Hæstiréttur íslands
Mál nr. 702/2010
Lykilorð
- Börn
- Umgengni
- Kærumál
- Bráðabirgðaforsjá
- Meðlag
|
|
Mánudaginn 17. janúar 2011. |
|
Nr. 702/2010. |
K (Erlendur Þór Gunnarsson
hrl.) gegn M (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Kærumál. Börn.
Bráðabirgðaforsjá. Umgengnisréttur. Meðlag.
Kærður var úrskurður héraðsdóms
þar sem skorið var úr ágreiningi aðila um forsjá dóttur þeirra til bráðabirgða,
umgengni við hana og greiðslu meðlags meðan forsjármál aðila væri til meðferðar
fyrir dómstólum. Í héraði var M úrskurðuð forsjá til bráðabirgða og K gert að
greiða M meðlag auk þess sem kveðið var á um umgengnisrétt K. Hæstiréttur taldi
að það væri stúlkunni fyrir bestu að búa í því umhverfi og við þær aðstæður sem
hún hefði þekkt fram að þessu hvað varðar skóla, vini og nánasta umhverfi.
Þegar á allt væri litið taldi dómurinn að stúlkunni væri fyrir bestu að K færi
með bráðabirgðaforsjá stúlkunnar á meðan mál aðila um forsjá væri til meðferðar
fyrir dómstólum. Þá var kveðið á um umgengni og M gert að greiða meðlag með
stúlkunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og
Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2010, sem
barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms
Reykjavíkur 3. desember 2010, þar sem skorið var úr ágreiningi aðila um forsjá
dóttur þeirra til bráðabirgða, umgengni við hana og greiðslu meðlags.
Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess
aðallega að hún fái til bráðabirgða forsjá yfir dóttur aðila fæddri 18. maí
2002 þar til dómur gengur í forsjármáli aðila. Til vara krefst hún þess að
kröfu varnaraðila um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár verði hafnað og
aðilar fari áfram með sameiginlega forsjá dóttur þeirra og að lögheimili hennar
verði hjá sóknaraðila þar til dómur í fyrrgreindu máli gengur. Í báðum tilvikum
krefst hún þess að varnaraðila verði gert að greiða einfalt meðlag með barninu
frá uppsögu dóms Hæstaréttar. Þá krefst hún þess að ákvarðað verði inntak
umgengni þess foreldris sem ekki er dæmd forsjá til bráðabirgða eða lögheimili
barnsins verður ekki hjá. Að þessu frágengnu krefst hún þess að úrskurður
héraðsdóms verði staðfestur með þeim breytingum að umgengni í sumarleyfi úr
skóla 2011 skiptist að jöfnu þannig að stúlkan dvelji fyrri hluta leyfis hjá
sóknaraðila og að reglulegir símatímar sóknaraðila og stúlkunnar verði milli
kl. 20.00 og 21.00 þá laugardaga og sunnudaga þegar ekki er helgarumgengni hjá
sóknaraðila auk allra þriðjudaga og fimmtudaga. Í öllum tilvikum krefst hún
málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega
staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að lögheimili dóttur aðila verði
hjá sér þar til endanlegur dómur gengur í máli aðila. Þá krefst hann þess að
þeim lið þrautarvarakröfu sóknaraðila er lýtur að því að úrskurðað verði um
reglulega símatíma sóknaraðila og dóttur þeirra verði vísað frá dómi. Loks
krefst hann kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum
málsins hófu aðilarnir sambúð á árinu 2000 og eiga þau eina dóttur fædda árið
2002. Varnaraðili sleit sambúðinni 15. október 2010 og fór með dótturina af
heimilinu til [...] án vitundar sóknaraðila. Dvelst stúlkan þar með
varnaraðila á heimili systur hans. Stúlkan var þar skráð í skóla 22. nóvember
2010, en svo virðist sem hún hafi ekki sótt skóla fram að þeim degi allt frá
því varnaraðili fór með hana af heimilinu. Ágreiningur aðila um forsjá barns
þeirra er til úrlausnar fyrir dómstólum en í máli þessu var fyrir héraðsdómi
skorið úr um forsjá barnsins til bráðabirgða, umgengnisrétt og greiðslu
meðlags. Var varnaraðila úrskurðuð forsjá til bráðabirgða og sóknaraðila gert
að greiða varnaraðila meðlag auk þess sem kveðið var á um umgengnisrétt
sóknaraðila. Við
úrlausn á ágreiningi aðila ber fyrst og fremst að líta til þess sem telst vera
barninu fyrir bestu meðan framangreint dómsmál er rekið. Ber þá að leita
þeirrar lausnar sem miðað við þau gögn sem nú liggja fyrir telst raska minnst
högum barnsins meðan á þessu stendur.
Dóttir aðila hefur búið á heimili foreldra sinna í Reykjavík, haft þar
lögheimili og gengið í skóla nærri heimili sínu þar sem hún á sína skólafélaga
og vini. Í gögnum málsins kemur fram að hún hafi verið greind með [...] og virðist
glíma við tiltekin [...]vandamál af þeim sökum.
Gera verður ráð fyrir að miklu skipti að högum stúlkunnar sé ekki raskað að
óþörfu og að henni sé gert kleift að búa við eins mikla reglu og festu í sínu
nánasta umhverfi og unnt er. Ekki liggja fyrir ítarleg gögn í málinu sem varpað
geta ljósi á hæfni aðila sem uppalenda. Af þeim má þó ráða að foreldrarnir
beita ólíkum uppeldisaðferðum og virðist svo sem móðirin reyni að setja stúlkunni
skýrari reglur en faðirinn sé undanlátssamari. Báðir aðilar efast hinsvegar um hæfni hins og
telja sjálft sig hafa komið meira að uppeldi og umsjá stúlkunnar. Þá liggja
ekki heldur fyrir nægilega ítarleg gögn í málinu sem byggt verður á við mat á
tengslum og samskiptum stúlkunnar við foreldra sína.
Meðal gagna málsins er skýrsla
sálfræðings á vegum Fjölskylduþjónustu [...], sem rætt hefur þrisvar sinnum við
stúlkuna á meðan á dvöl hennar fyrir [...] hefur staðið. Kemur þar fram að
stúlkan telji samskipti sín við föðurinn betri en við móðurina. Móðirin skammi
hana mikið og því vilji hún heldur vera hjá föðurnum og hún kveðst „ekki
tilbúin“ til að hitta móður sína án þess að hún gæti útskýrt nánar hvað hún
eigi við með því. Telja verður varhugavert að draga af þessu víðtækar ályktanir
um raunverulegan vilja stúlkunnar sem nú glímir við nýjar aðstæður. Ekki verður
ráðið af gögnum málsins að aðstæður stúlkunnar hafi verið slæmar eða óviðunandi
í Reykjavík þótt erfið samskipti foreldra hennar hafi án efa valdið henni
vanlíðan. Þá er ekki dregið í efa að aðstæður hennar á [...] séu viðunandi.
Hins vegar verður að telja að stúlkunni sé betra að búa í því umhverfi og við
þær aðstæður sem hún hefur þekkt fram að þessu hvað varðar skóla, vini og
nánasta umhverfi. Í því ljósi verður að líta svo á að sú einhliða ráðstöfun varnaraðila
að taka stúlkuna af heimilinu og flytja [...] í nýtt umhverfi og nýjar aðstæður
hafi ekki verið gerð með hagsmuni hennar að leiðarljósi.
Þegar á allt er litið telur dómurinn að stúlkunni sé fyrir bestu að
sóknaraðili fari með forsjá hennar til bráðabirgða meðan mál aðila er til
meðferðar fyrir dómstólum. Þá verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila
einfalt meðlag með stúlkunni frá uppsögu dóms þessa.
Umgengni varnaraðila við barnið skal hagað þannig, þar til endanlegur
dómur gengur, að regluleg umgengni verði aðra hvora helgi frá föstudegi til
sunnudagskvölds, fyrst dagana 28. til 30. janúar 2011. Varnaraðili sæki barnið
klukkan 16 á föstudögum en skili því á heimili sóknaraðila klukkan 20 á
sunnudögum. Barnið dvelji hjá varnaraðila í páskaleyfi og síðari helming
sumarleyfis úr skóla.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Sóknaraðili, K, skal til bráðabirgða fara með
forsjá barnsins, A, þar til leyst hefur verið úr forsjárdeilu aðila með dómi.
Varnaraðili, M, skal greiða einfalt meðlag með
dóttur aðila frá uppsögu dóms þessa.
Þar til leyst hefur verið fyrir dómi úr um forsjá
stúlkunnar til frambúðar skal hún njóta reglulegrar umgengni við varnaraðila
aðra hverja helgi, frá föstudegi til sunnudagskvölds, fyrst dagana 28. til 30.
janúar 2011. Varnaraðili sæki barnið klukkan 16 á föstudögum en skili því á
heimili sóknaraðila klukkan 20 á sunnudögum. Barnið dvelji hjá varnaraðila í
páskaleyfi og síðari hluta sumarleyfis úr skóla.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera
óraskað.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3.
desember 2010.
Sóknaraðili, M, kt. [...],
höfðaði mál með stefnu birtri 9. nóvember 2010 á hendur K, kt. [...], [...], Reykjavík, þar
sem hann krefst þess að sér verði falin forsjá dóttur aðila, A, kt. [...]. Með bréfi er barst dóminum
9. nóvember krafðist hann þess að sér yrði til
bráðabirgða falin forsjá stúlkunnar, þar til endanlegur dómur gengur. Einnig krefst hann þess að barnið skuli eiga
lögheimili hjá honum og að varnaraðila verði gert að
greiða einfalt meðlag með stúlkunni frá uppkvaðningu úrskurðar. Ennfremur krefst sóknaraðili þess að ákveðin
verði umgengni stúlkunnar við þann aðila sem ekki mun
fara með forsjána. Þá
krefst hann þess að ákvörðun um málskostnað bíði dóms í forsjármálinu.
Varnaraðili krefst þess að
öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Hún krefst þess að sér
verði falin forsjá stúlkunnar þar til dómur gengur, til vara krefst hún þess að
stúlkan skuli eiga lögheimili hjá sér uns dómur gengur. Í báðum tilvikum krefst hún
þess að sóknaraðila verði gert að greiða einfalt meðlag með stúlkunni frá uppkvaðningu
úrskurðar þar til dómur gengur.
Ennfremur krefst varnaraðili þess að ákveðin verði umgengni stúlkunnar
við þann aðila sem ekki mun fara með forsjána. Þá krefst varnaraðili
málskostnaðar.
Málsaðilar eiga saman dótturina A
sem fæddist í [...] [...]. Frá þeim tíma hafa þau verið í sambúð. Sóknaraðili sleit
sambúðinni 15. október sl., án þess að greina
varnaraðila frá því fyrr en daginn eftir.
Sótti hann A í skólann og fór með hana norður á
B, þar sem þau hafa dvalið síðan.
Sóknaraðili gaf skýrslu við
aðalmeðferð málsins.
Hann sagði að það hefði verið stöðugur ágreiningur
milli aðila. Þau
hefðu deilt um flest allt. Ástandið hefði verið orðið óbærilegt. Sérstaklega hefði þetta
versnað síðustu þrjú árin.
Hann sagði að þau hefðu bæði
unnið úti, en annast barnið í sameiningu. Hann kvaðst hafa reynt
eftir bestu getu að hjálpa stúlkunni við heimanám.
Sóknaraðili kvaðst hafa
unnið í [...] frá árinu 2001. Hann kvaðst vera í
veikindaleyfi. Fyrst og
fremst vegna vanlíðunar, en einnig hafi hann verið með vöðvabólgu. Hann kvaðst vera að
leita að vinnu á B. Hann
stefni nú að því að setjast þar að.
Hann kvaðst búa á heimili
systur sinnar.
Hann kvaðst ætla að útvega sér húsnæði fyrir sig og
stúlkuna.
Hann sagði að stúlkunni liði
vel. Hún hefði eignast vini fyrir norðan.
Hann sagði að stúlkan væri
byrjuð í skóla á B.
Henni gengi vel í skólanum. Hún fengi aðstoð inni í
bekk, en það hefði hún alltaf þurft.
Hann sagði aðstæður mjög hentugar. Sérkennsla væri mjög góð í
skólanum.
Sóknaraðili kvaðst vilja
stuðla að eðlilegri umgengni stúlkunnar við varnaraðila. Taldi hann hæfilegt að þær
hittust á hálfs mánaðar fresti í Reykjavík.
Varnaraðili kvaðst vinna við
heimaþjónustu.
Hún hefði flutt til Íslands 2002. Þá hefði hún byrjað að
vinna í fiskvinnslu, en málsaðilar hófu þá sambúð. Varnaraðili kvaðst hafa séð
að mestu um stúlkuna þar til hún fór til dagmömmu. Þá hefði hún sótt hana og
séð um allt fyrir hana heima við.
Varnaraðili sagði að samband
málsaðila hefði versnað þegar hún var barnshafandi. Þetta hefði komið niður á dóttur þeirra sem hefði spurt sig einu sinni hvort hún gæti ekki fundið
sér annan mann.
Stúlkan gekk ekki í skóla
frá 15. október sl. Með bréfi dags. 18. nóvember tilkynnti fræðslustjóri sveitarfélagsins [...] að
hún hefði verið skráð í [...]skóla á B frá og með 22. nóvember.
Gögn voru lögð fram um að Barnavernd Reykjavíkur hefði
borist tilkynning um mikil læti í íbúð málsaðila, þar sem
barn öskraði mikið og gréti. Var að lokinni könnun ekki talin ástæða til afskipta. Segir að fram komi hjá skóla að stúlkunni
virðist ekki líða nógu vel en að allur aðbúnaður og
umhirða sé góð.
Meðal gagna málsins eru bréf og
yfirlýsingar fólks sem kveðst þekkja til málsaðila og gefur þeim
umsagnir. Er ekki ástæða til að tíunda
þessar umsagnir hér, en vitni voru ekki leidd við aðalmeðferð málsins.
Að frumkvæði Barnaverndar
Reykjavíkur athugaði Fjölskylduþjónusta [...] aðbúnað A. Skýrsla um þessa athugun er
dagsett 22. nóvember sl. Þar segir m.a.:
Barnið A og
faðir hennar búa hjá C, ljósmóður á B, systur M, og manni hennar. Þau búa í rúmlega 250 m2
einbýlishúsi í efra hverfi B. Þar hefur telpunni verið útbúið herbergi með
rúmi og aðstöðu fyrir dótið sitt. Faðir hennar hefur svo
fengið úthlutað herbergi við hliðina.
Sem stendur er einnig vinnuaðstaða mágs M í sama
herbergi og A hefur, en hann vinnur hjá [...] en einstaka sinnum
heima. Til stendur að flytja það úr
herberginu og að A fái herbergið fyrir sig. A hefur aðgang að öllu húsinu og segir systir M að hún leggi sig fram um að þeim líði vel á
heimilinu.
A hefur eignast kettling þennan
tíma sem hún hefur dvalið hérna.
A segist vera
ánægð hjá C frænku sinni og hafi meira að segja eignast vinkonur sem búi í
næsta húsi.
Heimilið er allt
hið snyrtilegasta.
Faðir segist vera
í sjúkraleyfi frá vinnu sinni í [...].
Ekki verður annað merkt af viðtali við hann en
að andlegt ástand hans sé eðlilegt, að svo miklu leyti sem undirrituð getur
metið slíkt. En hann hefur vissulega
áhyggjur af stöðu mála.
Um er að ræða barn sem dvelst tímabundið með föður í skjóli systur hans og
mágs. Ágreiningur er milli foreldra um
þá ráðstöfun, og er málið rekið fyrir héraðsdómi í
Reykjavík. Ekkert
bendir til þess að aðstæður barnsins hér séu með þeim hætti að ástæða sé
aðstæðna vegna að grípa til neyðarráðstafana á grundvelli barnaverndarlaga.
D, sálfræðingur hjá
Fjölskylduþjónustu [...], ræddi við A 19. og 22. nóvember. Í bréfi hans til
félagsmálastjóra, dags. 22. nóvember, segir
m.a.:
A virðist gera
sér grein fyrir stöðunni í fjölskyldunni á sinn hátt og segir pabba og mömmu
vera búin að skilja, vegna þess að þau rifust svo mikið. Við teiknuðum upp fjölskyldu- og samskiptakort, þar sem fram kemur að hún telur samskipti
við pabba vera betri en við móður og fram kom einnig að hún var ekki mótfallin
því að búa á B og hjá föður. Hún segir
að mamma skammi hana mikið og því vilji hún heldur
vera hjá pabba. Ekkert kom hins vegar
fram í okkar samtali, sem mætti túlka sem svo að hún
hafi orðið fyrir líkamlegum hirtingum af neinu tagi. Hún hefur að eigin sögn ekki talað við móður
undanfarið; segist
ekki tilbúin til þess, en gat ekki gert frekari grein fyrir hvað hún ætti við
með því.
Loks var lögð fram frásögn Fjölskylduþjónustunnar af heimsókn varnaraðila til dóttur sinnar þann 24. nóvember. Hefur hún ekki sérstaka þýðingu fyrir þennan þátt málsins.
Niðurstaða
Nú er liðinn einn og hálfur
mánuður frá því að stúlkan, A, var flutt af heimili sínu og norður á B. Þar hefur hún dvalið með
föður sínum síðan, á heimili föðursystur sinnar. Hún hefur nú eftir langa
bið hafið skólagöngu þar í bæ.
Aðstæður fyrir hana á heimilinu verður eftir
framkomnum gögnum að meta vel viðunandi, þó svo
virðist sem A hafist við í herbergi þar sem er vinnuaðstaða eiginmanns
föðursystur hennar. Ekkert í málinu
rennir stoðum undir grunsemdir um að sóknaraðili sé óhæfur uppalandi, eða að
hann sé haldinn einhverjum sjúkdómum sem dragi úr
hæfni hans í því efni eða geri honum erfitt um vik að sinni stúlkunni.
Þá er ekkert sem vekur
grunsemdir um að varnaraðili sé óhæfur uppalandi. Gögn málsins eru ekki næg
til að dregnar verði ályktanir um samband stúlkunnar við foreldra sína. Þau eru sýnilega ólík og
eru ekki neinar forsendur til þess að bera saman kosti þeirra á þessu
stigi.
Það sem blasir við er að
stúlkan var tekin úr sínu umhverfi og flutt í annan landshluta. Hún virðist hafa aðlagast
hinum breyttu aðstæðum að einhverju leyti, þó að gögn málsins séu hvorki nákvæm
né ítarleg. Verður að telja
varhugavert að grípa nú til þess öðru sinni að rífa barnið upp og flytja aftur í skólann í Reykjavík, en ætla verður að
aðstæður séu nokkuð breyttar eftir að foreldrar hennar hafa slitið sambúð. Er rétt að svo stöddu að sóknaraðili fari með
forsjá stúlkunnar til bráðabirgða svo að ljúka megi skólaárinu í sæmilegum
friði, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 76/2003.
Í þessari niðurstöðu felst að lögheimili A skal skráð þar sem faðir hennar hefur dvöl. Ber varnaraðila að greiða einfalt meðlag frá og með dagsetningu úrskurðar þessa.
Er mál þetta var endurupptekið fyrr í dag komu fram
kröfur beggja aðila um umgengni A við þann aðila sem
ekki mun fara með forsjána.
Tillögur aðila eru því sem
næst samhljóða um þá meginreglu að umgengni sé aðra hvora helgi frá
föstudagssíðdegi til sunnudagskvölds. Í
öllum tilvikum verður það lagt á sóknaraðila að skila stúlkunni á heimili
varnaraðila í Reykjavík og sækja hana þangað á
ný. Sóknaraðili skili
stúlkunni eigi síðar en kl. 20.00 á föstudögum, en
sæki hana kl. 16.00 á sunnudögum. Þessi reglulega umgengni
verður fyrst dagana 10. til 12. desember, en síðan á ný 14. til 16.
janúar, vegna sérstakrar tilhögunar sem ákveðin verður
hér um jól og áramót.
Um jólin 2010 er rétt að
barnið komi til varnaraðila mánudaginn 27. desember kl. 16.00 og dvelji hjá
henni fram til þriðjudags 4. janúar kl. 16.00. Stúlkan komi síðan
á ný til reglulegrar umgengni föstudaginn 14. janúar. Í samræmi við tillögu
sóknaraðila verður stúlkan hjá varnaraðila í páskaleyfinu 2011. Auk þessa skal hún dvelja
hjá varnaraðila í vetrarleyfi frá skóla.
Sumarleyfi skiptist að jöfnu þannig að stúlkan dvelji
síðari hluta leyfis hjá varnaraðila.
Ákvörðun í þessum úrskurði
gildir þar til dómur gengur í máli aðila, eða því verður lokið á annan hátt. Verði málinu ekki lokið er
nálgast jól 2011 mun þurfa að taka nýja ákvörðun um umgengni.
Rétt er að málskostnaður í
þessum þætti falli niður.
Jón Finnbjörnsson
héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r
ð a r o r ð
Sóknaraðili, A, skal til bráðabirgða fara með forsjá A,
kt. [...].
Varnaraðili, K, greiði einfalt meðlag frá 3. desember 2010.
Umgengni stúlkunnar við varnaraðila skal hagað
svo:
Regluleg umgengni verður
aðra hverja helgi.
Sóknaraðili skili stúlkunni eigi síðar en kl. 20.00 á föstudögum, en sæki hana kl. 16.00
á sunnudögum. Þessi
reglulega umgengni verður fyrst dagana 10. til
12. desember nk., en síðan á ný 14. til
16. janúar 2011.
Stúlkan komi til varnaraðila mánudaginn 27. desember 2010 kl. 16.00 og dvelji
hjá henni fram til þriðjudags 4. janúar 2011 kl. 16.00. Hún komi síðan á ný
til reglulegrar umgengni föstudaginn 14. janúar
2011. Hún skal dvelja hjá varnaraðila í
páskaleyfinu 2011 og í vetrarleyfi frá skóla. Sumarleyfi úr skóla 2011
skiptist að jöfnu þannig að stúlkan dvelji síðari hluta leyfis hjá varnaraðila.
Málskostnaður fellur niður.