staðfest þessi skuldabréf með ljósritum sem Lárus Halldórsson hafi lagt fyrir hann. Ljósrit af spariskírteinum hafi hann aftur séð árið 1998. Ákærði gerði einnig grein fyrir hvernig hann hafi spurst fyrir um einstök bréf sem voru í vanskilum. Að auki hafi hann farið yfir öll ný skuldabréf öll árin þ.e. skoðað skuldabréfin sjálf, veðhlutfall og veðbókarvottorð. Hann hafi ekki varðveitt afrit skuldabréfa í sínum vinnugögnum enda teldi hann það ekki viðtekna endurskoðunarvenju að ljósrita slíkt. Einu ytri gögnin sem um væri að ræða væru bankayfirlit, sem væru öll til staðar og ríkistryggð skuldabréf og bankabréf sem hann hafi séð ljósrit af og staðfest en ekki séð ástæðu til að taka. 

                Ákærði benti á útprentun úr bókhaldi á viðskiptareikningi Tryggingastofnunar.  Hann sagðist hafa tekið úrtaksprufur og að hann væri alveg klár á að iðgjöld sjóðfélaga, sem séu debetfærslurnar á reikningnum, hafi verið rétt færð í bókhaldinu í öllum tilfellum sem hann skoðaði slík gögn. Kreditfærslan á þessu væri svo innborgunin og hún komi inn á bankareikning. Með afstemmda bankareikninga sé þetta alveg klárlega rétt með farið.

Varðandi greiddan lífeyri vísaði ákærði í afrit launaframtals í vinnugögnum ársins 1993.  Hann sagðist hafa kannað hvort uppfyllt væru skilyrði samþykkta sjóðsins um greiðslu lífeyris en benti á að þarna væri ekki um stórar tölur að ræða. Ákærði sagði að varðandi endurgreidd iðgjöld og réttindaflutning hafi hann kannað hvort slíkt hafi verið í samræmi við reglur sjóðsins og loks hafi hann kannað yfirlit sem send voru sjóðfélögum.

                Ákærði var spurður hvernig stæði á því að í yfirheyrslum hjá lögreglu hefði hann sagt að hann hefði ekki farið sérstaklega yfir lífeyrisgreiðslur, endurgreiðslur, réttindaflutning og útborganir úr tryggingasjóðnum. Þá hafi hann einnig sagt að hann hafi ekki farið yfir lista yfir útborganir, réttindaflutning og aðrar greiðslur til sjóðfélaga.  Ákærði kvaðst þá hafa átt við að í vinnupappírum væru ekki staðfestingar á þessum gögnum. Hann hafi hins vegar farið yfir þessi gögn með úrtökum. Þá séu ekki til neinir listar yfir útborganir heldur yfirlit fyrir hvern og einn sjóðfélaga. Hvað varði iðgjöld sjóðfélaga hafi hann tekið úrtaksprufur á færslum á iðgjöldum. Ekki hafi verið um að ræða nein ytri gögn til afstemmingar á iðgjöldum þar sem læknar hafi ákveðið sjálfir hversu mikið þeir greiddu til sjóðsins. Engin yfirlit hafi verið fáanleg frá Tryggingastofnun og fylgiskjöl því skoðuð með úrtökum og sú skoðun ekki haft neinar athugasemdir í för með sér. Þá sagði ákærði að hann hefði ekki aflað gagna sjálfstætt enda væri ekki um nein ytri gögn að ræða önnur en bankayfirlit og ljósrit af spariskírteinum. Allt annað væru innri gögn. Spurður hvort hann hafi kannað útsendingu launamiða vísaði ákærði á afrit launaframtals í vinnugögnum vegna ársins 1993 en sagðist ekki hafa skoðað slíkt öll árin.

                Ákærði sagðist hafa gengið lengra í endurskoðun en almennt mundi vera gert í ljósi þess að ekki var um neina innri endurskoðun að ræða. Hann hafi skoðað allar eignir sjóðsins, farið yfir staðfestingar á öllum bankareikningum, athugað að bókhaldinu bæri saman við ársreikninginn og skoðað öll ný skuldabréf sjóðfélaga. Hann benti á að inn á skuldabréfalista 1993 vanti engin skuldabréf en hins vegar séu niðurstöðurtölur listanna falsaðar. Hann taldi jafnframt að listar annarra ára hefðu verið falsaðir. Ákærði benti á að á skuldabréfalista í vinnugögnum vegna ársins 1998 væru engin vanskil færð á tiltekinn skuldara en ljóst væri í dag að um bullandi vanskil hafi verið að ræða. Þessi listi væri hins vegar í samræmi við bókhald og ársreikning.

                Ákærði var aftur spurður hvers vegna hann hafi haldið því fram hjá lögreglu að hann hafi ekki kannað yfirlit til sjóðfélaga og kvaðst hann þá hafa skoðað þau með úrtökum. Hann kvað að þegar hann hefði verið yfirheyrður hjá lögreglu hefði hann ekkert farið í gegnum sín gögn og ekki litið á vinnupappíra sína í mörg ár. 

                Ákærði var spurður hvernig það hefði getað gerst að dregnar hafi verið tæpar 76 milljónir króna úr sjóðnum ef vinnubrögð hans sjálfs hafi verið eins og hann lýsir. Ákærði kvað þau gögn sem honum hafi verið sýnd hafa stemmt að öllu leyti við bókhald og ársreikning og þau hafi því hreinlega verið fölsuð. Ákærði ítrekaði að hann hafi ekki talið nauðsynlegt að varðveita í vinnuskjölum sínum öll gögn sem honum hafi verið sýnd.  Spurður um þá fullyrðingu Lárusar Halldórssonar að tengsl skuldabréfabókhalds og bókhalds séreignasjóðs við aðalbókhald hafi allt verið löngu gengið úr skorðum sagði ákærði svo ekki hafa verið samkvæmt þeim gögnum sem hann hafi haft undir höndum. Þar stemmdi allt fullkomlega. Ákærði var spurður hvers vegna hann hafi aðeins séð ljósrit spariskírteina en ekki frumrit og kvað hann  það vera vegna þess að þau hafi verið geymd í bankahólfi.

                Ákærði kvaðst engin samskipti hafa haft við stjórnarmenn, utan þess að árið 1988 eða 1989 hafi hann haft samband við stjórnarmenn og upplýst þá um áfengisvandamál Lárusar. Í framhaldi af því hafi hann farið yfir gögn og ekkert fundið athugavert. Ákærði sagði endurskoðunina hafa farið fram á skrifstofu sjóðsins og tekið um einn dag í hvert sinn. Verklagið við endurskoðunina hafi verið óbreytt allan tímann sem hann annaðist endurskoðun sjóðsins, aðaláherslan hafi verið á eignahliðina. Þá hafi hann talið að með útsendingu yfirlita til læknanna hafi orðið til eftirlit af þeirra hálfu hvað varðar iðgjaldagreiðslur, endurgreiðslur og réttindaflutning. Hann hafi því einungis tekið úrtaksprufur á þessum liðum en ekki lagt saman heildarniðurstöðu yfirlitanna.

                Ákærði var beðinn að skýra hverjar blekkingar og falsanir Lárusar Halldórssonar hafi verið, í hverju þær hefðu verið fólgnar og af hverju þær leiddu ekki til neinna óeðlilegra frávika við endurskoðun þrátt fyrir að hann hafi viðurkennt að hafa dregið sér talsvert fé og falsað bókhald og ársreikninga. Ákærði kvað að honum væri ekki kunnugt um hvernig Lárus fór að varðandi spariskírteinin. Hvað skuldabréfakerfið varði þá sé augljóst að hann hafi falsað niðurstöðutölur á listum, skuldabréf hafi ekki verið tekin út af listanum, þau væru öll inni. Þá hafi Lárus falsað tölur um vanskil, hann hafi málað yfir vanskilatölur meðal annars til að koma í veg fyrir að viðkomandi skuldabréf yrðu skoðuð nánar. Ákærði kvað Lárus hafa falið fjárdráttinn með þessum fölsunum og svo virtist sem um tvöfalt bókhald hafi verið að ræða árið 1993. 

                Hann sagði að við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi honum ekki verið kynntar hugsanlegar blekkingar eða falsanir sem Lárus hefði viðurkennt að hafa beitt hann.      Ákærði kvað megináherslu hafa verið á efnahagsliði fremur en hreyfingar innan ársins, enda hefði rekstrarkostnaður verið lítill.  Hann kvaðst hafa farið yfir saldólista og óskað eftir hreyfingum á einstökum lyklum sem hann vildi skoða, en hann hafi ekki rennt yfir heildarhreyfingar hvers árs.

             Vitnið, Árni Tómasson, kvað Ríkislögreglustjóra hafa farið þess á leit í september 2003 að vitnið aðstoðaði lögreglu vegna fyrirhugaðrar yfirheyrslu yfir ákærða. Vitnið kvaðst hafa tekið saman spurningar og aðstoðað Ríkislögreglustjóraembættið við að komast að því hvort ákærði hefði farið að góðri endurskoðunarvenju. Vitnið kvaðst hafa látið í ljós það álit að almennt væri unnt að miða við það að ef frávik frá heildareignum færi yfir 5% mætti tala um að skekkja væri veruleg. Vitnið var spurt hvort eitthvað hefði komið fram við skoðun sem benti til þess að fölsuð gögn lægju fyrir. Kvaðst þá vitnið minnast þess að það hefði sett eitt skjal sérstaklega í samhengi við fölsuð gögn, en það hefðu verið listar yfir samtölu verðbréfa, þar sem samlagningartalan hefði verið rangfærð. Vitnið kvað það geta skipt máli um ábyrgð endurskoðanda ef um falsanir væri að ræða. Þá gætu lævíslega unnar falsanir verið til málsbóta fyrir endurskoðanda.

             Vitnið kvaðst líta svo á að það hefði verið tilkvatt sem aðili með sérfræðiþekkingu á þessum málum.

             Vitnið kvaðst ekki tengjast Lífeyrissjóði lækna, en kvað dóttur sína vera sambýliskonu manns, sem væri nýorðinn læknir. Tengdafaðir dóttur vitnisins væri hins vegar sjóðfélagi í Tryggingasjóði lækna, en það væri Ástráður Hreiðarsson. Vitnið kvað þessi fjölskyldutengsl hafa verið komin til áður en vitnið tók að sér umrædda vinnu fyrir Ríkislögreglustjóraembættið, en vitnið kvað sér ekki hafa verið kunnugt um þátt Ástráðs í málinu á því tímamarki. Vitnið kvað sér vera kunnugt um það nú að Ástráður stæði í málaferlum við Tryggingasjóð lækna.

             Vitnið kvaðst ekki hafa farið yfir vinnugögn ákærða áður en vitnið skilaði minnisblaði sínu til lögreglu frá 26. september 2003, en lögregla hefði upplýst vitnið um hvaða vinnugögn hefðu verið til staðar. Vitninu hefði þó ekki verið kynnt umfang vinnugagna ákærða sem voru um 1000 blaðsíður. Þá kvaðst vitnið hafa fengið upplýsingar um játaðan fjárdrátt Lárusar Halldórssonar áður en vitnið framkvæmdi skoðun sína og einnig hafi vitnið haft upplýsingar um að lagður hafi verið fram falsaður listi fyrir ákærða. Þá kvað vitnið sér hafa verið kunnugt um að þegar Lárus lagði fram beiðni um rannsókn á bókhaldi, hafi Lárus sagt að hann hafi beitt ákærða blekkingum. Aðspurt um það hvort vitnið teldi það ekki skipta máli um mat á vinnu ákærða að rannsakað yrði hvaða blekkingum og fölsunum Lárus hefði beitt ákærða, kvaðst vitnið hafa tekið það einhvers staðar fram í sínum skjölum að það yrði ákærða helst til málsbóta ef ákærði gæti lagt fram gögn um að Lárus hefði beitt hann blekkingum.

             Vitnið, Theódór Sigurbergsson, endurskoðandi hjá Grant Thornton endurskoðun ehf., kom fyrir dóm. Hann kvaðst hafa verið fenginn til þess ásamt Magnúsi Erni Ragnarssyni, að skoða bókhald lífeyrissjóðs lækna vegna fjárdráttarmáls Lárusar Halldórssonar og síðan hafi þáttur ákærða verið tekinn inn í það mál. Vitnið kvaðst hafa farið yfir vinnuskjöl ákærða. Einu staðfestingargögnin í þeim hafi verið bankayfirlit miðað við áramót, öll árin, síðan hafi verið listar út úr þessum skuldabréfakerfum, en alls ekki öll árin. Seinustu árin hafi engin vinnugögn verið nema bankayfirlitin, en ytri staðfestingar hafi ekki verið til staðar. Þá kvað vitnið alveg klárt að ,,fiktað” hafði verið við lista þá sem voru í vinnumöppu ákærða, en með því að skoða listana og fara í staðfestingarvinnuna, hefði sú blekking átt að koma fram.

             Vitnið kvaðst hafa hitt Árna Tómasson endurskoðanda, á tveimur eða þremur fundum hjá Ríkislögreglustjóra.

             Spurt um það hvort stjórn Tryggingasjóðs lækna hefði fengið vitnið og Grant Thornton endurskoðun ehf., til að gera ársreikning fyrir árið 2001 og í framhaldi af því til þess að rannsaka bókhald sjóðsins, kvað vitnið aðkomu sína að málinu hafa verið þá að stjórn tryggingasjóðsins hafi verið stödd á fundi Fjármálaeftirlitsins og hafi húsbóndavaldið á þeim tímapunkti eiginlega verið frekar hjá Fjármálaeftirlitinu og í framhaldi af því hafi verið skipuð skilanefnd. Aðspurt um skjal sem hefur að geyma greinargerð formanns skilanefndar til Fjármálaeftirlits, 13. nóvember 2003 þar sem segir: ,,Stjórn sjóðsins fól endurskoðunarskrifstofunni Grant Thornton ehf., að fara yfir bókhald sjóðsins í samráði við Fjármálaeftirlitið og embætti Ríkislögreglustjóra” kvað vitnið þetta alveg geta staðist. Vitnið var þá spurt um ógreiddan kostnað Tryggingasjóðs lækna í bréfi frá 24. janúar 2003, þar sem stærsti liður ógreidds kostnaðar sjóðsins er vinna Grant Thornton endurskoðunar ehf., 1.563.195 krónur og hvort það væri staðfesting á því að Grant Thornton endurskoðun ehf., hafi verið að vinna fyrir Tryggingasjóð lækna. Kvað vitnið þá að þegar senda hafi átt reikning vegna vinnunnar hafi Ragnar Hafliðason hjá Fjármálaeftirliti sagt að raunverulega væri verið að vinna þetta fyrir sjóðinn og þangað ætti að senda reikninga.

             Spurt um það hvenær vitnið hefði fyrst komið að lögreglurannsókn varðandi ákærða kvað vitnið það hafa verið samtvinnað rannsókn vegna Lárusar Halldórssonar.

             Vitnið kvað víst að niðurstöður skuldabréfalista sem í gögnunum voru hafi verið falsaðar sum árin. Einnig hafi ársreikningarnir sjálfir verið falsaðir og ekki hafi verið eignir sem staðið hafi bak við þá. Varðandi skuldabréfalistana hafi verið villa í samlagningu og síðan hafi örugglega verið farið inn í skuldabréfakerfið á einhverjum öðrum stað. Spurt um það hvort vitnið hafi borið saman útprentanir úr bókhaldi sem endurskoðunarskrifstofan hafi verið að vinna með og útprentanir í vinnugögnum ákærða, kvaðst vitnið minnast þess að sérstaklega eitt árið hafi borið í milli og svo hafi virst sem ákærði hefði verið með eitthvert annað bókhald, en þetta hafi verið eitt af fyrstu árunum, árið 1993, 1994 eða 1995.

             Vitnið, Magnús Örn Ragnarsson, var spurt um það til hvaða gagna það hafi verið að vísa í bréfi sínu og Theodórs Sigurbergssonar frá 3. nóvember 2003, þar sem segir ,,Framangreind gögn geta ekki talist nægjanlegur rökstuðningur fyrir álit endurskoðandans og fyrirvaralausa áritun hans á ársreikninga lífeyrissjóðsins fyrir árið 1992-2000.” Kvað þá vitnið engin ytri gögn hafa verið til staðfestingar eignum og engin vinnugögn til að sannreyna réttindaflutninga, endurgreiðslur iðgjalda og fleira. Þá hafi ekkert legið fyrir um það hvernig útborgunum úr sjóðnum hafi verið háttað. Vitnið kvaðst hafa komið að málefnum Tryggingasjóðs lækna þegar Lárus hafi gefið sig fram. Vitnið kvað sér hafa skilist að Tryggingasjóður lækna hafi leitað til Grant Thornton endurskoðunar ehf. og beðið þá um að skoða málefni sjóðsins, en kvaðst þó ekki alveg geta fullyrt hvort það hafi verið sjóðurinn sjálfur eða Fjármálaeftirlitið sem fór fram á það. Vitnið kvað þá Theódór hafa borið að nokkru leyti saman þær útprentanir sem voru í vinnugögnum ákærða við útprentanir úr bókhaldi vegna fjárdráttar Lárusar Halldórssonar. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa séð einhvern mun á þessum útprentunum, en fjárhagsbókhaldi fyrir fyrstu árin sem til skoðunar voru, ‘93 og ‘94 hafi ekki borið saman við ársreikninginn. Hin árin hafi fjárhagsbókhaldi borið saman við ársreikning. Þá kvaðst vitnið hafa séð það í vinnugögnum ákærða um skuldabréfaeign, árið 1998, að niðurstaðan á þeim listum var í í samræmi við ársreikning, en ef farið var ofan í skjöl á bak við, varð niðurstöðutalan önnur. Vitnið gat ekki svarað því skýrlega hvers vegna þessa mismunar var ekki getið í skýrslu þeirra Theodórs, en kvað sig minna að þeir hafi látið þess getið í bréfi sem skrifað var síðar, að þeir hafi litið svo á að um einhverjar blekkingar hefði verið að ræða.

             Vitnið, Lárus Halldórsson, kom fyrir dóm. Hann kvað að með þeim ákærða hafi verið vinátta, en kvað orðalag bréfs þess sem hann sendi til lögreglu ónákvæmt þar sem segir að það hafi verið vegna gamallar vináttu við Lárus sem ákærði hafi áritað reikninga sjóðsins.

             Vitnið kvað ákærða hafa tilkynnt um hvenær von væri á honum vegna endurskoðunar reikninga sjóðsins og þá hafi vitnið haft tilbúin þau gögn sem vitnið hafi búist við að ákærði þyrfti að nota. Þeirra á meðal hefðu verið fölsuð gögn, til dæmis verðbréfalistar sem átt hafi að innihalda skrá yfir verðbréfaeign sjóðsins. Þá kvað vitnið það geta verið að það hafi lagt fyrir ákærða á einhverjum tíma spariskírteini sem ekki hafi verið í eigu sjóðsins, þ.e. ljósrit af þeim. Vitnið kvaðst telja að þetta hafi verið aðeins einu sinni og hafi vitnið ljósritað skírteinin fyrst og síðan hafi ljósritið verið framselt og þá hafi það aftur verið ljósritað. Vitnið kvað stjórn sjóðsins ekkert hafa komið að daglegum rekstri sjóðsins.

             Vitnið var spurt hvernig það hefði falsað lista um verðbréfaeign og kvaðst þá vitnið hafa falsað niðurstöðutölur listans. Það hefði líklega verið gert oftar en einu sinni, en ekki á hverju ári þó. Þá kvað vitnið það geta staðist að það hefði málað yfir vanskil á einhverjum listum.

             Vitnið kvaðst ekki hafa verið spurt við lögreglurannsókn hvernig ákærði hefði hagað endurskoðunarvinnu sinni og vitnið hafi ekki verið beðið um að lýsa blekkingum og fölsunum sem það viðhafði gagnvart ákærða. Þá kvað vitnið að yfirlit hefðu aðeins verið send til þeirra sjóðfélaga sem voru virkir í sjóðnum og voru að borga sín iðgjöld. Vitnið kvaðst hafa séð um að velja til hverra yfirlit voru send.

             Vitnið, Róbert Bjarnason, rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóm. Vitnið kvaðst hafa stýrt rannsókn á meintum brotum ákærða. Vitnið kvaðst hvorki hafa menntun né sérþekkingu á reikningsskilum og endurskoðun, en leitað hefði verið til Árna Tómassonar, löggilts endurskoðanda, og Theódórs Sigurbergssonar, hjá Grant Thornton endurskoðun ehf. til þess að aðstoða við rannsóknina. Vitnið kvað sér ekki hafa verið kunnugt um að Grant Thornton endurskoðun ehf. hefði tekið að sér að vinna ársreikning ársins 2001 fyrir Tryggingasjóð lækna, er leitað var til þeirra um aðstoð við rannsóknina.

             Vitnið var spurt um það sem kemur fram í niðurstöðu bréfs vitnisins frá 16. október 2003, til formanns skilanefndar Tryggingasjóðs lækna, þar sem segir að ekki verði hjá því komist að láta reyna á ábyrgð endurskoðanda. Kvað þá vitnið að átt væri við að reyna yrði á ábyrgð endurskoðanda með frekari rannsókn og einnig gæti þetta merkt að þá hafi verið búið að taka ákvörðun um ákæru í málinu.

             Vitnið kvaðst ekki muna til að falsanir eða blekkingar Lárusar Halldórssonar gagnvart ákærða hafi verið rannsakaðar á þessu tímamarki og Lárus hafi ekki verið spurður um þær eða hvernig ákærði hefði hagað endurskoðunarvinnu sinni.

             Vitnið, Jón Þorbjörn Hilmarsson endurskoðandi, kvað kjarna máls þessa vera fölsun og það hafi verið eins og menn hafi lagt sig í líma við að sleppa að rannsaka þann þátt málsins. Vitnið kvaðst hafa séð það á vinnugögnum að ákærði hefði skoðað allar eignir öll árin og ekki hafi verið unnt að gera neitt meira.

             Vitnið kvað fyrstu blekkingu Lárusar hafa falist í því að Lárus hafi sett upp tvöfalt bókhald, sennilega afritað daglegt bókhald sjóðsins og búið til annað sett og notað það sem undirgagn fyrir ársreikninga til þess að blekkja ákærða. Það sjáist á gögnum málsins að ákærði hafi verið með yfirlit sem merkt sé TL ‘99 en rannsóknaraðilar með gögn sem merkt séu TL ‘93. Þetta sé merking sem ætti þá að vera fyrir Tryggingasjóð lækna ‘99 og Tryggingasjóð lækna ‘93, en í öllum yfirlitum sem merkt séu TL ‘99 komi fram dagsetningin 31.12.93. Augljóst sé því að sett hafi verið upp tvöfalt sett til þess að blekkja með og það sé mjög erfitt að sjá við slíku. Síðan hafi verið notað ljósrit af spariskírteinum og skuldabréfalistar falsaðar, þ.e. niðurstöðutala þeirra hafi ekki verið í samræmi við innihald listans. Fjárdráttur Lárusar hafi í raun verið falinn í eignaliðum með því að ofreikna skuldabréfaeignina og með því færa á önnur keypt verðbréf.

             Vitnið var spurt hvort Lárus hafi fært tvöfalt bókhald eitt stakt ár, eða hvort það hafi verið oftar. Vitnið kvaðst ekki geta svarað því vegna þess að rannsókn málsins hefði verið áfátt.

             Vitnið, Svanur Sveinsson, kom fyrir dóm. Vitnið kvaðst hafa verið meðstjórnandi í Tryggingasjóði lækna allan þann tíma sem sjóðurinn starfaði, í um 20 ár. Störfum stjórnarinnar hafi verið þannig háttað að haldnir hafi verið fundir mánaðarlega til að byrja með, en síðustu árin eftir þörfum. Fundirnir hafi allir verið haldnir hjá framkvæmdastjóranum á skrifstofu hans. Stjórnin hafi ekki hitt ákærða nema einu sinni, þegar ákærði hafði fært í tal við stjórnina áhyggjur sínar af því að Lárus væri orðinn alkóhólisti. Af því tilefni hafi ákærði beðið stjórnina um að koma gögnum til sín, sem stjórnarmenn og gerðu, en síðan hefði ákærði sagt að öll gögn hefðu verið í lagi.

             Vitnið kvaðst hafa ætlað að flytja sig yfir í Lífeyrissjóð lækna en uppgötvað um 2-3 árum eftir að hann hafi beðið Lárus um að sjá um það, að það hefði ekki verið gert. Einnig hefði læknir frá Akureyri talað við vitnið vegna þess að Lárus hefði ekki borgað út það sem beðið hafði verið um. Þetta hafi gerst um tveimur árum áður en upp komst um fjárdrátt Lárusar. Stjórn sjóðsins hefði ekki brugðist við þessu og tekið þær skýringar Lárusar trúanlegar að ekki væri unnt að borga mönnum út nema í áföngum.

             Vitnið kvað stjórnina hafa borið mikið traust bæði til endurskoðanda og framkvæmdastjóra. Þá kvað vitnið stjórnina hafa farið yfir ársreikninga með Lárusi og aldrei hefði nokkuð komið fram sem gefið gat til kynna að ekki væri allt með felldu í starfsemi sjóðsins.

             Vitnið, Matthías Kjeld, kvaðst hafa byrjað í stjórn Tryggingasjóðs lækna á árinu 1988. Stjórnin hafi komið saman þrisvar til fimm sinnum á ári og hafi formaður stjórnar eða framkvæmdastjóri boðað til funda. Hann kvað ákærða einu sinni hafa haft samband við stjórn sjóðsins og lýst áhyggjum sínum af því að Lárus væri orðinn drykkjusjúkur. Í kjölfar þess hafi Lárus farið í áfengismeðferð. Vitnið kvað fyllsta traust hafa verið borið til hans. Vitnið kvað stjórn hafa sinnt því hlutverki sínu sem skilgreint er í samþykktum frá nóvember 1991, á þann hátt að stjórn hafi komið saman og rætt málin. Til dæmis hafi verið rætt hvernig best væri að ávaxta féð sem var í sjóðnum, en stjórnin hefði fyllilega treyst framkvæmdastjóra og ekki haft ástæðu til að gruna neitt misjafnt. Vitnið kvað stjórn hafa farið yfir ársreikninga hvers árs með Lárusi. Vitnið kvaðst hafa talið að það drægi úr skyldum sínum sem stjórnarmanns að sjóðurinn hefði ytri endurskoðanda og kvaðst hafa haldið að endurskoðandinn myndi endurskoða reikninga framkvæmdastjórans, þannig að stjórn þyrfti ekki að fara yfir alla reikninga.

             Vitnið, Þorsteinn Gíslason, kvaðst hafa orðið formaður stjórnar Tryggingasjóðs lækna í nóvember 1997. Vitnið kvað störfum stjórnar hafa verið þannig háttað að fundað hafi verið tvisvar á ári að frumkvæði framkvæmdastjórans, Lárusar. Vitnið kvað fullt traust hafa verið borið til framkvæmdastjórans og ákærða í störfum sínum. Að mati vitnisins hafi allt verið í föstum skorðum. Vitnið kvaðst aldrei hafa hitt ákærða, en borið til hans fyllsta traust. Vitnið kvað að farið hefði verið yfir ársreikninga sjóðsins á hverju ári með framkvæmdastjóra, þannig að hann hefði flett í gegnum þá. Vitnið kvað að á þessum árum hefði sjóðurinn verið að minnka og hefði verið farið yfir það hvers vegna hann væri að minnka. Skýringar á því hefðu verið þær að verið var að greiða úr honum og ekkert komið inn í hann. Vitnið kvað stjórnina aldrei hafa gert athugasemdir við framsetningu ársreiknings eða færslu bókhalds og ekkert hafi komið fram sem gefið gat til kynna að ekki væri allt með felldu í starfsemi sjóðsins. 

             Vitnið kvaðst hafa orðið sjóðfélagi í Tryggingasjóði lækna upp úr 1980 og kvaðst hafa fengið yfirlit um inneign sína hjá sjóðnum árlega. Þar hafi komið fram hvað vitnið ætti inni í sjóðnum ásamt hreyfingalista.

             Vitninu var kynnt að 8. desember 2000 hafi verið fengið leyfi samkvæmt 53. gr. laga nr. 129/1997 til þess að starfrækja lífeyrissjóð fyrir Tryggingasjóð lækna og spurt að því hver aðkoma stjórnar hefði verið að því máli. Vitnið kvaðst þá hafa farið ásamt framkvæmdastjóranum á fund Fjármálaeftirlitsins, vegna breytinga á lögum um lífeyrissjóði og hafi þeir einnig farið í fjármálaráðuneytið vegna þessa. Leyfi til að starfrækja sjóðinn áfram hafi svo fengist. Markmið stjórnar með því hafi verið að geta haldið áfram að láta sjóðinn fjara út. Vitnið kvað stjórnina hafa sinnt skyldum sínum sem stjórnarmenn með fundum þeim sem haldnir voru.

             Vitnið, Guðrún Jónsdóttir, kvaðst hafa starfað hjá Lárusi Halldórssyni frá hausti 1994 til miðs árs 1999. Vitnið kvaðst hafa starfað við bókhald í mörg ár og einnig hafi hún farið í bókhaldsnám í Öldungadeild Verslunarskólans og í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Hún hafi verið búin að ljúka bókhaldsnámi í Verslunarskólanum er hún hóf störf hjá Lárusi. Hún kvaðst hafa fært daglegt bókhald, þ.e. afborganir af þeim veðskuldabréfum er sjóðurinn átti og einnig hafi hún bókað inngreidd iðgjöld og stemmt af bankareikning, sem þessar færslur fóru inn á. Vitnið kvað iðgjöldin hafa verið færð inn á séreignareikning hvers sjóðfélaga. Vitnið kvað að Lárus hafi sjálfur prentað út yfirlit fyrir aðalfund og hafi vitnið sett þau í umslög.

             Vitnið kvaðst hafa útbúið skuldabréf vegna útlána til sjóðfélaga og farið með þau í þinglýsingu, en bréfin hafi verið geymd á skrifstofu Lárusar og verið innheimt þaðan. Þá kvað vitnið Lárus hafa séð um lokafærslur og upphafsfærslur hvers ár. Vitnið kvaðst aldrei hafa haft grun um það, meðan hún starfaði fyrir Lárus, að ekki væri allt með felldu í reikningsskilum sjóðsins og hafi það komið henni algerlega í opna skjöldu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð um afstemmingu á viðskiptamannabókhaldi við fjárhagsbókhald og kvaðst ekki hafa haft ástæðu til að kanna frekar þær lokafærslur sem gerðar hafi verið.

                         

Niðurstaða.

             Verknaðarlýsing í ákæru er ekki svo nákvæm og glögg sem æskilegt væri, en samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærður maður ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir.

             Nákvæm verknaðarlýsing er sérstaklega mikilvæg í málum sem þessum, þar sem hugtakið ,,góð endurskoðunarvenja” er háð breytingum meðal annars vegna framþróunar á sviði endurskoðunar og breytinga á viðskiptaháttum og öðrum aðstæðum. Góð endurskoðunarvenja felur í sér þær viðurkenndu aðferðir sem hæfir og samviskusamir endurskoðendur nota. Við athugun á því hvað telst góð endurskoðunarvenja á hverjum tíma verður að líta til ákvæða í lögum og stjórnvaldsreglum, að svo miklu leyti sem þar er að finna ákvæði um það hvernig endurskoðendur skuli haga störfum sínum, og til leiðbeinandi reglna Félags löggiltra endurskoðenda. Á þeim tíma sem ákæran nær til voru í gildi leiðbeinandi reglur Félags löggiltra endurskoðenda nr. 1 um grundvallaratriði endurskoðunar á ársreikningum hlutafélaga (mars, 1979), leiðbeinandi reglur um vinnupappíra löggiltra endurskoðenda (nóvember, 1987) og leiðbeinandi reglur um skipulagningu endurskoðunar (nóvember 1994). Á þessu tímabili voru einnig í gildi reglur Bankaeftirlits Seðlabanka Íslands um framkvæmd endurskoðunar hjá lífeyrissjóðum (30. desember 1991) og reglur Bankaeftirlits Seðlabanka Íslands nr. 541/1998 en 6., 7. og 8. grein þeirra reglna eru í fullu samræmi við kafla 3 og 5 í leiðbeinandi reglum Félags löggiltra endurskoðenda um grundvallaratriði endurskoðunar ársreikninga hlutafélaga.

             Ætluð háttsemi ákærða er talin felast í því að ákærði hafi ekki hagað endurskoðunarvinnu sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju með því að hafa ,,ekki kannað á fullnægjandi hátt”, ,,ekki aflað gagna” og ,,ekki aflað nægilegra gagna”.  Þetta orðalag í ákæruliðum er ekki skýrt nánar, en þegar ákæra í málum sem þessum byggist á mati á sérfræðistörfum verður að gera þá kröfu til ákæranda að gerð sé eins nákvæm grein fyrir því og unnt er hvaða gögn skortir nákvæmlega og hvað teljist ófullnægjandi könnun gagna í skilningi ,,góðrar endurskoðunarvenju.”

             Við verknaðarlýsingu í ákæru verður og að gera þá kröfu að ákæruvaldið taki mið af því viðskiptasambandi sem er milli endurskoðanda og umbjóðanda hans. Viðfangsefni endurskoðanda er að endurskoða ársreikning sem lagður er fram af stjórn. Stjórn setur fram ársreikning lífeyrissjóðs eins og fram kemur í 40. gr. laga nr. 23/1997, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1991 og endurskoðandi setur fram faglegt álit í samræmi við 65. gr. laga nr. 144/1994, sbr. 3. gr. laga nr. 27/1991. Verkefni endurskoðanda lýkur því með áritun hans á ársreikning hvers ár og það er ákvörðun umbjóðanda hans hvort viðskiptasambandi er fram haldið með formlegum eða óformlegum hætti.

             Samkvæmt framangreindu er það ágalli á verknaðarlýsingu ákæru að ekki er ákært vegna áritunar ársreiknings hvers árs fyrir sig.

             Þrátt fyrir þessa annmarka á ákæru eru að mati dómsins ekki nægileg efni til að vísa ákæru frá dómi á grundvelli þeirra.

             Í gögnum málsins svo og í framburði Lárusar Halldórssonar fyrir dómi, kemur skýrlega fram að Lárus upplýsti lögreglu um það á frumstigum málsins að hann hefði viðhaft blekkingar við ákærða og stjórn Tryggingasjóðs lækna. Þrátt fyrir það verður ekki séð af gögnum málsins að rannsókn hafi nokkuð beinst að þeim þætti máls Lárusar, enda kom fram í vætti Róberts Bjarnasonar lögreglumanns að falsanir og blekkingar Lárusar hafi ekki verið rannsakaðar og Lárus hafi ekki verið spurður um það hvernig ákærði hafi hagað endurskoðunarvinnu sinni. Verður að telja að rannsókn málsins sé að þessu leyti áfátt, en samkvæmt 31. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ber ákæruvaldi að leitast við að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sakar. Verulegu máli getur skipt um sök ákærða hversu umfangsmiklar blekkingar og falsanir Lárus viðhafði gagnvart ákærða. Hafa þessir annmarkar á rannsókn málsins áhrif á sönnunarmatið í málinu.

             Þá er fram komið í málinu með bréfi stjórnar Tryggingasjóðs lækna frá 13. nóvember 2003 að rannsókn Grant Thornton endurskoðunar ehf., á bókhaldsgögnum Tryggingasjóðs lækna fyrir árin 1988 til 2002, hafi verið unnin að þeirra beiðni í samráði við Ríkislögreglustjóra og Fjármálaeftirlitið. Kvað vitnið, Theódór Sigurbergsson endurskoðandi, fyrir dómi það ,,geta staðist” að stjórn sjóðsins hafi falið endurskoðunarskrifstofunni að annast rannsóknina. Þá staðfesti vitnið að það hefði fengið þær upplýsingar hjá Ragnari Hafliðasyni hjá Fjármálaeftirlitinu að senda ætti reikning vegna vinnu Grant Thornton endurskoðunar ehf. við rannsóknina til stjórnar sjóðsins.

             Rannsóknarniðurstöður leiddu til þess að gefin var út ákæra á hendur Lárusi Halldórssyni og ákærða í máli þessu. Með framangreindri gagnaöflun neytti lögregla heimildar í 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 til að leita til kunnáttumanna um sérfræðilega rannsókn. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar nr. 325/2003 frá 19. maí 2004, geta niðurstöður rannsókna sem leitað er á þessum grundvelli ekki leitt til þess að þær verði sjálfkrafa taldar viðhlítandi sönnun fyrir dómi í opinberu máli. Þegar litið er til þeirra hagsmuna sem í húfi eru fyrir skilanefnd Tryggingasjóðs lækna, sem hefur gert bótakröfu í málinu, og aðkomu stjórnar Tryggingasjóðs lækna að rannsókn málsins, sbr. bréf skilanefndar sjóðsins frá 13. nóvember 2003 verður að fallast á með ákærða að sérfræðileg álitsgerð, sem aflað er með þessum hætti, þar sem vafi getur vaknað um óhlutdrægni eða óhæði álitsgjafa, getur ekki talist tæk fyrir dómi til sönnunar um atriði sem varða sök ákærða. Verður því við sönnunarmat litið framhjá niðurstöðum rannsókna sem unnar voru af Grant Thornton endurskoðun ehf.

             Við sönnunarmat verður því að líta til annarra gagna málsins og framburðar ákærða og vitna fyrir dómi. Ekki er til að dreifa annarri rannsókn á meintum brotum ákærða en fyrrgreindri rannsókn Grant Thornton endurskoðunar ehf.

             Fyrir dómi neitaði ákærði sök. Hann leitaðist við að skýra hvernig vinnugögn hans gæfu til kynna skipulagningu og framkvæmd endurskoðunarinnar með því að rekja gögn úr vinnuskjölum vegna áranna 1992 og 1996, sem hann sagði lýsandi fyrir það sem hann hefði gert öll árin. Í leiðbeinandi reglum um vinnupappíra endurskoðenda segir að endurskoðandi skuli gera vinnuskjöl þannig úr garði að þau beri með sér umfang og niðurstöður endurskoðunar. Einnig segir að tilgangur vinnupappíra sé að geta síðar dregið fram hvað endurskoðandi hefur gert, aðferðir hans, röksemdafærslur og niðurstöður. Gerð og varsla vinnugagna endurskoðanda til rökstuðnings áliti á endurskoðuð reikningsskil er hluti góðrar endurskoðunarvenju sem endurskoðanda ber að taka tillit til.

             Ákærði sýndi ekki fram á með tilvísun í vinnuskjöl þeirra ára sem ákæran nær til að sömu aðferðum hafi verið beitt öll árin. Þá sér þess ekki stað í vinnuskjölum ákærða að hann hafi að öllu leyti viðhaft þau vinnubrögð við endurskoðun ársreikninga sem hann bar fyrir dómi að hann hefði viðhaft.

             Vitnið, Árni Tómasson, sem aðstoðaði Ríkislögreglustjóra vegna fyrirhugaðrar yfirheyrslu yfir ákærða, kvaðst hafa látið í ljós það álit sitt að ef frávik frá heildareignum færu yfir 5% væri unnt að tala um að skekkja væri veruleg. Áður en Árni komst að niðurstöðu þeirri er fram kemur í minnisblaði frá 26. september 2003, kvaðst hann hafa lesið yfirheyrslur yfir aðilum og skoðað ársreikninga, en aldrei hafa farið yfir vinnugögn ákærða. Hann kvaðst einnig hafa tekið eftir því við yfirferð sína að í lista yfir samtölu verðbréfa hafi samlagningartala verið rangfærð. Þá kvað vitnið að fjölskyldutengsl væru milli sín og Ástráðs Hreiðarssonar, sem teldi sig eiga kröfu á Tryggingasjóð lækna. Hefðu þessi fjölskyldutengsl verið til komin áður en vitnið tók að sér framangreinda vinnu fyrir Tryggingasjóð lækna. Það er mat dómsins að það dragi úr sönnunargildi framburðar vitnisins fyrir dómi, en jafnframt verður haft í huga við sönnunarmat að vitnið fór ekki yfir vinnugögn ákærða áður en vitnið lagði fram til lögreglu minnisblað sitt frá 26. september 2003.

             Sönnunargildi framburðar vitnanna Magnúsar og Theódórs endurskoðenda hjá Grant Thornton endurskoðun ehf., fyrir dómi, verður að virða í sama ljósi og rannsókn þeirra.

             Það er og mat dómsins að framburður annarra vitna fyrir dómi lúti ekki að atvikum sem máli geta skipt varðandi háttsemi þá sem ákærða er gefin að sök og hafi ekki þýðingu.

             Þótt dómurinn telji að vinnugögn ákærða styðji ekki að fullu framburð hans fyrir dómi um þau vinnubrögð sem hann kvaðst hafa viðhaft við endurskoðunarvinnu sína, er það mat dómsins að eins og ákæra er úr garði gerð og rannsókn og sönnunarfærslu er háttað í málinu, hafi ákæruvaldi ekki tekist að færa sönnur á sök ákærða. Samkvæmt framangreindu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

             Þá er bótakröfu Skilanefndar Tryggingasjóðs lækna vísað frá dómi með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.

             Með vísan til 1. mgr. 165. gr laga nr. 19/1991 greiðist allur sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns og Jóns Steinars Gunnlaugssonar fyrrum hæstaréttarlögmanns. Kristinn Bjarnason hæstaréttarlögmaður var skipaður verjandi ákærða 4. október 2004. Með hliðsjón af framlagðri tímaskýrslu verjenda þykja málsvarnarlaun hans hæfilega ákveðin 850.000 krónur, en málsvarnarlaun Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrum hæstaréttarlögmanns, sem var skipaður verjandi ákærða fyrir þann tíma, eru hæfilega ákveðin 250.000 krónur. 

             Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Björn Þorvaldsson, fulltrúi Ríkislögreglustjóra.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn, ásamt meðdómendunum Margreti Flóvenz og Ólafi Kristinssyni, löggiltum endurskoðendum.

D ó m s o r ð:

             Ákærði, X er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

             Bótakröfu Skilanefndar Tryggingasjóðs lækna er vísað frá dómi.

             Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða, þeirra Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 850.000 krónur og Jóns Steinars Gunnlaugssonar fyrrum hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.