Hæstiréttur íslands

Mál nr. 461/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsvist


Mánudaginn 22

 

Mánudaginn 22. nóvember 2004.

Nr. 461/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsvist.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að tilhögun á gæslu X sætti takmörkunum samkvæmt b., c. og d. liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2004, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um nánar tiltekin atriði varðandi tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að vistin í gæsluvarðhaldinu verði án þeirra takmarkana sem greinir í b., c. og d. liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2004.

Ár 2004, miðvikudaginn 17. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Skúla Magnússyni héraðsdómara, uppkveðinn úrskurður þessi.

X hefur krafist þess að gæsluvarðhald er hann sætir samkvæmt dómi Hæstaréttar 15. nóvember 2004 verði án takmarkana. 

Af hálfu rannsóknara er kröfu kærða mótmælt.

Við fyrirtöku málsins upplýsti rannsóknari að um fyrirkomulag gæsluvarðhalds kærða færi skv. b, c og d lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Jafnframt kom fram að rannsóknari myndi taka afstöðu til einstakra beiðna um heimsóknir, svo sem heimsókna foreldra, eftir því sem þær kæmu fram, en um slíkt hefði enn ekki verið að ræða. 

Í máli þessu liggur fyrir að kærði sætir gæsluvarðhaldi á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er þeim rannsóknarhagsmunum sem hér er um að ræða nánar lýst í úrskurði héraðsdóms 11. nóvember sl. sem staðfestur var með framangreindum dómi Hæstaréttar. Að virtum þessum hagsmunum og atvikum málsins eins og þau liggja fyrir dómara telur dómari að skilyrðum sé, að svo stöddu, fullnægt til að kærði sæti takmörkunum skv. b, c og d liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Er þá ekki tekin afstaða til heimsókna einstakra aðila, en kærði hefur látið í ljósi áhuga á að hitta foreldra sína. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kærða, X, um breytt fyrirkomulag gæsluvarðhalds er hafnað.