Hæstiréttur íslands

Mál nr. 649/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Fimmtudaginn 18. október 2012.

Nr. 649/2012.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 13. nóvember 2012 klukkan 15. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að beitt verði vægari úrræðum samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Að því frágengnu verði gæsluvarðhaldi markaður skemmri tími. Að auki krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2012.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-441/2012 frá 18. september sl. hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 16. október á grundvelli síbrota, sbr. c.- lið 1. mgr. 95. gr. sakamálalalaga. Ákærði sé nú undir sterkum grun um fjölda auðgunarbrota, þjófnað, hylmingu, rán, húsbrot, eignaspjöll, nytjastuld og fíkniefnalagabrot. Um sé að ræða innbrot, meðal annars stórfelldan þjófnað í Jarðböðunum í Mývatnssveit 6. ágúst sl., húsbrot og rán í Hamraborg 5. júlí sl., og stórfelld eignaspjöll, er hann lagði eld að bifreið 6. september sl. við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði.

Ríkissaksóknari hafi nú gefið út ákæru dagsetta í dag vegna máls  lögreglu nr. 007-2012-38347. Um sé að ræða rán og húsbrot hinn 5. júlí sl. og verði ákæra send dómnum á næstu dögum, þar sem ákærði ásamt fleiri aðilum, hafi rænt mann og neytt hann með ofbeldi og hótunum til taka peninga úr banka. Í kjölfarið hafi ákærði ásamt meðákærðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 5- til 10. júlí sl. Ákærði hafi játað því að hafa verið á vettvangi en neiti að öðru leyti.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu er nú að ljúka við útgáfu ákæru vegna eftirtalinna mála á kærða ásamt fleiri aðilum, en um er að ræða m.a. eftirtalin auðgunarbrot

Mál lögreglu nr. 007-2012-[...]. Hinn 17. september sl. hafi lögreglan fengið ábendingar um að verið væri  að selja á netinu þýfi og í kjölfarið hafi verið gerð húsleit að [...], þar sem ákærði hafi lögheimili og dvalarstað ásamt öðrum aðilum. Í húsleitinni hafi meðal annars fundist þýfi úr innbrotum sem séu óupplýst og sé ákærði undir rökstuddum grun um þjófnaði og hylmingu sem hér greinir:

Mál lögreglu nr. 033-2012-[...], innbrot og þjófnaður í félagi við aðra, í Bjarnarbúð, N1 í Reykholti hinn 2. ágúst þar sem m.a. inneignarkortum síma og happaþrennum hafi verið stolið, en við húsleit hafi lögregla talið sig hafa fundið hluta af þeim.  

Mál lögreglu nr. 033-2012-[...], innbrot og þjófnaður úr bifreið á Lyngdalsheiði 1. ágúst, en við leit lögreglu 17. sept. sl., hafi fundist Garmin GPS tæki og farsími á dvalarstað kærða. Kærði sé undir rökstuddum grun um þjófnaðarbrot og eða hylmingarbrot, en meðkærði hafi borið að kærði hafi brotist inn í bifreiðina. Þaðan hafi verið stolið 3 myndavélum, 2 farsímum og peningum að fjárhæð kr. 400.000,- þúsund og 3000 evrum. 

Mál lögreglu nr. 007-2012-4[...], þjófnaður en til vara tilraun til þjófnaðar. Í máli þessu sé kærði grunaður um að hafa einn og í félagi við aðra í nokkur skipti á tímabilinu frá 9. til 15. ágúst, stolið og reynt að stela bensíni úr bensíntanki við golfskálann við Korpu, Korpúlfsstöðum, með því dæla heimildarlaust eldsneyti að óþekktu verðmæti á bifreiðina UY-920. Kærði hafi játað brotin.

Auk ofangreindra brota sé kærði undir sterkum grun um eftirgreind brot:

Mál lögreglu nr. 007-2012-[...], stórfelld eignaspjöll á bifreiðinni [...]  að [...]  5. september sl., en eldur var lagður að bifreiðinni og rúða brotin í henni. Kærði hefur játað aðild sína að brotinu en neitað að hafa lagt eld að bifreiðinni.

Mál lögreglu nr. 025-2012-[...], innbrot og stórfelldur þjófnaður að Jarðböðunum Mývatni hinn 6. ágúst sl., þar sem kærði hafi brotist inn ásamt fleiri aðilum, með því að spenna upp hurð og stolið þaðan 3.000.000 króna úr sjóðsvél og peningaskáp. Kærði hafi játað aðild að innbrotinu.

                    Mál lögreglu nr. 007-2012-[...]. ætlað fíkniefnabrot 7. september sl., þar sem kærði hafi verið tekinn með 1,14 g af  kannabis í vörslum sínum ásamt öðrum aðilum í bifreið í Breiðholti í Reykjavík. Hann hafi játað að eiga efnin, en einnig hafi fundist 86, 47 g í farþegarými, sem hann hafi neitað að væri í sínum vörslum

Auk ofangreinds eigi kærði eldri ólokin mál þar sem hann sé undir rökstuddum grun um eftirfarandi auðgunarbrot:

Mál lögreglu nr. 007-2012- [...], þjófnaður, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 29. maí í félagi við óþekktan aðila brotist inn í verslunina Grillnesti, Háholti 24 í Mosfellsbæ og stolið þaðan um 50 sígarettupökkum og símkortum.

Mál lögreglu nr. 007-2012- [...], þjófnaður, með því að hafa sunnudaginn 1. júlí í félagi við annan brotist inn í bifreiðina [...] við [...] og stolið þaðan sjónvarpstæki af gerðinni United og GPS leiðsögutæki, samtals að verðmæti kr. 90.000,-.

Mál lögreglu nr. 007-2012- [...], þjófnaður og til vara hylming, með því að hafa sunnudaginn 1. júlí í félagi við annan brotist inn í bifreiðina PR-244 við Árholt 6 í Mosfellsbæ og stolið þaðan dælulyklum frá Atlantsolíu og Orkunni. 

Mál lögreglu nr. 007-2012-[...], brot gegn lögreglulögum og til vara brot á reglugerð um lögreglusamþykkt, með því að hafa sunnudaginn 27. maí 2012 fyrir utan [...] í Mosfellsbæ, tálmað lögreglu í störfum sínum og neitað að segja til nafns síns.

Mál lögreglu nr. 007-2012-38471 og 38448, hylming og nytjastuldur hinn 5. júlí sl., með því að hafa ásamt meðkærðu komið þýfi úr bifreiðinni [...] sem hafi verið stolið frá [...]. júlí., [...] 9, á dvalarstað meðkærðu A, en miklu magni af mótorhjólafatnaði hafði verið stolið frá [...]  hinn 30. júní.

Kærði hafi hinn 10. júlí sl. hlotið 3 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm við Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir þjófnað, gripdeild og nytjastuld ásamt fleiri aðilum. Kærði sé nú undir sterkum grun um fjölmörg auðgunarbrot m.a. þjófnaði, rán, húsbrot, hylmingu, sem og stórfelld eignaspjöll og brot á fíkniefnalögum. Brot þau sem kærði sé grunaður um varði við 252. gr., 231., 244., 254. gr. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, fíkniefnalög og lögreglulög. Brotaferill kærða hafi verið samfelldur frá maílokum og fram  til 17. september sl., er kærði hafi verið handtekinn. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði sagst vera án atvinnu og virtist því framfleyta sér með afbrotum.

Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Brýnt sé að  kærði sæti gæsluvarðhaldi uns málum hans sé lokið hjá lögreglu og eftir atvikum með dómi. Það sé mat lögreglu að sakborningur muni ekki hljóta skilorðsbundinn dóm, vegna fjölda málanna og alvarleika brotanna. Lögregla og ákæruvald muni nú hraða málum kærða eins og kostur sé og hafi Ríkisaksóknari gefið út ákæru dagsetta í dag á hendur kærða og fleiri aðilum. Rannsókn flestra málanna sé nú lokið og verði ákæra lögreglustjóra væntanlega gefin út á næstu dögum.  

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88, 2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Eins og rannsóknargögn lögreglu bera með sér hafa komið upp allmörg mál á síðustu mánuðum þar sem rökstuddur grunur er um að kærði hafi gerst sekur um hegningarlagabrot, brot gegn lögreglulögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Samkvæmt sakavottorði kærði hefur hann frá því í desember 2011 tvisvar sinnum hlotið dóm þar sem ákvörðun refsingar hefur verið frestað skilorðsbundið, m.a. vegna hegningarlagabrota. Hinn 10. júlí sl. var kærði dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og benda framlögð gögn til þess að hann hafi rofið það skilorð og verið í samfelldri brotastarfsemi síðan. Ákæra Ríkissaksóknara  hefur nú verið gefin út á hendur honum og tveimur öðrum fyrir rán og húsbrot 5. júlí sl. Þegar litið er til sakarferils samkvæmt sakavottorði kærða og þeirra brota sem hann er nú grunaður um þykir nægilega í ljós leitt að skilyrði c-liðar 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, um að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðað getur fangelsisrefsingu, að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum, fari hann frjáls ferða sinna, auk þess sem rökstuddur grunur er um að hann hafi rofið skilorð dómsins frá 10. júlí sl. Því er fallist á kröfu sóknaraðila eins og í úrskurðarorði greinir, en ekki þykja skilyrði til þess að fallast á kröfu kærða um beitingu farbanns í stað gæsluvarðhalds. Þá þykja ekki heldur skilyrði til þess að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en krafist er.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 13. nóvember 2012, kl. 15.00.