Hæstiréttur íslands

Mál nr. 556/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögreglurannsókn
  • Gagnaöflun


Miðvikudaginn 28. ágúst 2013.

Nr. 556/2013.

Sérstakur saksóknari

(Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)

gegn

X og

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Reiknistofu bankanna hf.

(enginn)

Kærumál. Lögreglurannsókn. Gagnaöflun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa S um að R hf. yrði gert að láta S í té upplýsingar og gögn og númer tiltekinna bankareikninga X og eiginkonu hans, sem og upplýsingar um það í hvaða banka áðurgreindir bankareikningar hefðu verið hýstir á nánar tilgreindu tímabili. Talið var að þar sem fyrir lægi að X hefði játað þá háttsemi sem til rannsóknar væri af hálfu S yrði ekki séð hvaða þýðingu það kynni að hafa fyrir framhald rannsóknar málsins að S yrðu látnar í té upplýsingar og gögn um bankareikninga X og eiginkonu hans á tilgreindu tímabili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. ágúst 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. ágúst 2013, þar sem tekin var til greina krafa sóknaraðila um að varnaraðilanum Reiknistofu bankanna hf. yrði gert að láta sóknaraðila í té upplýsingar og gögn um númer bankareikninga varnaraðilans X og nafngreindrar eiginkonu hans, þar með talið númer þeirra reikninga sem lokað hafi verið, sem og upplýsingar um það í hvaða banka áðurgreindir bankareikningar væru hýstir á nánar tilgreindu tímabili. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilinn X krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá héraðsdómi en til vara að henni verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðilinn Reiknistofa bankanna hf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Við fyrirtöku málsins í héraði var bókað að sóknaraðila hefði verið falið að koma tilkynningu um þinghaldið á framfæri við varnaraðila með vísan til lokamálsliðar 2. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 og var þing sótt af hálfu beggja varnaraðila. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að slíkri tilkynningu hafi verið komið á framfæri við eiginkonu varnaraðilans X þótt krafa sóknaraðila beinist jafnframt að henni.

Samkvæmt gögnum málsins hefur sóknaraðili til rannsóknar ætlað brot varnaraðilans X á ákvæðum XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um auðgunarbrot, einkum ákvæði 250. gr. laganna, með því að hann hafi skotið undan og afsalað til eiginkonu sinnar bifhjóli og fasteign án þess að séð verði að endurgjald hafi komið fyrir. Með þessum ráðstöfunum kunni hann að hafa skert rétt lánardrottna til að öðlast fullnægu af eignum hans.

Í málinu er komið fram að varnaraðilinn X hafi játað í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa afsalað umræddri fasteign og bifhjóli endurgjaldslaust til eiginkonu sinnar.

Að þessu gættu hefur sóknaraðili ekki fært viðhlítandi rök fyrir því hvaða sönnunargildi þau gögn hafa sem hann fer fram á að aflað verði. Verður kröfu sóknaraðila því hafnað og hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. ágúst 2013.

Embætti sérstaks saksóknara gerir kröfu um að Reiknistofu bankanna, kt. 470111-0540, Katrínartúni 2, Reykjavík, verði með úrskurði gert skylt að láta embætti sérstaks saksóknara í té upplýsingar og gögn um númer bankareikninga X, kt. [...], og Y, kt. [...], þar með talið númer þeirra reikninga sem lokað hefur verið, sem og upplýsingar um það í hvaða banka umræddir bankareikningar eru hýstir, á tímabilinu 01.09.2012 til 01.03.2013.

Í greinargerð sérstaks saksóknara kemur fram að með bréfi dags. 18. mars 2013 hafi sú krafa verið gerð fyrir hönd A hf. að X, kt. [...], sætti rannsókn af hálfu lögreglu og opinberri ákæru vegna skilasvika, sbr. 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                A hf. hafi kært X til embættis sérstaks saksóknara fyrir skilasvik, sbr. 4. tl. 1. mgr. 250. gr. hgl., með því að hafa 5. nóvember 2012 skotið undan og afsalað til eiginkonu sinnar, Y, Harley Davidsson bifhjóli, og 7. nóvember 2012 skotið undan og afsalað til eiginkonu sinnar, fasteigninni [...],[...], í báðum tilvikum án þess að séð væri að endurgjald hafi komið fyrir. Með þessum athöfnum, hafi það verið mat A hf., að X hafi skert rétt A hf. sem lánadrottins, til þess að öðlast fullnægju af eignum hans.

                Málsatvik séu með þeim hætti að B ehf., félag í eigu X, hafði í árslok 2011 og fyrri hluta árs 2012 fengið lánafyrirgreiðslu frá A hf. í formi yfirdráttarláns (fylgiskjal 3), sem tryggt hafi verið fyrir allt að 14 milljónum króna með sjálfskuldaábyrgð útgefinni af X, dags. 14. desember 2011 (fylgiskjal 11).

                Kyrrsetningarbeiðni hafi verið lögð fram hjá Sýslumanninum í Keflavík, dags. 29. október 2012, til tryggingar fullnustu kröfu A hf. á hendur C ehf. Að beiðni Sýslumannsins í Keflavík hafi árangurslaust fjárnám verið gert hjá C ehf. 7 nóvember 2012 vegna vangreiddra opinberra gjalda. Í kjölfarið hafi A hf. fallið frá kyrrsetningarbeiðni sinni og sett fram gjaldþrotaskiptabeiðni dags. 22. nóvember 2012 á hendur félaginu á grundvelli hins árangurslausa fjárnáms. Áður en til úrskurðar um gjaldþrotaskipti hafi komið í febrúar 2013 hafi A hf. selt kröfuréttindi bankans á hendur C ehf. fyrir 4 milljónir króna eða tæp 20% af andvirði kröfunnar samkvæmt samningi þar um, dags. 13. febrúar 2013 og í kjölfarið hafi krafa A hf. um gjaldþrotaskipti félagsins verið afturkölluð (fylgiskjal 16). Samningur aðila hafi ekki náð til kröfu A hf. á hendur X á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar, dags. 14. desember 2011.

                Í kæru og fylgigögnum sé tilgreint afsal að fasteign að [...], [...]. Samkvæmt afsalinu (fylgiskjal 20), dags. 7. nóvember 2012, afsali X fasteign að [...] til eiginkonu sinnar, Y. Þá séu í fylgigögnum tilgreind eigendaskipti, dags. 5. nóvember 2012, að Harley Davidsson bifhjóli en fram komi í kæru til lögreglu að X hafi afsalað til eiginkonu sinnar umræddu bifhjóli.

                Stefna á hendur X á grundvelli sjálfskuldarábyrgðarinnar hafi verið útgefin 4. desember 2012 og áritað um aðfararhæfi hennar 19. desember 2012. Sýslumanni í Keflavík hafi verið send aðfararbeiðni, dags. 9. janúar 2013, þar sem krafist hafi verið fjárnáms hjá X á grundvelli hinnar árituðu stefnu. X hafi sætt árangurslausu fjárnámi 12. mars 2013 á grundvelli beiðnarinnar.

                Embætti sérstaks saksóknara hafi, á grundvelli ofangreindrar kæru, til rannsóknar ætlað brot X á ákvæðum auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum ætluð skilasvik.

                Ætlað brot sé talið varða við XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um auðgunarbrot, einkum ákvæði 250. gr. laganna.

                Við yfirheyrslur í þágu rannsóknar málsins hafi komið fram hjá X, er njóti réttarstöðu sakbornings við rannsókn lögreglu, að ekki hafi komið endurgjald fyrir greinda fasteign og bifhjól. Þá hafi þess ennfremur verið óskað að X veiti heimild til að afla gagna er varði bankareikninga hans sem og eiginkonu hans, Y, er njóti réttarstöðu vitnis við rannsókn málsins. Því hafi verið neitað.

                Miklu skipti fyrir framhald rannsóknar málsins að umbeðin rannsóknaraðgerð verði heimiluð. Því verði að telja að hagsmunir í þágu rannsóknarinnar séu mun ríkari en þeir hagsmunir að þagnarskylda skv. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki haldist.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 69. gr., sbr. 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 6. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara ásamt síðari breytingum, sé þess farið á leit að framangreint rannsóknarúrræði verði heimilað eins og krafist sé.

Niðurstaða:

Með vísan til rökstuðnings embættis sérstaks saksóknara og fyrirliggjandi rannsóknargagna málsins verður talið að skilyrði 2. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 6. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara nr. 135/2008 séu uppfyllt. Verður krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Reiknistofu bankanna, kt. 470111-0540, Katrínartúni 2, Reykjavík, er skylt að láta embætti sérstaks saksóknara í té upplýsingar og gögn um númer bankareikninga X, kt. [...], og Y, kt. [...], þar með talið númer þeirra reikninga sem lokað hefur verið, sem og upplýsingar um það í hvaða banka umræddir bankareikningar eru hýstir, á tímabilinu 01.09.2012 til 01.03.2013.