Hæstiréttur íslands

Mál nr. 470/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Víxill
  • Vitni


Þriðjudaginn 22

 

Þriðjudaginn 22. október 2002.

Nr. 470/2002.

Búnaðarbanki Íslands hf.

(Brynjólfur Kjartansson hrl.)

gegn

Eignarhaldsfélaginu Jöfri hf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Víxilmál. Vitni.

E hf. var heimilt að leiða fyrir dóm sex nafngreinda menn til að bera vitni í tengslum við víxilmál, sem hann rak fyrir Hæstarétti á hendur B hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að leiða fyrir dóm sex nafngreinda menn til að bera vitni í tengslum við mál, sem hann rekur nú fyrir Hæstarétti á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um þessar vitnaleiðslur.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2002.

Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 25. september sl. og tekið til úrskurðar sama dag að loknum munnlegum málflutningi.

Með beiðni dags. 29. ágúst sl. fór Eignarhaldsfélagið Jöfur hf. fram á að fram færu skýrslutökur fyrir dómi vegna áfrýjunar máls til Hæstaréttar.  Tilefnið sé frekari gagnaöflun vegna áfrýjunar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-2991/2002 til Hæstaréttar með útgáfu áfrýjunarstefnu þann 6. ágúst sl.  Ætlunin sé að afla ítarlegri upplýsinga og gagna varðandi málið.

Þess var óskað að eftirtalin vitni komi fyrir dóminn:

Einar S. Valdimarsson, kt. 241160-4089, Rofabæ 23, Reykjavík,

Guðmundur Kjartansson, kt. 251255-4159, Fiskakvísl 32, Reykjavík,

Guðmundur Hilmarsson, kt. 051052-7819, Fagrahjalla 56, Kópavogi,

Jón Adolf Guðjónsson, kt. 170339-3399, Ægissíðu 100, Reykjavík,

Jón Ármann Guðjónsson, kt 060468-3039, Maríubaugi 75, Reykjavík, og

Úlfar Þ. Indriðason, kt. 040959-4249, Fagrahjalla 13, Kópavogi.

Af hálfu varnaraðila var framangreindri beiðni um skýrslutöku fyrir dómi andmælt. Þess var krafist að þeirri beiðni yrði hafnað í samræmi við 3. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í bókun varnaraðila er byggt á því að málið hafi verið höfðað samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991, nánar tiltekið samkvæmt 117. gr. a-lið, en samkvæmt 118. gr. geti varnaraðili beitt mjög takmörkuðum vörnum. Stefndi í Hæstarétti samþykki ekki að aðrar varnir komist að en greindar séu í 118. gr. laganna.  Áfrýjandi hafi ekki gert neina grein fyrir því um hvað hann ætli að spyrja viðkomandi vitni og hvaða þýðingu framburður þeirra kunni að hafa með vísan til 118. gr.

Samkvæmt 76. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að afla gagna í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti.  Skal þá ákvæðum 75. gr. laganna beitt við gagnaöflun fyrir héraðsdómi.  Í 1. mgr. 75. gr. segir að þegar gagnaöflun eftir fyrirmælum XI. kafla fer fram fyrir dómi hér á landi skuli farið eftir ákvæðum II. og VII.-X. kafla eftir því sem átt getur við.  Umbeðnar vitnaleiðslur eru ætlaðar sem sönnunargögn í víxilmáli við rekstur þess fyrir Hæstarétti.  Málið fullnægir skilyrðum til að vera rekið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991. Í 118. gr. laganna eru taldar upp þær varnir sem verða hafðar uppi um efni máls. Svo sem fram kemur í forsendum héraðsdómsins reisir sóknaraðili varnir sínar á aðildar- og umboðsskorti.  Sóknaraðili hefur í málflutningi vísað til niðurstöðu héraðsdóms um að  upplýsingar skorti varðandi þessi atriði og til 10. gr. víxillaga.  Hann hyggist skýra þessi atriði nánar með vitnaleiðslum.  Samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991 eru þessar varnir meðal þeirra sem verða hafðar uppi í víxilmáli.  Ber því að heimila að umbeðnar vitnaskýrslur fari fram.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Heimilt er að umbeðnar vitnaskýrslur fari fram.